Molar um málfar og miðla 1761

ÍSLENDINGAR

Íslendingaþættir Ríkissjónvarpsins eru gott efni. Gaman var að sjá þáttinn um Sigurð Sigurðsson (26.07.2015). Við unnum nánast hlið við á gömlu fréttastofunni á fyrstu árum sjónvarpsins. Skemmtileg myndin af Sigurði undir lok þáttarins, með sígarettuna við Smith Corona rafmagnsritvélina. Þær þóttu merkilegar á þeim tíma, - en voru gallagripir með alltof stórum valsi. Hentust til  á borðinu þegar skipt var um línu. Molaskrifari á reyndar eina slíka með minni valsi, handvirkum, hún reyndist vel. Er nú sjálfsagt forngripur. Vann í happdrætti og keypti mér ritvél. Þótti hálfgerður flottræfilsháttur hjá ungum blaðamanni að kaupa rafmagnsritvél. . Hafði aldrei átt ritvél áður. Fékk að bera heim Erika ferðavél af Alþýðublaðinu til að nota við heimaþýðingar. En mín Smith Corona reyndist mér vel.

Nákvæmlega svona man ég Sigga Sig. Orðinn svo gamall, að ég man vel eftir föður hans, Sigurði kaupmanni Sigurðssyni í Þorsteinsbúð á horni Flókagötu og Snorrabrautar, - áður Hringbrautar. Hann var alltaf vestisklæddur innan við búðarborðið, - ekki í slopp eins og flestir sem afgreiddu í nýlenduvöruverslunum í gamla daga.  Kona Sigurðar, Þórey Þorsteinsdóttir, rak verslunina ásamt börnum þeirra um árabil eftir lát Sigurðar.

Svo var þessi þáttur líka prýðileg heimild um gömlu sundlaugarnar í Laugardal.

 Þátturinn um Sigurð hefur verið sýndur áður. Hversvegna sýnir Ríkissjónvarpið okkur ekki þá sjálfsögðu kurteisi að segja frá því þegar verið er að endursýna efni og segja þá jafnfram hvenær það var fyrst sýnt?

 

 

AFAR SLASAÐUR

Undarlegt orðalag í frétt á mbl.is (27.07.2015): Þegar hann kom á staðinn var ann­ar þeirra enn á lífi en afar slasaður og lést hann stuttu síðar. Undarlegt orðalag. Varla hefur vanur maður verið þarna að verki. – Hér hefði fremur átt  að segja: Mikið slasaður eða alvarlega slasaður. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/27/stungu_ser_i_toma_laug/

 

ÓFYRIRLEITNI

Ófyrirleitni Ríkisútvarpsins, þegar kemur að því að auglýsa áfengi og brjóta þannig lög landsins virðast lítil takmörk sett. Þess vegna færir sig stofnunin sig stöðugt upp á skaftið í trausti þess að ráðamenn geri ekki neitt. Þeir gera ekki neitt og hafa því reynst traustsins verðir.

Það er næstum dapurlega skondið að í einni af bjórauglýsingum Ríkissjónvarpsins, sem dunið hafa á okkur að undanförnu þar sem sjónvarpið þykist vera að auglýsa óáfengan bjór (undir 2,25% að styrkleika) skuli vera sagt við okkur í skjátexta: Njótið af ábyrgð. Þurfa þeir sem drekka óáfengan drykk að sýna einhverja sérstaka ábyrgð við neysluna?  Þessi orð Njótið af ábyrgð eru auðvitað staðfesting þess að Ríkissjónvarpið er að auglýsa áfengi. Það þarf ekki að hvetja fólk til ábyrgðar við neyslu venjulegs svaladrykks, eða hvað ?

Ætla ráðamenn ekkert að gera?

Sú var tíðin, að í auglýsingareglum Ríkisútvarpsins var ákvæði um að auglýsingar skyldu vera á lýtalausri íslensku. Mér tekst ekki að finna þetta ákvæði í reglum á heimasíðu Ríkisútvarpsins. Kannski hafa ráðamenn stofnunarinnar, sem á standa sérstakan vörð um tunguna, fellt það niður. Kannski.

Kannski er það í skjóli þess að á okkur dynur bjórauglýsing sem er að hálfu á ensku í dýrustu (væntanlega) auglýsingatímunum rétt fyrir fréttir. Til dæmis rétt fyrir kl 1800 á mánudag (27.07.2015) Þar er verið er að auglýsa bjór Á ensku í íslensku Ríkisútvarpi.

Og enn er spurt: Ætla ráðamenn ekki að gera neitt.

Er menntamálaráðherra bara alveg sama?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Bloggfærslur 29. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband