Molar um málfar og miðla 1783

 

SKYNSAMAR TILLÖGUR

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (27.08.2015) var talað um skynsamar tillögur. Molaskrifara var kennt á sínum tíma að tillögur eða breytingar gætu ekki verið skynsamar. Þær gætu verið skynsamlegar. En þetta orðalag heyrist æ oftar. Sama morgun talaði umsjónarmaður þáttarins um að farið yrði yfir það sem hefði toppað allar fréttir vikunnar. Það er líklega sérviska Molaskrifara, að kunna  ekki að meta þetta orðalag.

 

BOLTALEIKUROG STEFNURÆÐA

 Frá því var greint í morgun (31.08.2015) að vegna boltaleiks í útlöndum , þar sem Íslendingar koma við sögu, verði hefðbundnum tíma á flutningi stefnuræðu forsætisráðherra breytt. Hún verði flutt að kvöldi þingsetningardags, ekki kvöldið eftir eins og venja hefur verið. Að sögn er þetta gert að ósk Ríkisútvarpsins. Íþróttadeildin stjórnar þá ekki aðeins dagskrá Ríkisútvarpsins, heldur einnig störfum SDG og Alþingis. Eða hvað? Gæti ekki verið að óskin um breytinguna hafi komið frá sjálfum SDG,forsætisráðherranum, sem óttast samkeppni um áhorf, þegar boltaleikur er annarsvegar? Það skyldi þó aldrei vera

 

HURÐ – HURÐIR

Les enginn yfir það sem skrifað er á svokallað Smartland mbl.is?

Þar var skrifað (25.08.2015): Húsið var end­ur­nýjað fyr­ir fá­ein­um árum og var þá skipt um gól­f­efni, inni­h­urðar og baðher­bergi. Innihurðar hvað? Það var skipt um innihurðir. Hurðar er eignarfall eintölu af orðinu hurð. Fleirtalan er hurðir. Svo var sagt að húsráðendur hefðu greinilega mikla rýmisgreind. Greind er sjálfsagt af ýmsu tagi og stundum ekki mjög rúmfrek.

 

LEGGUR OG STRÍPAÐAR BÆTUR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (27.08.2015) var sagt um flugfarþega, sem höfðu þurft að þola mikla seinkun á flugi: , ... áður en lokaleggur ferðarinnar hófst”. Auðrekjanlegt til áhrifa frá ensku.

 Í sama fréttatíma, eða í fréttaskýringu, var fjallað um bætur til ellilífeyrisþega. Þar var að minnsta kosti fjórum sinnum talað um strípaðar bætur. Ekki er Molaskrifari viss um að allir eldri borgarar hafi skilið þetta orðalag. Átt var við grunnbætur án viðbótargreiðslna. Fréttir Ríkisútvarps eiga að vera á vönduðu máli og öllum skiljanlegar.

 

FINDUS OG SANNLEIKURINN

Findus stórfyrirtækið heldur áfram að segja okkur ósatt. Heldur því  fram í sjónvarpsauglýsingum að hraðfryst grænmeti sé ferskara en ferskt (27.08.2015). Það stenst ekki skoðun. Við erum víst talin svo vitlaus, að það sé allt í lagi að segja okkur ósatt. Fyrir tveimur árum varð þetta sama fyrirtæki, Findus ,að biðjast opinberlega afsökunar á því að selja fólki hrossakjöt og kalla það nautakjöt. Sjá t.d. https://en.wikipedia.org/wiki/Findus

Á fyrirtækið ekki að biðjast afsökunar á því að segja okkur að frosið grænmeti sé ferskara en ferskt?

 (,,On 8 February 2013, Findus UK published a public apology on their website, also announcing that, following DNA testing, 3 of its products were found to contain horse tissue. These are the 320, 350 and 500 gram packages of Findus Beef Lasagne and the company offers a refund for products purchased.[23] In Sweden, Findus Sverige AB also announced a recall of its 375 gram packs of ready made single portion lasagne (code 63957) and published a contact number for customers who had already purchased the products”).[24]

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1782

 

AÐILAR OG EINSTAKLINGAR

Molavin skrifaði: ,,Baráttan við klúðursyrðin aðila og einstakling er löng og ströng. Þessi orð eiga sjaldnast við í fréttum, rétt eins og dæmið í Vísi í dag (26.8.2015): "Nítján ára karlmaður gaf sig fram við dönsku lögregluna í morgun og viðurkenndi að hafa ráðið þremur einstaklingum bana á bóndabæ við Gandrup á Norður-Jótlandi. Maðurinn er sagður hafa tengsl við fólkið, sem voru hjón og sonur þeirra." Semsagt: Maðurinn varð fjölskyldu að bana. Einfalt og skýrt mál er fallegast og skiljanlegast”.

Kærar þakkir, Molavin. Við höldum baráttunni áfram. En rétt er það; hún er löng og ströng.

 

ÞESS BER AÐ GETA ....

Það er ástæða til að árétta að Ríkissjónvarpið hefur tekið á sig á og sýnir nú fleiri, nýjar og vandaðar heimildamyndir og fréttaskýringaþætti en áður; þætti um sögu og samtímaviðburði. Það er lofsvert. Til skamms tíma var engu líkara en efni af þessu tagi væri á svörtum lista. Myndirnar hans Davids Attenboroughs eru fínar, oft hrein listverk úr náttúrunni, en eins og annað eiga myndir hans að koma í hæfilegum skömmtun.

 

ÞANÞOL ÞOLINMÆÐINNAR

 Það kemur fyrir í bílnum á morgnana, að Molaskrifari opnar fyrir símatíma Útvarps Sögu. Þanþol þolinmæðinnar til hlustunar varir þó aðeins fáeinar mínútur. Yfirleitt er þar sama fólkið að ræða það sama.

 Á miðvikudagsmorgni (26.08.2015) hringdi maður til stjórnanda þáttarins, sem er ,fyrir utan útvarpsstjórann helsti talsmaður stöðvarinnar. Sá sem hringdi sagði frá því, að hann hefði átt á fara í krabbameinssprautu í mars en ekki getað það fyrir fátæktar sakir, - sem er þessu ríka samfélagi til háborinnar skammar.
Þá spurði stjórnandinn: Hvers vegna þurftirðu að fara í krabbameinssprautu?

- Af því að ég er með krabbamein. svaraði maðurinn.

Molaskrifari er á því, að þarna hafi verið slegið nýtt met. Ætlar samt ekki að segja meira um það. Var þá líka fullreynt á þanþol þolinmæðinnar. Og snúið aftur til Rondós Ríkisútvarpsins FM 87,7 þar sem ævinlega er áheyrileg tónlist.

 

RÁÐHERRA SVARAÐI EKKI

Í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (27.008.2015) Var Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra spurð í beinni útsendingu hvort við Íslendingar ættum ekki að taka við fleiri flóttamönnum í ljósi þess sem aðrar þjóðir væru að gera. Ráðherra bar ekki við, reyndi ekki, að svara spurningunni. Talaði út og suður um hvernig flóttamönnum við tækjum við. Það á ekki að láta ráðherra komast upp með að svara alls ekki því sem um er spurt. Gerist því miður of oft.

 

GARGIÐ

Eins og flestir lessendur Molanna sjálfsagt vita, er Molaskrifari ekki einlægur aðdáandi boltaíþrótta í sjónvarpi og finnst Ríkissjónvarpið gera þeim of hátt undir höfði. Hann horfir hinsvegar stöku sinnum , þegar verið að keppa í frjálsum íþróttum, og spyr því enn og aftur: Hvers vegna þarf sá sem lýsir að garga á okkur sem heima sitjum? Garga eins og hann sé búinn að glata glórunni? Molaskrifari bregður stundum á það ráð að horfa á viðburðina í erlendum stöðvum þar sem lýsendur kunna sér hóf og sýna þeim sem heima sitja meiri kurteisi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1781

FULLT AF

Í auglýsingu á bls. 30 í Morgunblaðinu (24.08.2015) er kynnt útgáfa sérblaðs um heilsu og lífstíl föstudaginn 28. ágúst , - ætti raunar samkvæmt stafsetningarorðabók Molaskrifara að vera lífsstíl. Í auglýsingunni segir: Í blaðinu verður kynnt fullt af þeim möguleikum sem í boði eru fyrir þá sem stefna á heilsuátak og lífstílsbreytingu, ... enn vantar eitt s ! Varla verður sagt, að mikil reisn sé yfir þessum texta. Fullt af .....

 

LEKI?

Er það vatnsleki, þegar vatn flæðir upp úr veitubrunni, eins og segir í þessari frétt mbl.is (24.01.2015): http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/08/24/mikill_vatnsleki_i_kopavogi/

Ekki samkvæmt málkennd Molaskrifara. Svo koma aðilar að sjálfsögðu við sögu: ,, Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu eru aðilarn­ir á svæðinu þar sem „eitt­hvað stærra þarf að ger­ast“ svo hægt sé að koma í veg fyr­ir leka í framtíðinni. “ Ekki mjög skýrt.

 

ÉG OG ....

Í skóla var manni kennt að forðast eftir megni notkun fyrstu persónu fornafnsins ég. Menntamálaráðherra skrifar á fésbók (25.08.2015): ,,Í dag hófst Þjóðarátak í lestri með því að ég og Dagur Eggertsson borgarstjóri undirrituðum fyrsta sáttmálann”. Það hefði verið svolítið meiri hógværð í því að segja: ... með því að við Dagur Eggertsson ...”. En þetta er auðvitað bara spurning um smekk. Um hann verður víst ekki deilt.

 

SEKTIR

Í fréttum vikunnar var sagt frá því, að hundruð bíleigaeigenda hefðu verið sektaðir um tíu þúsund krónur hver fyrir að leggja bílum þar sem strangt tekið ekki mátti leggja. Ekki varð þó séð að þeir sem lögðu á grasi skammt frá BSÍ hafi stofnað öðrum í hættu. Margir vilja fara í miðbæinn á laugardegi menningarnætur. Íbúum á stóru svæði var meinað að aka að heimilum sínum þótt mikið lægi við. Sjálfsagt er að hafa hömlur á og takmarka umferð þennan dag, en jafn mikilvægt er að borgaryfirvöld séu sveigjanleg en mæti ekki borgurunum með hroka og ónauðsynlegri hörku eins og nú var gert. Molaskrifari er á því, að borgaryfirvöld ættu frekar að beita sér gegn því að bílar, sendibílar og jafnvel stærstu rútur, séu látnir ganga í lausagangi langtímum saman við gagnstéttir þar sem vegfarendur verða að vaða kóf dísilmengunar þegar gengið er fram hjá. Það virðist engin hugsun á því hjá stjórnendum borgarinnar. Engar sektir þar.

 

RÖNG DAGSKRÁ

Vikudagskrá sjónvarpsstöðvanna er dreift í öll hús í Garðabæ og sjálfsagt víðar. Þetta er frá fyrirtæki, sem áður var í eigu Ámunda Ámundasonar en ,,fjölmiðlamógull” Framsóknar mun nú hafa keypt. Oft er lítið að marka dagskrána. Á mánudag og þriðjudag í þessari viku var sagt, að Kastljós væri á dagskrá Ríkissjónvarps á mánudag og þriðjudag! Rangt. Raunar var mánudagskrá Ríkissjónvarpsins einnig röng um eitt atriði á mánudagskvöld á heimasíðu Ríkisútvarpsins. Vanda sig meira.

 

VILJA VITA

Í fréttum Stöðvar tvö (26.08.2015) var fjallað um tannskemmdir hjá mjög ungum börnum og sagt að vandamálið væri þó algengara en fólk vildi vita. Hefði ekki verið eðlilegra að segja að vandamálið væri algengara en fólk vildi viðurkenna, eða vera láta ?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1780

   

EFTIRMÁL- EFTIRMÁLI

Molavin skrifaði: "Þetta hef­ur American Ban­ker eft­ir Guðrúnu Johnsen í grein um eft­ir­mála banka­hruns­ins á Íslandi." Þetta er úr grein í Morgunblaðinu 21. ágúst og ljóst að ýmsir blaðamenn lesa ekki reglulega umfjöllun um málfar. Um mun á merkingu orðanna "eftirmál" og "eftirmáli" hefur verið rækilega og ítrekað fjallað á þessum vettvangi sem og í hinum ágæta, daglega málfarspistli Morgunblaðsins. Kæruleysi blaðamanna er á ábyrgð yfirmanna þeirra.

- Þakka bréfið, Molavin.- Hér er við blaðamann að sakast, - ekki þann sem vísað er til.

 

BER EKKI MIKIÐ Á SÉR

Þorvaldur skrifaði (24.08.2015): ,,Sæll Eiður.
Morgunblað dagsins segir frá gervigrasvelli á Álftanesi: "Hann ber ekki mikið á sér ennþá en á að verða hinn glæsilegasti".

Einnig segir frá fornleifaverði austur í Palmyra sem var "afhöfðaður af hermönnum".

Leiðinlegt að sjá svona meðferð á málinu í jafnágætu blaði”.

Kærar þakkir fyrir bréfið, Þorvaldur. Það skortir því miður á gæðaeftirlit með skrifum í Morgunblaðinu í þessum efnum, eins og fleiri fjölmiðlum reyndar, því miður.

 

ENDURTEKIÐ EFNI

Í gærkvöldi (25.08.2015) var sýnd frétt í Ríkissjónvarpinu um ostagerð og laukræktun í Rússlandi. Nákvæmlega sama frétt hafði verið sýnd áður í sama miðli. Hvað er að gerast?  Er engin verkstjórn lengur á fréttastofunni í Efstaleiti?

 Hve oft var okkur sögð fréttin af ólánssama stráklingnum sem óvart skemmdi verðmætt málverk á Taívan? Molaskrifari telur sig hafa heyrt hana allt að fimm eða sex sinnum. Alltaf var tekið fram að myndin hefði verið vel tryggð!!!    

 

STRENDUR ÞORLÁKSHAFNAR

T.H. skrifaði Molum (22.08.2015) og vísar til þessarar fréttar mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/08/22/leita_ad_byssum_18_aldar_herskips/

,,Stefnt er að því að gera út leiðang­ur til að finna keðjur, fall­byss­ur og bal­lest danska her­skips­ins Gauta­borg sem fórst við strend­ur Þor­láks­hafn­ar árið 1718."
Er það já? Strendur Þorlákshafnar geta nú vart verið margar; í albesta falli ein. – Réttmæt athugasemd. Undarlegt orðalag.

 

FJÖLMENNUR STOFN

Og hér er annað bréf frá T.H.:
,,Veiðimenn í Nýja Sjálandi voru fengnir til þess að grisja fjölmennan stofn en skutu þess í stað afar sjaldgæfa fugla"
Ég neita að trúa að hér hafi átt að grisja ,,fjölmennan stofn", því þá væri verið að biðja um manndráp. 
Fjölmenni = mannfjöldi.
Hér hlýtur að vera átt við stóran fuglastofn.” Rétt , T.H. Þakka bréfið. Þar að auki er fast í málinu að segja á Nýja Sjálandi, ekki í Nýja Sjálandi.

Sjá: http://www.dv.is/frettir/2015/8/21/drapu-5-af-villtum-stofni-afar-sjaldgaefra-fugla/


Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1779

ALVEG FYNDIÐ

G.G. skrifaði (22.08.2015): ,, Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta:
http://www.ruv.is/frett/malvilla-a-morg-thusund-verdlaunapeningum

Þetta er alveg fyndið..." sagði upplýsingarfulltrúi Íþróttabandalags Reykjavíkur um villu í áletrun verðlaunapeninga. Engan skyldi undra að hún rak ekki augun í þetta í byrjun! ,,Alveg" er nú troðið í ólíklegustu setningar. Þannig segir í prentuðu samkomulagi um félagslega ráðgjöf Reykjavíkurborgar, að beiðni þurfi að skila með skráningu á ,,alveg 4 störfum mánaðarlega." Líklega er átt við ,,að minnsta kosti". Borgin þarf greinilega málfarsráðgjöf!
http://www.visir.is/article/20150822/FRETTIR01/150829632
Molaskrifari þakkar ábendinguna. Þetta er borginni ekki til sóma. Fleiri aðstoðarmenn og ráðgjafa til ráðgjafar í ráðhúsinu!

 

UMRÆÐA TIL UMRÆÐU

Leiðari Morgunblaðsins á laugardag (22.08.2015) hefst svona: ,,Umræða um vopnasölubann á Rússland og viðbrögð rússneskra stjórnvalda við því hefur verið mjög til umræðu að undanförnu, sem von er ....”. Umræðan hefur verið til umræðu! Það var og. Skrítin hugsun. Molaskrifara finnst leiðarinn vera hálfgert sífur, sem að líkindum má rekja til þess hverjir hagsmunir eigenda Morgunblaðsins eru. http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/grein/1942700/

Leiðari Kristínar Þorsteinsdóttur í Fréttablaðinu sama dag er hinsvegar skrifaður af meiri yfirvegun, yfirsýn og skilningi, en leiðari Morgunblaðsins,sem vísað er til hér að ofan. http://www.visir.is/hvar-a-island-heima--/article/2015150829666

 

AÐ BRENNA FYRIR MÁLEFNI

Til að safna fé fyrir málefni,sem þú brennur fyrir. Eitthvað á þessa leið er tekið til orða í auglýsingu frá Íslandsbanka (Ríkissjónvarp 22.08.2015). Molaskrifara finnst þetta vera ambaga. Safna fé fyrir málefni, eða málstað, sem þú hefur brennandi áhuga á, er sennilega það sem átt er við.

 

GERT ÚT Á GLEYMSKUNA

Oft er gaman að Staksteinum Moggans. Þar er í dag (25.08.2015) gert út á fáfræði  eða gleymsku lesenda. Óspart er gert grín að því að starfsmenn ESB hafi farið í sumarfrí. Tók ekki ríkisstjórn Íslands sér 40 daga sumarfrí í sumar , það lengsta í sögu nokkurrar ríkisstjórnar á Íslandi? Ríkisstjórnin var yfirleitt ekkert  til viðtals þá  daga.,,Ekki náðist í ráðherra við vinnslu fréttarinnar”.Heldur Moggi að þjóðin hafi ekkert tekið því? Moggamenn þekkja sennilega ekki mikið til í Evrópu. Ekki frekar en öðrum útlöndum. Í Evrópu taka langflestir sér sumarfrí á sama tíma. Norðmenn tala um síðustu þrjár vikurnar í júlí sem fellesferien. Sunnar í Evrópu er ágúst sumarleyfamánuðurinn. Þá eru fjölmörg fyrirtæki og stofnanir lokaðar.

 

AÐ SETA HÁTÍÐ

Svo mun borgarstjóri seta hátíðina, eitthvað á þessa leið sagði viðmælandi, sem talaði fyrir hönd Reykjavíkurborgar við fréttamann Bylgjunnar í hádeginum á laugardag (22.08.2015). Sögnin að seta er ekki til. Átt var við að borgarstjóri mundi setja hátíðina, lýsa yfir að hún væri formlega hafin.

 

BAK VIÐ HÁLSINN?

Úr frétt á mbl.is (22.08.2015):, ,,Hann skar hann bak við háls­inn og skar nán­ast af hon­um þumal­inn líka”. Bak við hálsinn? Ekki vel orðað. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/22/skilid_byssunni_minni/

Skar hann á hálsinn aftan til, hefði til dæmis verið ögn betra. Í íslensku gerum við ekki greinarmun á hálsinum að innan og utan eins og gert í ensku, throat og neck. Ég er með hálsbólgu. Ég er með hálsríg.

Um þetta skrifaði T.H. Molum (22.08.2015): "Hann skar hann bak við háls­inn ..."
Ef þessi háls er í landslagi, væri kannski eðlilegra að segja "handan við hálsinn", en ef hér er átt við líkamshluta er "á bak við hálsinn" í lausu lofti. Kannski er átt við að maðurinn hafi verið skorinn aftan á hálsinn, en þá á líka að segja það og ekki svona bull. Læra fréttabörnin ekkert? - Kærar þakkir, T.H.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1778

   

ÓMAR KVADDI VÍSU

G.G. skrifaði (20.08.2015) og vísar til viðtals við Ómar Ragnarsson,sem var á ferð á rafknúnu reiðhjóli frá Akureyri til Reykjavíkur og sló víst nokkur met í ferðinni: "...þú kvaddir vísu á leiðinni...", sagði umsjónarkona þáttar á RÚV, í símtali við Ómar Ragnarsson! Kvaddi hann margar hálfkveðnar vísur á leiðinni, hver veit? En tilgangurinn var að biðja Ómar að fara með vísu sem hann "kvað". Molaskrifari þakkar ábendinguna og getur lítið annað sagt, en: Ja, hérna!

LOKANIR LEYSTAR UPP

Á vef Ríkisútvarpsins (20.08.2015) er vitnað í bréf frá Reykjavíkurborg til íbúa á svæði í borginni sem lokað verður fyrir bílaumferð á laugardag vegna menningarnætur. Í tilvitnuninni segir: ,,Þá segir að ekki sé hægt að komast aftur með farartæki inn á hátíðarsvæðið fyrr en lokanir hafa verið leystar upp.” Lokanir leystar upp? Hvernig er það gert? Væri ekki eðlilegra að tala um að aflétta lokunum, opna að nýju, frekar en að leysa lokanir upp? Borgarstjóri þarf málfarsráðunaut.

 

KENNSL

Af mbl.is (20.08.2015): ,,Enn hef­ur ekki verið bor­in kennsl á lík karl­manns­ins sem fannst við Sauðdráps­gil í Laxár­dal í Nesj­um í gær.” Orðið kennsl er fleirtöluorð. Ekki til í eintölu. Því ætti að standa þarna: ,,Enn hafa ekki verið borin kennsl á líkið, -- enn er ekki ljóst hver þetta var .

 

ALGENG VILLA

Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (20.08.2015) voru sýndar myndir frá kínversku hafnarborginni Tianjin þar sem gífurleg sprenging olli nýlega miklum mannskaða og gífurlegu tjóni. Um myndirnar sagði fréttamaður:,, ... virðast sýna dauða fiska,sem rekið hafa á land”.  Hér hefði átt að  tala um fiska sem hefði rekið á land. Fiskarnir ráku ekki á land. Fiskana rak á land. Á þessu er munur.

 

 

 

BJÓRÁRÓÐUR RÍKISSJÓNVARPS

Kjarni umfjöllunar Ríkissjónvarpsins í fréttum um Menningarnótt í Reykjavík á laugardag/laugardagskvöld (22.08.2015) var áróður og auglýsing fyrir bjórdrykkju. Furðulegt. Stundum er það í Efstaleiti eins og menn hvorki skeyti um skömm né heiður. Vita ekki hvað til síns friðar heyrir.

 

HELGARVIÐVANINGAR

Hversvegna heyrir maður aftur og aftur að svo virðist sem viðvaningar séu nokkuð oft látnir sjá um og lesa fréttir í Ríkiútvarpinu um helgar og á nóttinni ? Halda yfirmenn að við heyrum þetta ekki?

Nýliða á að þjálfa og þeim þarf að leiðbeina, áður en þeir byrja að lesa fréttir fyrir okkur.

 

GÓÐUR ÞÁTTUR UM GYLFA Þ.

Firna góður þáttur í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (23.08.2015) um Gylfa Þ. Gíslason. Gylfi var meðal merkustu stjórnmálamanna 20. aldar. Hann og Bjarni Benediktsson brutu haftakerfið á bak aftur og beittu sér fyrir aðild okkar að EFTA, þegar Viðreisnin var við völd. Molaskrifari naut þeirra forréttinda að kynnast Gylfa, og starfa í námunda við hann, ekki síst á Alþýðublaðsárunum. Þessi þáttur var vandaður og vel unninn. Það á raunar við um fleiri Íslendingaþætti sjónvarpsins. Andrés Indriðason á miklar þakkir skildar  fyrir  þá natni og alúð,sem hann hefur lagt í þessa þætti. Takk.

 

SKEMMTILEGASTA GATAN

Sennilega er Skólavörðustígurinn orðin skemmtilegasta gatan í Reykjavík. Molaskrifari gekk Skólavörðustíginn fram og til baka í blíðunni á fimmtudag í liðinni viku. Þarna var iðandi mannlíf; margir á ferli. Ekki bara ferðamenn. Verslanir og veitingastaðir af öllu tagi. Hægt að fá sér kaffisopa inni eða úti. Svolítill útlandabragur sveif yfir þessari gömlu götu.

Gönguferðinni lauk í Hallgrímskirkju þar sem tveir snillingar voru að æfa sig fjórhent á orgelið magnaða, - sennilega í tengslum við Kirkjulistahátíðina. Svo sannarlega ómaði kirkjan öll, eins og þar stendur. Það var góður endir á stuttri gönguferð.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1777

MÁLFAR Í ÍÞRÓTTAFRÉTTUM

 Velunnari Molanna skrifaði (19.01.2015) : ,,Blessaður, Eiður.

 Það er til að æra óstöðugan að amast við málfari íþróttafréttamanna, eins og við höfum áður rætt, og ekki því að heilsa að þeir "standi uppi sem sigurvegarar" á þeim velli eða vinni þar "sannfærandi sigra". En ekki er ótítt að þeir "fari alla leið" í vitleysunni, sbr. forsíðu íþróttablaðs Mbl. í morgun, 5 dálka frétt. Þar segir frá því að fótboltamaður nokkur hafi verið "sannarlega allt í öllu þegar Manchester United sneri aftur á FJALIR Meistaradeildar Evrópu..." Hvað skyldi leikhúsfólk segja um þetta?!” Bréfritari segir líka:

 ,, Eitt sem ég hnýt iðulega um í hljóðvarpinu er að komið er langt út í fréttina, þegar loks er nefnt hvaða íþrótta/boltagrein eða keppni um er að ræða. Eðlilegra þætti mér að snúa þessu sem mest við.

 Dæmi (tilbúið): Jón Jónsson stóð sig frábærlega í gærkvöldi, þegar hann skoraði sigurmark Gróttu í húðarrigningu í viðureigninni við FH á Kaplakrikavelli, þar sem félögin áttust við í undanúrslitaleik Pepsi deildarinnar í fótbolta.

 Það eru væntanlega úrslitin sem eru aðalfréttin og hvort þetta var fótbolti, handbolti, körfubolti.” Molaskrifari þakkar bréfið og réttmætar ábendingar,

- Já, hvað skyldi leikhúsfólk segja um fjalirnar? Íþróttafréttamenn eiga að leggja rækt við vandað málfar, - rétt eins og aðrir fréttamenn.

 

VERÐA AF ...

K.Þ. vekur athygli á eftirfarandi á pressan.is (18.08.2015): "Áætlað er að Litháen verði að um 2,6 prósentu af landsframleiðslu sinni ..."

http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/08/18/lithaen-fornar-umtalsvert-meiru-en-island/

Molaskrifari þakkar ábendinguna. Það er því miður æ algengara að fréttaskrifarar skynji ekki, eða skilji ekki til hlítar muninn á af og á.

 

HRÓS

Spegill Ríkisútvarpsins fær hrós fyrir  vandaða umfjöllun að undanförnu um nýtingu jarðvarma hér á landi. Jón Guðni Kristjánsson hefur mest fjallað um þetta. mikilvæga mál. Síðast í gærkvöldi var mjög fróðlegt (20.08.2015) viðtal  við Stefán Arnórsson, prófessor emerítus. Það hljómar ekki vel, heldur afar illa og er grafalvarlegt mál, að ekki hefur verið hlustað á aðvaranir vísindamanna og leikmanna   (Ómars Ragnarssonar, til dæmis) um að alltof hart sé framgengið og nýting jarðhitans sé ekki sjálfbær, heldur megi fremur líkja henni við námavinnslu, þar sem náman  tæmist og orkan gengur til þurrðar. Það segir sig sjálft, ef bora þarfa nýja holu árlega til að halda framleiðslu Hellisheiðarvirkjunar sæmilega í horfinu, - - þá er eitthvað að. Það hljómar líka einkennilega, einnig í eyrum leikmanns, að hitasvæðum eins og Hengilssvæðinu og Reykjanesinu sem eru jarðorkuheildir, skuli skipti í vinnslusvæði og litið á hvert svæði sem sjálfstæða einingu. Allt hangir þetta saman.

Það má til dæmis ekki gerast að virkjunarvörgum,sem Molaskrifari leyfir sér að kalla svo, sé sleppt lausum og þeim leyft að eyðilegga Eldvörpin , einstæða 10 km langa gígaröð skammt frá Grindavík. Það yrðu ekki aðeins óafturkræf, heldur ófyrirgefanleg náttúruspjöll. Það má ekki gerast. – Nú eigum  við að hlusta á varnaðarorðin og staldra við. Ekki halda klúðrinu áfram.

 

BLÆS EKKI BYRLEGA

Tvisvar sinnum með skömmu millibili hefur Molaskrifari heyrt fréttamenn segja:,, Það blasti ekki byrlega fyrir .....” Þegar átt var við að horfur væru ekki góðar, útlitið framundan ekki gott. Á miðvikudagskvöld sagði reyndur fréttamaður Stöðvar tvö: ,,Það blasti ekki byrlega fyrir byggðinni hér á Þingeyri, þegar ...” Rétt hefði verið að segja, - Það blés ekki byrlega fyrir byggð hér á Þingeyri, þegar .... - Horfurnar voru sem sé ekki góðar. – Lesandi benti á í athugasemd, að fréttamaður hefði sagt billega , en ekki byrlega.  Það heyrði Molaskrifari hins vegar ekki.

http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV551A8904-84F7-4F81-8335-5232C837F086

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1776

 

BLÉST UM KOLL

Gunnsteinn Ólafsson benti á þetta af mbl.is (17.08.2015). Fréttin var um sprengingu í Bangkok: „Þetta var svo kröft­ug spreng­ing að ég blést hrein­lega um koll og það gerðist líka fyr­ir aðra. Það féll mikið til ofan á mig,“ seg­ir Si­efert. „Ég var smurður svo miklu blóði að ég var ekki viss um hvort ég væri sjálf­ur særður. En það kom í ljós að ég var það ekki. Þetta var blóð úr öðrum.“

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/17/smurdur_blodi_annarra/

Hér má bæta við  við: Fréttabörn  ganga laus á mbl.is. Enginn virðist þarna hafa verið á vaktinni til að gæta þeirra. Þakka ábendinguna, Gunnsteinn.

 

GERÐARDÓMI VAR GERT ....

Af vef Ríkisútvarpsins (18.08.2015): ,,Gerðardómur var gert að horfa til sambærilegra kjarasamninga sem gerðir höfðu verið við sambærileg stéttarfélög að undanförnu.” Gerðardómur var ekki gert.... Gerðardómi var gert að horfa til ... Einnig má hér nefna nástöðu.

 

FLEIRI ORÐ UM ENDURSÝNINGAR

Í prentaðri dagskrá í Morgunblaðinu er þess getið að tveggja eða þriggja ára gamlir Andralandsþættir séu gamalt efni, endursýnt (17.08.2015). Frá því er hinsvegar ekki greint í þeirri dagskrá, sem birt er á skjá Ríkissjónvarpsins. Er þessi sífelldi feluleikur hluti af dagskrárstefnu nýrra stjórnenda í Efstaleiti? Hversvegna má ekki segja okkur satt í dagskrárkynningum?

 

ATHYGLISVERT VIÐTAL

Molaskrifara þótti athyglisvert að hlusta á viðtal Óðins Jónssonar við Pawel Bartoszek um viðskiptaþvinganir Rússa gagnvart Íslendingum og samstöðu með bandamönnum okkar í Morgunútgáfunni að morgni miðvikudags (19.08.2015). Viðtalið má heyra hér: http://www.ruv.is/sarpurinn/klippa/afstadan-til-russlands-pawel-bartoszek

 

 

 

ÞÁGUFALL – BEYGINGAR

Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1700 (19.08.2015) sagði fréttamaður: ,,... þar sem skólakerfinu skorti fjármagn ..”. Les ekki fréttastjóri/ vaktstjóri fréttirnar yfir áður en þær eru lesnar fyrir okkur? Í fréttum sama miðils klukkutíma síðar sagði fréttamaður um fyrirhugaða risahöfn í Finnafirði: ,,... hann segir að upplýsingar um öldufar og veðurfar verði safnað næstu tvö árin að minnsta kosti”. Upplýsingum verður safnað. - Í sama fréttatíma var talað um að kjósa gegn samningi. Betra og réttara orðalag hefði verið að tala um að greiða atkvæði gegn samningi. Þetta hefur svo sem verið nefnt áður í Molum.

Það er þýskt fyrirtæki, Bremenports, sem sagt er standa fyrir margháttuðum og dýrum  rannsóknum vegna stórskipahafnar í Finnafirði. Þjóðverjar eru ekki sérstök siglingaþjóð svo vitað sé. Hversvegna spyr enginn fréttamaður eða kannar hvað liggi að baki þessum mikla áhuga Þjóðverja á hafnargerð í Finnafirði? Er Bremenports ef til vill að vasast í þessum rannsóknum fyrir hönd einhvers annars? Hefur verið spurt um það?

 

FORSÍÐUMYND MOGGANS

Morgunblaðið birti í gær (19.08.2015) fjögurra dálka forsíðumynd af sendiherra Rússlands þar sem hann kemur til fundar við ÓRG á Bessastöðum um viðskiptabannið.

Fréttablaðið segir frá fundinum, en birtir ekki mynd.

Spurningar vakna hjá gömlum fréttamanni:

Lét forsetaskrifstofan Morgunblaðið vita af fundinum?

Var öllum fjölmiðlum sagt frá fundinum?

Var fundurinn, ef til vill haldinn að frumkvæði Morgunblaðsins?

Eða var árvökull ljósmyndari Morgunblaðsins bara á langri biðvakt við Bessastaði?

Hugsanlega var hann staddur þarna af einskærri tilviljun.

Alla vega vissi Morgunblaðið nákvæmlega hvað stæði til og hvenær.

Ekki varð Molaskrifari þess var, að sjónvarpsstöðvarnar birtu myndir af komu rússneska sendiherrans til Bessastaða.

Hafi svo verið, hefur það farið fram hjá honum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1775

  

VIÐTENGINGARHÁTTUR

Vaxandi tilhneiging virðist til að nota viðtengingarhátt í fyrirsögnum þar sem betra væri að nota framsöguhátt. Dæmi af fréttavef Ríkisútvarpsins (17.08.2015): Rússar finni lítið fyrir þvingununum. http://www.ruv.is/frett/russar-finni-litid-fyrir-thvingunum

Eðlilegra og skýrara hefði verið að segja: Rússar finna lítið fyrir þvingununum.

 

SPENNIR KOMST Í REKSTUR

Ekki kann Molaskrifari að meta orðalag á mbl.is (17.08.2015),sem notað er í frétt um spenni sem bilaði og þurfti að taka varaspenni í notkun. Í fréttinni á mbl.is segir: ,, Flutn­ing­ur­inn gekk vel og var haf­ist handa við að skipta um spenni í Rima­kot­stengi­virk­inu í gær­morg­un. Það reynd­ist tölu­verð vinna en gekk vel og komst vara­spenn­ir­inn í rekst­ur um kl. 20 í gær­kvöldi.” Komst spennirinn ekki í gagnið, var hann ekki tekinn í notkun, eða tengdur? Hálf ankannalegt að tala um rekstur í þessu sambandi. Kannski er það sérviska.

 

LITLU NÆR

Molaskrifari játar eftir að hafa hlýtt á langt viðtal (17.08.2015) um vandamál heimilislausra í Reykjavík við formann Velferðarráðs borgarinnar, að hann er ákaflega litlu nær.

Að hluta virtist tilefni viðtalsins vera að kynna leiksýningu í Herkastalanum á Menningarnótt með þátttöku heimilislausra.

Það var svo sem ágætt.

 

AÐ LESA OG HLUSTA

Sjálfsagt flokka margir það undir mismæli, þegar þrautreyndur þulur í hádegisfréttum Ríkisútvarps (17.08.2015) talar um íslenska þjóðfélagið sem 330 manna samfélag. Molaskrifari hallast þó ekki að því að kalla þetta mismæli. Heldur skort á einbeitingu. Þulurinn er ekki að hlusta á það sem hann les. Þetta þekkir Molaskrifari af eigin raun. Það er óþægileg tilfinning að gera sér allt í einu grein fyrir því að maður veit eiginlega ekkert hvað maður var að lesa. Þetta hygg ég að flestir fréttaþulir hafi fengið að reyna. Aldrei má slaka á einbeitingunni. Aldrei hætta að hlusta.

 

 

HÚS ÚR TRÉI!

Svo kemur hér í lokin endemisfrétt af pressan.is (16.08.2015). Þar er þetta gullkorn: ,, Húsið er byggt úr tréi og því er mjög erfitt fyrir slökkviliðsmenn að slökkva eldinn.”

http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/eldur-i-aldagomlu-hverfi-i-svithjod--ein-latin

Það var og.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar miðla 1774

 

STÖÐVAST - STAÐNÆMAST

T.H. skrifaði (15.08.2015). Hann vekur athygli á þessari frétt á visir.is (15.08.2015): http://www.visir.is/fjarlaegdu-langt-ror-ur-nefi-skjaldboku---myndband/article/2015150819337

Hann segir síðan:"Sá sem setur myndbandið inn skrifar einnig að blæðingin hafi staðnæmst nánast samstundis og rörið var komið út."
Það þarf líklega að útskýra muninn á "að staðnæmast" og "að stöðvast" fyrir fréttabörnunum!”

Þakka bréfið, T.H. Það virðist stundum lítið um leiðbeiningar eða verkstjórn á ritstjórnarskrifstofum netmiðla.

 

AÐ EN EKKI AF

K.Þ. benti Molaskrifara á þessa frétt á mbl.is (16.08.2015): http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/16/leita_byssumanna_i_paris/

"Leit er haf­in af tveim­ur byssu­mönn­um..." Hann spyr: ,,Að hverju skyldu byssumennirnir vera að leita?

Ótrúlega er orðið að að heyra sagt og sjá skrifað að leita af einhverju, í stað þess að leita að einhverju.

 

EKKI RÉTT

Í Morgunblaðinu (15.08.2015) segir á bls. 19. um grindhvalaveiðar Færeyinga: ,,Grindhvalaveiðar fara þannig fram að hvölunum er smalað upp í fjöru þar sem veiðimenn keppast við að drepa þá með skutlum”. Þetta er ekki rétt t. Skutlar eru ekki notaðir við grindhvaladráp. Hvalirnir eru reknir á land þar sem sandfjara er. Síðan eru notaðir flugbeittir hnífar og skorið þvert yfir, rétt aftan við hausinn, þannig að mænan fer í sundur. Hvalirnir drepast á nokkrum sekúndum.   

 

NÖFN OG BEYGINGAR

Molaskrifari vekur athygli á prýðilegum pistli á bls. 22 i Morgunblaðinu (15.08.2015), Tungutaki. Höfundur er Eva S. Ólafsdóttir Í pistlinum er margar þarfar og réttmætar ábendingar.

 

EKKI VEL SKRIFAÐ

Þessi frétt af visir.is (15.08.2015) er ekki vel skrifuð. Hún er sannast sagna alveg óvenjulega illa skrifuð. Það er ekki skýr hugsun að baki þessum skrifum: http://www.visir.is/mikid-um-stuta-i-borginni/article/2015150819360

Blaðamaðurinn sem skrifar  leggur nafn sitt við fréttina. Aðhald ætti að felast í því að birta nafn þess, sem skrifar fréttina á netmiðlinum. Þessi fréttaskrifari þarf leiðsögn.

Reyndar ekki sá eini!

 

SLÆM FYRIRSÖGN

Ekki var hún góð fyrirsögnin á dv. is (15.089.2015): ,,Rússabannið byrjað: Mörg hundruð tonn af loðnuhrognum siglt aftur til Íslands.” Sjá: http://www.dv.is/frettir/2015/8/15/lodnuhrogn-leid-til-russlands-siglt-aftur-til-islands/

Enn eitt dæmið um skort á gæðaeftirliti. Viðvaningar, sem eru ódýrt vinnuafl, skrifa. Enginn les yfir eða leiðréttir. Allra síst um helgar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband