31.7.2015 | 09:29
Molar um málfar og miðla 1763
FRAMKVÆMD MANNVIRKJA
Ástæðan er gríðarlegur kostnaður við framkvæmd mannvirkja,sem tengjast leikunum, var sagt i í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (28.07.2015) Fréttin var um þá ákvörðun yfirvalda í Boston að sækjast ekki eftir því að halda Ólympíuleika. Hér var átt við mikinn kostnað við mannvirkjagerð. Framkvænd mannvirkja er út í hött. Það þarf að lesa yfir, áður en lesið er fyrir okkur.
AUGLÝSING - EKKI FRÉTT
Þessi skrif á svokölluðu Smartlandi Morgunblaðsins (28.07.2014) um nýjar íbúðir sem eru til sölu í Garðabæ eru ekki frétt. Þau eru hrein og ómenguð auglýsing. Á Norðurlandamálunum var þetta í gamla daga kallað tekstreklame og þótti ómerkilegt og ekki fagmennska.. Hálfgert hórerí, svo notuð sé sletta.
Það er skylda Morgunblaðsins eins og annarra fjölmiðla að greina skýrt milli auglýsinga og efnis frá ritstjórn. Lesendur eiga kröfu á því. Afturför frá fyrri tíð, þegar Moggi var og hét. Sjá : http://www.mbl.is/smartland/
UNDARLEGT
Í seinni fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (30.07.2015) var sagt frá hækkun sekta fyrir misnotkun bílastæða fyrir hreyfihamlaða. Það er þörf aðgerð. Fréttinni fylgdi mynd af bíl Ríkissjónvarpsins ,sem Molaskrifari gat ekki betur séð en lagt væri í stæði fyrir hreyfihamlaða! Hvaða tilgangi átti það að þjóna? Dómgreindarbrestur eða bara kjánagangur.
ÍSHELLA
Á mbl.is (29.07.2015) er sagt frá rússneskum þyrluflugmanni sem bjargaðist naumlega er þyrla hans hrapaði í sjóinn vestur af Grænlandi norðanverðu. Hann komst við illan leik upp á jaka, sem mbl.is kallar íshellu. Fyrirsögnin er: Lifði af í 32 klukkustundir á íshellu. Raunar finnst Molaskrifara í-inu ofaukið í fyrirsögninni. En svo segir í fréttinni: Hann synti þá að íshellu í hafinu og tókst að komast upp á hana. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/29/lifdi_af_i_32_klukkustundir_a_ishellu/
Í fréttinni er talað um neyðarskilaboð. Við tölum um neyðarkall.
GÚRKUMET
Vangaveltu,,frétt Ríkissjónvarps um forsetakjör (28.07.2015) var dæmigerð gúrkufrétt, - löng frétt um lítið efni á fréttalitlum degi. Merkilegt hvað hægt að var teygja úr þessu og meira að segja bætt við viðtali við sagnfræði dósent, sem bætti engu, sem máli skipti, við fréttina.
Sjá: http://www.ruv.is/frett/dyrnar-ad-bessastodum-standa-galopnar
ÖFUGT
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (29.07.2015) var talaði um bæinn Blekinge i Karlskrona. Blekinge er hérað, Karlskrona er borg. Í Blekingehéraði eða léni í í Svíþjóð. https://en.wikipedia.org/wiki/Karlskrona
ILLA SKRIFAÐ
Hér er dæmi um einstaklega illa skrifaða frétt á dv.is. Í fyrstu setningunni eru tvær villur. Annað er eftir því.
Það ber ekki vott um mikinn faglegan metnað að birta svona illa unnið efni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2015 | 09:20
Molar um málfar og miðla 1762
AUSTUR AF SVÍÞJÓÐ
Glöggur Molalesandi sendi eftirfarandi (28.07.2015): ,,Ég var mikið nær um kafbátafundinn eftir að ég las þetta á vísi:
Kafarar fundu bátinn um þremur kílómetrum austur af Svíþjóð eftir að upplýsingar bárust um hnit frá íslensku fyrirtæki.
http://www.visir.is/kafbaturinn-sokk-liklegast-arid-1916/article/2015150729167
Molaskrifari þakkar ábendinguna. Í fréttinni er líka talað um hvíldarstað bátsins. Báturinn mun hafa sokkið árið 1916 eða fyrir tæpri öld. Fésbókarvinur sagði frá því, að í útvarpsfréttum sama dag hefði verið sagt, að báturinn hefði verið vel með farinn! Vel varðveittur, var sennilega það sem átt var við.
ÓLAVSVAKA
Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með útsendingum færeyska sjónvarpsins frá Ólavsvöku, þjóðhátíð Færeyinga.Þakkir til Sjónvarps Símans fyrir að gera mögulegt að horfa á færeyska sjónvarpið.
Lögmaðurinn í Færeyjum, Kaj Leo Johannesen hefur boðað til kosninga í Færeyjum þriðjudaginn 1. September. Í fréttum hér hefur ýmist verið sagt að hann hefði tilkynnt þetta í hátíðaræðu eða Ólavsvökuræðu. Hann tilkynnti þetta í yfirlits- og stefnuræðu,eiginlega þingsetningarræðu, - Lögþingið er jafnan sett þennan dag, 29. júlí, á Ólavsvöku. Ræðuna kalla Færeyingar Lögmannsræðuna.
REKA - REKJA
T.H. benti á þessa frétt á mbl.is (27.07.2015) http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/26/cecil_fannst_afhofdadur_og_fleginn/
Hann segir: ,,Hér er ruglað saman sögnunum "að reka" og "að rekja" og útkoman ekki góð.
Í umræddri frétt segir: ,, Veiðimennirnir ráku síðan slóð ljónsins í 40 klukkustundir áður en þeir drápu það með riffli.. Það er rétt. Útkoman er ekki góð. Molaskrifari þakkar ábendinguna.
KLÚÐUR
Ríkissjónvarpið notast við niðursoðnar dagskrárkynningar, sem eru teknar upp löngu fyrir fram. Þess vegna er ekki hægt að bregðast við neinu óvæntu, sem upp kann að koma í útsendingu og það skapar líka möguleika á klúðri eins og í gærkvöldi (29.07.2015). Að loknum tíu fréttum var kynnt dagskrá kvöldsins eins og kvölddagsráin væri að hefjast! Engin leiðrétting. Engin afsökun. Ekki frekar en venjulega.
FYRIR AFTAN DYR
T.H. sendi einnig (27.07.2015) þessa ábendingu vegna fréttar á visir.is. Sjá: http://www.visir.is/thaer-tvaer-viltu-ekki-bara-flytja-inn-i-mylluna-/article/2015150729336
Hann segir: "Það er ekki alltaf fallegt að sjá eintalið sem fer fram fyrir aftan luktar dyr baðherbergisins Venjan er að sagt sé: ... bak við luktar dyr. Að eitthvað sé fyrir aftan dyrnar felur í sér nokkuð aðra staðsetningu, eftir minni málvenju. Rétt er það. Molaskrifari þakkar bréfið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2015 | 09:57
Molar um málfar og miðla 1761
ÍSLENDINGAR
Íslendingaþættir Ríkissjónvarpsins eru gott efni. Gaman var að sjá þáttinn um Sigurð Sigurðsson (26.07.2015). Við unnum nánast hlið við á gömlu fréttastofunni á fyrstu árum sjónvarpsins. Skemmtileg myndin af Sigurði undir lok þáttarins, með sígarettuna við Smith Corona rafmagnsritvélina. Þær þóttu merkilegar á þeim tíma, - en voru gallagripir með alltof stórum valsi. Hentust til á borðinu þegar skipt var um línu. Molaskrifari á reyndar eina slíka með minni valsi, handvirkum, hún reyndist vel. Er nú sjálfsagt forngripur. Vann í happdrætti og keypti mér ritvél. Þótti hálfgerður flottræfilsháttur hjá ungum blaðamanni að kaupa rafmagnsritvél. . Hafði aldrei átt ritvél áður. Fékk að bera heim Erika ferðavél af Alþýðublaðinu til að nota við heimaþýðingar. En mín Smith Corona reyndist mér vel.
Nákvæmlega svona man ég Sigga Sig. Orðinn svo gamall, að ég man vel eftir föður hans, Sigurði kaupmanni Sigurðssyni í Þorsteinsbúð á horni Flókagötu og Snorrabrautar, - áður Hringbrautar. Hann var alltaf vestisklæddur innan við búðarborðið, - ekki í slopp eins og flestir sem afgreiddu í nýlenduvöruverslunum í gamla daga. Kona Sigurðar, Þórey Þorsteinsdóttir, rak verslunina ásamt börnum þeirra um árabil eftir lát Sigurðar.
Svo var þessi þáttur líka prýðileg heimild um gömlu sundlaugarnar í Laugardal.
Þátturinn um Sigurð hefur verið sýndur áður. Hversvegna sýnir Ríkissjónvarpið okkur ekki þá sjálfsögðu kurteisi að segja frá því þegar verið er að endursýna efni og segja þá jafnfram hvenær það var fyrst sýnt?
AFAR SLASAÐUR
Undarlegt orðalag í frétt á mbl.is (27.07.2015): Þegar hann kom á staðinn var annar þeirra enn á lífi en afar slasaður og lést hann stuttu síðar. Undarlegt orðalag. Varla hefur vanur maður verið þarna að verki. Hér hefði fremur átt að segja: Mikið slasaður eða alvarlega slasaður. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/27/stungu_ser_i_toma_laug/
ÓFYRIRLEITNI
Ófyrirleitni Ríkisútvarpsins, þegar kemur að því að auglýsa áfengi og brjóta þannig lög landsins virðast lítil takmörk sett. Þess vegna færir sig stofnunin sig stöðugt upp á skaftið í trausti þess að ráðamenn geri ekki neitt. Þeir gera ekki neitt og hafa því reynst traustsins verðir.
Það er næstum dapurlega skondið að í einni af bjórauglýsingum Ríkissjónvarpsins, sem dunið hafa á okkur að undanförnu þar sem sjónvarpið þykist vera að auglýsa óáfengan bjór (undir 2,25% að styrkleika) skuli vera sagt við okkur í skjátexta: Njótið af ábyrgð. Þurfa þeir sem drekka óáfengan drykk að sýna einhverja sérstaka ábyrgð við neysluna? Þessi orð Njótið af ábyrgð eru auðvitað staðfesting þess að Ríkissjónvarpið er að auglýsa áfengi. Það þarf ekki að hvetja fólk til ábyrgðar við neyslu venjulegs svaladrykks, eða hvað ?
Ætla ráðamenn ekkert að gera?
Sú var tíðin, að í auglýsingareglum Ríkisútvarpsins var ákvæði um að auglýsingar skyldu vera á lýtalausri íslensku. Mér tekst ekki að finna þetta ákvæði í reglum á heimasíðu Ríkisútvarpsins. Kannski hafa ráðamenn stofnunarinnar, sem á standa sérstakan vörð um tunguna, fellt það niður. Kannski.
Kannski er það í skjóli þess að á okkur dynur bjórauglýsing sem er að hálfu á ensku í dýrustu (væntanlega) auglýsingatímunum rétt fyrir fréttir. Til dæmis rétt fyrir kl 1800 á mánudag (27.07.2015) Þar er verið er að auglýsa bjór Á ensku í íslensku Ríkisútvarpi.
Og enn er spurt: Ætla ráðamenn ekki að gera neitt.
Er menntamálaráðherra bara alveg sama?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2015 | 09:03
Molar um málfar og miðla 1760
ÁHÆTTUR
Molavin skrifaði (27.07.2015): "Dómarinn fékk heilahristing við að fá boltann í höfuðið og var ákveðið að taka engar áhættur með hann." Vísir 27.07 2015. Hvað næst? Ófærðir á vegum, neyðarástönd á sjúkrahúsum eða veðurblíður á landinu? Já, von er að spurt sé. Þakka ábendinguna, Molavin.
ENGIN STOÐ FYRIR
,,Engin stoð fyrir gífuryrði Ólafs, segir í fyrirsögn á mbl.is (25.07.2015) og er þar vitnað til ummæla forstjóra MS. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/07/25/engin_stod_fyrir_gifuryrdi_olafs_2/
Málkennd Molaskrifara segir honum að þetta sé ekki vel orðað. Kannski er það rangt. MS forstjórinn á við að enginn fótur sé fyrir orðum Ólafs. Þau séu tilhæfulaus.
AUSTAN LOGN
Ekki heyrði skrifari betur en í veðurlýsingu Veðurstofunnar á sunnudagsmorgni (26.07.2015) væri sagt að á Akureyrarflugvelli væri austanlogn. Það var sem sagt austanátt í logninu. Greinilega öndvegisveður.
HRESSANDI JÓN BALDVIN
Það var hinsvegar ekkert logn og alls ekki austanlogn, í Jóni Baldvini hjá Sigurjóni M. Egilssyni Á Sprengisandi á Bylgjunni þennan saman morgun. Hressandi samtal og fróðleg upprifjun sögunnar , ekki síst um inngönguna í EFTA og aðildina að EES. Tilhlökkunarefni að fá framhald á sunnudaginn kemur.
AÐ LEIÐA MÓT
Úr íþróttafréttum Ríkissjónvarps (25.07.2015): ,, ... á eftir Þórði sem leiðir mótið. Þetta er að vísu nokkuð algengt orðalag hjá íþróttafréttamönnum, en ekki þykir Molaskrifara það til fyrirmyndar. Þórður hafði sem sé forystu á mótinu. Umsjónarmaður íþróttafrétta Ríkissjónvarpsins þetta kvöld gerði vel í því að kynna sér og tileinka sér að beygja orðið dóttir rétt.
ÓMAR MINNINGANNA
Þáttur Ómars Ragnarssonar Ómar minninganna, sem endurtekinn var á Rás eitt á laugardagskvöldið (25.07.2015) var firna góður. Mikil auðlind og ómetanleg,sem hann Ómar er.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.7.2015 | 10:19
Molar um málfar og miðla 1759
BROTHÆTT VEÐURSPÁ
Já, Brothætt veðurspá. Þetta er fyrirsögn fréttar á dv. is (23.07.2015) Tengillinn við fréttina er skárri en fyrirsögnin: http://www.dv.is/frettir/2015/7/23/tvisynt-utlit-fyrir-verslunarmannahelgina/
Í fréttinni segir: ,,Tæplega tvær vikur eru þar til verslunarmannahelgin brestur á í allri sinni dýrð.. Einmitt það:,,Í allri sinni dýrð!
,,Það er búið að vera óheppilegt tíðarfar fyrir norðan og austan. ,,Eftir næstu helgi verður ástandið mjög brothætt. ,,Annaðhvort verður ástandið óbreytt eða afgerandi viðsnúningur á tíðarfarinu. Ja, hérna! Hvað er brothætt ástand? Tvísýnar horfur, - eða er þetta bara bull? Tilvitnanirnar eru bæði úr fréttinni og viðtali við veðurfræðing hjá fyrirtæki sem heitir Veður ehf.
ÞOLMYNDARÁRÁTTAN
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (24.07.2015) var sagt frá því, að flugvél hefði verið tekin á leigu til að flytja sjö albanska hælisleitendur frá Íslandi til síns heima. Tvisvar sinnum, að minnsta kosti var sagt,- sérstök flugvél var leigð af ríkislögreglustjóra (undir fólkið). Leigir ríkislögreglustjóri út flugvélar? Fráleitt að nota þarna þolmynd. Germynd er alltaf betri. Enginn les yfir. Í hádegisfréttum Bylgjunnar (24.07.2015) var réttilega sagt, að ríkislögreglustjóri hefði leigt flugvél til að flytja fólkið. Þolmyndin var reyndar horfin í hádegisfréttum Ríkisútvarps þennan sama dag.
ENN UM BISSNES OG BRANSA
Sletturnar bissnes og bransi eru öðrum umsjónarmanni Morgunútgáfunnar í Ríkisútvarpinu sérstaklega hugleiknar. Tókst enn og aftur að koma þeim báðum í eyru okkar, sem hlustuðu á föstudagsmorgni (24.07.2015). Hvað segir málfarsráðunautur? Er þetta kannski að auðga og fegra móðurmálið?
ÚRVALS EFNI
Á Rás eitt er oft úrvals efni, sem sótt er í fjársjóðakistu Ríkisútvarpsins. Undir það flokkast tónlistarþættir Gylfa Þ. Gíslasonar um þrjá ólíka söngvara. Annar þáttur af þremur var endurfluttur sl. fimmtudagskvöld. Þar fjallaði Gylfi um rússneska stórsöngvarann, brokkgenga, Feodor Shjaljapin. (Sá sami Shjaljapin kom einnig við sögu í fínum þætti um heimsins frægustu bassa- og baritónsöngvara á BBC4 25.07.2015.) Gylfi var ekki aðeins vel að sér um sígilda tónlist, heldur tónskáld að auki. Gylfi gerði fleiri tónlistarþætti fyrir Ríkisútvarpið eftir að hann hætti þátttöku í stjórnmálum. Frábærir þættir þar sem saman fara vönduð efnistök og úrvalssmekkur. Upplýsingar um þáttinn í dagskrá á heimasíðu Ríkisútvarpsins eru hinsvegar af afar skornum skammti. Þess er ekki einu sinni getið að um endurflutt efni sé að ræða. Gylfi Þ. Gíslason var menntamálaráðherra 1956 til 1971, lengur en nokkur annar í sögu lýðveldisins.
Það var sennilega árið 1970, í spjalli á undan sjónvarpsviðtali, að Molaskrifari, sem þá var fréttamaður, sagði við Gylfa:- Þú ert búinn að vera menntamálaráðherra meira en helming þess tíma ,sem Ísland hefur verið lýðveldi. Viðbrögð Gylfa man ég vel. Ja, hver ansinn, sagði hann, - ég hef aldrei hugsað út í það!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2015 | 09:51
Molar um málfar og miðla 1758
UM NÁSTÖÐU OG FLEIRA
Sigurður Sigurðarson sendi Molum svohljóðandi bréf:
,,Sæll,
Sendi þér þetta til að létta á mér þó tel ég mig ekkert tiltakanlega góðan í skrifum og málfari.
Blaðamenn virðast margir hverjir ekki búa yfir hæfileika til að segja frá sem hlýtur að skipta meginmáli. Niðurstaðan verður oftast hnoð. Punktur getur þó verið bjargvættur þess sem fellur í þá gryfju að búa til langar og flóknar málsgreinar. Hann verður þó að gera sér grein fyrir langlokunni og þá getur punkturinn verið gagnlegur.
Alltof algeng er að nástaðan sem svo er nefnd, það er sömu orðin eru sífellt endurtekin með örstuttu millibili. Held að þetta sé algengast meðal fréttamanna og dagskrárgerðarfólks í sjónvarpi og útvarpi. Hérna eru dæmi um afar slakar frásagnir og jafnvel vitleysur. Held að þú áttir þig á þessu.
Upplifði hundsun
Niðurstaða skýrslu sálfræðinga var meðal annars sú að birtingamynd eineltisins hefði verið meðal annars sú að Hjálmar átti að hafa brugðist með óviðeigandi hætti við framgöngu starfsmannsins sem trúnaðarmanns starfsmanna í launadeilunni og í kjölfarið breytt framkomu sinni og viðmóti í garð starfsmannsins á þann hátt að hann upplifði hundsun.
Málið, málið, málið málið ...
Eins og mbl.is greindi frá í dag þá hóf lögreglan að rannsaka málið eftir að sálfræðingur tók að skoða málið upp á eigin spýtur og benti lögreglunni á nokkur áhugaverð atriði sem höfðu ekki verið rannsökuð nægilega vel á sínum tíma.
Sálfræðingurinn heitir Clas Fredric Andersen og eyddi hann frítíma sínum í nokkra mánuði í að skoða málið. Áhugi hans á málinu vaknaði eftir að hann vann störf fyrir lögregluna í Vestfold fyrir nokkrum árum síðan. Gat hann ekki hætt að hugsa um málið og ákvað að skoða það betur.
Ég settist niður í friði og ró og renndi í gegnum öll gögn málsins. Þegar hann greindi lögreglunni frá rannsókn sinni var ákveðið að skipa nefnd sem myndi fara yfir niðurstöður hans. Nefndin skilaði síðan af sér skýrslu þar sem mælst var til þess að lögreglan myndi aftur rannsaka ákveðin atriði málsins, og í kjölfarið var hinn sýknaði maður handtekinn á ný, 16 árum eftir morðið.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/09/rannsakadi_malid_upp_a_eigin_spytur/
Lést af höndum lögreglu
Sweat virtist hafa nokkra ánægju af því rekja atburði fyrir lögreglu úr sjúkrarúmi sínu, en þess ber að geta að félagi hans, Richard W. Matt, lést af höndum lögreglu á flóttanum.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/20/vitnisburdur_um_elju_og_vanhaefi/
Hans innkoma
Hann fékk orð í eyra frá Guðmundi Benediktssyni, aðstoðarþjálfara KR, í hálfleik og var greinilegt að hann átti að koma inn á. Hans innkoma átti eftir að breyta miklu.
Jacop Schoop var fórnað fyrir Gary, sem var færður út á kantinn. Hinn lipri Schoop var haldið niðri af miðjumönnum FH í fyrri hálfleik og en sjálfsagt hefðu margir KR-ingar furðað sig á því að liðið væri nú að spila síðari hálfleikinn í Kaplakrika án bæði Schoop og Sören Fredriksen, sem var ekki í hóp KR í kvöld.
Sem sem
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem McClean sem fæddist í Derry í Norður-Írlandi kemst í fjölmiðla fyrir stjórnmálaskoðanir sínar en hann hefur tvisvar neitað að leika í treyju með minningarblómi (e.Remembrance poppy) tileinkuðu látnum breskum hermönnum.
Smáviðbót:
Var að lesa mbl.is rétt áðan, segir Sigurður, og rakst þá á þetta:
Mildi þykir að ekki fór verr þegar vörubíll með krana klessti á brúnna milli Kópavogs og Garðabæjar á Hafnarfjarðarvegi áðan.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/07/21/kraninn_flaug_af_bilnum/
Hvað þýðir sögnin að klessa? Er þetta barnamál, sem fréttaskrifendur hafa ekki náð að hrista af sér eftir því sem þeir fullorðnuðust? Þegar ég var blaðamaður hefði ég fengið bágt fyrir svona og því notað orðalagið að rekast á og bætt svo við harkalega hafi verið tilefni til.- Já hann klessti á brúnna!!! Ótrúlegt.-
Molaskrifari þakkar Sigurði kærlega þetta ágæta bréf. Vonandi lesa þeir þetta ,sem mest þurfa á að halda.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2015 | 08:47
Molar um málfar og miðla 1757
KISI BORÐAR
Molavin skrifaði (22.07.2015): ,,Hvað má kisi ekki borða? Þannig hljóðar fyrirsögn í prentútgáfu Morgunblaðsins (22.07.2015) á grein um mataræði katta. Maður býst nú við öllu í netútgáfunni mbl.is - en trúlega eru afleysingabörn að störfum á ritstjórn blaðsins. Samt hélt ég að börn væru frædd um það í leikskóla að fólk borði en dýr éti. Nema náttúrlega á heimilum þar sem kettirnir sitja við sama borð og heimilisfólkið á matartímum.
Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er réttmæt athugasemd.
.
HRUMAR?
Á baksíðu Morgunblaðsins á þriðjudag (21.07.2015) var frétt um tónleika Silju Rósar Ragnarsdóttur og Auðar Finnbogadóttur á Café Rosenberg. Í fréttinni segir: Hljómsveitin Four Leaves Left mun styðja söngkonurnar og .... þær eru greinilega orðnar hrumar, blessaðar, eða hvað? Þurfa stuðning, en syngja samt. Það er virðingarvert.
AÐ KJÓSA UM
Þar verður kosið um nýjan forseta sambandsins , (FIFA) sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarps í hádegisfréttum (20.07.2015). Betra hefði verið: Þar verður kosinn nýr forseti sambandsins.
AÐ FRAMKVÆMA SVEIFLU
Í golfþætti Ríkissjónvarps (21.07.2015) var talað um að framkvæma góða golfsveiflu. Flest er nú framkvæmt!
ÓDULBÚNAR ÁFENGISAUGLÝSINGAR
Ríkissjónvarpið er að færa sig upp á skaftið. Á undan golfþættinum,sem nefndur er hér að ofan voru bjórauglýsingar. Ekki sá Molaskrifari að gerð væri minnsta tilraun til að leyna því að verið væri að auglýsa áfengi.
Hve lengi á Ríkissjónvarpinu að líðast að brjóta lög? Er öllum ráðamönnum sama ?
Hvað segja Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum?
ENN ER KLESST Á
Barnamálið er að festast í fréttaskrifum. Þ.G. sendi eftirfarandi (22.07.2015): ,,Sæll Eiður. Var að lesa í vefmogga frétt um Quirinale höllina í Róm. Hún er sögð 110 þúsund ferkílómetrar að stærð, sumsé um 7 þúsund ferkílómetrum stærri en Ísland. Ekki mikill yfirlestur þar.
Eins er frétt um, að vörubíll með krana hafi klesst á brú í Kópavogi, sumum gengur hægt að vaxa upp úr barnamálinu Kærar þakkir Þ.G. Ferkílómetrunum var reyndar seinna breytt í fermetra. Greinilega hefur einhver lesið yfir sem skilur muninn á fermetra og ferkílómetra.
UNDIR VIÐGERÐUM!
AF dv.is (21.07.2015):,, Vilhjálmur segir að baðherbergin sem voru óþrifin séu undir viðgerðum og hafi verið merktar Out of order, en svo virðist sem einhver hafi, öðrum en starfsfólki okkar, hafi tekið þá merkingu af baðherbergishurðinni.
Þetta er hreint ótrúlega vondur texti.
Sjá: http://www.dv.is/frettir/2015/7/21/foru-inn-i-herbergi-hja-skolasteplum-seint-um-kvold/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2015 | 09:08
Molar um málfar og miðla 1756
BÁTASMÍÐI Á GÁSUM
Rafn sendi eftirfarandi (20.07.2015) ,,Flest er farið að nýta sem byggingarefni. Á Gásum er sagt að verið sé að smíða bát úr miðaldaverkfærum. Ég get skilið, að miðaldaverkfæri séu nýtt við slíkar smíðar, það er að smíðað sé með þeim. Hins vegar er nokkuð langt til seilst að smíða bát úr slíkum verkfærum. Þakka bréfið, Rafn.
Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/07/18/drykkfelldir_munkar_kveikja_i_husum/
,, Það eru þó ekki bara drykkfelldir munkar sem kveikja í á svæðinu. Það er ýmislegt annað í gangi hérna. Við erum að steypa kirkjuklukku úr bronsi og það er byrjað að smíða bát, sem er eingöngu smíðaður úr miðaldaverkfærum. Það er því nóg um að vera.
BISSNES OG BRANSI
Í upphafi Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (21.07.2015) kynnti umsjónarmaður efni þáttarins. Rætt var við mann, sem skipuleggur brúðkaup útlendinga á Íslandi, ,, ... sá bissnes er að færast í vöxt hér á landi ... fræðast um þennan ört stækkandi bransa. Í lok þáttarins var Málskotið, sem oft er áhugavert, þar var að venju rætt við málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins. Ekki hefði farið illa á því að víkja stuttlega að þessum óþörfu slettum umsjónarmanns. Það var ekki gert.
GULLKORN AF STÖÐ TVÖ
Í fréttum Stöðvar tvö (19.07.2015) var okkur sagt að ferðamannafjöldi hefði stigmagnast. Átt var við að ferðamönnum hefði fjölgað. Einnig var okkur sagt að öryggi ferðamanna væri víða hætt komið. Þá kom fram í fréttatímanum að Grafningsvegur væri nánast óökufær. Átt var við að vegurinn væri nánast ófær bílum. Líklega var átt við að öryggi ferðamanna væri í ýmsu ábótavant. Í íþróttafréttum sagði fréttamaður okkur, að varla hefði nokkrum manni órað fyrir! Verður hér látið staðar numið.
VATN - SJÓR
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (19.07.2015) var sagt frá árekstri, - olíuskip sigldi á ferju við hafnarmynnið í Gautaborg. Gat kom á síðu ferjunnar og vatn lak inn. Skyldi það ekki hafa verið sjór? Á fréttavefnum visir.is var hinsvegar réttilega sagt: ,,Stórt gat myndaðist á bakborðshlið ferjunnar og lak inn sjór.
T.H. gerði líka athugasemd við frétt um þetta á mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/19/oliuflutningaskip_sigldi_a_ferju/
"Talsmaður Stena sagði að öryggi fólks hefði ekki verið í hættu."
Eitthvað er þetta nú skrítið, segir T.H. Rétt er það.
FEISBÚKK- FÉSBÓK
Þátturinn Orð af orði, sem málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins annast er fróðlegur og áheyrilegur. En ekki kann Molaskrifari að meta, þegar umsjónarmaður talar um feisbúkk síðu þáttarins. Hversvegna ekki fésbókarsíðu?
UNDIRSKRIFTIR
Forseta Íslands verður í dag (20.07.2015) afhentur þúsundir undirskrifta ..., var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (20.07.2015) . Heyrir enginn? Sér enginn? Forseta Íslands verða í dag afhentar þúsundir undirskrifta ....
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2015 | 07:57
Molar um málfar og miðla 1755
STAÐSETNINGARÁRÁTTAN
Margir fréttaskrifarar hafa ofurást á orðinu staðsettur. Af mbl.is á laugardag (18.07.2015): ,,Annar kraninn verður staðsettur í Mjóeyrarhöfn en hinn á Grundartanga og mun sá síðarnefndi meðal annars verða nýttur til að þjónusta álver Norðuráls. Kraninn verður við eða í Mjóeyrarhöfn. Hinn kraninn verður meðal annars notaður í þágu Norðuráls. Orðinu staðsettur er næstum alltaf ofaukið. Því má sleppa. Ekki hefði sakað geta þess, að geta þess að ,,Mjóeyrarhöfn er við norðanverðan Reyðarfjörð, miðja vegur á milli þéttbýlisins í Reyðarfirði og Eskifirði og heyrir dagleg umsjón hafnarinnar undir Reyðarfjarðarhöfn. Mjóeyrarhöfn er með stærri vöruflutningahöfnum landsins. Hún er staðsett skammt frá álveri Alcoa Fjarðaáls og þjónar fyrirtækinu varðandi aðdrætti og útflutning á álafurðum. Af heimasíðu Fjarðabyggðar. Höfnin er sem sé staðsett!
VETTVANGURINN
Úr frétt á mbl.is (18.07.2015): ,,Slökkvistarf tók um einn og hálfan tíma að sögn Gunnars, en lögregla tók svo við vettvangi og er að rannsaka hann. Það var og. Lögregla tók við vettvangi! Þarna hefði til dæmis mátt segja: Lögreglan rannsakar málið. Viðvaningur á vakt og enginn til lesa yfir eða leiðbeina. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/07/18/sprengingin_ut_fra_eldunartaekjum/
KOSNING - ATKVÆÐASGREIÐSLA
Í tíufréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (18.07.2015) var talað um ( Grikkland) að kjósa gegna skilyrðum. Betra hefði verið að segja að greiða atkvæði gegn...
Í að minnsta kosti fjórum, ef ekki fimm, fréttatímum síðdegis þennan dag var fyrsta frétt löng og ítarleg frásögn um hækkun á mjólk og mjólkurafurðum. Vissulega talsverð frétt, en dálítið undarlegt verklag, samt. Að hafa þetta á oddinum allan daginn. Hversvegna eru nýliðar, sumarfólk, svona oft látið eitt um fréttirnar um helgar? Slæleg verkstjórn.
PERLA
Þátturinn Söngvar af sviði, sem var á dagskrá Rásar eitt á laugardagsmorgni (18.07.2015) var sannkölluð Útvarpsperla.
Sögumaður og umsjónarmaður var Viðar Eggertsson, en þátturinn var um söngleik þeirra bræðra Jónasar og Jóns Múla Árnasona, - Deleríum Búbónis. Tónlistin stórkostlega , enda löngu orðin sígild. Takk. Oft virðist skrifara sem besta efnið á Rás eitt , - sé endurtekið efni úr fjársjóðakistu Ríkisútvarpsins. Kannski eru það ellimörk!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2015 | 10:22
Molar um málfar og miðla 1754
MIKIÐ MAGN FERÐAMANNA!
Í fréttum Ríkissjónvarps (16.07.2015) var sagt: Ferðamenn streyma hingað í áður óþekktu magni. Það var og! Magn ferðamanna er venju fremur mikið í ár!!! Hér hefði farið betur á því að segja til dæmis, að ferðamenn kæmu nú til landsins í áður óþekktum mæli. Eða, - Fleiri ferðamenn koma nú til Íslands en nokkru sinni fyrr. Ekki magn ferðamanna, takk.
ÍSHELLIR OPNAÐI
Í sama fréttatíma var okkur sagt að íshellir hefði opnað í Langjökli í dag. Íshellirinn var opnaður. Hann opnaði hvorki eitt né neitt. Það er kannski vonlaust að berjast gegn þessari notkun sagnarinnar að opna. Molaskrifari mun samt halda áfram að nefna áberandi dæmi af þessu tagi úr fjölmiðlum.
BARMAMERKI
Á Bylgjunni (17.07.2015) voru auglýst barmamerki. Tölum við ekki um barmmerki?
ÓTELJANDI
Molaskrifari er á því að beygingavillurnar í fréttatíma Stöðvar tvö á föstudagskvöld (17.07.2015) hafi verið óteljandi eða því sem næst, - Auknar hjólreiðar leiða til fjölgun ....Eitt dæmi af mýmörgum. Er enginn metnaður hjá fréttastofu Stöðvar tvö til að vanda sig og gera vel?
ÍBÚÐAEININGAR
Hver er munurinn á íbúðum og íbúðaeiningum? Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (17.07.2015) talaði bæjarstjórinn í Garðabæ aftur og aftur um íbúðaeininga. Er það ekki bara íbúðir?
GANGA Á EFTIR
Í fréttum Bylgjunnar (17.07.2015) var sagt: ... þar sem gengið er á eftir því að (flugbraut verði lokað) ... Hér hefði átt að sleppa forsetningunni á. Að ganga eftir einhverju er að reka á eftir því að eitthvað verði gert eða ógert látið. Hinsvegar er talað um að ganga á eftir einhverjum með grasið í skónum .. þrábiðja einhvern um eitthvað, leita fast eftir því að ná ástum einhvers ...
GÓÐ FYRIRSÖGN
Góð fyrirsögn á mbl.is: Ferðamenn á flæðiskeri staddir. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/07/16/ferdamenn_a_flaediskeri_staddir/
ÓBRIGÐUL SNILLD
Hún bregst ekki snilldin á Smartlandi mbl.is . Ekki frekar en fyrri daginn (17.07.2015): Landið er fullt af fjallmyndarlegum, gáfuðum og klárum konum í lausagangi. Molaskrifara grunar hvað hér er verið að reyna segja, - að fjölmargar myndarkonur séu ólofaðar. Séu ,,á lausu eins og sagt er á slangurmáli. Vélar eru í lausagangi, þegar þær eru ekki tengdar við drif eða aflúttak. Stundum er talað um hægagang eða tómagang.
ENDURSÝNING?
Prýðilegur var þátturinn um Kristin Hallsson, sem Ríkissjónvarpið sýndi á sunnudagskvöld (19.07.2015). Andrés Indriðason sem annaðist dagskrárgerðina kann sitt fag. Í lok þáttarins kom fram að hann væri frá árinu 2013. Molaskrifari heyrði hinsvegar ekki né sá þess getið að verið væri að endursýna þáttinn. Eru það heiðarleg vinnubrögð? Kannski fór tilkynning um endursýningu bara fram hjá skrifara. Það á að sjálfsögðu að segja okkur, þegar verið er að endursýna efni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)