31.3.2015 | 08:15
Molar um málfar og miðla 1706
Úr ummælum á fésbók (28.03.2015): ,,Leiðréttist það hér með ef einhver hafi verið að spá í þessu. Aftur og aftur sér maður og heyrir að verið sé að spá í einhverju, spá í þessu. Molaskrifari hefur alltaf talað um og heyrt aðra tala um að spá í eitthvað, - velta einhverju fyrir sér. Og hér er önnur tilvitnun af Stundinni sama dag , ,, ......Þannig að við erum ekkert að spá í því, segir Teitur. Hvað segja Molalesendur um þetta?
Gamall skólabróðir og vinur S.O., sem þrátt fyrir búsetu í öðru landi fylgist vel með íslenskum miðlum, benti á þetta: ,,Sá þetta mismæli(?) í frétt á Vísi:
,,Okkur þykir þetta afskaplega leitt og hörmum að mæðgurnar hafi þurft að fara í fýluferð, segir í svari Auðkennis til Fréttablaðsins.
Hann spyr:
,,Hver skyldi skipuleggja slíkar ferðir? Er íslenzkur fararstjóri? Eiga menn að taka með sér nesti? Er um dagsferðir eða lengri ferðir að ræða? Þakka bréfið. Enginn vill fara fýluferð !
Í heldur vaxandi mæli hlustar Molaskrifari á þáttinn Í bítið á Bylgjunni í stað Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins. Þetta er þrátt fyrir dygga hlustun á morgunútvarp Ríkisútvarpsins í áratugi. Molaskrifari reynir þó að missa ekki af Málskoti á þriðjudögum og spjalli þeirra Boga og Óðins á fimmtudögum. Í síðasta spjalli nefndi Bogi John Bercow, forseta neðri deildar breska þingsins. Hann er aldeilis bráðskemmtilegur forseti og fundastjórn hans með miklum ágætum. Breski húmorinn á sínum stað. Ömurlegur auglýsingalestur vinnur gegn Bylgjunni. Nefnt áður. Bylgjumenn hljóta að heyra þetta. Er örugglega hægt að laga með réttri talþjálfun.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri vígði ekki vatnsrennibraut við Árbæjarlaug eins og sagt var í fréttum Stöðvar tvö fyrir helgina. Borgarstjórinn er ekki vígður maður og getur hvorki vígt eitt eða neitt. Hann fór hinsvegar fyrstu ferðina niður nýja vatnsrennibraut í sundlaugina í Árbænum. Það er annar handleggur. Svo var okkur sagt í fréttum Stöðvar tvö í gærkveldi (30.03.2015) að gámar hefðu verið vígðir við Landspítalann. Ekki var þess getið hver vígði. Svo er sagt að Torfi Erlendsson nábúi séra Hallgríms Péturssonar hafi sagt er Hallgrímur var vígður til prestsembættis við Hvalsneskirkju: ,, Allan andskotann vígja þeir. Er það orðtak síðan.
Þetta er sætur angan, sagði viðmælandi í fréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (28.03.2015). Angan er kvenkynsorð. Ilmur, sem hefur sömu merkingu, er karlkynsorð. Sæt angan. Sætur ilmur.
Yfirleitt er heldur lítið að græða á viðtölum í beinni útsendingu í kvöldfréttum Ríkissjónvarps. Bein útsending bætir ekki slakt viðtal. Molaskrifari var litlu nær eftir viðtal í beinni útsendingu við húsnæðisráðherra Framsóknarflokksins í gærkvöldi (30.03.2015). Ráðherra vék sér fimlega hjá því með orðaflaumi að svara hvað gera ætti til að greiða götu ungs fólks, sem er að kaupa íbúð í fyrsta skipti. Og komst upp með það. Fréttamaður byrjaði á því að spyrja tveggja spurninga í einu,sem er ekki góður siður.
Á tólfa tímaum í gærkveldi (30.03.2015)heyrði Molaskrifari á tal tveggja eða þriggja kvenna í endurteknum þætti í Útvarpi Sögu. Þar var sagt: ,,Hvað er annars að frétta úr Hveragerðarbæ? Ambagan Hveragerðarbæ, heyrðist tvisvar þá skömmu stund, sem Molaskrifari lagði við hlustir.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2015 | 09:09
Molar um málfar og miðla 1705
Úr frétt á mbl.is (27.03.2015), - haft eftir blaðafulltrúa Eimskipafélagsins: ,, Dýpkun Landeyjarhafnar er ekki á vegum Eimskipafélagsins og þar af leiðandi höfum við ekki lifandi upplýsingar um það hvenær höfnin verður dýpkuð, heldur er okkur tilkynnt um það .... Lifandi upplýsingar? Eru þá til dauðar upplýsingar? Hér er fréttin: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/27/frettin_var_uppspuni_fra_rotum/
Líklega átti blaðafulltrúinn við nýjustu upplýsingar , þegar hann talaði um lifandi upplýsingar.
Molaskrifari heldur sig við sama heygarðshornið. Honum finnst það ósvinna að íþróttadeild Ríkissjónvarpsins skuli troða hálftíma innihaldslausu fótboltafjasi inn í miðja dagskrá á laugardagskvöldi (28.03.2015). Er þetta gert með vitund og vilja útvarpsstjóra? Er meðvitað verið að hrekja þá áhorfendur, sem ekki lifa fyrir fótbolta, yfir til Stöðvar tvö eða til erlendra stöðva? Hversvegna er ekki hin sérstaka íþróttarás Ríkissjónvarpsins notuð? Til hvers er hún? Úrslit leiksins voru kunn. Þetta raus bætti engu við. Óskiljanlegt.
Guðmundur benti á þessa frétt á fréttavef Ríkisútvarpsins (27.03.2015). Molaskrifari þakkar áendinguna. http://ruv.is/frett/sagdur-hafa-reynt-ad-brjotast-inn-med-exi
Í fréttinni segir:,, Þýska dagblaðið Bild heldur því fram í dag að flugstjóri þýsku flugvélarinnar sem fórst í Ölpunum á miðvikudag hafi reynt að brjótast inn í flugstjórnarklefann með öx að vopni. Þetta hefur ekki fengist staðfest af opinberum aðilum.
Talsmaður Germanwings sagði í samtali við AFP fréttastofuna að öx væri meðal öryggisbúnaðar um borð í flugvélinni. Í umfjöllun Bild er vísað til heimildarmanna með aðgang að upplýsingum um málið. Ótrúlegt en satt. Er fólk ekki látið ganga undir próf í íslensku áður en fréttastofan ræður það til starfa? Hér er eitthvað að , - gæðaeftirlitið víðsfjarri. Engin verkstjórn. Enginn les yfir áður en villurnar eru birtar.
Svei mér þá, ef þjóðin var ekki minnt á það í næstum hverjum einasta fréttatíma Ríkisútvarpsins í tvo eða þrjá daga fyrir helgina, að nú ætluðu Íslendingar að fara að spila fótbolta austur í Kasakstan. Og hvað voru margir menn sendir úr Efstaleitinu á staðinn? Voru einhver vandkvæði á að lýsa leiknum héðan , - nú á tímum tækninnar? Það er ekki spurt um kostnað, þegar íþróttir eiga í hlut í Efstaleiti.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2015 | 09:03
Molar um málfar og miðla 1704
Ekki er Molaskrifari sáttur við orðalagið, að eitthvað komi í kjölfarið á einhverju. Of oft heyrist í fréttum, að til dæmis yfirlýsing hafi verið birt í kjölfarið á frétt í dagblaði. Molaskrifari hefði sagt: Yfirlýsingin var birt í kjölfar fréttar í dagblaði. Eitthvað kemur í kjölfar einhvers. Hvað segja lesendur?
Ómar benti á þessa frétt á mbl.is (25.03.2015): http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/03/25/clarkson_yrdi_gullkyr_itv/
Hann segir: ,,Fyrirsögnin er hressandi. Molaskrifari tekur undir. Það má nú segja!
Í dagskrárkynningu í Ríkissjónvarpi (25.03.2015 og raunar oftar) er talað um tveggja þátta röð. Geta tveir verið röð? Ekki í huga Molaskrifara. Tala hefði átt um tvo þætti um tiltekið efni. Þriggja þátta röð gæti staðist.
Á miðvikudagskvöld (25.03. 2015) talaði fréttaþulur í Ríkissjónvarpi um fjárdrátt, það væri að - að draga að sér fé. Molaskrifara var kennt að fjárdráttur væri þegar einhver tæki fjármuni, oftast frá fyrirtæki eða sjóði ófrjálsri hendi með leynd, þá drægi sá sér fé, - ekki drægi að sér fé. En það orðalag heyrist æ oftar og er ekki nýtt af nálinni.
Skyldi fésbókin vera undanþegin íslenskum lögum um bann við áfengisauglýsingum? Þar eru áfengisauglýsingar næstum daglegt brauð. Heyrir þetta ekki undir neinn?
Þegar miklir atburðir gerast úti í heimi, er ómetanlegt fyrir fréttafíkna, gamla fréttamenn að hafa aðgang að erlendu fréttastöðvunum í Sjónvarpi Símans, BBC World, Aljazeera, CNN, CNBC og Sky, svo nokkrar séu nefndar. Sjónvarpsstöðvarnar okkar sinna erlendum fréttum í mjög takmörkuðum mæli, - þótt Bogi Ágústsson geri sitt besta!
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (25.03.2015) var í fréttum af veðri talað um að él yrði á .... Veðurstofan var ekki að spá einu éli, - verið var að spá éljum, éljagangi.
Fréttamat er umdeilanlegt eins og yfirleitt allt mat. Molaskrifara fannst það skrítið fréttamat í fjögur fréttum Ríkisútvarpsins á miðvikudag (25.03.2015) þegar sagt var frá því stuttum fréttatíma, að einhver leikmaður á Englandi hefði verið dæmdur í þriggja leikja bann. En Ríkisútvarpið leggur sig í framkróka með að gera þeim hæfis, sem þyrstir í fótboltafréttir. Enginn hópur fær eins góða þjónustu hjá stofnuninni.
Iðnnám er in(n), auglýsir Tækniskólinn í útvarpi (25.04.2015). Skyldi ekki vera kennd íslenska í Tækniskólanum? Þetta var auðvitað enskuskotin auglýsing. Átt var við að iðnnám væri í tísku, eða vinsælt um þessar mundir.
Ævinlega er gaman að hlusta og horfa þegar Egill Helgason í Kiljunni fjallar um bækur og staði. Bessastaði í vikunni. Hávær píanóleikur, ágætur, reyndar , yfirgnæfði algjörlega flutning á ljóði Þórarins Eldjárns. Gott viðtal á réttum tíma - við Mörð Árnason um nýja útgáfu Passíusálma. Ástæða til að fagna þeirri útgáfu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2015 | 07:33
Molar um málfar og miðla 1703
Fréttaglöggur vinur Molanna benti skrifara á, að fréttin um flugslysið í Frakklandi þar sem 150 manns fórust, hefði verið frétt númer tvö í kvöldfréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (24.03.2015). Molaskrifara er jafn hissa og þessi vinur Molanna. Furðulegt fréttamat. Ríkissjónvarpið var með þetta á hreinu og gerði fréttinni fagmannleg skil.
Fyrsta frétt á Stöð tvö þetta kvöld var gömul frétt um unga konu, sem bjargað var giftusamlega undan bíl , en hún hafði misst stjórn á bílnum og hann oltið. Sagt var í fréttinni, að unga konan hefði verið að tala í síma. Það var svo dregið til baka (enda er slíkt lögbrot) og sagt að hún hefði verið að tala við börn sín í aftursætinu. Áður hafði komið fram í fréttum að unga konan hefði ekki verið í bílbelti, enda kastaðist hún út úr bílnum. Hún var heppin að sleppa lifandi.
Molaskrifari ætlar ekki að hafa um það mörg orð hvað hann hugsar, þegar hann bíður við umferðarljós á fjölförnum og hættulegum gatnamótum (til dæmis Miklubraut/Kringlumýrarbraut, Kringlumýrarbraut/Suðurlandsbraut) og sér hvern ökumanninn af öðrum bruna hjá blaðrandi í síma, stundum á 2-3 tonna jeppum, eða þaðan af stærri farartækjum, með hugann við allt annað en aksturinn. (Dýrleiki bílanna veitir ekki undanþágu frá lögum og reglum). Eða fólkið sem ekur í miðreininni á Hafnarfjarðarveginum á 40-50 km hraða niðursokkið í símtal eða sendingu smáskilaboða (já!) og veit ekkert af veröldinni í kring um sig.
Fælingarmáttur löggæslu og sekta vegna símnotkunar í akstri er greinilega enginn nákvæmlega það sama gildir um að nota ekki stefnuljós.
Hér þarf hugarfarsbreytingu til að auka öryggi í umferðinni og fækka slysum.
Nú er búið að gefa málfarspistlum Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins nafn. Málskot skulu þeirra heita. Ágætt nafn. Molaskrifari hvetur fjölmiðlafólk og raunar alla til að hlusta á þessa pistla á þriðjudagsmorgnum. Gott og þarft efni. Mætti þess vegna vera tvisvar í viku.
Þegar fulltrúi WOW flugfélagsins segir okkur í fréttum (25.03.2015) að flugfloti flugfélagsins sé sá yngsti á Íslandi, er hann þá ekki að segja okkur að félagið noti nýrri þotur en Icelandair? 6300 þotur af gerðinni Airbus A320 eins og WOW notar ( og eins og sú sem fórst í frönsku Ölpunum) eru í notkun hjá meira en 300 flugfélögum. Þær hefja sig til flugs eða lenda með nokkurra sekúndna millibili víðsvegar í veröldinni. Eru í miklum metum sem traustir farkostir. Það eru Boeing þotur Icelandair ekki síður. Í flugheiminum veit Molaskrifari að Icelandair nýtur trausts og virðingar fyrir viðhald- og eftirlitskerfi með flugflota sínum, sem er talið með því besta sem þekkist. Vísbendingar eru nú komnar fram, að það hafi ekki verið bilun í tækjabúnaði, sem olli flugslysinu hörmulega í Ölpunum.
Prýðileg heimildamynd um þann grimma sjúkdóm Alzheimer var sýnd í Ríkissjónvarpinu á þriðjudagskvöld (24.03.2015). Að öðrum ólöstuðum voru viðtölin við Jón Snædal lækni og Sigtrygg Bragason eftirminnilegust. Þættir á borð við þennan eru ekki mjög dýrir í framleiðslu,- aðeins brot af kostnaði við einn svokallaðan Hraðfréttatíma. Ríkissjónvarpið mætti sýna meira af svona efni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.3.2015 | 07:28
Molar um málfar og miðla 1702
Af dv.is (21.03.2015): ,, ...en hún hefur verið ákærð fyrir morð fyrir að hafa ekki stigið inn í til að vernda dóttur sína. Hér er engu líkara en sá sem þýddi fréttina hafi leitað á náðir þýðingarvélar Google. Þetta er ekki boðlegur texti. Hér hefði til dæmis verið hægt að segja, - gripið í taumana - í stað ambögunnar stigið inn í. Vankunnátta og skortur á verkstjórn, - enginn yfirlestur.
Áskell skrifaði (21.03.2015): ,,Orkuveitan ætti að fá einhvern til að lesa yfir auglýsingar. Í Fréttablaðinu er auglýsing frá OR þar sem fyrirtækið auglýsir eftir "þjónustulunduðum og samskiptafærum rafvirkja". "Viðkomandi mun verða staðsettur í starfsstöð ... á Akranesi." Þegar beðið er um samskiptafæran rafvirkja sem verður staðsettur í starfsstöð fær maður nettan hroll.
Molaskrifari þakkar Áskeli ábendinguna. Þessi auglýsing er óttaleg hörmung. Ekki fyrirtækinu til framdráttar.
Í hádegisíþróttafréttum Ríkisútvarps á sunnudag (22.03.2015) var talað um að sigra göngu. Ekkert betra en að sigra keppni. Sem enn heyrist alltaf öðru hverju.
Ekki heyrði Molaskrifari betur en í fréttum Ríkisútvarps klukkan 16 00 á mánudag (23.03.2015), að sagt væri að fjölmiðlar í Ísrael gerðu að því skóna, gæfu í skyn, teldu. Molaskrifari er vanur því að sagt sé að gera einhverju skóna , ekki gera að því skóna. Sjá einnig þá ágætu bók Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson, bls. 767. Nokkuð algengt að heyra misfarið með þetta ágæta orðtak.
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (23.03.2015) af kosningum í Frakklandi var talað um stjórnmálaflokk, sem þætti sigursæll í seinni umferð. Hafi þetta verið rétt heyrt þá var þarna ekki notað rétt orð. Nota hefði átt orðið sigurstranglegur, líklegur til að sigra eða farnast vel.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (24.03.2015) var talað um stormana og fjargviðrin ! Það að fjargviðrast hefur ekkert með veðurfar að gera. Fjargviðri er ekki vont veður. Orðabókin segir okkur að sögnin að fjargviðrast, þýði að fjasa, fjölyrða , fjargviðrast yfir einhverju. Það er talsvert um það að fjargviðrast sé í þessum þætti, - þar er of mikið af fjasi, þótt áhugavert efni slæðist þar oft með.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2015 | 08:05
Molar um málfar og miðla 1701
,,Sportaðu nýju lúkki, sagði í heilsíðuauglýsingu frá Útilífi í Fréttablaðinu sl. föstudag (20.03. 2015). Sumar auglýsingastofur , - og fyrirtæki sýna móðurmálinu oft ótrúlega lítilsvirðingu í auglýsingum.
,, Naglinn Vigdís myndi segja: að vera oddviti fyrir Framsóknarflokkinn í tveimur síðustu alþingiskosningum. Haft eftir Vigdísi Hauksdóttur alþingismanni á svokölluðu Smartlandi mbl.is (20.03.2015). Ætti að vera í tvennum síðustu alþingiskosningum. Kosningar er fleirtöluorð. Tvennar kosningar, þrennar kosningar. Hvorki þingmaðurinn, né Smartland, sem svo er kallað, eru kunn fyrir vandað málfar.
Molaskrifari hefur stundum velt því fyrir sér hvort þeir sem ráða ríkjum á Bylgjunni heyri ekki hve auglýsingar eru þar oft hörmulega illa lesnar. Hrynjandin er óeðlileg og lesturinn hvetur síður en svo til hlustunar hvað þá að hann hvetji til viðskipta! Þetta er reyndar ekki nýtt fyrirbæri á Bylgjunni. Hefur viðgengist ótrúlega lengi. Kannski eru menn bara hættir að heyra.
Af mbl.is (20.03.2015): Ný og glæsileg slökkvistöð í Mosfellsbæ var formlega vígð í dag. Stöðin var opnuð, tekin í notkun. Hún var ekki vígð. Til þess að vígja þarf einhvern sem er vígður, hefur tekið vígslu. Enginn slíkur er sjáanlegur á myndinni,sem birt er með þessari frétt á mbl.is. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/20/nyja_slokkvistodin_vigd/
Þetta var eitt af því fyrsta manni var innrætt við fréttaskrif hér á árum áður. En þykir kannski ekki lengur góð latína, eins og þar stendur. Þetta sama orðalag var einnig notað í fréttum Ríkisútvarps. Að slökkvistöðin hafi verið vígð. Ekki var sagt hver vígði.
Hvaða tilgangi þjónaði koníaksdrykkja og subbulegt bjórþamb í Hraðfréttum Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (20.03.22015.)?
Fulltrúi Framsóknarflokks virtist taka þátt í þessu með mikilli ánægju og utanríkisráðherra Framsóknarflokksins lét endurtekið kjánast með sig í þættinum. Enn er spurt gera stjórnmálamenn hvað sem er til að komast á skjáinn í nokkrar sekúndur?
Hér hefur áður verið spurt hvað þessi þáttagerð kosti? Því fæst ekki svarað, en fróðlegt væri að fá svör við því.
Í þessum sama þætti talaði hraðfréttamaðurinn um seint Patrikks daginn, - sem haldinn væri hátíðlegur til að minnast einum af verndardýrlingum ... Ríkissjónvarpinu tekst ekki alltaf að velja fólk til þáttastjórnunar, sem er bærilega vel talandi. - Til að minnast eins af verndardýrlingum .... Hefði hraðfréttastjórinn betur sagt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2015 | 06:52
Molar um málfar og miðla 1700
Tilvitnun í athugasemd á fésbók (19.03.2015): ,,Það er kannski lýsandi fyrir þessa umræðu hér að hún er framkvæmd af gömlum köllum, ...
Umræðan er framkvæmd! Ja, hérna. Og það meira að segja af gömlum köllum! Þeim er líklega bannað að ræða mál og hafa skoðanir. Eða hvað? Það er stundum gaman að lesa snilldina, sem birtist í athugasemdum við færslur á fésbók.
Á föstudagsmorgni (20.03.2015) var okkur sagt í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins, að fólk væri að ærast ( af spenningi ) vegna sólmyrkvans,sem þá var skammt undan. Seint verður sagt að hógværð í orðavali einkenni þennan útvarpsþátt.
Meira um sólmyrkvann. Fram kom í fjölmiðlum að ferðaþjónustufólk hefði gagnrýnt og verið með ónot út í Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness vegna þess að félagið hefði ekki átt nægar birgðir af myrkvagleraugum! Þetta var fáránlegt. Stjörnuskoðunarfélagið hefur engar skyldur gagnvart ferðaþjónustufyrirtækjum, sem sjálf eiga auðvitað að sjá um sína viðskiptavini. Það er ekki annarra verk. Það má næstum kalla þetta ótrúlega óskammfeilni. Forystumenn Stjörnuskoðunarfélagsins unnu afrek með því að gefa öllum grunnskólabörnum landsins, milli fimmtíu og sextíu þúsund börnum sólmyrkvagleraugu. Snjöll hugmynd. Þeir eiga líka mikið hrós skilið fyrir almenna fræðslu um myrkvann og gott framtak.
Þegar Molaskrifari fór í hinn ágæta Sarp Ríkisútvarpsins til að hlusta á þá Kristin Hallsson og Jón Helgason prófessor flytja 39. Passíusálm, - þá stóð á skjánum: 39 þáttur af 50. Þarna hefði auðvitað átt að standa Passíusálmar, 39. sálmur. Sálmarnir eru 50.
Í Bylgjufréttum á hádegi á laugardag (21.03.2015) sagði fréttaþulur ,, ... til vitundar á heilkenninu .. . Fréttmaður sagði réttilega skömmu síðar: ,, ... til vitundar um heilkennið ...
Molaskrifara finnst það merkileg frétt, að Útvarp Saga skuli hafa orðið gjaldþrota. Það þarf ekki mikla hlustun ( löng hlustun er skrifara reyndar ekki mjög bærileg, þótt honum sé sagt að oft sé þar bitastætt efni síðdegis) til að komast að raun um að launakostnaður er að líkindum frekar lítill, mikið er um endurflutt efni og auglýsingar eru fyrirferðarmiklar og varla ókeypis. Sjá: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/03/18/42_milljona_gjaldthrot_utvarps_sogu_3/
Nýtt fyrirtæki virðist samstundis hafa tekið við rekstrinum af fyrirtækinu, sem lýst var gjaldþrota.
Í fréttinni kemur fram, að ekkert hafi fengist greitt upp í 42,5 milljón króna kröfur í þrotabúið. Molaskrifari var sannfærður um að útvarpsstöðin væri epli berandi fyrirtæki, en svona er það nú stundum.
Es. Á fimmtudagsmorgni (19.03.2015) kveikti Molaskrifari augnablik á Útvarpi Sögu á ferð í bílnum. Heyrði útvarpsstjórann segja eitthvað á þá leið að pabbi og mamma væru svo upptekin af karríer úti í bæ ( að lítill tími gæfist til að sinna börnum). Fór þá aftur að hlusta á Rondó, Ríkisútvarpsins, (FM 87,7) sem er gulls ígildi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2015 | 07:32
Molar um málfar og miðla 1699
Gaman var að heyra Emil Björnsson, þá fréttamann á fréttastofu útvarpsins, lýsa sólmyrkvanum 1954 austan úr Landeyjum, en það mátti heyra í Spegli Ríkisútvarpsins í gærkvöldi(19.03.2015). Maður hreifst með. Vakti gamlar minningar um yfirmann á fréttastofu Sjónvarpsins og traustan vin. Séra Emil var kröfuharður um málfar, smekkmaður, málvís, einstaklega vel máli farinn. Ræðumaður góður, prestur Óháða safnaðarins um árabil. Flutti jafnan prédikanir blaðalaust. Vinnuþjarkur. Um tíma var hann blaðamaður á Vísi fyrir hádegi. Á fréttastofu útvarpsins frá hádegi og fram að kvöldmat, og prestur um helgar!
Hann gerði miklar kröfur til okkar fréttamanna. Búum held ég öll, sem enn erum á kreiki, að því enn. Það fór engin frétt óyfirlesin til áheyrenda. Hann nestaði okkur vel. Innrætti okkur að umgangast móðurmálið með virðingu. Gott hjá útvarpinu að rifja þetta upp.
Jón Gunnarsson segist ekki reka minni til þess, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarps á miðvikudag (18.03.2014). Þetta orðalag heyrist nokkuð oft. Molaskrifari telur að betra hefði verið að orða þetta á annan veg. Kann að vera sérviska, - eins og svo margt fleira hjá skrifara. Til dæmis: Jón Gunnarsson segir sig ekki reka minni til þess ..., eða, - Jón Gunnarsson segist ekki minnast þess ....
Skúli Gunnar Vigfússon sendi Molum ábendingu (19.03.2015) undir fyrirsögninni: Fréttabörn mbl.is . Í þessu tilviki er það sögnin að valda ,sem enn einu sinni veldur óvönum fréttaskrifara vandræðum. Í fréttinni á mbl.is stendur: ,,Þú veist ekki hvaða skaða þú hefur ollið því skaðinn gæti komið í ljós fyrst eftir mörg ár. Þakka Skúla ábendinguna. það er engin sögn til, sem heitir að olla. Hér er frétt mbl.is http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/03/18/stundadi_kynlif_med_nemanda/
Skyldi það hafa verið að beiðni Ríkissjónvarpsins, að Færeyingar töluðu við okkur ensku í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (19.01.2015)? Trúi því ekki. Í Morgunútgáfunni í morgun var rætt við Elís Poulsen í Sandey í Færeyjum. Hann talar íslensku,- lærði hana m.a. hjá Halldóri Blöndal, seinna ráðherra, - gekk þá í Lindargötuskólann. Gagnfræðaskólann við Lindargötu í Reykjavík.
Meira af mbl.is (18.03.2015): ,,Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að þeir sem leggja á hjólastígum, eins og sést á meðfylgjandi ljósmynd sem barst lögreglunni, séu að sýna samborgurum sínum ótillitssemi, óhagræði og séu í raun að reka hjólaumferð aftur út á gangstéttir og götur.Hér er talað um að sýna ótillitssemi, - betra væri að tala um tillitsleysi, og svo sýnum við ekki öðrum óhagræði, þegar við sýnum tillitsleysi , getum við valdið öðrum óhagræði. Þegar betur er að gáð, kemur í ljós að þetta er afritað, eða klippt og límt, eins og stundum er sagt beint af vef lögreglunnar. Ekki nægilega vönduð vinnubrögð hjá blaðamanni mbl.is. https://www.facebook.com/logreglan?fref=nf
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.3.2015 | 08:18
Molar um málfar og miðla 1698
Gamall vinnufélagi benti á frétt á visir.is (18.03.2015), en þar segir: Líkúd bandalagið, flokkur Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra Ísraels, sigraði þingkosningarnar sem fram fóru þar í landi í gær. - Af visir.is nú í morgun. Segir þetta eitthvað um stöðu móðurmálskennslu í skólum landsins, eða faglegan metnað miðilsins ? Spyr sá sem ekki veit. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Það virðist erfitt að hafa þetta rétt.
Hér er fréttin: http://www.visir.is/netanjahu-for-med-sigur-af-holmi/article/2015150319005
Af mbl.is (17.03.2015) : ,,Tjón á mannvirkjum Landsnets urðu minni en útlit var fyrir í óveðrinu sem gekk yfir landið á laugardag þrátt fyrir umfangsmiklar truflanir og útleysingar í raforkukerfi fyrirtækisins. Hér hefði Molaskrifara þótt eðlilegara að segja að tjón hefði orðið minna, ekki að tjón hefðu orðið minni.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/17/tugir_staurastaedna_brotnudu/
Massaði það í Boston, sagði í fyrirsögn á mbl.is (17.03.2015).
Molaskrifari játar, að hann skilur þetta ekki. Telst þetta vandað mál? Hvað í veröldinni er að massa eitthvað?
http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/03/17/massadi_thad_i_boston/
Jóhannes skrifaði (16.03.2015): ,,Sæll Eiður. Finnst að fréttamenn RUV mættu vanda sig betur í fyrirsögnum sínum.
https://plus.google.com/share?url=http%3A//www.ruv.is/node/876003Hvernig er hægt að stökkva úr fallhlíf? Þakka Jóhannesi rétta ábendingu. Menn eru í fallhlíf, eða með áspennta fallhlíf, þegar þeir stunda fallhlífarstökk. Þeir stökkva hins vegar úr flugvél, eða fram af hárri bjargbrún.
Molalesandi skrifaði sama dag: ,,Ég heyrði auglýsingu á Rás 2 nýverið sem hljómaði eitthvað á þessa leið: Við gerðum Sjónvarp Símans fyrir þig.....
Og þá spyr ég: Hvað þýðir að gera sjónvarp? Ætli það þýði ekki að setja á laggirnar, stofna eða starfrækja? En heldur er þetta klaufalega orðað. Molaskrifari notar Sjónvarp Símans mikið þar bjóðast góðir kostir, - norrænu stöðvarnar , margar evrópskar stöðvar, fjölmargar fréttarásir þeirra á meðal BBC og CNBC, kínverska CCTV stöðin að ógleymdum frönsku Mezzórásunum, þar sem í boði er sígild tónlist. Mikið um úrvalsefni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2015 | 08:50
Molar um málfar og miðla 1697
,,Amma, sem átti að halda á dóttursyni sínum undir skírn í London í dag ,var ekki hleypt um borð í flugvél Icelandair fyrir handvömm. Hún lenti á biðlista og missti af skírninni. Þetta var sagt í fréttaágripinu á undan fréttum í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld (15.03.2015) Setningin hefði auðvitað átt að byrja svona: Ömmu, sem átti að ... var ekki hleypt um borð. Henni var ekki hleypt um borð. Þágufall. Þorði sá sem skrifaði ekki að byrja setninguna á þágufallinu Ömmu ... eða vissi hann ekki betur? Svo er Molaskrifari vanur því að talað sé um að halda barni undir skírn, en ekki að halda á barni undir skírn. Þetta var endurtekið óbreytt í samantektinni í lok fréttanna.
Þetta leiðindaatvik var ótrúlegur klaufaskapur og viðbrögð Icelandair í Keflavík fyrir neðan allar hellur. En það var dæmi um gengisfellingu orðanna, þegar umsjónarmaður í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins á mánudagsmorgni (16.03.2015) kallaði atvikið harmleik. Þetta var afar slæmt, en varla harmleikur eins og við flest skiljum það orð.
Enn og aftur var okkur sagt á Stöð tvö á sunnudagskvöld (15.03.2015) að fólk ætlaði að stíga stokk, þegar fólk ætlaði að syngja eða dansa fyrir framan myndavélarnar. Talað er að stíga á stokk og strengja heit, lofa einhverju hátíðlega.. Ekki stíga á stokk og syngja lag. það er út í hött. Viðmælandi fréttamanns, sagðist búast við rosa sjói! Verið var að kynna þáttinn með ljóta nafninu Ísland Got Talent. - Svo var að sjálfsögðu talað um troðfullan íþróttapakka, þegar sennilega var átt við fjölbreyttar íþróttafréttir. Það er víst ekki lengur hægt að tala um íþróttafréttir nema þær séu kallaðar pakki!
Umsóknir jukust, sagði fréttamaður í hádegisfréttum Ríkisútvarps
(16.03.2015) Umsóknum fjölgaði, hefði verið eðlilegra orðalag.
Beyging orðsins birgir, vefst stundum fyrir fréttamönnum. Á vef Árnastofnunar segir: ,,Orðið birgir er haft um þann sem sér einhverjum, t.d. smásöluverslun, fyrir aðföngum.
Athugið að rétt nefnifallsmynd af orðinu er birgir (þf. birgi) en ekki birgi (þf. birgja):
Birgirinn gefur upplýsingar um vörurnar.
verð á vörum frá birgi
reikningurinn var sendur frá birginum.
Í fréttum hádegisútvarps (16.03.2015) var talað um innflutt hrefnukjöt frá sama birgja. Hefði átt að vera frá sama birgi. Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=birgir
Ræður hending því í veðurfréttum Ríkissjónvarps hvort okkur er sýnt veðrið í vesturheimi? Það virðist vera dálítið svona hipsum-haps.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)