Molar um málfar og miðla 1837

 

VERÐSKULDUÐ VERÐLAUN
Það var verðskuldað og löngu tímabært að Guðjón Friðriksson , rithöfundur og sagnfræðingur, hlyti verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu (16.11.2015). Bubbi Morthens hlaut sérstaka viðurkenningu. Þekki lítið til verka hans. Til hamingju, báðir tveir.

Fréttin um afhendingu verðlaunanna sýndist mér alveg fara framhjá Stöð tvö.

 

RÉTT SKAL VERA RÉTT

Sigvaldi Júlíusson, þulur, sendi Molum línu vegna orða V.H. í bréfi,sem birt var í Molum 1836 á mánudag (16.11.2015) V.H. sagði í bréfinu meðal annars: ,, Ég mun seint venjast nýbreytni hjá Ríkisútvarpinu ( c.a 2 ára gömul ) að er fólk fellur frá stendur að Sigurjón Sigurðsson látinn ..þarna vantar ,,er,, .. og er þá rétt að segja að Sigurjón Sigurðsson er látinn. Skil ekki þá þrjósku hjá Ríkisútvarpinu að vilja ekki nota rétt mál ...”

Sigvaldi segir:,,Heill og sæll. Ég sendi þér línu vegna orða V.H. í Molum um málfar; hann segir að í dánartilkynningum hjá Ríkisútvarpinu sé sleppt "er" látinn. - ég kannast bara alls ekki við þetta - og hef hvorki séð í tilkynningum frá auglýsingadeild né heyrt þetta lesið. Bestu kveðjur. Sigvaldi”. Molaskrifari þakkar Sigvalda bréfið. Hann veit þetta manna best.

 

FRÉTTABARNAMÁL

 Kaupa strætó fyrir 200 milljónir, segir í fyrirsögn á mbl.is (13.11.2015). Þessi fyrirsögn er á fréttabarnamáli. Ætlunin er að kaupa strætisvagna fyrir 200 milljónir, eins og kemur fram í fréttinni.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/13/kaupa_straeto_fyrir_200_milljonir/

 

UM FRÆÐSLU

Úr Fréttabréfi Garðabæjar (13.11.2015):

 ,,Sambærileg fræðsla hefur einnig verið haldin reglulega í Vísindasmiðju Háskóla Íslands”. Fræðsla er ekki haldin. Rétt hefði verið að tala um að sambærileg fræðsla hefði einnig farið fram, ... hefði einnig verið í boði  ...

http://www.gardabaer.is/?PageId=05041862-1c5f-4513-abef-a0d97dfd1a90&newsid=7b969786-86fd-11e5-ba95-0050568b0a70

 

EINHÆFNI

Sumir þættir í Ríkissjónvarpinu eru viku eftir viku kynntir með sama orðalagi í niðursoðnum dagskrárkynningum. Þátturinn,sem kallaður er Frímínútur er alltaf kynntur með orðunum: ,,Fjölmiðlamaðurinn Frímann Gunnarsson kryfur samfélagsmálin eins og honum er einum lagið”. Þáttur Gísla Marteins Baldurssonar er alltaf kynntur með orðunum: ,,” Vikan gerð upp á jákákvæðum og uppbyggilegum nótum.”. Þetta er lamið inn í okkur oft í viku og oft á kvöldi. Hugmyndaauðgin er greinilega að gera út af við stjórnendur í Efstaleiti. Í annað skiptið í röð var viðmælandi Gísla Marteins sami rithöfundur og Egill Helgason hafði rætt við í Kiljunni tveimur dögum áður.

 

JÁKVÆTT SKREF.

Á föstudagskvöldið var dagskrá Ríkissjónvarpsins látin í friði, en fótboltaleikur sýndur á hliðarrás og íþróttarásinni margnefndu. Þetta ber að þakka Ríkissjónvarpið hefur loksins séð að sér.

 

HEIMSMEISTARAR ÞÝSKALANDS

Algengt er að heyra íþróttafréttmenn tala, til dæmis, um heimsmeistara Þýskalands. (Hádegi 13.11.2015). Heimsmeistarar Þýsklands! Ekki gott orðalag. Þýsku heimsmeistararnir væri betra.

 

GÓÐUR PISTILL

Á degi íslenskrar tungu (16.11.2015) var góður Ljósvakapistill í Morgunblaðinu eftir Einar Fal Ingólfsson. Fyrirsögnin var: Af þrí dí effektum, lúkki og selebum. Einar Falur vakti í pistlinum athygli á ótrúlegri slettusúpu spyrils í þættinum Íslandi í dag á Stöð tvö. hann hrósaði jafnframt að verðleikum tungutaki Gísla Jökuls Gíslasonar,sem rætt var við. Pistlinum lýkur Einar Falur á þessum orðum:,,Íslenskan á orð yfir furðumargt og óþarft, fátæklegt og illverjandi fyrir starfsfólk miðlanna að sletta mikilli ensku ! Þetta er hverju orði sannara. - Það er því miður orðið nokkuð algengt í ljósvakamiðlunum að viðmælendur séu mun betur máli farnir, en spyrlarnir.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Bloggfærslur 17. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband