Molar um málfar og miðla 340

  

 Úr dv.is (28.06.2010): Gísli Marteinn rekur þessa prófkjörsbaráttur sem hann háði í Reykjavík á bloggi sínu á Eyjunni .... Orðið barátta er ekki til í fleirtölu í íslensku.  Hér er það blaðamaður DV sem barnar söguna, því Gísli Marteinn notar orðið barátta ekki í fleirtölu í blogginu,sem dv.is  vísar til.

  Glöggur lesandi sendi Molum eftirfarandi:  „Fimmtán kindur létust“ stendur í fyrirsögn á Pressunni. Þar er líklega kjörorðið: Kindur eru líka menn!

Skilur einhver eftirfarandi setningu úr mbl.is (28.06.2010): Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur takmarkað komist að þeirri niðurstöðu að sömu lög og reglur eigi að gilda um byssueign í öllum ríkjum Bandaríkjanna.  Molaskrifari  játar fúslega  að hann skilur þetta ekki.

Eftirfarandi er afar skarplega ályktað hjá  mbl. is þegar fjallað var um mikla umferð í átt til Reykjavíkur : Að sögn varðstjóra hjá lögreglunni hefur ekki verið tilkynnt um nein umferðaróhöpp og er því skýringin á þessum umferðartöfum sennilega sú að höfuðborgarbúar sem hafi farið út úr borginni um helgina séu á leið til síns heim nú. Svo er  reyndar  sagt á íslensku að menn séu á leið til síns heima en ekki til síns  heim. En þetta er eftir öðru. 

Þá er þessum fréttatíma lokið að sinni,  sagði  fréttaþulur Ríkissjónvarps (28.06.2010). Fréttatímanum lauk, --   ekki að sinni.   


Bloggfærslur 29. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband