20.1.2014 | 10:47
Molar um málfar og miðla 1391
Úr frétt um villikött á mbl.is (18.01.2014): Eyrun á honum bera merki þess að vera frostbitin auk þess sem hann er með eyrnarmaur og mikil óhreinindi í eyrum. Það sem á ensku er kallað frostbite heitir kal á íslensku. Kötturinn var kalinn á eyrum. Svo er ekkert til sem eyrnarmaur, eins og talað um í fréttinni. Réttara væri að tala um eyrnamaur.
Í fréttum Stöðvar tvö (17.01.2014) var sagt: ...var háttaður upp í rúm af móður sinni. Leiðinleg þolmyndarnotkun. Germynd alltaf betri. Móðir hans hafði háttað hann upp í rúm.
Þetta er ekki að fara koma fyrir aftur. .. Þetta var haft eftir ungri telpu á visir.is (18.01.2014). sennilega er þetta algengur talsmáti hjá ungu fólki nú um stundir.
Í íþróttafréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (18.01.2014) var sagt að lið hefði spilað mjög vel, eða frábærlega, varnarlega. Orðskrípin sóknarlega og varnarlega virðast orðin föst í máli íþróttafréttamanna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)