Molar um málfar og miðla 1505

  Í blaðinu Hafnarfjörður – Garðabær, sem dreift er með Morgunblaðinu (27.06.2014), segir í leiðara: ,,Lífeyrissjóðir eru sagðir vanta um 500 milljarða króna ....”. Ekki málfræðilega rétt. Betra væri: Sagt er að lífeyrissjóði vanti um 500 milljarða króna ...

Í sama blaðið er fyrirsögn (bls.2) Meirihlutinn reyni að stöðva byggingu hjúkrunarheimilis. Óskýrt og villandi. Þetta er ekki hvatning til meirihlutans um að stöðva framkvæmdir við hjúkrunarheimili. Verið er að basla við að segja að meirihlutinn sé að reyna að stöðva framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimilis. Óskýr hugsun. Óskýr skrif.

 

Hvenær var þessi þarsíðasta vika, sem talað var um í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á föstudag (27.06.2014)? Hvaða bull er þetta? Þar síðasta vika? Til hvers er málfarsráðunautur við Ríkisútvarpið?

Í sama fréttatíma var sagt um gosdrykki í pappamálum:,,Skammturinn telur 44 únsur..” Í fyrsta lagi telja skammtar hvorki eitt né neitt og í öðru lagi segir mælieiningin únsa íslenskum hlustendum ákaflega lítið. Þá var sagt í enn sama fréttatíma um upplýsingaskjá, að hann markaði byltingu. Kannski hefði mátt segja að hann væri bylting í upplýsingamiðlun eða markaði tímamót. Varla markaði byltingu. Svo var talað um að standa sig vel á Pisakönnun. Var enginn ábyrgur yfirmaður með sæmilega tilfinningu fyrir móðurmálinu á vaktinni? Greinilega ekki.

 

Furðuleg fyrirsögn í DV (27.-30.06.2014): Best heppnaða hryðjuverk sögunnar. Átt er við morðið á Franz Ferdinand erkihertoga. Það hleypti fyrri heimsstyrjöldinni af stað. Sannarlega vel heppnað, - eða hvað?

Meira úr þessu sama eintaki DV úr viðtali við Jónínu Bendiktsdóttur: ,,Ég hef tileinkað lífi mínu detoxi og hyggst gera það áfram.”. Tileinkað lífi mínu detoxi! Það var og. Margir andstæðingar Framsóknarflokksins munu eiga sjálfsagt þá ósk heitasta að Jónína Benediktsdóttir gangi opinberlega og af krafti til liðs við Framsóknarflokkinn.

 

Fólki hefur verið boðið að tékka sig inn yfir netið, var sagt í fjögur fréttum Ríkisútvarps á föstudag (27.06.2014). Verið var að tala um ferðalanga á Kastrup flugvelli, en þeim stóð til boða að innrita sig í flug á netinu. Ekki mjög vandað orðalag.

 

K.Þ. benti á þessa frétt (26.06.2014) á visir.is. ,,Eru lífshótanir í lagi?”
http://www.visir.is/eru-lifshotanir-i-lagi-/article/2014706279999

Lífshótanir? Hljómar hreint ekki svo illa! Hljómar þó verr á ensku.

Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Í neðanmálstexta í Ríkissjónvarpi (28.06.2014) var skrifað: Fólk fór í bæinn á trukkum. Á skjánum voru venjulegir vörubílar, sem á ensku heita truck. Á íslensku hefur orðið trukkur einkum verið notað um öfluga vörubíla, oft með drifi á öllum hjólum. Þetta orð kom sennilega með Bandaríkjamönnum til landsins í stríðinu, sem komu með öfluga trukka, vörubíla, oft tíu hjóla með drifi á öllum hjólum. Yfirleitt af gerðinni GMC. Trukkarnir sem voru með einum afturöxli voru yfirleitt af gerðinni Chevrolet. Kanadamenn, og Bandaríkjamenn sjálfsagt líka, nota einnig orðið truck um pallbíla,(sem einu sinni voru kallaðir pikkuppar) oftast af stærri gerðinni.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1504

  Í áttafréttum Ríkisútvarps (26.06.2014) var sagt því að stærsta flugvél heims, vöruflutningaflugvél, hefði lent á Keflavíkurflugvelli. Fréttamaður kunni ekki að greina á milli orðanna farms og farangurs, en orðið farangur er venjulega notað um föggur ferðafólks. Hann sagði: ,,.. án eldsneytis og farangurs vegur vélin ...  tonn”. Og seinna í fréttinni var sagt að vélin ætti heimsmet í að flytja ,,þyngsta farangur allra tíma sem var tæp 254 tonn”. Þyngsta farm, hefði þetta átt að vera. Í fréttum Stöðvar tvö var réttilega talað um farm.

 

Í sex fréttum Ríkisútvarps (24.06.2014) var sagt: Farþegum verður flogið suður ... Farþegum er ekki flogið. Farþegar fóru flugleiðis suður. Farþegar fóru suður með flugvél.

 

Úrslitin eru að fara að ráðast, var sagt (26.06.2014 í tuðrutuði Ríkissjónvarps sem þar er kallað HM stofa. Margt snjallyrðið hrýtur mönnum þarna af munni.

 

Enn heyrast tilkynningar lesnar í Ríkisútvarpinu með hvimleiðum ,,Bylgjutóni”. Öllum setningum lýkur á lækkandi tóni. Heyrir þetta enginn í Efstaleiti eða er mönnum bara alveg sama?

 

Það er ekki seinna vænna heldur en að byrja, sagði sjónvarpskokkur (26.06.2014) í dagskrárkynningu á Stöð tvö. Einhver hefði mátt benda manninum á að þetta væri ekki gott orðalag. Betra hefði verið: Það er ekki seinna vænna að byrja.

 

Kafbáturinn Ægir var settur á flot í ánni Silfru á Þingvöllum í dag, sagði fréttaþulur Ríkissjónvarps á fimmtudagskvöld (26.06.2014). Í gjánni Silfru á Þingvöllum átti þetta að sjálfsögðu að vera. Engin á á Þingvöllum, nema Öxará. Þar eru vissulega margar gjár en ekki margar ár.

 

,,Á sama tíma og afar viðkvæmt vopnahlé í Úkraínu lýkur”, las fréttamaður hikstalaust í morgun fréttum Ríkisútvarps á föstudagsmorgni (27.06.2014). - Á sama tíma og ... viðkvæmu vopnahléi lýkur”. Viðkvæmt vopnhlé, - ótraust vopnahlé.

 

Í Fréttablaðinu segir (27.06.2014) : ,,Styrmir segir ljóst að forystumenn flokkanna verði að taka sig saman í herðunum og taka ákvörðun ...” Taka sig saman í herðunum??? Þetta hefur Molaskrifari ekki áður heyrt né séð. Stundum er sagt að menn þurfi að taka sig saman í andlitinu, herða upp hugann, koma einhverju í verk. Hafa menn heyrt þetta orðalag áður?

 

Á heimasíðu Ríkisútvarpsins geta menn skoðað dagskrána á nýlegum vef en einnig stendur eldri dagskrárvefur til boða. Eldri vefurinn var og er fínn, engin ástæða til breytinga. Miklu betri en sá nýi, Fréttir eru til dæmis miklu fyrr aðgengilegar á eldri vefnum en þeim nýja. Hvað veldur?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1503

   Í þessari frétt mbl.is (23.06.2014) er sagt frá ís sem verið er að selja í Danmörku. Umbúðirnar eru keimlíkar umbúðum íss frá Kjörís í Hveragerði. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2014/06/23/sun_lolly_hermir_eftir_nyjum_is_kjoriss/

 Í fréttinni er talað um ís sem var að detta í sölu í Danmörku ... Æ algengara að sjá þetta orðalag að eitthvað sé að detta inn. Ný frétt var að detta inn. , - ný frétt var að berast. Ísinn var að detta í sölu. Sala var að hefjast á ísnum.

 

Hversvegna eru ekki allir fréttatímar Ríkisútvarpsins aðgengilegir á netinu? Fylgir því einhver aukakostnaður ?

 

Úr auglýsingu í Bakarameistaranum: ,, Irish coffie (svo!) frómas með brownies botn ...”

 

 Molaskrifari hnaut um orðalag í frétt Morgunblaðinu á fimmtudag (26.06.2014). Á forsíðu segir um útflutning Sælgætisgerðarinnar Freyju, að sælgætið sé selt undir öðru nafni í Noregi því til sé norsk Freia.,,Hún var stofnuð rétt fyrir rétt fyrir aldamótin 1900, en hin íslenska Freyja nokkrum árum síðar, eða 1918”. Þetta er nú ekki mjög nákvæmt. Hin norska Freia var stofnuð 1889. Þremur árum síðar, 1892 eignaðist Johan Trone Holst fyrirækið. Það er því út í hött að segja að hin íslenska Freyja hafi verið stofnuð nokkrum árum síðar. Það voru næstum þrír áratugir. Hann gerði það að stórveldi í súkkulaðiframleiðlsu og eins konar þjóðartákni. Mjólkursúkkulaðið frá Freiu og seinna ,,Kvikk lunsj” súkkulaðikexið varð gríðarlega vinsælt, eiginlega þjóðarréttur eins og prins póló á Íslandi. Trone Holst stofnaði súkkulaði- og sælgætisgerðina Marabou í Svíþjóð. Þegar bandarískt stórfyrirtæki keypti Freia 1993 þótt mörgum Norðmanninum sem verið væri að selja þjóðarfjársjóð, fjölskyldusilfrið, eins og þeir sögðu. Það var mörgum mikið áfall. Freia var norskari en flest sem norskt var. Johan Trone Holst byggði vandað íbúðarhús upp úr 1910 að Langviksveien 6 á Bygdöy í Osló. Húsið kallaði hann Ekhaugen.  Það er nú í eigu íslenska ríkisins. Ekkja hans seldi íslenska ríkinu húsuð með hagkvæmum kjörum. Vildi gjarnan að það yrði sendiherrabústaður. Það er nú embættisbústaður  sendiherra Íslands í Noregi. Throne Holst var merkilegur maður á margan hátt. Verkalýðsfélögunum í Noregi var ekkert sérlega vel við hann, því hann gerði svo vel við starfsfólk sitt! Heilsugæsla var til fyrirmyndar og hann byggði sérstaka starfsmannabústaði. Í matsal fyrirtækisins (byggður 1934)  voru 12 stór málverk eftir Edvard Munch. Salurinn var einnig notaður til tónleikahalds. Fyrir  tilkomu hans voru þrír matsalir, einn fyrir konur, einn fyrir  karla og sá þriðji fyrir yfirmenn. Throne Holst  vildi stefna að sex  stunda vinnudegi fyrir starfsfólk sitt. Hann var íhaldsmaður, en framsýnn umbótamaður. Throne Holst lést 1946.  Hann  skrifaði æviminningar, Erindringer og refleksjoner, sem komu út árið 1941.Seinna 1989 kom út ævisaga hans, Sjokoladekongen. Hana skrifaði Erik Rudeng sagnfræðingur, seinna forstöðumaður byggðasafnsins á  Bygdöy.

 

Fyrst ausa fótaboltasérfræðingar Ríkissjónvarpsins yfir okkur úr viskubrunnum sínum áður en leikirnir hefjast. Eftir leikina segja þeir hvað okkur eigi að finnast um leikina. Hve margar milljónir skyldi Ríkissjónvarpið borga fyrir þetta tuð? Fróðlegt væri að vita það, en sennilega er það ríkisleyndarmál. Við bara borgum. Spyrjum ekki.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1502

  Molavin skrifaði: ,, "Árás­araðila var leitað án ár­ang­urs en árás­arþola sem var með skurð á auga­brún var ekið á bráðamót­töku til aðhlynn­ing­ar." Svona var skrifað í mbl.is-frétt 24.06.2014. Ef til vill eru þessi orð höfð orðrétt eftir tilkynningu lögreglu, en engu að síður mættu blaðamenn hafa almennt mannamál í huga þegar sagðar eru fréttir. "Sakbornings var leitað en hinn slasaði fluttur á bráðamóttöku." "Til aðhlynningar" er óþarfa málalenging. Þórbergi heitnum var annt um að menn rituðu skýrt mál og kæmu þannig skýrri hugsun til skila. Bækur hans mættu vera skyldulesning nýjum blaðamönnum.”

Molaskrifari þakkar bréfið, - rétt er það, hægt er að læra mikið af því að lesa góða texta.

 

Gamall starfsfélagi Molaskrifara vitnar í mbl.is (24.06.2014): Þjóðin sem sigr­ar Heims­meist­ara­mótið í knatt­spyrnu ...“ Það ískyggilega við þetta, Eiður, er að fréttabarnið sem skrifar þetta gæti hæglega verið með fjórar háskólagráður. Það er meira að segja sennilegt. – Rétt er það. Fréttabörnin valsa víða um lyklaborðin og ruglið sem frá þeim rennur er birt athugasemdalaust. Sjá: <<<http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2014/06/24/skammvinn_sigurgledi_a_hm/

 

Í gærkveldi (25.06.2014) var tilkynnt í lok frétta í Ríkisútvarpi kl. 22 00 að sjónvarpsfréttir hæfust klukkan 22 15. Þær hófust klukkan 22 20 eða rúmlega það. Íþróttafréttamenn virða engin tímamörk eða kunna ekki á klukku. Nema hvort tveggja sé. Fréttaþulur Ríkissjónvarps sagði enn einu sinni að fréttir væru seint á ferð vegna leiks á HM. Það var ekki rétt. Leiknum lauk fyrir klukkan 22 00. Fréttirnar voru seint á ferð vegna þess að fjasa þurfti um fótboltaleikinn sem lokið var. Það var þáttur sem hét HM stofa eða eitthvað í þá veru og er á dagskrá oft á dag. - Nú nennir Molaskrifari ekki, - að sinni, - að ræða meira um ofbeldi íþróttadeildar í dagskránni og fremur subbuleg vinnubrögð. en þess verður sjálfsagt ekki langt að bíða að honum verði enn einu sinni misboðið.

 

Af visir.is (23.06.2014) http://www.visir.is/samviskufongum-faekkar-i-nordur-koreu/article/2014140629635 :

,,Amnesty sagði þvert á móti í desember síðastliðnum að fjöldi þeirra væri að aukast eftir að greining á gervihnattamyndum sýndi fram á fjölda nýrra íbúðarbragga í grennd við eina af stærri fangabúðum landsins.” Frámunalega illa skrifuð frétt. Bara ein málsgrein: Fjöldi að aukast , eina af stærri fangabúðum. Þetta er úr kynningu á fréttinni: ,, Ný rannsókn hefur leitt í ljós að fjöldi þeirra sem situr nú í fangabúðum í landinu hafi fækkað umtalsvert á síðustu árum”. Ekki batnar það. Fjöldi hafi fækkað! Hvar er gæðaeftirlitið? Fleira hefði mátt tína til.

 

Í fótboltafjasi í Ríkissjónvarpinu (23.06.2014) var talað um kamerúnska staffið starfslið kamerúnska liðsins og að fagna var að sýna hluttekningu! Tekið var sérstaklega fram að knattspyrnuliði væri hrósað fyrir að vera mannlegt! Nema hvað? Hlustaði Molaskrifari þó ekki lengi.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1501

 Íþróttadeild Ríkissjónvarpsins heldur áfram að beita ofbeldi í dagskránni. Í gærkveldi (24.06.2014)var fótboltaleik lokið klukkan 21 55. Tíufréttir hefðu átt og hefðu getað hafist klukkan 22 00. Nei. Þá tók við innihaldslaust tuðrutuð í 20 mínútur og vel Það það með löngum auglýsingum. Tilgangur tuðsins sá einn að segja fólki hvað því ætti að finnast um leikinn. Þetta gerðist líka kvöldið áður. Fréttunum ýtt til hliðar. Vond vinnubrögð. Allt er gert til að þóknast háværum elskendum boltans. Við hin skiptum ekki máli. Hvar er nú nýr fréttastjóri? Lætur hann bjóða sér að fréttatíminn sé eilíf hornkerling þegar fótboltinn er annarsvegar ? Hefur enginn metnað fyrir hönd fréttastofunnar? Er þetta gert með blessun útvarpsstjóra? Valtar íþróttadeildin yfir hann? Stundum finnst Molaskrifara að stjórnendur íþróttadeildar séu eins og frekir krakkar við ,,nammibar” eða slægætishillurekkana í stórmarkaði. Foreldrarnir gefast yfirleitt upp fyrir frekjunni og hávaðanum. Stjórnendur Ríkisútvarpsins virðast hafa gefist upp gagnvart frekju íþróttadeildar.

 

Ingólfur Arnarson benti Molaskrifara á fréttabarnsfrétt á mbl.is (21.06.2014). Hann segir: Svona til gamans, fréttabörn að störfum.
Hraðskreiður eltingaleikur við lögreglu?? Klesst á??
Fyrirsögn: 17 ára ökuþór hand­samaður Úr fréttinni:
,,Audi - Hin stolna bifreið var af Audi gerð og olli gríðarlegum skarkala (undir mynd)
Eft­ir hraðskreiðan elt­inga­leik við lög­reglu var 17 ára ökuþór, sem stal bíl í Genf og olli fjöl­mörg­um um­ferðarslys­um, hand­samaður á miðviku­dag.
Bíl­stjór­inn sem um ræðir er bú­sett­ur í Frakklandi en er fær­eysk­ur að upp­runa. Lög­reglu­yf­ir­völd voru fyrst lát­in vita af glæpn­um þegar Audi bíll sást aka á móti um­ferð ná­lægt borg­inni Saint-Prex í Sviss.
Eft­ir­för lög­reglu náði þegar mest lét 200 kíló­metra hraða og Audi bíll­inn um­ræddi klessti á fimm aðrar bif­reiðar áður en loks­ins tókst að stöðva hann”. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/06/21/17_ara_okuthor_handsamadur/

Um helgar leika fréttabörnin víða lausum hala.

 

Það er eitt og annað við þessa frétt af vef Ríkisútvarpsis (21.06.2014) að athuga: http://www.ruv.is/frett/astum-tonleikagesti-vikid-ut-af-messiasi

Í fyrsta lagi er það fyrirsögnin: Æstum tónleikagesti vikið út af Messíasi. Hann var rekinn út af tónleikum. Í fréttinni segir: Bandarískum efnafræðingi var vikið út af flutningi á óratoríunni Messíasi... Þar segir ennfremur: David Glowacki, sérfræðingur í sameindaefnafræði við Stanford-háskóla, virðist þó hafa tekið hvatninguna lengra en tónleikahaldarar áttu von á.

 -Tekið hvatninguna lengra? Við hvað er átt?

 

Í fréttum Stöðvar tvö (23.06.2014) var sagt frá fréttamönnum sjónvarpsstöðvarinnar Al Jazeera sem hlutu fangelsisdóma fyrir að flytja falskar fréttir eins og það var orðað. Ekki finnst Molaskrifara það vel orðað. Í fréttum Ríkissjónvarps var talað um þeir hefðu verið dæmdir fyrir rangfærslur og hlutdrægni. Skýrara og betra orðalag.

Undarlegt þótti Molaskrifara hinsvegar hve lítið bandaríska stöðin CNBC hefur gert með þennan dóm í þeim fréttum hennar sem hér er hægt að sjá.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1500

  K.Þ. skrifaði (20.06.2014): Hann segir: ,, Þær eru margar bólurnar!” K.Þ. vekur athygli á þessari frétt á dv.is :

https://www.dv.is/lifsstill/2014/6/20/gunnhildur-tekst-vid-mannskaedan-e-bolufaraldur-R4FLUF/

Og segir: ,,Þetta er athyglisverður ritháttur á erlendu heiti smitsjúkdóms”. - Veiran sem veldur þessum sjúkdómi heitir ebola-veira. Ekki sjálfgefið að það beygist eins og íslenska orðið bóla. - Þakka bréfið.

 

Kjarninn (44. útgáfa) sagði frá komu SDG á Austurvöll 17. júní: ,, .... og flýtti sér inn um þegar lokaðar dyrnar”. Það hefði Molaskrifari viljað sjá!

 

Seinni fréttir Ríkissjónvarps hófust ekki á venjulegum, auglýstum, tíma í gærkveldi (23.06.2016). Knattspyrnuleik sem sendur var út beint lauk vel fyrir klukkan 22 00. Þessvegna hefði verið hægt að hefja fréttir stundvíslega á auglýstum tíma í prentaðri dagskrá. Það þurfti hinsvegar að koma að tuttugu mínútna   fótboltafjasi. Þeir sem vildu heyra fréttir urðu bara að bíða. Á netinu var búið að seinka fréttum til klukkan 22 15, en það var ekki einu sinni hægt að standa við það. Fréttaþulur tók  fram, loks er fréttir  hófust,  að þær væru með seinni skipunum vegna knattspyrnuleiks. Það var rangt. Leiknum lauk fyrir klukkan 2200.  Ekki sá Molaskrifari seinkunina tilkynnta með skjáborða. Kannski ráða menn ekki við þá tækni. Það gera þær sjónvarpsstöðvar, sem sýna viðskiptavinum sínum sæmilega kurteisi. Þetta var venjubundinn yfirgangur íþróttadeildar. Fótbolti hefur forgang í fótboltasjónvarpi ríkisins. Hversvegna mátti ekki senda þetta innihaldslitla fjas um nánast ekki neitt út á íþróttarásinni og láta auglýsta dagskrá halda sér ?

 

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins á sunnudag (22.06.2014) var skrifað af skilningi um þann vágest sem Alzheimer-sjúkdómurinn er. Margir þakka þau skrif. Molaskrifari er einn þeirra.

 

Í Morgunblaðinu á laugardag (21.06.2014) var skemmtilegur pistill , Málið: Fallegt mál, eftir Evu S. Ólafsdóttur. Hún ræðir meðal annars um þýðingar á heitum sjónvarpsþátta og nefnir Aðþrengdar eiginkonur, Desperate Housewives. Molaskrifari nefnir að betri þýðingu lagði Sigurður Hreiðar, sem lengi var blaðamaður, til fyrir nokkuð löngu. Hann vildi kalla þáttinn Hamslausar húsmæður. Það er raunar miklu betri þýðing en Aðþrengdar húsmæður. Réttilega nefnir Eva vond þáttanöfn, sem Molaskrifari hefur reyndar einnig nefnt, oft meira að segja- Ísland got talent og The Biggest Loser Ísland. Þessi þáttaheiti erum öllum hlutaðeigandi til skammar. Á einhverri norrænu stöðinni er nú verið að endursýna fyrstu svarthvítu þættina af Upstairs, Downstairs (1971- 1975) sem nutu fádæma vinsælda. Á íslensku voru þeir kallaðir Húsbændur og hjú, sem er fínt nafn. Danska heitið er líka gott. Herskab og tjenestefolk.

Nú er löngu hætt að þýða kvikmyndaheiti eins og ævinlega var gert í gamla daga. Góð þýðing á kvikmyndaheiti var til dæmis nafn myndarinnar On the Waterfront, sem var áttföld Óskarsverðlaunamynd með Marlon Brando í aðalhlutverki og var sýnd í Stjörnubíói. Á íslensku hét myndin Á eyrinni. Mig hefur alltaf grunað að Árni Böðvarsson, orðabókarhöfundur og seinna málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins hafi gefið myndinni þetta nafn. Mig minnir að Árni hafi gert það í hjáverkum að þýða ,,prógrömmin” efnisútdrættina sem voru seldir sem tvíblöðungar á öllum bíósýningum í gamla daga. Nær allir keyptu ,,prógramm”. Ágústa kona Árna var náskyld Hjalta Lýðssyni sem átti Stjörnubíó. Þau voru systkinabörn, muni Molaskrifari rétt, en nú er hann líklega kominn út fyrir efni þessar fimmtán hundruðasta Molapistils!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1499

  Reyndur blaðamaður sendi Molaskrifara línu (19.06.2014) og sagði: ,,Þú mátt gjarnan víkja að því í pistlunum þínum að þegar verið er að taka byggingar og slíkt í notkun er talað um vígslu. Þetta er meinloka, það getur enginn vígt neitt, nema prestur sem er vígður. Veraldlegar verur vígja ekki neitt.” Þetta hárrétt. Þetta var eitt af því sem fyrsti fréttastjóri Sjónvarpsins, séra Emil Björnsson lagði ríka áherslu á að við sem þar störfuðum færum rétt með. Nú má líklega taka undir með Torfa Erlendssyni nábúa séra Hallgríms Pétursson á Stafnesi, sem á að hafa sagt , þegar Hallgrímur tók prestsvígslu: „Allan andskotann vígja þeir”. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

Svona til að undirstrika þetta, sagði landbúnaðarráðherra í fréttum Stöðvar tvö í gærkveldi (22.06.2014): ,, Ég fékk það hlutverk að klippa á borðann og vígja þessa styrkingu innviðanna í sauðfjárrækt ...” Verið var ljúka endurbyggingu réttar. Þarna var ekkert vígt. Sagt var að séra Hjálmar Jónsson hefði blessað réttina. Það er annar handleggur. Landbúnaðarráðherra er ekki vígður maður. Hann getur ekkert og engan vígt. Orðalagið var út í hött.

 

Það er orðið svo algengt að heyra beygingarvillur, innbyrðis málfræðilegt misræmi í setningum, í fréttum margra fjölmiðla að það mundi æra óstöðugan að telja það allt upp.

Ríkisútvarpið er eini fjölmiðillinn þar sem starfar sérstakur málfarsráðunautur, en starfa hans sér því miður ekki mikinn stað. Hinir nýju stjórnendur Ríkisútvarpsins, útvarpsstjóri og fréttastjóri eiga að hafa metnað til að gera betur.

 

Auglýsingastofur ráða málfari í auglýsingum. Enskuslettum í auglýsingum fer fjölgandi. Hrært er saman íslensku og ensku. Í Fréttablaðinu (20.06.2014) er heilsíðuauglýsing frá fyrirtæki sem kallar sig Culiacan. Þar segir: Hættu í megrun vertu fit. Orðið fit er ekki íslenska. Það er enska. Keep fit, vertu í góðri þjálfun , í góðu formi.

 

Í myndatexta í DV (20.-23.06.2014) segir, að skip sem var selt hafi skipt um hendur. Molaskrifari vissi ekki að skip hefðu hendur og enn síður að skip gætu skipt um hendur!

 

Í fréttum Stöðvar tvö (19.06.2014) var sagt: ,, ... kvað innanríkisráðherra sér hljóðs ..”. Ráðherrann kvað sér ekki hljóðs. Ráðherrann kvaddi sér hljóðs.

 

Í kynningu á dagskrá Ríkisútvarpsins (20.06.2014) var aftur og aftur talað um að gera tónlist. Er það að flytja tónlist eða semja tónlist?

 

Mbl.is sagði okkur á föstudag frá kúm í lausagangi (http://www.mbl.is/sport/frettir/2014/06/20/kyr_i_lausagangi_a_kastsvaedinu_myndband/). Fyrirsögnin var: Kýr í lausagangi á kastsvæðinu, - svæði þar sem verið að keppa í sleggjukasti. Í fréttinni segir: ,, Á meðfylgj­andi mynd­skeiði sem Óðinn Björn tók upp á sím­ann sinn má sjá kýr í lausa­gangi og ým­is­legt fleira áhuga­vert sem menn eiga ekki að venj­ast á kast­svæðum frjálsíþrótta­valla”. Fréttabarnið á mbl.is sem þarna var að verki greinir ekki milli lausagangs , þegar bílvél er í gangi en bíllinn stendur kyrr, og lausagöngu, - þegar gripir ganga á ógirtu landi, utan girðinga! Það léttir lundina að lesa svona !

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1498

 Fyrrum kollega í fréttamannastétt skrifaði (17.06.2014):,, Sæll félagi. Þó að mig gruni að þú sért lítið gefinn fyrir fótbolta, langar mig sem ,,fótboltabullu” að senda þér línu fyrir fjölmiðlapistilinn:

Það er með ólíkindum hve HM lýsendur Ríkisútvarpsins eru ófagmannlegir. Þeir eru stöðugt að segja áhorfendum hvað þeir sjá á skjánum í stað þess að vinna eins og fagmenn og koma með stoðupplýsingar sem fylla upp í myndina. Þeir ættu að kanna hvernig þýskir og enskir lýsendur vinna. Eða bara að hlusta á gamlar lýsingar með vini okkar Bjarna Fel. Þessir piltar eru svo þreytandi (undanskil Einar Örn Jónsson) að maður leitar á erlendu stöðvarnar fremur en að hlusta á blaðrið.

PS: Það er eins og þeir séu að lýsa í útvarp, eða fyrir blint fólk.

Samtali lokið!”

 Molaskrifari játar að hann fylgist illa með fótboltaútsendingum sem Ríkisfjölmiðillinn hefur verið lagður undir nær nótt sem nýtan dag og dagskrá öll sett úr skorðum. Ef Molaskrifari horfir, hneigist hann fremur að breskum stöðvum. Ríkisútvarpið hefur nefnilega tekið sér rétt til að brjóta þann samning sem ég hef gert við Símann til að horfa á norrænu stöðvarnar. Þar er lás á boltanum. Mér skilst að þeir sem verða fyrir barðinu á Ríkisútvarpinu með þessum hætti, geti ekkert sagt, bara verið súrir! Molaskrifari þykist þó vita að mikið sé til í því sem þessi fyrrverandi starfsfélagi segir. Fleiri hafa haft orð á þessu. Kærar þakkir fyrir bréfið.

 

Góðvinur Molanna skrifaði (18.06.2014) : ,,Má til með að vekja athygli á illskiljanlegri forsíðufyrirsögn Fréttablaðsins í morgun:

,TUGIR ÍSLENDINGA SNÚA ALDREI AFTUR EFTIR VINNUSLYS ÁR HVERT.

Þarna hefði etv. farið betur að skrifa: 

 

Árlega hverfa tugir Íslendinga frá starfi eftir vinnuslys. 

(Sama lengd í bókstöfum - eða styttri.) “ Molaskrifari er sammála og þakkar línurnar.

 

 

Lesandi (harri) skrifaði:,, Vef Ríkisútvarpsins tókst að vera með málvillu í fyrirsögn íþróttafréttar í vikunni. Fyrirsögnin var: Bandaríkin aftur komnir yfir gegn Ghana.” Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 http://www.ruv.is/frett/bandarikin-aftur-komnir-yfir-gegn-ghana

 

Haukur benti Molaskrifari á ótrúlega fyrirsögn á vef dv.is: (18.6.14).
"Schumacher lést mikið - gat kinkað kolli og opnað augun."
http://www.dv.is/frettir/2014/6/18/schumacher-lest-mikid-gat-kinkad-kolli-og-opnad-augun/ - Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (20.06.2014) var sagt: Kólombía vann leik Fílabeinsstrandarinnar ??? Hafði ekki Kólombía betur í boltaleik gegn Fílabeinsströndinni. Ekki vandað orðalag.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1497

Hildur Hermóðsdóttir skrifaði (18.06.2014): ,,Sæll Eiður, mig langar bara að þakka fyrir frábær skrif um íslenskt mál. Af nógu er að taka og subbuskapurinn sem ríkir á fjölmiðlunum hreint ótrúlegur. Eitt sem stingur nú sí og æ í eyru (og þú ert trúlega búinn að fjalla um) er að nú setja menn sífellt "fókusinn á" hlutina í stað þess að veita þeim athygli. Heyrði þetta enn og aftur dynja í útvarpinu í morgun og varð að koma ergelsinu frá mér. Einkennilegt er líka að heyra talað um að byssur séu "haldlagðar" og bílar "keðjaðir" - átta mig ekki alveg á þessari breytingu á viðtekinni notkun sagna. Nóg að sinni. Kveðja, Hildur”. Molaskrifari þakkar Hildi kærlega fyrir þarfar ábendingar og góð orð um Molaskrif.

 

Lesið í DV (17.-19.06.2014): Rottan mætti dauðdaga sínum þegar maðurinn lét skóflu reiða til höggs. Maðurinn lét ekki skóflu reiða til höggs. Maðurinn reiddi skóflu til höggs.

 

K.Þ. benti á þessa frétt á dv.is (17.06.2014) https://www.dv.is/frettir/2014/6/17/ok-nidur-fimm-ara-dreng-skitur-skedur-lifid-heldur-afram/

Í fréttinni segir: „Skítur skeður, lífið heldur áfram,“ sagði Wayne Payne, 31 árs gamall Breti við foreldra fimm ára gamals drengs sem hann ók niður í apríl í fyrra. – K.Þ. segir: ,, Óttalega er þetta aulalegt”: Það er svo sannarlega rétt.

 

Lesandi vísar til þessarar fréttar á visir.is (17.06.2014): http://www.visir.is/article/20140617/LIFID01/140619216

Hann spyr og ekki að ástæðulausu: ,,Var barn Bryndísar Heru ekki skírt? Og skírði þessi Ásgeir Kolbeins barn sitt sjálfur? Er hann þá prestur?” Réttmætar spurningar.

 

Einhverra hluta vegna er það æ algengara að heyra útsendingarklúður í fréttatímum Ríkisútvarps. Síðast í morgun (20.06.2014) í áttafréttum. Kæruleysi eða klaufaskapur?

 

Sem hefur lengi ekki verið skugginn af sjálfum sér, sagði fréttamaður Ríkisútvarps um knattspyrnumann í Speglinum (19.06.2014). Þetta hljómaði ekki rétt. Var ekki rétt. Betra hefði verið að segja: Sem lengi hefur aðeins verið skugginn af sjálfum sér, – sem hefur hrakað mjög, sem hefur farið mikið aftur.

 

Það heyrir til undantekninga í Ríkissjónvarpinu að sagt sé hvenær efni verði endursýnt. Hjá mörgum erlendum stöðvum er þetta regla. Sennilega er skipulagsleysið of ráðandi í dagskárstjórn Ríkissjónvarpsins til þess að unnt sé að tilkynna endursýningar með góðum fyrirvara. Stundum er okkur meira að segja alls ekki sagt að verið sé að bjóða upp á endursýnt efni. Heldur slök vinnubrögð.

Það hefur lengi verið svo, að auglýsingar á Bylgjunni hafa verið lesnar með hvimleiðri hrynjandi. Í eyrum Molaskrifara hefur það hljómað eins og hálfgerður sífurtónn og einkar óíslenskulegur talsmáti. Að undanförnu hefur því miður heyrst samskonar lestur í Ríkisútvarpinu. Þetta ætti að vera hægt að lagfæra með tal- og lestrarþjálfun.

,,Þínar aðstæður. Okkar áskorun”,- er hallærisleg skjáauglýsing í sjónvarpi. Gevalia segir í sjónvarpsauglýsingu: ,,Gott kaffi fær fólk til að tala”. Eins mætti segja: ,,Gott kaffi fær fólk til að mala”!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1496

 Af mbl.is (16.06.2014): ,,Lög­regl­an á Sel­fossi stöðvaði för öku­manns á Skeiðavegi í gær­kvöldi sem reynd­ist vera dauðadrukk­inn und­ir stýri. Þess fyr­ir utan var hann svipt­ur öku­rétt­ind­um”. Þetta hefði betur mátt orða annan veg: Þess utan hafði hann verið sviptur ökuréttindum. Þar við bættist, að hann hafði verið sviptur ökuréttindum. Eða bara: Hann hafði ekki ökuréttindi.

 

Björn skrifaði (17.06.2014): ,,Skelfing er aulalegt að íþróttadeild Stöðvar 2 skuli kynna dagskrá sína á HM á ensku og að Mogginn og Fréttablaðið skuli birta textann óbreyttan á síðum sínum. Dæmi: ,,Stöð 2 Sport 2: 18.30 Brazil and Mexico, 19.00: Russia, Cuiaba and South Korea. Blöðin standa sig illa í að lagfæra þetta ekki.”  Það er hverju orði sannara. Þakka ábendinguna.

 

Nú er aðeins sagt: Fréttalestri er lokið í lok miðnæturfrétta Ríkisútvarpsins. Þulur er hættur að segja: Næstu fréttir verða klukkan sjö í fyrramálið. Sennilega skammast menn sín fyrir að leggja áherslu á hve þjónustan við hlustendur er léleg, - engar fréttir frá miðnætti til klukkan sjö að morgni. Sjö klukkutímar án frétta í útvarpi allra landsmanna. Svona hegðar ekkert almannaútvarp, ríkisútvarp sér, - nema íslenska Ríkisútvarpið.

 

Í stuttum texta heilsíðu auglýsingar í Fréttablaðinu (16.06.2014) frá grískum flugvirkjaskóla eru villur. Þar segir til dæmis: Skólinn er staðsettur á El. Venizelos alþjóðaflugvöll í Aþenu. Ekki vönduð vinnubrögð hjá auglýsingastofunni sem lætur svona frá sér fara.

Í smáauglýsingu í sama blaði er talað um Kóranska bíla. Bílarnir koma Kóraninum ekkert við (varla að maður þori að nefna þetta!). Átt er við bíla frá Kóreu, kóreska bíla.

 

Af vef Keflavíkurflugvallar (16.06.2014): Við mælum með að farþegar komi til innritunar 2-2,5 klukkustundum fyrir brottför. Innritunarborð opna klukkan 4:30. Einhverjum finnst það kannski smámunasemi, en hvað eru 2,5 klukkustundir? Er það tveir og hálfur tími? Sennilega. Innritunarborð opna hvorki eitt né neitt. Innritun hefst klukkan 4:30. Mikið að ekki var sagt klukkan 4,5 !

 

Fjármálaráðherra talaði í fréttum Ríkisútvarps (16.06.2014) um að byggja undir lífskjörin í landinu. Hann átti sennilega við að treysta , bæta lífskjörin í landinu. Í fréttum sama miðils sama dag var oftar en einu sinni sagt að leikskólakennarar væru sáttir með nýjan kjarasamning. Formaður Félags leikskólakennara sagðist hinsvegar vera sáttur við samninginn. Það finnst Molaskrifara eðlilegra orðalag.

 

Af vef Ríkisútvarpsins (16.06.2014): Þyrlan flaug til móts við vélina og flaug með henni til Keflavíkur þar sem hún lenti heil á höldnu. venjulega segjum við ... heilu og höldnu, - hélt Molaskrifari. http://www.ruv.is/frett/tilkynnt-um-velarvana-flugvel

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband