30.10.2015 | 08:05
Molar um málfar og miðla 1825
BRÉF FRÁ LESANDA
Sigurður Sigurðarson sendi Molum eftirfarandi bréf (29.10.2015):
1.
Hnífaárásir gerðar á götum Ísraels segir í fyrirsögn í Morgunblaðinu á bls.17. þann 20. október 2015. Í fréttinni segir:
Ótti hefur gripið um sig í Ísrael vegna árása sem gerðar hafa verið á óvopnaða borgara á götum úti, oft með hnífum. Á sunnudag gerði ísraelskur bedúíni, Mohind al-Okbi, árás með hníf og byssu
Þetta er dálítið stirt orðalag, hnoðast á nafnorðum. Fréttin ber þess glögg merki að vera þýdd, er dæmi um íslensku með ensku orðalagi. Tönglast er á að gera hnífaárás.
2.
Norðmenn hafa ekki sæti við ákvarðanatökuborð ESB, sagði fréttamaður Ríkisútvarpsins í fjögurfréttum 28. október 2015.
Orðskrípið ákvarðanataka er órökrétt því í staðin má einfaldlega nota sögnina að ákveða. Enn verra er ákvarðanatökuborð. Held að decisiontable sé ekki til á ensku.
Svo má velta því fyrir sér hvort ákvarðanir séu ávallt teknar við borð. Ýmsar kunna að vera teknar við glugga, á miðju gólfi, í sófum, í gönguferðum, í tölvupóstum, jafnvel í rúminu. Ímynda mér að ekki eiga allir pláss í ákvarðanatökurúminu.
3.
Nagladekkin komin undir hjólin segir í fyrirsögn viðtals í viðskiptablaði Morgunblaðsins 29. október 2015.
Fyrirsögnin getur auðveldlega misskilist nema verið sé að tala um fleiri en eitt reiðhjól. Yfirleitt eru dekk sett á gjarðir eða felgur, ekki undir. Þó segir í viðtalinu og má það til sannsvegar færa: Þess má geta að nú eru nagladekkin komin undir og ég klár á hjólið í öllum veðrum. Þetta kemur þó ekki fram fyrr en í lok viðtalsins og þangað til er fyrirsögnin undarleg í huga lesandans.
Til gamans má velta því fyrir sér hvað sé hjól. Þau eru undir margvíslegum sjálfrennireiðum, reiðhjólum, barnavögnum og svo framvegis. Er gjörð og felga hjól? Er dekk hjól? Hvað er gjörð eða felga með dekki? Er dekk sett undir hjól eða er það sett á hjól eða umhverfis? Hvers vegna heitir hringurinn hjól?
Kærar þakkir fyrir bréfið, Sigurður.
SKÝRINGAR ÓSKAST
Að sögn SDG forsætisráðherra er núna verið að gera umfangsmestu efnahagsráðstafanir í gjörvallri sögu landsins. Aðgerðir á heimsmælikvarða, hefur hann látið hafa eftir sér. Hann segist alltaf vera að setja heimsmet. Þessi mál eru firna flókin. Held að þorri fólks skilji þetta illa eða alls ekki. Sjónvarpsstöðvarnar ættu að gera skýringaþætti þar sem þessi flóknu mál eru útskýrð á mannamáli.
Væri verðugt viðfangsefni.
SAMSKIP OG BÍLAFLOTINN
Athyglisverð umfjöllun var í Kastljósi á miðvikudagskvöld (28.10.2015) um flutningabílaflota Samskipa, en bílstjórar sem hjá fyrirtækinu starfa, telja nýja bíla í flotanum varhugaverða, ef ekki beinlínis hættulega. Talsmaður fyrirtækisins þvertók fyrir það.
Það var athyglisvert að sjá ,að bílarnir eru með hollenskar númeraplötur, - skráðir í Hollandi. Enda teknir á leigu frá dóttur- eða systurfyrirtæki Samskipa í Hollandi. Molaskrifari man ,þegar hann kom heim með fjölskyldubílinn eftir tveggja ára starf í Færeyjum í byrjun árs 2009 fékk hann náðarsamsamlegast að nota færeysku númeraplöturnar í tvær vikur eða svo meðan verið var að reikna út þau gjöld, milljón eða tvær, sem greiða átti af bílnum í tolla og aðflutningsgjöld til ríkisins áður en hann fengi íslenskt númer.
Skipafloti Samskipa (sama gildir um Eimskip) er skráður erlendis, að Molaskrifari best veit. Það er víst vegna þess sem kallað er ,,skattalegt hagræði. Nú er bílafloti fyrirtækisins greinilega einnig skráður erlendis. Er það líka vegna ,,skattalegs hagæðis?. Ef ekki, þá hversvegna?
Í þættinum var líka talað um mótorbremsur,sem gætu verið viðsjárverðar til dæmis í hálku og snjó. Rifjaðist upp fyrir skrifara, að þegar hann tók við nýjum Benz malarflutningabíl hjá Vegagerðinni vorið 1959, var í leiðbeiningabókinni með bílnum varað sérstaklega við því að nota mótorbremsuna í hálku; vélin gæti drepið á sér, vökvastýrið farið úr sambandi og ökumaður misst stjórn á bílnum. Auðvitað er ekki víst að hér sé um samskonar búnað að ræða. Þetta bara rifjaðist upp við að hlusta á þessa umfjöllun.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)