21.12.2015 | 08:46
Molar um málfar og miðla 1851
ÍSFÓLKAR?
Úr Stundinni (18.12.2015): ,, Saga Daníels Auðunssonar hefur nú birst víða í íslenskum fjölmiðlum, allt frá fyrstu frétt um hann á Fréttanetinu til nærmyndar í Ísfólkarþætti Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur. Ísfólkarþætti? Ja, hérna. Heitir þátturinn ekki Ísfólkið?
http://stundin.is/frett/adferdir-daniels-milljardamaerings-kenndar-vid-svi/
ÞINGLÝSING
Í fréttum Stöðvar tvö (16.12.2015) talaði fréttamaður um að þinglýsa leigusamning. Þetta er ekki rétt orðalag. Rétt hefði verið að tala um að þinglýsa leigusamningi, skrá hann með formlegum hætti hjá fógeta eða sýslumanni.
SKETTLEGT
Þegar umsjónarmaður í morgunþætti Rásar tvö talar um (17.12.2015) að margt skettlegt sé framundan, þá er sennilega átt við að margt skemmtilegt sé í vændum.
HEIMSMEISTARAR
Íþróttfréttamönnum er afar tamt að segja Heimsmeistarar Bandaríkjanna (Ríkisútvarpið 18.12.2015), heimsmeistarar Þýsklands. Það er kannski sérviska, en Molaskrifari hnýtur jafnan um þetta orðalag. Finnst að fremur ætti að tala um bandarísku heimsmeistarana, þýsku heimsmeistarana. Hvað segja Molalesendur?
GÆFAN
Í umræðum á Alþingi á laugardag sagði þingmaður, að hann vonaði ,,.. að okkur beri gæfa til þess... Hefði átt að vera, - ,, ... vonaði að við berum gæfu til þess ... Hef heyrt sama þingmann fara rangt með þetta áður. Vonandi lærir hann að hafa þetta rétt áður en hann notar þetta orðtak næst úr ræðustóli Alþingis. Sami þingmaður sagði á þingi sama dag: ,, ... meðan sjúklingar eru látnir blæða. Hann átti við, - meðal sjúklingum er látið blæða, - meðan sjúklingum blæðir.
ENN EINU SINNI
Allsherjarnefnd hefur samþykkt samhljóða að albönsku fjölskyldurnar tvær verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Þetta var sagt bæði í fréttayfirliti og í fréttinni sjálfri í sex fréttum Ríkisútvarpsins á laugardagskvöld (19.12. 2015) Allsherjarnefnd hefur samþykkt samhljóða, að albönsku fjölskyldunum tveimur verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Þetta var hinsvegar rétt á fréttavef Ríkisútvarpsins.
MERKING?
Úr lögreglufrétt á mbl.is (19.12.2015): Annar aðilinn var tekinn í skýrslutöku en hinn afgreiddur með vettvangsformi. Afgreiddur með vettvangsformi? Skrifari er engu nær. Hvað merkir þetta?
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda Molum tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)