4.6.2014 | 09:38
Molar um málfar og miðla 1485
Lesandi benti á þessa frétt á visir.is (02.06.2014): http://www.visir.is/spanarkonungur-stigur-til-hlidar/article/2014140609863
Hér er talað um að einhver stígi til hliðar , er hann lætur af störfum, sest í helgan stein eða afsalar sér völdum eins og er í þessu tilviki. Að stíga til hliðar er ekki íslenskulegt orðalag. Þar að auki bendir þessi lesandi á þá íslensku venju að tala um Jóhann Karl, Spánarkonung og ríkisarfann, Filippus prins. Ríkisútvarpið notaði þau nöfn í hádegisfréttum þennan sama dag.
Fréttabarn á vaktinni á mbl.is á þriðjudagskvöldi (03.06.2014), dæmigerð viðvaningsfrétt. Þrjár stuttar málsgreinar og eitthvað athugavert við þær allar: ,, Koma þurfti bátnum Skvísu KÓ í land eftir að sjór lak inn á vélarúm bátsins rétt utan við Rif á Snæfellsnesi.
Nærliggjandi bátur fylgdi Skvísu til hafnar, en af öryggisástæðum var Landhelgisgæslan einnig kölluð út
Samkvæmt upplýsingum er nú verið að hirða aflann úr bátnum og verður vatnið losað úr vélarúminu að því loknu.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/06/03/skvisa_i_vanda/
Molaskrifara hefur verið bent á að ekkert sé athugavert við að segja eða skrifa réttum megin. Molar 1483. Sjá: http://malfar.arnastofnun.is/?p=8043
malfar.arnastofnun.is. Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan 07 00 (03.06.2014) var sagt: ,, ... gæti ástandið í Evrópu farið að svipa til kalda stríðsins. Gæti ástandinu í Evrópu farið að svipa til kalda stríðsins. Þetta var reyndar lagfært í fréttum klukkan 08 00.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2014 | 07:42
Molar um málfar og miðla 1484
"Að sinnast" þýðir að verða sundurorða. "Að sinnast á" er rugl. "Stjórnun" er fræðigrein um það viðfangsefni "að stjórna". Umferðarstjórn er almennt notað þegar lögreglan á í hlut. "Umferðarstjórnun" er eflaust kennd við einhverjar verkfræðideildir háskóla. Molaskrifar þakkar bréfið.
Í fréttum Stöðvar tvö (31.05.2014) var talað um að kjörstaðir hefðu opnað. Kjörstaðir voru opnaðir. Kjörstaðir opnuðu hvorki eitt né neitt. Ríkisútvarpið er nú orðið ævinlega með þetta rétt.
Nokkur nýlunda var að sjá þrjá innlenda þætti í röð í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld (01.06.2014). Fyrst ágæta mynd, Sjómannslíf, svo lokaþátt Ferðastiklna þeirra feðgina Ómars og Láru. Prýðisefni , en þátturinn hefði alveg þolað svolitla styttingu og tónlistarvalið fannst Molaskrifara jafn óskiljanlegt og stundum áður. Í kynningu talaði konuröddin sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins um Reykjafjörð, en fjörðurinn heitir Reykjarfjörður. Svo kom Inndjúpið. Fróðlegar mannlífsmyndir. En nefnt hefur verið hér áður hve undarleg uppsetning það er að setja Ferðastiklurnar og Inndjúpið hlið við hlið í dagskránni.
Birta Líf, veðurfræðingur hjá Ríkissjónvarpinu, á það til að brjóta svolítið upp hið fasta form veðurfregna þar á bæ. Nú síðast með því að birta ekki bara spá fyrir landið, heldur líka miðin (31.05.2014) daginn fyrir sjómannadaginn. Bara gaman að því, en sennilega hafa ekki margir verið á sjó á sjómannadaginn, frekar en venjulega þann dag.
Er ekki eitthvað nálegt við að verslunin Nettó skuli hvað eftir annað auglýsa svokallaðar návörur í útvarpsauglýsingum ? Hvað er á seyði? Hverskonar vörur eru návörur? Vita auglýsingahöfundar ekki hvað nár er?
Pakkar halda áfram að berast í Efstaleiti. ,, Þá er þessum ítarlega íþróttapakka lokið, var sagt við sjónvarpsáhorfendur á sunnudagskvöld (01.2014). Hvernig lýkur pökkum? Hvað skyldu annars margir starfsmenn sinna því bákni sem íþróttadeild Ríkissjónvarpsins er nú orðin?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2014 | 11:49
Molar um málfar og miðla 1483
Molavin sendi eftirfarandi (31.05.2014): "Þó nokkur flugfélög hafa þurft að aflýsa öllum sínum flugum..." sagði fréttakona Stöðvar tvö í kvöldfrétt um eldgos. Hér færi betur á að nota orðið "flug" í eintölu; "aflýsa öllu sínu flugi." Venjan hefur verið sú að segja: Öllu flugi aflýst. "Fluga" er ekki sama og "flug." Þetta er svipað og með orðið "verð". Það er eintöluorð. - Molaskrifari þakkar ábendinguna. Ríkisútvarpið talaði réttilega um að mörgum flugferðum hefði verið aflýst.
Fyrrum starfsfélagi benti á frétt á dv.is (31.05.2014): ,, Sveppir eru þarlendum yfirvöldum greinilega hugfangin en síðasta haust var í höfuðborginni Pyongyang opnuð sérstök rannsóknarstofnun um sveppi. Annað hvort er þetta dæmi um að blaðamaður sé að hugsa um eitthvað allt annað en hann ætti að vera að hugsa um, ellegar að hann hafi ekki grundvallarþekkingu á móðurmálinu. Nema hvort tveggja sé, - nema hvort tveggja sé. Fleira er skrítið í þessum skrifum: http://www.dv.is/frettir/2014/5/31/nordur-korea-framleidir-orkudrykk-ur-sveppum/
Eftirfarandi er einnig af dv.is sama dag: ,,Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði ökumann í vikunni sem reyndist langt frá því að vera réttum megin við lögin. Réttu megin við lögin.
,,Er að talsmátinn heyrist víða, - ótrúlega víða. Oftast er þess háttar orðalag óþarft. Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (31.05.2014) var sagt: ,,Það eru átta listar sem eru að bjóða fram í Reykjavík. Átta listar bjóða fram í Reykjavík.
Það sem mbl.is kallar Smartland er á stundum einkennilega skrifað. Þar var (01.06.2014) svohljóðandi fyrirsögn: 90 milljóna hönnunar villa. Greinilega alvarleg villa. Klaufalega orðað, átt var við villu, glæsilegt einbýlishús. http://www.mbl.is/smartland/heimili/2014/06/01/90_milljona_honnunarvilla/ Þakka lesanda ábendinguna.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (31.05.2014) var sagt: ,,Reykjaneshryggurinn er á mótum tveggja jarðskorpufleka sem reka hvor frá öðrum .... Flekarnir reka hvorki eitt né neitt. Flekana rekur hvorn frá öðrum ... Þetta heyrist ærið oft, því miður.
Fyrri hluta laugardags (31.05.2014) voru auglýsingar og tilkynningar í Ríkisútvarpinu lesnar með sömu leiðinda hrynjandi og oft heyrist á Bylgjunni. Vinsamlegast hlífið okkur við þessu.
Molaskrifari ætlaði að hlusta á útvarpsfréttir klukkan 1700 á kjördag, laugardag (31.05.2014) en mundi svo allt í einu að Ríkisútvarpinu þóknast ekki, einhverra hluta vegna, að flytja fréttir klukkan fimm nema á virkum dögum. Furðulegt. Og eiginlega óskiljanlegt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)