4.2.2014 | 09:49
Molar um málfar og miðla 1404
Molavin skrifaði (03.02.2014): ,,Eins og fram hefur komið í dag er engum bát saknað." Þannig er orðuð Fasbókarkynning Vísis á frétt um leit að báti á Faxaflóa á sunnudagskvöldi, en í fréttinni sjálfri á visir.is er þetta orðað þannig: "Eins og fram hefur komið í dag er einskyns bát saknað" Erfitt er að sjá hvor setningin á að vera leiðrétting á hinni. Þarna leiðir haltur blindan eins og svo oft áður. Þau láta ekki að sér hæða fréttabörnin sem taka vísisvaktir um helgar. Þakka bréfið, Molavin.
Á mbl.is (02.02.2014) segir: Töluverður erill var á lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og í gærkvöldi. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/02/02/toluverdur_erill_a_logreglunni/
Molaskrifari hefði sagt að töluverður erill hafi verið hjá lögreglunni. Vel má vera að hvort tveggja sé gott og gilt.
Þrír fjórðu landsmanna vill, sagði Telma Tómasson, fréttaþulur á Stöð tvö á sunnudagskvöld (01.02.2014). Þrír fjórðu landsmanna vilja ... hefði hún betur sagt.
Ekki heyrði Molaskrifari betur sagt væri í dagskrárauglýsingu á Stöð tvö á sunnudagskvöld (02.02.2014). Ég vissi að það mundi eitthvað skemmtilegt henda fyrir mig í kvöld. Klúðurslegt og óvandað orðalag.
KÞ spyr (02.02.2014): Hvað er ,,gærnótt"?
http://www.dv.is/frettir/2014/2/2/thu-sagdir-sigri-hrosandi-vid-vini-thina-ad-thu-hefdir-lamid-einhverja-gellu-sem-hefdi-verid-fyrir-ther/ Ekki getur Molaskrifari svarað því svo óyggjandi sé. Líklega síðastliðin nótt. Kannski fyrrinótt. Þetta bjálfalega orðaleg heyrist æ oftar í fjölmiðlum og étur þar hver eftir öðrum eins og svo oft.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)