21.7.2015 | 07:57
Molar um málfar og miðla 1755
STAÐSETNINGARÁRÁTTAN
Margir fréttaskrifarar hafa ofurást á orðinu staðsettur. Af mbl.is á laugardag (18.07.2015): ,,Annar kraninn verður staðsettur í Mjóeyrarhöfn en hinn á Grundartanga og mun sá síðarnefndi meðal annars verða nýttur til að þjónusta álver Norðuráls. Kraninn verður við eða í Mjóeyrarhöfn. Hinn kraninn verður meðal annars notaður í þágu Norðuráls. Orðinu staðsettur er næstum alltaf ofaukið. Því má sleppa. Ekki hefði sakað geta þess, að geta þess að ,,Mjóeyrarhöfn er við norðanverðan Reyðarfjörð, miðja vegur á milli þéttbýlisins í Reyðarfirði og Eskifirði og heyrir dagleg umsjón hafnarinnar undir Reyðarfjarðarhöfn. Mjóeyrarhöfn er með stærri vöruflutningahöfnum landsins. Hún er staðsett skammt frá álveri Alcoa Fjarðaáls og þjónar fyrirtækinu varðandi aðdrætti og útflutning á álafurðum. Af heimasíðu Fjarðabyggðar. Höfnin er sem sé staðsett!
VETTVANGURINN
Úr frétt á mbl.is (18.07.2015): ,,Slökkvistarf tók um einn og hálfan tíma að sögn Gunnars, en lögregla tók svo við vettvangi og er að rannsaka hann. Það var og. Lögregla tók við vettvangi! Þarna hefði til dæmis mátt segja: Lögreglan rannsakar málið. Viðvaningur á vakt og enginn til lesa yfir eða leiðbeina. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/07/18/sprengingin_ut_fra_eldunartaekjum/
KOSNING - ATKVÆÐASGREIÐSLA
Í tíufréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (18.07.2015) var talað um ( Grikkland) að kjósa gegna skilyrðum. Betra hefði verið að segja að greiða atkvæði gegn...
Í að minnsta kosti fjórum, ef ekki fimm, fréttatímum síðdegis þennan dag var fyrsta frétt löng og ítarleg frásögn um hækkun á mjólk og mjólkurafurðum. Vissulega talsverð frétt, en dálítið undarlegt verklag, samt. Að hafa þetta á oddinum allan daginn. Hversvegna eru nýliðar, sumarfólk, svona oft látið eitt um fréttirnar um helgar? Slæleg verkstjórn.
PERLA
Þátturinn Söngvar af sviði, sem var á dagskrá Rásar eitt á laugardagsmorgni (18.07.2015) var sannkölluð Útvarpsperla.
Sögumaður og umsjónarmaður var Viðar Eggertsson, en þátturinn var um söngleik þeirra bræðra Jónasar og Jóns Múla Árnasona, - Deleríum Búbónis. Tónlistin stórkostlega , enda löngu orðin sígild. Takk. Oft virðist skrifara sem besta efnið á Rás eitt , - sé endurtekið efni úr fjársjóðakistu Ríkisútvarpsins. Kannski eru það ellimörk!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)