6.9.2014 | 08:53
Molar um málfar og miðla 1562
Sjónvarpsstöðvar halda áfram að leggja fram sinn skerf til að spilla tungunni. Morgunblaðinu á fimmtudag (04.09.2014) fylgdi auglýsingakálfur frá sjónvarpsstöðinni Skjá einum. Þar eru auglýstir tveir sjónvarpsþáttaflokkar með íslensk-enskum nöfnum, - Minute to Win It Ísland og The Biggest Loser Ísland. Ekki er þetta til fyrirmyndar. Einnig er auglýst eitthvað sem stöðin kallar Skjárflakk, en færi ef til vill betur á að kalla Skjáflakk og annað sem ýmist er kallað Skjárkrakkar eða Skjákrakkar. Ekki er metnaðurinn mikill til að vanda sig á þessum bæ.
Úr frétt á vef Ríkisútvarpsins (04.09.2014): ,,Meðal annars hafi þeim borist ábendingar um að flugtæki hafi reynt að lenda nálægt gosstöðvunum til að hleypa fólki út. Flugtæki? Var þetta ekki anaðhvort flugvél eða þyrla? Hvaða orðaleikur er þetta? http://www.ruv.is/frett/reyna-ad-stelast-inn-a-haettusvaedi
Hér fer á eftir niðurlag tölvupósts, sem Molaskrifara barst á fimmtudag með ósk um taka þátt í einhverskonar könnun(04.09.2014):,, ,,..til þess að svara survey sem er með 7 spurningar. Hér er svo hrefurinn: Ekki mjög traustvekjandi.
Hagkaup auglýsir,,vandaða kuldagalla í Fréttablaðinu (04.09.2014). Í auglýsingunni segir: ,,Styrking á hnjám og afturhluta. Með afturhluta á flík, galla (sem hér áður fyrr hét reyndar samfestingur) eða buxum er sennilega átt við það sem í daglegu tali er kallað rass. Er þetta ekki óþarfa tepruskapur? Næst heyrum við væntanlega um einhvern, sem hefur farið illa að ráði sínu í fjármálum, að hann hafi ,,spilað afturhlutann úr buxunum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2014 | 09:33
Molar um málfar og miðla 1561
Takk fyrir Nótuna 2014, uppskeruhátíð tónlistarskólanna,sem var á dagskrá Ríkisjónvarpsins á miðvikudagskvöld (03.09.2014). Það var reglulega gaman að hlusta og horfa á unga tónelska snillinga. Ekki var verra að heyra þarna verk eftir gamlan vin og skólabróður Árna Egilsson. En hversvegna var I dovregubbens hall eftir Grieg kynnt á ensku (In the Hall of the Mountain King)? Molaskrifari sá reyndar ekki betur en fleiri verk, sem ekki voru ensk, væru kynnt undir enskum titlum.
Hafa stjórnvöld hlúið nógu vel að þessari atvinnugrein, spurði fréttamaður Stöðvar í fréttum (03.09.2014). Hafa stjórnvöld hlúð nógu vel að þessari atvinnugrein, hefði hann betur sagt. Svo sagðist fréttamaður (tvisvar sinnum)vera staddur í Skarfsbakkahöfn. Hann var á Skarfabakka í Sundahöfn. Þar að auki sáum við á myndinni að lystiskipið í bakgrunni hét Adventure of the Seas ekki Adventures of the Seas eins og fréttamaður sagði. Smáatriðin þurfa líka að vera í lagi. Séu þau ekki í lagi, eru fréttirnar ekki í lagi.
Á tuttugustu og fjórðu mínútu bar til tíðinda, sagði íþróttafréttamaður Stöðvar tvö (03.09.2014). Eðlilegra hefði verið að segja: Á tuttugustu og fjórðu mínútu dró til tíðinda, eða á tuttugustu og fjórðu mínútu bar það til tíðinda að ....
Það var hálfundarlegt að horfa og hlusta á vandræðalegar skýringar bæjarstjórans í Kópavogi í fréttum Stöðvar tvö á Miðvikudagskvöld (03.09.2014) á boðsmiðum til bæjarfulltrúa og maka á tónleika Justins Timberlake í Kórnum í Kópavogi.
Endalausir lögguþættir og læknaþættir eru ær og kýr Ríkissjónvarpsins. Getur einhver skýrt þetta makalausa dálæti Ríkissjónvarpsins okkar á þessari tegund sjónvarpsefnis sem yfirleitt rís ekki mjög hátt eða ristir djúpt? Meinlaust að svona efni fljóti með. En í núverandi skömmtum er þetta algjör ofrausn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2014 | 09:55
Molar um málfar og miðla 1560
Í Kastljósi (02.09.2014) heyrði Molaskrifari ekki betur en kynnir segði að lögreglan segðist ekki geta tjáð sig um einstaka mál. Hefði fremur átt að vera,- segðist ekki geta tjáð sig um einstök mál.
Pjetur Haftsein Lárusson spurði á fésbók (02.09.2014): ,,Eiður, hvað segir þú um það, sem ég heyrði í fréttum Ríkisútvarpsins á mánudaginn var, "að hvergi séu fleiri háskólar á mann, en á Íslandi?" Getur það hugsast, að það séu fleiri háskólar í landinu en 320.000? Það skyldi þó ekki vera, að réttara hefði verið að orða þetta á þann veg, að hvergi væru færri íbúar á hvern háskóla, en á Íslandi? Að sjálfsögðu Pjetur. Hárrétt. Klaufalegt orðalag.
Í tíufréttum Ríkisútvarps (03.09.2014) var talað um sigurvegara kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. ,,Sigurvegari Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs, hlýtur að launum 350.000 danskar krónur, eða um 7.5 milljónir íslenskra króna. Sigurvegari verðlauna? Ekki þykir Molaskrifara það orðalag vera til fyrirmyndar.
Enn má á vef Ríkisútvarps ruv.is lesa þessa setningu: ,, Skipulagður niðritími ruv.is Sennilega les málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins ekki vefinn. Þá hefði þessi setning ekki fengið að standa þarna óbreytt og óáreitt dögum saman.
Það var fengur að nýrri heimildamynd um Stríðsherrana í Úkraínu frá BBC Panorama sem Ríkissjónvarpið sýndi á þriðjudagskvöld ( 02.09.2014). Aðeins virðist vera að kvikna lífsmark í Efstaleiti varðandi efnisval því nú ber það við að stöku sinnum eru sýndar nýjar heimilda- og fréttaskýringamyndir eins og hér hefur svo oft verið hvatt til. Þetta hefur ekki þekkst í Ríkissjónvarpinu í mörg herrans ár. Í Vikudagskrá sem dreift er í Garðabæ og víðar kynnti að vísu allt annað sjónvarpsefni til sögunnar þetta kvöld. Ekki í fyrsta skipti, sem þar eru rangar upplýsingar um sjónvarpsdagskrána. En takk fyrri tímabæra mynd um efni sem er efst á baugi.
Það sem af er af þessu ári, var sagt í Spegli Ríkisútvarpsins (03.09.2104). Það sem af er þessu ári, - hefði dugað.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2014 | 09:43
Molar um málfar og miðla 1559
Rafn benti á eftirfarandi á Moggavef (02.09.2014) og segir:,,Það er víðar England en í Kaupmannahöfn!
Í mínu ungdæmi var Rendsburg bær í S-H, en ekki öfugt. Sjá : http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/01/starfsmadur_skattstofu_skotinn/ ,,Starfsmaður á skattstofu í bænum Schleswig-Holstein í Rendsburg í Þýskalandi lést á sjúkrahúsi eftir að hafa verið skotinn á skattstofunni í morgun. Þetta kemur fram á fréttaveitunni The Local.
í heimildinni sem vísað er til segir: ,,A tax office worker in the Schleswig-Holstein town of Rendsburg died in hospital after being shot on Monday morning. Sá sem þýddi er annaðhvort hroðvirkur eða ekki vel að sér í ensku. Nema hvort tveggja sé. Molaskrifari þakkar Rafni ábendinguna.
Af slysni hlustaði Molaskrifari smástund á Virka morgna á Rás tvö í Ríkisútvarpinu á mánudagsmorgni (01.09.2014). Hlustar yfirleitt aldrei á þennan þátt, því þar er oftar en ekki framreidd ambögusúpa fyrir hlustendur. Umsjónarmenn sögðu hlustendum að tekist hefði að bjarga verðmætum jarðskjálftamæli undan hraunelfu. Hvorugt þeirra hafði fyrr heyrt orðið elfa og vissu greinilega ekkert í sinn haus. Hvaða kröfur gerir Ríkisútvarpið til þeirra sem falið er að stjórna þriggja klukkustund dagskrá í Ríkisútvarpinu fimm daga í viku ? Greinilega ekki miklar.
Ótrúlegt vatnsfall í Kaupmannahöfn er fréttabarnsfyrirsögn á visir.is (31.08.2014) http://www.visir.is/otrulegt-vatnsfall-i-kaupmannahofn/article/2014140839892
Fréttin er um óvenjulega mikla úrkomu í Kaupmannahöfn.
Í fréttum Stöðvar tvö (31.08.2014) var sagt gífurleg úrkoma féll í nótt. Molaskrifari er á því að betra hefði verið að segja , til dæmis, gífurleg úrkoma var í nótt. Í sama fréttatíma var sagt, - að verðbólga hefði verið með allra besta móti!
Úr Morgunblaðinu (01.09.2014) ,, ... framkvæmdastjóri Vísis segir að gæði fisksins hafi verið mjög góð ... Gæðin voru góð! Ekki var það nú verra.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2014 | 09:36
Molar um málfar og miðla 1558
Molaskrifara hefur aldrei þótt það gott orðalag, góð íslenska, að tala um að taka eigið líf. Það er hægt að tala um að svipta sig lífi, ráða sér bana, fyrirfara sér, fremja sjálfsmorð. Flest er skárra en að tala um að taka eigið líf, - að mati Molaskrifara. Þakka bréfið, EB.
Jóhanna benti Molaskrifari á eftirfarandi á mbl.is (30.08.2014): ,,Sigurjón Jónsson, varafulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi, lagði fram tveir fyrirspurnir á fundi bæjarráðs á fimmtudag. Tveir fyrirspurnir. Það var og. Helgarnar eru málblómatími á netmiðlunum.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/30/spyr_hvort_bodsmidar_samraemist_sidareglum/
Guðmundur skrifaði Molum (29.08.2014): ,,Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta.
Aldrei hef ég heyrt um að dýr séu "þunguð" - heldur aðeins heyrt notað um kvenmenn, fyrr en nú. Ég kann þessu illa og tel þetta hráa þýðingu. Hryssur eru fylfullar, læður kettlingafullar o.s.frv,
Gerði Pandan sér upp húnfylli ? Hef þó aldrei heyrt það orð í bjarnleysinu hér. Er eitthvað annað orð tiltækt?
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/08/29/panda_gerdi_ser_upp_thungun/
Molaskrifari þakkar Guðmundi bréfið en stendur á gati. Þungun er það þegar kona verður barnshafandi. Aldrei hefur Molaskrifari fellt sig við eða notað orðið vanfær, um barnshafandi konur. Konur eru aldrei fallegri, en þegar þær bera barn undir belti. Það sagði Vilhjálmur heitinn Hjálmarsson einu sinni við konuna mína. Við mundum honum það bæði.
K.Þ. vísar (30.08.2014) á Bylgjuefni á visir.is: http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP29317
Hann spyr: ,,Voru atburðirnir krufnir eða kryfjaðir? Von er að spurt sé því fyrirsögnin var svona:,,Bakaríið Hvað gerðist? Atburðir vikunnar kryfjaðir til mergjar Þetta hlýtur að að hafa verið gagnmerkur útvarpsþáttur, - eða þannig ?
Norska sjónvarpið NRK2 sýndi síðastliðinn föstudag (29.08.2014) fyrstu heimildamyndina í breskum þriggja mynda flokki um Kína, China: Triumph and Turmoil. Vonandi eiga þessar myndir eftir rata á skjá Ríkissjónvarpsins okkar.
Illa skrifuð frétt af mbl.is (30.08.2014). Þrisvar sinnum er notað orðskrípið fatlaðastæði. Þessi útgáfa fréttarinnar, þó slæm sé, er samt ögn skárri en sú sem fyrst var birt. Hvar er gamli Moggametnaðurinn? Horfinn? http://www.mbl.is/folk/verold/2014/08/30/madur_an_fota_ekki_nogu_fatladur/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.9.2014 | 08:43
Molar um málfar og miðla 1557
Þessu veldur meðal annars, og einna helst, þrennt að mati Molaskrifara:
Ný tækni við framsetningu flókins efnis á sjónvarpskjánum, sem hefur verið vel nýtt.
Ný mæli- og fjarskiptatækni og þá ekki síst vel búin TF SIF, sannkölluð vísindavél Landhelgisæslunnar.
Síðast en ekki síst frábærir vísindamenn okkar, vel máli farnir og þeim kostum búnir að geta sett flókið efni fram á mannamáli sem öllum er skiljanlegt. Þar koma margir við sögu en Molaskrifari freistast til að nefna þá Pál Einarsson, Magnús Tuma Guðmundsson, Harald Sigurðsson, Odd Sigurðsson og Ara Trausta Guðmundsson. Fleiri mætti sjálfsagt nefna til sögunnar. Án alls þessa skildum við minna og vissum minna Takk.
Sumir fréttamenn eru duglegir að staðsetja. Í hádegisfréttum Bylgjunnar á sunnudag (31.08.2014) var okkur sagt, að eldgosið væri staðsett ... Þarna var orðinu staðsett öldungis ofaukið. Það gaus úr sprungu í Holuhrauni.
Rafn benti á eftirfarandi á visir (29.08.2014): ,,25 þúsund tonn af makríl veidd á Neskaupsstað ---
Búið er að landa 25 þúsund tonnum af makríl í höfninni í Neskaupstað á þessari vertíð.
Þetta er fyrirsögn af visi.is. Það vantar alveg upplýsingar um hvort veiðarnar hafi farið fram á götum úti eða á lóðum heimamanna.
Fréttin fellur þó í áliti þegar meginmálið er lesið, en þar kemur fram, að aflanum hafi aðeins verið landað á Neskaupstað, en kann ekki veiddur þar. Svona vinnubrögð eru að verða næsta daglegt brauð. Þakka Rafni ábendinguna. Á fréttamannsárunum lærði Molaskrifari að segja ævinlega í Neskaupstað. Séra Emil, fréttastjóri, sagði við okkur: Maður fer í kaupstað, ekki á kaupstað.
Það er ágætt, að næturfréttamenn (orðið sem notað var í lok sjónvarpsfrétta 28.08.2014) fréttastofu Ríkisútvarpsins skuli uppfæra fréttavef útvarpsins á nóttinni. En það er ekki nóg. Ríkisútvarpið á að segja okkur fréttir á klukkutíma fresti allan sólahringinn, líka á nóttinni. Það er útvarp. Á ekki að þurfa eldgos til.
Sigríður beindi athygli Molaskrifara að eftirfarandi á visir.is (29.08.2014): ,,Drapst af slysförum. Kristín Sævarsdóttir varð vitni að dauða köngulóarinnar sem fannst í gær. Köngulóin drapst þegar samstarfskona Kristínar steig óvart ofan á hana.,,Ein hérna var að stíga niður fæti , þegar önnur sem starfar með mér sá köngulóna og ópaði. Þá var það orðið of seint. Köngulóin drapst af slysförum; þetta var ekki morð af yfirlögðu ráði. Það var og. Konan ópaði, hún æpti ekki. Köngulóin drapst af slysförum. Ekki morð af yfirlögðu ráði. Talað er um morð að yfirlögðu ráð. Fréttabörnin á visir.is láta ekki að sér hæða! Þakka ábendinguna, Sigríður.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)