23.2.2014 | 23:17
Molar um málfar og miðla 1421
Á laugardag (22.02.2014) birtist í Fréttablaðinu heilsíðu auglýsing frá Brimborg þar sem auglýstir eru Volvo bílar. Þvert yfir síðuna stendur: Made by Sweden ( sem er reyndar dálitið einkennilega til orða tekið). Aftur er spurt: Hversvegna ávarpar Brimborg, íslenskt fyrirtæki, okkur, íslenska lesendur, á ensku? Þeir gætu reyndar alveg eins sagt um Volvobílana: Made by the Chinese. Framleiddir af Kínverjum. Kínverjar eiga nefnilega Volvo bílaverksmiðjurnar. Hvað rugl er þetta eiginlega? Hversvegna er alltaf verið að tala við okkur á ensku í íslenskum auglýsingum?
Í bílaauglýsingu frá Heklu sem sýnd er kvöld eftir kvöld í sjónvarpi er talað um Bandalag íslenskra blaðamanna. Molaskrifari veit ekki til þess að slíkt bandalag sé til. Til er Blaðamannafélag Íslands og Bandalag íslenskra bílablaðamanna. Hversvegna er þetta ekki lagfært?
Okjökull er að hverfa, sagði í fyrirsögn á mbl.is (23.02.2014) : Molaskrifari á því ekki að venjast að talað sé um Okjökul, heldur Ok eða Okið. Jón Helgason orti:
Handan við Okið er hafið grátt,
heiðarfugl stefnir í suðurátt,
langt mun hans flug áður dagur dvín,
drýgri er þó spölurinn heim til mín.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/02/23/okjokull_er_ad_hverfa/
Linnulaust fer Ríkisútvarpið á svig við lögin í landinu og birtir ódulbúnar áfengisauglýsingar og mærir bjórþamb. Hversvegna þurfti að byrja svo kallaðar Hraðfréttir á laugardagskvöldi með tilgangslausu bjórþambi? Þá fannst Molaskrifara taka í hnúkana. Stjórnendur Ríkisútvarpsins kunna sér ekki hóf og kunna heldur ekki að skammast sín. Hversvegna lætur menntamálráðherra það viðgangast að lög séu brotin í Efstaleiti? Er honum alveg sama?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)