Vítaverður ölvunarakstur?

Er ekki allur ölvunarakstur  vítaverður ?


mbl.is Dæmdur fyrir vítaverðan ölvunarakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Molar um málfar LXIII

  Líklega er til  lítils að gera  athugasemdir  við málvillur á bloggsíðum. Sigríður Laufey Einarsdóttir (27.04.) skrifar: „Hvers vegna einhliða áróður þar sem  heildarhagsmunir þjóðarinnar er ekki gerð skil ... " Hér ætti  auðvitað að standa: --  „ ... þar sem  heildarhagsmunum þjóðarinnar eru ekki  gerð  skil".  Ekki  virðist  það  skipta miklu,   þegar að málvillum kemur,  hvort  fólk státar  af háskólagráðum, eður ei. Guðfræðingurinn Sigríður  Laufey er í hópi þeirra  bloggara, sem ekki leyfa  ritun  athugasemda   við bloggfærslur sínar. Það er sérkennilegt og þeir bloggarar skipa sér skör hærra,en  við  sem leyfym að  skoðunum okkar sé  andmælt. Kannski eru þessir  bloggarar bara ekki áhugasamir um skoðanir annarra. Það væri athugandi að  birta lista yfir þá  afkastabloggara sem  ekki leyfa  athugasemdir  við skrif sín.

 Það henti ágætan fréttamann RÚV (27.04.)  að tala um „skipsbrot". Þetta orð er ekki  til. Við  tölum um  skipbrot og  skipbrotsmann, þann sem  bjargast  úr  sjávarháska, þegar skip   strandar  eða ferst. Kannski ekki villa sem kemur á óvart. Villa  samt.

Hafið þið tekið eftir því, ágætur lesendur,  hve  oft er ekki tenging  eða samhengi milli fyrirsagnar fréttar og  textans sem á  eftir fylgir?  Gaman væri að fá send dæmi um þetta.

 


Óþolandi aðdróttun Framsóknarformannsins

mbl.isVaxtaupplýsingar frá „fólki í utanríkisþjónustunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt


Molar um málfar LXII

  Þetta var skrifað  í Vefdv 26.04. : „Einnig var nokkuð um að strikað væri yfir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Þráinn Bertelsson." Væri ekki ágætt ef ritstjóri DV kenndi  sínum skriffinnum meginreglur um beygingu mannanafna? '

Það er  algjör óþarfi að bæta orðum inn í orðatiltæki sem  eru  föst í tungunni. Talað er um að vera  milli steins og  sleggju, lendi maður í  vondri klípu,  eigi  aðeins  tveggja  illra kosta völ eða sé milli tveggja  elda. Nýlega  sá  Molahöfundur  á prenti (man ekki hvar) tekið  svo  til orða „að vera  fastur milli steins og  sleggju." Sú breyting er ekki til bóta.

 Líklega er það orðið  býsna fast í málinu að tala um að mannvirki sé „vígt", þegar það er   tekið í gagnið  og notkun þess hafin. Á  fréttastofu sjónvarpsins  á sínum  tíma  lagði fréttastjórinn, séra  Emil Björnsson  ríka áherslu á  að   sögnin að  vígja  væri ekki notuið með þessum  hætti  nema  því aðeins að  prestur, vígður maður, bæði mannvirkinu guðsblessunar.  Fæstir  hugsa  sjálfsagt um upphaflegu merkinguna  þegar  sögnin að  vígja  er  notuð um ný mannvirki.

Hugsunarleysisskrif í Vefdv  (24.04.): „En prófkjörsbarátta þeirra þriggja síðastnefndu í borgarstjórnarkosningunum árið 2006 voru afar áberandi." Það er alltof algengt að maður hnjóti um svona  setningar.

Á Vefvísi   mátti lesa (25.04.): „ ...segir Sturla sem er með bílinn, gáminn og vagninn í láni hjá félögum sínum.".Hér er líklega átt  við að  Sturla hafi fengið  bílinn, gáminn og  vagninn að láni  hjá félögum  sínum.  En  orðalagið er út úr  kú  og óskiljanlegt.

Fróðlegt væri að heyra hvað lesendum finnst um þann sið sumra  fréttamanna í útvarpi að ljúka   viðtölum með þakkarorðunum: „Þakka þér"? Persónulega kann ég betur  við þegar sagt er: Þakka þér  fyrir. Finnst enskukeimur af hinu.


Molar um málfar LXI

 „Kjörstaðir loka klukkan tíu," var  sagt hvað eftir annað (24.04.) í  sjónvarpi  ríkisins,RÚV, í gærkveldi og  í morgun var talað um að kjörstaðir opnuðu.     Kjörstaðir loka auðvitað ekki neinu og  opna ekki neitt. Kjörstaðir  voru  opnaðir  klukkan  níu eða  tíu  að  morgni kjördags. Þá hófst kjörfundur.  Kjörstöðum var  lokað klukkan  tíu að kveldi kjördags. Þá lauk kjörfundi. Enn ein vitleysan heyrðist svo í fréttum Stöðvar  tvö klukan  1830: „Kjörstöðum lokar klukkan  tíu."  Einkennilegt að geta  ekki haft jafneinfalda hluti rétta. En ekki heyrði ég  betur en þær Margrét Marteinsdóttir og  Þórdís Arnljótsdóttir færu  báðar rétt með þetta í   fréttum RÚV  sjónvarps klukkan 1900. Þær fá hrós  fyrir það.

Framsóknarblogghestur  skrifar á kjördag:„Ríkisstjórnin leynir kjósendum upplýsingum um raunverulega stöðu mála."   þarna á hann við að  ríkisstjórnin leyni kjósendur upplýsingum, eða haldi upplýsingum leyndum  fyrir kjósendum. 

Beygingafælni breiðist út. Svona hefst  færsla bloggara (23.04): „Ég vil byrja á því að óska ykkur Gleðilegt sumar."  Þarna  ætti  auðvitað  að  standa, - óska ykkur gleðilegs  sumars. Þar að auki á ekki að  vera  stór  stafur í gleðilegt.

 Hér var nýlega  vikið að  slettunni „bröns", en  Sjálfstæðismenn buðu  stuðningsmönnum  til slíkrar máltíðar. Nú heyri ég að  veitingastaðurinn VOX í Nordica  hótelinu notar þessa slettu líka í auglýsingum. Það er óþarfi að láta þessa slettu  festast í málinu og  heitir  nú Molahöfundur á orðhaga menn að  búa  til  nýtt orð yfir þessa máltíð  sem í senn  er  morgunverður og  hádegisverður. Það gerist þó líklega ekki fyrr en  hin pólitíska víma er runnin af mönnum.

Um allt  annað: Fyrir langa löngu setti  útvarpsráð þá  reglu að ekki mætti auglýsa  dansleiki. Orðið dans varð bannorð í auglýsingum.  Þetta átti, að  áliti  góðtemplara , að sporna gegn lausung og spillingu, víndrykkju og  hverskyns ósóma. Þetta var  fáránlegt.  Strax  fóru að birtast  auglýsingar  um dansleiki, sem  voru í þessa veru: Verðum í  Húnaveri í kvöld. Hljómsveit  Péturs og Frikriks. Hljómsveit BB leikur í  Þórskaffi kvöld.   Enginn talaði um dans.  En allir  vissu hvað var verið að  auglýsa. Útvarpið líka. Fyrir kosningarnar núna  auglýstu stjórnmálaflokkarnir hver um annan þveran samkomur  þar sem boðið  var upp  á „léttar  veitingar"  Orðin „léttar veitingar" þýða að áfengi verður á boðstólum. Bannað er að  auglýsa áfengi. Svona fara stjórnmálaflokkarnir í kringum lögin sem fulltrúar þeirra samþykktu á  Alþingi.

 


Hræðslusprengja Framsóknar - Þráinn stríðir þjóðinni

  Það var svolítið sérkennilegt hvernig   Framsóknarformaðurinn varpaði  órökstuddri hræðslusprengju inn í umræðurnar í gær og  tókst  þannig að láta  umræðuna  snúast talsvert um  sig daginn fyrir kosningar. Þetta var greinilega gert í örvæntingu,en ekki held ég að það hafi skilað miklum árangri.  Þetta mál  snýst  ekki um  að leyna  almenning einhverju sem  skiptir  máli. Það snýst um að  vernda  hagsmuni heildarinnar  með því að tryggja   rétt aðgengi á réttum   tíma að upplýsingum sem  skipta  þjóðarhag miklu. Það snýst um að  gæta  jafnfræðis í viðkvæmu og erfiðu máli. Mér  fannst þau Steingrímur og Jóhanna  ekki segja  þetta alveg nógu  skýrt í umræðum formannanna. Lýðskrum Borgarahreyfingarinnar  í formannaþættinum í kvöld var með ólíkindum, en reynslan  sýnir  að  skrumflokkar af þessu tagi  geta    laðað  að  sér   óánægjufylgi, sem  heldur alltaf að lausnin felist í nýjum flokkum. 

 En er ekki leyfilegt að  spyrja:  Gengur það ekki þvert á  allt  sem  Borgarahreyfingin  er  að segja  kjósendum að  Þráinn Bertelsson,sem, líklega  fer nú inn á  þing  skuli lýsa því yfir  að hann ætli sér að halda  heiðurslaunum listamanna, sem þessi fyrrverandi gallharði  allaballi hlaut fyrir pólitískan  tilverknað   Framsóknarflokksins ? Þingmennska er  fullt  starf  sem  er  prýðilega  launað . Þetta er einkennileg  tvöfeldni sem  sumir mundu kalla   hræsni. En líklega er Þráinn bara að  stríða  þjóðinni. Er það ekki öruggt ?

Mér  finnst að  barnabókahöfundurinn Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi flokkssystir Þráins,   ætti að taka  sæti hans í heiðurslaunaflokknum. Það er  löngu tímabært. Þráinn  hefur ekkert með  heiðurslaun að gera meðan hann  situr á  Alþingi,  verði hann   kjörinn. Auðvitað á hann að sjá  sóma sinn í að afþakka launin.


Molar um málfar LX

  Alkunna er að orð hafa stundum gjörólíka merkingu í eintölu og  fleirtölu. Bjarni Sigtryggsson, áhugamaður um móðurmálið, sendi Molum eftirfarandi:

 „Íslendingar eru átakaþjóð og vinna oft þrekvirki í skorpum. En fleirtölumynd þessa orðs hefur aðra merkingu og því brá mér er ég heyrði í upphafi þáttarins Samfélagið í nærmynd á Rás 1 á mánudag komist svo að orði:

"Kvenfélagasamband Íslands og Félag héraðsskjalavarða á Íslandi hafa
nú hafið átök um söfnun og varðveislu skjalasafna kvenfélaganna..."

Ég sé fyrir mér harða baráttu."    Takk fyrir þetta,Bjarni. Gaman  væri að fá  fleiri athugasemdir,  og  dæmi,  frá þeim sem  lesa þessa pistla.

Það er farið að harðna á dalnum hjá RÚV þegar umsjónarmenn tónlistarþátta (KK 22.04.) geta ekki farið  rétt með  nafn hins kunna og  fjölhæfa  útvarpsmanns Jónasar Jónassonar. Sami umsjónarmaður kynnti   kínverskt lag  með  ensku heiti og kínversku. Hann hefði að skaðlausu mátt sleppa enskunni og  segja í  staðinn  fyrir „Riding a Bicycle in Spring," „Hjólaferð  að vori."

Það er ótrúlegt hve oft  sömu  villurnar heyrast í ljósvakamiðlum. Gestur á Rás tvö sagði (22.04.) í morgun: „... vona  að þeim beri gæfu til..." Hefði að  sjálfsögðu átt að segja, að þeir beri gæfu til. Sami maður sagði svo: „... börnin blæða..." Börnunum blæðir,  hefði  hann betur  sagt. Í gamla daga, veit ekki hvort  svo er enn, þýddi sögnin að  blæða, að  borga eða splæsa, sem var annað  slanguryrði. „Hann var blankur, svo ég varð að blæða." „Ég splæsti á hann kaffi og  tertu."

Aðeins meira um   Rás  tvö. Ég gaf mér svolítinn tíma til að  hlusta á morgunútvarp Rásar tvö (22.04.). Á stuttri  stundu tókst umsjónarmanni að fara  rangt með  nafn  væntanlegs gests (Hjálmtýr, ekki Hjálmar)  og  rugla  saman  milljónum og milljörðum. Svo var sitt af hverju athugavert við upptalninguna á  atburðum, sem  áttu að hafa gerst þennan  dag á árum eða öldum áður. Þarna þarf aukna vandvirkni, eins og áður hefur verið bent á. Það voru alltof margar  ambögur  í máli umsjónarmanns (GG). Ríkisútvarpið  hefur lögbundnar skyldur  við tunguna. Það á ekki gera minni  kröfur til málfars á  Rás tvö en gert er á  Rás  eitt.

Fyrir nokkrum  dögum lá  leið  Molahöfundar um  fréttastofu RÚV. Þar voru þá  starfsmenn þýskrar  sjónvarpsstöðvar  að   taka  viðtal  við  Ingóllf Bjarna Sigfússon  um landsmálin, á þýsku. Samtímis voru starfsmenn ítalskrar sjónvarpsstöðvar að  ræða, á ítölsku, við Þóru Arnórsdóttur. Nöfnu hennar Tómasdóttur hef ég heyrt  tala  gullfallega norsku. Gott er að  RÚV skuli hafa á að skipa svo vel menntuðu og  reyndu  starfsfólki. Þetta fannst mér flott.

 


Molar um málfar LIX

 Sífellt er verið að  rugla  orðatiltækjum  saman eða  fara rangt  með orðasambönd,  sem  eru  föst í málinu. Hér  eru  tvö  dæmi (21.04.) af  bloggsíðum  afkastabloggara á Moggabloggi. „ Í þetta sinn spyrni ég ákveðnum framboðum saman ." Það er  endaleysa  að tala um að  spyrna  einhverju saman.    Sé þetta  innsláttarvilla  og  skrifari hafi ætlað að  skrifa spyrða saman , þá  er þetta  líka rangt því talað er um að  spyrða eitthvað  saman,  (upphaflega  að  binda  fiska  saman  á sporðunum með  spyrðubandi),  ekki  spyrða einhverju saman. Að þessu hefur  verið  vikið áður í Molum.

  Hitt dæmið  er  af bloggsíðu þar sem  talað er um að  „sendiherra  ESB  sé að ganga hagsmuna Brusselvaldsins alræmda."  Bloggarinn eignar þessi orð reyndar  Birni Bjarnasyni alþingismanni ( fram á laugardag) og  fyrrverandi  ráðherra.  Það er  rangt.  Björn Bjarnason  skrifar vandað mál og léti  svona ambögu aldrei  frá sér fara. Það er  ekki talað um að ganga hagsmuna  einhvers. Það er  talað um að reka  erindi einhvers, að  vinna  fyrir  einhvern   eða  gæta hagsmuna  einhvers,  vernda  málstað hans  eða  gæta þess að  ekki sé  gengið á  hlut hans. Einnnig má  tala um að  ganga  erindi fyrir einhvern. Að  ganga  erinda sinna er hinsvegar svolítið annað. Það á að gera  sömu  kröfur um vandað málfar á  bloggi og í blaðagreinum.

Svo  vil ég undir lokin taka undir  hvert orð  sem  Atli Rúnar Halldórsson  skrifaði í bloggi  sínu (19.04.) um Framsóknarbullið um „leiðréttingu" lána  og  fáránlega  málnotkun  Sjálfstæðisflokksins  sem  bauð  fólki í „ bröns". Síðasttalda orðið er  enskusletta. Á ensku er talað um „brunch" (breakfast/lunch).  Gott væri ef einhver  fyndi nothæft orð á íslensku  um  máltíð sem er  bæði   morgunverður og  hádegisverður. Dagverður ? Dögurður ? Máltíð af þessu  tagi er oft á  sunnudögum. Sunnudagssnarl ? Væri ég ekki sá  tölvuglópur sem  ég er  mundi ég  búa  til krækju  hér á þessa  færslu Atla Rúnars.  Kosningabarátta leysir  stjórnmálaflokka  og  stjórnmálamenn  ekki undan þeirri skyldu að tala  mannamál.

 Gleðilegt sumar !

Molar um málfar LVIII

 Enn halda menn áfram að  „sigra keppni" í íþróttafréttum  fjölmiðla. Þannig var til orða tekið í Rúv  sjónvarpi (19.04.)  að „Everton  hefði sigrað  vítaspyrnukeppni". Knattspyrnulið  sigrar í  vítaspyrnukeppni  eða  vinnur keppnina. Þannig heyrði ég þetta, allavega. Ekki  vil  ég þó með öllu útiloka að mér hafi misheyrst. Sá sem  þetta  las  er nefnilega ekki  einn af bögubósunum.

 Í íþróttafréttum Stöðvar tvö (19.04.)  var sagt  að  tiltekið  íþróttalið hefði verið „í miklum vandræðum sóknarlega".  Sá sem  fréttina  skrifaði átti  við að sókn liðsins  hefði gengið illa. Þetta er auðvitað  ótækt  orðalag.

Stundum má gera langa sögu stutta:  Í  Vefmogga stendur (20.04.):„Íslenskir námsmenn í Horsens í Danmörku eru æfir yfir því að þeim hafi verið vísað frá þegar þeir hugðust taka þátt í þingkosningunum og greiða utankjörfundaratkvæði hjá ræðismanninum í bænum í dag ". Þarna  hefði mátt segja:  Íslenskir námsmenn í Horsens í Danmörku eru  æfir vegna þess að þeir gátu ekki kosið hjá  ræðismanninum í bænum í dag.

Hér  hefur áður verið   vikið að meðlimum, áhafnarmeðlimum og  aðilum. Meðlimir  voru á  ferðinni   Vefvísi, saman ber  eftirfarandi: „Meðlimir Björgunarfélags Hornafjarðar eru nú á leið á Öræfajökul ".  Þarna  hefði   til dæmis mátt nota orðið  liðsmenn, - ef  sagt  hefði verið  félagar úr  Björgunarfélagi, hefði mátt tala  um nástöðu. Vefvísir  hafði eftir  hæstaréttarlögmanni og þingmanni  (18.04.) að  það  væri „virðingavert" að  bankastjóri  skyldi hafa  beðist  afsökunar. Þarna vantaði   einn bókstaf - r - Þarna  átti  auðvitað að  standa virðingarvert.

„Gengi bréfa Marel Food  Systems falla í byrjun  dags", segir  Vefvísir í  fyrirsögn  (20.04.). Gengi er  eintöluorð og þarna ætti því að standa:  Gengi  bréfa Marel Food  Systems  fellur... eða:  Gengi bréfa Marel Food  Systems féll í byrjun  dags.


Steypustöð Sjálfstæðisflokksins

 Íslenskt  slanguryrði yfir  algert rugl er steypa. Þegar  sagt er  að eitthvað  sé  alger steypa þá er  það sem  sé  tóm  vitleysa eða  tóm tjara svo notað  sé  annað orðatiltæki. Þegar leiðtogar Sjálfstæðisflokksins tala  um að  ESB  sé  að   blanda sér í kosningabaráttuna á Íslandi og   sendiherra  ESB á Íslandi með  búsetu í Noregi sýni Íslendingum  dólgslega  framkomu þá  er rétt að  athuga hvað sá  ágæti  sendiherra  gerðist  sekur um.

  Afbrot hans var, að hann sagði, að  sú  tillaga  Sjálfstæðisflokksins,að  við fengjum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn til að  aðstoða okkur  við einhliða  upptöku  Evru  væri hrein  vitleysa, tóm  tjara  eða  alger  steypa  svo  notað sé  slangur. Í viðtölum  sagði hann um þessa  vitleysistillögu, að  hún væri  „sheer nonsense"  eða  „rent  nonsense" eins og mér  heyrðist hann  líka  segja.

  Er það  „dólgsleg framkoma" að benda  kurteislega  á  að  tillaga um tilteknar aðgerðir  ríkjabandalagsins sem hann er  fulltrúi  fyrir  sé óframkvæmanleg og  fjarri þeim raunveruleika  sem við öllum blasir.? Mér finnst það ekki. Með því að benda  á þessa staðreynd er hann einungis að sinna  eðlilegum  starfsskyldum. Sagt er að sannleikanum verði hver  sárreiðastur og  svo er líklega hér. En steypustöð flokksins   er nú á  fullu  í aðdraganda kosninganna og   þótt mikið sé framleitt af steypu er ég ekki viss um að  hún seljist mjög  vel.  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband