Molar um málfar og miðla 1907

Í NÓTT

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á laugardag (12.03.2016) var sagt , að aflýsa hefði þurft kosningafundi Donalds Trumps í Chicago í nótt.  Fundinn átti ekki að halda í nótt heldur í gærkvöldi. Þetta var rétt í yfirliti í lok frétta. Þar var sagt, að fundinn hefði átt að halda í gærkvöldi. Molavin vék að þessari tilhneigingu fjölmiðla að færa alla viðburði erlendis yfir á íslenskan tíma í bréfi til Molanna fyrir helgi (Molar 1906).  Hvernig væri að fréttastofan setti sér þá vinnureglu að nota staðartíma,  þegar greint frá atburðum erlendis? Það  er einföld regla. 

 

VERÐLAUNUM LANDAÐ
Í þessari frétt (10.03.2016) talar ferðamálaráðherra ráðherra um að verðlaunum hafi verið landað. Íslenskar kvikmyndir unnu til verðlauna. Sennilega er ráðherrann hér að apa eftir íþróttafréttamönnum, sem stundum tala um að landa sigri. Ekki er það til fyrirmyndar,

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/10/kvikmyndaendurgreidsla_haekkar_i_25_prosent/

 

ÚRSKURÐUR, EKKI DÓMUR

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (10.03.2016):,, Hæstiréttur dæmdi í dag að háskólastúdent, sem stakk félaga sinn með hnífi aðfarnótt sunnudags, skuli sæta gæsluvarðhaldi til 6. apríl og sneri þar með við úrskurði héraðsdóms í gær.”  Þetta var einnig sagt í fréttum útvarps  klukkan 17 00 og í fréttum Ríkissjónvarps klukkan 1900.

Hæstiréttur var ekki að dæma; ekki að kveða upp dóm. Hæstiréttur var að úrskurða. Staðfesta varðhaldsbeiðni lögreglunnar. Er þetta ekki almenn lögfræði 101? Þetta heyrist því miður aftur og aftur í fréttum Ríkisútvarps og fleiri fjölmiðla.

http://www.ruv.is/frett/aftur-urskurdadur-i-gaesluvardhald

 

SAKAÐI EKKI

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (10.03.2016) var sagt frá þremur ferðamönnum, sem villtust í vondu veðri á leið í sumarbústað í Miðfellslandi við Þingvallavatn.Svo var sagt: ,,Lögreglumenn komu þeim í réttan bústað án þess að þær sökuðu”. Hér hefði að mati Molaskrifara átt að segja í lok setningarinnar: ,, .... án þess að þær sakaði”.

 

MENNINGARFRAMLAG MBL.IS

Menningarframlag mbl.is í íslensku fjölmiðlaflórunni er svokallað Smartland Mörtu Mörtu Maríu.

http://www.mbl.is/smartland/samskipti/2016/03/10/homlulausir_slendingar_a_deit_sidum/

 

VONDUR GRAUTUR

Stundum hefur verið vikið að því hér í Molum hvernig til dæmis Stöð tvö hrærir saman íslensku og ensku í þáttaheitum, Ísland Got Talent er dæmi um slíkan hrærigraut. Jón Gnarr sjónvarpsstjóri kallar vikulegan þátt sinn á Stöð tvö Ísland Today. Ísland í dag er sennilega ekki nógu fínt. Þessu grautargerð er smitandi. Í sunnudagsmogga (13.03..2016) er sagt frá nýjum leikhópi. Og hvað skyldi hann heita? Improv Ísland! Dettur fólki ekkert betra í hug?

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1906

UM TÍMA OG FRAMBURÐ

Molavin skrifaði (09.03.2016): ,, Forkosningar fóru ekki fram í nokkrum ríkjum vestanhafs í NÓTT eins og sagt var í fréttaskýringu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag, miðvikudag 9. mars. Það var kosið í gær og kosningum lauk árla kvölds þótt komin væri nótt í Reykjavík, þegar úrslit lágu fyrir. Þegar sagðar eru erlendar fréttir er rétt að halda sig við tímann á söguslóð; ekki hvað klukkan var í Reykjavík. Þá er því við að bæta að Michigan er ekki borið fram Mitsígan á ensku eins og þráfaldlega var lesið í fréttinni. Það er ekkert "t" í heiti ríkisins.” - Kærar þakkir, Molavin. Gott er að eiga glögga að.

 

FALLAVILLA

Glöggur lesandi benti Molaskrifara á eftirfarandi á mbl.is (09.03.2016):,, Stofnaður hef­ur verið söfn­un­ar­reikn­ing­ur til styrkt­ar þeirra þriggja sem misstu allt í brun­an­um á Grett­is­götu fyrr í vik­unni.” Hér hefði átt að standa:,, ... til styrktar þeim þremur ...” Er þetta einhver þágufallshræðsla? Molaskrifari þakkar ábendinguna.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/09/hjalpa_theim_sem_misstu_allt/

 

FJÖGUR GÖGN

Af mbl.is (09.03.2016):,, Fjög­ur ís­lensk gögn voru í gær samþykkt form­lega inn á lands­skrá Íslands um Minni heims­ins.” Hér hefði eftir málvitund Molaskrifa átt að tala um fern íslensk gögn. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/09/efla_skilning_a_mikilvaegum_heimildum/

 

SÆNSKT LAUGARDAGSKVÖLD Í EFSTALEITI

Annað kvöld (11.03.2016) ætlar Ríkissjónvarpið á besta tíma, lungann úr kvöldinu ,að bjóða þjóðinni á söngvakeppni sænska sjónvarpsins í rúmlega tvo klukkutíma! Já, söngvakeppni sænska sjónvarpsins. Þetta efni mætti sem best sýna á sunnudagsmorgni til að gera þeim til góða  sem standa á öndinni og bíða málþola eftir verksmiðjuframleiddri popptónlist.

 

 

 

TILTÖLULEGA NÝR AF NÁLINNI

Ekki er allt mjög nákvæmt sem skrifað er í fylgiblaði Fréttablaðsins um bíla. Þar er til dæmis (08.03.2016) sagt um Volvo XC 90 :,, Þó að Volvo XC 90 jeppinn sé tiltölulega nýr af nálinni ...” Molaskrifari á Volvo XC90. Sá bíll var skráður í Færeyjum snemma árs 2008 og er því orðinn átta ára. Það þykir víst gamall bíll á Íslandi. Var skráður á Íslandi 19. janúar 2009.

Hann er í góðu standi, en ekki er hann nýr af nálinni. Þessir bílar hafa verið framleiddir lengi, eða allt frá 2002, feikilega vinsælir, en fyrir skömmu kom ný útgáfa á markað. Önnur kynslóð, segja þeir. Hið sígilda útlit er lítið breytt, en ýmsar tækninýjungar hafa gert bílinn enn betri.

 

STÓRT VEGGFÓÐUR

Í fréttum Ríkissjónvarps (08.03.2016) var fjallað um merkilega sýningu á verkum Jóhannesar S. Kjarvals á Kjarvalsstöðum. Sagt var að á sýningunni væri stórt veggfóður. Ekki þótt Molaskrifara það tiltakanlega vel orðað. Ekki hefði verið óeðlilegra að tala til dæmis um x fermetra veggfóður af veggjum vinnustofu Kjarvals í Austurstræti.

 

SPURNINGAÞÆTTIR

Þeir spurningaþættir, sem Ríkissjónvarpið býður okkur í vetur eru orðnir dálítið trénaðir. Mikið væri gaman, ef hægt væri að endurvekja menningarlegan spurningaþátt um tónlist, eitthvað í líkingu við Kontrapunkt, sem naut mikilla vinsælda hér á árum áður.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1905

NIÐURLÖG ELDS

Rafn spyr í bréfi (08.03.2016): ,,Sæll Eiður

Hefir þú heyrt talað um að vinna að niðurlögum elds eða einhvers annars??” Þakka bréfið , Rafn. Nei. Þetta orðalag hef ég aldrei heyrt. Geri ekki ráð fyrir að margir hafi heyrt svona til orða tekið. Rafn er hér að vísa til fréttar á mbl.is (07.03.2016) þar sem segir: ,, Er unnið að niður­lög­um elds­ins en vegna hættu­legra efna, sem finna má inni í hús­inu, hef­ur verið ákveðið að senda ekki slökkviliðsmenn þangað inn.” Hér hefði betur verið sagt , til dæmis: Unnið er að því að ráða niðurlögum eldsins , - unnið er að slökkvistarfi. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/07/logregla_leitar_tveggja_manna/

 

 TRÚVERÐUGLEIKI

Það skiptir máli fyrir félagasamtök, að talsmenn þeirra í fjölmiðlum séu trúverðugir. Molaskrifari hlustaði á talsmann (gott ef það var ekki varaformaður) Neytendasamtakanna í morgunútvarpi Rásar tvö (08.03.2016) tala um fyrirhugaðar arðgreiðslur tryggingafélaganna, sem hækkuðu iðgjöld vegna slæmrar afkomu, en ætla svo að greiða eigendum sínum hærri arð en nokkru sinni fyrr. Meðal þess sem fulltrúi Neytendasamtakanna sagði var: Ef horfir sem horfir, ætlaði sennilega að segja, - ef heldur sem horfir, - ef þróunin verður eins og útlit er fyrir. Og bætti við, - ... munu þau ekki bíta úr nálinni ... að segja að einhver sé ekki búinn að bíta úr nálinni með eitthvað, - þýðir að sá sem um er rætt sé ekki búinn að taka afleiðingum af einhverju eða gera sér grein fyrir neikvæðum afleiðingum einhvers. Hann hefði getað sagt: Þau eru ekki búin að bíta úr nálinni með þetta. Og svo talaði þessi fulltrúi Neytendasamtakanna um að hagsmunasamtök ætluðu að rotta sig saman. Að rotta sig saman er að mati Molaskrifara ævinlega notað í niðrandi merkingu, talað er um að menn rotti sig saman til illra verka. Hann hefði getað sagt að hagsmunasamtök ætluðu að starfa saman, vinna saman, hafa samvinnu um e-ð. Það var ótrúverðugt að hlusta á þetta.  – Var það ekki annars Félag íslenskra bifreiðaeigenda, sem varð fyrst til þess að vekja athygli á framferði vátryggingafélaganna, ekki Neytendasamtökin?

 

 

ELDUR VARÐ

Lengi hefur tíðkast að segja í fréttum bílvelta varð, í staðinn fyrir, - bíll valt. Ný útgáfu af þessu orðalagi heyrðist í seinni fréttum Ríkissjónvarps á mánudagskvöld, þegar sagt var frá eldsvoða í verkstæðisbyggingu við Grettisgötu í Reykjavík. Þá sagði fréttaþulur: Mikill eldur varð á réttingaverkstæði ... Molaskrifari er á því að betra hefði verið að segja: Mikill eldur kom upp á réttingaverkstæði, eða mikill eldsvoði varð ... Það varð ekki eldur. Það kom upp eldur, það kviknaði í. Eða var kveikt í.

 

BDSM FRÉTTIR

Í fréttum, til dæmis í útvarpi, var framan af vikunni aftur og aftur talað um eitthvert BDSM félag og deilur í kring um það , án þess að nokkrar skýringar fylgdu með. Greinilega var gengið út frá því að hlustendur vissu nákvæmlega um hvað væri verið að tala. Molaskrifari kom af fjöllum. Það var ekki fyrr en hann hlustaði á morgunþátt Rásar tvö (08.03.2016) að málið skýrðist svolítið og vísað var til greinar á pressan. is. Þetta snerist sem sé um það sem margir mundu kalla kynferðislegan öfuguggahátt ( nú verður skrifari sakaður um fordóma) og Molaskrifara fannst ekki áhugavert umfjöllunarefni í fréttum Ríkisútvarps. Það var kannski ágætt að skýra þetta út í morgunútvarpinu. En hér er hin merkilega grein á pressan.is : http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_roggu_eir/eg-hef-akvadid-ad-stiga-fram_-

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1904

LYSTISKIPIN

Í fréttum Stöðvar tvö (07.03.2016) var sagt frá lystiskipum (sem ævinlega eru kölluð skemmtiferðaskip) sem væntanleg eru til landsins á árinu. Það fyrsta væri þegar komið. ,,Skipið heldur af landi brott í kvöld”, sagði fréttamaður. Kannski hefði verið betra að segja, að skipið léti úr höfn í kvöld. Fréttamaður sagði okkur líka frá Reykjavíkurhöfn að þar væri skítakuldi. Í Reykjavík var 3-4 stiga hiti á mánudaginn. Fáir kalla það sennilega skítakulda í byrjun mars. En auðvitað eru menn misjafnlega kulvísir.

 

VONIR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (07.03.2016) var talað um að binda vonir um eitthvað. Rétt er að tala um að binda vonir við eitthvað, vonast eftir einhverju. – Í morgunútvarpi (09.03.2016) var talað um nafnagift í staðinn fyrir nafngift.

Enginn les yfir.

 

KYNNINGARBLÖÐ Í FRÉTTABLAÐINU

Innan í Fréttablaðinu er blað eða síður, sem eru kallaðar Fólk. Í skýringu stendur: ,,Fólk er kynningarblað,sem býður auglýsendum að kynna vörur og þjónustu í formi viðtala og umfjallana. Í blaðinu er einnig hefðbundið ritstjórnarefni. Blaðið fylgir Fréttablaðinu daglega.” Þarna er  viðurkennt að blandað er saman keyptum viðtölum, stundum um snákaolíu af ýmsu tagi, auglýsingagreinum og ritstjórnarefni. Allt er þetta gert til að rugla lesendur í ríminu. Óvandað og ófaglegt verklag.

 

LAUGARDAGSFRÉTTIR

Fréttatími Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (05.03.2016) var svolítið skrítinn. Nokkrar manneskjur mættu til mótmæla fyrir utan skrifstofur Tryggingastofnunar ríkisins. Löng frétt um það. Spyrja mætti: Hversvegna fóru mótmælin ekki fram við Alþingi eða velferðarráðuneytið? Tryggingastofnun framfylgir reglum, sem Alþingi og ráðuneytið setja. Ekki skal dregið úr því að hlutskipti öryrkja er slæmt í okkar auðuga samfélagi. Alls ekki. En þetta var á mörkum þess að vera fréttnæmt  Svo var í fréttatímanum algjörlega innihaldslaust viðtal við mann, sem vill verða forseti Íslands.  – Ýmislegt fleira og fréttnæmara var að gerast þennan dag, sem fréttastofan sá enga ástæðu til að nefna.

 

VETTVANGUR , AÐILAR – OG FLEIRA ÚR FRÉTTUM

Hér hefur stundum verið talað um vettvanginn, sem oft ber á góma í fréttum (08.03.2016). Á þriðjudagsmorgni sagði viðmælandi fréttamanns, að slökkvilið væri búið að afhenda lögreglunni vettvang þar sem búið væri að slökkva eld, sem komið hafði upp í verkstæðisbyggingu. Einnig var talað um að stjórna vettvangi. Stöð tvö sagði okkur á þriðjudagskvöld, að hundrað björgunaraðilar hefðu verið á brunastað. Aðilar koma víða við sögu. Gott ef aðilarnir voru ekki á vettvangi.

Sama morgun var talað um að kjósa gegn tillögu (um greiðslu arðs) á aðalfundi. Átt var við að greiða atkvæði gegn tillögu. Molaskrifari leggur enn einu sinni eindregið til að málfarsráðunautur skýri fyrir fréttaskrifurum muninn á því að kjósa og greiða atkvæði. Þetta orðalag, - að kjósa gegn tillögu var reyndar einnig notað í forsíðufrétt í Morgunblaðinu sama dag.

Þá var sagt í fréttum:,, Allir þeir sem koma ólöglega yfir Eyjahafið verður snúið við ...” Þetta er rangt. Það hefðu fréttaskrifari og fréttalesari átt að skynja. – Öllum þeim sem koma ólöglega yfir Eyjahafið verður snúið við.- Þetta var sagt að minnsta kosti þrisvar í fréttum fram til klukkan níu. Í hádegisfréttum var búið að lagfæra þetta. Hlustaði enginn fyrr en undir hádegi?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1903

SLÆM HELGI HJÁ NETMOGGA

Molavin skrifaði: ,,Svona er nú komið fyrir Morgunblaðinu (amk. netútgáfu þess). Í frétt í dag, 6.mars, segir orðrétt:

"Þrítug kona var brennd til bana á föstu­dag­inn af bræðrum sín­um..." og síðar: "Þeir fram­kvæmdu einnig jarðarför­ina sama kvöld...“ Les enginn yfir?” Nei, ágæti Molavin. Yfirlestur heyrir sennilega sögunni til á þessum bæ. Þetta var óvenju slæm helgi hjá Netmogga. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/06/kveiktu_i_systur_sinni_uti_a_gotu/

 

 SIGRAÐI KEPPNINA

Á laugardagskvöld (05.03.2016) sagði fréttaþulur Ríkissjónvarps okkur frá ungri stúlku sem sigrað hefði söngkeppni Samfés. Sigraði keppnina! Bar hún ekki sigur úr býtum? Heyrði fréttastjóri þetta ekki? Eða vissi fréttastjóri ekki betur? Molaskrifari var að vona að Ríkissjónvarpið væri vaxið upp úr því að láta okkur hlusta á svona ambögur.. Orðrétt af vef Ríkisútvarpsins:,, Sara Renee Griffin úr félagsmiðstöðinni Rauðagerði í Vestamannaeyjum sigraði Söngkeppni Samfés í dag.” Og keppnin steinlá!

 

SLÆGUR AF ÖKUMÖNNUM

Úr frétt á mbl.is um bíl sem festist í skafli á miðri brú(06.03.2016): ,,Sagði hann full­ljóst að yfir brúnna kæm­ist eng­inn án þess að vera á breytt­um jeppa og að nokk­ur slæg­ur af öku­mönn­um sem bíða þess að kom­ast yfir brúnna gætu átt erfitt með verkið.”

Hvað er nokkur slægur af ökumönnum? Bara bull. Slægur (kk) er eitthvað sem er eftirsóknarvert, eitthvað sem fengur er að. Það væri slægur í því fyrir mbl.is að fá betur skrifandi fólk til starfa. Í fréttinni er tvisvar talað um brúnna. Það er sem sé ekki innsláttarvilla, heldur kunnáttuskortur, - skortur á málfræðikunnáttu. Fleiri athugasemdir gætu átt rétt á sér. Fréttabarnavakt á sunnudagsmorgni?

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/06/fastur_i_skafli_a_midri_bru/

Nokkrir vinir Molanna sendu línu og bentu á þessa frétt. Margir tóku eftir þessu.

 

 

STÓRT FYLGI

Í fréttum Stöðvar tvö (05.03.2016) sagði talsmaður Pírata okkur að fylgi flokksins hefði stækkað. Hann átti við að fylgið hefði vaxið, - fylgið hefði aukist.

 

LÍFSÓGNANDI

Á forsíðu Fréttablaðsins (05.03.2016) var sagt um krabbamein í blöðruhálskirtli: Einungis 20% eru lífsógnandi. Hér er sennilega hugsað á ensku, lífsógnandi , e. life threatening. Orðið var einnig notað á bls.33 í Fréttablaðinu sama dag. Við eigum ágætt orð sem er: Lífshættulegt. Svo eru líka til í málinu orðin banvænn, lífshættulegur, sem veldur dauða.

 

FJÖLDI - FJÖLGUN

Í fréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (05.03.2016) sagði fréttamaður:,, Talsmaður Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna varaði við því á dögunum, að opnuðu Makedóníumenn ekki landamæri sín mundi fjöldi flóttamanna við landamærin Grikklandsmegin fjölga í sjötíu þúsund á næstu vikum.” Fjöldi fjölgar ekki. Fjölda fjölgar ekki. Er enginn á fréttastofu Ríkisútvarpsins,sem gerir sér grein fyrir því að vanda þarf betur til verka. Lesa þarf handrit, leiðrétta og lagfæra, sé þess þörf, áður en lesið er fyrir okkur. Ríkisútvarpið á að vera til fyrirmyndar um málfar. Er verkstjórnin í molum, þegar að fréttunum kemur? http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/kvoldfrettir/20160305 - Þetta var reyndar endurtekið orðrétt í fréttum á miðnætti. Hlustar enginn í Efstaleitinu á fréttir í útvarpinu?

 

SKONDIIÐ

Það var dálítið skondið í þættinum Gettu betur á föstudagskvöldið (04.03.2016) að heyra spyril tala um danska vikublaðið Familie journal upp á ensku ( eftir frb. familí dsjörnal!). Fyrir svona sex, sjö áratugum voru dönsku vikublöðin Hjemmet , Alt for damerne og Familie journal gríðarlega vinsælt lesefni á Íslandi. Blöð voru tekin frá í bókabúðum fyrir fasta viðskiptavini, sem biðu komu blaðanna með öndina í hálsinum. Nú kunna víst fáir lengur dönsku. Réttur framburður vafðist fyrir spyrli á föstudagskvöldið.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1902

AÐ MALDA Í MÓINN

Molavin skrifaði (04.03.2016):

"Hann (Ted Cruz) reyndi nokkrum sinnum að malda í móinn þegar hvað hæst lét á milli Rubio og Trump og bað Trump ítrekað um að anda rólega." Svo orðar fréttamaður Ríkisúrvarpsins á síðu RUV (4.3.2016) þegar hann greinir frá því að einn fjögurra frambjóðenda Repúblikana hafi í kappræðum í sjónvarpi reynt að róa aðra niður, sem rifust hástöfum. Enn notar fréttamaður hugtök ranglega. Sögnin að malda merkir að ‘mögla, andmæla, þrasa’. Auk þess sagði í fyrirsögn og texta að kappræðurnar hafi farið fram "í nótt." Svo var vitaskuld ekki þótt komin væri nótt á Íslandi.” Kærar þakkir Molavin. Orðtök,sem föst eru í málinu reynast mörgum erfið viðfangs nú um stundir.

 

ENGINN LES YFIR

Sigurður Sigurðarson skrifaði ( 04.03.21016): ,,Í Morgunblaðinu á blaðsíðu 12 birtist þann 4. mars grein sem er í sjálfu sér áhugaverð en frekar illa skrifuð, enginn les yfir, eins og þú segir stundum. Fyrirsögnin er góð: „Feta í fótspor feðra sinna á hálendinu“. Svo byrja leiðindin:

  • „Hópur fjallagarpa ætlar nú að endurtaka leiðangur sem fyrst var farinn árið 1976 …“Fjallagarpar eða aðrir geta ekki endurtekið það sem þeir hafa aldrei gert áður. 
  • „3. apríl 1976 …“ segir í upphafi fyrstu línu. Flestum er kennt að byrja ekki setningu með tölustaf, það er óskaplega mikið stílbrot að gera svo.
  • „… og er þetta fyrsta ferðin sem vitað er til að hafi verið farin þessa leið.“ Klúðurslegt; ferð farin þessa leið!. Betra hefði verið að segja að þessi leið hafi þarna líklega verið farin í fyrst sinn.
  • „Ef þeir gætu ekki bjargað sjálfum sér gætu þeir örugglega ekki bjargað öðrum líka.“ Leiðinleg nástaða; bjargað, bjargað. Betra hefði verið að umorða þetta jafnvel þó haft sé eftir viðmælanda.
  • „Tilgangur ferðarinnar nú er að heiðra minningu þess afreks …“. Það sem hér er átt við er að minnast afreksins og færi betur á því að segja það.
  • „… munu leiðangursmennirnir gista í tjöldum og skálum á víxl.“ Betur fer á því að segja að gist verði ýmist í tjöldum eða skálum.

Hægt er að gagnrýna ýmislegt annað í þessari stuttu grein. Vandinn er að ungir skrifendur frétta fá greinilega ekkert aðhald, bara klapp á bakið og halda því að þeir hafi gert vel. Hvernig eiga þeir að vita annað þegar enginn gagnrýnir?” Þakka bréfið, Sigurður. Yfirlestur heyrir sögunni til.

 

VIÐ HÖFN – VIÐ BRYGGJU

Alltaf öðru hverju heyrist sagt um skip í fréttum að þau séu við höfn.

Þetta orðalag var notað í miðnæturfréttum Ríkisútvarps í síðustu viku

(01.03.2016). Skip eru í höfn. Skip eru við bryggju, liggja við bryggju. Í morgunfréttum Ríkisútvarps (05.03.2016) heyrði Molaskrifari ekki betur en sagt væri að skip hefði lagt að höfn. Skipið kom í höfn. Hér er verkefni fyrir málfarsráðunaut.

 

BEINBROT

Í fréttayfirliti í Ríkissjónvarpi (03.03.2016) var sagt að tólf ferðamenn hefðu brotið bein. Hefði ekki verið eðlilegra að segja að tólf ferðamenn hefðu beinbrotnað? Skrifari hallast að því.

 

DÁSEMD

Það var auðvitað hrein dásemd hjá Ríkissjónvarpinu á fimmtudagskvöldið ( 03.03.2016) þegar okkur var boðið upp á lögguþátt frá Brooklyn kl 21:35 og lögguþátt frá Chicago klukkan 22:20. Vantaði eiginlega bara þátt um bráðaliða í einhverri borg þarna mitt á milli. Það er eitthvað að, þegar kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins er svona saman sett. Kannski slys. Vonandi ekki ásetningur.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1901

  

SINN OG HANS

Þorsteinn Davíð Stefánsson skrifaði (02.02.2016): ,,Sæll, Eiður. Við lestur Moggans á netinu hnaut ég um einkennilegt orðalag. Þar er sagt að Osama Bin Laden hafi beðið föður sinn að annast eiginkonu hans. Ég hef vanist því að eigi orðið, annaðhvort sinn eða hans, við frumlagið skuli ,,sinn" notað en eigi það við aðra en frumlagið skuli ,,hans" notað. Þó gera megi ráð fyrir að átt sé við eiginkonu sonarins endurspeglar orðalagið það ekki. Ertu sammála þessum skilningi mínum? Með bestu kveðjum og þökkum fyrir ötult starf í þágu íslenskunnar, Þorsteinn Davíð.” - Þakka bréfið, Þorsteinn Davíð og hlý orð. Hjartanlega sammála. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/01/29_milljonir_i_erfdaskra_bin_laden/

 

ORKUPOSTULLI?
Á miðvikudagskvöld (02.03.2016) sýndi Ríkissjónvarpið heimildamynd um merkan íslenskan arkitekt,sem lengi hefur búið og starfað í Hollandi. Myndin hét Orkupostullinn Jón. Molaskrifari hefur hvergi tekist að finna orðið postulli, -  þekkir  orðið postuli. Lærisveinn, brautryðjandi, frumherji?  Einnig postullega og postilla. Kannski er hér fáfræði Molaskrifara um að kenna.

 

ENN LOKA KJÖRSTAÐIR

Það er auðvitað dálítið þreytandi að klifa sífellt á sömu ambögunum, en er gert í trausti þess að dropinn holi steininn.

 Í fréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (01.03.2016) var sagt frá forkosningum vegna forsetakosninga í Bandaríkjunum. Fréttamaður sagði:,, Kjörstaðir loka upp úr miðnætti ...” Kjörstaðir loka ekki. Kjörstöðum verður lokað upp úr miðnætti.

 

AÐ STÍGA Á STOKK

Í auglýsingu frá fyrirtækinu midi.is í Ríkisútvarpinu rétt fyrir fimm fréttir (01.03.2016) var sagt frá skemmtikröftum sem mundu stíga á stokk. Auglýsingin var endurtekin í útvarpinu morguninn eftir. Eins og hér hefur oft verið vikið að þýðir það að stíga á stokk ekki að koma fram og flytja tónlist eða annað efni. Það er notað um að strengja þess heit að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert. Molaskrifari leggur til að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins haldi fund með starfsfólki auglýsingastofu og skýri þetta út. Þetta er ekki mjög flókið. Auglýsingastofa eða auglýsingadeild á ekki að taka við auglýsingum með augljósum málvillum.

 

LÖGREGLUFRÉTTIR

Það gengur misjafnlega að koma lögreglufréttum á framfæri á réttu máli, villulausu. Oft hefur verið bent á hér að rangt sé að segja að einhver hafi verið settur í varðhald eða vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls. En þetta er ný útgáfa af mbl.is (02.03.2016): ,,Eft­ir það voru fimm­menn­ing­arn­ir vistaðir í fanga­geymslu lög­regl­unn­ar vegna rann­sókn máls­ins”. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/02/fimm_i_fangaklefa_eftir_slys/

 

 UM GAGNRÝNI

 Molaskrifari gerir fremur lítið af því að lesa gagnrýni um leiksýningar eða tónleika. Hann fór í óperuna sl. laugardagskvöld (27.02.2016), naut Don Giovanni Mozarts og skemmti sér konunglega. Frábær söngur sem og hljómsveit , sviðsetning eins góð og hægt er að vonast eftir á hinu grunna sviði Eldborgar,sem alls ekki er hugsað til óperuflutnings., - þótt listamenn láti sig hafa það. Eftir að hafa lesið gagnrýni (furðulega að honum finnst) um flutning óperunnar og frammistöðu listamannanna í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu á þriðjudegi (01.03.2016) hefur hann ákveðið að láta slík skrif ólesin í framtíðinni. Láta duga hvað honum sjálfum finnst. Enda það eina sem máli skiptir. Ekki hvað mismunandi geðstilltir gagnrýnendur setja á prent.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1900

 

BANASPJÓTIN

Molavin skrifaði (02.03.2016): "Re­públi­kan­ar í Tra­vis-sýslu í Texas berj­ast á bana­spjót­um þessa dag­ana segir Netmoggi í dag (2.3.2016). Það er í sjálfu sér virðingarvert að blaðamenn noti fornar samlíkingar úr bardagasögum við kosningabaráttu nútímans, en þá verða þeir að þekkja þau orðtök, sem beitt er. Að berast á banaspjót(um) - en ekki berjast á b-um. Séu menn í vafa er einfalt að fletta upp í íslenskri orðabók.- Þörf ábending. Þakka bréfið, Molavin.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/02/kallar_clinton_reida_trukkalessu/

 

 ATLANTSHAF

Heimildamynd BBC , Atlantshaf – ólgandi úthaf (1:3), sem Ríkissjónvarpið sýndi á þriðjudagskvöld (29.02.2016) var um margt vönduð og vel gerð, eins og þeirra ágætu manna hjá BBC er von og vísa. En ósköp var umfjöllunin um fiskveiðar yfirborðsleg, fátækleg - eiginlega ekkert nema myndir af trollbáti í leiðindaveðri. Greinilega var aflinn mest smáýsa  úr Norðursjónum - engin nærmynd var sýnd af fiskinum. Þýðing og lestur Gunnars Þorsteinssonar var með miklum ágætum, - til fyrirmyndar.

 

ENN UM VIÐTENGINGARHÁTT

Í fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins á þriðjudag (01.03.2016) segir: Atvinnuleysið nálgist 1%. Hér er ekki um hvatningu að ræða eins og ætla mætti. Heldur er hér (samkvæmt máltilfinningu Molaskrifara) um enn eitt dæmið um ranga notkun viðtengingarháttar að ræða. Átt er við, að í sumar geti atvinnuleysið hugsanlega verið um 1%, eða á bilinu 1-2%

 

OFBELDISVARNANEFND

Í morgunþætti Rásar tvö á þriðjudagsmorgni (01.03.2016) var rætt við formann ofbeldisvarnanefndar Reykjavíkur. Sjálfsagt hin þarfasta nefnd, en samkvæmt lögreglufréttum fjölmiðlanna starfar hún ekki mikið í höfuðborginni um helgar.

 

 

 

SNJÓRUÐNINGUR

Í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (02.03.2016) var sagt: ,,Snjór hefur verið ruddur af ísilögðu vatninu ...”  Molaskrifari er á því að  fremur hefði átt að segja: ,,Snjó hefur verið rutt af ísilögðu vatninu...” Þetta var gert vegna kvikmyndatöku á Mývatni.

 

ÓÞÝTT VIÐTAL

Í Kastljósi Ríkissjónvarps í gærkveldi (02.03.2016) var sýnt í beinni útsendingu óþýtt viðtal við norskan kokk sem hér er vegna matarhátíðarinnar, sem nú stendur yfir í Reykjavík. Þetta viðtal mátti alveg bíða í sólarhring og sýna það þá með  íslenskum texta. Engin  ástæða til beinnar útsendingar. Þrátt fyrir  góðan vilja  fréttamanns var endursögnin  á ummælum kokksins í skötulíki. Norska  konan  tvítók til dæmis, að hún væri að elda skötusel (n.  breiflabb). Það  var okkur ekki  sagt. Þetta hefði þurft að vinna betur.

 

EKKI TIL FYRIRMYNDAR

Fyrirsögn af dv.is ( 27.02 2016)  Hafdís var tekin fyrir af Hildi. Aulaleg og óþörf þolmyndarnotkun. Hildur tók Hafdísi fyrir, ekki mjög gott en þó skömminni skárra. http://www.dv.is/frettir/2014/2/27/hafdis-var-tekin-fyrir-af-hildi-lilliendahl/

 

STAÐSETNING

,,...að sem flest störf ... verði staðsett á landsbyggðinni”, sagði þingmaður samkvæmt útvarpsfréttum á þriðjudagskvöld (01.03.216). Staðsetningarbullið er smitandi.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1899

BÆJARSKRIFSTOFUR BÆJARINS

Í sex fréttum Ríkisútvarps (27.02.2016) var fjallað um deilur í bæjarstjórn Kópavogs um það hvar skrifstofur bæjarins skyldu vera til húsa. Fréttamaður talaði um bæjarskrifstofur bæjarins. Bæjarfulltrúi ruglaði saman því að kjósa og geiða atvæði um eitthvað. Þessi ruglingur virðist því miður vera orðinn fastur í málinu. Þetta hefur nokkrum sinnum verið nefnt í Molum. http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/kvoldfrettir/20160227

 Til dæmis í Molum um málfar og miðla 1143 var skrifað: ,,Fjölmiðlamenn eru svo gott sem alveg hættir að gera greinarmun á því að greiða atkvæði og að kjósa. Eins og vikið var að í Molum fyrir helgina. Sífellt er talað um að kosið sé um tillögur á Alþingi, þegar að mati Molaskrifara ætti að tala um að greiða atkvæði. Í kosningum fara menn á kjörstað og kjósa, greiða atkvæði. Á Alþingi er kosið í ráð og nefndir. Ekki greidd atkvæði um ráð eða nefndir, en atkvæði eru greidd um tillögur og lagagreinar. Atkvæðagreiðslan fer nú fram, segir þingforseti. Kosningin er hafin segir þingþingforseti, ef um listakosningu er að ræða.” - Í Kópavogi var verið að greiða atkvæði um hvar skrifstofur bæjarins ættu að vera, - hvar þær ættu að vera til húsa.

 

SÉRKENNILEGT VIÐTAL

Í fréttum Stöðvar á mánudagskvöld (29.02.2016) var viðtal við lögfræðing Barnaheilla. http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVAE005B74-B616-4ED6-B6BC-1D7534EA2C68

Molaskrifara fannst þetta afar sérkennilegt viðtal. Hann skildi það svo að nú væri eiginlega óviðeigandi að tala um að eignast barn. Til dæmis að hjón hefðu eignast barn. Sömuleiðis væri ekki við hæfi að tala um barnið mitt, eða barnið okkar, börnin mín, börnin okkar. Hvert er einhverskonar pólitískur rétttrúnaður að leiða okkur?

Molaskrifara fannst þetta sannast sagna óttalegt rugl.

 

HROÐVIRKNI

Í lögreglufrétt á visir.is (27.02.2016) segir: ,Í austurbænum kom lögreglan að ökuðum manni á mjög tjónuðum bíl, sem hafði ekið á minnst þrjá kyrrstæða bíla .

http://www.visir.is/mikid-um-stuta-a-hofudborgarsvaedinu/article/2016160228958.

 Úr annarri lögreglufrétt á visir.is (28.02.2016): Lögreglan þurfti að hafa afskipti af fjöldamörgum tilkynningum um heimilisofbeldi á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Þurfti lögreglan að hafa afskipti af tilkynningum? Svo segir í fréttinni. http://www.visir.is/morg-heimilisofbeldismal-a-bordi-logreglunnar-eftir-nottina/article/2016160228888

Hroðvirkni.

 

SLETTURNAR

Sakna þess svolítið að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins skuli ekki oftar í ágætu Málskoti á þriðjudagsmorgnum gera athugasemdir við tíðar enskuslettur þáttastjórnenda í Ríkisútvarpinu. – Kastljósi gærkvöldsins (01.03.2016) talaði ágætur spyrill um tísku, en bætti svo við enska orðinu – trend! Algjör óþarfi. Það var kannski þess vegna sem viðmælandinn tvítók enska orðið trend í svari sínu.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1898

SÆLL Í SINNI TRÚ

Víkverji Morgunblaðsins er sæll í sinni trú (26.02.2016) Víkverji trúir því greinilega og er sannfærður um að ekki þurfi aðra fjölmiðla á Íslandi en Morgunblaðið. Í Víkverjapistlinum segir: ,,Ef það er ekki í Morgunblaðinu skiptir það ekki máli, sagði ágætur maður fyrir margt löngu. Þessi staðhæfing lifir ekki aðeins góðu lífi, að mati Víkverja heldur eykst mikilvægi hennar eftir því sem áreiti einkum og sér í lagi samskiptamiðla verður meira”. – Þetta er sérkennileg fullyrðing. Í kunningjahópi Molaskrifara eru fjölmargir, sem ekki eru áskrifendur að Morgunblaðinu, - af ýmsum ástæðum. Sumir þeirra hafa reyndar kosið Sjálfstæðisflokkinn í áratugi. Hafa kannski eitthvað bilað í trúnni seinni árin.   Á tímum Sovétríkjanna þótti þar um slóðir alveg nóg að hafa Prövdu. Morgunblaðið er oft ágætur fréttamiðill, en mistækur, rammpólitískur og enginn skyldi til dæmis taka bókstaflega það sem Morgunblaðið skrifar um ESB og samstarf Evrópuríkja. Um það er Morgunblaðið ekki góð heimild. Eftir á að hyggja hlýtur Víkverji Morgunblaðsins að hafa verið að gera að gamni sínu.

 

ENSKUDÝRKUNIN

Það er hættulegt fyrir íslenska tungu hve mörg íslensk fyrirtæki ávarpa okkur nú orðið á ensku, - rétt eins og enska sé móðurmál okkar, - ekki íslenska. Síðast til að bætast í þennan miður þekkilega fyrirtækjahóp er ríkisfyrirtækið Isavia, sem auglýsir með flenniletri á heilli síðu í Fréttatímanum (26.02.2016): CREATIVE TAKE OFF. Opinber fyrirtæki ættu að sjá sóma sinn í því að vera til fyrirmyndar í þessum efnum.

Í Garðapóstinum(26.02.2016), sem segist vera ,,óháð bæjarblað í Garðabæ” stendur á forsíðu ,,Stjarnan í final four - Sjá miðju blaðsins”.Molaskrifari er búsettur í Garðabæ. Hann veit ekki annað en að þar sé ennþá töluð íslenska. Þessi sletta á hvorki heima á forsíðu blaðsins né annarsstaðar.

 

 

HVERSVEGNA?

Hversvegna eru ekki fréttir í Ríkisútvarpinu frá því klukkan tvö á nóttunni til klukkan fimm að morgni? Halda stjórnendur Ríkisútvarpsins að þá sé öll þjóðin sofandi?

Svo er ekki. Fréttamaður er á vakt alla nóttina. Hann á að segja okkur fréttir á klukkutíma fresti alla nóttina

 

ÓSIÐUR

Það er ósiður hjá dv.is (og raunar fleiri netmiðlum) að blanda saman innlendum og erlendum fréttum á forsíðu án þess að auðvelt sé að greina þar á milli. Oft eru þar uppsláttarfréttir, jafnvel með fyrirsögnum, sem vísað gætu til Íslands, - en eru í raun erlendar fréttir með litla skírskotun til okkar. Það er eins og sé verið að plata okkur til að lesa uppsláttarfréttir úr mistraustum erlendum miðlum.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband