Molar um málfar og miðla 1744

Hann vill ekki taka afstöðu um hvort ..., sagði nýiliði á fréttastofu Ríkisútvarpsins í tíufréttum á föstudagskvöld (26.06.2015). Hann vill ekki taka afstöðu til þess hvort .... Hvaða málfarskröfur eru gerðar til nýliða? Hvað fá þeir mikla þjálfun áður en þeir eru settir fyrir framan opinn hljóðnema?

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á laugardag (27.07.2015) sagði fréttamaður ( fréttin var um Grikkland) að engin hætta væri á að bankar lokuðu. Skyldi málfarsráðnautur hafa rætt notkun sagnarinnar að loka við fréttamenn? Hér hefði verið eðlilegra að segja að engin hætta væri talin á að bönkum yrði lokað.

 

Alltaf er gott þegar misfellur eða ambögur eru leiðréttar. Í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan sjö (28.06.2015) var okkur sagt að listamenn mundu stíga á stokk, þegar efnt yrði til hátíðahalda vegna þess að 35 væru liðin frá því að Vigdís Finnbogabóttir var kjörin forseti Íslands. Í næsta fréttatíma var búið að leiðrétta þetta og þá var talað að listamenn mundu stíga á svið. Stundum gengur þótt hægt fari! Menn stíga á stokk til að strengja heit, ekki til að syngja eða flytja tónlist.

Í útvarpsfréttum klukkan 2200 (28.06.2014) var okkur sagt að hátíðahöld til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur ( þar sem ÓRG núverandi forseti var áberandi vegna fjarveru sinnar) hefðu verið á Austurvelli. Í sjálfu Ríkissjónvarpinu sást ágæta vel að hátíðin var við Arnarhól! Ekki á Austurvelli. Það var svo endurtekið í fréttum á miðnætti að samkoman á Arnarhóli hefði verið á Austurvelli!  

 

Auglýsingastofum hefur tekist að troða ensku slettunni TAX FREE inn í auglýsingar ótaldra fyrirtækja. Þetta er í mikilli sókn og heyrist æ oftar. Engin leið virðist að standa gegn þessu. Þarna hefur verið unnið óþurftarverk. Ágæt íslensk orð eru til sem nota mætti: Afsláttur og verðlækkun eru tvö dæmi. Það er eins og verið sé koma því inn hjá fólki að það sé að versla í fríhöfn! Rangt . Önnur enskusletta sem er í sókn er outlet, verslun þar sem flest eða allt er á niðursettu, hagkvæmu verði. Meira að segja Hagkaup er farið að auglýsa outlet! Við þurfum að losna við þessar slettur.

 

Enn er það svo, að á Rás eitt er mikið af afar vönduðu og vel unnu efni. Jafnvel þótt íþróttadeildin hafi hrifsað til sín of mikið dagskrárvald í stofnuninni og virðist þar einskonar ríki í ríkinu.

Einn er þó sá ljóður á ráði Rásar eitt,sem Molaskrifara gengur illa að sætta sig við. Það eru tilgerðarlegar og stundum illa lesnar auglýsingar. Hér ekki verið að tala um auglýsingar sem starfsmenn Ríkisútvarpsins flytja okkur. Það er ekkert að þeim. Hér er verið að tala um aðsendar auglýsingar, sem sumar eru hálfgert rusl,- stundum áfengisauglýsingar, sem þar að auki eru ótvírætt lögbrot. (Og enginn gerir neitt!) Stundum er þetta hálfgert garg. Auglýsingadeild virðist gagnrýnilaust taka við öllu sem þangað er borið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1743

Af visir.is (25.06.2015): ,, ... á meðan hópur fólks með er með áfengi við hönd á öðrum bát á í mestu vandræðum með verkefnið”.

http://www.visir.is/norsk-auglysing-gegn-olvun-a-batum-vekur-athygli/article/2015150629402

Þarna er ekki aðeins einu með ofaukið heldur er farið rangt með algengt orðatiltæki um neyslu áfengis. Talað er um að hafa áfengi við hönd. Rétt er að segja að hafa áfengi um hönd. Á öðrum báti, ekki bát, hefði Molaskrifari sagt. Enn kemur verkstjórnar og eftirlitsleysi við sögu. Metnaðarleysi , ætti kannski fremur að segja.

 

Við umferðarljós sá Molaskrifari sendibíl með auglýsingu frá Myllunni. Þar var auglýst eitthvað sem kallað var Fitty brauð.Slæmt þegar fyrirtæki velja sér ambögusmiði til að semja auglýsinginar. Fitty er ekki íslenska. Fitty er heldur ekki enska. Fitty er bara bull.

Fatty er hinsvegar enska. Er brauð ekki fitandi? Orðabókin mín segir um fatty, - e-ð sem inniheldur fitu, í sérstaklega mikla fitu eða bragðvonda. Fitty er ekki til í orðabókinni.

 

Það er undarlegt, en þó kannski ekki, hve hart DV gengur fram í að gera SDG að pílsarvotti. Skilaboðin í drottningarviðtalinu í blaðinu sem dreift var á öll heimili í vikunni eru í stuttu máli: Hér fer góður en þjakaður maður, sem allir eru vondir við. Verið góð við hann. Eigendaskiptin á þessu fyrirbæri skýra margt.

 

Oft hefur Ríkisútvarpinu verið hrósað hér fyrir stundvísi í dagskránni. Smávægilega hnökra í útsendingu er erfitt að forðast. Of oft  hefur það þó gerst, eins og um miðnættið í gærkvöldi (25.06.2015) að það vantar framan á fréttatímann. Þetta gerðist á Rás eitt. Engin skýring. Engin afsökun. Heyra menn þetta ekki í Efstaleiti eða er ekki talin ástæða til að biðja hlustendur afsökunar, þegar hluti fréttatímans skilar sér ekki í eyru hlustenda?

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1742

 

Biðjast afsökunar á tréspýtum, segir í fyrirsögn á mbl.is (23.06.2015): http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/06/23/bidjast_afsokunar_a_trespytum/

Fréttin hefst á þessum orðum: ,, Kjörís hef­ur beðist af­sök­un­ar á því að íspinn­ar hafa á und­an­förn­um vik­um verið fram­leidd­ir með tré­spýt­um en ekki plast­spýt­um líkt og aug­lýst er fram­an á ís­köss­um.” Molaskrifari hefur hvorki heyrt áður talað um tréspýtur eða plastspýtur. Spýta er ítil fjöl, eða fjalarbútur, segir orðabókin.

 

Ekkert fyrirtæki kemst með tærnar þar sem Húsasmiðjan – Blómaval hefur hælana í innleiðingu ensku slettunnar Tax Free. Maður hnýtur um þessa allsendis óþörfu slettu í næstum hverri auglýsingu frá fyrirtækinu. Hversvegna má ekki nota orðið afsláttur eða tala um verðlækkun? Tax Free - þýðir skattfrjálst eða undanþegið skatti. Þarna er ekki verið að auglýsa skattfrelsi eða tollfrelsi, heldur afslátt eða tímabundna verðlækkun. Það á að segja neytendum satt. Fleiri fyrirtæki eru reyndar undir þessa sömu sök seld.

Stundum er þess getið í klausu með örsmáu letri, næstum falinni, neðst í auglýsingunni að þrátt fyrir fullyrðinguna um skattleysi fái ríkissjóður sitt.

 

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps ( 24.06.2015) var sagt frá dorgveiðikeppni í Hafnarfjarðarhöfn. Sagt var um þátttakendur þeir kepptust um að veiða sem mest. Molaskrifari hallast að því að þetta hefði átt að orða á annan veg. Við keppumst við eitthvað, - til dæmis að ljúka verki. Þarna kepptu þeir, sem voru að dorga, í því að veiða sem mest.

 

Margar fréttir hafa verið fluttar af sparisjóðum að undanförnu. Ekki síst um sparisjóðinn Afl. Sveitarstjóri Fjallabyggðar hefur komið sjónvarp og sagt að fé sjóðsins ætti að nota í þágu samfélagsins á svæðinu. Í öðrum fréttum m.a. hjá aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins hefur komið fram að sparisjóðurinn hafi ekki átt neina peninga,- fjárhagur hans hafi verið neikvæður. Sem þýðir væntanlega að sparisjóðurinn hafi átt minna en ekki neitt. Molaskrifari viðurkennir, að hann hefur ekki alveg fulla heyrn, ekki frekar en svo margir á hans aldri , en hann skildi ekki nema hluta þess sem bæjarstjórinn sagði í sjónvarpsviðtalinu. Stundum þarf að texta viðtöl, - jafnvel þótt þau fari fram á íslensku.

 

Fréttamat fréttastofu Ríkisútvarpsins kemur stundum á óvart. Fyrsta ,,frétt” í seinni fréttum á miðvikudagskvöld (24.06.2015) var um leiðsöguhunda fyrir blinda. Þetta var ekki frétt, heldur pistill, sem allt í lagi hefði verið að hafa svona aftan við miðju eða seint í fréttunum. Þetta var sem sagt ekki frétt. Heldur feature, eins og sagt hefði verið á vondu máli í blaðamennskunni í gamla daga.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1741

 

Molavin skrifaði (22.06.2015): - "Skets úr fyrsta þættinum" segir i dagskrárkynningarfrétt Stöðvar-2 á visir.is (22.06.2015). Enskuslettur af þessu tagi eru ekki aðeins óþarfar - það er til mjög gott orð, "stiklur" yfir sýnishorn af þessu tagi - heldur eru þær merki um aðhaldsleysi af hálfu ritstjórnar. Ungt fólk, sem sýnir ekki viðleitni til að skrifa gott mál eða ræður ekki við það, á ekkert erindi í fréttaskrif. Ritstjórar fjölmiðla bera mikla ábyrgð á þróun málsins. Það eru svo sannarlega engir Fjölnismenn, sem nú um stundir fara með ritstjórnarábyrgð á fjölmiðlum eða netmiðlum.- Molaskrifari þakkar bréfið og tekur undir hvert orð.

Sjá: http://www.visir.is/thaer-tvaer--skets-ur-fyrsta-thaettinum/article/2015150629753

Þarna segir líka ,, Þær Tvær eru nýir íslenskir sketsaþættir sem þær Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir leika aðalhlutverkin í og skrifa handritið að. Þátturinn fór í loftið á Stöð 2 á sunnudagskvöldið. 
Hér að ofan má sjá einn skets úr fyrsta þættinum.#

 

Í stuttri frétt í Morgunblaðinu (22.06.2015) um fræðslu fyrir ungt fólk um grunnatriði ræðumennsku er talað um að læra helstu trikkin í bransanum. Í fullri hreinskilni, þá finnst skrifara þetta orðalag í frétt Morgunblaðsins ekki vera til fyrirmyndar.

 

Er Molaskrifari einn um að vera búinn að fá upp í kok af dönskum kökuþáttum í Ríkissjónvarpinu? - Er ekki hægt að sýna þetta á einhverjum öðrum tíma en í miðri kvölddagskrá?

 

Garðbæingar eldast hratt, segir í fyrirsögn í Fréttablaðinu (22.06.2015).

Er ekki best að fara að flytja?

Svo er haft eftir formanni bæjarráðs, að leitað sé leiða til að auka jafnvægi í aldursdreifingu. - Á maður þá kannski að flýja?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1740

Rafn benti á þessa frétt á mbl.is (18.06.2015) og spyr: ,, Hvað eru „Frönskurnar“ (samanber fyrirsögn)?? og hvað eru „franskarnar“ (samanber meginmál)??” ,,Frönskurnar seldust upp”. Í fréttinni segir: „Sal­an var bara meiri en fram­leiðslan og við þurft­um að taka okk­ur pásu til þess að út­búa meira,“ seg­ir Friðrik Dór, tón­list­armaður og einn eig­anda nýja frönsk­ustaðar­ins „Reykja­vík Chips.“ Staður­inn var opnaður í gær, á þjóðhátíðardag­inn, og fransk­arn­ar seld­ust upp á aðeins fjór­um klukkustundum

.http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/06/18/fronskurnar_seldust_upp/

 

Það er engu líkara en orðalagið fram á sumar sé að hverfa , eða eigi undir högg að sækja. Hvað eftir annað heyrist sagt inn í sumarið. Síðast heyrði skrifari þingmann nota þetta orðalag um starf þingnefndar í viðtali á Bylgjunni á fimmtudag (18.06.2015).

 

Svo virðist sem framburðurinn /evvsta/ á orðinu efsta sé í sókn. Þetta heyrist aftur og aftur, ekki síst í íþróttafréttum.

 

Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (20.06.2015) var sagt: Betur fór þó á en horfðist ....  Þarna hefði skrifari sagt: Betur fór þó en á horfðist. Fyrr í fréttum þetta sama kvöld var sagt: Fari svo sem á horfir ... Þarna hefði til dæmis mátt segja: Fari svo sem horfir ....

 

Stærsta tónlistarhátíð, sem haldin hefur verið hér á landi, lýkur brátt í Laugardalnum ....  Þetta las fréttaþulur Stöðvar tvö viðstöðulaust og án þess að hika í fréttatímanum á sunnudagskvöld (21.06.2015).

Stærsta tónlistarhátíðin lýkur ekki. Stærstu tónlistarhátíðinni lýkur.

Skrítið að heyra þetta ekki og leiðrétta.

 

Í fréttum af manndrápunum í kirkjunni Em­anu­el African Met­hod­ist Ep­iscopal Church í Charleston Í Suður Karólínu var ítrekað sagt að einn þeirra sem þar var skotinn hefði verið öldungadeildarþingmaður. Það hefði mátt fylgja að sá sem hér var rætt um Clementa Pinckney var öldungadeildarþingmaður í senati eða öldungadeild Suður Karólínaríkis.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1739

Aldarártíð kosningaréttar kvenna, er fagnað um land allt í dag. Þetta var okkur sagt í fréttayfirliti Bylgjunnar á hádegi á kvennadaginn, 19. júní. Ótrúlegt. Ártíð er dánarafmæli, dánardægur. Það eiga allir, sem skrifa fréttir að hafa á hreinu.

 

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins, sama dag 19.júni, var Ingibjörg H. Bjarnason kölluð fyrsta alþingiskonan. Í Spegli Ríkisútvarpsins og í fréttum Stöðvar tvö sama dag var hún kölluð þingkona. Ingibjörg H. Bjarnason kallaði sig alþingismann, sjálfsagt í ljósi þess, að konur eru menn. Þessvegna á að kalla hana alþingismann í dag. Það var seinni tíma Kvennalisti, sem innleiddi orðið alþingiskona, þingkona; átti víst að vera einhverskonar jafnréttishugsun, sem fjölmiðlar fóru svo smám saman að éta upp hver eftir öðrum eins og oft gerist.

 

Í fréttatíma Bylgjunnar (17.06.2015) heyrðist alþingismaður tala um ,,að halda upp á hundrað ára afmæli kosningarétts kvenna”. Kosningaréttar kvenna, hefði það átt að vera. Í sama fréttatíma var sagt að Azoreyjar væru undan strönd Portúgals. Eyjarnar eru 1525 km frá strönd Portúgals. Eiginlega úti í miðju Atlantshafi.

 

Það er ekki sama hvernig þulir lýsa beinum útsendingum í sjónvarpi. Sautjánda júní var okkur sagt. ,, Nú sjáum við að verið er að bera blómsveiginn að styttu Jóns Sigurðssonar”. Þetta þurfti ekki segja okkur. Þetta sáum við. Nær hefði verið að segja okkur hverjir báru sveiginn. Það var reyndar gert seinna. Í svona lýsingum falla menn oft í þá gryfju, að segja fólki hvað sé á skjánum í stað þess að bæta einhverjum fróðleik við.

 

Í heilsíðuauglýsingu frá Húsasmiðjunni og Blómavali í Fréttablaðinu á þjóðhátíðardaginn segir stórum stöfum: Sláum upp fána. Þetta orðalag hefur Molaskrifari aldrei heyrt. ,,Skjótum upp fána, skært lúðrar hljóma”, segir í ljóðinu.

 

Úr frétt á mbl.is (17.06.2015) um húsbíl sem varð eldi að bráð: ,,Tvær til­kynn­ing­ar um eld bár­ust slökkviliðinu um fimm leitið í nótt, önn­ur á Funa­höfða og hin í Kór­a­hverfi. Voru tvær stöðvar send­ar í Funa­höfða og ein í Kór­a­hverfið.” Þetta orðalag hefur svo sem sést áður. En hvernig voru stöðvarnar sendar?

 

Úr frétt á mbl.is (18.06.2015): ,, Þrír hol­lensk­ir ferðamenn létu lífið og 31 manns slasaðist al­var­lega þegar rúta ók út af veg­in­um í suður­hluta Portú­gals í gær­kvöldi.” Hér hefði verið rétt að segja ,, ... 31 maður slasaðist alvarlega ...” http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/06/18/ferdamenn_forust_i_rutuslysi/

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (18.06.2015) var okkur skýrt og skilmerkilega sagt að seinna í fréttunum yrði rætt við Sigurbjörgu Daðadóttir. Í fréttum Stöðvar tvö sama kvöld var okkur sagt hver hefði sigrað keppnina Sterkasti maður Íslands. Það hallast ekki á.

 

Verslunin Víðir auglýsti lambalærisútsölu á Bylgjunni (18.06.2015). Vantaði ekkert annað en að bæta við: Fyrstur kemur, fyrstur fær! K.Þ. sendi Molaskrifara línu af þessu tilefni og sagði: ,,Sæll, Eiður. Í útvarpi er nú auglýst "lambalærisútsala". Ég var að hugsa um að fara, en þá var frændi minn búinn að kaupa lærið”. Ekki lék lánið við K.Þ. að þessu sinni. Kannski verður annað læri sett á útsölu!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1738

Rafn sendi eftirfarandi (15.06.2015):

,,Sæll Eiður

Hér er dæmi um fréttabarn, sem hvorki kann íslenzku né þekkir mismun á evrópskum og bandarískum talnakerfum.

Gjaldmiðill getur verið verðminnstur slíkra fyrirbæra, en verðlausari en verðlaus getur hann varla orðið.

Síðan er augljóst, að kvadrilljónin er af bandarískum ættum, þar sem 3 núll skilja að milljónir, billjónir, trilljónir o.s.frv. Í talnakerfum Íslands og Evrópulanda skilja hins vegar 6 núll þessar einingar, þannig að hinar 175 bandarísku kvadrilljónir jafngilda 175.000 evrópskum billjónum (175 billjörðum, ef menn kjósa þá einingu).

Bretar hafa á síðari árum ættleitt hin bandarísku talnakerfi, en önnur Evrópulönd halda sig enn við alvörueiningar.

PS: Hvernig skyldu simbabveski líta út („Simba­bveski doll­ar­inn“)”

Sjá:

,,Seðlabanki Simba­bve hef­ur til­kynnt að gjald­miðli lands­ins verði skipt út fyr­ir fimm er­lenda gjald­miðla. Simba­bveski doll­ar­inn er einn verðlaus­asti gjald­miðill heims. Öllum inn­láns­reikn­ing­um, með inni­stæðum frá núll til 175 kvaðrilljón­um simba­bveskra dala, verður skipt út fyr­ir reikn­inga með fimm Banda­ríkja­döl­um. Kvaðrilljón er þúsund trillj­arðar.”

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/06/13/simbabve_skiptir_ut_gjaldmidli_sinum/

Molaskrifari þakkar ábendinguna.

Snilldarmyndatexti var í miðopnu Morgunblaðsins á þjóðhátíðardaginn með  fimm dálka mynd . Hann hófst svona:

 Íslenskt mjólk. Jú, hún hefur fylgt okkur Frónbúum og seðjað hungur okkar, blessuð mjólkin. – Ja, hérna. Maður getur fátt annað sagt. Sögnin að seðja beygist eins og sögnin að gleðja, seðja,- saddi, - gleðja,- gladdi - ekki eins og sögnin að veðja.

Í íþróttafréttum og fréttayfirliti í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (15.06.2015) var oftar en einu sinni talað um gestgjafa Pólverja. Ekki gat Molaskrifari betur heyrt en verið væri að um pólsku gestgjafana. Pólverjar voru gestgjafar, ekki gestir. Þessi meinloka hefur svo sem áður heyrst í íþróttafréttum. Hvað málfarsráðunautur athugi.

 

Úr Fréttatímanum,sem borinn var í hús á  fimmtudagskvöld (18.06.2015):  Kjölur opnar í fyrsta lagi um mánaðamót.  Fréttin var um færð, öllu heldur ófærð á fjallvegum. Kjölur opnar ekki neitt. Kjalvegur, vegurinn yfir Kjöl, verður í fyrsta lagi opnaður um mánaðamót.  Það er mörgum fréttaskrifaranum erfitt að hafa þetta rétt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1737

Rafn skrifaði (16.06.2015) um frétt á mbl.is: ,,Samkvæmt fyrirsögninni hér fyrir neðan hafa tveir (eða fleiri) misst útlim. Ég get séð fyrir mér, að einn missi útlimi, en ekki að fleiri missi útlim, nema Þetta hafi verið Síamstvíburar.”

 Er­lent | mbl | 15.6.2015 | 12:23

Misstu út­lim eft­ir há­karla­árás.- Molaskrifari þakkar bréfið. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/06/15/misstu_utlim_eftir_hakarlaaras/

 

Í fréttum Stöðvar tvö á föstudag (12.06.2015) stóð fréttamaður við stjórnarráðshúsið við Lækjartorg og sagði: ,, Ríkisstjórnin kom saman til fundar hér í stjórnarráðinu ....” . Stjórnarráðshúsið er ekki stjórnarráðið. Stjórnarráðið er samheiti yfir öll ráðuneytin. Þetta er ekkert flókið en vefst ansi oft fyrir mönnum, - jafnvel reyndum mönnum. – Í Morgunblaðinu í dag (18.06.2015) er greint frá því í frétt á bls. 2 að búið sé að merkja stjórnarráðshúsið. Það er gott framtak og tímabært. Fleiri fréttamönnum tekst þá ef til vill að hafa heiti hússins rétt í framtíðinni. Fréttinni fylgja tvær myndir. Á myndunum eru karl og kona. Þau eru ekki nafngreind. Það hefði blaðið þó átt að gera. Vinnuregla í góðri blaðamennsku.

 

Í frétt í Morgunblaðinu (12.06.2015) var sagt að samtal verði tekið við foreldrasamfélagið. Hefði ekki verið einfaldara að segja að ræða ætti við foreldra?

Í sama blaði sama dag er fyrirsögnin: Bankar láni í sömu mynt og innkoma. Ekki finnst Molaskrifara þetta vera vel orðað eða vera fyrirsögn til fyrirmyndar.

 

Meðan Molaskrifari sat á biðstofu heilsugæslustöðvar á Suðurlandi í liðinni viku las hann gamla Viku, - frá í mars. Þar voru áhugaverðar mataruppskriftir, en skrifari hefur lengi haft lúmskt gaman af því að lesa mataruppskriftir  Í sömu uppskriftinni var tvívegis talað um feit hvítlauksrif! Þetta hefur svo sem sést áður. Á dönsku er et fed hvidlög, einn hvítlauksgeiri, eða rif, á ensku: clove (of garlic) . Það er ekkert til sem heitir feitur hvítlaukur!

 

Í fréttum (12.06.2015) talaði ráðherra um að forða afleiðingum verkfalla. Ekki vel að orði komist. Betra hefði verið til dæmis að tala um að draga úr afleiðingum verkfalla. Í sama fréttatíma var enn einu sinni talað um að draga sér fé, í stað þess að draga sér fé, - ástunda fjárdrátt. Þetta var að líkindum í tíu fréttum að kvöldi föstudags, en ekki gat Molaskrifari sannreynt það því fréttatíminn er ekki aðgengilegur í vef Ríkisútvarpsins.

 

Æ algegngara er, og hefur oft verið nefnt hér, að heyra talað um að hafa gaman, í merkingunni að skemmta sér. Þetta orðalag var til dæmis notað í fréttum Ríkissjónvarps sl. laugardag (13.06.2015) Í sama fréttatíma var Thorbjörn Jagland kynntur til sögu sem fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs. Hefði ekki verið eðlilegra að kynna hann sem fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, þótt hann hafi vissulega einnig gegnt embætti utanríkisráðherra?

 

 Í hádegisfréttum Bylgjunnar (14.06.2015) Var sagt frá líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur; árás á mann, sem lá liggjandi. Það var og.

 

 Oftar en einu sinni að undanförnu hefur heyrst talað um sólskinsveður í fréttum. Dugar ekki að tala um sólskin?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1736

Gamall vinnufélagi skrifaði (12.06.2015): Sæll félagi. „Engar framfarir hafa orðið í viðræðum AGS og Evrópusambandsins við Grikki“, stendur á vefsíðu Kjarnans. Kannast menn ekki lengur við hið ágæta orð „árangur“? Máltilfinning mín tengir framfarir ekki viðræðum manna í millum heldur eitthvað stærra. Tel mig ekki þurfa að tilgreina dæmi þar að lútandi, en held að þarna sé farið inn á nýjar (og lakari) brautir með notkun „framfara“.- Molaskrifari þakkar bréfið. Er ekki verið að þýða úr ensku þarna? – Er þetta ekki aulaþýðing á , - ,, No progress has been made .... “ Dettur það svona í hug.

 

Trausti skrifaði (13.06.2015): ,,Fyrir fáum dögum var á mbl.is sagt frá manni, sem ætlaði að ganga til Hofsósar.
Á sama miðli getur nú að líta eftirfarandi: "Mörg hundruð manns hafa safn­ast sam­an í miðborg Stokk­hólm­ar í Svíþjóð í dag ..."
Ekkert lært!”. Nei, þetta er erfitt. Ekkert eftirlit. Enginn prófarkalestur.

 

K.Þ. benti á þessa frétt á visir.is (12.06.2015): http://www.visir.is/grimmilegur-hollenskur-geitungur-veldur-usla/article/2015150619711

 Hann spyr: Hvað merkir sögnin að miða?

 Í fréttinni segir:

,,Þetta er eins ferskt og hugsast getur, pakkað í Hollandi seint um kvöld og flutningsleiðin, frakt frá Belgíu, og beint hingað. Klárað úti, miðað frá okkur. Við höfum flutt þetta salat inn í að minnsta kosti tíu ár og fólk verið ánægt með það. Vinsælt salat alla tíð.“ - ;Molaskrifari stendur á gati.

 

Úr íþróttafréttum Ríkissjónvarps (14.06.2015): ,, ... og tókst mótið afar vel til”. Mótið tókst ekki vel til. Það tókst vel. Heppnaðist vel. Vel tókst til með mótshaldið.

 

Í fréttum Ríkisútvarps (11.06.2015) var ágætlega sagt frá því að kona hefði lokið sveinsprófi í múraraiðn eða múrverki. Þess verður sjálfsagt ekki langt að bíða að málfarsfemínistar lýsi yfir stríði gegn því orðalagi að kona geti lokið sveinsprófi í nokkurri grein. Oft er talað um að í sveinsprófi felist að gera sveinsstykki, vinna tiltekið, oft vandasamt verk Verður það orð ekki bannfært?

 

Hópkaup auglýsir sólapúður á netinu (15.06.2015). Skyldi það duga á alla skósóla? Auka endinguna?

 

Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins var með góða ábendingu í pistli sínum í Morgunútgáfunni í morgun (16.06.2015) þegar hann leiðrétti notkun ambögunnar á sautjánda júní. Þarna er forsetningunni á ofaukið. Þetta glymur sífellt í eyrum og er rangt.

 Svo talaði umsjónarmaður þáttarins um lógó þjóðhátíðardagsins !!!

  Gleðilega þjóðhátíð!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1735

 

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins (14.06.2015) er spurning vikunnar: Telurðu nauðsynlegt að setja lögbann á verkfallsaðgerðir? Spurningunni er beint til fjögurra einstaklinga, sem blaðamaður hefur væntanlega hitt á förnum vegi.

Spurningin er ekki bara út í hött, heldur byggð á nokkuð viðamikilli vanþekkingu spyrjanda. Lögbann er fógetaaðgerð, sem beinist oftast gegn því að stöðva eða banna tiltekna framkvæmd eða aðgerð.  Ætlun blaðamanns var víst að spyrja hvort fresta ætti eða banna yfirstandandi verkföll með því að samþykkja lög á Alþingi. Þeir sem skrifa fréttir ættu að vita hver munurinn er á lögbanni og lagasetningu. Ritstjórar gætu beitt sér f yrir námskeiðum, sem gætu til dæmis borið yfirskriftina: Almenn lögfræði 101.

 

Í Staksteinum Morgunblaðsins (10.06.2015) segir: ,, ... ágæt áminning um hve langt ESB-sinnar gengu til að þvinga áhugamál sitt upp á þjóðina”. Molaskrifara kann auðvitað að skjöplast, en málkennd hans er að einhverju sé þvingað upp á einhvern ekki eitthvað sé þvingað upp á einhvern.

 

Gögn sem skattrannsóknastjóri hefur nú keypt af erlendum huldumanni kostuðu 30 milljónir króna. Það er eins og einn og hálfur lúxusjeppi kostar, sem við daglega höfum fyrir augunum hér á höfuðborgarsvæðinu. Sektir frá einum skattsvikara gætu hugsanlega gert betur en að standa undir þessum 30 milljónum.

 

Glöggir Molalesendur bentu skrifara á að í skjátexta í fréttum Ríkissjónvarps (10.06.2016) hefði mátt lesa að fé dræpist umvörpum. Molaskrifari hnaut reyndar einnig um þetta. Hafði aldrei heyrt það áður, en orðabókin segir að jafngilt að segja umvörpum og unnvörpum, - í merkingunni í stórum stíl eða í miklum mæli. Unnvörpum er sjálfsagt talsvert algengara , en hvort tveggja jafngilt. Verra þótti Molaskrifara að hann þóttist í fréttayfirliti Ríkisútvarpsins klukkan 1800 sama dag talað um móðurharðindi. Fór í Sarpinn og hlustaði á  ný og heyrði ekki betur en þarna væri - r - á röngum stað. Verið var að vísa til móðuharðinda, hallærisáranna eftir Skaftárelda 1783.

 

Fyrirsögn af mbl.is (13.06.2015): „Það er ljós við enda gangnanna“. Þetta  var tilvitnun í orð fjármálaráðherra. Seinna var þetta leiðrétt. Ljósið var  við enda ganganna, ekki gangnanna. Göng -  ganga.  Göngur – gangna.  Menn flaska ærið oft á þessu.

 

Á laugardagskvöld  (13.06.2015) hlustaði Molaskrifari stundarkorn á þátt í beinni útsendingu á Rás tvö.

Hann veltir því fyrir sér hversvegna útvarpsmaður hélt uppi löngu samtali í síma  við hlustanda, sem mjög  greinilega var undir áhrifum áfengis. Dómgreindarbrestur.  Kannski fannst umsjónarmanni þetta fyndið.

 

- - ,,  En mér langar á minna á kvennahlaupið, sem fer  fram í 26. skipti í dag” , sagði íþróttafréttamaður í lok  íþróttafrétta Ríkisútvarps í hádeginu  á laugardag (13.06.2015). Málfarsráðunautur taki til sinna ráða. 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband