Molar um málfar og miðla 1721

 

Molavin skrifaði (05.05.2015): "RÚV bætir þjónustu við börn með Krakka RÚV" segir á Fasbókarsíðu Ríkisútvarpsins. Það sem áður hét Barnatíminn verður þá væntanlega nefnt Krakkatíminn. Það var blæbrigðamunur á merkingu orðanna börn og krakkar (fór svolítið eftir þægð), sem kom fram í máltækinu "börnin mín á morgnana og krakkarnir á kvöldin." Það færi vel á því að sjálft Ríkisútvarpið legði rækt við auðugt málfar í stað þess að nota aðeins "strákar, stelpur og krakkar" um þau. Stofnunin á að vera til fyrirmyndar um málfar, ekki elta lágkúruna.” Mæl þú manna heilastur, Molavin. Þakka bréfið.

 

Trausti benti á þessa frétt á mbl.is , (07.05.2015) http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/05/06/neita_ad_greida_allan_reikninginn/

  Í fréttinni segir: ,,Audi-bílaum­boð í Wat­ford á Englandi neit­ar að greiða reikn­ing sem hljóðar upp á ríf­lega 700 pund sem kona fékk eft­ir að hafa snætt á veit­ingastað í Lund­ún­um, en umboðið hafði boðist til að bjóða henni og ein­um gesti út að borða eft­ir að hafa ollið skemmd­um á bif­reið sem hún hafði keypt. “

 Hann spyr: Er sögnin "að olla" nú búin að yfirtaka hlutverk sagnarinnar "að valda"? Ekki er nema von að spurt sé. Notkun sagnarinnar að valda vefst fyrir mörgum fréttamönnum.

 

Skúli benti á þessa frétta á visir.is (04.05.2015) og segir: ,,Sæll. ….eiða miklum tíma saman……  Eru engin takmörk fyrir vitleysunni? Fréttabörn……

Í fréttinni segir:

Ég mun alltaf muna eftir tímum okkar saman en því miður þá gera aðstæður okkur ekki kleift að eiða miklum tíma saman.

http://www.visir.is/tiger-woods-og-skidastjarnan-lindsey-vonn-haett-saman/article/2015150509842

Molaskrifari þakkar Skúla ábendinguna.

 

Það er ekkert nýtt að framburður heitis bandaríska ríkisins Arkansas vefjist fyrir fréttamönnum. Nú síðast á miðvikudag (06.05.2015). Þá var í morgunfréttum Ríkisútvarps ítrekað talað um /arkansás/  - ekki  /a:knaso/ Vitleysisframburðurinn /arkansás/ var endurtekinn í hádegisfréttum, en einnig heyrðist /arkansas/ sem er gamall  draugur,sem erfitt virðist að kveða niðu .

 

Molaskrifari hefur verið slakur lesandi og hlustandi undanfarna daga , en lætur ekki hjá hlýða að þakka Speglinum í Ríkisútvarpinu fyrir mjög athyglisverða umfjöllum um málefni vinnumarkaðar, samningagerð og vinnulag á Norðurlöndunum. Bæði á það við um viðtal Jóns Guðna Kristjánssonar við Göran Persson fyrrverandi  forsætisherra Svíþjóðar og umfjöllun Arnars Páls Haukssonar í sama þætti  í kvöld og í gærkvöldi um stöðu mála og vinnulag í Danmörku. Mjög fróðlegt. En auðvitað vita bæði samtök launafólks og atvinnurekenda á Íslandi miklu betur  um besta vinnulagið til árangurs í þessum efnum en hliðstæð norræn samtök. Við erum alltaf bestir í öllu eins og ónefndur maður, segir svo oft við aðrar þjóðir. Eða hvað?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Bloggfærslur 7. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband