9.5.2016 | 07:59
Molar um málfar og miðla 1944
MÁLFARSÓVITAR
Molavin skrifaði (07.05.2016): ,,Ríkisútvarpið hefur málfarsráðgjafa á launaskrá og Morgunblaðið birtir daglega þátt um það sem betur má fara í málfari fréttamanna. En það er sem þetta nái ekki til þeirra sem ætlað er að læra. Morgunblaðið birtir í dag, 7. maí, forsíðufrétt með fyrirsögninni: Metfé fyrir lúxusíbúðir. Um það hefur verið ítarlega fjallað að orðið "metfé" táknar ekki upphæð, ekki metupphæð. Verðlaunahrútur eða stóðhestur getur hvor tveggja verið metfé. Verið í miklum metum. Óvitar á fréttastofum eru þeir blaðamenn sem takmarkað vita og vilja ekki læra. Þeir eru ekki í miklum metum meðal lesenda og hlustenda. Hverju orði sannara, Molavin. Þakka þér bréfið. Óvitar hlíta ekki leiðsögn. Vita allt best. Of mikið af slíku fólki er á fréttamiðlum. Rétt er að bæta við, að reglulega err fjallað um málfar í Ríkisútvarpinu í Málskoti á Rás 2 á þriðjudagsmorgnum og í þáttunum Orð af orði, sem málfarsráðunautur annast.
HAGKAUP SKRÖKVAR AÐ OKKUR
Í sjónvarpsauglýsingum fyrir helgina skrökvaði Hagkaup að okkur. Aftur og aftur. Fyrirtækið sagðist afnema virðisaukaskatt af snyrtivörum. Það var ósatt.
Hagkaup getur ekki og hefur ekkert vald til að afnema virðisaukaskatt af vörum,sem þar eru á boðstólum..
Um var að ræða tæplega tuttugu prósent afslátt frá áður auglýstu verði. Svo ætti þetta stórfyrirtæki (og fleiri) að hætta að nota í síbylju enskuslettuna TAX FREE í auglýsingum. Það er ekki verið að gefa viðskiptavinum neinn skattaafslátt. Bara venjulegan afslátt. Hvað segir Neytendastofa um svona auglýsingar?
HEIMILISBYGGINGAR
Í fréttum Ríkisútvarps (05.05.2016) var sagt borgarstjóraframbjóðandi í London hefði lofað að byggja 50 þúsund heimili. Borgarstjórar byggja ekki heimili. Fólk stofnar heimili. Frambjóðendur geta lofað að beita sér fyrir byggingu húsnæðis fyrir 50 þúsund fjölskyldur, eða byggingu 50 þúsund íbúða. Þeir geta ekki lofað kjósendum því að þeir muni byggja heimili.
ENN ER RUGLAÐ SAMAN
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (06.05.2016) var fjallað um lífríkisskaða í Mývatni og hvernig úr mætti bæta., - engu megi til spara, var sagt. Fast er í málinu að segja- ekkert var til sparað , en á hinn bóginn segjum við að engu megi til kosta. Sífellt er verið að rugla þessu saman. Hefur nokkrum sinnum verið nefnt í Molum.
MÁLIÐ
Sérstök ástæða er til að þakka Morgunblaðinu og vekja athygli á þremur línum, um móðurmálið, sem birtast daglega undir fyrirsögninni Málið á krossgátu- og Sudokusíðunni. Þetta er stutt og hnitmiðað. Það væri ekki úr vegi að móðurmálskennarar nýttu sér þetta í kennslu , - og auðvitað ættu allir sem skrifa fréttir að lesa þessar þörfu leiðbeiningar. Þakkarvert.
BLÓÐBLETTAÐ LAK
Hvaða tilgangi þjónaði það í fréttum Ríkissjónvarpsins (03.05.2016) að sýna okkur aftur og aftur rúm með blóðblettuðu laki á Landspítalanum?
Blóðflekkurinn í lakinu bætti engu við fréttina. Þetta var dómgreindarleysi hjá fréttastjóra að mati gamals fréttamanns.
FYRIR RANNSÓKN MÁLS
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (05.05.2016) var sagt frá tveimur mönnum, sem handteknir höfðu verið um nóttina. Síðan var sagt: Þeir voru vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn máls. Þetta er andstætt máltilfinningu Molaskrifara og hefur oft verið nefnt hér áður.
Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2016 | 11:18
Molar um málfar og miðla 1943
GÓÐU GESTIRNIR
Molavin skrifaði (03.005.2016):,, "Ég söng og fagnaði góðum gesti og gaf þér hjartað í brjósti mér," segir í ljóði Davíðs Stefánssonar sem oft er sungið sem síðasta lag fyrir fréttir. Þarna lýsir skáldið heitri ást. Og svo hjartkærir virðast allir þeir viðmælendur vera sem koma til viðtals í þætti útvarpsins að aldrei eru núorðið nokkrir viðmælendur kynntir öðru vísi en svo að "til okkar koma góðir gestir." Jafnvel í Spegilinn. Eru virkilega allir viðmælendur riddarar á hvítum hesti - eða er þessi lýsing orðin frásagnarkækur á borð við "Íslandsvinina" sem svo eru kallaðir ef frægt fólk á leið til landsins?
Molaskrifari þakkarbréfið ogvíst er það kurteisi að tala um góða gesti,en þetta er orðin afskaplega hvimleið tugga, eða klisja.
LAUPARNIR
Í Spegli Ríkisútvarpsins (03.05.2016) var fjallað umforsetakosningarnarog forsetaframbjóðendur. Fréttamaðurtalaði um að einhverjir kynnu að gefa upp laupana, - hætta við framboð. Viðmælandi fréttamanns endurtók þettaogtalaði líka um að gefa upp laupana.Báðir fóru rangt meðorðtak sem er fast í málinu.
Við tölum um að leggja upp laupana, hætta, eða gefast upp, deyja eða fara á hausinn..
Laupur er,, kláfur; meis; áburðarkkassi; rimlakassi (t.d. til að bera hey í)
Ágætlega er fjallað umþetta orðtak í bókJóns G. Friðjónssonar, Merg málsins, íslensk orðtiltæki á bls. 524 og 525. Þá ágætu bókættu allir fréttamennað hafa við hendina, - og nota.
FRÉTTALEYSIÐ
Hversvegna eru engar fréttir í Ríkisútvarpinu fráklukkantvö á nóttinnitil klukkan fimmað morgni?Fréttamaður/menn eru á vakt í Efstaleiti alla nóttina. Halda þeir að öll þjóðin sé sofandi?Svo er ekki. Fjöldi fólkser við vinnu á nóttinni og villheyra fréttir.
SJENS
Í Spegli Ríkisútvarpsins (04.05.2016) ræddi fréttamaður við konu, semvill verðaforseti Íslands. Fréttamaðursagði:,,Fylgi við þig hefur mælst undir einu prósenti í könnunum. Heldurðu að þú eigir einhvern sjens?. Við gerum kröfutil þess að fréttamenn Ríkisútvarpsinstali vandað mál.Þetta er ekki vandað mál.Því er við að bæta að viðtalið var óhóflega langt og að sama skapi innihaldsrýrt.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2016 | 08:00
Molar um málfar og miðla 1942
KJÁLKALÍNAN
Molavin skrifaði (04.05.2015): ,,Það er mikið lagt á unga blaðamenn Vísis, að þurfa að þýða slúðurfréttir úr ensku yfir á skiljanlegt íslenskt mannamál. Fyrirsögn í dag (4.5.2016) er svohljóðandi: "Rumer Willis brjáluð yfir því að kjálkalínu sinni var breytt með Photoshop: Þetta er einelti og ég mun ekki líða það. Um er að ræða að hökusvip ungrar konu var breytt í myndvinnsluforriti. Það heitir á ensku "jawline" en það hugtak þekkir blaðamaðurinn ekki og þýðir það orðrétt sem "kjálkalínu."
Nógu slæmt er að móðurmálskennslu hefur hrakað í skólum; verra er að þeir sem kunna illa sitt móðurmál skrifa í fjölmiðla og hafa þannig með hroðvirkni enn verri áhrif á unglinga. Ábyrgðin liggur hjá þeim sem stýra fjölmiðlunum. Þetta er hverju orði sannara, - þakka bréfið, Molavin. Ábyrgð þeirra ,sem stýra fjölmiðlunum er mikil, en þeir koma sér hjá því að axla ábyrgð og virðist skorta metnað til að
gera vel.
MINNIST TÚ GILDIÐ? MANSTU VEISLUNA?
Danska sjónvarpið sýndi í gærkvöldi (04.05.2015) fyrri hluta (01:25) merkilegrar heimildamyndar um hrun Eik banka í Færeyjum. Minnist tú gildið? Manstu veisluna? Uppskriftin var íslensk. Þetta bankahrun í Færeyjum snertir okkur meira en lítið. Íslendingar koma þar mjög við sögu. Færeyingar gerðu myndina. Ríkissjónvarpið hlýtur að sýna okkur þessa mynd. Fyrr en seinna.
UM ÆTTLEIÐINGAR
- skrifaði Molum (02.05.2016) og segir: ,,Sæll enn.
Maður skyldi ætla að fólk setji hundana í erfðaskrána hjá sér !
Sjá þessa frétt á mbl.is (02.05.2016): ,, Leikkonan Olivia Munn hefur stækkað fjölskylduna, en á dögunum ættleiddi hún lítinn hvolp. Hvolpurinn, sem hlotið hefur nafnið Frank Rodgers, er flækingshundur en Munn ættleiddi hann hjá dýraathvarfinu Love Leo Rescue.
Molaskrifari þakkar bréfið. ,. en skrif mbl.is um fræga fólkið eru löngu hætt að koma á óvart.
http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/05/02/olivia_munn_aettleidir/
VEL Í LAGT
Molaskrifari er líklega ekki einn um að finnast nokkuð vel í lagt, þegar síblankt sjónvarp ríkisins sendir átján manna hóp til Stokkhólms átta dögum áður en evrópska söngvakeppnin hefst þar í borg.
Forgangsröðunin hjá þessari þjóðarstofnun er stundum dálítið bjöguð, þegar hugsað er til þess hvað hún hefur takmarkað dagskrárfé til umráða.
Ríkissjónvarpið ætti að huga að því að verja þeim miklu fjármunum sem í þetta fara til vandaðrar innlendrar dagskrárgerðar.
Hvað skyldi þessi þátttaka annars kosta okkur, þegar upp er staðið?
Ríkissjónvarpið svarar ekki þannig spurningum frá almenningi. Enda kemur okkur það víst ekkert við.
VOND ÞÁTTAHEITI
Stöð tvö hefur eiginlega sérhæft sig í að gefa sjónvarpsþáttum vond nöfn, oft hrærigraut úr ensku og íslensku. Nýjasta afrek stöðvarinnar er að bjóða viðskiptavinum sínum þætti sem heita Battlað í borginni. Óskiljanlegt eða illskiljanlegt. Snertir Molaskrifara svo sem ekki mikið. Hann hefur aldrei verið áskrifandi að Stöð tvö. Og hefur ekkert slíkt í hyggju. En þetta er ekki til fyrirmyndar.
ENN UM SLETTUR
Molaskrifari hlustar ekki á morgunútvarp á hverjum degi og er ekki fastur hlustandi neins morgunþáttar. Hlustar einna oftast á morgunþátt. Rásar tvö vegna þess að Sigmar Guðmundsson er góður spyrill. Skrifari hefur oft gagnrýnt tíðar og illþolandi enskuslettur eins umsjónarmanns í morgunþætti Rásar tvö.
Á þriðjudagsmorgni fékk umsjónarmaður á baukinn fyrir slettuhríðina hjá málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins í ágætu Málskoti. (03.05.2016).Umsjónarmaður lofaði bót og betrun.
En slettur heyrast víðar. Í fréttum Stöðvar 2 (03.05.2016) sagði fréttamaður:,, Segðu okkur nánar frá þessu konsepti. Orðið konsept (e. concept) er enska ekki íslenska. Ekki til fyrirmyndar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2016 | 09:38
Molar um málfar og miðla 1941
TIGNIR GESTIR
Molavin skrifaði (30.04.2016): ,, Var það gráglettni hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins að telja upp forseta Íslands meðal konungborinna í hádegisfrétt um sjötugsafmæli Svíakonungs? "Meðal tiginna gesta voru Margrét Þórhildur, danadrottning, Ólafur Ragnar Grímsson og Viktoría krónprinsessa..." Hans hátign...!?! Molaskrifari þakkar bréfið. Kannski voru þetta einhverskonar ósjálfráð viðbrögð hjá fréttamanni !
HRÚGA AF HESTUM
Er ekki skrítið að sjá svona hrúgu af hestum koma niður Skólavörðustíginn? Svona spurði fréttamaður Ríkissjónvarps barn í fréttatímanum á laugardagskvöld (30.04.2016. Hrúga af hestum! Ja, hérna. Eins og barn væri að spyrja barn. Við gerum kröfur um vandað málfar í fréttum Ríkisútvarps. Það á að vera öðrum fjölmiðlum til fyrirmyndar.
SPARÐATÍNINGUR
* Í fréttum Stöðvar tvö (30.04. 2016) var okkur sagt frá helli sem var staðsettur á Suðurlandi. Hellirinn var á Suðurlandi.
* Í hádegisfréttum Bylgjunnar (02.05.2015) var okkur sagt frá fyrirtækjum, sem væru staðsett á Guernsey og á Bermuda. Eðlilegra hefði verið að segja, að fyrirtækin væru skráð á þessum stöðum, eða störfuðu á þessum stöðum..
* Í fréttum Ríkisjónvarps (30.04.2016) var viðtal í beinni útsendingu við Kára Stefánsson. Þulur sagði okkur, að Kári Stefánsson væri kominn í eigin persónu. En ekki hvað?
* Íþróttafréttamaður sagði okkur að dæmið hefði snúist algjörlega við og það rúmlega! Mikill viðsnúningur greinilega ! En þetta segja menn sjálfsagt að sé sparðatíningur!
FYRIR RANNSÓKN MÁLSINS
Af mbl.is (02.05.2016): Mennirnir tveir voru vistaðir í fangageymslu lögreglunnar fyrir rannsókn málsins. Aftur og aftur sjáum við þetta orðalag í lögreglufréttum. Kemur þetta frá lögreglunni eða er þetta heimasmíðað? Hvort sem er, þá er þetta ekki gott orðalag. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins , - ekki fyrir rannsókn málsins.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/05/02/beittu_opinbera_starfsmenn_ofbeldi/
SKILORÐ
Í Fréttablaðinu (03.05.2016) var sagt frá sex mánaða fangelsisdómi, sem bílstjóri hjá Ferðaþjónustu fatlaðra fékk fyrir kynferðisbrot gegn fatlaðri konu. Síðan segir: ,, Dómnum verður frestað að liðnum þremur árum haldi hann skilorði. Molaskrifari hallast að því að fréttaskrifari viti, ef til vill ekki hvað skilorð er eða hvernig eigi að skrifa um það. Né heldur verður dómi, sem búið er að kveða upp frestað. Maðurinn hlaut sex mánaða fangelsisdóm, sem var skilorðsbundinn til þriggja ára. Það er að segja maðurinn hefur hlotið skilorðsbundinn fangelsisdóm: Hann fer ekki í fangelsi, ef hann ekki brýtur af sér næstu þrjú árin. Dómurinn er þannig skilyrtur, skilorðsbundinn.
Molavin sá þetta líka og skrifaði: ,, Óvitar skrifa fréttir í Fréttablaðið. Í dag (3.5.2016) stendur þetta í frétt um dóm yfir bílstjóra: " Dómnum verður frestað að liðnum þremur árum haldi hann skilorði." Hér hlýtur að hafa verið átt við að refsingu verði frestað, því dómur er fallinn. Þá ætti vitaskuld að standa: "...haldi hann skilorð." Þekkingarleysi fréttaóvita er orðið vandamál víða. En þeir göslast áfram við fréttaskrif, fremur þó af vilja en mætti. Satt er það, Molavin. Metnaðarleysið er ótrúlegt. Er öllum yfirmönnum sama? Enginn les yfir eða leiðbeinir þeim, sem lítt kunna til verka.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2016 | 08:24
Molar um málfar og miðla 1940
TVÖFÖLD NEITUN ER SAMÞYKKI
Kolbrún Halldórsdóttir , sendi línu (29.04.2016) og þakkaði fyrir Molana. Hún segir:Mig hefur oft langað að senda þér ábendingar og læt nú verða af því: Frétt á vef Ríkisútvarpsins (29.04.2016)
http://www.ruv.is/frett/russell-crowe-greiddi-skatta-a-islandi
Fréttastofa fékk aftur á móti ekki endanlegan úrskurð ráðuneytisins fyrr en í gærmorgun þar sem forsvarsmenn Truenorth lögðust gegn því að ákveðnar upplýsingar yrðu ekki birtar... . Þakka þér bréfið, Kolbrún. Hér er merkingin sem sé öfug við það sem greinilega var ætlunin að koma á framfæri. Fyrirtækið lagðist gegn því að upplýsingar yrðu ekki birtar, sem sagt fyrirtækið vildi ekki að auglýsingarnar yrðu birtar. Tveir mínusar verða plús!
PRÓFKÚRUHAFAR Á MBL.IS
Ingibjörg vakti athygli á frétt á mbl.is þar sem aftur og aftur er talað um prófkúruhafa. Til dæmis: ,, Misjafnt var hversu mikið fólkið fékk greitt fyrir að gerast prófkúruhafar félaganna. .Ingibjörg segir: ,,Þetta er ekki prentvilla, þessi orðmynd er endurtekin alls staðar í fréttinni. Svona getur farið þegar fólk lærir ekkert í latínu. Fréttin er á góðri íslensku. Molaskrifari þakkar Ingibjörgu bréfið. Hér hefði að sjálfsögðu átt að tala um prókúruhafa, - prókúra er umboð til að skuldbinda fyrirtæki.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/29/starfsmadur_skattsins_fekk_milljonir/
UTANKJÖRFUNDUR
K.Þ. skrifaði (30.04.2016):
,,Sæll Eiður,
"... utankjörfundur skal hefjast ekki síðar en átta vikum fyrir auglýstan kjördag."
Ég hélt að utankjörfundaratkvæðagreiðsla væri atkvæðagreiðsla sem fram fer utan kjörfundar en ekki á "utankjörfundi". Auðvitað er það þannig, K.Þ. Það er ekkert til, sem heitir utankjörfundur!!!
GRUNDVALLARÞEKKINGU ÁBÓTAVANT
Af mbl.is (29.04.2016): ,, Geimvísindastofnun landsins tilkynnti þetta í gær en svo virðist sem að mannleg mistök hafi að hluta til verið um að kenna.. Hér er móðurmálsþekkingu þess sem fréttina ritaði heldur betur ábótavant. Því miður er ekkert einsdæmi að sjá svona villur. Hér hefði átt að standa: ,,.... svo virðist sem mannlegum mistökum hafi að hluta til verið um að kenna.
http://www.mbl.is/frettir/taekni/2016/04/29/visindalegur_harmleikur/
GAFST UPP
Molaskrifari viðurkennir að gafst upp við að horfa á þátt Gísla Marteins á föstudagskvöld (29.04.2016). Það er svo þreytandi að láta hrópa stöðugt á sig úr sjónvarpinu. Því var lofað að þetta yrði seinasti þátturinn.
Til lesenda:
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2016 | 07:02
Molar um málfar og miðla 1939
AÐ BEYGJA BOLTANN
T.H. skrifaði (28.04.2016) og benti á þessa frétt á dv.is:
http://www.visir.is/fimm-leyndarmal-gylfa-i-aukaspyrnum-laerdu-ad-beygja-boltann-eins-og-gylfi-thor/article/2016160428951
"Fimm leyndarmál Gylfa í aukaspyrnum: Lærðu að beygja boltann eins og Gylfi Þór." "Hann gefur upp öll leyndarmálin sem geta kennt fólki að beygja boltann eins og Gylfi Þór Sigurðsson".
Það er nú ákaflega erfitt, svo ekki sé meira sagt, að beygja eitthvað, sem er hnöttótt í laginu! Það er líka sitt hvort að "beygja bílinn" og að "beygja bílnum", eins ég held að flestir aðrir en fréttabörn DV skilji. Það er reyndar svo heppilegt að fréttinni fylgja myndbönd og við áhorf þeirra dylst varla neinum að Gylfi er býsna snjall í að "beygja boltanum" (eitt sinn voru það kölluð "bananaskot"), en það er ekki sjáanlegt að hann "beygi boltann" á nokkurn hátt.. Kærar þakkir fyrir ábendinguna T.H.
VIRÐING FYRIR MÓÐURMÁLINU
Þorvaldur skrifaði (28.04.2016): ,,Sæll Eiður.
Kunningi minn gaukaði að mér miða, hann hafði verið að hlusta á Arnar Gunnlaugsson á Stöð tvö sport í þætti sem þeir kalla Messuna. Meðal þess sem hann lét út úr sér var þetta: "Hann er alltaf að performera á hæsta level" "Direktor hugsun" " Showboy gæi"
Eitt er að til séu menn sem ekki bera meiri virðingu fyrir móðurmáli sínu en þetta, annað að þeim skuli vera hleypt í fjölmiðla. Satt segirðu Þorvaldur. Þetta er engu lagi líkt. Þakka ábendinguna.
HEILSUSAMLEGRI EN HVAÐ?
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (28.04.2016) var fjallað um rafrettur . Þar var sagt:,, .. segja rafretturnar mun heilsusamlegri ... Heilsusamlegri en hvað? Varla er verið að miða við sígarettur, sem alls ekki eru heilsusamlegar, heldur seigdrepandi eitur.
NÝ NÁMSGREIN?
Í Morgunblaðinu er sagt frá konu, sem ,, ...leggur nú stund á ástarrannsóknar við Háskóla Íslands. Molaskrifari játar að þetta er honum nýtt. Kannski er þetta nýjung í starfi Háksólans Kannski ætti Morgunblaðið að upplýsa lesendur sínar frekar um þessar rannsóknir. Þær eru sjálfsagt ekki bundnar við hefðbundinn skóladag, eða hvað?
HVERFANDI ORÐALAG?
Er það að hverfa úr málinu að segja á föstudaginn var eða í fyrra sumar? Það er engu líkara. Nýlega (15.04.2016) var sagt í Ríkisútvarpinu síðasta föstudag, síðasta föstudagsmorgun? Hversvegna ekki á föstudaginn var, á föstudagsmorguninn var. Æ algengara er að heyra talað um síðasta sumar, ekki fyrra sumar.
Sennilega er þetta orðalag að hverfa.
ENSKUNNI SLETT
Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 14 00 (29.04.2016) var rætt við forstjóra Umhverfisstofnunar um það hvcernig koma mætti í veg fyrir matarsóun. Þetta er bara win-win fyrir alla, sagði forstjórinn. Hvers vegna þurfti forstjórinn að sletta á okkur ensku? Forstjórinn hefði til dæmis getað sagt: Á þessu græða allir, þetta gagnast öllum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)