Molar um málfar og miðla 1929

SUMARDAGURINN FYRSTI Á FIMMTUDEGI

Molalesandi skrifaði (16.04.2016) ,, Heill og sæll,

Í kvöldfréttum Sjónvarps í kvöld 16. apríl upplýsti fréttamaður, sennilega Hallgrímur Indriðason, áhorfendur um það, að Sumardagurinn fyrsti yrði næstkomandi miðvikudag. Hann leiðrétti sig síðar, augljóslega eftir athugasemd frá starfsfélaga, en leiðréttingin var aum. Hann sagði, að Sumardagurinn fyrsti yrði ekki á miðvikudag heldur fimmtudag, eins og það væri bara þetta árið.

 

Þetta minnir á Víkverja Morgunblaðsins (Ívar Guðmundsson) á fimmta áratug síðustu aldar, sem sagði í dálki sínum að „Sumardaginn fyrsta ber nú upp á fimmtudag, eins og svo oft áður.“ Að sjálfsögðu var hent gaman að Ívari fyrir þessa fljótfærnis villu. En þessi er verri.”

Molaskrifari þakkar bréfið. Hann heyrði þetta líka. Dálítið skondið, - leiðréttingin ekki síður!

 

 BEGGJA SLÆMRA

Málglöggur lesandi benti Molaskrifara á fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins (15.04.2016): Á tveggja kosta völ – beggja slæmra.

Molaskrifari þakkar ábendinguna, - honum finnst þetta einnig vera ankannalegt orðalag. Betra hefði verið til dæmis: Á tveggja kosta völ – báðir slæmir. Einnig benti þessi lesandi Morgunblaðsins á þetta: ,, .... að þýsk yfirvöld saksæki sjónvarpsgrínista fyrir að móðga forseta Tyrklands ....” Sögnin að saksækja er ekki í orðabók Molaskrifara, en þetta er svo sem vel skiljanlegt, þótt einhverjum þyki orðalagið ekki til fyrirmyndar.

 

KJÁNAGANGUR Í FRÉTTUM

Fréttir í sjónvarpsstöðvum á Vesturlöndum þróast æ meira a í þá átt að vera einhverskonar skemmtiatriði, - ekki fréttir , - heldur oft einhver kjánagangur.

Við sáum þetta í fréttum beggja sjónvarpsstöðvanna á föstudagskvöld.

Borgarstjórinn í Reykjavík ætlaði að setja sumardekkin undir bílinn sinn. Hringdi, eða lét hringja í báðar sjónvarpsstöðvarnar. Þær hlýddu. Mættu. Varla voru myndatökumenn beggja staddir á sama stað, á sama tíma fyrir algjöra tilviljun?  Mynduðu samviskusamlega og sama ,,ekki fréttin” birtist í fréttatímum beggja stöðva. Borgarstjóri lét sem hann væri starfsmaður á dekkjaverkstæði og fór að umfelga. Það er varla verk fyrir viðvaninga.  Svo mæta embættismennirnir í sjónvarpsfréttirnar, þegar verja þarf holótt og hættulegt gatnakerfi höfuðborgarinnar.

 

 

GRIMMRI

Úr fréttum Ríkisútvarps klukkan tíu á laugardagsmorgni (16.4.2016):,,Skjálftinn í gær var mun stærri og grimmri, en sá fyrri

Grimmari. Raunar skrítið að tala um grimman jarðskjálfta. Betra hefði verið að tala um kröftugan jarðskjálfta. Oft er talað um snarpan jarðskjálfta, en eru ekki allir jarðskjálftar snarpir? Þegar jörðin sjálf, terra firma, er ekki lengur stöðug, traust.

Enginn las yfir. Enginn leiðbeindi.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1928

 

TILVÍSUNARFORNÖFN OG FLEIRA

Þorvaldur skrifaði (13.04.2016):

,,Sæll Eiður. Enn eiga blaðamenn í erfiðleikum með tilvísunarfornöfn. Í vefmogga segir að óheimilt sé að fella tré á eignarlóðum sem eru eldri en 60 ára eða yfir 8 metrar á hæð. Minnir mann á auglýsinguna í sögunni af Bör Börssyni um rúm fyrir hjón sem eru á hjólum.

Einnig er sagt frá bruna í húsnæði N1 í Ártúnshöfða, þar segir að tvær stöðvar séu á staðnum, þar mun átt við slökkviliðsmenn frá tveim slökkvistöðvum.” Þakka þér bréfið, Þorvaldur, og réttmætar ábendingar. Þetta með tvær stöðvar, sést ærið oft í fréttum nú orðið, því miður. Virðist hafa verið lagfært í fréttinni, - seinna. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/13/nagranni_felldi_tre_i_othokk_eigenda/

 

EKKERT SVAR

Enn eitt dæmið um spurningu sem beint var til stjórnmálamanns og hann svaraði ekki, var í fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (13.04.2016). Þrír stjórnmálamenn voru spurðir um nýja skoðanakönnun, sem sýndi mikla fylgisaukningu hjá Sjálfstæðisflokki. Bjarni Benediktsson var spurður hvort fylgisaukningin hefði komið honum á óvart. Bjarni svaraði með því að fara yfir stöðuna eins og hún blasti við honum, en sagði ekki orð um hvort þetta hefði komið honum á óvart, - eins og um var spurt. Sennilega hlustaði fréttamaður ekki á svar Bjarna  því spurningunni var ekki fylgt eftir. Við vorum sem sé engu nær um það hvort þetta kom Bjarna á óvart, - enda skipti það svo sem ekki miklu máli. – Þetta er of algengt í viðtölum í ljósvakamiðlum.

 

VILLANDI FYRIRSÖGN

Fyrirsögnin á mbl.is (14.04.2016) Staðfesti siðareglur fyrir ráðherra ásamt mynd af Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra er villandi. Beint liggur við að skilja þetta svo , að forsætisráðherra hafi staðfest siðareglur fyrir ráðherra. Svo er ekki. Stjórn samtakanna Gagnsæis er að skora á ráðherra að staðfesta siðareglur fyrir ráðherra. Ekki vönduð vinnubrögð.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/14/stadfesti_sidareglur_fyrir_radherra/

 

 

LEIÐRÉTTI ÞAÐ SEM VAR RÉTT

Í morgunþætti Rásar tvö (13.04.2016) var rætt við doktorsnema í líffræði um hvalahljóð. Fróðlegt viðtal. Doktorsneminn sagði að maður þyrfti ekki að fara nema rétt út fyrir landsteinana ( til að sjá hvali). Þetta var alveg rétt og gott orðalag, en viðkomandi leiðrétti sig og sagði: ... rétt út í sjó. Það er ekki gott orðalag. Rétt fyrir utan landsteinana er örstutt frá landi. Alveg prýðilegt orðalag.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1927

AÐ FLOPPA

Leikritið floppaði, sagði málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins í Málskoti í morgunútvarpi ( 12.04.2016). Það var og. Þetta á víst að heita gott gilt, en óformlegt, segir orðabókin.

Í sama þætti var líka rætt um framburð á orðum, sem enda á –unum og venjulega er borið fram – onum, /stelponum/, /strákonum/. Þá rifjaðist upp fyrir Molaskrifara ,að á upphafsárum Sjónvarpsins kom sá mæti maður, prófessor Baldur Jónsson, nokkrum sinnum til okkar, sem lásum fréttir og hlustaði á okkur lesa og gerði athugasemdir og leiðbeindi. Man, að ég las fyrir hann texta þar sem Bandaríkin voru nefnd í þágufalli, Bandaríkjunum, sem ég las eins og orðið er skrifað,  BANDARÍKJUNUM. Hann leiðrétti mig og sagði: Þú átt að segja /Bandaríkjonum/ , það er eðlilegur íslenskur framburður. Síðan hef ég fylgt þeirri reglu.

 

VIKUDAGSKRÁIN

Vikudagskráin er lítið hefti með sjónvarpsdagskrá, sem dreift er á öll heimili í Kópavogi, Garðabæ/Áftanesi og Hafnarfirði. Skilst að þetta sé hluti af fjölmiðlaveldi Framsóknarmannsins Björns Inga Hrafnssonar. Þetta er heldur subbulega útgefinn bæklingur. Síðast stóð á forsíðunni dagsetningin 6.- 12. apríl. Inni í blaðinu stóð á öllum dagskrársíðum að þetta væri sjónvarpsdagskráin 23. mars til 29. mars.

 

ÁBÓTAVANT OG TÝND KONA

Úr frétt á mbl.is (13.04.2016): ,,Lögmaður húsfélagsins telur að eftirlit byggingafulltrúa hafi verið verulega ábótavant og hefur sent bæjarfélaginu bréf þar sem hann óskar eftir viðræðum um bætur”. 

Hér hefði átt að tala um að eftirliti byggingarfulltrúa hafi verið ábótavant.  Þessum fréttaskrifum er ábótavant. http://www.ruv.is/frett/blokk-i-gardabae-storgollud-ibuar-vilja-baetur

Hér er svo annað dæmi um hörmulega illa skrifaða frétt af mbl.is (13.04.2016). Fréttin er um konu sem villtist og fann ekki bílinn sinn aftur. Bíllinn hafði orðið bensínlaus í óbyggðum í Arizona í Bandaríkjunum. Sagt er að konan hafi verið týnd! Einnig er sagt að  hún hafi verið að leita að bæjarstæði! Endemis rugl. Fréttin endar á tilvísun í frétt á sama miðli þar sem  skipbrotsmenn voru kallaðir strandaglópar! Kannski sami maður hafi skrifað báðar fréttirnar.

Ja, hérna. Þetta er ekki gott. Sjá: http://www.ruv.is/frett/heil-a-hufi-eftir-niu-daga-i-obyggdum-arizona

 

BYLGJUFRÉTTIR OG STÖÐ TVO

Í hádegisfréttum Bylgjunnar var fjallaði um nokkra smástyrki sem fyrrverandi utanríkisráðherra veitti  fjórum aðilum, af lið sem venjulega er kallaður ráðstöfunarfé ráðherra, innan við eina milljón króna samtals. Þar af fór þriðjungurinn til Landgræðslunnar vegna ráðstefnuhalds. Ekki nýtt fyrirbæri, en fyrirkomulagið kannski ekki ákjósanlegt.  Í fréttum Bylgjunnar (12.04.2016) var talað um ,,styrki úr skúffufé sínu”.

 Í sama fréttatíma var sagt: ,, Næsti fundur flugumferðastjóra og Samtök atvinnulífsins verður ....”. Samtaka atvinnulífsins hefði þetta átt að vera.

Í kvöldfréttum Stöðvar tvö sagði fréttamaður: Páll segir að tæpur þriðjungur allra hjartaaðgerða á árinu hafi verið frestað ... Þetta hefði átt að vera , ... að tæpum þriðjungi allra hjartaaðgerða hafi verið frestað... Í sama fréttatíma sagði fréttamaður: Við ætlum svo að ræða við Ragnheiði Ríkharðsdóttir , formann þingflokks ....

Hvar er kunnáttan? Hvar er metnaðurinn?

 

SMARTLAND BREGST EKKI

Smartland, svo nefnt, á mbl.is bregst ekki frekar en fyrri daginn. Fyrirsögn (13.04.2016):Klæddist ófáanlegum kjól á frumsýningu. Snilldin!

http://www.mbl.is/smartland/tiska/2016/04/13/klaeddist_ofaanlegum_kjol_a_frumsyningu/

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1926

HRÆÐANDI KALLAR OG LOFANDI HEITAVATNSÆÐAR

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (11.04.20016): ,,Sæll,

„Niðurstöðurnar benda einnig til að karlmenn þyki vera meira hræðandi en konur þegar fólk gerir sér óviðkunnanlegt fólk í hug.“ Þetta er úr vefritinu pressan.is Frekar kjánaleg málsgrein og margt bendir til að hún sé þýdd af meiri vilja en getu. Furðulegt að höfundurinn, Kristján Kristjánsson, skuli ekki hafa lesið greinina yfir. Hún er raunar öll svo yfirgengilega heimskuleg að maður skammast sín hálfpartinn fyrir að viðurkenna lesturinn.

 

„Hittu á lofandi heitavatnsæðar,“ segir í fyrirsögn á visir.is. Þetta er illt orðalag. Betra hefði verið að skrifa; Hittu á vænlegar heitavatnsæðar. Þegar svona orðalag sést fær maður það á tilfinninguna að blaðamaðurinn sé ekki vanur skrifum og hafi ekki yfir að ráða nægilegum orðaforða til að skrifa skammlaust. Raunar virðist útgáfufyrirtækið 365 leggja litla áhersla á gott mál og góðan stíl. Hraðinn er slíkur að fréttir verða oft flausturslegar og illa skrifaðar.”

Kærar þakkir fyrir bréfið, Sigurður. Það er rétt,sem þú segir. Metnaðurinn hjá 365 miðlum til þess að gera vel, vanda sig , er sjaldan fyrir hendi.- Sá sem skrifaði þetta um heitavatnsæðarnar hefur sennilega verið að hugsa á ensku. En á því máli er orðið promising notað um sem er vænlegt, eða ástæða til að binda vonir við.

 

SVOKALLAÐAR HOLUR

Þegar erfiðari málin ber á góma, verða embættismenn Reykjavíkurborgar oft fyrir svörum í fjölmiðlum. Rætt var við borgarstarfsmann í morgunútvarpi Rásar 2 (13.04.2016) um malbikun og holóttar götur. Hann talaði um ,,svokallaðar holur” (samanber talið um ,,svokallað hrun”) í götum borgarinnar. Molaskrifari hefur séð margar djúpar holur, með hvössum brúnum í gatnakerfinu á höfuðborgarsvæðinu. Þær hafa valdið skemmdum á farartækjum. Hann vissi ekki að þetta væru ,,svokallaðar holur”. Hélt að þetta væru holur.

 

 

 

AÐ BÖSTA!

Þeir voru böstaðir með einhverjar þrælaverksmiðjur, sagði umsjónarmaður í morgunútvarpi Rásar tvö (12.04.2016). Gripnir, leiðrétti samverkamaður konunnar, samstundis. Gott. Það á ekki að fá fólk til umsjónar með daglegum útvarpsþáttum, sem sífellt slettir á okkur ensku. Þarf ekki að hlusta lengi til að fá á sig slettu. Það er ekki boðlegt og Ríkisútvarpinu ekki sæmandi.

ÚTVARPSSTJÓRI

Gott var að heyra útvarpsstjóra (13.02016) Ríkisútvarpsins tala um að hlutur menningarefnis í dagskránni yrði aukinn. Þýðir það ekki örugglega að svonefndar ,,Hraðfréttir”, sem hvorki eru hraðar né fréttir verða ,lagðar niður? Ríkisútvarpið hefur aldrei viljað svara því hvað þessir þættir kosta, en þeir bera það með sér að vera dýrir.  Athygli vakti, að í viðtalinu var ekki minnst á hlut íþróttaefnis í dagskrá  sjónvarps. Það hefur aukist hröðum skrefum og er nú stærri hluti dagskrárinnar en nokkru sinni fyrr. Það á ekki síst við um fjasið, sem jafnan er sent út á undan og eftir kappleikjum. Þar er rætt við menn sem kallaðir eru ,,sérfræðingar”.  Það mætti alveg draga úr því.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1925

Á STYKKISHÓLMI

,,Bifreið fór í höfnina á Stykkishólmi ...” var sagt í fréttum Ríkisútvarps klukkan  15 00 á sunnudag. Þetta var lagfært seinna, en föst málvenja er að segja í Stykkishólmi. Áfram var hinsvegar aftur og aftur sagt,- þegar björgunaraðilar náðu á vettvang. Í frétt mbl.is var hinsvegar talað um björgunarmenn. Betra.

 

ENSK LEIKRIT?

VH skrifaði (07.04.2016) ,,Sæll Eiður.
Fyrr í vetur benti ég þér á nafn á íslensku leikriti sem var: Old Bessastaðir. Og áfram skal haldið þessari feigðarför
tungu okkar.
Og núna nýlega voru kynntar frumsýningar á tveim íslenskum leikritum annað heitir ,,Improve Iceland,, og hitt heitir ,,Made in children,,
Mér alveg fyrirmunað að skilja hvers vegna þessi leikrit heita ekki uppá íslenska tungu.”.

Þakka bréfið VH. Ekki botna ég heldur í þessu. Þetta mun , að minnsta kosti annað leikritið hafa verið kynnt í menningarþætti Kastljóss, Ríkisútvarpsins.

http://www.ruv.is/frett/maria-um-made-in-children

 

UM LEKA

Í morgunútvarpi Rásar tvö (11.04.2016) var talað um gagnalekann, Panamalekann, Tortólaskjölin ,, .... að þessi gögn láku”, sagði umsjónarmaður. Gögnin láku ekki. Gögnunum var lekið. Þau voru birt án heimildar þeirra, sem geymdu þau. Hefur heyrst áður.

 Seinna í þættinum var talað um tæknihlið lekans og þar voru tæknisletturnar ansi margar hjá þeim sem rætt var við, þannig að efnið fór um sumt fyrir ofan garð og neðan hjá þeim, sem þetta skrifar.- Það var hinsvegar ágætt hjá Sigmari að biðja samverkakonu sína um að útskýra slettu, sem hún notaði, svo hlustendur skildu um hvað væri verið að tala. Mætti gerast oftar. Svo var talað um að gefa út skó! Selja nýja gerð af íþróttaskóm.

 

 

 

SAMTAL SEM MISTÓKST

Fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins (11.04.2016): Samtal við þjóðina mistókst. Þetta er tilvitnun í orð forsætisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar. Samtal þar sem annar aðilinn sagði ósatt, hlaut að mistakast. Þjóðin sagði ekki ósatt.

 

STARFSSTJÓRN – UTANÞINGSSTJÓRN

Einkennilegt að fréttamenn, sumir hverjir, skuli ekki skilja muninn á utanþingsstjórn og starfsstjórn, þegar rætt er um ríkisstjórnir. Meira að segja fréttamenn,sem eru löglærðir, virðast ekki ráða við þetta.

Utanþingsstjórn er ríkisstjórn,sem forseti skipar þegar stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga á Alþingi, koma sér ekki saman um myndun ríkisstjórnar. Ráðherrarnir eru þá ekki þingmenn. Þeir sitja þó á þingi , en auðvitað án atkvæðisréttar. Við höfum haft eina slíka (1942-1944). Stundum er  sagt, að  forsetar hafi verið  tilbúnir með slíka stjórn, ef stjórnarmyndunarviðræður virtust í óleysanlegum hnút  og dregist mjög á langinn,en þingmenn þá séð sitt óvænna og náð samkomulagi um stjórnarmyndun.

Starfsstjórn er ríkisstjórn, sem beðist hefur lausnar og fengið lausn frá störfum en falið er að sitja áfram uns ný stjórn hefur verið mynduð. Samkomulag virðist ríkja um að slík stjórn taki ekki meiriháttar ákvarðanir, - hennar hlutverk sé að halda kerfinu gagnandi uns ný stjórn hefur verið mynduð. Utanþingsstjórn og starfstjórn eru sitt hvað og þessu eiga fréttamenn ekki að rugla saman. Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra skýrði þetta ágætlega í pistlum sínum á dögunum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1924

TRAUSTLEYSI !

Nýr forsætisráðherra notaði nýtt orð, sem Molaskrifari hefur ekki heyrt áður í fréttum Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (08.04.2016).

 Hann talaði um traustleysi. Hann veigraði sér ef til vill við að nota orðið, sem rétt hefði verið að nota, - það sem hann kallaði traustleysi kallar fólk vantraust.

 

PEMPÍULEGA ORÐALAGIÐ

Molaskrifari er orðinn hundleiður á hinu pempíulega orðalagi, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi,,stigið til hliðar” eða ,,vikið til hliðar”. Hann baðst lausnar sem forsætisráðherra. Sagði af sér. Það á að segja það berum orðum, - nefna hlutina réttum nöfnum. Reyndar mætti líka segja á góðri íslensku, að hann hafi hrökklast úr embætti.

 

STRANDAGLÓPAR - SKIPBROTSMENN

Úr frétt á mbl.is (09.04.2016): ,, Banda­ríski sjó­her­inn og strand­gæsl­an bjargaði(björguðu) þrem­ur mönn­um sem höfðu verið strandaglóp­ar á eyðieyju í Kyrra­hafi í þrjá daga eft­ir að bát þeirra hvolfdi. “

Alltaf er betra að þekkja merkingu þeirra orða sem notuð eru við fréttaskrif.

Mennirnir voru ekki strandaglópar, þeir höfðu orðið skipreika, þetta voru skipbrotsmenn.

 Strandaglópur er sá, sem verður af ferð með skipi eða öðru farartæki, missir af skipinu  eða flugvélinni, eða er stöðvaður á ferð sinni og kemst ekki lengra..

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/04/09/bjorgudu_strandaglopum_af_eydieyju/

 

STRANDFERÐASKIPIÐ HURTIGRUTEN

Þorvaldur skrifaði (07.04.2016) ,, Í Mogga dagsins segir á baksíðu frá Íslendingi sem bruggar öl og vín í Noregi. Þar er sagt að fyrirtækið hafi samið við strandferðaskipið Hurtigruten um flutninga á framleiðslunni. Nú finnst þetta skip ekki í skipaskrám en blaðamaður ætti að vita að Hurtigruten er strandferðafyrirtæki Norðmanna og rekur mörg skip.” Kærar þakkir fyrir ábendinguna, Þorvaldur. Þetta er að sjálfsögðu rétt hjá þér. Þeir hlæja, sem búið hafa í Noregi , eða þekkja til í Noregi.

 

LÍK AF DÝRUM

Heyrði Molaskrifari það rétt í þætti Gísla Marteins á laugardagskvöld, að stjórnandinn talaði um lík af dýrum?

Maður er svo sem alltaf að heyra eitthvað nýtt. Líkið af kúnni, líkið af hundinum?

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1923

DAGSKRÁ ÚR SKORÐUM

Það var mjög eðlilegt að  dagskrá Ríkissjónvarpsins færi nokkuð úr skorðum á miðvikudagskvöld (06.04.2016) og lítið við því að segja. En þetta virtist eiginlega vera stjórnlaust. Dagskrárbreytingar, sem aldrei urðu, voru kynntar á skjáborða: Kiljan hefst klukkan 21 20. Hvað varð annars um Kiljuna? Engar skýringar voru gefnar, - svo ég heyrði að minnsta kosti. Þarna átti auðvitað að vera þulur á vakt ,sem tilkynnti þessar breytingar. Enn og aftur kemur í ljós að áður uppteknar, gamlar, niðursoðnar, dagskrárkynningar eru ekki boðlegar, þegar eitthvað breytist óvænt. Þarna hefði verið auðvelt að bregðast við og bæta þannig þjónustu við okkur. Það var ekki gert. Það var eins og dagskráin væri á sjálfstýringu þar sem enginn var bær til að taka ákvarðanir. Hvar voru yfirmennirnir? Þorði enginn að taka ákvörðun?

 

ENN UM AÐ STÍGA TIL HLIÐAR – ALLT Í RUSLI

Á miðnætti í fréttum Ríkisútvarps á miðvikudagskvöld (06.04.2016) talaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra enn um að Sigmundur Davíð ætlaði ,,að stíga til hliðar”. Bjarni hefði átt að segja að forsætisráðherra ætlaði að biðjast lausnar, segja af sér.

,,Stjórnarandstaðan er í rusli líka”, sagði Bjarni  í þessum sama fréttatíma . Það er sem sagt ,,allt í rusli hjá ríkisstjórninni”. Óheppilegt orðalag.

 

AÐFÖR

Fyrrverandi hæstaréttardómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, birti grein í Morgunblaðinu í gær (07.04.2016) undir fyrirsögninni Aðför, - stysta fyrirsögn á fimm dálka grein, sem Molaskrifari man eftir að hafa séð. Það gagnrýnir hann harkalega hlut fréttamanna í viðtalinu við SDG forsætisráðherra 11. mars síðastliðinn.

Það verklag sem þar var notað er alls ekki nýtt af nálinni og hefur áður verið notað til þess að fá sannleikann fram. Þetta getur auðvitað verið umdeilanlegt. En þarna var þetta  réttlætanlegt. Forsætisráðherra var orðinn margsaga, margbúinn að segja okkur ósatt. Það þurfti að afhjúpa það.

Afar ólíklegt er að maður með hreina samvisku, hreint mjöl í pokanum hefði brugðist við eins og SDG gerði í þessu viðtali, sem nær öll heimsbyggðin hefur nú sjálfsagt séð. Það voru ekki vinnubrögð fréttamanna ,sem felldu hann. Það voru hans eigin  orð og gjörðir. Fréttamennirnir drógu sannleikann fram, - með töngum -kannski. Orð og gjörðir ráðherrans sjálfs urðu honum að falli. Það er ekki hægt að kenna fréttamönnum um það. Í lok greinarinnar segir fv. hæstaréttardómarinn: ,, Og þeir sem þessa dagana tala um lágkúru í umræðum um þjóðfélagsmál , ósannindi og skotgrafahernað ættu kannski að hugleiða hvort svona framferði eins og þessir fréttamenn viðhöfðu er ekki kannski fremur en nokkuð annað til þess fallið að auka veg lágkúrunnar”.

Sannleikurinn eykur ekki veg lágkúrunnar.

Segir ekki í bók bókanna: ,, ... og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa”. (Jóh. 8:32)

Og: ,,Sannmálar varir munu ávallt standast, en lygin tunga aðeins stutta stund.”. (Orðskviðirnir12:19)

Það er mikill vísdómur í Orðskviðunum.

 

AÐ SIGRA KEPPNINA

Í þættinum Spretti í Ríkissjónvarpinu á miðvikudagskvöld (06.05.2016) sagði umsjónarmaður og kynnir: ,,Það mun ráðast hér í kvöld hver sigrar einstaklingskeppni deildarinnar”.  Raun að þurfa að hlusta á þetta! Málfarsráðunautur leiðbeini þeim, sem þetta sagði. Það er hluti af starfinu.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1922

GÆRKVÖLDIÐ Í PÓLITÍKINNI

 Molaskrifari hefur áður nefnt frábæra frammistöðu fréttastofu Ríkisútvarpsins í hinni pólitísku ringulreið undanfarna daga. Þar hafa margir lagt hönd á plóginn, lagst á eitt, og unnið vel, bæði fréttamenn og ekki síður tæknimenn. Þeirra hlut má ekki vanmeta. Gaumgæfinn og yfirvegaður Guðni Th. Jóhannesson prófessor og sagnfræðingur gaf allri þessari umfjöllun líka aukið vægi. Hann er í essinu sínu í sjónvarpi. Gerði þetta einstaklega vel.

 Í gærkveldi (06.04.2016) var eins og fréttastjórnin færi dálítið úr böndunum, - þarna var eiginlega hálfgert stjórnleysi í útsendingunni. Hvar voru fréttastjóri, dagskrárstjóri og útvarpsstjóri? Það hefði átt að hætta beinni útsendingu strax eftir ræðurnar og viðtölin í stiga þinghússins. Það kom eiginlega ekkert merkilegt fram eftir það. Svo voru tíu fréttir á dagskrá seinna um kvöldið. Raunar athyglisvert, að fjármálaráðherra, en ekki nýr forsætisráðherra skyldi byrja, ljúka og stjórna þessum stigaviðburði. Bjarni var forsætisráðherrann í stiganum.

Kastljósi var ofaukið. Það var hálf vandræðalegt. Það átti bara að halda fréttaútsendingunni úr þinghúsinu áfram strax að loknum veðurfréttum, - og hætta í stiganum þegar Bjarni og tilvonandi forsætisráðherra höfðu lokið máli sínu.

Es. það var auðvitað allt í lagi að ræða mótmælin á Austurvelli við erlenda ferðamenn, - þótt það fólk vissi lítið eða ekkert um málið. En látum það nú vera. Verra var fyrr í vikunni, þegar verið var að ræða mótmælin við smábörn, óvita. Það ætti ef til vill að varða við lög að koma þannig fram við börn. Blanda óvitum inn í pólitíska umræðu. Það var óafsakanlegur dómgreindarbrestur.

Í heildina var frammistaðan mjög góð. Takk fyrir það.

 En eftir stendur áreiðanlega í huga margra, að ríkisstjórnin glutraði þarna niður tækifæri til að lagfæra ásýnd sína og afla sér trausts hjá landsmönnum. Það tækifæri fór hjá garði. Eftir stendur sterkari Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum. Það eru vissulega tíðindi líka.

 

BRAGÐ - BRÖGÐ

Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifaði Molum (01.04.2016): ,, Ég lærði það í íslenskunámi mínu gegnum árin, að það væri bragð af mat, og það orðið væri ekki til nema í eintölu, en nú virðist færast í vöxt, að fólk tali um margskonar brögð af matnum. Það finnst mér hljóma undarlega í eyrum, enda lærði ég það, að orðið brögð í fleirtölu þýddi allt annað en bragð af mat, smb. orðatiltækið brögð í tafli. Ég ætlaði að spyrja þig, hvort þú hefðir ekki tekið eftir þessu, og hver þín skoðun er á þessu? Er hægt að tala um mörg brögð af mat? Mér finnst þetta hljóma eitthvað annkanalega í eyrum, vægast sagt.”

Þakka bréfið. Vissulega hef ég tekið eftir þessu. En mér er reyndar tamara að tala um bragð að mat, fremur en bragð af mat. Þetta er sérviska, því algengara mun að talað sé um bragð af mat. En svo segjum við bragð er að þá barnið finnur. Þá er verið að tala um eitthvað sem er svo úr hófi, að jafnvel barn geri sér grein fyrir því. Ég er sömu skoðunar og þú varðandi notkun þessa orðs í fleirtölu, rétt eins og fleirtölunotkun orðanna verð og ilmur, sem ég felli mig illa við, en þetta er sjálfsagt persónubundið eins og svo margt annað í málinu. Mjög oft nú orðið er í auglýsingum talað um góð verð og marga ilmi - gott verð og margskonar angan.

 

HALLAR UNDAN FÆTI

,,Þá fer nú að halla undan fæti hjá okkur hér í Samfélaginu”, sagði stjórnandi þáttarins Samfélagið á Rás í Ríkisútvarpinu á þriðjudag (05.04.2016). Hann átti ekki við, að þátturinn væri að geispa golunni, eða að þetta væru farið að þynnast hjá þeim. Hann átti við að sá tími, sem þættinum væri ætlaður í dagskránni væri að renna út, þættinum væri að ljúka. Alltaf betra að vita hvað orðtök þýða, þegar gripið er til þeirra.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1921

HRINGAVITLEYSA OG AÐ STÍGA TIL HLIÐAR

Enn þvældu stjórnmálamálamenn og einstaka fréttamenn um það í fréttum gærdagsins (05.04.2016) að Sigmundur Davíð væri að stíga til hliðar eða stíga niður. Í sjónvarpsfréttum gærkveldsins talaði Bogi réttilega um að hann væri að segja af sér. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði tilkynnt að hann ætlaði að segja af sér. Formleg afsögn tekur gildi á ríkisráðsfundi, þegar annað ráðuneyti tekur við. Afsögn er orðið sem á að nota, ekki stíga til hliðar eða stíga niður, sem sennilega er ættað úr ensku, step aside, step down. Það þýðir á íslensku að hætta, segja af sér , láta af störfum.

 Fram á kvöld í gær var atburðasrásin skír. Það þurfti engan ,,útskýrara”. Svo skír að leiðari Morgunblaðsins í dag (06.04.2016) er pólitísk eftirmæli. Kaflaskil heitir leiðarinn Pólitísk minningargrein um forsætisráðherraferil SDG. Eins og þruma úr heiðskíru lofti ( það var voru nú reyndar óveðursský á hinum pólitíska himni í gær) kemur svo í gærkvöldi tilkynning til erlendra fréttamanna, já til erlendra fréttamanna um SDG sé ekki búinn að segja sér, sé ekki hættur, hafi bara farið í frí um ótiltekinn tíma og varaformaður flokksins muni hlaupa í skarðið á meðan!!! Jóhannes ,,útskýrari” sá að þetta þurfti að skýra, því þetta var eiginlega allt á misskilningi byggt. Sigmundur Davíð hafði alls ekkert sagt af sér.

 Erlendir fjölmiðlar botna hvorki upp né niður í málinu , ekki fremur en íslenska þjóðin sem frétti þetta frá blaðamanni Financial Times og svo íslenskum samfélags- og fjölmiðlum. Fyrst klóra menn sér í hausnum, fara svo að hlæja og spyrja sjálfsagt: Er ráðamönnum á Íslandi ekki lengur sjálfrátt, eru þeir ekki með öllum mjalla?

 Hvað segja Sjálfstæðismenn nú? Eru þeir að semja nýjan stjórnarsáttmála andspænis einhverjum bráðabirgða forsætisráðherra, sem á að sitja í nokkrar vikur eða mánuði? Eða kannski heilt misseri áður en SDG, sem þingmenn Framsóknar kalla leiðtogann ( eiginlega vorn mikla og ástsæla eins og sagt var í Norður Kóreu), sest aftur á valdastól.

Enn einu sinni er búið að gera okkur að athlægi auk þess að draga nafn landsins niður í svaðið.

Nú hljóta Sjálfstæðismenn að setja hnefann í borðið. Hingað og ekki lengra. Þetta geta þeir ekki látið bjóða sér.

 

Annars skal ítrekað hér, að fréttastofa Ríkisútvarpsins stóð sig frábærlega vel í hinni pólitísku ringulreið gærdagsins, eins og Molaskrifari hefur raunar áður sagt á fésbók.

 

FYRIRSAGNIR

Daginn eftir mótmælafundinn mikla á Austurvelli (05.04.2016) sagði Morgunblaðið í forsíðufyrirsögn: Mörg þúsund mótmæltu. Á forsíðu Fréttablaðsins sagði: 22.000 mótmæltu. Það var haft eftir þeim sem skipulögðu mótmælafundinn. Forsíðumynd Fréttablaðsins sýndi manngrúann vel. Það gerði forsíðumynd Moggans hinsvegar ekki eins vel.

 

SKÖMMTUN

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (05.04.2015) var talað um ,, að skammta þyrfti vatni og rafmagni í ...” Hefði átt að vera: Að skammta þyrfti vatn og rafmagn.

 

BERA GÆFU TIL

Úr fésbókarfærslu fjölmiðlamanns (05.04.2016) ,, Svo mun okkur bera gæfa til að horfa til Norðurlanda í framtíðinni.Það er því miður allt of algengt að farið sé rangt með þetta orðtak. Þetta ætti auðvitað að vera: ,, Svo munum við bera gæfu til að horfa til Norðurlanda í framtíðinni”. Alveg óhætt að taka undir efni þess sem hér er var skrifað, - að horfa til Norðurlandanna.

 

 

 


 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1920

BAKKAFULLUR LÆKUR

Molaskrifari ætlar ekki að bera í bakkafullan lækinn í dag með umfjöllun um pólitíska atburði gærdagsins. Flest bendir til að dagar Sigmundar Davíðs í embætti forsætisráðherra séu taldir. Hann virðist hvorki njóta stuðnings sinna manna né þingmanna í samstarfsflokknum.

 

 AÐ SETJA OFAN Í VIÐ

Að setja ofan í við einhvern ,er að veita einhverjum tiltal, ávíta einhvern eða áminna. Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (01.04.2016) sagði fréttamaður um ummæli Steingríms J. um Fjármálaeftirlitið, Landsbankann og Borgunarviðskiptin:,, ... og setja alvarlega ofan í bæði Landsbankann og Arionbanka”. Hefði átt að vera: -.. setja alvarlega ofan í við ....

 

HVIMLEITT SKRUM

Fréttatímanum er vikulega stungið óumbeðið inn um póstlúguna hjá Molaskrifara. Þar er vissulega oft ýmislegt bitastætt að finna. En þar eru líka skrifaðar auglýsingagreinar, merktar sem ,,Kynningar” oft sagðar unnar í samstarfi við fyrirtækin, vörurnar eða snákaolíurnar sem verið er að kynna. ,,Unnið í samstarfi við Sæta svínið” , stóð við auglýsingagrein um veitingahús í helgarblaðinu (01.04 til 03.04.). Ef vel er að gáð sjá glöggir lesendur, að þarna er um að ræða hreinar auglýsingagreinar, sem sennilega er borgað fyrir að birta . Þetta er á norsku kallað tekstreklame, sjá: https://snl.no/tekstreklame

Þetta er í senn léleg  blaðamennska, að ekki sé meira sagt. Margir lesendur lesa þetta skrum í góðri trú á að hér sé um hlutlausa umfjöllun að ræða. Svo er ekki. En Fréttatíminn er sannarlega ekki einn um þetta.

 

SLETTUFYRIRSÖGN

Dæmi um slettufyrirsögn af visir.is (02.04.2016)

Kamelljón sem langar í taste af öllu. Frekar subbulegt.

Kamelljón vill bragða allt, reyna allt. Kann blaðamaðurinn, sem skrifar þessa frétt ekki íslensku? Sennilega ekki. Alla vega ekki mjög vel.

http://www.visir.is/kamelljon-sem-langar-i-taste-af-ollu/article/2016160409842

 

MEIRI SLETTUR

Forsetaframbjóðandi, sem ýmsir nefna, en sem enn segist vera að hugsa sig um, var á Sprengisandi á Bylgjunni (03.04.2016). Ekki heyrði Molaskrifari betur en hann segði:,, ...eins og við köllum á fínu diplómatamáli moving target. “ Moving target er enska og þýðir skotmark á hreyfingu. Molaskrifari var um skeið í utanríkisþjónustunni og hitti marga diplómata. Hann kannast ekki við þetta úr þeirra málfari, - skildi þess vegna ekki hvað átt var við. Þeir sem hyggja á búsetu á Bessastöðum ættu að einbeita sér að íslenskunni, þegar þeir tala við fólk.

 

SMARTLAND BREGST EKKI

Lesendum mbl.is hlýtur að vera létt að vita að nafngreind kona er ólétt.http://www.mbl.is/smartland/stars/2016/03/29/rakel_og_bjorn_hlynur_eiga_von_a_barni/

Smartlandið, sem Moggi kallar svo, bregst ekki frekar en fyrri daginn. Ættu óléttufréttir annars ekki bara heima á auglýsingasíðum Moggans?

 

MARGLYTTUR

Geir Magnússon skrifaði (03.04.2016): ,,Sæll vertu Eiður

Netmoggi birtir í dag frétt um marglyttur á ströndum Flórída.

í fréttinni er eignarfall fleirtölu “marglytta” sem ég hnaut um, fannst að það ætti að vera marglyttna. Talaði við Silju fréttastjóra mbl.is, sem tók máli mínu vel en sagði, eftir athugun, að Árnastofnun beygði þetta orð eins og það var í blaðinu.

Ekki veit ég hvernig Árnastofnum kemur inn í málið, en er ekki sannfærður. Hvað segir þú um þetta?” Á vef Árnastofnunar er Beygingarlýsing íslensks nútímamáls. http://bin.arnastofnun.is/forsida/

 Þar er ef. flt. marglytta. Molaskrifari hefði annars haldið að hvort tveggja væri jafnrétt marglytta og marglyttna. Þakka bréfið.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband