30.8.2014 | 09:50
Molar um málfar og miðla 1556
Á vef Ríkisútvarpsins var talað um Skipulagðan niðritíma á ruv.is. Óboðlegt orðalag. Molavin sendi Molum línu um þetta orðalag og segir: ,,Á síðu Ríkissjónvarpsins segir frá því að hlé verði gert á Netsendingum vegna uppfærslu vélbúnaðar. Fyrirsögnin á tilkynningunni er: "Skipulagður niðritími ruv.is." Hvað fær þessa ágætu stofnun, sem hefur það lögboðna hlutverk að vernda móðurmálið, til þess að bulla með þessum hætti. "Downtime" er enskt tölvumál. "Útsendingarhlé" skilst. Molaskrifari þakkar bréfið.
Karl Björnsson skrifaði (27.08.2014): ,,Hafa aðrir en ég tekið eftir því að það eru allir hættir að éta... þ.e. fólk er væntanlega of kurteist til að nota það orð. Núorðið borða allir, meira að segja fiskarnir --þótt ég eigi erfitt með að sjá fyrir mér borðhaldið á kafi í vatni í þungum straumi. Heyrði útundan mér einhvern þátt á Rás 1 í dag þáttastjórnandi hafði farið á sjó með krakkahópi til að fræða um fiska hafsins. Hún talaði hvað eftir annað um hvað fiskarnir borðuðu. Ekki nóg með það, hún spurði líka sjómann, hvaða fiskur væri óborðandi...eða sagði hún óborðanlegir? Ekki viss hvort heldur var. Það þykir sennilega of ruddalegt að segja að eitthvað sé óætt.
Mér finnst sögnin að éta ekki dónaleg og í mörgum tilfellum fer betur á að segja éta, en borða.
Hvað finnst þér Eiður? Þakka þér fyrir góð skrif um málnotkun. Eiður þakkar bréfið og sér ekkert athugavert við sögnina að éta. Lærði í árdaga svolitla þýsku: Menschen essen, Tieren fressen. Fólk borðar, dýr éta.
Af mbl.is (28.08.2014): Flugmaður fisvélar lenti í vandræðum í kvöld en vélin hlekktist á við lendingu á Þingvallavegi í Mosfellsbæ. Vélin hlekktist ekki á. Vélinni hlekktist á. http://www.mbl.is/frettir/ Að sjálfsögðu þurftu fréttabörnin á visir að nota leikskólamálið sitt og segja að vélin hefði klesst á ljósastaur. Bjarni Sigtryggsson benti á þetta á fésbók. Hér er fyrirsögnin af visir.is Fisflugvél í erfiðleikum í Mosfellsbæ - Klessti á ljósastaur
Flugmaðurinn nauðlenti á Þingvallavegi og vængur vélarinnar rakst í ljósastaur. Klessuverkið í meginmáli fréttarinnar mun þó hafa verið lagfært skömmu eftir birtingu. Einhver fullorðinn hefur rekið augun í þetta.
Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1400 á fimmtudag (28.08.2014) sagði þulur frá fyrirhuguðum fundi í Ljósvetningabúð í Kaldakinn, en leiðrétti sig og sagði: Þetta á að sjálfsögðu að vera í Köldukinn. Er það svo? Það er nefnilega þannig að hvort tveggja er jafngilt. Sjá til dæmis þessa fróðlegu umfjöllun á mbl.is (05.06.2013) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/06/05/skridur_i_koldukinn_eda_kaldakinn/
Prýðileg hugvekja Ævars Kjartanssonar á Rás eitt í gærkveldi (29.08.2014) á undan góðum þætti Jónatans Garðarssonar, Rökkurtónum að loknum seinni fréttum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2014 | 08:14
Molar um málfar og miðla 1555
Enn og aftur mæta fréttir Ríkissjónvarpsins afgangi, verða hornreka, þegar boltaleikir eiga í hlut. Síðast á miðvikudagskvöld (27.089. 2014) þegar fréttatími sjónvarps var styttur vegna boltaleiks. Frammistaða fréttastofu aðfaranótt föstudags (29.08.2014), - gosnóttina var með miklum ágætum,- það sem Molaskrifari heyrði. Sama er að segja um nýja morgunþáttinn Morgunútgáfuna. Ríkisútvarpið getur slegið öllum miðlum við, þegar mikið liggur við, og gerir það lang oftast.
Molaskrifari heldur áfram að velta því fyrir sér hver sé tilgangur þeirra, sem vilja að við kaupum BKI kaffi, með því að sýna okkur aftur og aftur (27.08.2014) sjónvarpsauglýsingu þar sem íslenski fáninn blaktir í hálfa stöng.
Af visir.is ((27.08.2014) ,,Líkt og Vísir greindi frá í gær missti ökumaðurinn bílinn út af veginum hægra megin með þeim afleiðingum að hann velti, lenti á hjólunum og rann aftur á bak út í sjóinn. Bíllinn velti ekki. Bíllinn valt. http://www.visir.is/lifshaetta-a-strondum-redi-ekki-vid-bilinn/article/2014140829119
Komið hefur fram að þegar könnuð er hlustun á útvarp eða sjónvarpsáhorf hjá Ríkisútvarpinu eru þeir sem eldri eru en 67 ára ekki spurðir. Molaskrifari hefur grun um að meðal þeirra sem eru eldri 67 ára séu ýmsir tryggustu viðskiptavinir og velunnarar Ríkisútvarpsins. Hvernig væri að útvarpsstjóri veldi af handahófi eins og fjóra eða fimm úr þessum aldurshópi, byði þeim í molasopa í hinu nýja Maggakaffi á Markúsartorgi í Efstaleiti svo sem einu sinni í mánuði og hleraði skoðanir þeirra á dagskránni. Þetta kostaði Ríkisútvarpið nánast ekki neitt, - nema molasopann. Útvarpsstjóri yrði hinsvegar áreiðanlega margs vísari.
Dagskrárstjóri Ríkissjónvarps gerði grein fyrir vetrardagskrá sjónvarpsins í Síðdegisútvarpi Rásar tvö á miðvikudag (27.08.2014) Að hans sögn mun þar kenna margra grasa og sumt virðist hnýsilegt. Ekki er þó Molaskrifari viss um að allir hafi skilið, þegar dagskrárstjóri talaði um sketsþætti með pönslæn. Hann nefndi líka í framhjáhlaupi, örstutt, að væntanlegt væri einhverskonar Andraflandur um Færeyjar. Vonandi verður það ekki í sama dúr og sjálfhverfu þættirnir frá Vesturheimi. Það var heldur subbuleg dagskrárgerð. Egill Helgason fór eftir sýningu þessara hörmunga vestur um haf til efnisöflunar. Molaskrifari lítur svo á, að það hafi í og með verið til að bæta fyrir spjöllin eftir Flandrið. Egill gerir tíu þætti. Sá fyrsti lofaði góðu. Níu eru eftir. Kannski þarf síðar að senda Egil og hans ágæta fólk til Færeyja til að bæta þar um betur. Það kemur í ljós.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2014 | 09:44
Molar um málfar og miðla 1554
Það er álitamál hvort svona viðtöl eiga að fara fram á heimili ráðherra eins og þarna virtist vera. Viðtalið átti heima í sjónvarpssal. Ekki blanda heimili ráðherra í málið.
Kastljósþættinum var skotið inn í dagskrána með litlum fyrirvara. Það var gott framtak. Niðursoðna konuröddin, sem kynnir dagskrána gat því ekki sagt frá hvað í vændum var, að minnsta kosti fór það alveg fram hjá Molaskrifara hafi þátturinn verið ,kynntur. Er nýjum útvarpsstjóra ekki að verða ljóst að þessi háttur á að kynna dagskrána sjónvarpsins er ekki boðlegur?
Viðtal Stöðvar tvö við innanríkisráðherra í Íslandi í dag var hnitmiðað. Ráðherrann kom sér undan að svara, jafnvel sneri út úr. Talaði um ,,moldviðri og sagðist ekki hafa haft nein áhrif á rannsókn málsins, enda þótt fram hefði komið að hún hefði talað um það við lögreglustjórann ,,að rannsaka þyrfti rannsókn málsins og beðið um að yfirheyrslu yfir aðstoðarmanni hennar yrði flýtt. Það er svo áhorfenda að dæma hvers eðlis slík afskipti ráðherra af rannsókn á ráðuneyti hennar eru , - í samtali við yfirmann rannsóknarinnar. Allt er þetta með ólíkindum í ríki, sem segist vera réttarríki. En fréttamaður í Íslandi í dag komst vel frá sínu. Kurteis, en fastur fyrir. Þegar hann var tvívegis búinn að spyrja ráðherra sömu spurningar var öllum, sem hlustuðu og horfðu, ljóst að ráðherra vildi ekki svara.
Nú hefur svo komið í ljós að ráðherra sagði Alþingi ósatt úr ræðustóli þingsins 18.júní. Málið verður bara verra og verra.
Misjafnlega taka miðlar á málum. Í fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins á miðvikudag (27.08.2014) segir að ráðherra njóti trausts og þar vitnað til orða forsætisráðherra SDG Um innanríkisráðherra. Þetta þarf ekki að segja. Auðvitað situr ráðherra ekki í ríkisstjórn nema hann njóti trausts. Fyrirsögnin er ekki frétt.. Á forsíðu Fréttablaðsins segir sama dag: Grunur um stórvægileg mistök eða afbrot ráðherra. Þetta er frétt.
Ósköp gengur Ríkissjónvarpinu illa að láta seinni fréttir hefjast á réttum tíma. Í gærkveldi (27.08.2014) baðst Bogi afsökunar á seinkum fréttanna. Þær hófust fimm mínútum of seint. Þetta er nánast óþekkt hjá þeim erlendu stöðvum, sem hér eru aðgengilegar. Er þetta kæruleysi? Virðingarleysi fyrir auglýstri dagskrá? En fréttatíminn var góður, þegar hann kom.
Fréttamenn eiga að gæta þess í útvarpi að nota orð sem allir skilja. Í Spegli Ríkisútvarpsins (26.08.2014) sagði fréttamaður: ,, ... vildi frekar tala um fáfræði eða xenófóbíu. Xenófóbía er andúð á útlendingum , útlendingahatur. Eitt af þessum alþjóðlegu orðum sem sá ómetanlega góði sögukennari Ólafur Hansson , kenndi okkur veturinn 1958-1959 í sjötta bekk í MR. Þau hafa mörg tollað í kolli síðan. Í sama þætti var sagt um konu að hún kæmi frá Filippseyjum. Konan var ekki að koma frá Filippseyjum. Hún var frá Filippseyjum. Þetta orðalag heyrir maður aftur og aftur og étur hver eftir öðrum sem fyrr.
Þáttur Óðins Jónssonar og hans fólks, Morgunútgáfan, fór vel af stað í morgun (28.08.2014).
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2014 | 09:17
Molar um málfar og miðla 1553
Á Vísindavefnum segir svo: Í Íslenskri orðabók frá Eddu kemur fram að orðið stokkur var til forna notað um pall innan húss sem var hlaðinn upp af bjálkum. Á þessa palla stigu menn og strengdu heit sín í vitna viðurvist." Kannski hét Justin Timberlake eilífri tryggð sinni við Ísland og Íslendinga þá hann steig á stokkinn í Kórnum þetta kvöld. Alla vega lofaði hann landið í myndtísti sínu fyrr um daginn.Molaskrifari þakkar bréfið og þarfa ábendingu.
K.Þ skrifaði (25.08.2014): ,,Sigurjón M. Egilsson hefur verið ráðinn fréttaritstjóri 365, og heyrir því yfir þá Breka og Andra, og Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi 365, mun gegna starfi aðalritstjóra tímabundið."
http://www.ruv.is/frett/olafur-maetti-a-ritstjornarfund-siddegis
Ég kannast við orðalagið að heyra undir, en þessi notkun, að heyra yfir, er ný fyrir mér. Þetta nýtt fyrir fleirum , enda út í hött að taka svona til orða. Molaskrifari þakkar bréfið.
Og hér er meira frá Molavin (25.08.2014): ,,Orðskrúð færist í vöxt í auglýsingum. Það gerir sjaldnast nokkuð til að koma skýrum boðum á framfæri. Er öllu fremur gert til þess að flytja óskýr skilaboð, láta eitthvað hljóma betur eða "fínna" en það er. "Securitas er leiðandi fyrirtæki í eftirlitsmyndavélalausnum" segir í borða sem birtist á Google síðu. Það fer ekkert á milli mála þegar menn bjóða eftirlitsmyndavélar, þótt orðið sé langt og ólipurt. En menn eru engu nær þótt þeim séu boðnar "eftirlitsmyndavélalausnir." Hver er þá gátan? Orðskrúð endar oft sem hreint bull. Sá, sem ekki hugsar skýrt, tjáir sig óskýrt. Hverju orði sannara. Þakka bréfið.
Úr frétt Ríkissjónvarps á mánudagskvöld um poppstjörnuna Justin Timberlake, - ,,... en þessi þrjátíu og þriggja ára poppgoði hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Hér vantaði aðeins upp á vandvirknina.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.8.2014 | 10:01
Molar um málfar og miðla 1552
Umfjöllun fréttastofu Ríkissjónvarps sama kvöld var miklu betri, ítarlegri og í meira jafnvægi.
Á listanum í Ríkissjónvarpi í lok útsendingar frá menningarnótt á laugardagskvöld (23.08.2014) var auðvitað ómetanlegt að fá upplýsingar um klæðnað Matthíasar að ekki sé nú talað um hár Matthíasar. Eftir að hafa meðtekið þann fróðleik hljóta áhorfendur að hafa sofið betur.
Í lok miðnæturfrétta Ríkisútvarps á laugardagskvöld (23.08.2014) var sagt, að fréttir yrðu fluttar á klukkutíma fresti alla nóttina. Gott. En þarf eldsumbrot, skjálfta og teikn sem benda til að eldgos gæti verið í uppsiglingu til þess að Ríkisútvarpið sinni þjónustuhlutverki sínu við okkur viðskiptavini þess ? Ríkisútvarpið á að flytja stuttar fréttir á klukkutímafresti allan sólarhringinn. Að sjálfsögðu. Það á ekki að þurfa eldgos eða möguleika á eldsgosi til.
Af visir.is (24.08.2014): Fjöldi mála komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á menningarnótt en lögregla áætlar að gestir í miðborginni hafi verið um 100 þúsund þegar mest var. Hér hefði farið betur á því að segja annaðhvort, - Fjöldi mála kom til kasta lögreglunnar ... , - eða, mörg mál komu til kasta lögreglunnar ...
Í fréttum Stöðvar tvö (24.08.2014): var sagt að áheyrendur hefðu verið mættir við tónleikasalinn áður en húsið opnaði. Húsið opnaði hvorki eitt né neitt, en á auglýstum tíma var húsið opnað.
Í Ríkisútvarpinu og á fréttavef Ríkisútvarpsins var (25.08.2014) sagt frá því að þýðingarmiðstöð hefði opnað á Seyðisfirði. ,,Ný starfsstöð þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins opnaði á Seyðisfirði í dag.Opnað hvað? Það fylgdi ekki sögunni. http://www.ruv.is/frett/thydingarmidstod-opnar-a-seydisfirdi
Sumir fréttamenn virðast alls ekki geta haft þetta rétt.
Rúv auglýsti eftir svæðisstjóra Rúvak á mánudag (25.08.2014) . Er ekki hægt að tala við okkur nema með skammstöfunum?
Í prentaðri sjónvarpsdagskrá, Vikudagskránni, sem dreift er á öll heimili í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði er sagt, að Kastljós sé á dagskrá Ríkissjónvarps á mánudags og þriðjudagskvöld í þessari viku. Það er rangt. Ekki vönduð vinnubrögð.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2014 | 09:53
Molar um málfar og miðla 1551
Guðjón Einarsson skrifaði (22.04.2014): ,,Þú hefur sjálfsagt fett fingur út í nýjustu tískukveðjuna: Eigðu góðan dag. Þessi ensk/ameríska kveðja (Have a good day)verður sífellt algengari og í raun er hvergi friður fyrir henni. Afgreiðslufólk í búðum kveður mann með þessum orðum og í sms skeyti frá N1 þar sem minnt er á einhverja afslætti á bensíni eru lokaorðin þessi: Eigðu góðan dag! Og samt er svo einfalt að segja "njóttu dagsins" í staðinn og tekur ekkert meira pláss. Molaskrifari þakkar Guðjóni bréfið og þarfa áminningu. Þetta hefur verið nefnt í Molum fyrir margt löngu. En gott að minna á þetta að nýju. Molaskrifari hefur lengi látið þetta fara svolítið í taugarnar á sér, en hugsað til þess að verið er að bera fram góða ósk, þótt orðalagið sé enskt/amerískt og heldur hvimleitt.
Fyrsti Vesturfaraþáttur Egils Helgasonar, sem Ríkissjónvarpið sýndi íá sunnudagskvöld (24.08.2014) lofar góðu. Þættirnir verða alls tíu. Myndvinnsla og framsetning með ágætum. Víða leitað fanga. Það er tilhlökkunarefni að fá að sjá og heyra meira um sögu og afdrif Íslendinganna sem fóru vestur um haf. Þar er mikil saga ósögð enn, þótt margt gott hafi verið skrifað og skráð.
K.Þ. skrifaði Molum /22.04.2014) og sagði:,, Í Speglinum í kvöld, í umræðu um lífsýni og rannsóknir, var talað um "bættari" heilbrigðisþjónustu ... Molaskrifari þakkar bréfið og segir: Ja, hérna. Alltaf batnar það!
Hvernig er farið að því að rýma íbúa eins og sagt var frá í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (23.08.2014). Molaskrifari áttar sig ekki á því hvernig sú aðgerð fer fram. Vísa til athugasemdar sem Egill Þorfinnsson skrifaði um þetta við Mola 1550 og sjá má á www.eidur.is
Í leiðbeiningum um samgöngur á Menningarnótt,sem birtar voru í Fréttatímanum sem kom út á fimmtudag (21.08.2014) segir: ,, ... ásamt því að aka að og frá Hlemmi þar sem allar venjulegar leiðir sem aka um miðbæinn munu stöðva. Munu leiðirnar aka? Munu leiðirnar stöðva? Hvað munu þær stöðva? Fremur óvandað orðalag, - sennilega hrátt úr fréttatilkynningu frá aðstandendum Menningarnætur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.8.2014 | 09:08
Molar um málfar og miðla 1550
Mikið hefði verið gaman, ef Ríkissjónvarpið hefði nú ,,spanderað á okkur beinni útsendingu á BBC Proms tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Ísland í gærkveldi (21.08.2014). En þetta var auðvitað ekki fótboltaleikur.
Þess í stað var tónleikunum útvarpað upp á gamla mátann á Rás eitt. Hlustendafjöldi? Hvaða segja kannanir?
Þeir, sem hafa aðgang að BBC4, gátu hinsvegar notið frábærra BBC Proms tónleika frá 17.þessa mánaðar til minningar um fyrri heimsstyrjöldina. Yfirskriftin var Prom 42:Lest We Forget, - Svo við ekki gleymum. Þar flutti skoska BBC sinfónían verk eftir þrjú ung tónskáld,sem öll létu lífið í styrjöldinni svo og Pastoral sinfóníu Vaughan Williams. Konfekt.
Barn bitið af kameldýri, sagði í fyrirsögn á mbl.is (21.08.2014). Allsendis óþörf þolmynd. Kameldýr beit barn. Forðast skal óþarfa þolmyndarnotkun í fréttaskrifum, - og raunar öllum skrifum.
Molaskrifari leyfir sér að spyrja: Hver árinn er þetta Rúvak, sem alltaf var verið að tönnlast á í auglýsingatíma Ríkisútvarps eftir hádegið á fimmtudag (21.08.20145)? Var verið að tala um útibú, eða starfsstöð Ríkisútvarpsins á Akureyri?
Í auglýsingablaði frá Hamborgarafabrikkunni sem fylgdi Morgunblaðinu á fimmtudag (21.08.2014) var talað um Happy hour, - hversvegna þarf að nota ensku? Má ekki kalla þetta gleðistund? Annars var verið að auglýsa áfengi, sem til boða stæði á tilteknum tímum.
Molaskrifari heyrði síðdegis á fimmtudag og á fimmtudagskvöld að Ríkisútvarpið ætlar að halda því til streitu að láta okkur hlusta á þul, sem les með hvimleiðum sönglanda og óeðlilegri hrynjandi, - ef við viljum hlusta á Rás eitt. Það ætti að fá þessum starfsmanni annað starf. Stingur mjög í stúf við góða þuli Ríkisútvarpsins. Er það svo að stjórnendur heyri þetta ekki ? Kannski hlusta þeir ekki.
Alvarleg tíðindi voru flutt í fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (20.08.2014). Vaxplötusafn , segulbandasafn og myndbandasafn Ríkisútvarpsins liggja undir skemmdum. Efni er að hverfa; bókstaflega gufa upp og verða að engu og vaxplötur molna og eyðileggjast. Þetta er alvarlegt mál. Nú þarf yfirmaður Ríkisútvarpsins, menntamálaráðherra, að grípa í taumana. Við látum okkur annt um handritinn, menningararfinn. Upptökurnar í safni Ríkisútvarpsins eru handrit vorra tíma. Þetta er þjóðarsagan. Menningarsaga. Ætlum við að láta hana fara forgörðum? Ætlum við að sitja með hendur í skauti meðan sagan hverfur í glatkistuna ? Auðvitað ekki. Hér þarf að taka til höndum. Skora á menntamálaráðherra að láta nú hendur standa fram úr ermum og gera ráðstafanir til að bjarga ómetanlegum verðmætum, sem ekki mega fara forgörðum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2014 | 09:34
Molar um málfar og miðla 1549
Glöggur lesandi benti Molum á þetta á dv.is (19.08.2014) í þeim efnisflokki sem kallast Menning. ,,Glænýrri starfsstöð Grunnskóla Grindavíkur, Bókasafns Grindavíkur og tónlistarskólans við Ásabraut vantar nafn. Glænýrri starfsstöð vantar nafn! Það var og. https://www.dv.is/menning/2014/8/19/gefa-spjaldtolvu-i-nafnasamkeppni/
Mikið var talað um saksónara í fréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (19.08.2014). átt var við saksóknara. Dálítið undarlegt að reyndur fréttamaður skuli ekki geta komið þessu óbrengluðu til okkar. Hefur verið nefnt áður í Molum.
Í fréttum Stöðvar tvö af eldsvoða á mánudagskvöld (18.09.2014) sagði fréttamaður að reykur lægi frá húsinu. Hann átti við að reyk hefði lagt frá húsinu, það rauk úr húsinu. Það lagði frá því reyk.
Af mbl.is (19.08.2014): ,,Hann segir stjórnendum framhaldsskóla hafa stafað ógn af busavígslum undanfarin ár og það hafi gerst að þær hafi farið alveg úr böndunum. Molaskrifari leyfir sér að halda því fram að hér hafi ekki verið notað rétt orðalag. Stjórnendum framhaldsskóla hafi ekki staðið ógn af busavígslunum. Þeir hafi ekki hræðst þær. Þeir hafi hins vegar verið andvígir busavígslunum og viljað að þeim yrði hætt, þær afnumdar, sem er allt annar handleggur. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/19/vilja_afnema_busavigslur
Stundum ættu blaðamenn að laga klaufalegt orðfæri blaðafulltrúa. Eða hvað? Á mbl.is (19.08.2014) er haft eftir blaðafulltrúa Eimskipafélags Íslands: ,, Það var alveg sorglegt að geta ekki siglt nýju skipi til Íslands undir íslenskum fána vegna þess að umhverfið hér á landi sé ekki vinveitt skráningu kaupskipa..... Alveg sorglegt????
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2014 | 07:28
Molar um málfar og miðla 1548
Það kom berlega í ljós um síðustu helgi, þegar Lagarfoss Eimskipafélags Íslands kom til landsins, hversu lélega fjölmiðlun við búum við. Ríkissjónvarpið sagði okkur að skipið sigldi undir fána Nýfundnalands! Þeirri firru voru gerð skil í Molum 1545 sl. mánudag. Á visir.is var talað um vígsluathöfn! ,, Að lokinni vígsluathöfn bauðst almenningi að skoða nýjasta skipið í skipaflota okkar Íslendinga sem fjölmargir nýttu sér. Það var engin vígsla, þótt prestur blessaði skipið, en dálítið hallærislegt að fá konu til að gefa skipinu nafn! Það var búið að gefa skipinu nafn áður en það fór frá Kína fyrir mörgum vikum. Svo er þetta skip ekki í skipaflota okkar. Þetta er hentifánaskip. Skráð í Vestur Indíum.
Morgunblaðið sagði í fimm dálka fyrirsögn á mánudag (18.08.2014) Lagarfoss er kominn heim. Þetta er út í hött. Skipið hefur ekki heimhöfn á Íslandi og Eimskipafélag Íslands er ekki lengur í eigu Íslendinga. Þarna kristallast hve léleg vinnubrögð viðgangast stundum á íslenskum fjölmiðlum. Sjá: http://www.visir.is/bodar-endurnyjun-skipaflota-eimskips/article/2014140819114
,, Hið sögufræga Gröndalshús verður komið fyrir í Grjótaþorpinu að Vesturgötu 5. Af mbl.is (18.08.2014). Jæja, Moggi. Þorði fréttaskrifarinn ekki að byrjan fréttina rétt? ,,Hinu sögufræga Gröndalshúsi verður komið fyrir ...? Les enginn yfir? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/18/grondalshus_a_nyjan_stad/
Nokkuð algengt er að netmiðlar birti myndir með fréttum, sem ekkert tengjast fréttinni. Á mánudag (18.07.2014) var frétt á mbl.is um tvær flutningalestir, sem skullu saman, í Bandaríkjunum. Með fréttinni var mynd af lest, sem greinilega var farþegalest eins og notaðar eru innan borgarsvæða eða á stuttum leiðum. Ekki vöruflutningalest.
Ekki fagleg vinnubrögð. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/08/18/tveir_forust_thegar_lestir_skullu_saman/
Fiskalíf dafnar í Jökulsá á Dal segir í fyrirsögn í Fréttablaðinu (19.08.2014) Fiskalíf? Er ekki átt við að fiskur dafni vel í ánni, veiði sé góð eða að glæðast? Sennilega.
Mál Dagnýjar og Samuels svipar til mála sem fjallað var um í fjölmiðlum í maí síðastliðnum. Úr DV (19.-21.08.2014). Hér hefði átt að standa: Máli Dagnýjar og Samuels svipar til mála, .... Enginn les yfir. Ekki frekar en fyrri daginn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.8.2014 | 05:35
Molar um málfar og miðla 1547
Slettusögnin að ,,tækla ( e. tackle) mun vera úr íþróttamáli, fótboltamáli, og þýða að ná, eða reyna að ná, boltanum frá andstæðingi. Á forsíðu Morgunblaðsins á sunnudag (17.08.2014) segir í aðalfyrirsögn: ,, Fjölskyldufaðir tæklar Inter Milan,,.Molaskrifari er væntanlega ekki einn um að skilja þetta illa. Þykist þó sæmilegur í ensku. Svona sletta á ekki erindi á forsíðu Morgunblaðsins. Inni í blaðinu (bls.44) er svo þversíðufyrirsögn: Rúnar tæklar risann frá Mílanó með bros á vör. Það er af sem áður var, þegar Morgunblaðið var til fyrirmyndar um málfar.
Á fésbók um helgina vakti Páll Bragi Kristjónsson athygli á viðtali við Þröst Helgason , dagskrárstjóra Rásar eitt í Ríkisútvarpsins sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Hann kvaðst hugsi eftir lestur viðtalsins. Í setningu sem virðist tekin úr viðtalinu og birt með stærra letri (en er þó ekki bein tilvitnun) á síðunni segir: ,,Menningarblaðamennska snýst um ,,attitjúd og hafi maður það ekki á maður ekkert erindi í hana. Lesbókin var með ,,attitjúd í minni tíð og Rás 1 mun vera það líka. Molaskrifari skilur þetta ekki alveg heldur. Hann er líka hugsi. Hann átti svolítil samskipti við þennan ágæta mann eftir að sá tók við Lesbók Morgunblaðsins. Afstaða hans (attitjúd?) þá kom Molaskrifara á óvart. Önnur en hann átti að venjast þaðan. en það er önnur saga.
Merkilegasta og skemmtilegasta frétt sem Molaskrifari hefur lengi séð (sérvitur kannski) var í fréttum Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (19.08.2014) um ferðalag heiðagæsa sem senditæki og staðsetningartæki höfðu verið sett á. Merkilegir fuglar og vitrir. Skynugri en menn hafði órað fyrir. Hafa meira vit en margir ferðalangar! Gaman að þessu.
Heldur þótti Molaskrifara hvimleitt á hlusta á þul í Ríkisútvarpinu á laugardag og sunnudag og eftir helgina ,sem talaði með einkennilegri hrynjandi og óeðlilegum áherslum. Ekki á réttri hillu. Þulir á Rás eitt annars frábærir. Alma Ómarsdóttir sem las tíu fréttir á laugardagskvöld mundi einnig sóma sér prýðilega sem þulur. Heyra ráðamenn í útvarpinu okkar þetta ekki? Eða er þeim sama? Á fésbók hefur Molaskrifari séð að hann er ekki einn um þessa skoðun.
Molaskrifara þótti dálítið skondið að heyra frá því sagt í fréttum fyrir helgina að senn ættu íslenskir neytendur þess kost að kaupa hamingjusama (steindauða) kjúklinga. Þetta minnti skrifara svolítið á sögu sem hann heyrði úr sláturhúsi á Vesturlandi fyrir löngu. Þar háttaði þannig til að féð var rekið til slátrunar upp svolitla brekku innanhúss. Sá sem hafði það hlutverk að reka kindurnar upp brekkuna var spurður hvort ekki væri erfitt að fá þær til að fara upp þessa hallandi braut þar sem ,,böðullinn beið. - Nei, nei. Þær venjast þessu, svaraði hann.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)