16.11.2015 | 08:17
Molar um málfar og miðla 1836
DAGUR ÍSLENSKRAR TUNGU
Í dag, 16. nóvember, er Dagur íslenskrar tungu, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Allir dagar eiga að vera dagar íslenskrar tungu.
Í dag er fánadagur. Þess vegna flöggum við, sem höfum fánastöng.
Til hamingju með daginn!
ÓREIMDIR SKÓR
Edda skrifaði (12.11.2015) vegna fréttar á mbl. is : ,, Einni konu voru dæmdar 225 þúsund krónur í miskabætur með dráttarvöxtum þar sem hún hafi verið handtekin þrátt fyrir að hafa ætlað að hlýða fyrirmælum lögreglu. Á leið sinni út af framkvæmdasvæðinu tók konan eftir því að skór hennar var óreimdur og hugðist lagfæra það en var þá tekin höndum. Konan hafi því verið handtekin án heimildar.
Hún spyr:,, Segir maður ekki óreimaðir skór? - Að sjálfsögðu ekki, heldur óreimaðir. Þakka bréfið, Edda.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/12/handtaka_folksins_naudsynleg/
NIÐURRIF MÁLSINS
V.H. skrifaði Molum (12.111.2015): ,,Sæll. Eiður.
Það er oft grátlegt að fylgjast með er málið er rifið niður í fjölmiðlum dag eftir dag. Í textavarpi var í vikunni fjallað um SÞ og friðargæslulið á vegum SÞ. En fjölmiðlabarnið er skrifaði sagði Ban Ki-moon vera framkvæmdastjóra Samtakanna, samtaka! og jafnvel stundum forstjóra, en Ban Ki-moon er auðvitað Aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Víða í fréttinni er sagt að samtökin gerðu þetta og hitt. Hvaða samtök? ? Já, það er margt sem ungir fréttamenn þurfa að læra.
Í amerískum sakamálaþætti kemur texti á skjá að einhver hafi komið kl 09:00 - 04:00. Þarna er tölvutími komin á kreik .. og efast ég um að nokkur tali svona tölvumál.
Frægt tónskáld lést í vikunni og var sagt að hann hafi skrifað fjölda laga. ,,Skrifað,, ég sem hélt að fólk semdi lög.
Ég mun seint venjast nýbreytni hjá Ríkisútvarpinu ( c.a 2 ára gömul ) að er fólk fellur frá stendur að Sigurjón Sigurðsson látinn ..þarna vantar ,,er,, .. og er þá rétt að segja að Sigurjón Sigurðsson er látinn. Skil ekki þá þrjósku hjá Ríkisútvarpinu að vilja ekki nota rétt mál sem hefur alltaf verið sagt í 70 ára eða meira hjá Ríkisútvarpinu.
Kæar þakkir fyrir bréfið, V.H.
LEIÐRÉTTING
Það er ekki alltaf svo í Ríkisútvarpinu, að leiðrétting sé birt, þegar eitthvað hefur skolast til, rangt hefur verið farið með eitthvað. Stundum er eins og það virðist ekki skipta máli. Ágæt undantekning frá þessu var við lok morgunþáttar Rásar tvö á föstudag (13.11.2015). Sigmari Guðmundssyni, umsjónarmanni, hafði orðið það á að segja nafngreinda konu sterkustu konu á Íslandi. Það var fullmikið sagt því hún var sterkasta kona á Vestfjörðum. Þetta leiðrétti Sigmar smekklega.
REFAR
Í lesendabréfi í Molum 1835 var aulabrandari sem bréfritari svo kallaði: Kári Stefánsson hefur nýlega sannað með DNA að hnífurinn, sem var notaður til að skera refina var sami hnífurinn, sem hafði staðið í kúnni. Af þessu tilefni sendi Snorri Zóphóníasson Molum eftirfarandi (13.11.2015): ,,Vegna pistils í dag.
Til þess voru refarnir skornir. Þetta tengist fiskvinnslu. Þetta tengist refum ekki neitt. Molaskrifari þakkar Snorra ábendinguna. Refur getur verið beinlaust stykki, segir í orðabók Blöndals. Sjá annars Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson, bls. 678
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)