Molar um málfar og miðla 1686

 

Gamall starfsfélagi skrifaði (01.03.2015): ,, Ætlast fréttastofa Ríkisútvarpsins til þess að fólk taki mark á þessum börnum, sem látin eru lesa innslög í fréttatímum? Þau lesa nákvæmlega eins og grunnskólabörn. Það eru takmörk fyrir öllu, ég segi ekki meir.”

Molaskrifari  tekur undir að stundum er lestri nýliða í fréttatímum ábótavant, að ekki sé  sterkar að orði kveðið. Það var til dæmis  talsverður viðvaningsbragur á  fréttunum klukkan 16 00 á sunnudag. Í þeim fréttatíma var sagt:,, ...birtir myndir, sem sagt er lýsa aðdraganda morðsins”. Í sama fréttatíma var talað um Barnastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNICEF.  Þessi stofnun hefur  ævinlega verið kölluð Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Í hádegisfréttum á sunnudag var sagt: Allt bendir til að eldgosið í  Holuhrauni hafi  lokið á föstudaginn. Eldgosinu lauk. Eldgosið lauk ekki. – Gæðaeftirlit. Verkstjórn.

 

Mjög góð umfjöllun í Kastljósi gærkvöldsins (02.03.2015)  um aðstæður þeirra sem  hafa fengið  sjúkdóminn MND, ólæknandi sjúkdóm, sem nefndur er hreyfitaugahrörnun. Við stöndum okkur illa gagnvart þessu fólki og aðstandendum þess. Það kom skýrt fram. Langt að baki grönnum okkar. Í fréttum Stöðvar tvö var einnig prýðileg umfjöllun um stöðu barna með  langvinna sjúkdóma, barna sem þurfa mikla umönnun, - oft allan sólarhringinn. Þar stöndum við okkur líka verr en grannar okkar. Eiginlega eigum við að skammast okkar. Faðir langveikrar telpu sagði í viðtalinu á Stöð tvö að Evrópusambandið sinnti þessum málum vel. Þarf utanaðkomandi aðila til að þvinga okkur til þess að gera betur? Það hvarflar að mér.

 

Tvö kvöld í röð (fimmtudags- og föstudagskvöld) í síðustu viku lagði Ríkissjónvarpið aðalútsendingarrás sína  undir  boltaleiki  frá  klukkan 20 00  til 22 00. Til hvers er margumtöluð íþróttarás?  Eru útvarpsstjóri og  dagskrárstjóri ráðþrota gegn yfirgangi íþróttadeildar?

 

Af mbl.is (01.03.2015): ,, ... var klukk­an far­in að ganga í tólf á miðnætti þegar Herjólf­ur lagðist að bryggju”.  Hér hefði að mati Molaskrifara verið eðlilegra að segja: Var klukkan farin að ganga tólf um kvöldið, þegar ...  ,  eða, - ... var klukkan farin að halla í tólf, þegar ...  

 

Hér hefur áður verið vikið að bókstafnum  -r- inni í miðjum orðum. Þar verður ýmsum hált á svellinu. Í auglýsingu á  blog.is (28.02.2015) er boðið upp á  ókeypis heyrnamælingu! Margar heyrnir?    Hér ætti að tala um ókeypis heyrnarmælingu. Heyrnin er mæld.

Í morgunfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (01.03.2015) var fjallað um erlend knattspyrnulið (aldrei þessu vant)  Þá var talað um Lundúnarliðin. Lundúnir, um Lundúnir, frá Lundúnum, til Lundúna.

Gamla íslenska heitið á London, Lundúnir,  er ekki til í eintölu.

 

,,...nálægt Kremlhúsinu” , sagði fréttamaður Stöðvar tvö (28.02.2015) um morðið á   andófsmanninum í Moskvu.  Enginn fullorðinn á vaktinni? – Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (01.03.2015)  sagði Vera Illugadóttir ágætlega: ,, .. við múra Kremlar”. Prýðilega máli farin, - svo sem hún á kyn til, leyfir Molaskrifari sér að segja.

 

 Í fréttum Stöðvar tvö (28.02.2015) var sagt að mikill hagnaður bankanna hafi verið undirorpinn gagnrýni. Nú má vel vera að þetta sé rétt, en Molaskrifari hefði sagt, að þessi mikli hagnaður bankanna hafi sætt gagnrýni eða verið gagnrýndur.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1685

 

Hér koma nokkrar línur frá gömlum vinnufélaga, sem stundum gaukar ágætum athugasemdum að Molaskrifara:

,,Fréttablaðið líti í eigin barm.

 Í dag (27.02.2014) er ágætur leiðari í Fréttablaðinu um heimskupör foreldra sem hætta lífi barna sinna með því að fá þau ekki bólusett við hættulegum barnasjúkdómum. Þar er líka vikið að stóriðnaði, sem óhefðbundnar lækningar eru orðnar og fer stöðugt vaxandi. Hann felst í því að fólki er talin trú um að alls kyns „töfraefni“ geti læknað hin margvíslegu mein, allt frá vindgangi til krabbameins. Það er hins vegar athyglisvert í þessu sambandi að Fréttablaðið sjálft byggir afkomu sína að talsverðu leyti á þessu trúboði sölumanna snákaolíu. Nær daglega eru margar blaðsíður lagðar undir þetta efni; auglýsingar um „allra meina bót“, sem settar eru fram sem raunveruleg blaðamennska”. Molaskrifari þakkar bréfið. Hverju orði sannara.

 

Molavin skrifaði (28.02.2015): ,,Í Netmogga (28.2.2015) segir m.a.: "verður Toyota Corolla-bif­reið dreg­in úr potti með nöfn­um áskrif­enda..." Myndlíkingar eru algengar í máli okkar en ekki eru allir alltaf kunnugir merkingu þeirra. Talað um að detta í lukkupottinn (vera heppinn, t.d. í happdrætti) - og nöfn hinna heppnu eru stundum dregin (úr hatti eða skál). En bifreiðar eru varla dregnar úr potti með auðveldum hætti. Og varla er gott að vera sá heppni, sem er dreginn út (af veitingastað), eins og færist í vöxt að segja þegar matstaðir auglýsa sig á fólksmiðlum. Ef til vill finnst einhverjum þessi aðfinnsla nöldur, en mér finnst betra að fólk, sem starfar við að tjá sig, hugsi það til enda, sem það skrifar.” - Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er ósköp hallærislegt orðalag, sem  vikið hefur verið að hér í Molum áður.

 

Þágufallssýkin, sem svo er nefnd er hvimleið , en virðist því miður heldur vera í sókn. Undir lok Morgunvaktar Ríkisútvarpsins á föstudag (27.02.2015) sagði einn umsjónarmanna: Oft langaði manni mest til að vera heima. Er þetta ekki umhugsunarefni fyrir málfarsráðunaut?

 

Ekki verður annað séð, frá sjónarhóli Molaskrifara, en vel hafi til tekist með úthlutum Blaðamannaverðlaunanna í ár, sem tilkynnt var á laugardag (28.02.2015). Allt hafi það verið verðskuldað. Til hamingju þið öll, sem þarna komið við sögu. http://www.ruv.is/frett/unnu-annad-arid-i-rod-verdlaunamyndirnar

 

Þegar Ríkissjónvarpið birtir okkur frétt og sagt er að fréttin og myndin séu frá í gær, en efnið er í raun hálfsmánaðar gamalt , þá er eitthvað að í verkstjórn og vinnulagi á þessari fjölmennustu fréttastofu landsins. Þetta gerðist fyrr í síðustu viku.

 

Góður Landi í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld (01.03.2015) og ómetanlegar myndir og ræður  frá Kvennafrídeginum 1975 í þættinum Öldin hennar sem kom í kjölfar Landans.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband