Molar um málfar og miðla 1734

 

Elín Pálmadóttir blaðamaður og rithöfundur hefur verið sæmd æðstu orðu Frakklands fyrir framlag sitt í þágu Frakklands og franskrar menningar og er það að verðleikum. Rifjast nú upp, að fyrir áratugum á fundi í Blaðamannafélagi Íslands varð þeim sem þetta ritar það á að kalla Elínu og Hólmfríði Árnadóttur á Alþýðublaðinu blaðakonur. (Hefur verið nefnt áður í Molum). Þær gáfu honum heldur betur orð í eyra! Sögðust réttilega vera blaðamenn.

 Í frétt Morgunblaðsins segir, að Elín hafi unnið í franska sendiráðinu í París (heyrðist og í fleiri fjölmiðlum). Í París er samkvæmt eðli máls ekkert franskt sendiráð. Þar er íslenskt sendiráð og þar starfaði Elín um hríð á sjötta áratugnum, - eins og raunar kemur fram seinna í fréttinni.

 Í fréttinni segir einnig: ,,... og var orðuhafinn Elín nær orðlaus yfir þeim mikla heiðri,sem henni var sýndur”. Þar hefur þá borið nýrra við. Aldrei upplifði skrifari það á árunum, sem leiðir lágu saman í blaðamennskunni, að Elínu Pálmadóttur yrði orða vant, hvað þá að hún yrði orðlaus.  Jafnan meðal hinna fremstu í blaðamannastétt á sínum langa starfstíma. - Hjartanlega til hamingju með heiðurinn, Elín.

 

Trausti skrifaði vegna fréttar á mbl.is (09.06.2015): ,,Í frétt þessari er sagt frá manni, sem ætlar "að ganga frá Kefla­vík til Hofsós­ar" eða "að labba á Hofsós", en ætli ekki geti verið að maðurinn ætli að ganga til Hofsóss?”. Molaskrifari þakkar ábendinguna, en skylt er að geta þess að þetta var síðar leiðrétt á mbl.is.

 

Vertu næs! Svona auglýsir Rauði kross Íslands. Þetta er ekki íslenska. Þetta er enskusletta. Orðið næs er ekki íslenska. Það er enska skrifuð eftir framburði. Hvers vegna þarf Rauði krossinn að sletta á okkur ensku? Eiga ekki auglýsingar í útvarpi/sjónvarpi að vera á ,,lýtalausu íslensku máli”? Man ekki betur. Fer Ríkisútvarpið í auglýsingum bara eftir eigin duttlungum, en ekki settum reglum ?

 

Enn óvíst með opnanir fjallvega, sagði í fyrirsögn á bls. 8 í Morgunblaðinu á þriðjudag (09.06.2015). Molaskrifari hefði látið eintöluna duga. Hann hefði sagt: Enn óvíst með opnun fjallvega.

 

Í skjáfréttaborða á Stöð tvö sagði (09.06.2015): Nýtt verslunarrými opnar formlega á föstudag (í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli). Rýmið opnar hvorki eitt né neitt. Það verður opnað eða tekið í notkun. Vonandi verður ekki sagt að það hafi verið vígt, þegar það verður tekið í notkun! Er þetta tapaður slagur?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1733

 

Rafn skrifaði (08.06.2015): ,,Sæll Eiður – Opnun maga við keisaraskurð?

Fréttin er ekki alveg ný, en hún er úr DV (15.05.2015). Ég hefði getað skilið að læknir týndi síma í kviðarholi sjúklings eða jafnvel legi, þar sem um keisaraskurð var að ræða. Hvernig honum tókst að koma símanum í maga sjúklingsins er hins vegar ofvaxið mínum skilningi”.

Svona var fyrirsögnin:,,Farsími skilinn eftir í maga konu við keisaraskurð -

Fann titring í kviðnum og var skorin upp aftur”. Furðuskrif. Þakka ábendinguna, Rafn.

 

Æ oftar heyrist talað um að hafa gaman, - að skemmta sér. Síðast heyrði Molaskrifari þetta í fréttum Stöðvar tvö (06.06.2015). Hrátt úr ensku, - to have fun.

 

Stundum finnst Molaskrifara að verið sé að ljúga að honum í auglýsingum. Horfði um daginn á sjónvarpsauglýsingu um innflutt grænmeti. Sá ekki betur en það væri plastpakkað og hraðfryst. En í auglýsingunni var okkur sagt að það væri ferskara en ferskt! Svona glata orð merkingu sinni.

 

Allt er nú framkvæmt. Í umræðum á Alþingi á mánudag (08.06.2016) talaði þingmaður um að fundur hefði verið framkvæmdur! Fundur var haldinn.

 

 Úr frétt á mbl.is um unga menn í Keflavík sem stálu smábíl í fylleríi. (08.06.2015): ,, ... og óku þeir sem leið lá yfir í Garð.” Og aftur: ,, ... þar sem nokkuð langt er úr Kefla­vík yfir í Garð ...” Þarna hefði átt, samkvæmt málvenju að tala um að fara úr Keflavík út í Garð, ekki yfir í Garð. Úr Garðinum fara menn inn í Keflavík. Úr Keflavík fara menn út í Garð.

 

Af mbl.is is (08.06.2015): “Raf­magn á nú að vera komið á alla not­end­ur frá Skipanesi að Höfn ... “ Fagnaðarefni að rafmagn skuli komið á alla notendur! http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/06/08/vidgerdum_lokid_vid_skipanes/ Vonandi hefur engum orðið meint af.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1732

Í fylgiblaði Morgunblaðsins (05.06.2015) er hálfsíðu auglýsing  frá Málningarverslun Íslands. Þar segir: Þegar hefðbundin málning er ekki að duga ... Þarna hefur verið að verki slakur textahöfundur hjá auglýsingastofu eða fyrirtækinu. Hér hefði verið ólíkt betra að segja: Þegar hefðbundin málning dugar ekki.  Þess  er-að sýki er smitandi.

 

Í morgunfréttum Ríkisútvarps, klukkan átta, (06.06.2015) var okkur sagt að tuttugu ár væru síðan Juventus sigraði meistaradeildina. Ótrúlegt en satt. Sigraði deildina! Þeir sem svona taka til orða og fást við að skrifa fréttir eru ekki á réttri hillu.

 

Í útvarpsþætti á Bylgjunni (05.06.2015) sagði umsjónarmaður okkur frá bílstjóra á traktor sem hefði farið út af vegi með tuttugu tonn af málningu. Hér er aulaþýðing á ferð. Orðið traktor er á íslensku eingöngu notað um dráttarvélar, landbúnaðartæki. Hér var greinilega verið að þýða úr ensku en í Bandaríkjunum er orðið tractor (trailer) notað um dráttarbíla með sleðatengi, bíla sem draga festivagn.  Encarta orðabók Molaskrifara segir: ,, Front part of a heavy truck , a large vehicle, the front section of a truck used to haul heavy loads,with a driving cab, engine and coupling for trailers”.

 

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (06.06.2015) var sagt: ,, ... þegar Eastern Star ferjan hvolfdi í Yangsteánni á mánudaginn.” Ferjan hvolfdi ekki. Ferjunni hvolfdi á Yangstefljótinu í Kína. Í sama fréttatíma var sagt: ,, Þetta er í þriðja sinn sem maðurinn er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart konunni....” Hér hefði betur verið sagt: ,, Þetta er í þriðja sinn,sem manninum er gert að sæta .....”

 

Af mbl.is (05.06.2015): ,,Parið, sem kem­ur frá Wales, var hand­tekið fyr­ir að stunda kyn­líf á al­manna­færi.” Hér hefði átt að standa:Parið sem er frá  Wales ...  http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/06/05/stundudu_kynlif_a_tonleikum_palomu_faith/

 Æ algengara  er orðið að heyra eða lesa um manninn sem kemur frá Akureyri eða kemur frá Seyðisfirði. Maðurinn er ekkert að koma þaðan, heldur á heima þar, eða á rætur þangað að rekja.

 

Á visir.is sagði á föstudag (05.06.2015): Verslun opnar aftur í Hrísey á morgun. Ekki var sagt hvað verslunin ætlaði að opna. http://www.visir.is/verslun-opnar-aftur-i-hrisey-a-morgun/article/2015150609284

Verslun verður sem sé starfsrækt í Hrísey að nýju eftir nokkurt hlé.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1731

 

Molavin skrifaði (05.06.2015): ,, Það heitir víst að bera í bakkafullan lækinn að nefna þetta enn einu sinni, en þeim á Vísi lærist seint að fara rétt með. Í dag, 5.6.2015 stendur þetta í frétt um jökulgöng fyrir ferðafólk: "Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem vígði göngin við hátíðlega athöfn og leist henni vel á." Barnaskapur og fagleysa einkanna því miður skrif of margra, sem hafa af því launað starf að skrifa í fjölmiðla og netmiðla. Metnaðarleysi eigenda og yfirmanna, sem fylgjast hvorki með né leiðbeina er sömu miðlum ekki til vegsauka.” Hverju orði sannara. Þakka bréfið.

Um þessi sömu göng var sagt í fréttum Stöðvar tvö (05.06.2015): ,, .. göngin voru opnuð um klukkan milli fjögur og fimm í dag “.

Ítrekað var í fréttum Stöðvar tvö á Laugardagskvöld (06.06.2015) að göngin í jöklinum hefðu verið vígð.

 

Gamall vinnufélagi sendi eftirfarandi (05.06.2015):

,,Hið ágæta heiti „lýsi“ virðist nú eiga í vök að verjast fyrir „fiskolíu“ sem er greinilega bein þýðing úr ensku. Ef til vill þykir ekki orðið nógu fínt í nýmóðins „lífstíl“ að taka lýsi og því þurfi að finna því einhvern „fínni“ búning sem á betur við í heimi sjálfhverfu kynslóðarinnar.”Molaskrifari þakkar bréfið. Hann hefur einnig tekið eftir þessu. Lýsi er ljómandi fallegt orð.

 

Íslenskt skemmtiferðaskip fer jómfrúarferð, sagði í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (03.06.2015). Skipið heitir Ocean Diamond og er nokkurra áratuga gamalt, uppgert. Það á heimahöfn á Bahamaeyjum. Áhöfnin er erlend. Íslendingar mega ekki kaupa sér far eða sigla með skipinu í ferðum þess umhverfis landið. Hvað er svona íslenskt við þetta?

http://www.ruv.is/frett/islenskt-skemmtiferdaskip-fer-jomfruarferd

 

Í fylgiblaði Morgunblaðsins (05.06.2015) er hálfsíðu auglýsing frá Málningarverslun Íslands. Þar segir: Þegar hefðbundin málning er ekki að duga ... Þarna hefur verið að verki slakur textahöfundur hjá auglýsingastofu eða fyrirtækinu. Hér hefði verið ólíkt betra að segja: Þegar hefðbundin málning dugar ekki. Þess er-að sýki er smitandi.

 

Þeir á mbl.is komast stundum hnyttilega að orði, viljandi eða óviljandi. Dæmi frá laugardegi (06.06.2015): ,,Pall­bíll sást á hvolfi í Ártúns­brekku um há­deg­is­bil”. Það var og.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/06/06/pallbill_a_hvolfi_i_artunsbrekku/

 

Enn einu sinni var sjónvarpsfréttunum fleygt út af sínum stað vegna fremur ómerkilegs boltaleiks á sunnudagskvöldið (07.06.2015). Fámennt var á áhorfendabekkjum. Svo var þetta sent út á tveimur rásum. Minna mátti ekki gagn gera. Er enginn á fréttastofunni með bein í nefinu?

 

Molaskrifara finnst Tryggvi Aðalbjörnsson , fréttamaður Ríkisútvarps, komast vel frá því að greina okkur frá réttarhöldum og yfirheyrslum yfir fjármálafólkinu sem nú sætir ákærum vegna hrunsins. Það er ekki einfalt mál að koma kjarna máls úr löngum réttarhöldum til skila í stuttu máli svo vel skiljist. Tryggva hefur tekist það með ágætum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1730

  

Gamall starfsbróðir benti Molaskrifara á eftirfarandi á vef Ríkisútvarpsins: ,, ,, 4000 sjómenn féllu við Íslandsstrendur“, segir á vefsíðu Ríkisútvarpsins. Þar er átt við franska sjómenn. Ætli ekki sé átt við að þeir hafi drukknað? Ef svo er, þá er þetta með eindæmum klaufalegt orðalag, greinilega ritað án þess að hugsa.” –Vanhugsað. Molaskrifari þakkar ábendinguna. http://frettirnar.is/um-4000-sjomenn-fellu-vid-islandsstrendur/

Þetta var seinna lagfært: ,,Um 4000 sjómenn létust við Íslandsstrendur,, Skárra.

 

Af mbl.is (02.06.2015): ,,Ragn­heiður Rík­h­arðsdótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, kvað sér hljóðs á þingi í dag og setti fram þá hug­mynd ...” Ragnheiður kvaddi sér hljóðs. Fréttaskrifarinn kann ekki að  greina milli sagnorðanna að kveða og að kveðja. Kveða – kvað. Kveðja - kvaddi.  

 

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (02.06.2015) sagði fréttamaður: Hér fyrir aftan mig má sjá riffilmann sérsveitarinnar ... Í seinni fréttum sama kvöld talaði fréttamaður um riffilmenn lögreglunnar..

 Rifilmaður? Er það ekki skytta? Molaskrifari ekki áður heyrt orðið riffilmaður.

 

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (01.06.2015) sagði fréttamaður: ,, .... segir , að heilbrigðiskerfið þoli ekki lengur við.” Ekki er þetta vel að orði komist. Betra hefði verið, til dæmis, - segir heilbrigðiskerfið ekki þola meira, segir heilbrigðiskerfið komið að þolmörkum. Sami fréttamaður talaði um millilandsflugvöll. Átti líklega við millilandaflugvöll.

 

Á Bylgjunni var sagt (03.06.2015) að hinn umdeildi forseti FIFA hefði stigið til hliðar, - hann sagði af sér. Þetta orðalag er algengt í fjölmiðlum um þessar mundir. Menn eru hættir að hætta, hættir að láta af störfum, hættir að segja af sér. Einnig var sagt að hann væri undir rannsókn. Verið er að rannsaka mál hans. Hvort tveggja eru hráar hroðvirkniþýðingar úr ensku., - step aside og be under investigatiion. Enskan skín í gegn.

Einstaklega illa skrifuð frétt á presssan.is (03.06.2015): http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/15-ara-hengdi-sig-i-kjolfar-eineltismyndbands

 Dæmi: Vakaðu yfir fjölskyldunni þinni á meðan þau syrgja. Vandalaust að nefna fleiri.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1729

 

Molavin skrifaði (03.06.2015): ,,Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók konu í annarlegu ástandi á Austurvelli..." segir í upphafi fréttar á Vísi í dag, 3. júní. Þetta er vitaskuld ekki rangt en óþarfa málalenging að nota fullt heiti embættisins. ,,Lögregla handtók konu..." segir nóg. Lipur texti án málalenginga er kostur. Það ættu ritstjórar að brýna fyrir nýliðum. - Hverju orði sannara. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Þorvaldur skrifaði (01.06.2015): ,,Í Mogga í dag sagði frá kókaínsmygli til Spánar í ananasávöxtum. Þar sagði að ananasarnir hefðu innihaldið kókaín sem komið hefði verið fyrir í ananösunum. Merkileg og áður óþekkt beyging. 

Einnig er talað um skip og sagt að skipið gerði út frá tilteknum stað. Skip gera ekki út, það gerir útgerðarmaður.” Þetta með skipin sem gera út hefur áður heyrst og verið nefnt í Molum. Molaskrifari þakkar Þorvaldi þarfar ábendingar.

 

Af mbl.is (02.06.2015): Strand­blak hef­ur á síðustu árum stækkað mikið hér á landi og í dag eru nokk­ur hundruð manns sem spila íþrótt­ina að jafnaði. Vinsældir strandblaks hafa aukist eða vaxið hér á landi. Íþróttagreinar stækka ekki. Nokkur hundruð manns iðka íþróttina. Ekki spila íþróttina. Molaskrifari heyrir stundum talað um Ísland sem klakann, svona í góðlátlegum hálfkæringi. Orðið á ekki erindin í fyrirsögn í fjölmiðli eins og hér. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/06/02/strandblaksaedi_a_klakanum/

 

Í fréttayfirliti Ríkisútvarpsins á hádegi á þriðjudag (02.06.2015) var sagt: Meirihluti landsmanna telur að ríkisstjórnin leggi meiri áherslu á afkomu bankanna en heimilin í landinu. Hljómaði undarlega. Ekki nægilega skýr hugsun. Það hefði látið betur í eyrum Molaskrifara, ef sagt hefði verið: - Meirihluti landsmanna telur að ríkisstjórnin leggi meiri áherslu á afkomu bankanna en afkomu heimilanna í landinu. Skýrara.

 

Eina útvarpsrásin, sem Molaskrifari hlustar á staðaldri á í bílnum (fyrir utan fréttir á öðrum rásum) er Rondó Ríkisútvarpsins. Þar er útvarpað tónlist af ýmsu tagi, lang oftast góðri tónlist. Engar kynningar. (Um það má deila.) Engar ambögur. Þetta er sjálfsagt tölvuvalið af handahófi úr stóru safni. Molaskrifara brá í brún á mánudagsmorgni (01.06.2015), rétt fyrir hádegið, þegar þjóðsöngurinn, Ó, guð vors lands , allt í einu hljómaði á Rondó. Þjóðsönginn á ekki að spila að tilefnislausu. Það á að fjarlægja hann úr tónverkasafninu, sem Rondó nýtir. Þetta hefur gerst áður áður. Þetta hefur líka verið nefnt áður í Molum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1728

Molalesandi skrifaði (01.06.2015):,, Á vef Kennarasambandsins er spurt: Eru danskir skólar að bregðast börnum innflytjenda? Væri ekki réttara að segja "Bregðast danskir skólar börnum innflytjenda?" Hvað ætli kennarar í íslensku segi?” Molaskrifari þakkar ábendinguna. Auðvitað er - er að - rit-tískan óþörf þarna. Já, hvað segja kennarar?

 

Draumur Íslendinga um Íslendingaslag ( í einhverri handboltakeppni í útlöndum) rættist ekki, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (31.05.2015). Var Molaskrifari eini Íslendingurinn sem hafði engar draumfarir, dreymdi ekkert um þetta efni ? Draumur Íslendinga! Stundum er eins og íþrótta- og fréttadeild Ríkisútvarpsins telji þjóðina ekki hugsa um neitt annað en boltaleiki. Þar á bæ ættu menn að reyna að hugsa aðeins út fyrir íþróttapakkann sem talað erum á hverjum einasta degi, -  eða því sem næst.

 

,,...áhafnarmeðlimir þurfi að hvílast...”, var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (01.06.2015). Skipverjar þurfa að hvílast. Áhafnarmeðlimir er orðskrípi. Áhafnarmeðlimir komu einnig við sögu í fréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (02.06.2015) . Sum orð,sem helst ætti að forðast, eru ótrúlega lífseig í hugum fjölmiðlamanna.

 

Málfar í fréttum Bylgjunnar er ekki alltaf til fyrirmyndar, ekki frekar en annarsstaðar. Í hádegisfréttum á sunnudag (31.05.2015) var oftar en einu sinni talað um að láta framkvæma undirskriftasöfnun og halda undirskriftasöfnun .Einnig var talað um að halda bindandi kosningu. Enginn með máltilfinningu á vaktinni ? Efna til undirskriftasöfnunar. Boða til kosninga, efna til kosninga.

 

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (01.06.2015) var rætt við Ólaf Örn Haraldsson þjóðgarðsvörð á Þingvöllum. Meðal annars um aukið fé sem nú fæst til lagfæringa í þjóðgarðinum, hátt í 160 milljónir. Fram kom að miklum fjármunum þurfi að verja til lagfæringa við Silfru vegna landskemmda. Fyrirtæki gera út á köfun í silfurtært vatnið í gjánni. Einnig kom fram að tekið er þúsund krónu gjald af hverjum kafara. Hugsið ykkur: Heilar þúsund krónur! Molaskrifara finnst að gjaldið ætti að vera tíu þúsund krónur og fyrirtækin, sem gera út á köfun í þjóðgarðinum, ættu sjálf að kosta lagfæringar á þeim skemmdum á landinu, sem rekja má til starfsemi þeirra. Þau krefja sennilega hvern kafara um talsvert hærri upp hæð en skitinn þúsundkall. Hvað borga fyrirtækin hátt aðstöðugjald fyrir að fá að vera með rekstur af þessu tagi í þjóðgarðinum?

Það ætti sömuleiðis að vera jafn sjálfsagt að greiða bílastæðagjald á Þingvöllum eins og það er í Lækjargötu eða á Njálsgötu. Þarf að ræða það?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1727

  

Í auglýsingablaði um stóreldhús frá Ekru,sem fylgdi Fréttablaðinu á laugardag (30.05.2015) segir á forsíðu:  Það felst mikill sparnaður í því að versla alla matvöru á einum stað. Við verslum ekki matvöru. Við kaupum matvöru.

Þar segir líka: Nýlega hóf fyrirtækið að selja matvöru í erlend skemmtiferðaskip sem stoppa hér á landi yfir sumartímann, en mikill vöxtur er í þeirra þjónustu. Þennan texta hefði þurft að lesa yfir. Æ oftar sést og heyrist röng notkun sagnarinnar að versla.  Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (01.06.2015) talaði alþingismaður (efnislega) um að auðvelda fólki að versla þessa vöru.  Að kaupa þessa vöru, hefði það átt að vera.

 

Gæsluvélin bjargar 5000 manns,segir í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (01.06.2015). Fyrirsögnin er ekki í samræmi við það sem segir í fréttinni. http://www.ruv.is/frett/gaesluvelin-bjargar-5000-manns  Flugvél Gæslunnar átti þátt í björgun 5000 flóttamanna.

Á fréttavefnum sama dag segir í íþróttafrétt: ,,Landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason gæti verið lánaður frá spænska liðinu Real Sociedad til enska úrvalsdeildarliðsins Everton á næstu leiktíð”. Gæti verið lánaður !  Ekki vel orðað. http://www.ruv.is/frett/alfred-finnbogason-gaeti-farid-til-everton

 

Bylgjan auglýsir too hot for you sósu (29.05.2015). Hversvegna ekki tala við okkur á íslensku?

 

Þá er við komin á rúmsjó, sagði formaður fjárlaganefndar í Viklokunum í Ríkisútvarpinu (30.05.2015). Sennilega átti konan við,að þá værum við komin á lygnan sjó. Það er ekki alltaf logn úti á rúmsjó. Þegar notaðar eru myndlíkingar er betra að fólk viti hvað þær merkja.

 

Undarleg, löng frétt, af mótmælum í Bandaríkjunum þar sem ekkert gerðist, var í átta fréttum Ríkisútvarps þennan sama laugardagsmorgun. Fréttin hefst á 01:55 - http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/morgunfrettir/20150530

Oft veltir maður fréttamatinu fyrir sér. Auðvitað sýnist sitt hverjum.  

 

Enn tala þeir í Ríkissjónvarpinu um íþróttafréttirnar sem íþróttapakka. Ekki bara að pakkarnir séu stórir eða þéttir! Á laugardagskvöld (30.05.2015) að margt væri að gerast í íþróttapakkanum!

Meira um íþróttafréttir þennan sama dag: Í hádegisfréttum sagði íþróttafréttamaður: Einar tryggði sér bráðabana með því að ná fugl á átjándu holu. Að ná fugli er að leika golfbraut á einu höggi undir pari, eins og sagt er á golfmáli. Ættað úr ensku , birdie.

Þetta má heyra á 18:02 http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/hadegisfrettir/20150530

Í þessum sama íþróttafréttatíma var líka talað um að spila stórt hlutverk.  Ekki mjög vandað orðalag.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1726

 

Glöggur Molalesandi sendi eftirfarandi (29.05.2015): ,,Enginn maður hefur gengt ráðherraembættum lengur en Halldór en hann sat á Alþingi í rúm þrjátíu ár," sagði Heimir Már Pétursson í fréttum Stöðvar 2 fimmtudaginn 28. maí þegar Halldórs Ásgrímsson var jarðsettur. ,,Á hverju skyldi hann hafa reist þessa skoðun? Í Handbók Alþingis segir, að Halldór hafi setið næst lengst sem ráðherra, rúm 19 ár, lengst hafi setið Bjarni Benediktsson eldri, rúm 20 ár. “– Rétt skal vera rétt. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Fréttamenn eiga að fara varlega í fullyrðingum og kanna heimildir, - eins og til dæmis Handbók Alþingis í þessu tilviki. Ekki bara hafa eftir það sem annarsstaðar hefur verið , stundum ranglega -, sagt.

 

Ef Ísland sigrar Evróvisjón, - auglýsti Netgíró á dögunum. Það lærist seint, bæði fréttastofum og auglýsingastofum, að það sigrar enginn keppni. Er alveg ómögulegt að hafa þetta rétt?

 

Í Vikulokum Ríkisútvarpsins nýlega talaði ritstjóri um að gera því skóna. Rétt er að tala um að gera einhverju skóna, gera ráð fyrir einhverju , spá einhverju. Hefur verið nefnt hér áður.

 

Er Molaskrifari einn um að vera farinn að þreytast svolítið á því að heyra sífellt í fréttum að unnið sé hörðum höndum, að öllu milli himins og jarðar. Þálítið einhæft og þreytandi til lengdar.

 

Hvað eruð til tilbúnir að ganga langt? Svona spurði fréttamaður samningamann í kjaraviðræðunum í síðustu viku. Hvernig í ósköpunum datt fréttamanni í hug að viðmælandi hans gæti svarað þeirri spurningu?  

 

Með góðum árangri gera hinar hallærislegu Hraðfréttir Ríkissjónvarpsins út á hégómagirnd  stjórnmálamanna og þotuliðs. Ótrúlega margir reynast tilbúnir  til að láta hafa sig að fífli fyrir augnablik á skjánum.

 

Skyldi þáttaröðin Glæpahneigð og endalausir þættir um löggur og slökkviliðsmenn vera efni, sem Ríkissjónvarpið er búið kaupa til næstu fimm ára, eða svo? Er þetta endalaust?

 

Í fréttum Stöðvar tvö var nýlega (14.05.2015) sagt um hópferð hjólreiðamanna: Hópurinn lagði af stað frá versluninni Örninn í Skeifunni.  Frá versluninni Erninum í Skeifunni. Beygja. Í gamla daga sögðu börn og unglingar: Hjólið mitt er í viðgerð  í Erninum, -  eða í Fálkanum. Í sama fréttatíma var sagt: Forseti Íslands mun eiga afmæli í dag. Þar var ekkert mun.  Forseti Íslands átti afmæli þennan dag, 14. maí.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband