29.5.2015 | 06:50
Molar um málfar og miðla 1725
Í fréttum Bylgjunnar (25.05.2015) var haft eftir SDG forsætisráðherra , að þingið mundi sennilega starfa eitthvað inn í sumarið. Er ekki álvenja er að segja fram á sumar, ekki inn í sumarið. En aftur og aftur heyrum við þetta orðalag í fréttum ,... inn í sumarið. Næst verður það sjálfsagt inn í haustið , inn í veturinn - eða hvað?
Fleiri hundruð á mótmælafundi, sagði í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (26.05.2015). Fleiri en hvað? Þarna hefði átt að tala um mörg hundruð , þótt þátttakendur hafi sennilega verið 1500- 2000 að mati trúverðugs áhorfanda. Kannski hræðist fréttastofan Moggann, þegar kemur að því að tala um fjölda mótmælenda. Frægt var í gamla daga,þegar kunnur ljósmyndari Moggans spurði þegar hann var sendur til að taka mynd af fundi: - Á að vera margt á fundinum?
Tilfinningu fyrir beygingu orða í íslensku fer greinilega hnignandi. Tvö nýleg dæmi af fyrirsögnum af vefsíðinni Allt um flug: 350 helíumfylltar blöðrur röskuðu flug um Bombay-flugvöll. Blöðrurnar röskuðu flugi um flugvöllinn. Og: Þriðjungur starfsmanna hjá Malaysia Airlines verður sagt upp störfum. Ætti að vera: Þriðjungi starfsmanna ....
Af mbl.is (27.05.2015): Þetta gerði hann eftir að hafa stungið rúmlega tvítugan samnemanda sinn. Stakk hann ekki skólabróður sinn? Þekkja menn það orð ekki lengur ?
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/05/27/stakk_samnemanda_og_framdi_sjalfsvig/
Nýjasta skip veiðiflotans var vígt á Vopnafirði í dag, sagði fréttaþulur Ríkissjónvarpsins í kvöldfréttum (27.05.2015). Þarna var áreiðanlega rétt að orði komist, því í Morgunblaðinu daginn eftir var mynd frá komu skipsins til Vopnafjarðar. Meðal þeirra sem tóku á móti skipinu var hempuklæddur klerkur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)