Molar um málfar og miðla 1728

Molalesandi skrifaði (01.06.2015):,, Á vef Kennarasambandsins er spurt: Eru danskir skólar að bregðast börnum innflytjenda? Væri ekki réttara að segja "Bregðast danskir skólar börnum innflytjenda?" Hvað ætli kennarar í íslensku segi?” Molaskrifari þakkar ábendinguna. Auðvitað er - er að - rit-tískan óþörf þarna. Já, hvað segja kennarar?

 

Draumur Íslendinga um Íslendingaslag ( í einhverri handboltakeppni í útlöndum) rættist ekki, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (31.05.2015). Var Molaskrifari eini Íslendingurinn sem hafði engar draumfarir, dreymdi ekkert um þetta efni ? Draumur Íslendinga! Stundum er eins og íþrótta- og fréttadeild Ríkisútvarpsins telji þjóðina ekki hugsa um neitt annað en boltaleiki. Þar á bæ ættu menn að reyna að hugsa aðeins út fyrir íþróttapakkann sem talað erum á hverjum einasta degi, -  eða því sem næst.

 

,,...áhafnarmeðlimir þurfi að hvílast...”, var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (01.06.2015). Skipverjar þurfa að hvílast. Áhafnarmeðlimir er orðskrípi. Áhafnarmeðlimir komu einnig við sögu í fréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (02.06.2015) . Sum orð,sem helst ætti að forðast, eru ótrúlega lífseig í hugum fjölmiðlamanna.

 

Málfar í fréttum Bylgjunnar er ekki alltaf til fyrirmyndar, ekki frekar en annarsstaðar. Í hádegisfréttum á sunnudag (31.05.2015) var oftar en einu sinni talað um að láta framkvæma undirskriftasöfnun og halda undirskriftasöfnun .Einnig var talað um að halda bindandi kosningu. Enginn með máltilfinningu á vaktinni ? Efna til undirskriftasöfnunar. Boða til kosninga, efna til kosninga.

 

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (01.06.2015) var rætt við Ólaf Örn Haraldsson þjóðgarðsvörð á Þingvöllum. Meðal annars um aukið fé sem nú fæst til lagfæringa í þjóðgarðinum, hátt í 160 milljónir. Fram kom að miklum fjármunum þurfi að verja til lagfæringa við Silfru vegna landskemmda. Fyrirtæki gera út á köfun í silfurtært vatnið í gjánni. Einnig kom fram að tekið er þúsund krónu gjald af hverjum kafara. Hugsið ykkur: Heilar þúsund krónur! Molaskrifara finnst að gjaldið ætti að vera tíu þúsund krónur og fyrirtækin, sem gera út á köfun í þjóðgarðinum, ættu sjálf að kosta lagfæringar á þeim skemmdum á landinu, sem rekja má til starfsemi þeirra. Þau krefja sennilega hvern kafara um talsvert hærri upp hæð en skitinn þúsundkall. Hvað borga fyrirtækin hátt aðstöðugjald fyrir að fá að vera með rekstur af þessu tagi í þjóðgarðinum?

Það ætti sömuleiðis að vera jafn sjálfsagt að greiða bílastæðagjald á Þingvöllum eins og það er í Lækjargötu eða á Njálsgötu. Þarf að ræða það?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Bloggfærslur 3. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband