31.7.2014 | 10:21
Molar um málfar og miðla 1531
KÞ skrifaði (29.07.2014) og benti á þessa frétt á Eyjunni/Pressunni: http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/07/28/metan-undir-koldum-hofum-getur-ordid-stort-umhverfisvandamal/
,,Hann spyr hvað getur maður sagt um svona fréttamennsku? Lesendur geta dæmt um það, - en eru þetta nokkuð óvenjuleg vinnubrögð á þessum fjölmiðli? Molaskrifari þakkar KÞ ábendinguna.
Úr frétt á mbl.is (29.07.2014): ,,Farþegarnir í rútunni voru á leið frá Sviss til Nordkapp, sem er einn af nyrstu bæjum Noregs. Átti sá bær að vera einn af hápunktum ferðarinnar. Rútan var búin að vera á ferðalagi í tíu daga. Nordkapp er ekki bær. Nordkapp er sveitarfélag á Finnmörku þar sem eru nokkrir smábæir. Stjórnsýslumiðstöðin er í Honningsvåg.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/07/29/helt_i_hondina_a_deyjandi_manni/
Af fésbók (28.07.2014): ,,Fyrsta Louise L. Hay vinnustofan á Íslandi ... sem mun bera heitið "Lifum heil" ... verður haldin 12. ágúst nk. kl. 17:29 - 20:29 á höfuðborgarsvæðinu... Já, ég hef nú öðlast kennararéttindi sem Heal Your Life® kennari ... og er reiðubúin að fara hvert á land sem er með vinnustofurnar.
Halda vinnustofu? Fara með vinnustofu hvert á land sem er? Skyldu þær vera fyrirferðarmiklar? Sennilega er hér verið að reyna að íslenska enska orðið workshop, námskeið eða vinnufund. Orðið vinnustofa hefur til þessa haft allt aðra merkingu í íslensku. Hvað þýðir annars ,,Lifum heil?
Verslunin opnar í Laugardalshöll á morgun, sagði fréttaþulur Stöðvar tvö (28.07.2014). Þess var ekki getið fremur en endranær hvað verslunin mundi opna.
Lesa mátti á visir.is (28.07.2014) að flugfélagið Ryanair væri með jákvæða afkomuviðvörun. Átt var við tilkynningu um að rekstur félagsins gengi betur en vænst hefði verið. Þarf að vara við svo góðum tíðindum? Nýlega sá Molaskrifari lungann úr athyglisverðri heimildamynd á einni af norrænu stöðvunum sem hér er hægt að horfa á. Þar var fjallað um Ryanair og Easyjet, rekstur þeirra og hugmyndafræðina sem reksturinn er byggður á . Afar fróðlegt.
Enn er hér spurt: Hversvegna þarf Ríkissjónvarpið alltaf að pukrast með það þegar verið er að endursýna efni? Það er eiginlega bæði fremur ómerkilegt og óheiðarlegt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)