Molar um málfar og miðla 1718

 

Af mbl.is (26.04.2014): ,,Sví­arn­ir höfðu verið á leiðinni að sjá Les Miséra­bles á Broadway en víluðu ekki fyr­ir sér að stíga inn í”. Sænskir lögreglumenn í leyfi í New York yfirbuguðu tvo útigangsmenn sem voru að slást í lest í New York. Lestarstjórinn spurði hvort lögreglumenn væru í lestinni og Svíarnir brugðust skjótt við. Að tala um að þeir hafi stígið inn í er bara rugl. Stígið inn í hvað?

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/04/26/saenskar_hetjur_i_new_york/

 

Í Garðapóstinum 14. tbl. ( 22.04.2015) sagði sr. Jóna Hrönn Bolladóttir að forsetinn, ÓRG, mundi prédika í Vídalínskirkju sunnudaginn 26. apríl og sóknarpresturinn segir: ,, En það er alveg magnað að hlýða á forsetanna tala um kirkju og kristni”. Það getur vel verið að ÓRG hafi sagt eitthvað skynsamlegt um kirkju og kristni eftir að hann tók við ábúð á Bessastöðum með kirkjuna á hlaðinu. Sjálfsagt hefur hann sagt eitthvað af viti í Vídalínskirkju.  En Molaskrifari var ÓRG nokkuð lengi samtímis í pólitík og minnist þess hvorki, að kirkja né kristni hafi verið ofarlega á  málefnalista hans. Hvorki á þingi né í þjóðmálaumræðunni. Kannski kunna aðrir betri skil á því. Félagar hans í stjórnmálum tóku hinsvegar eftir skyndilegum áhuga hans á kristni og kirkjusókn eftir að hann ákvað að fara í fosetaframboð. Þá upphófst mikil kirkjusókn. Menn voru svolítið að gantast með þetta í gamla daga.

 

Húsið er í góðu viðhaldi, segir í fasteignaauglýsingu í Fréttablaðinu (27.04.2015). Átt er við að húsinu hafi verið haldið vel við, viðhaldi þess verið vel sinnt.

 

Rætt var um veðráttuna, kulda og snjókomu, snjóflóð í sumarbyrjun í morgunþætti Bylgjunnar (27.04.2015). Uppselt væri í ferðir til sólarlanda. Umsjónarmaður sagðist afbrýðisamur út í þá Íslendinga sem væru á leið í sólina. Hefði ekki verið betra að tala um öfund í stað afbrýði? Hefði haldið það.

 

Þetta stóð óleiðrétt á mbl.is allan mánudaginn (27.04.2015) : ,, ... að hann hafi selt Hauki Harðar­syni, eins af eig­end­um fyr­ir­tæk­is­ins Orka Energy, íbúð sína við Rán­ar­götu fyr­ir 53,5 millj­ón­ir króna og samið síðan um að greiða 230 þúsund krón­ur á mánuði...” - ... einum af eigendum fyrirtækisins , hefði þetta átt að vera. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/04/27/leigan_230_thusund_a_manudi/

Enginn les yfir fyrir birtingu. Enginn les eftir birtingu.

 

Tölvukerfi héraðsdóms á hliðinni, sagði í fyrirsögn á mbl.is (27.04.2015). http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/04/27/tolvukerfi_heradsdoms_a_hlidinni/

 Í fréttinni segir: ,, Tölvu­kerfi Héraðsdóms Reykja­vík­ur er í ein­hverju ólagi ....” Kerfið var sem sé bara í ólagi en ekki á hliðinni!  Á visir.is sagði sama dag um sama mál í fyrirsögn: Tölvukerfi héraðsdóms liggur niðri.  Sjá: http://www.visir.is/tolvukerfi-heradsdoms-liggur-nidri/article/2015150429277

Kerfið lá hvorki niðri né uppi. Það var í ólagi.

 Ja, hérna.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1717

 

Það er til marks um hve valt er að treysta fyrstu fréttum af náttúruhamförum, nú síðast fregnum af jarðskjálftanum í Nepal, að marg sagt var í fyrstu fréttum, að ekki væri vitað um manntjón. Það var áreiðanlega rétt, - svo langt sem það náði. Skjálftinn var fyrst sagður 7,5 á Richter kvarðann og því ljóst að þetta var mjög harður jarðskjálfti og hús á þessum slóðum yfirleitt ekki traustbyggð. Síðar var styrkleikinn sagður 7,8 eða 7,9 stig. Páll Einarsson prófessor benti réttilega á það hve varlega menn skyldu trúa fyrstu fréttum af náttúruhamförum, þegar rætt var við hann í fréttum Ríkissjónvarps á sunnudagskvöld (26.04.2015). Núna eftir helgina hefur verið sagt að hugsanlega hafi tíu þúsund manns farist og hörmungarnar eru ólýsanlegar.

 

 Það var margt sem gerði það að verkum að Molaskrifari fór að skipta sér af málfari í fjölmiðlum. Eitt var, þegar hann heyrði eða las að málstaður ætti undir vök að verjast. Sá sem skrifaði, eða talaði, vissi greinilega ekki hvað vök var.

 Mörg orðtök og myndlíkingar munu hverfa vegna þess að verkfærin eða vinnulagið eru ekki lengur til. Hvað verður langt þangað til ungt fólk hættir að skilja að barátta fyrir einhverju máli aða að settu markmiði geti orðið þungur róður? Skilur það ekki vegna þess, að enginn veit lengur hvað orðið róður merkir eða sögnin að róa. Róa öllum árum að einhverju ,skilst þá sennilega ekki heldur og hverfur einnig. Eflum móðurmálskennslu í skólum landsins.

 

Brestir: Útfararstjórar í kennitölubraski, var afar villandi fyrirsögn á visir.is (25.04.2015). http://www.visir.is/brestir-utfararstjorar-i-kennitolubraski/article/2015150429377

Í fréttinni er skýrt út hverjir ,,útfararstjórar” séu: ,, Í þeim leiðangri rakst hún á fyrirbærið „útfararstjóra“ - menn sem leppa einkahlutafélög sem eru á leið í þrot, til að eigandinn, sá sem kom því á bjargbrúnina, geti haldið óflekkuðu mannorði.” - Ófaglegt, - ekki góð vinnubrögð.

 

 Einstaklega vel skrifuð stórfrétt á mbl.is (25.04.2015): ,,Ekki er hægt að segja að mik­ill er­ill hafi plagað Slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins í nótt. Þó dróg til tíðinda upp úr eitt í nótt þegar neyðarkall barst frá miðbæn­um þar sem fimm höfðu fests í lyftu”.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/04/25/festust_i_lyftu_i_midbaenum/.

Enginn las viðvaningsskrifin yfir. Svo sem engin nýlunda.

 Vettvangur keppir við aðila í lögreglufréttum svo vart má á milli sjá hvort orðið er vinsælla. Bæði þessi orð eru oft notuð að óþörfu.

Af visir.is (26.04.2015): Hér hefði nægt að segja: Sló konu og flúði. http://www.visir.is/slo-konu-vid-sudurgotu-og-fludi-vettvang/article/2015150429349

Hvað eru harðnaðir hermenn, sem, rætt var um í fréttum Ríkissjónvarps (26.04.2015) ?

Ekki leggja Kastljósið líka undir íþróttir (28.04.2015). Nóg er nú samt.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1716

 

Sumir eiga erfitt með að segja, að þeir voni, að við berum gæfu til að gera eitthvað , - verðum svo gæfusamir að gera hið rétta, að velja rétta leið. Síðast á föstudagsmorgni , í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (24.04. 2014) heyrðu hlustendur brot  úr ræðu þingmanns,sem sagði . ,, að vonandi bæri okkur gæfu til þess ...”. Annar þingmaður talaði í sama samklippi ummæla úr þinginu ,,um ríkisstjórn sem sæti á höndunum á sér”. Líklega átt hann við ríkisstjórn,sem sæti auðum höndum. Gerði ekki neitt. Þetta hefst á 1:19:19 eða þar um bil. Sjá: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/morgunutgafan/20150424

 Þetta var talið meðal áhugaverðra ummæla úr þinginu í vikunni að sögn umsjónarmanns.   

Kannski þarf Alþingi að ráða málfarsráðunaut.

 

Ráðamenn Ríkisútvarpsins hljóta að gera sér grein fyrir því morgunþátturinn Morgunútgáfan sem sendur er út á báðum rásum frá klukkar 06 30 til 09 00 fimm daga vikunnar hefur ekki heppnast vo sem að var stefnt.  Þar með er ekki sagt að umsjónarmönnum geti ekki farist önnur verk ágætlega úr hendi.

Það gildir um Ríkisútvarpið í heild, að umfjöllun um dagskrá og einstaka liði er orðin ansi fyrirferðarmikil. Það er alltaf verið að segja okkur hvað við höfum verið að hlusta á eða hvað við munum heyra. Þarna er kannski mjótt mundangshófið. En þetta er um of. Markalínan milli hreinna auglýsinga og eðlilegra frásagna af atburðum, fyrirhuguðum eða hjáliðnum, eru ekki alltaf nægilega skýr. Þarna skortir verkstjórn og skynsamlegt mat.

Of mikið er um innihaldslaust fjas, froðu. Hverjum kemur við hvort umsjónarmaður þurfti að hreinsa snjó af bílrúðum áður en ekið var í vinnuna?  Í veðurhjali hefur stundum verið gengið út frá því að úti á landi viðri alveg eins og á höfuðborgarsvæðinu. Svo fengum við 10 mínútna íþróttafréttir á mánudagsmorgni (27.04.2015), sem umsjónarmaður þakkaði fyrir og kallaði fínan pakka!

- Það sem Molaskrifari hefur heyrt af Helgarútgáfu Hallgríms Thorst. á sunnudagsmorgnum á Rás tvö er hinsvegar betra. Fróðlegt fuglaspjall og gott viðtal við Ilmi Kristjánsdóttur leikkonu, sl. sunnudag. Þarf þó að leggja oftar við hlustir til að meta þættina, - en þegar heyrt lofar góðu. Hallgrímur kann þetta. Hann ætti að venja sig af enskuslettunum, - sem eru of algengar. Hvimleiðar.

 

,,Vegna mikilla vinda”, var sagt í þýðingu í fréttum Ríkissjónvarpsins á Rás tvö (24.04.2015) í frétt af eldgosi í Suður-Ameríku. Hefði ekki verið nær að tala um hvassviðri?

 

 Fleirtalan af orðinu göng, - í merkingunni jarðgöng heldur áfram að vefjast fyrir fréttamönnum. Í inngangi að frétt um Vaðlaheiðargöng í Ríkissjónvarpi (25.04.2015) var sagt: ,,Fjárhagslegt svigrúm Vaðlaheiðargangna h.f. til að takast á við tafir er afar lítið”. Eignarfall af orðinu göng er ganga. Eignarfall flt af orðinu göngur (fjárleitir) er gangna. Gangnamenn, heita þeir sem fara í göngur að hausti til að finna fé á fjöllum. - Þetta hefur verið nefnt svona tíu sinnum í Molum. Reyndar voru fréttir um Vaðlaheiðargöng hnökralausar hvað þetta varðaði í gærkvöldi (27.04.2015).

 

Verslunin lokar klukkan sex á morgun, auglýsti IKEA hvað eftir annað í Ríkisútvarpi og sjónvarpi á föstudag (24.04.2015). Er enginn starfandi á auglýsingadeild Ríkisútvarpsins ,sem getur lagfært ambögur? Eða treysta menn sér ekki til að hrófla við textum,sem koma frá auglýsingastofum? Sérstakan málfarsráðunaut, yfirlesara,  á auglýsingadeild? Versluninni verður lokað klukkan sex á morgun, hefði þetta átt að vera. Verslun lokar hvorki einu né neinu. Það vita flestir, - þó ekki allir.

 

Tóku þátt á mótinu, sagði íþróttafréttamaður Ríkisvarps (26.04.2015). Tölum við ekki um að taka þátt í mótum? Keppum á mótum? Hefði haldið það.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1715

 

Gleðilegt sumar og þökk fyrir samskiptin í vetur, ágætu Molalesendur!

 

Molaskrifari sest nú við að nýju efir nokkurt hlé. Brá sér af bæ. Ef til vill meira um það síðar.

 

Molavin skrifaði vegna ummæla í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins: ,,Ráðstefnur voru til umræðu í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (17.4.2015) þar sem umsjónarkona sagði frá fjölda fólks, sem myndi stíga á stokk og taka til máls. Síendurtekinn hugtakaruglingur sæmir ekki Ríkisútvarpinu. Menn stíga á stokk til að strengja heit, en menn stíga á svið eða á pall til að taka til máls. Þá var greint frá ráðstefnu um Spánverjavígin á Vestfjörðum árið 1615, og sagt að afhjúpaður yrði minnisvarði í tilefni ráðstefnunnar. Að mér læðist sá grunur að minnisvarðinn sé af tilefni drápanna, þar sem tugir baskneskra hvalveiðimanna - skipbrotsmanna - voru felldir.” Molaskrifari þakkar bréfið. Grunur þinn er áreiðanlega réttur, Molavin. Þetta er frekar slakur þáttur og verður sennilega ekki langlífur. Það væri yfirið nóg , og þó kannski um of að senda hann út á annarri rásinni. Ekki báðum, í hálfa þriðju klukkustund, fimm daga í viku.

 

Gaman að sjá Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðing á ríkisskjánum að nýju. Stendur fyrir sínu. Sem fyrr.

 

KÞ benti á eftirfarandi úr Viðskiptablaðinu (20.04.2015). http://www.vb.is/eftirvinnu/116259/

"Samkvæmt útgefenda bókarinnar hefur hún selst í yfir 1,5 milljónum eintaka og gæti því verið hraðasta selda harðspjalda skáldsaga sögunnar."

Var þá einhver spennubók hraðari sem ekki var seld? - Molaskrifari þakkar ábendinguna. Þetta er ekki mjög vel skrifað, - svo vægt sé til orða tekið. Harðspjaldaskáldsaga???? Hraðasta selda??? Samkvæmt útgefenda bókarinnar, að sögn útgefenda bókarinnar.

 

Áskell skrifaði (26.04.2014): ,,Flatti flóðið George?
Ein af mörgum fréttum mbl.is í gær (26.4)var um jarðskjálftann í Nepal. Í fréttinni eru þessar línur: - „Ég hljóp og það flatti mig út. Ég reyndi að standa upp og það flatti mig á ný,“ sagði George Foulsham, klifrari í grunnbúðunum, í samtali við blaðamann AFP." - Líklega kippti jarðskjálftabylgjan fótunum tvívegis undan George. "Flatti" er svo yfirgengilega vitlaust að það verður ekki gert að umtalsefni. Á Pressunni er líka snillingur. Í fyrirsögn sagði: "Bandarískt geimfar klessir bráðlega á Merkúr". Hvað varð um sögnina að brotlenda? Er Pressan með leikskólabörn i vinnu?”
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/04/26/g_helt_ad_eg_vaeri_latinn

/http://www.pressan.is/m/Article.aspx?catID=6&ArtId=75492

Molaskrifari þakkar þarfar ábendingar. Hreint ótrúlegur kjánagangur.

Klifrari? Fjallgöngumaður.

 

Í snörpum ( og verðskulduðum) ádrepupistli á Sprengisandi á Bylgjunni (26.04.2015) sagði umsjónarmaður, að frekir karlar hefðu att ráðherranum á foræðið , - átti við flumbruganginn við áformin um að flytja Fiskistofu. Við tölum um að etja á foraðið, - beita einhverjum fyrir sig við hæpnar eða vafasamar aðstæður. (Mergur málsins, Jón G. Friðjónsson, bls. 214). Fíflinu skal á foraðið etja, er líka sagt. – siga einhverjum eða senda einhvern út í ófæru.  

 

Úr Morgunblaðinu (24.04.2015). Þar er títt nefndur aðili enn einu sinni á ferð. Í frétt á bls. 9 segir: ,,Árásraraðilinn var handtekinn á göngustíg skammt frá...” Árásaraðilinn? Árásarmaðurinn var handtekinn.

 

Blóðugar slagsmálafréttir í íþróttafréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (26.04.2015) Hversvegna þarf endalaust að teygja lopann í oftast frmur innihaldsrýrum íþróttafréttum Ríkissjónvarps um helgar? Hvers eigum við að gjalda?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1714

 

Vettvangur kemur víða við sögu. Einkum í lögreglu- og slysafréttum. Í Morgunblaðinu (10.04.2015) sagði í frétt um bílveltu á Biskupstungnabraut: Mikil hálka var á vettvangi þar sem slysið varð. Þarna hefði í senn verið einfaldara og skýrara að segja, - mikil hálka var á veginum þar sem slysið varð.

 

Slettan bransi er varla gott og gilt orð yfir atvinnustarfsemi eða atvinnugrein. Í fréttum Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (14.04.2015) var þessu sletta tvínotuð.

 

Molaskrifari glaptist á dögunum til að taka þátt í einhverskonar þjónustukönnun á netinu hjá Shell/Skeljungi. Í lokin var honum þakkað fyrir endurgjöfina! Sú orðnotkun var út í hött. Þakka hefði mátt fyrir þátttökuna, fyrir upplýsingarnar , fyrir framlagið, - svo nokkur dæmi sé nefnd. Að þakka fyrir endurgjöfina er bara bull.

Það var eiginlega óhugnanlegt að fylgjast með Kastljósi Ríkissjónvarpsins á mánudagskvöld (13.04.2015) þar sem flett var ofan af sukki og spillingu ( annað varð ekki af þættinum ráðið) í tengslum við samninga hins opinbera við nafngreind fyrirtæki um gerð hugbúnaðar fyrir ráðuneyti og opinberar stofnanir. Hrollvekja. Þarna áttu í hlut fulltrúar flokkanna, sem nú stýra landinu. Helgi Seljan og aðrir sem að Kastljósi standa eiga hrós skilið fyrir að afhjúpa þetta., - allt úr opinberum gögnum og vandlega undirbyggt að því er best varð séð. Vinur Molaskrifara sem er nokkuð kunnugur þessum geira lét svo ummælt, að hér væru enn ekki öll kurl til grafar komin. Tíminn mun leiða í ljós hvort svo sé.

Talsmaður stúdenta ræddi rektorskjör í Háskóla Íslands í fréttum Ríkisútvarps á þriðjudagsmorgni (14.04.2015) og sagði meðal annars : ,, ... veit hvað nemendum vantar.” Tapað stríð?

Frá unglingsárunum minnist Molaskrifari þess, að einu sinni í viku var þátturinn Lög unga fólksins í Ríkisútvarpinu. Maður lagði ýmislegt á sig til að missa ekki af honum. Nú eru lög gamla fólksins spiluð einu sinni í viku í Ríkisútvarpinu. Svona breytist ekkert, - nema maður sjálfur.

 

Verður nú hlé á Molaskrifum um sinn.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

 

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1713

 

Í Morgunútgáfu  Ríkisútvarpsins (09.04.2015)  var rætt  við  einn af þingmönnum Framsóknarflokks. ,sem líkti Framsókn  við  Miðflokkinn í  Finnlandi ( þar sem kosið verður 19. apríl. Orðrétt  sagði   Framsóknarþingmaðurinn:,, Miðjuflokkurinn er  með   25-26% fylgi og  er að sigra þær kosningar (svo!)  með miklum  yfirburðum”!   - Sigra kosningarnar!   Það þarf greinilega ekkert að kjósa í Finnlandi, Miðjuflokkur  þingmannsins íslenska  er búinn að  vinna  yfirburðasigur löngu áður en kosningarnar fara fram. Merkilegt!  

Í þessum sama þætti ræddu þeir  Bogi og Óðinn í vikulegu spjalli sínu  um erlend málefni  um kosningarnar í Finnlandi, en  ræddu ósköp lítið um finnska Framsóknarflokkinn.  Flokkurinn vill ekki, að Finnar  dragi sig út úr  Evrópusambandinu. Vill vera áfram í ESB. Var því upphaflega andvígur ,en  viðurkennir nú kosti aðildar fyrir Finna.  Í fyrra greiddu þingmenn flokksins atkvæði gegn hjónböndum samkynhneigðra, þegar atkvæði voru greidd um það mál í finnska þinginu.

 

 Við þurfum að lesa goðafræðina betur. Það er verið að skipta  landinu upp í goðorð, sagði útvarpsstjóri Útvarps Sögu (09.04.2015). Á. Er það viðfangsefni goðafræðinnar?  Skipting landsins í goðorð?

 

Of langt og rýrt  snjóbrettaviðtal frá Akureyri átti ekki erindi í aðalfréttatíma Ríkissjónvarps á fimmtudagskvöld (09.04.2015). Til hvers  er  sérstakur íþróttafréttatími, sem   hefur verið troðið milli frétta og veðurs? Er hann ekki einmitt fyrir svona efni?   

 

Af forsíðu mbl.is (10.04.2015): ,,Slökkvilið Ak­ur­eyr­ar var kallað til í nótt eft­ir að til­raun íbúa fjöl­býl­is­húss til að kveikja sér í pípu með rista­vél mis­heppnaðist”. .Ristavél er (fréttabarna)heiti á eldhústækinu, sem  við köllum brauðrist. Þetta var reyndar lagfært í fréttinni.

 

Hér er frétt af visir.is  (10.03.2015) um driftandi skriðdreka. Veit einhver  Molalesandi hvaða fyrirbæri það er? http://www.visir.is/driftandi-skriddreki/article/2015150419972

Í fréttinni segir: ,, Enda er þessum skriðdreka fært að drifta að vild, ekki síst ef undirlagið er ísilagt stöðuvatn, ...”  Orðið drift er notað um rek á skipi.  – Ekki sérstakur skrifdreki, sem þetta hefur skrifað. Eða þannig.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1712

 

Molavin skrifaði (09.04.2015): ,,Það er ástæða fyrir því að góðir fréttamenn styðjast við hefðbundið, viðurkennt orðalag í fréttum. Til dæmis hefur jafnan verið sagt af slysum að líðan hins slasaða sé "eftir atvikum" sem er mjög skýrandi. Nú hefur færzt í vöxt að óreyndir fréttamenn sletti enskri hugsun og segi að "líðan viðkomandi sé stöðug" (e. condition is stable). Í Netmogga í dag (8.4.2015) segir í frétt: 

"Lög­reglu­yf­ir­völd hafa ekki viljað gefa upp dánar­or­sök Jónas­ar en segja að ekki sé talið að and­lát hans hafi borið til með glæp­sam­leg­um hætti." 

Það er löng hefð fyrir því að segja í fréttum af málum sem þessum að andlát hafi ekki borið "að" með "saknæmum" hætti. Varla með "glæpsamlegum" hætti. (Og ekki að það hafi borið "til" eins og þarna stendur.) Það er eitthvað æsifréttalegt og ólíkt hefðbundinni fréttamennsku Morgunblaðsins að taka svo til orða, sem hér er gert. Netmoggi mætti hafa einhvern fullorðinn á vaktinni til að lesa fréttir yfir.” – Molavin er þakkað bréfið. Allt er þetta satt og rétt. Netmoggi, - og fleiri netmiðlar ættu að huga að stöðu sinni og gæðaeftirliti,- yfirlestri og leiðréttingum.

 

Rafn skrifaði (08.04.2015) og spyr: ,, Er ekki ástæða til að gera greinarmun á djörfung og bíræfni líkt og greint er á milli þess að vera frægur og alræmdur?? Þarna er þó samræmi milli fyrirsagnar og meginmáls.

Í meginmálinu er síðan nefnifallssýkin á fullu. Lík­legt er talið, að dýr­grip­um . . . séu þegar komn­ir úr landi.” Í fréttinni segir: ,, Lík­legt er talið að dýr­grip­um sem stolið var í London um helg­ina, í einu mesta og djarf­asta skart­griparáni sög­unn­ar, séu þegar komn­ir úr landi.” Molaskrifari þakkar Rafni ábendinguna. Þetta birtist á mbl.is ,en var þó reyndar leiðrétt síðar.

Úr frétttum Ríkisútvarps um forsetaframboð Hillary Clintons klukkan 22 00 á sunnudagskvöld (12.04.2015): ,,Metnaður hennar í þeim málum var eitt verst varðveittasta leyndarmál í Washington”.  Verst varðveitta ... hefði hér dugað. http://www.ruv.is/frett/hillary-clinton-bydur-sig-fram-til-forseta

 

Á hér títtnefndu Smartlandi mbl.is (12.04.2015) er fyrirsögnin: Eyþór á von á barni. http://www.mbl.is/smartland/stars/2015/04/11/eythor_a_von_a_barni/

Gengur hann sem sé með barn? Molaskrifari hefur ekki vanist því að talað sé um að karlmaður eigi von á barni, frekar að sagt hafi verið að tiltekinn maður ætti barn í vonum. Í fréttinni kemur fram að það er unnusta Eyþórs, sem á von á barni. Það er von á fjölgun hjá þeim.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (12.04.2015) var Hillary Clinton kölluð þingkona. Hillary Clinton var öldungadeildarþingmaður fyrir New York ríki 2001 til 2009.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1711

 

 

Úr Fréttablaðinu (04.04.2015) um vélsleðamann, sem ók fram af snjóhengju: ,, Hann reyndist ekki alvarlega slasaður og voru þá aðrar bjargir afturkallaðar.” Aðrar bjargir afturkallaðar? Enginn yfirlestur. Ekkert eftirlit. Var þá önnur aðstoð afþökkuð.

 

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (06.04.2015) heyrðist enn einu sinni ruglað saman tveimur orðtökum. Þar var sagt engu verði til sparað. Málvenja er að segja að ekkert verði til sparað og hinsvegar að engu verði til kostað. Þessu er sífellt ruglað saman.

 

Mbl.is vitnar í heimasíðu fjármálaráðherra (06.04.2015) þar sem hann skrifar: ,,Birgitta Jónsdóttir ætti ekki að taka skjól í þingsköpum eða starfsháttum þingsins til að skýra almenna hjásetu sína”. Heldur klúðurslegt orðalag. Hér hefði ráðherra fremur átt að segja til dæmis: .... leita sér skjóls í þingsköpum, eða skýla sér bak við þingsköp. Maður tekur ekki skjól. Ekki einu sinni skattaskjól!

 

Málskot, málfarspistill Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins sl. þriðjudag (07.04..2015) var með slakasta móti. Þess var minnst að Megas ætti sjötugsafmæli þann dag. Megasi er vissulega margt til lista lagt eins og réttilega var sagt í þættinum. Honum var meðal annars talið það til ágætis að hann sletti svo fallega! Sletti fallega! Molaskrifara þykja slettur ekki fegra móðurmálið og þykja þær ekki fallegar. Ekki er orð um það að finna í opinberri málstefnu Ríkisútvarpsins að slettur séu fallegar, - þær beri á hinn bóginn að forðast.

Er til dæmis fallegra að tala um að smæla en að brosa? Bros er fallegt orð. Að smæla er hrá sletta úr ensku. Sagt var að Megas hefði búið til nýjan íslenskan málshátt: Ef þú smælar framan í heiminn, þá smælar heimurinn framan í þig. Ekki fær Molaskrifari sig til að kalla þetta íslenskan málshátt. Þessa setningu er heldur ekki að finna í hinu ágæta riti Jóns G. Friðjónssonar Orð að sönnu, sem geymir íslenska málshætti og orðskviði. Uppsláttarrit,sem ætti að vera til á hverju heimili.

 

Molaskrifara finnst það óviðfelldið, þegar sagt í tónleikaauglýsingu í sjónvarpi : Vilhjálmur Vilhjálmsson sjötugur.

Söngvarinn vinsæli, Vilhjálmur Vilhjálmsson, hefði orðið sjötugur 11. apríl , ef honum hefði enst aldur. Hann lést af slysförum 28. mars 1978. Óviðeigandi auglýsing. Vilhjálmur hafði fallega rödd og fór ákaflega vel með. Ekki síður en hún Ellý systir hans.

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins í morgun (10.04.2015) sagði umsjónarmaður, að í þættinum ætti að segja okkur frá sjötíu ára afmæli Villa Vill. Það var að bæta gráu ofan á svart.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1710

 

Áskell skrifaði (03.04.2015): ,,Mbl.is á eftirfarandi línur: "Varðskipið Þór er nú á leið til aðstoðar flutn­inga­skip­inu Hauk sem er stjórn­v­ana um fimm sjó­míl­ur suður af Dyr­hóla­ey.
Flutn­inga­skipið Hauk­ur missti stjórn­hæfni á miðviku­dag út af Hornafirði ..." Ég hef aldrei heyrt talað um stjórnvana skip eða að skip "missi stjórnhæfni". Skip geta orðið vélvana og rekið undan veðri og vindum.” – Sama hér, Áskell. Hef reyndar oftar  heyrt sagt, - vélarvana. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/04/03/thor_og_haukur_a_leid_til_hafnar/

 

Trausti benti á þessa frétt á dv.is (03.04.2015): http://www.dv.is/skrytid/2015/4/3/augnskodun-netinu-serd-thu-einstein-eda-monroe/

Hann spyr: ,,Fá fréttabörnin virkilega að skrifa sitt barnamál óáreitt í fjölmiðla?
Mér finnst þetta satt að segja algerlega óboðlegur texti og fjölmiðill, sem ætlar sjálfum sér eitthvert líf, verður að geta gert betur en þetta.”- Þakka ábendinguna, Trausti.

 

 Hafði ritstjórn með verkinu, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (04.04.2015) um skýrsluskrif. Ritstýrði verkinu, hefði verið betra.

 

Forsetningar vefjast stundum fyrir fréttaskrifurum. Í hádegisfréttum Bylgjunnar (06.04.2015) var fjallað um hafrannsóknir og talað um grundvallarrannsóknir við Íslandsmið. Hér hefði Molaskrifara fundist eðlilegra að tala um grundvallarrannsóknir á Íslandsmiðum.

 

Enn einu sinni birtist hér fallafælnin, - hræðslan við að hefja setningu á orði sem ekki er í nefnifalli, - af mbl.is (04.04.2015): ,,Kenn­ari sem leigði stofu við virt­an einka­skóla í Bir­ming­ham í Englandi hef­ur verið vikið úr skól­an­um eft­ir að gengið var inn á hann að stunda kyn­líf með ást­konu sinni í yf­ir­gef­inni skóla­stofu”. Þetta ætti að vera: ,, Kennara, sem ..... hefur verið vikið úr starfi... “  Raunar þarf ekki mjög glöggan lesanda til að sjá að fleira mætti þarna betur fara , -  gengið var inn á hann ....  í yfirgefinni skólastofu. Sama gildir um fyrirsögnina: Gómaður í kynlífsathöfnum .... Fréttin: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/04/04/gomadur_i_kynlifsathofnum_i_skolastofu/

 

Ekki hefur Molaskrifari tölu á því í hve mörgum fréttatímum Ríkisútvarpsins á laugardag og á páskadag var sagt frá því að erlendur trommuleikari hefði látist í bílslysi eftir ,,að hafa ekið á póstkassa og á tré”. Maðurinn hét Bob Burns og lék um tíma með hljómsveitinni Lynrd Skynrd. Molaskrifari er einstaklega illa að sér um seinni tíma popptónlist og hefur aldrei heyrt manninn nefndan né heldur hljómsveitina,- en það er auðvitað ekkert að marka. En hefði ekki verið nóg að segja okkur þetta einu sinni, eða í mesta lagi tvisvar?

 

Í fréttum Stöðvar tvö á páskadag var okkur tvísagt, að í dag (05.04.2015) hefði páskadagur verið haldinn hatíðlegur um land allt. Seint verður þetta talið frumlegt orðalag. Minnti Molaskrifara á að einhvern tíma á frétt að hafa byrjað svona í einhverjum fjölmiðlinum: Í dag var 17. júní um land allt ....

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1709

  

Þórarinn skrifaði (03.04.2015): ,, ... segist heldur betur hafa brugðið í brún þegar hún bað afgreiðslukonuna í greiðasölunni í flugstöðinni á Egilsstöðum um að lækka tónlistina í hátalarakerfinu.” 

 Hann spyr: - Hefði ekki verið betra að hafa þetta: segir, að sér hafi heldur betur brugðið í brún ? Molaskrifari þakkar ábendinguna og svarar: Jú, Þórarinn, þitt orðalag hefði verið betra. Hitt heyrist samt æ oftar. Kannski hafði fréttaskrifari þarna rangt eftir, sem Molaskrifara finnst ekki ósennilegt.

Áskell skrifaði (03.04.2015) Eftirfarandi var að finna í frétt hjá Ríkisútvarpinu: "Louis Jordan fannst ofan á hvolfdum bát sínum rúmum 300 kílómetrum undan strönd Norður-Karólínuríkis í Bandaríkjunum. Þýskt flutningaskip sá hann..." Áskell segir: ,,Ég er ekki alveg sáttur við þennan texta. Venjulega er talað um að skipbrotsmenn komist á kjöl og það voru það skipverjar á þýsku flutningaskipi sem sáu Louis þar sem hann sat á kili bátsins”. Auðvitað sá skipið ekki manninn! Þakka ábendinguna, Áskell. Hér er frétt Ríkisútvarpsins: http://www.ruv.is/frett/truin-helt-honum-a-floti

Og hér er frétt mbl.is um sama atburð. http://m.mbl.is/frettir/erlent/2015/04/03/fannst_a_lifi_eftir_66_daga_uti_a_sjo/ - Í frétt mbl.is segir m.a.: ,,Um­fangs­mik­il leit stóð yfir að bátn­um og fannst Lou­is loks, ofan á hvolfd­um bát sín­um, um 300 kíló­metr­um frá strönd Norður-Karólínu í Banda­ríkj­un­um. Það voru áhafn­ar­meðlim­ir á þýsku flutn­inga­skipi sem komu auga á Lou­is og komu hon­um til bjarg­ar,..” Ofan á hvolfdum bát sínum. Samræmt orðalag eða étur hér hver eftir öðrum?

En frétt Stöðvar tvö um þennan sama atburð (03.04.2015) var með því skrautlegasta sem Molaskrifari hefur lengi heyrt. Edda Andrésdóttir, þulur, talaði réttilega um skipverja á þýsku olíuskipi,sem komið hefðu auga á manninn. Fréttamaður talaði hinsvegar um áhafnarmeðlimi á þýsku flutningiskipi,sem komið hefðu auga á manninn. Lífseigt er orðskrípið áhafnarmeðlimur. Síðan sagði fréttamaður okkur að maðurinn hefði vaknaði við að bátinn hvolfdi og hann hafi haldið til uppi á öfugum bátnum síðan. Erfitt er að koma jafnmörgum ambögum fyrir í jafnstuttri setningu. Hér er fréttin af Stöð tvö: http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV4B611943-6E00-4414-A5F3-B09F56FB1AA2

 

Morgunblaðið sagði frá sama atburði (04.04.2015) ,,,... fannst Louis loks uppi á kilinum á hvolfdum bát sínum , ..... en áhafnarmeðlimir þýsks flutningaskips fundu hann.” Enn koma áhafnarmeðlimir við sögu. Maðurinn hafði komist á kjöl eftir að bátnum hafði hvolft. Ef hann hafði komist á kjöl, hlaut bátnum að hafa hvolft.

Ríkissjónvarpið komst ágætlega frá því að segja okkur þessa frétt (03.04.2015) : http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/frettir/20150403

 

Fartölvuþjófur inn um svalirnar, er undarleg fyrirsögn á mbl.is (02.04.2015) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/04/02/fartolvuthjofur_inn_um_svalirnar/

 Eins gott að hann fór ekki í gegnum hurðina, eins og æ oftar má sjá og heyra í fréttum. Í fréttinni er ágætlega sagt að þjófurinn hafi farið inn í íbúðina af svölunum.

 

Í gærkvöldi (07.04.2015) horfði Molaskrifari á endursýningu fjögurra ára gamallar bandarískrar heimildamyndar í danska sjónvarpinu DR2. Sá lungann úr myndinni, sem er næstum hálfrar annarrar klukkustundar löng og heitir,, Nauðgað í hernum”. Hún er um nauðganir og kynferðislegt ofbeldi, sem viðgengst í herjum Bandaríkjamanna. Það var vægast ógnvekjandi að horfa á þetta; hjá  ríki, sem telur sig  í fararbroddi í baráttu fyrir frelsi og mannréttindum. Lang oftast sluppu nauðgararnir og oftar en ekki voru þeir hækkaðir í tign í hernum og konurnar niðurlægðar, eftir óbætanlegt tjón á líkama og sálu sinni. Eiginlega skelfilegra en orð fá lýst.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband