17.11.2014 | 09:04
Molar um málfar og miðla 1615
Lesandi sem lætur sér annt um móðurmálið þakkar Molaskrifin og segir: ,,Þessi fyrirsögn var á forsíðu Morgunblaðsins á dögunum. http://www.mbl.is/sport/fotbolti/2014/11/05/hjalmar_tekur_eitt_ar_til_vidbotar/
Þetta skrípi, ,,að taka allan fjandann (taka fund, taka göngutúr, taka sturtu) er margtuggið en kolrangt og fer einstaklega mikið í taugarnar á mér. Þó ekki jafn mikið og ,,actually og ,,basically.
Hjálmar verður í eitt ár til viðbótar.
Mér þótti skrítið að sjá þetta á forsíðu dagblaðs. Til skammar, ef ég á að segja eins og er.
Ég hlakka til að fylgjast áfram með síðunni góðu. Molaskrifari þakkar bréfið. Fyrirsögnin sem vitnað er til er af mbl.is (05.11.2014)
Þetta er orðið algengt orðalag: Úr Fréttablaðinu (13.11.2014) um hjón sem fengu vænan lottóvinning: ,,.... þegar í ljós kom að þau höfðu nú loks tekið stóra vinninginn. Tekið stóra vinninginn? Hreppt stóra vinninginn.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (13.11.2014) var sagt að Bandaríkjamenn hefðu boðað til sérstaks neyðarfundar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Eðlilegra hefði verið að segja, að Bandaríkin hefðu óskað eftir að boðaður yrði sérstakur neyðarfundur í öryggisráðinu. Bandaríkin boða ekki fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Áskell skrifaði (13.11.2014): ,,Vandfundinn er miðill sem gerir jafn litlar kröfur til blaðamanna sinna og visir.is - og er þó samkeppnin umtalsverð. Á visir.is er fjallað um mann nokkurn í New York sem lamdi konu. Vefmiðillinn segir orðrétt um þennan mann: "Pena er fæddur í Dóminíska lýðveldinu til þess að spila hafnabolta".
Það er nokkuð ljóst að blaðamaðurinn sem snaraði textanum var ekki fæddur á Íslandi til þess að starfa við fjölmiðla. Molaskrifari þakkar bréfið. http://www.visir.is/article/2014141119450
Í Útsvari (14.11.2014) var sagt að haldin hefði verið keppni í sjómann. Hefði ekki verið eðlilegra að tala um keppni í sjómanni ?
Af pressan.is (16.11.2014) um ölvaða konu: Konan var látin renna af sér í fangageymslu. Það var og!
Mikill fjöldi sjúkrafluga á árinu, sagði í fyrirsögn á mbl.is (13.11.2014). betra og einfaldara hefði verið: Mörg sjúkraflug á árinu.
Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/11/13/mikill_fjoldi_sjukrafluga_a_arinu/
Sífellt er verið að rugla saman orðunum húsi, húsnæði og heimili. Síðast í fréttum Ríkissjónvarps á fimmtudagskvöld (13.11.2014) Þar var talað um mann sem átti ekkert í heimili sínu. Hann átti ekkert í húsinu eða íbúðinni, sem hann bjó í.
Heilbrigðisráðherra sagði í fréttum Stöðvar tvö (13.11.2014) að hann tæki undir með Kristínu Ingólfsdóttir, háskólarektor. Það var og.
Það var auðvitað afburðasnjallt hjá Ríkissjónvarpinu að senda dagskrárgerðarmann til Færeyja sem hvorki talar færeysku né dönsku, - heldur bablar ensku við Færeyinga. Flandraþættir ,,Edduverðlaunahafans frá Færeyjum eru sama marki brenndir og Kanadaþættirnir á sínum tíma.
Hafðu það reglulega kósí, auglýsti Strætó á degi íslenskrar tungu (16.11.2014).
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)