3.10.2014 | 08:31
Molar um málfar og miðla 1585
Ríkissjónvarpið þarf að ákveða hvað garðyrkjuþættirnir, sem nú (01.10.2014) er verið að sýna, heita. Þættirnir heita ýmist,- Í garðinum með Gurrý eða Í garðinum hjá Gurrý. Niðursoðna konuröddin,sem kynnir dagskrána, segir eitt. Í skjátexta stendur annað. Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð.
Það verður hver að eiga það sem hann á, eins og þar stendur. Dagskrá Ríkissjónvarpsins hefur farið batnandi að undanförnu. Hver bitastæða heimildamyndin á fætur annarri og kvikmyndavalið stórum betra en var þegar botninn virtist skafinn og dreggjar einar bornar fyrir okkur. Sem sagt á réttri leið og vonandi verður þar framhald á. Nú þurfa stjórnendur í Efstaleiti bara að brjóta odd af oflæti sínu og færa siðasta lag fyrir fréttir á sinn stað og endurskoða þær ákvarðanir aðrar, eins og varpa Sagnaslóð fyrir róða, sem mest hafa verið gagnrýndar. Þeir verða ekkert minni menn af því að hlusta á hlustendur/horfendur. Það er reyndar þeirra hlutverk.
Í morgun (03.10.2014) var standard slettunni sleppt í Ríkisútvarpinu rétt fyrir klukkan sjö, á undan fréttum. Vonandi verður svo framvegis. Þess í stað var talað um lífseigt lag. Gott. Það er fínt orðalag.
Hversvegna þarf stórverslunin Hagkaup að hefja auglýsingu,sem beint er til okkar, með enskri upphrópun: Oh My God? Og nota svo slettuna tax-free í auglýsingunni, - til að kóróna þetta? Hver er tilgangurinn? Er auglýsingadeild Ríkisútvarpsins fyrirmunað að fara eftir þeim reglum að auglýsingar í Ríkisútvarpinu skuli vera á íslensku
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)