Molar um málfar og miðla 1773

ÁHRIF FRÁ ENSKU.

Molavin skrifaði: ,,Morgunblaðið virðist hætt að nota orðið mótmælasvelti yfir þá fanga, sem neyta ekki matar síns í mótmælaskyni. Í dag, 13.08.2015 er talað um Palestínumann í haldi Ísraela, sem "hefur verið í hungurverkfalli..." Hér eru bein áhrif úr ensku auðsæ; "hungerstrike" er ekki verkfall.”. Skrifari þakkar bréfið og góða ábendingu. Kannski má segja um enskuna að hún geti verið ,lævís og lipur” svo vitnað sé til frægra orða.

 

LÁTAST EFTIR SLYS

Og enn skrifar Molavin (13.08.2015): ,, - "Manntjón eftir stórslys í Kína" segir í fimm dálka fyrirsögn í Morgunblaðinu í dag, 13.8.2015. Hvað gerðist eiginlega eftir slysið sem olli þessum andlátum? Það færist í vöxt að tala um að fólk látist EFTIR slys í stað þess að segja að það hafi látist í slysi. Menn látast ekki eftir banaslys. Þeir láta lífið í slysi.” Kærar þakkir. Þetta er þörf og réttmæt athugasemd og hefur reyndar borið á góma í Molum áður. Fjölmiðlar hérlendis voru ótrúlega seinir að átta sig því hversu alvarlega sprengingin í Tianjin var. Kannski hafa fréttaskrifarar ekki áttað sig á því að þetta er fjórða stærsta borgin í Kína. Hafnarborg Peking.

 

MIKIÐ LIGGUR UNDIR

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (13.08.2105) var sagt vegna innflutningsbanns Rússa á íslenskar vörur: Mikið liggur undir fyrir íslenskan sjávarútveg. Ekki er þetta sérstaklega vel orðað. Betra hefði verið til dæmis: Mikið er í húfi fyrir íslenskan sjávarútveg.

 

KSÍ BORGAR EKKI

,,Við greiðum alfarið þennan kostnað”, sagði formaður Knattspyrnusambands Íslands um kostnað við lýsingu á Laugardalsvelli, en fjallað var um málið í íþróttafréttum Stöðvar tvö (12.08.2015). Hann bætti svo við: ,,En við erum alfarið studdir af UFEA”. KSÍ borgar því alfarið ekki neitt. Er það ekki rétt skilið? Útlendingar borga.

Dálítið einkennilegur málflutningur.

 

 

 

ÓSKILJANLEGT

Það er óskiljanlegt að Ríkisútvarpið, þessi þjóðarstofnun skuli komast upp með að auglýsa bjór alveg purkunarlaust, til dæmis í síðustu auglýsingu fyrir útvarpsfréttir, - aftur og aftur. Stundum á  ensku í þokkabót!

Þetta er skýrt lögbrot.

Menntamálaráðherra gerir ekki neitt.

Stjórn stofnunarinnar gerir ekki neitt.

Útvarpsstjóri gerir ekki neitt.

Er öllum sama?

Þetta hefur verið nefnt áður í Molum um málfar og miðla.

Nokkrum sinnum.

Hversvegna líðst Ríkisútvarpinu að brjóta lög landsins ?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1772

NOKKRAR AMBÖGUR

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (11.08.2015):
,,Sæll,

Ekki er alltaf að ég hafi nennu til að skrifa hjá mér undarlegar fréttir og svo er maður sjálfur ekkert barnanna bestur. Hins vegar fannst mér þessar tilvitnanir alveg kostulegar og benda ekki til annars en að þeir sem skrifa valdi ekki pennanum, það er hafi ekki nokkurn skilning á ritaðri frásögn, hvað þá blaðamennsku. Svo er það þetta með bersöglina. Hún getur verið góð en stundum má umorða ýmislegt svo lesendum sé nú ekki ofboðið.

Nú tíðkast að blaðamenn skrifi sig fyrir fréttum og þar af leiðandi sjálfsagt að láta nöfnin fylgja gagnrýni.

Hvað þýðir „að haga sér“?

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar:„Maður er með fulla bókina af upplýsingum um það hvernig menn voru að haga sér í Eyjum um helgina. Það var gomma af Pepsi-deildar leikmönnum á Þjóðhátíð um helgina. Sumir höguðu sér, aðrir ekki.“ http://www.visir.is/rullandi-pepsi-deildar-leikmenn-a-thjodhatid/article/2015150809543

Löpp dómarans

Hörður Snævar Jónsson

„Antonio Pascoal leikmaður Afríku í 4. deildinni hefur verið dæmdur í 12 mánaða bann fyrir að stappa viljandi ofan á dómarann í leik gegn Augnablik fyrir helgi. […] Samkvæmt sjónvarvottum á vellinum stappaði hann ofan á löpp dómarans. Hann kallaði hann síðan homma og bað hann um að stinga hlutum upp í rassgatið á sér.“ http://433.moi.is/deildir/island/leikmadur-afriku-i-arsbann-stappadi-ofan-a-domarann/

 Kærar þakkir, Sigurður. Það er ekki gæðaeftirlitinu fyrir að fara!

 

GAT EKKI SINNT BÁÐU!

T.H. benti á eftirfarandi af mbl.is (11.08.2015): „Ég hef verið í þessu tvennu síðan í fe­brú­ar en það er of mikið að vera í álags­starfi eins og frétta­mennsku og sinna nýju fyr­ir­tæki. Ég þurfti að skera niður í vinnu þar sem ég gat ekki sinnt báðu leng­ur,“ seg­ir Kol­beinn í sam­tali við mbl. Sjá: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/08/11/uppsognin_ekki_tengd_joni_asgeiri/

Molaskrifari þakkar ábendinguna.

- Gat ekki sinnt hvoru tveggja.

 

Beyging orðsins vefst stundum fyrir fjölmiðlungum, einkum eignarfallið. Það er ekki fés, eins og Molaskrifara heyrðist sagt í Speglinum (12.08.2015). Notkun þess fés sem þar aflast. Orðið fé beygist: fé,fé,fé,fjár.

 

ERLENDAR FRÉTTIR

 Gífurleg sprenging varð í hafnarborginni Tianjin í Kína, fjórðu stærstu borg Kína, hún er oft nefnd hafnarborg Peking. Molaskrifari var þar 2006. Ríkisútvarpið minntist ekki einu orði á þetta í kvöldfréttum sjónvarps (12.08.2015). Stöð tvö minntist ekki heldur einu orði á málið í sínum kvöldfréttum. (12.08.2015). Fréttin var löngu komin á vef BBC. Fréttin birtist á mbl.is klukkan 17 58. Klukkan 18:10 var fréttin , ítarlegri en á mbl.is komin á visir.is. Málinu voru svo gerð ágæt skil í seinni fréttum Ríkissjónvarps. Afar takmarkaður fréttaflutningur var hinsvegar um nóttina í Ríkisútvarpinu. Það er eins og fréttastofan hafi algjörlega vanmetið hversu alvarlegur þessi atburður var. Það er því miður ekki nýtt, að íslenskir fjölmiðlar séu lengi að taka við sér, þegar stóratburðir eða náttúruhamfarir eiga sér stað í öðrum heimshlutum.

Af mbl.is: Spreng­ing­in varð um klukk­an hálf 12 fyr­ir miðnætti á staðar­tíma. Ekki gott að blanda saman bókstöfum og tölustöfum eins og hér er gert. Annað hvort hefði átt á segja klukkan hálf tólf eða klukkan 23 30.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/12/gridarleg_sprenging_i_kina/

http://www.visir.is/gifurleg-sprenging-i-tianjin-i-kina/article/2015150819657

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1771

 

AÐ OG AF

Góður vinur Molanna skrifar (11.08.2015) og vitnar í Pressuna (pressan.is)  daginn á undan: ,, "Einn lést og annar komst lífs af ,þegar lítil flugvél fórst á Tröllaskaga í dag. Sá sem komst lífs af er einn reyndasti og þekktasti flugmaður landsins. Umfangsmikil leit var gerð af flugvélinni þegar hún lenti ekki í Keflavík á tilskildum tíma, en hún hafði lagt af stað frá Akureyri eftir hádegi í gær. Vélin fannst svo í Barkárdal, skammt vestan við Akureyri í gær.”

Hann segir:,,Ég hef vanist því að maður leiti að einhverju en ekki af einhverju. Þetta er allt í einu allstaðar. Fólk virðist ekki hafa hugmynd um hvort eigi að nota og reynir ekki að komast að því heldur.” Þakka bréfið. Rétt athugað. Þessi villa veður upp í fjölmiðlum.

 

AÐ SIGRA KEPPNI

G.G. skrifaði Molum og segir:,,Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta:
HH dúettinum (Hallgrími og Huldu) í morgunútvarpi RÚV varð það á 10. ágúst 2015, hvoru á eftir öðru, að tuða um að tiltekinn einstaklingur hafi sigrað keppnina.  Ítrekað hefur verið minnt á, t.d. á eidur.is, að menn sigra ekki keppni, heldur vinna hana með því að sigra annan keppanda. einn eða fleiri. Hins vegar er hægt að sigra "í" keppni. Ef starfsmenn RÚV geta ekki lært muninn á að sigra og vinna, þá á einfaldlega að banna þeim að nota sögnina að sigra. Undantekning er að þetta sé rétt með farið! RÚV á skv. lögum að vera fyrirmynd.”

Sjá: http://www.visir.is/article/20150723/FRETTIR01/150729633

Molskrifari þakkar G.G. bréfið.

ENN UM AÐILA

Talsmönnum lögreglunnar er undarlega tamt  að tala um aðila þegar verið er að tala um fólk. Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (10.08.2015) var rætt við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra um flugslysið í Barkárdal, þar sem  einn maður lést en annar komst lífs af. Lögreglustjóri sagði , -  annar aðilinn var á lífi og með meðvitund. Hinn aðilinn var látinn.

Þetta  sífellda aðilatal er óþarft og sannast sagna fremur hvimleitt.  

 

VIRÐING FYRIR MÓÐURMÁLINU

 Það ber ekki vott  mikla virðingu fyrir móðurmálinu, þegar bæði formaður og þingflokksformaður  stjórnmálaflokksins Bjartrar framtíðar tala um kommbakk  (e. comeback) flokksins í útvarpi og sjónvarpi. Ekki var betra  að tala um að æðstu embætti flokksins  ættu að rótera. Fréttastofa  Ríkisútvarpsins át þetta svo hrátt eftir  þeim og talaði um  að stjórn  flokksins róteraði embættum, -  að  mannaskipti yrðu tíð. Fréttir eiga að  vera á góðu og skýru máli. Molaskrifari er alls ekki viss um að allir hlustendur hafi skilið hvað átt er  við með að  embætti róteri eða séu látin rótera.  Raunar skildi Molaskrifari formann Bjartrar framtíðar þannig í fréttum  Ríkissjónvarps, að þetta væri gert til að tryggja  að enginn með  reynslu væri í forystu flokksins.  

 

FRÉTTIRNAR SETJA NIÐUR

Sjónvarpsfréttir setja  niður, þegar fréttamaður  stendur fyrir framan  myndavélina og  gleypir  verkjatöflu, - rétt eins og hann sé á  sviði í einhverju leikriti. Fréttin var um bakverki.  Annaðhvort er þetta leikaraskapur, barnaskapur eða bjánagangur, en sýnir þó kannski fyrst og fremst að yfirmenn á fréttastofu sinna ekki störfum sínum nægilega vel. Leikaraskapur af þessu tagi á ekki erindi í fréttir.

 

ÞAÐ SEM HELST HANN VARAST VANN ....

Í Molum 1769 gagnrýndi skrifari  notkun fréttabarns á  orðinu eftirmál í illa þýddri frétt á mbl.is.  Jafn oft  og Molaskrifari hefur vikið að ruglingi á eftirmála og eftirmálum þá varð honum þarna á í messunni í einhverri   aulafljótfærni. Notkun  orðsins  eftirmál er rétt í fréttinni. Beðist er   velvirðingar á þessu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1770

FLUTNINGSFÓTUR?

Glöggur Molalesandi spyr (10.08.2015): ,, Kannast lesendur við orðið FLUTNINGSFÓTUR?
,,Eír­ik­ur og fjöl­skylda hans er á flutn­ings­fæti heim til Íslands og þurfa því á ým­is­legu að halda í versl­un­inni.”

www.mbl.is/frettir/.../verslunin_er_handan_vid_horni...

 - Hann lýsir Erikslund sem verslunarhverfi á borð við Skeifuna. ... Eírikur og fjölskylda hans er á flutningsfæti heim til Íslands og þurfa því á ...

Þetta var reyndar lagfært síðar. Ekki alls varnað.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/08/10/verslunin_er_handan_vid_hornid/

 

EIN UM HVAÐ?

Svona spyr KÞ (09.08.2015) vegna fréttar á pressan.is.

"Margir vilja ekki að Hillary sé ein um hitunina."

http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/08/08/joe-biden-lurir-i-bakgrunninum-saekist-hann-eftir-ad-verda-forsetaframbjodandi-demokrata/

Ein um hitunina! Ja, hérna.  

Molaskrifari þakkar KÞ ábendinguna.

 

SÍMTAL Á

Molalesandi skrifaði (08.08.2015): Fimmtudagur 30. júlí, Fréttablaðið:
Vitnað í grein um Rachel McAdams:
,,Hér má sjá nokkur klæðileg dress sem leikkonan hefur skartað."
Dress? 
Heiðar Austmann á K-100 sagði: ,,Ég ætla fljótlega að taka símtal á hann Georg."
Oft heyri ég fólk tala um að ,,taka" allt milli himins og jarðar auk þess sem að þetta blessaða ,,á" er orðið viðurkennt í töluðu sem og rituðu máli.

Það að senda tölvupóst ,,á” einhvern getur varla talist rétt. Við sendum t.d. einhverjum bréf í pósti - eða að senda bréf til einhvers. Þurfum við að eyðileggja tungumálið okkar þó að tölvur og netsamskipti hafi komið til skjalanna?
Ég mun allavega ekki taka símtal á neinn í nánustu framtíð. Ég vil heldur hringja í viðkomandi.
Takk fyrir afar þörf og skemmtileg skrif, Eiður.” Molaskrifari þakkar bréfið og hólið.

 

SUBBUSKAPUR

Í Fréttatímanum (06.-08.08.2015) er á bls. 42 með óvenjulega áberandi hætti blandað saman texta og auglýsingum um einhverskonar kína-lífselexír sem innheldur ,,öfluga blöndu vinveittra gerla,sem styrkja þarmaflóruna”, eins og sagt. Vinveittir gerlar! Greinin, sem næstum umlykur auglýsingar um þetta töfralyf, er sögð unnin í samstarfi við Icecare. Lesendur eiga kröfu á því að skýrt sé greint milli auglýsinga og annars efnis. Það er ekki gert þarna. Molaskrifara þykja þetta heldur ófagleg og raunar ómerkileg vinnubrögð. Á næstu síðu í blaðinu er umfjöllun um ,,Glæsileg gúmmístígvél”. Það er hrein auglýsing en ekki er skýrt að svo sé. Það sérkennilega við þá grein er, að í sumum tilvikum er verð tilgreint bæði í íslenskum krónum og sterlingspundum!

 

UM SJÁLFSMÖRK

Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps sl. laugardagskvöld (08.08.2015) var mikið um sjálfsmörk. Fyrst var talað um óheppilegt sjálfsmark svo rétt á eftir um afskaplega óheppilegt sjálfsmark. Þetta var í leikjum erlendis. Svo var gert sjálfsmark í leik á Íslandi. Það var bara sjálfsmark! Eru ekki öll sjálfsmörk heldur óheppileg? Hefði haldið það.  Báðum sjónvarpsstöðvum hefur tekist að velja nýliða til starfa til að segja fólki íþróttafréttir, nýliða sem hafa slæmar ljósvakaraddir. Raddir ,sem ekki láta vel í eyrum.

 

 

LEIÐRÉTTING

Molaskrifari hefur gagnrýnt, að Ríkissjónvarpið tilkynni ekki alltaf í dagskrárkynningum þegar verið er að endursýna efni. Sú gagnrýni stendur. Hún átti til dæmis við í gærkvöldi (11.08.2015)  þegar verið var að kynna  sakamálamyndaflokkinn Allir litir hafsins eru kaldir, sem er á dagskrá í kvöld.  Þessi myndaflokkur  var sýndur í sjónvarpinu árið 2006. Gagnrýni Molaskrifara á hinsvegar ekki við um Íslendingaþættina frábæru, sem stundum hafa verið sýndir á sunnudagskvöldum, síðast listavel gerður þáttur Andrésar Indriðasonar um jasspíanistann Guðmund Ingólfsson, en þátturinn var sýndur sl. sunnudagskvöld. Það sem villti um fyrir Molaskrifara og fleirum var ártalið 2013, sem birtist  í lok þáttarins. Það ár var sem sé lokið við gerð þáttarins. En hversvegna í ósköppunum var hann ekki sýndur það ár?  Hvaða rök lágu til þess? Þetta leiðréttist sem sé hér með. Þáttinn um Guðmund var verið að frumsýna á  sunnudagskvöldið. Hann verður örugglega sýndur aftur síðar. Þetta er úrvalsefni eins og aðrir þættir af þessu tagi sem Andrés Indriðason hefur haft umsjón með.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1769

 

SLÆM ÞÝÐING

Glöggur lesandi Molanna sendi eftirfarandi ((09.08.2015) :

,, Eitt dæmi af mörgum í sérlega illa þýddu viðtali sem birtist á mbl.is: ,,Ég horfði niður á vinstri fót­inn minn sem var klesst­ur upp við stöng. Það var smá hold í sæt­inu og ég fann hvernig beinið mitt stakkst út,“ sagði Washingt­on þegar hún lýsti eft­ir­mál­um árekst­urs­ins.”” Molaskrifari þakkar sendinguna. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/09/eg_mun_lifa_odruvisi_lifi/

 

STAÐSETNINGARÁRÁTTAN

Enn um staðsetningar áráttuna, sem oft hefur verið vikið að hér áður. Leigubílastöðin Hreyfill auglýsir nýtt app, smáforrit, í sjónvarpi (07.08.2015): ,, Á kortinu getur þú fylgst með hvar bíllinn er staðsettur hverju sinni”. Einfaldara hefði verið: Á kortinu sérðu hvar bíllinn er.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins (10.09.2015) var okkur sagt frá verslanamiðstöð sem væri staðsett í úthverfi Vesterås. Verslanamiðstöðin er í úthverfi Vesterås í Svíþjóð.

 

FYRIR HONUM

Á bls. 10 í Morgunblaðinu (08.08.2015) segir í inngangi greinar: Samtökin hafa mikla þýðingu fyrir honum. Hér á ekki að vera þágufall. Hér hefði átt að standa Samtökin hafa mikla þýðingu fyrir hann. Gamalreyndur maður sagði skrifara, að í ritstjóratíð Bjarna Benediktssonar hefðu einn daginn verið venju fremur margar villur og ambögur í blaðinu. Aldrei sagðist hann hafa séð Bjarna reiðari.

 

BJÓRÞAMB Á SKJÁNUM

Er það óhjákvæmilegur fylgifiskur hinna sjálfhverfu Sumardaga í Ríkissjónvarpinu, að umsjónarmenn þambi bjór á skjánum og veifi bjórflöskum? Skipafélagið Samskip fékk góða auglýsingu í þættinum frá Dalvík (07.08.2015). Það var auðvitað alveg óviljandi.

 

ÞVOTTUR – ÞVÆTTI

Af visir.is (08.08.2015): ,,Fyrrnefnd fjögur komu fyrir dóm daginn eftir handtökuna og voru ákærð fyrir vörslu fíkniefnanna í þeim tilgangi að selja þau og einnig fyrir ætlaðan peningaþvott”. Í þessu samhengi er málvenja að tala um peningaþvætti, ekki peningaþvott. Ríkisútvarpið talaði réttilega um peningaþvætti í hádegisfréttum sama dag. Sjá til dæmis Vísindavef Háskóla Íslands: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=3805

 

BULL?

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins (09.08.2015) bls.51 er sagt frá bók, sem nýkomin er út í íslenskri þýðingu um bandaríska rithöfundinn J.D. Salinger og samband hans við Oonu O´Neill. Hún varð eiginkona Chaplins, sem tók hana frá Salinger. Salinger átti ákaflega erfitt með að sætta sig við að Oona skyldi hafa valið Chaplin fram yfir hann. Sat í honum alla ævi. Oona giftist Chaplin um leið og hún varð 18 ára en hann var 36 árum eldri en hún. Salinger sótti í unglingsstúlkur, en glansinn virtist fljótt fara af þeim í huga hans. Undarleg sambönd sum hver.

 Þessi bók virðist einskonar getgátu skáldsaga. Í blaðinu segir: ,,... flúði hann frá New York á býli í Cornish í New Hampshire, gróf sér göng að húsi sínu og sleppti þremur varðhundum lausum”. Molaskrifari er nýbúinn að lesa langa og ítarlega ævisögu þessa sérkennilega rithöfundar, (Salinger,2013, Shane Salerno og David Shields). Vandaðasta ævisaga Salingers, sem rituð hefur verið. Minnist þess ekki að þar sé nokkuð minnst á göng eða varðhunda. Afskekkt bjó hann og honum var meinilla við allar heimsóknir og boðflennur. Einangraði sig æ meir frá umheiminum er árin liðu. Sat linnulaust við skriftir alla daga. Hann lét eftir sig mörg frágengin handrit. Einhver þeirra koma út á næstu árum fimm arum eða svo. Þau munu eiga greiða leið á metsölulista. Þar verður Glass fjölskyldan enn á dagskrá. Jerome David Salinger er einn af sérkennilegustu höfundum síðustu aldar.

 Skáldsaga hans um Holden Caulfield, Catcher in the Rye, var tímamótaverk og bókmenntasprengja á sínum tíma. Flosi Ólafsson þýddi hana prýðilega á íslensku, Bjargvætturinn í grasinu, heitir íslenska útgáfan.

 

ÁHAFNARMEÐLIMIR ENN

Áhafnarmeðlimir er lífseigt orð, sem Molaskrifara hefur aldrei þótt prýði að. Það kom við sögu í hádegisfréttum Bylgjunnar (08.08.2015), þegar sagt var frá áhöfn flugvélar, flugliðum, sem voru undir áhrifum áfengis, þegar fljúga skyldi frá Gardermoen í Noregi til Krítar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1768

REIÐHJÓL - ÖKUTÆKI

Rafn skrifaði eftirfarandi (07.08.2015) Sæll Eiður.

 Samkvæmt íslenzkum umferðarlögum er ótvírætt, að reiðhjól, barnavagnar og fleiri slík tæki eru ökutæki. Því kemur á óvart, að af 235 stolnum ökutækjum skuli 227 vera reiðhjól, en aðeins 8 önnur ökutæki, bifhjól, bifreiðar o.fl.

Eins kemur á óvart, að fréttabarn skuli furða sig á að mengið stolin ökutæki skuli vera stærra en hlutmengið stolin reiðhjól.

Er ég að misskilja eitthvað??

Fréttin er á bls. 2 í Fréttablaðinu í dag, 7.8.2015. Sjá http://www.visir.is/fleiri-okutaekjum-en-reidhjolum-stolid/article/2015708079957

Þakka ábendinguna, Rafn

 

 SKURÐUR FLYTUR SKIP

Nokkrar misfellur voru í þularlestri í fréttum Bylgjunnar í hádegi á fimmtudag (06.08.2015) Meðal annars var okkur hlustendum sagt um Súezskurðinn: Skurðurinn hefur getað flutt 47 skip á sólarhring. Súezskurðurinn flytur engin skip. Hér hefði betur verið sagt að 47 skip hefðu getað farið um skurðinn á sólarhring. Einnig heyrðum við eignarfallið einnrar í stað einnar (nokkuð algeng villa) , - ýmislegt fleira mætti til tína, ef Molaskrifari hefði nennu til.

 

FLEST ER HEY Í HARÐINDUM

Fimmtudagurinn í síðustu viku (06.08.2015) hefur verið óvenjulega lélegur fréttadagur. Í kvöldfréttum Ríkisútvarps þetta kvöld var meðal annars fjallað um skoðanakönnun,sem hefði leitt í ljós, að stuðningsmenn Bjartrar framtíðar væru líklegri en aðrir til að fara í sumarfrí í til útlanda. Samkvæmt öðrum skoðanakönnunum er mjög sennilegt að flestir stuðningsmenn Bjartar framtíðar séu flúnir úr landi - fylgið er komið niður fyrir 5%.

 

FERSKARA EN FERSKT

Findus fyrirtækið auglýsir hraðfryst grænmeti í sjónvarpi og segir okkur að það sé ferskara en ferskt. Þetta er ósatt. Matvæli sem hafa verið fryst geta ekki verið ferskari en matvæli,sem aldrei hafa verið fryst. Hvað segja Neytendasamtökin um svona fullyrðingar, sem auglýsingadeildir sjónvarpsstöðvanna gleypa hráar?

 

SKELFILEGT ATVIK

Í dagskrárkynningu Ríkissjónvarpsins í liðinni viku var kynnt heimildamynd um hið skelfilega atvik, þegar kjarnorkusprengjum var varpað á Hiroshima og Nagasaki. Ekki gott orðalag, að kalla þetta skelfilegt atvik. Enda var því var seinna breytt og talað um hörmulegan atburð. Einhver hefur hér haft vit fyrir textahöfundi. Gott.

 

VIÐ HÆFI

Það hefði svo sannarlega verið við hæfi að Ríkissjónvarpið setti saman svolítinn þátt til að sýna um helgina  um söngkonuna góðu, Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Diddú, sem átti  sextugsafmæli laugardaginn 8. ágúst. Nóg er til af frábærum söng hennar í safni sjónvarpsins. Ó, nei. Ekkert slíkt var á dagskrá. Forgangsröðun yfirmanna í Efstaleiti er önnur. Dagskrárfénu er frekar varið í gerð þynnstu og sjálfhverfustu þátta, sem lengi hafa sést á skjánum, og eru kallaðir Sumardagar.  

 

AÐ KJÓSA SÉR STEFNU

Í Morgunblaðinu sl. föstudag (07.08.2015) var þversíðufyrirsögn: Amnesty kýs sér stefnu um vændi. Ekki kann Molaskrifari að meta þetta orðalag. Kannski er það sérviska. Amnesty samtökin ætla að móta stefnu gagnvart vændi. Við þá stefnumótun verða væntanlega greidd atkvæði um margar tillögur, sem ef til vill eru ólíkar að efni og stefnu.  Það verður ekki kosin stefna. Það er út í hött.

 

HVENÆR?

Hvenær ætlar Ríkissjónvarpið að sýna okkur þá kurteisi, að segja frá því, þegar verið er að endursýna efni? Kurteisi kostar ekki neitt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1767

SKULDAR FYRIR BLÓMUM

Fyrirsögn af Stundinni á vefnum (05.08.2015): ,,Jón Óttar skuldar 300 þúsund fyrir blómum á sama tíma og hann fjárfestir í fjölmiðlum”. Maðurinn skuldar ekki ,,fyrir blómum” eins og sagt er í fyrirsögninni. Hann skuldar vegna blómakaupa. Sjá: http://stundin.is/frett/jon-ottar-borgar-ekki-brudkaupsblomin/

 

,,SÖRPRÆSES”

Í fréttum Stöðvar tvö (05.08.2015) var rætt við mann sem var að auglýsa samkomu. Hann sagði, að gestir gætu átt von á skemmtilegum sörpræses. Kannski hefur farið hálfgerður málfarshrollur en fleiri hlustendur en Molaskrifara við að heyra þetta.- Óvæntum skemmtilegum uppákomum, hefði hann til dæmis getað sagt.

 

TVÍLESIN KVÖLDSAGA

G.G. skrifaði (05.08.2015): ,,Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta.
http://www.visir.is/article/20150723/FRETTIR01/150729633

 Hann segir einnig: ,,Unun er að hlusta á nóbelsskáldið lesa Brekkukotsannál á Rás1. En hvers vegna RÚV spilar sama lesturinn tvö kvöld í röð, 4. ágúst og 5. ágúst, er hulin ráðgáta eins og margt í rekstri RÚV. Þeir slá engar keilur með því, þó þá langi!” Víða í netheimum hefur verið vakin athygli á þessu og bent á að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem kvöldsögulestur er tvítekinn.

Það undarlega í málinu er að Ríkisútvarpið viðurkenndi ekki að handvömm eða klaufaskapur hefði valdið því að sami lestur var tvífluttur. Talað var um gleymsku.

 

HVÍVETNA – HVARVETNA

K.Þ benti (03.08.2015) á þessa frétt á visir. is: http://www.visir.is/amnesty-international-heldur-radstefnu-um-ad-afglaepavaeda-vaendi/article/2015150809875

"Markmið fundarins þykir umdeilt en það er að mælast til þess að vændi hvívetna í heiminum verði afglæpavætt." Sá sem þetta hefur skrifað skilur ekki muninn á orðunum hvívetna og hvarvetna.

 

DETTA INN

Fréttir eru mikið til hættar að berast. Þær detta inn, eins og sagt var í íþróttafréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld ( 04.08.2015).

 

ÁHUGAVERÐUR ÍSLENDINGAÞÁTTUR

Verður á dagskrá Ríkissjónvarpsins á sunnudagskvöld (09.08.2015) um Guðmund Ingólfsson. Einn allra besta jasspíanista íslenskrar jass-sögu. Snillingur sem hann var. Ríkissjónvarpið sýnir okkur hinsvegar ekki þá kurteisi, ekki frekar en fyrri daginn, að segja okkur hvort þetta er nýr þáttur, eða hvort þetta er endursýnt efni.  Undarlegur ósiður í Efstaleiti.

 

RÝRT Í ROÐINU

Er Molaskrifari einn um þá  skoðun, að Sumardagar, Hraðfréttaliðs Ríkissjónvarpsins   séu eitthvert  rýrasta og þynnsta  sjónvarpsefni , sem okkur hefur verið boðið upp á? Þættirnir, sem Molaskrifari hefur séð eru oftast ekki um neitt, nema þá sem fara með aðalhlutverkin. Varla er þetta ódýrt efni. Það er víst bannað að spyrja um kostnað við dagskrárgerð hjá hlutafélagi allra landsmanna í Efstaleiti. Hversvegna skyldi það vera?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1766

NÚ VERÐA SAGÐAR FRÉTTIR

V.H. sendi Molum eftirfarandi (04.08.2015) með þessari fyrirsögn

,,Sæll Eiður.
Kópurinn var snar í snúningum
„Ég vaknaði rosalega snemma í morgun og fór í morgungöngu. Svo sá ég eitthvað sprikla (e. flopping) framundan mér. Og ég var svo þreytt, og hugsaði með mér 'Hvaða dýr ætli þetta sé sem spriklar svona? Ég verð að fara að kynna mér betur dýralífið á Íslandi.' Og ég bara áttaði mig ekki á þessu, ég var hálfsofandi," segir Mara.
Smá frétt úr Húsdýragarðinum, þar sem er stólað á að landinn skilji ekki sitt móðurmál og er því lýsing á ensku ( innan sviga ) fyrir hvern ? Ungt fólk eða gamalt ? Ferðamenn ?

 Í tvö skipti í Downton Abbey flutu bara óþýdd orð ,líkt og ein persóna segist hitta aðra í ,,lunch,, og í sama þætti var maður kynntur sem ,,Lautinant,,( sem ávallt er þýtt sem liðþjálfi ) svona eru nú þýðingarmál í Efstaleiti í dag.

Og verslunarmiðstöðin Kringlan auglýsir grimmt í sjónvarpi hvað þeir sér stórir og góðir og lýkur þeirri auglýsingu með enska orðinu ,,S.A.L.E,, þvert yfir skjáinn .. og segir þetta svolítið um hvað menn hugsa þar á bæ.
Öll bílaumboð er auglýsa í sjónvarp eru með slagorð á ensku og þýsku í sínum auglýsingum , er það ekki bannað ? verða ekki allar auglýsingar að vera á íslensku , jafnt skrifaðar sem og talaðar ?”

Molaskrifari þakkar V.H. Þetta ágæta bréf. Einu sinni var ákvæði í auglýsingareglum Ríkisútvarpsins um allar auglýsingar ættu að vera á lýtalausri íslensku. Molaskrifara hefur þrátt fyrir leit ekki tekist að finna það í núgildandi reglum. Kannski er það liður í afrekaskrá núverandi stjórnenda í efra að hafa fellt þetta niður. Fróðlegt væri að fá svör við því.


AF KRÍUM OG HETTUMÁFUM

Þ.G. skrifaði Molum (03.08.2015): ,,Sæll enn Eiður. Seint fullorðnast fréttabörnin hjá Mogga. Í dag segir frá slysi á Siglufjarðarvegi: "- stöðvaði bílstjóri fyrri bílsins fyrir nokkrum rollum og klessti þá næsti bíll aftan á hann."
Á baksíðu sunnudagsblaðs Morgunblaðsins segir frá fjörugu fuglalífi á Akureyri, fréttinni fylgir mynd með textanum "Kríur í kröppum dansi". Myndin er af tveimur hettumáfum.”  - Kærar þakkir Þ.G. – Satt segirðu. Þetta með hettumáfana sem kallaðir voru kríur var aldeilis með ólíkindum. Skrítið að svona lagað skuli geta gerst á þessum forðum vandaða miðli, - þar sem vissulega starfa margir vel hæfir blaðamenn. Eitthvað er gæðaeftirlitinu samt ábótavant. Verulega ábótavant.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1765

 

FRJÁLSÍÞRÓTTAMANNESKJUR

Eftirfarandi barst Molum Úr Vesturbænum vegna íþróttafréttar í (02.08.2015):

,,íþróttamanneskja er ekki fallegt, sjá nokkur dæmi úr frétt 2. ágúst, en íþróttamaður gamalt og gilt orð.

 

"Þetta má ráða af niðurstöðum rannsókna á blóðsýnum úr 5.000 frjálsíþróttamennskjum, sem lekið var til fjölmiðla á dögunum… Gögnin geyma niðurstöður rannsókna á 12.000 blóðsýnum úr 5.000 frjálsíþróttamanneskjum, sem tekin voru á stórmótum á árunum 2001-2012… Meðal þess sem Parisotto og Ashenden telja sig geta ráðið af gögnunum er að 146 verðlaun sem unnið var til í langhlaupum og göngugreinum á ólympíuleikum og heimsmeistaramótum á þessu tímabili hafi ratað um hálsinn á fólki, hvers blóðsýni hafi gefið verulega vafasamar niðurstöður. (hvers er smekklaust orðalag eins og á 18 öld, hefði mátt segja í staðinn: fólki með með verulega vafasama niðurstöðu í blóðsýnum)… Af niðurstöðum blóðrannsóknanna má ráða að 8 af hverjum 10 rússneskum frjálsíþróttamanneskjum sem komust á verðlaunapall á stórmótum hafi innbyrt eitthvað sem ekki samræmdist reglum.” - Molaskrifari þakkar góða sendingu.

 

HVAR ER METNAÐUR MBL.IS ?

Af mbl.is (04.08.2015). ,,Hún seg­ir faðir sinn hafa staðið und­ir svipuðum ásök­un­um á sín­um tíma en þau gefi ekk­ert fyr­ir vest­ræn­an áróður.” Ekki batnar það hjá Mogga. Hvar er metnaðurinn?

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/04/kim_jong_un_hlytur_fridarverdlaun/

 

VONLAUS AÐSTÆÐA 

K.Þ. benti á þessa frétt á mbl.is (03.08.2015): http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/08/02/raka_sig_undir_hondunum_thratt_fyrir_allt/. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Í fréttinni segir meðal annars: ,,10 kon­ur sem raka sig und­ir hönd­un­um þrátt fyr­ir að vera í von­lausri aðstæðu”. Í vonlausri aðstæðu! Það var og.

 

ÓÞÖRF ÞOLMYND

Í fréttum Stöðvar tvö (03.08.2015) var sagt: Þessar myndir voru teknar af einum íbúa borgarinnar ... Oft hefur verið vikið hér að óþarfri notkun þolmyndar. Í þessu tilviki hefði verið betra að segja: Þessar myndir tók íbúi í borginni. Borgarbúi tók þessar myndir.Germynd er alltaf betri.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1764

  

SLEGIST VIÐ KIRKJU

Af mbl.is (01.08.2015): ,,Lög­regl­unni barst til­kynn­ing um hópslags­mál við Selja­kirkju í Breiðholti rétt eft­ir klukk­an þrjú í dag.” Einhverjir ólátaseggir voru að slást hjá kirkjunni, í ghrennd við kirkjuna. Þeir voru ekki að slást við kirkjuna.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/08/01/hopslagsmal_vid_seljakirkju/

Sjálfsagt segir einhver, að þetta sé útúrsnúningur!  Það lætur kannski nærri.

Þetta var reyndar einnig á visir.is: http://www.visir.is/hopur-manna-flaugst-a-vid-seljakirkju/article/2015150809971

Í þeirri frétt segir:,, Lögreglan í Reykjavík þurfti að hafa afskipti af hópi manna sem tókst á við Seljakirkju í Breiðholti skömmu eftir klukkan 3 í dag.”. Ekki fór sögum af því hvort kirkjan tók á móti.

 

RAKI í EYJUM

Á laugardagskvöld (01.08.2015) sagði veðurfræðingur Ríkissjónvarps, að raki gæti orðið í Vestmannaeyjum. Næsta víst er að sú spá hefur ræst á þjóðhátíðinni!

 

FJÖLDI

Fjöldi sjálfboðaliða taka þátt í leitinni, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (01.08.2015). Hefði átt að vera: Fjöldi sjálfboðaliða tekur þátt í leitinni. Ekki satt?

 

ÓLÉTTA

Marc og Priscilla ólétt:, er dálítið undarleg undarleg fyrirsögn á dv.is (01.08.2015) http://www.dv.is/frettir/2015/7/31/mark-og-priscilla-olett-segir-fra-atakanlegu-fosturlati-facebook/ Þeir bregðast ekki á dv.is.

 

,,VÍRAÐUR SAMAN”

Úr frétt á mbl.is (01.08.2015): ,,Ekki vildi bet­ur en svo að eitt skotið end­urkastaðist af bryn­vörn belt­is­dýrs­ins í kjálka manns­ins, sem flytja þurfti á spít­ala með flugi, þar sem kjálk­inn á hon­um var „víraður sam­an“ eins og seg­ir í frétt á vef In­depend­ent”. ,,Víraður saman”. Hefði ekki verið einfaldara að segja, til dæmis, - ,,þar sem gert var að kjálkabroti mannsins”? Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/01/texasbui_skaut_beltisdyr_beltisdyrid_skaut_til_baka/

Reyndar virðist í fréttinni í Independent, að vír hafi verið notaður til að ganga þannig frá kjálka mannsins að hann gæti ekki hreyft hann.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband