18.7.2015 | 13:23
Molar um málfar og miðla 1753
AÐ KOMA VIÐ SÖGU
Það skal fúslega viðurkennt, að hér er nokkuð oft minnst á sömu hlutina, það er gert í þeirri vissu að, - dropinn holar steininn og að aldrei er góð vísa ...
Algengt er að orðtökum sé slegið saman. Í veðurfréttum Ríkissjónvarps ( 13.07.2015) sagði veðurfræðingur: Þegar hér er komið við sögu. Hefði átt að vera: Þegar hér er komið sögu, - Þegar hér er komið, eða á þeirri stundu .... Að koma við sögu, þýðir að eiga hlut að máli, eiga aðild að einhverju. - Hann kom við sögu, þegar ákveðið var að byggja kirkjuna.
GAMALDAGS?
Það kann að vera gamaldags og hallærislegt í samtímanum, en Molaskrifara var á sínum tíma kennt að byrja ekki ritgerðir eða greinar í fyrstu persónu eintölu á sjálfum sér , - með ÉG ...
Hann hnaut þess vegna um það, þegar fréttamaður Ríkissjónvarps, sem hafði farið í kríuvarp á Seltjarnarnesi (14.07.2015) sagði í upphafi pistils síns í fréttatímanum: Ég og Vilhjálmur Þór Guðmundsson myndatökumaður .... Eðlilegri byrjun hefði verið , til dæmis, Við Vilhjálmur Þór Guðmundsson, - eða, - Í kríuvarpinu, sem við .... ÉG á að vera aukaatriði í fréttum.
SLETT
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (15.07.2015) var sagt frá heimsmóti íslenska hestsins sem senn fer fram í Danmörku. Hestar sem þangað fara frá Íslandi eiga ekki afturkvæmt samkvæmt ströngum reglum um smitsjúkdóma. One way ticket, sagði þá annarra tveggja umsjónarmanna Morgunútgáfunnar. Farmiði aðra leiðina. Hversvegna þarf að slá um sig með enskuslettum? Algjör óþarfi. Hvimleiður ósiður. Einu sinni var sagt við Molaskrifara, að þeir slettu mest ensku,sem minnst þekktu til þess ágæta tungumáls. Kannski er það stundum svo.
SIGRUÐ DAGLEIÐ
Á miðvikudagskvöld (15.07.2015) sagði nýliði okkur í íþróttafréttum í tíufréttum Ríkissjónvarpi frá pólskum hjólreiðakappa sem sigraði elleftu dagleiðina í dag í Tour de France hjólreiðakeppninni. Nú er mál að linni. Við heyrum þessa ambögu aftur og aftur. Málfarsráðunautur þarf að taka til sinna ráða. Getur enginn leiðbeint nýliða, sem enn á ekki erindi að hljóðnema og hefur enn ekki lært að það getur enginn sigrað dagleið, - ekki frekar en keppni?
HRÓS
Mikið eru þær góðir fréttaþulir og fréttamenn þær Halla Oddný Magnúsdóttir og Vera Illugadóttir hjá Ríkisútvarpinu, - að öðrum ólöstuðum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2015 | 08:16
Molar um málfar og miðla 1752
AÐ FURÐAST
Gamall skólabróðir skrifara, nú búsettur erlendis, sendi þessar línur (13.07.2015): ,,Sá þetta í grein á Stundinni í frétt um uppsagnir starfsmanna Ríkisútvarpsins.
Þeir starfsmenn RÚV sem Stundin hefur rætt við furðast uppsagnirnar og segja að þær hafi komið flatt upp á alla.
Mér finnst ekki að móðurmálið verði ríkara af þessu nýyrði. Hvað finnst þér? (Furða sig á uppsögnum starfsmannanna). Þakka þér bréfið S.O. Sennilega áhrif frá sögninni að undrast, verða hissa. Reyndar nefnir orðabókin miðmyndina - einhver furðast eitthvað, - þannig að ekki er þetta nýtt af nálinni.
STÆÐISGJÖLD BREYTT ÁSÝND !!!
Í Fréttablaðinu á mánudag (13.07.2015) var það haft eftir Ögmundi Jónassyni, alþingismanni, að þjónustugjöld (gjöld fyrir bílastæði og fyrir að nota salerni á Þingvöllum) breyti ásýnd Íslands sem ferðamannalands. Ja, hérna. Molaskrifara finnst þetta út í hött. Við greiðum nær hvarvetna fyrir samskonar þjónustu erlendis. Hvað er að því að greiða fyrir veitta þjónustu og stuðla þannig að uppbyggingu og betri umgengni? Við borgum fyrir bílastæði á Laugaveginum og miklu, miklu víðar. Nýbúið er að stórhækka sektir við stöðubrotum. Hvað er að því að borga fyrir bílastæði við Jökulsárlón, Gullfoss, Geysi eða þjónustumiðstöðina á Þingvöllum? Ekkert. Nákvæmlega ekkert. Ætti líka að koma í veg fyrir að menn böðlist á bílum út um móa og grónar grundir. Gjaldtaka breytir í engu ásýnd Íslands sem ferðamannalands. Útlendingar eru vanir að greiða fyrir veitta þjónustu. Það á að vera hin almenna regla í ferðaþjónustu, - samanber; þeir borga sem menga.
SÉÐ OG HEYRT-VÆÐING
Molaskrifara finnst fréttastofa Ríkisútvarpsins vera komin dálítið
á Séð og heyrt og Smartland mbl.is bylgjulengdina þegar farið er að hnýta orðunum hinn geðþekki og hin geðþekka við nöfn þekktra einstaklinga. Leik- og söngkonan heimsfræga, Judy Garland, var í hádegisfréttum ( í svona dæmigerðri fréttabarna ekki-frétt) kölluð hin geðþekka leikkona Judy Garland. Þetta er í besta falli kjánagangur. Hvaða tilgangi þjónar þetta? Judy Garland var gæsileg kona og mikill listamaður. Hún þarf ekkert svona viðhengi.
ENN UM ÁNNA
Nú er talsvert um veiðifréttir í fjölmiðlum. Þá verður ýmsum hált á gljánni og tala um ánna, þegar ætti að tala um ána. Þetta hefur áður verið nefnt í Molum. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Af fréttavefnum visir.is (12.07.2015): ,, Veiðin var erfið framan af sumri vegna mikillar snjóbráðar sem litaði ánna og þar með dró úr veiði. Og aftur: ,, Ásta Dís Óladóttir og eiginmaður hennar, Jakob Bjarnason, áttu góðann dag við ánna í dag .... Um að gera að spara ekki n-in. Sjá: http://www.visir.is/eystri-ranga-er-ad-hrokkva-i-gang/article/2015150719814
Veiðifréttir í Fréttablaðinu og á visir.is eru ekki vel skrifaðar.
Enginn yfirlestur. Enginn metnaður til að vanda sig eða rita rétt mál.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2015 | 09:40
Molar um málfar og miðla 1751
RÝR EFTIRTEKJA
Ríkissjónvarpið gerði fréttamann út af örkinni með forsætisráðherra, SDG, til Brussel fyrir nokkrum dögum. Ráðherra fór í tilgangslausa og illa tímasetta ferð. Heldur var fréttaeftirtekjan rýr og var þar ekki við ágætan fréttamann Ríkisútvarpsins að sakast. Við fengum að vita, að fundurinn með Donald Tusk forseta leiðtogaráðs ESB hefði verið ,, óvenju afslappaður og skemmtilegur. Þetta var eiginlega það fréttnæmasta úr ferð SDG. Það bitastæðasta, sem situr eftir úr fréttum af þessari ferð, var viðtal við Bergdísi Ellertsdóttur, sendiherra Íslands í Brussel.
Stöð tvö sendi hinsvegar fréttamann til Aþenu. Það var skynsamleg ákvörðun og eftirtekjan meiri.
HEIMSMEISTARAR
Hverjir eru heimsmeistarar Þýskalands, sem talað var um í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (09.07.2015)? Þetta orðalag heyrist reyndar aftur og aftur í íþróttafréttum. Er átt við þýsku heimsmeistarana? Sennilega.
BORGARNES
Einn af hraðfréttamönnum, svokölluðum, í Ríkissjónvarpi sagði áhorfendum í þættinum Sumardögum að í næstu viku yrðu þeir á Borgarnesi. Ekki virðast gerðar kröfur um að þeir sem þarna koma fram séu sæmilega að sér um íslenskt mál.
NAUTGRIPASMALI
Í dagskrárkynningu Ríkissjónvarpsins í Morgunblaðinu (10.07.2015) segir um persónu í kvikmyndinni Kjaftaskar úr kaupstaðnum, City Slickers: ,,..ákveður að hrista upp í tilverunni með því að gerast nautgripasmali í villta vestrinu. Nautgripasmali? Er það ekki kúreki?
DAGLEIÐ
,, ... í sjöttu dagsleiðinni í dag, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps í seinni fréttum á fimmtudagskvöld (09.07.2015) í frétt um frönsku hjólreiðakeppnina Tour de France. Það heitir dagleið, ekki dagsleið. Fréttamaðurinn mætti einnig huga að réttum framburði á heiti frægrar borgar, Le Havre, í Frakklandi.
FRÓÐLEG SKILTI
Skilti,sem Faxaflóahafnir hafa látið setja upp á Miðbakka við Reykjavíkurhöfn eru um flest til fyrirmyndar. Þar eru taldir upp skipskaðar við Íslandsstrendur og við Ísland og merktir inn á kort. Það skemmir þó svolítið, að textinn hefur verið illa lesinn áður en skiltin voru gerð. Gildir það bæði íslenska og enska textann. Á móðurmálinu er sögnin að reka (á land) stundum rangt notuð. Enska orðið schooner (skonnorta, sem er að minnsta kosti með tvö möstur) er ýmist skrifað scooner eða sconner. Gott væri að lagfæra þetta.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2015 | 09:25
Molar um málfar og miðla 1750
KARLMAÐUR EÐA KONA
Í Spegli Ríkisútvarpsins á miðvikudagskvöld (08.07.2015) var pistill um ferðamenn sem koma til Íslands. Þar sagði fréttamaður: ... þá var hinni dæmigerði ferðamaður um þrítugt, karlmaður eða kona, og kom frá ... Þetta hef sem sé verið hin merkilegasta rannsókn. Ferðamenn, sem heimsóttu Ísland, voru ýmist karlar eða konur. Þetta er mjög athyglisverð niðurstaða og hefur sjálfsagt komið rannsakendum alveg í opna skjöldu.
SIGRAÐI DAGLEIÐ
Íþróttafréttum Ríkissjónvarps (08.07.2015) var sagt frá hjólreiðakappa sem sigraði fyrstu dagleiðina í frönsku hjólreiðakeppninni Tour de France. Það er auðvitað mikið afrek. Í íþróttafréttum (11.07.2015) var sagt í tennisfrétt: Hún hefur nú sigrað öll fjögur stórmótin. Sigrað mót???
Í íþróttafréttum á sunnudagskvöld (12.07.2015) var okkur sagt, að Íslandsmótið í hestaíþróttum mundi klárast í kvöld. Og: Íslandsmótið er í þessu að ljúka !!! Í lok síðari hálfleiks sigu heimamenn upp... Hafþór sigraði þrjár greinar af sex .... Aftur og aftur heyrðum við talað um evvstu og evvsta í efsta. Hvaðan kemur þessi framburður? Leiðbeinir enginn nýliðum? Les enginn yfir? Er engin verkstjórn? Þetta var því miður mikill amböguflaumur á sunnudagskvöldið. Málfarsráðunautur hefur hér verk að vinna. Hvaða kröfur eru annars gerðar til nýliða, sem segja íþróttafréttir? Fara þeir í íslenskupróf ?
DV er lítið betra. Þar sigra menn einnig mót (11.07.2015): ,,Serena Williams sigraði í dag Wimbledon mótið og má segja að um sögulegan sigur sé að ræða. Bæði er Serena elsta konan sem hefur sigrað mótið, ... Sjá: http://www.dv.is/folk/2015/7/11/jk-rowling-sneri-mann-hraustlega-nidur-twitter-ut-af-gagnryni-serenu/
AÐ GERA VEIÐI!
Úr Fréttablaðinu bls. 17 (09.07.2015): En þeir sem þekkja það (Þingvallavatn) vel og nota réttu aðferðirnar við veiðarnar eru að gera frábæri veiði dag eftir dag. Veiðimenn veiða. Þeir gera ekki veiði.
ÓVIÐUNANDI FRAMKOMA RÍKISÚTVARPSINS
Molaskrifara finnst það ósæmilegt og óviðunandi að Ríkisútvarpið skuli auglýsa bjór á ensku rétt fyrir fréttir (t.d. 10.07.2015). Í fyrsta lagi er bannað að auglýsa áfengi, Ríkisútvarpið gerir það engu að síður dag eftir dag. Í öðru lagi eiga auglýsingar í Ríkisútvarpinu að vera á íslensku, ekki á ensku. Sú regla hefur lengi verið í gildi. Hana ber að virða. Orðið léttöl heyrist illa og ógreinilega í niðurlagi þeirrar auglýsingar, sem hér er gerð að umtalsefni.
Annað dæmi um það, sem ef til vill mætti kalla ósvífni, var ódulbúin bjórauglýsing og slefandi bjórþamb umsjónarmanna Sumardaga á Seyðisfirði (09.07.2015). Í þættinum var viðtal á ensku og engin tilraun gerð til að endursegja efni þess. Þar að auki var því haldið fram að þýsk skip hefðu sökkt olíubirgðaskipinu El Grillo í Seyðisfirði! Rangt. Sjá til dæmis: http://www.austurfrett.is/lifid/1401-sjoetiu-ar-fra-thvi-adh-el-grillo-var-soekkt-allmikill-dynkur-er-skipidh-hvarf-i-djupidh
Og svo var rætt við elsta búsetumanninn á Seyðisfirði !
Þetta er slæmt.
Ef stjórnendum Ríkisútvarpsins finnst þetta í lagi, þá eru þeir ekki í lagi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2015 | 18:25
Molar um málfar og miðla 1749
ALLT UNNIÐ FYRIR GÝG?
Þannig spyr K.Þ. í bréfi til Molanna (08.07.2015). Hann sendir þessa tengingu: http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/07/08/oli-bjorn-thingid-hefur-hvorki-tima-ne-thekkingu/
"Óli Björn rekur upp störf nýliðins Alþingis ... "
Og bætir við: ,,Þar fór í verra!- Molaskrifari þakkar ábendinguna og nefnir að ekki væri verra á stundum að geta rakið upp það sem prójónað hefur verið á þinginu!
STAÐSETNING
Tveir björgunarbátar eru staðsettir á brúarþakinu, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (08.07.2015). Þarna eru orðinu staðsettir ofaukið. Það er óþarft. Tveir björgunarbátar eru á brúarþakinu. Í sömu frétt var talað um áhafnarmeðlimi. Eins og svo oft. Orðið skipverji er fallegra.
UPPHAF ALDA?
Frá upphafi alda var sagt í auglýsingu um kvikmynd á Stöð tvö (08.07.2015) að því Molaskrifari best gat heyrt. Þar hefur auglýsandi eða auglýsingastofa sennilega ruglað saman tveimur orðtökum , - frá upphafi vega, - frá örófi alda. Frá alda öðli. Frá ómunatíð.
ÁIN UM ÁNA
Úr frétt af visir.is (08.07.2015): Það er óhætt að segja að það sé góður gangur í Norðurá en mikill kraftur er í göngunum í ánna. Hér hefði auðvitað átt að segja að mikill kraftur væri í göngunum í ána. Þetta er býsna algeng villa, - kemur einnig oft fyrir í orðunum brú og skór , þegar þau eru notuð með ákveðnum greini.
VERÐMÆTI
Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (08.07.2015) var orðið útflutningsverðmæti notað í fleirtölu. Hefði að mati Molaskrifara átt að vera í eintölu. Í sömu frétt var okkur sagt að makríl frumvarpið, svo nefnda, yrði ekki afgreitt fyrr en á næsta þingi. Liggur það ekki í augum uppi, þar sem þingfundum hefur verið frestað til hausts?
KÆRULEYSI
Í fréttum Stöðvar tvö (08.07.2015) var sagt: Undiskriftasöfnunin Þjóðareign lýkur á morgun. Söfnunin lýkur ekki. Söfnuninni lýkur. Það byrja ekki allar setningar í nefnifalli eins og sumir fréttamenn virðast halda. Áhrifssagnir stýra föllum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2015 | 18:25
Molar um málfar og miðla 1749
ALLT UNNIÐ FYRIR GÝG?
Þannig spyr K.Þ. í bréfi til Molanna (08.07.2015). Hann sendir þessa tengingu: http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/07/08/oli-bjorn-thingid-hefur-hvorki-tima-ne-thekkingu/
"Óli Björn rekur upp störf nýliðins Alþingis ... "
Og bætir við: ,,Þar fór í verra!- Molaskrifari þakkar ábendinguna og nefnir að ekki væri verra á stundum að geta rakið upp það sem prójónað hefur verið á þinginu!
STAÐSETNING
Tveir björgunarbátar eru staðsettir á brúarþakinu, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (08.07.2015). Þarna eru orðinu staðsettir ofaukið. Það er óþarft. Tveir björgunarbátar eru á brúarþakinu. Í sömu frétt var talað um áhafnarmeðlimi. Eins og svo oft. Orðið skipverji er fallegra.
UPPHAF ALDA?
Frá upphafi alda var sagt í auglýsingu um kvikmynd á Stöð tvö (08.07.2015) að því Molaskrifari best gat heyrt. Þar hefur auglýsandi eða auglýsingastofa sennilega ruglað saman tveimur orðtökum , - frá upphafi vega, - frá örófi alda. Frá alda öðli. Frá ómunatíð.
ÁIN UM ÁNA
Úr frétt af visir.is (08.07.2015): Það er óhætt að segja að það sé góður gangur í Norðurá en mikill kraftur er í göngunum í ánna. Hér hefði auðvitað átt að segja að mikill kraftur væri í göngunum í ána. Þetta er býsna algeng villa, - kemur einnig oft fyrir í orðunum brú og skór , þegar þau eru notuð með ákveðnum greini.
VERÐMÆTI
Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (08.07.2015) var orðið útflutningsverðmæti notað í fleirtölu. Hefði að mati Molaskrifara átt að vera í eintölu. Í sömu frétt var okkur sagt að makríl frumvarpið, svo nefnda, yrði ekki afgreitt fyrr en á næsta þingi. Liggur það ekki í augum uppi, þar sem þingfundum hefur verið frestað til hausts?
KÆRULEYSI
Í fréttum Stöðvar tvö (08.07.2015) var sagt: Undiskriftasöfnunin Þjóðareign lýkur á morgun. Söfnunin lýkur ekki. Söfnuninni lýkur. Það byrja ekki allar setningar í nefnifalli eins og sumir fréttamenn virðast halda. Áhrifssagnir stýra föllum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2015 | 08:22
Molar um málfar og miðla 1748
VER OG VERBÚÐ
Molavin skrifaði (08.07.2015): - ,, ,,Um svokallaða verbúð er að ræða, en Eyþór telur að frá miðöldum og allt til landnáms hafi fólk komið í verið, róið þaðan til sjávar og sótt fisk sem síðan var færður aftur í verið og verkaður." Þessi texti er úr Morgunblaðinu 8. júlí. Blaðamaður (barn?) reiknar með því að lesendur þekki ekki orðið "verbúð" né það að fara í verið. Hugulsamt hjá honum að útskýra þetta skrýtna ferli og þá kenningu Eyþórs að slíkt hafi byrjað á miðöldum og verið stundað allt fram til landnáms!
Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er alveg dæmalaus texti.
AÐ DRÚPA OG AÐ DRJÚPA
Úr fréttum Ríkisútvarps kl 01 00 og af fréttavef Ríkisútvarps (08.07.2015): Aleksandar Vucic segir tímabært að horfast í augu við það sem gerðist og drjúpa höfði fyrir fórnarlömbum annarra þjóða. Fréttaskrifarar verða að skilja og þekkkja merkingu þeirra orða sem þeir nota. Sögnin að drjúpa þýðir að falla eða leka í dropum, í dropatali. Drjúpa, draup, drupum, dropið.
Orðtakið að drúpa höfði er að vera gneypur, sitja álútur, lúta höfði í virðingarskyni, vera hryggur. Drúpa, drúpti.
Þessum tveimur sögnum er reyndar oft ruglað saman, en fréttaskrifarar í Efstaleiti eiga að hafa þetta á hreinu.
Hvar er metnaður fréttastofu Ríkisútvarpsins? Hvar er vandvirknin sem við eigum kröfu til að sé til staðar í fréttaskrifum þessarar þjóðarstofnunar? http://www.ruv.is/frett/vucic-minnist-fornarlamba-i-srebrenica Jafnvel þótt sögnin að drúpa hefði verið á sínum stað finnst Molaskrifara orðalagið fyrir fórnarlömbum annarra þjóða orka tvímælis,, - að ekki sé meira sagt.
ENN OPNA KJÖRSTAÐIR
Í Ríkisútvarpinu er maður, sem betur fer, eiginlega hættur að heyra að kjörstaðir hafi opnað eða kjörstaðir hafi lokað. Þetta er orðalag er hinsvegar enn í góðu gildi á Bylgjunni (05.07.2015). Þar var sagt í fréttum á sunnudagsmorgni um þjóðaratkvæðagreiðsluna í Grikklandi, - kjörstaðir opnuðu í morgun, svo var líka talað um að markaðir opnuðu. Kjörstaðir í Aþenu opnuðu klukkan sjö í morgun, sagði fréttamaður í fréttum Stöðvar tvö um kvöldið.
Í sama fréttatíma Bylgjunnar talaði fréttamaður um stúlkunar (stúlkurnar). Hann sagði líka árásarmenninir (árásarmennirnir). Þetta ætti talkennari auðveldlega að geta lagað.
AÐ SNÚA AFTUR
Af mbl.is (06.07.2015): Þróunin var ör hjá fyrirtækinu þar sem Shufu skipti yfir í mótorhjólaframleiðslu árið 1993 en lagði svo bílana fyrir sig árið 1997 og hefur ekki snúið aftur. Ekki verður sagt, að þetta sé lipurlega þýtt eða orðað. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/07/06/milljardamaeringur_med_biladellu/
ÓSKEMMTILEGT
Í útvarpskynningu á sjónvarpsþættinum Sumardögum (08.07.2015) , segir stúlkurödd, að það skemtla við þetta sé ... Það skemmtilega á hún við. Þessi framburður heyrist að vísu stundum ,en hann á ekki heima í Ríkisútvarpinu. Enda er hann óskemmtilegur.
HRÓSIÐ
Mikið er hún Anna Sigríður Einarsdóttir á Rás eitt, góður þulur. Leitun að betri og áheyrilegri þul.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2015 | 08:46
Molar um málfar og miðla 1747
Molavin skrifaði (06.07.2015): ,,Morgunblaðið segir í fyrirsögn og frétt ( http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/06/georg_spegilmynd_fodur_sins/ ) 6. júlí að Georg prins, sonur Vilhjálms prins, hertoga af Cambridge, sé "spegilmynd föður síns." Ég sé að í enskum fjölmiðlum hefur snáðinn verið sagður vera "spitting-image" föður síns og þá er það nú málvenja hér að tala um "lifandi eftirmynd föður síns." Hins vegar hefur líka verið sagt í þarlendum miðlum að ýmsum þyki Katrín hertogaynja, móðir drengsins, vera "mirror-image" Díönu prinsessu heitinnar, tengdamóður sinnar. En þar er fremur átt við hvernig hún gegnir hlutverki sínu.. Molaskrifari þakkar bréfið. Hann hnaut reyndar einnig um þetta orðalag.
- Molavin bætti svo við í öðru bréfi sama dag:,, Heyrði í hádeginu að Netmoggi hefði líka talað um að barnið hafi komið til kirkju í "pramma." Það nálgast að vera jafnoki kryddsíldarveizlunnar. (,,Princess Charlotte was pushed to her christening in a vintage pram the Queen used for two of her own children...). Það mun víst hafa verið leiðrétt, en sumarbörnin hafa nóg að gera á Mogganum - Þakka bréfið. Þær bregðast ekki þýðingarnar hjá Mogga!
Orðið pram er notað um barnavagn á ensku. Það er stytting á orðinu perambulator, komin til sögu síðla á nítjándu segir orðabókin mín. Molaskrifari var einmitt að horfa eftir því hvort þessi virðulegi barnavagn, sem var greinilega ekki glænýr, væri af gerðinni Silver Cross, sem í gamla daga svona upp úr og eftir 1950 var það fínasta fína, - kádiljákurinn meðal barnavagna. Sýndist svo reyndar ekki vera.
Innan við tuttugu manns ,,á annan tug efndu til Grikklandsmótmæla á Lækjartorgi á sunnudag (05.07.2015). Í fréttum Ríkisútvarps bæði klukkan 16 00 og klukkan 18 00 var sagt frá þessum mótmælum, ekki bara með frétt heldur og viðtali. Þessi 12-14 manna hópur fékk einnig ríflega umfjöllun í fréttum Ríkissjónvarps um kvöldið. Viðmælandi viðurkenndi að vita lítið um ástandið í Grikklandi. ,, Ég veit ekkert alveg hvernig ástandið er þar ..... Einhverra hluta vegna fóru mótmælin fram á ensku. Einn mótmælenda sagði: ,,Við komum hérna saman og vonum að ísland segi nei í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu, haft eftir mótmælenda á fréttavef Ríkisútvarpsins. Hafði Ísland atkvæðisrétt? Meiri þvælan.
Undarlegt fréttamat. Það þarf ekki mikið til að komast í ríkisfréttirnar.
Mjög gott viðtal við Salvöru Nordal í Sprengisandi Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni (05.07.2015), Vonandi hafa þingmenn og ráðherrar hlustað, ekki síst á það sem hún sagði um valdið og aflið. Og um illa undirbúin mál sem koma inn á Alþingi. Gæti vel hugsað mér að hlusta á þetta aftur. Hef oft hugsað til þess sem Salvör sagði á blaðamannafundinum í Iðnó um rannsóknarskýrslu Alþingis. Hún sagði efnislega : Á Íslandi er landlægt virðingarleysi fyrir lögum og reglum. - Það er mikið rétt.
- Þeir eru einbeittir í því sem þeim langar til að gera, sagði sá sem, vill að Kínverjar reisi álver við Húnaflóa, í hádegisfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (05.07.2015).
Úr frétt á mbl.is (02.07.2015) Þennan heiður, sem tímaritið veitir árlega, þykir öllum bílsmiðum eftirsóknarverður. Hér hefði fremur átt að standa: ,,Þessi heiður, sem tímaritið veitir árlega, þykir öllum bílasmiðum eftirsóknarverður. http://www.mbl.is/bill/frettir/2015/07/02/bill_arsins_hja_auto_express/
Og enn auglýsir stórverslunin Víðir lambalærisútsölu (Bylgjan 05.07.2015) . Það virðist ganga fremur treglega að koma þessu blessaða læri út!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2015 | 07:42
Molar um málfar og miðla 1746
K.Þ. skrifaði (05.07.2015): ,,Á heimasíðu Vísis (http://www.visir.is/forsida ) er tengill á eina fréttina ritaður þessum orðum: Hnífjafnt á mununum. Þjóðaratkvæðagreiðslan í dag og niðurstöður hennar er stærsta verkefni evrusamstarfsins til þessa.http://www.visir.is/grikkir-ganga-til-atkvaeda-i-dag/article/2015150709521
Ég sé þetta orðalag ekki í fréttinni sjálfri. Ég kannast við orðalagið mjótt á mununum, en orðalagið jafnt á mununum (eða jafnvel hnífjafnt) er nýtt fyrir mér. Þakka ábendinguna, K.Þ. Hvorki heyrt þetta né séð áður.
Á þriðjudag í síðustu viku (30.06.2015) birti hið svokallaða Smartland Mörtu Maríu á fréttavef Morgunblaðsins mbl.is pistil undir fyrirsögninni: Að veita karlmanni guðdómleg munnmök. http://www.mbl.is/smartland/samskipti/2015/06/30/ad_veita_karlmanni_guddomleg_munnmok/
Er þetta nýr liður í fræðslu- upplýsingastefnu Morgunblaðsins? Ný ritstjórnarstefna? Er þetta birt með fulltingi og blessun ritstjóra blaðsins? ( Hér varð Molaskrifara næstum á að verða sekur um afar slæma innsláttarvillu, - skrifaði óvart risstjóra). Molaskrifari er ekki sérlega hneykslunargjarn, - en á hvaða leið er Morgunblaðið?
Hraðlestin styrki alla flugvallarkosti sagði í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins í sl. viku (29.06.2015). http://www.ruv.is/frett/hradlestin-styrki-alla-flugvallakosti
Enn ein sönnun þess, að sumir, sem skrifa handa okkur fréttir hafa ekki vald á notkun viðtengingarháttar. Hér var átt við að fyrirhuguðuð hraðlest milli höfuðborgarinnar og Leifsstöðvar mundi styrkja alla flugvallarkosti.
En verði það svo, að þessi fyrirhugaða lest ( sem aldrei mun geta borið sig samkvæmt trúverðugum útreikningum) eigi að stoppa á fjórum stöðum á leiðinni suður á Miðnesheiði verður vafalaust tímasparnaður í því að fara á bílnum eða taka rútu suður eftir fyrir flesta íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (04.07.2015) var sagt frá þremur piltum sem lögreglan hafði staðið að þjófnaði. Málið var afgreitt til aðkomu foreldra, las fréttaþulur óhikað. Foreldrar piltanna voru kallaðir til hefði verið betra orða orðalag.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan níu (04.07.2015) var sagt frá flóttafólki, sem reyndi að komast frá Calais í gegn um Ermarsundsgöngin yfir til Bretlands. Sagt var að fólkið hefði hópast saman við munna gangnanna. Undarlegt að fólk sem starfar við fréttaskrif skuli ekki hafa það á hreinu að fleirtalan af orðinu göng er ganga. Fleirtalan af orðinu göngur er gangna. Þetta hefur verið nefnt svona tíu sinnum og skýrt út hér í Molum. Þetta var rangt lesið þennan morgun en rétt ( leiðrétt, væntanlega ) í skrifuðum texta á vefnum. Málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins skortir ekki verkefni. Níu fréttirnar í morgunútvarpi eru einhverra hluta vegna ekki aðgengilegar á vef Ríkisútvarpsins.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2015 | 09:44
Molar um málfar og miðla 1745
Málglöggur Molalesandi spurði hvort skrifari hefði misst af þessari málfarslegu dvergasmíð: http://vb.is/frettir/118629/
Fyrirsögnin í Viðskiptablaðinu (03.07.2015) er svona: Skortur á efnislegum gæðum dregst saman. !!! Satt er það að þessi fyrirsögn er aldeilis óvenjuleg dvergasmíð! Það gildir raunar um alla fréttina. Enginn les yfir, - ekki á þessum bæ, frekar en öðrum. Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Rafn skrifaði (29.06.2015): ,,Sæll Eiður
Hvað skyldi fiskiolía vera? Ég þykist geta ráðið í, að fiskolía sé hrá barnaþýðing á því sem enskumælandi kalla fish oil, en við íslendingar lýsi. Hina vegar er mér alls óljóst hvað fiskiolía (= veiðiolía) getur verið, en væntan lega er það eitthvað feitmeti, sem nýtt er til fiskjar (= fiskveiða).
Jafn torræð eru ýmis önnur ámóta orð, eins og fiskikóngurinn [væntanlega =aflakóngur], fiskisúpa og viðlíka orðmyndir.
Molaskrifari þakkar Rafni bréfið. Orðið fiskiolía er notað í þessari frétt af mbl.is (29.06.2015): http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/06/28/kaflarnir_ordnir_feitir_af_oliu/
Á fimmtudagskvöld (02.07.2015) var þátturinn Sumardagar sendur út frá Akranesi,. Einn af svokölluðum ,,Hraðfréttamönnum Ríkissjónvarps ræddi þar við bæjarstjórann á Akranes, Regínu Ásvaldsdóttur,sem hann aftur og aftur kallaði bæjarstýru. Á heimasíðu Akranesbæjar er starfsheiti Regínu bæjarstjóri. Það var réttilega notað í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1800 daginn eftir.
Í íþróttafréttum (Ríkisútvarps eða sjónvarps) 30.06. var talað um liðið sem sigraði leikinn með fimm mörkum gegn einu. Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins þarf að herða róðurinn. Það sigrar enginn, hvorki leik né keppni. Og svo var talað um nokkur lið í þéttum pakka. Þeir eru margir pakkarnir hjá íþróttafréttamönnum!
Á laugardag (04.07.2015) var á dagskrá Rásar eitt rétt strax eftir hádegið sjötti þátturinn, já, sjötti klukkutíma þátturinn af tíu um popparann Michael Jackson, sem sumum þótti merkilegur. Molaskrifara fannst hann þó aðallega vera fyrirbæri. Þetta er ansi vel í lagt. En er þetta ekki dæmigert efni fyrir Rás 2 ? Molaskrifari hallast að því.
Bráðskemmtilegur þáttur Ómars frá 1995, Þegar allt gekk af Kröflunum endursýndur í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld (05.07.2015) Saga Kröfluelda og helstu atburðir áranna rifjaðir upp. Gaman að sjá Vimma, Vilmund Gylfason, í essinu sínu. Ýmislegt rifjaðist upp. Hafði ekki séð þetta áður, enda við störf erlendis 1995, þegar þátturinn var settur saman. Góð skemmtun og fróðleikur.
Molaskrifari er nýbúinn að heimsækja Færeyjar í fáeina daga. Eftir þá heimsókn er honum enn betur ljóst en áður hve Ríkissjónvarpið gerði þessum frændum okkar rangt til með því að kaupa og kosta hina dæmalausu Andraflandursþætti um Færeyjar. Þeir Færeyingar sem Molaskrifari hitti og höfðu séð þættina voru ekki hrifnir. Vægt til orða tekið. Hvað skyldi þetta annars hafa kostað Ríkisútvarpið?
Nú þarf Ríkissjónvarpið að gera bragarbót. Best væri, ef Egill Helgason og hans ágæta dagskrárgerðarfólk færi til Færeyja, gerði nokkra þætti, sem gerðu mannlífi og menningu í eyjunum átján verðug skil. Það hlýtur að vera til svolítið fé til alvöru dagskrárgerðar. Egill og hans fólk mundu gera þetta vel. Mætti til mótvægis í peningamálum sleppa nokkrum Hraðfréttaþáttum á næsta ári. Það væri bættur skaðinn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)