Molar um málfar og miðla 1416

   Af mbl.is (15.02.2014): Töluvert magn af loðnu virðist vera í sjónum suður af landinu, og hefur hún rekið á land á fjöruna sem tilheyrir Fagradal í Mýrdal austan við Vík. Hvað rak loðnan á land? Loðan rak ekkert á land. Loðnuna rak á land.  http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/02/15/lodnureki_a_fagradalsfjoru/

 

Meira af mbl.is (16.02.2014): Á þessari leið braut hann fjölda umferðarlaga auk þess sem hann var undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Fréttin var um ökuníðing. Það eru aðeins ein umferðarlög en í þeim er margar umferðarreglur.

 

Það kom mér svolítið á óvart að hann væri að eiga við mig”. Ótrúleg dellufyrirsögn á dv.is. Látið er líta svo út að þetta sé tilvitnun í orð prófessors Þórólfs Matthíassonar. Tilvitnaða setningu er hinsvegar hvergi að finna í fréttinni. Sjá: http://www.dv.is/frettir/2014/2/16/thad-kom-mer-svolitid-ovart-ad-heyra-thessi-ord/

 ,,... að hann væri að eiga við mig”, hefur auk þess aðra merkingu eins og  sjálfsagt flestir vita.  

 

Hversvegna auglýsir Ferðafélag Íslands, íslenskasta félag af öllum félögum á  Íslandi, eins og  Jóhannes Reykdal orðaði svo ágætlega á fésbók,  á heilli síðu í Morgunblaðinu (16.02.2014) undir fyrirsögninni: The Biggest Winner! Hversvegna þarf Ferðafélag ÍSLANDS að ávarp okkur Íslendinga á ensku. Það er Molaskrifara fyrirmunað að skilja.

 

Alveg dæmalaust hvað fréttastofu Ríkisútvarpsins hefur orðið mikið úr svokallaðri Söngvakeppni. Úrslitin tilkynnt aftur og aftur í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum um helgina. Það er stundum einkennilegt fréttamatið í Efstaleiti.  

 

Það er óþarfi hjá Gísla Marteini Baldurssyni í Ríkissjónvarpinu að herma það eftir Telmu Tómasson á Stöð tvö að segja okkur hlustendum að fara ekki langt, þegar gert er stutt auglýsingahlé. Við erum alveg einfær um að ákveða þetta sjálf og þurfum enga ráðgjöf í þeim efnum.

 

Eirberg auglýsir barnahálkubrodda (16.02.2014). Hvað er barnahálka?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Bloggfærslur 18. febrúar 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband