Molar um málfar og miðla 1787

 

ÍSLANDSVINIR

Molavin skrifaði (03.09.2015): "Íslands­vin­kon­an Kel­is á von á barni." Þessa stórfrétt má lesa á mbl.is (3.9.15). Ekki hafði Molavin haft spurnir af þessari söngkonu fyrr, en samkvæmt mynd sem fylgir, hefur hún komið til Íslands. Það er  búið að verðfella rækilega hugtakið "Íslandsvinur" sem gjarnan var notað um erlenda borgara, sem börðust fyrir málstað Íslands heima fyrir, stundum í óþökk landa sinna, eins og ýmsir danskir vinir okkar í handritamálinu. Íslandsvinur var heiðursnafnbót. Nú virðist það gilda um alla, sem til landsins koma. Milljón á hverju ári.- Satt og  rétt. Þakka bréfið, Molavin.

 

ÞJÓÐIN VEIT

Örugglega veit öll þjóðin, að samkvæmt skoðanakönnunum eru Píratar nú stærsta stjórnmálaaflið á Íslandi. Það er nefnilega búið að endurtaka þetta og tyggja í okkur í næstum hverjum einasta fréttatíma undanfarna daga. Þetta er að minnsta kosti komið inn í hausinn á þeim sem þetta skrifar.

 

GÓÐ BYRJUN

 Kastljós Ríkissjónvarpsins fer vel af stað undir ritstjórn þeirra Þóru Arnórsdóttur og Brynju Þorgeirsdóttur. Óhugnanlegar frásagnir af ofsóknum og ofbeldi fyrrum sambýlismanna eða maka gegn konum.  Meiriháttar klúður lögreglunnar við meðferð mála. Vönduð umfjöllun. Fremur var fátt um svör hjá æðstu yfirmönnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þættinum á  miðvikudagskvöldið (02.09.2015). Molaskrifari játar reyndar að hann skildi ekki öll svörin til hlítar.

Áhugaverð umfjöllun um fjármál Hörpu. Mikið gert úr taprekstri. Fasteignagjöld til Reykjavíkurborgar hafa í raun orðið helmingi hærri en reiknað var með. Hátt í 400 milljónir. Reykjavíkurborg slær ekki vindhöggin í þessum efnum. Minna er talað um það, sem kom fram í máli Halldórs Guðmundssonar framkvæmdastjóra Hörpu, að samkvæmt athugun óháðs fyrirtækis hefur ráðstefnuhald í Hörpu skilað okkur fimm milljörðum í gjaldeyri. Harpan er fallegasta og merkilegasta rósin í hnappagati höfuðborgarinnar. Þessvegna  eiga borgaryfirvöld að hlú að henni, ekki skattkreista hana næstum til blóðs.  

 

EINUM OF

Samkvæmt auglýstri dagskrá Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi (03.09.2015) voru tvær og hálf klukkustund lagðar undir fótbolta. Frá klukkan tæplega hálf sjö til klukkan rúmlega níu. Hvor hálfleikur er 45 mínútur og líklega 15 mínútna hlé á milli. Svo kom Kastljós í hálftíma og síðan meiri íþróttir í annan hálftíma, tæpan þó. Þetta er ekki góð dagskrárgerð   Sjálfsagt að sýna leikinn, og sigurinn vissulega gleðiefni,  en fimbulfambið átti að vera á íþróttarásinni. Til þess er hún, eða hvað?

 

SNERT – SNORTIN

Á mbl.is (0309.2015) segir: „Góðvild ykk­ar og vilji til að hjálpa hef­ur snert mig djúpt,“ skrif­ar Eygló Harðardótt­ir, fé­lags­málaráðherra, á Face­book-síðu sem ein­mitt ber nafn henn­ar, - sennilega á ráðherra við að hún sé djúpt snortin, ekki snert.

 

AÐ LEGGJAST Í GREININGU

Stjórn spítalans ákvað að leggjast í ítarlega greiningu á aðkomu læknanna .. sagði fréttamaður Stöðvar tvö (01.09.2015). Stjórn spítalans ákvað að láta fram ítarlega rannsókn á aðkomu læknanna ... hlut læknanna ...     Stjórnin lagðist ekki í greiningu. Það orðalag er út í hött. Sami fréttamaður sagði í sömu frétt:... áttu milligöngu um ... Hefði átti að vera: .. höfðu milligöngu um ...

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1786

 

TÍU MILLJARÐA TRYGGINGASJÓÐUR

Rafn skrifaði (01.09.2015):

 ,,Sæll Eiður. Þetta varðar ekki málfar, en fréttin hér fyrir neðan kom mér verulega á óvart, svo mikið, að ég fæ ekki orða bundizt. Slitastjórnarmenn Glitnis hf. eru, að því er ég bezt veit, allir sjálfstætt starfandi lögmenn og endurskoðendur, sem sinna starfinu sem verktakar. Fyrir utan það, að verktakar bera ábyrgð gagnvart verkkaupum sínum, þá er lögmönnum og endurskoðendum skylt að kaupa starfsábyrgðartryggingu, sem ég tel, að ætti að ná yfir þær kröfur, sem aðrir kunna að eiga á hendur slitastjórnarmönnum vegna starfa þeirra í slitastjórn.

 Engu að síður gerir slitastjórnin nú, væntanlega í lokatörn slitamálsins, kröfu um, að kröfuhafar leggi evrur að jafnvirði um 10.000.000.000 kr. í sjóð til að tryggja skaðleysi slitastjórnarmanna af störfum sínum. Væntanlega ætlar slitastjórnin sjálfri sér framhaldslíf við ávöxtun viðkomandi sjóðs.
Ég vek athygli á kröfunni, sem ég tel furðulega, en ætla ekki að tjá mig um hana að öðru leyti. Fréttin er úr DV.” – Kærar þakkir , - Rafn. Þetta er furðulegt mál, - að ekki sé nú meira sagt.

Sjá:

http://www.dv.is/frettir/2015/9/1/slitastjornin-fer-fram-tiu-milljarda-tryggingasjod/

 

KOSNINGAR Í FÆREYJUM

Rétt er það sem Haraldur Bjarnason sagði á fésbók (02.09.2015) , að Ríkisútvarpið hefði mátt gera Lögþingskosningunum í Færeyjum hærra undir höfði. En ágæt frétt var í útvarpinu á miðnætti á þriðjudagskvöld, þegar úrslitin lágu fyrir. Hefði þó átt að vera fyrsta frétt, ekki koma á eftir upptuggu úr fyrri fréttatímum um skoðanakönnun á fylgi flokkanna á Íslandi. Fréttamat er auðvitað umdeilanlegt. Það veit Molaskrifari mæta vel.

 

LOFSVERT

Það er mjög lofsvert að Ríkissjónvarpið skuli annað kvöld (04.09.2015) ætla að flytja okkur í beinni útsendingu tónleika úr Eldborgarsal Hörpu þar sem Kristinn Sigmundsson syngur eftirlætisaríur sínar. Það orkar hinsvegar tvímælis, þegar þessi útsending er kynnt í dagskrárkynningu þá heyrir Molaskrifari ekki betur en þar syngi Kristinn hendingu úr ljóðaflokknum Vetrarferðinni eftir Franz Schubert. Kannski er það rangt, en Vetrarferðin verður seint kölluð óperuaría.

 

AÐ AUKA LÍFSKJÖR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (01.09.2015) talaði fjármálaráðherram um að auka þyrfti lífskjör á Íslandi. Væntanlega átti ráðherra við að bæta þyrfti lífskjör á Íslandi.

 

TVEIR MORGUNÞÆTTIR

Nú er ekki lengur sami þátturinn á dagskrá á báðum rásum Ríkisútvarps árla á morgnana. Það er mjög til bóta. Um það skal þó fátt sagt að sinni annað en að í morgun (03.09.2015) var á sama tíma rætt um sama efni í báðum þáttum. Rætt var við tvo íþróttafréttamenn Ríkisútvarps,sem báðir voru í Hollandi. Stjórnendur ættu kannski að hafa svolítið samráð um efnisval? Hvað skyldi Ríkisútvarpið hafa sent marga fréttamenn til Hollands til að segja okkur fréttir af fótbolta? Er ekki útvarpsstjóri alltaf að segja okkur hvað fjárhagur þessarar þjóðarstofnunar sé bágur? Fjár virðist aldrei vant, þegar fótbolti er annarsvegar.

 

ÍSLENSKA EÐA ENSKA

Íslenskur háskólakennari, aðstoðarprófessor, sem titlar sig svo , skrifar á fésbók (01.09.2015): ,,Einhver sem hefur áhuga á að vera host á síðunni Kæra Eygló Harðar til að hreinsa út White-power lið sem er með hate speech? Það þarf að fylgjast með síðunni reglulega svaka gaman… ööö. “ Þessi grautur er hvorki enska né íslenska Skyldi aðstoðarprófessorinn bjóða nemendum sína upp á svona hrærigraut í fyrirlestrum ?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1785

 

STARFSKRAFTUR

Fyrir nokkrum árum var oft auglýst eftir starfskröftum, ekki starfsfólki, starfsmönnum. Heldur hefur dregið úr þessu, sem betur fer. Málfarsfemínistar voru andvígir orðinu starfsmaður, töldu að það næði ekki til kvenna, sem er út í hött ,því auðvitað eru konur menn.

Í frétt í Morgunblaðinu (31.08.2015) um Norðurlandaráðsþing í Hörpu 27. til 29. október segir: ,,Á meðan þing Norðurlandaráðs stendur yfir verður starfskraftur Alþingis að störfum í Hörpu”. Betra hefði verið, til dæmis: ,,Starfsfólk Alþingis verður við störf í Hörpu þingdagana.”Varla verður þó allt starfsliðið þar. Ýmis starfsemi mun ganga sinn vanagang á skrifstofum þings og þingnefnda, þótt þorri starfsfólks verði í Hörpu.

 

GERAST FYRIR OKKUR

Af mbl.is (31.08.2015):

,, „Það sem er að ger­ast í Alaska er að ger­ast fyr­ir okk­ur,“ sagði Obama við frétta­menn áður en hann lagði af stað í ferðalagið til Alaska. Hann bætti við að svo lengi sem hann gegndi embætti for­seta þá myndu Banda­rík­in leiða umræðuna og aðgerðir varðandi loft­lags­breyt­ing­ar. Hann vísaði þar til hækk­un hita sjáv­ar, bráðnun jökla og að meðal­hit­inn á jörðinni fari hækk­andi.” Ekki vönduð þýðing á erlendri frétt. Gerast fyrir okkur? Hálfgert barnamál.

Það sem er að gerast í Alaska er að gerast hjá okkur ..... Hann vísaði þar til hækkunar hitastigs sjávar, bráðnunar jökla og þess að meðalhiti á jörðinni fari hækkandi. Ekki mjög góður texti.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/31/obama_raedir_loftlagsmal_i_alaska/

 

AÐ OG AF

Enn um að og af. Mbl.is (31,.08.2015): Bróðir tveggja ind­verskra systra hljópst á brott með giftri konu og ákváðu öld­ung­ar þorps­ins að þeim yrði nauðgað hópi karl­manna, að það væri hæfi­leg refs­ing. Kannski bara innsláttarvilla. Hefði þó átt að leiðrétta í yfirlestri.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/31/tveimur_systrum_verdi_naudgad/

TVEIR SEM BRÁ

Af visir.is (31.08.2015): ,,Tveir landamæraverðir við El Tarajal, sem liggur við Marokkó og spænska héraðið Ceuta, brá mjög þegar þeir lyftu upp vélarhlíf á bifreið sem þeir hugðust rannsaka.” Fallafælni. Tveir landamæraverðir brá ekki. Tveimur landamæravörðum ... brá mjög. Enginn yfirlestur.

http://www.visir.is/faldi-sig-i-velarrymi-bifreidar/article/2015150839834

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1784

  

AÐ HALDA ÁVARP

Í frétt Ríkisútvarps (29.08.2015) um afmæli Hins íslenska biblíufélags var sagt, að forseti Íslands og biskup hefðu haldið ávörp. Málvenja er að tala um að flytja ávarp en halda ræðu. Þannig er það í huga Molaskrifara að minnsta kosti.

 

Að OLLA

Í fréttatíma Stöðvar tvö (29.08.2015) var sagt frá aurflóðum á Siglufirði. Fréttamaður sagi: ,- þá ullu aurskriður miklu tjóni. Aurskriður ollu miklu tjóni. Sögnin að valda vefst ærið oft fyrir fréttaskrifurum. Í sama fréttatíma sama miðils sagði fréttamaður,.... en góð vinátta tókst á með honum og .... hér var á-inu heldur betur ofaukið. Góð vinátta tókst með honum og .. þeir urðu góðir vinir.

 

-- 

BREYTT ÚTLIT

Útliti Fréttablaðsins hefur verið breytt. Sjálfsagt sýnist sitt hverjum um breytingarnar. Molaskrifara finnst yfirbragð blaðsins heldur dauflegra en áður var. Fannst raunar ekkert að útliti blaðsins fyrir breytingarnar. Öðrum finnst þetta kannski breyting til batnaðar. Innihaldið skiptir þó auðvitað meira máli en útlitið.

 

AUGLÝSINGAR Í TEXTA

Fréttatíminn er það blað þar sem Molaskrifara finnst erfiðast að greina milli ritstjórnarefnis og seldra auglýsingagreina. Þess vegna er blaðinu fljótflett.

 

ÚFF...

 Arnar Kári sendi eftirfarandi með þessari fyrirsögn. ,, Sæll Eiður, ákvað að senda þér frétt af Vísi sem birtist klukkan 9 í morgun (30.8) og stóð greinilega óbreytt klukkan 12.30.
Hvernig getur fréttamiðill ætlast til að vera tekinn alvarlega þegar svona texti fær að lifa allan daginn?

Þetta er fréttin í heild, afrituð og límd:
Stefán Árni Pálsson skrifar:
West Ham vann ótrúlegan sigur á Liverpool, 3-0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær en leikurinn fór fram á Anfield, heimavelli Liverpool.
Einn aðdáandi West Ham hafði lofað því að hann skildi fá sér húðflúr á höndina tengt sigrinum ef liðið myndi vinna á Anfield en það hafði ekki gert í 52 ára í gær.
Aðeins tveimur tímum eftir sigurinn West Ham í gær tístaði Jon High mynd af húðflúrinu sem hann hafði fengið sér. Daginn áður hafði hann einmitt lofað því á Twitter.” - Þakka bréfið. En ýmislegt hefur nú reyndar sést svartara en þetta!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband