12.8.2015 | 09:52
Molar um málfar og miðla 1770
FLUTNINGSFÓTUR?
Glöggur Molalesandi spyr (10.08.2015): ,, Kannast lesendur við orðið FLUTNINGSFÓTUR?
,,Eírikur og fjölskylda hans er á flutningsfæti heim til Íslands og þurfa því á ýmislegu að halda í versluninni.
www.mbl.is/frettir/.../verslunin_er_handan_vid_horni...
- Hann lýsir Erikslund sem verslunarhverfi á borð við Skeifuna. ... Eírikur og fjölskylda hans er á flutningsfæti heim til Íslands og þurfa því á ...
Þetta var reyndar lagfært síðar. Ekki alls varnað.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/08/10/verslunin_er_handan_vid_hornid/
EIN UM HVAÐ?
Svona spyr KÞ (09.08.2015) vegna fréttar á pressan.is.
"Margir vilja ekki að Hillary sé ein um hitunina."
Ein um hitunina! Ja, hérna.
Molaskrifari þakkar KÞ ábendinguna.
SÍMTAL Á
Molalesandi skrifaði (08.08.2015): Fimmtudagur 30. júlí, Fréttablaðið:
Vitnað í grein um Rachel McAdams:
,,Hér má sjá nokkur klæðileg dress sem leikkonan hefur skartað."
Dress?
Heiðar Austmann á K-100 sagði: ,,Ég ætla fljótlega að taka símtal á hann Georg."
Oft heyri ég fólk tala um að ,,taka" allt milli himins og jarðar auk þess sem að þetta blessaða ,,á" er orðið viðurkennt í töluðu sem og rituðu máli.
Það að senda tölvupóst ,,á einhvern getur varla talist rétt. Við sendum t.d. einhverjum bréf í pósti - eða að senda bréf til einhvers. Þurfum við að eyðileggja tungumálið okkar þó að tölvur og netsamskipti hafi komið til skjalanna?
Ég mun allavega ekki taka símtal á neinn í nánustu framtíð. Ég vil heldur hringja í viðkomandi.
Takk fyrir afar þörf og skemmtileg skrif, Eiður. Molaskrifari þakkar bréfið og hólið.
SUBBUSKAPUR
Í Fréttatímanum (06.-08.08.2015) er á bls. 42 með óvenjulega áberandi hætti blandað saman texta og auglýsingum um einhverskonar kína-lífselexír sem innheldur ,,öfluga blöndu vinveittra gerla,sem styrkja þarmaflóruna, eins og sagt. Vinveittir gerlar! Greinin, sem næstum umlykur auglýsingar um þetta töfralyf, er sögð unnin í samstarfi við Icecare. Lesendur eiga kröfu á því að skýrt sé greint milli auglýsinga og annars efnis. Það er ekki gert þarna. Molaskrifara þykja þetta heldur ófagleg og raunar ómerkileg vinnubrögð. Á næstu síðu í blaðinu er umfjöllun um ,,Glæsileg gúmmístígvél. Það er hrein auglýsing en ekki er skýrt að svo sé. Það sérkennilega við þá grein er, að í sumum tilvikum er verð tilgreint bæði í íslenskum krónum og sterlingspundum!
UM SJÁLFSMÖRK
Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps sl. laugardagskvöld (08.08.2015) var mikið um sjálfsmörk. Fyrst var talað um óheppilegt sjálfsmark svo rétt á eftir um afskaplega óheppilegt sjálfsmark. Þetta var í leikjum erlendis. Svo var gert sjálfsmark í leik á Íslandi. Það var bara sjálfsmark! Eru ekki öll sjálfsmörk heldur óheppileg? Hefði haldið það. Báðum sjónvarpsstöðvum hefur tekist að velja nýliða til starfa til að segja fólki íþróttafréttir, nýliða sem hafa slæmar ljósvakaraddir. Raddir ,sem ekki láta vel í eyrum.
LEIÐRÉTTING
Molaskrifari hefur gagnrýnt, að Ríkissjónvarpið tilkynni ekki alltaf í dagskrárkynningum þegar verið er að endursýna efni. Sú gagnrýni stendur. Hún átti til dæmis við í gærkvöldi (11.08.2015) þegar verið var að kynna sakamálamyndaflokkinn Allir litir hafsins eru kaldir, sem er á dagskrá í kvöld. Þessi myndaflokkur var sýndur í sjónvarpinu árið 2006. Gagnrýni Molaskrifara á hinsvegar ekki við um Íslendingaþættina frábæru, sem stundum hafa verið sýndir á sunnudagskvöldum, síðast listavel gerður þáttur Andrésar Indriðasonar um jasspíanistann Guðmund Ingólfsson, en þátturinn var sýndur sl. sunnudagskvöld. Það sem villti um fyrir Molaskrifara og fleirum var ártalið 2013, sem birtist í lok þáttarins. Það ár var sem sé lokið við gerð þáttarins. En hversvegna í ósköppunum var hann ekki sýndur það ár? Hvaða rök lágu til þess? Þetta leiðréttist sem sé hér með. Þáttinn um Guðmund var verið að frumsýna á sunnudagskvöldið. Hann verður örugglega sýndur aftur síðar. Þetta er úrvalsefni eins og aðrir þættir af þessu tagi sem Andrés Indriðason hefur haft umsjón með.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)