Molar um málfar og miðla 1762

AUSTUR AF SVÍÞJÓÐ

Glöggur Molalesandi sendi eftirfarandi (28.07.2015): ,,Ég var mikið nær um kafbátafundinn eftir að ég las þetta á vísi:

Kafarar fundu bátinn um þremur kílómetrum austur af Svíþjóð eftir að upplýsingar bárust um hnit frá íslensku fyrirtæki.

http://www.visir.is/kafbaturinn-sokk-liklegast-arid-1916/article/2015150729167

Molaskrifari þakkar ábendinguna. Í fréttinni er líka talað um hvíldarstað bátsins. Báturinn mun hafa sokkið árið 1916 eða fyrir tæpri öld. Fésbókarvinur sagði frá því, að í útvarpsfréttum sama dag hefði verið sagt, að báturinn hefði verið vel með farinn! Vel varðveittur, var sennilega það sem átt var við.

 

ÓLAVSVAKA

Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með útsendingum færeyska sjónvarpsins frá Ólavsvöku, þjóðhátíð Færeyinga.Þakkir til Sjónvarps Símans fyrir að gera mögulegt að horfa á færeyska sjónvarpið.

Lögmaðurinn í Færeyjum, Kaj Leo Johannesen hefur boðað til kosninga í Færeyjum þriðjudaginn 1. September. Í fréttum hér hefur ýmist verið sagt að hann hefði tilkynnt þetta í hátíðaræðu eða Ólavsvökuræðu. Hann tilkynnti þetta í yfirlits- og stefnuræðu,eiginlega þingsetningarræðu, - Lögþingið er jafnan sett þennan dag, 29. júlí,  á Ólavsvöku. Ræðuna kalla Færeyingar Lögmannsræðuna.

 

REKA - REKJA

T.H. benti á þessa frétt á mbl.is (27.07.2015) http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/26/cecil_fannst_afhofdadur_og_fleginn/

Hann segir: ,,Hér er ruglað saman sögnunum "að reka" og "að rekja" og útkoman ekki góð”.

Í umræddri frétt segir: ,, Veiðimenn­irn­ir ráku síðan slóð ljóns­ins í 40 klukku­stund­ir áður en þeir drápu það með riffli.”. Það er rétt. Útkoman er ekki góð. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

KLÚÐUR

Ríkissjónvarpið notast við niðursoðnar dagskrárkynningar, sem eru teknar upp löngu fyrir fram. Þess vegna er ekki hægt að bregðast við neinu óvæntu, sem upp kann að koma í útsendingu og það skapar líka möguleika á klúðri eins og í gærkvöldi (29.07.2015). Að loknum tíu fréttum var kynnt dagskrá kvöldsins  eins og kvölddagsráin væri að hefjast! Engin leiðrétting. Engin afsökun. Ekki frekar en venjulega.

 

FYRIR AFTAN DYR

T.H. sendi einnig (27.07.2015) þessa ábendingu vegna fréttar á visir.is. Sjá: http://www.visir.is/thaer-tvaer-viltu-ekki-bara-flytja-inn-i-mylluna-/article/2015150729336

Hann segir: "Það er ekki alltaf fallegt að sjá eintalið sem fer fram fyrir aftan luktar dyr baðherbergisins Venjan er að sagt sé: ... bak við luktar dyr. Að eitthvað sé fyrir aftan dyrnar felur í sér nokkuð aðra staðsetningu, eftir minni málvenju.” Rétt er það. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Bloggfærslur 30. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband