9.11.2015 | 08:19
Molar um málfar og miðla 1831
HLUSTUNARÞOLI!
Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (06.11.2015):
,,Veistu hvað hlustunarþoli er? Nei, auðvitað ekki, en þú heldur að það sé sá sem neyddur er til að hlusta á eitthvað. Stór misskilningur.
Í Morgunblaðinu 5. nóvember 2015 er grein á blaðsíðu 13 undir fyrirsögninni: Sími lögmanns var hleraður. Þar er meðal annars vitnað í lokaritgerð í lögfræðinámi um símahleranir. Í fréttinni stendur þetta: Í ritgerðinni segir að einn hlustunarþola hafi verið lögmaður Sem sagt sá sem þarf að sitja undir því að vera hleraður í síma er orðinn hlustunarþoli. Sá sem hlerar síma má þá réttilega vera nefndur hlustunarvaldur rétt eins og sá sem veldur slysi er slysavaldur og sá slasaði slysaþoli.
Vonandi þykir lesþola þessara lína þær báðfyndnar. Víst er að skrifvaldurinn skemmtir sér dável við skrifin. Vonandi hefur svo laganeminn náð prófi sínu ella væri hann fallþoli. Kærar þakkir fyrir gott bréf, Sigurður
AÐ BYGGJA NÝ HEIMILI
Tönnlast var því í fleiri en einum fréttatíma Ríkisútvarpsins á föstudagsmorgni (06.11.2015) að byggja ætti svo og svo mörg ný heimili í Venesúela. Menn byggja ekki heimili. Fólk stofnar heimili. Fréttin var um að byggja íbúðir, byggja íbúðarhúsnæði. Algengt er að húsum, og heimilum sé ruglað saman í fréttum. Les enginn yfir? Sennilega ekki.
AFBÖKUN
T.H. sendi Molum línu og benti á þessa frétt á mbl.is (05.11.2015): http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/05/perlu_ekki_komid_a_flot_i_dag/
Þar segir meðal annars:
"Gísli Gíslason, framkvæmdastjóri Faxaflóahafna, segir í samtali við mbl.is að ekki verði komið sanddælingarskipinu Perlu á flot að nýju í dag."
H.H. segir: ,, Þetta barnamál, sem ég er viss um að hefur ekki komið af munni Gísla Gíslasonar, heldur er þetta afbökun einhvers fréttabarnsins, sem hefði betur hlustað nákvæmar og haft rétt eftir. Tek undir það, T.H. Þetta hefur Gísli áreiðanlega ekki sagt. Þakka ábendinguna.
HLUSTA,HLUSTA!
Molaskrifari hefur nokkrum sinnum minnst á það (meðal annars í ljósi eigin reynslu!) hve varasamt það er, þegar fréttaþulir, gleyma sér, hlusta ekki á það sem þeir eru að lesa. Dæmi um þetta mátti heyra í hádegisfréttum Ríkisútvarps (06.11.2015), en þá las reyndur þulur: ,, ... að lög um fóstureyðingar verði rýmkaðar. Að lög um fóstureyðingar verði rýmkuð. Að heimildir til fóstureyðinga verði rýmkaðar.
FRÍMÍNÍNÚTUR FÁRÁNLEIKANS
Hinn svokallaði Frímínútnaþáttur Ríkissjónvarpsins var á dagskrá á föstudagskvöld (06.11.2016) Innihaldslaust og einstaklega ófyndið bull. Þátturinn næstum allur á ensku, - textaður og vísu, en það bætti ekki bullið, sem vall inn til okkar.
Ríkisjónvarpið með alla sína peninga á að geta gert betur en þetta. Langtum betur.
4,5 MILLJARÐAR TIL ÞRIGGJA SVEITARFÉLAGA!
Í fimm fréttum Ríkisútvarps (08.11.2015) og á vef Ríkisútvarpsins kom þetta fram:
,,Útlendingastofnun greiðir Hafnarfjarðarbæ rúma milljón fyrir húsbúnað fyrir þær þrjár fjölskyldur hælisleitenda sem bæjarfélagið ætlar að taka við. Þá greiðir stofnunin bæjarfélaginu tæpan einn og hálfan milljarð í árlegt fastagjald sem er ætlað að standa straum af launa-og rekstrarkostnaði..... Sambærilegur samningur hefur verið gerður bæði við Reykjanesbæ og Reykjavík. Getur þetta verið? Þetta var ekki nefnt í sex fréttum, aðalfréttatímanum. Ekki kom leiðrétting, þannig að hlustendur, hljóta að trúa að þetta sé rétt. Sé þetta hinsvegar rangt , eins og Molaskrifari telur augljóst, þá þarf fréttastofan aldeilis að athuga sinn gang. Þá er eitthvað mikið að. Fréttin var óbreytt á vef Ríkisútvarpsins í morgun (09.11.2012). Sett inn kl. 16:27 daginn áður. http://www.ruv.is/frett/milljon-i-husbunad-fyrir-haelisleitendur
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)