17.3.2015 | 08:29
Molar um málfar og miðla 1696
Við ætlum að spila lagabút, sagði þáttarstjórnandi á Rás tvö síðdegis á laugardag (14.03.2015) Lagabút, - hluta úr lagi, bút úr lagi. Það var og. Fólk þarf ekki að vera mjög vel talandi til að vera trúað fyrir þáttastjórn í Ríkisútvarpinu. Það er miður að ekki skuli gerðar meiri kröfur þar á bæ.
Skegg atvinnulífsins massar mottumars, segir í fyrirsögn á bls. 10 í Morgunblaðinu á laugardaginn (14.03.2015). Molaskrifari las fréttina,sem fyrirsögninni fylgdi og er litlu nær. Illa komið, ef maður skilur ekki lengur flennifyrirsagnir í Mogga!
Málfari fer ekki mikið fram í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins. Í gærmorgun (16.03.2015) var talað um ,, nokkur trikk sem bæri að hafa í huga í ræðamennsku. Svo var slett á okkur ensku: ,, .. oft langað til að gera svona give me five. Ómenguð enska. Hversvegna ekki tala íslensku?
Í þrjú fréttum Ríkisútvarpsins á laugardag (14.03.2015) sagði fréttamaður okkur frá gifsplötu sem féll úr lofti salsins í menningarhúsinu Hofi á Akureyri.
Fréttin byrjar á 03:13: http://ruv.is/sarpurinn/ras-1/siddegisfrettir/20150314
Beyging orðsins salur: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=salur
Þarna virðist skorta nokkuð á kunnáttu í beygingu orðs ,sem þó er ekki mjög sjaldgæft.
Þetta var endurflutt athugasemdalaust í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 1800 sama dag. ...úr lofti salsins. Hlustar enginn í Efstaleitinu?
Ölduhæð verður há, var sagt í aðvörun (13.03.2015) frá Veðurstofunni vegna óveðurs. Ölduhæð verður mikil. Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 1800 sama dag var einnig talað um háa ölduhæð.
Molaskrifari sá á dögunum hluta úr þáttaröð Stöðvar tvö Margra barna mæður. Um mæður með mörg ung börn. Snjöll hugmynd og vel útfærð, - alla vega sá hluti þáttarins, sem skrifari sá. Hrós fyrir það. Eftir á að hyggja er raunar furðulegt að engum skuli haf dottið þetta í hug fyrr.
Þrjár smávörur fyrir tvær, - var sagt í útvarpsauglýsingu fyrir helgina.
Tvær vörur, þrjár vörur. Nokkuð algengt orðið að heyra þetta. Hefði ekki eins mátt segja , - þrennt fyrir tvennt í smávörunni hjá okkur?
Sennilega er svolítið erfitt fyrir marga að átta sig á hvað30 metra vindhraði á sekúndu er mikill hraði. Ágætt væri, ef veðurfræðingar töluðu stöku sinnum um xx um metra á sekúndu sem jafngiltu xx kílómetrum á klukkustund.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2015 | 08:32
Molar um málfar og miðla 1695
Það var ágætt hjá Ríkisútvarpinu í óveðrinu á laugardagsmorgni (14.03.2015) að tilkynna í níu fréttum að áfram yrðu fluttar fréttir af óveðrinu á Rás tvö. Þær urðu ekki margar að vísu, en þar var okkur sagt skömmu síðar að sendirinn á Skálafelli væri úti. Þulur endurtók þetta svo orðrétt skömmu síðar. Sagði það tilkynningu frá Ríkisútvarpinu. Ekki hefur málfarsráðunautur komið nálægt þeirri textagerð. Sendirinn hafði bilað í óveðrinu. Heldur hvimleiður siður að tala um, að það sem bilar sé úti eða niðri.
Algengt er að heyra sagt að farið sé á Geysi, eða að eitthvað hafi gerst á Geysi. Molaskrifara finnst eðlilegra að segja að farið sé að Geysi. Eitthvað hafi gerst við Geysi, austur við Geysi. Kannski sérviska, en hvað segja Molalesendur?
Hvernig finnst þér að hafa sigrað síðustu heimsmeistarakeppni ... Svona var spurt í neðanmálstexta í íþróttafréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (15.03.2015). Það virðist illviðráðanlegt að koma því til skila að það sigrar enginn keppni. Menn vinna sigur í keppni. Þetta heyrist aftur og aftur.
Fín fyrirsögn í Morgunblaðinu (13.03.2015): Fjöldi flugferða blásinn af. Fréttin er um truflanir á innanlandsflugi vegna veðurs á undanförnum vikum.
Ekki eins fín fyrirsögn af dv.is (13.03.2015): Von á versta veðri vetursins. Eignarfallið af orðinu vetur er vetrar ekki veturs.
Sjá beygingarlýsinu íslensks nútímamáls á vef Árnastofnunar: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=vetur
Hér er frétt dv.is ásamt fyrirsögn:
http://www.dv.is/frettir/2015/3/13/von-versta-vedri-vetursins-morgun/
... ekki sú hjátrúarfyllsta í bransanum, sagði umsjónarmaður í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (12.03.2015), og talaði skömmu síðar um hönnunarbransann. Ekki mjög vandað málfar. Meira um þennan sama þátt: Hvað þýðir það, þegar umsjónarmaður talar um (eitthvert?) ægilega íþróttahátíð fyrir norðan?
Óskiljanlegt er að það skuli vera fjölmennustu fréttastofu landsins, fréttastofu Ríkisútvarpsins um megn að flytja fréttir, eða að minnsta kosti fréttayfirlit, klukkan tólf á hádegi á laugardögum og sunnudögum. Hvað skyldi valda? Ræður fréttastofan ekki við þetta? Er ekki fólk á vakt um hádegið á laugardögum og sunnudögum? Eða er þetta bara framkvæmdaleysi og slöpp verkstjórn? Eða er bara talið rétt að láta Bylgjunni eftir að flytja ein fréttir klukkan tólf á laugardögum og sunnudögum?
- Það hvarflaði meira að segja ekki að þessari öryggisstofnun alþjóðar, sem Ríkisútvarpið á að vera, að flytja okkur fréttir eða fréttaágrip klukkan tólf á hádegi í vonda veðrinu á laugardaginn (14.03.2014). Í staðinn hringdu bara klukkur Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti. Og turnklukkan sló tólf.
Er það klappað í stein að ekki skuli flytja fréttir klukkan tólf á hádegi um helgar?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.3.2015 | 07:52
Molar um málfar og miðla 1694
Þórhallur Jósepsson skrifaði (11.03.2015):
,,Sæll.
Hverjir eru strandarglópar?
Ég spyr því svo virðist, sem alveg nýr skilningur sé kominn í þetta orð, a.m.k. ef marka má fréttamenn Ríkisútvarpsins. Ég hélt að strandarglópur væri sá sem situr eftir bjargarlaus á ströndinni og hefur misst af fari sínu. Í seinni tíð hefur þetta yfirfærst á þá sem á einhvern hátt missa af fari, t.d. ná ekki rútunni norður eða eru of seinir út á flugvöll og missa af flugvélinni, sjá jafnvel á eftir henni taka á loft. Þetta eru sannarlega strandaglópar.
Nú ber hins vegar svo við að fréttamenn Ríkisútvarpsins og stundum líka annarra miðla tala um veðurteppt fólk sem strandarglópa. Að mínum málskilningi er það skilningsleysi á orðinu strandarglópur sem felst í þessu. Í stað þess að tala um að 300 strandarglópar hafi verið eða orðið að hafast við í Staðarskála hefði átt að tala um að 300 manns væru veðurteppt í Staðarskála eða einfaldlega að 300 væru veðurtepptir í Staðarskála. Þarna hefðu fréttamenn átt að staldra aðeins við og velta fyrir sér orðanotkun, jafnvel hefði málfarsráðunautur mátt koma við hjá þeim og ræða málin (það er víst málfarsráðunautur starfandi hjá Ríkisútvarpinu).
Annað: Hvenær ætla Sambíóin að hætta að auglýsa: "Sambíóin kynnir ...."? - Kærar þakkir, Þórhallur.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins á fimmtudag (12.03.2015) talaði einn umsjónarmanna tvisvar sinnum um veðurteppta ferðalanga í Staðarskála sem strandaglópa. Strandaglópur er sá sem verður af skipi eða öðru farartæki. Raunar gefur Íslensk orðabók það sem viðbótarmerkingu að vera tepptur og komast ekki lengra. Það er mér nýtt. Þegar rætt var við staðarhaldarann í þessum þætti (12.03.2015) var spurt hvort í Staðarskála væri fólk, sem veitti áfallahjálp !!!
Rafn benti á þennan myndatexta á mbl.is (11.03.2015): ,,10-15 rútur voru lagðar fyrir utan verslunarmiðstöðina fyrr í dag. Óþarft ætti að vera að hafa mörg orð um þetta. Rúturnar voru ekki lagðar. Þeim var lagt. Hér er fréttin: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/10/verslunarmidstod_vard_neydarskyli/
Rætt var um störf þingsins við alþingismann í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (11.03.2015). ,, Við þurfum að kovera rosalega mikið, sagði þingmaðurinn. Ljót enskusletta. Svolítið seinna kom soldið spes og svo kom aftur spes. Barna- eða unglingamál. Kannski er það gamaldags að ætlast til að þingmenn vandi mál sitt í opinberri umræðu. Molaskrifari ætlast nú samt til þess.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (11.03.2015) var sagt að kosið yrði um verkfall í fjölmennu stéttarfélagi. Eðlilegra hefði verið að segja okkur að atkvæði yrðu greidd um verkfallsboðun. Fréttaskrifarar eiga að kunna að greina á milli þess að kjósa og greiða atkvæði um eitthvað.
Í gærkvöldi (12.03.2015) hófust seinni fréttir Ríkissjónvarps næstum fimmtán mínútum of seint. Sá enga tilkynningu um seinkun fréttanna á skjánum og ekki bað fréttaþulur okkur afsökunar á seinkuninni. Svona gera alvöru sjónvarpsstöðvar ekki. Kurteisi kostar ekki neitt. Er enginn við stjórnvölinn á fréttastofunni? Er öllum bara skítsama, - svo notað sé óheflað orðalag? Skítsama um þá sem, þessi ríkis ohf stofnun á að þjóna?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2015 | 10:03
Molar um málfar og miðla 1693
Stundum misskilur fólk orðtök hrapallega. Eins og þingmaðurinn sem sagði í Morgunútgáfunni (10.03.2015): Ég hef aldrei dregið dulu fyrir það. Hann ætlaði að segja: Ég hef aldrei dregið dul á það. Aldrei leynt því. Sami þingmaður talaði um orsakavald, - orsök. Þingmaðurinn sagðist líka vonast til að það lagaði áfengismenninguna á Íslandi, ef frumvarp hans um sölu áfengis í matvörubúðum yrði samþykkt. Það var og.
Það var kannski mismæli, þegar gestur, lektor í bókmenntafræði í þessum sama þætti (12.03.2015) talaði um farartæki,sem gætu farið bæði um land og láð. Láð er land. Átti við láð og lög. Sjó og land. Láðs og lagardýr.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins í morgun (12.03.2015) var rætt við staðarhaldara í Staðarskála. Útvarpsmaður spurði: Eruð þið farin að hilla upp í (?) vorið? Átti líklega við hvort þess væru einhver merki að vorið væri nánd. Kannski er útvarpsmaðurinn er ekki á réttri hillu.
,,Þéttur íþróttapakki er handan við hornið, sagði fréttaþulur Stöðvar tvö á laugardagskvöld (07.03.2015). Þetta orðalag er svo sem engin nýlunda. Íþróttafréttir eru á báðum stöðvum kallaðar pakkar. Reyndustu fréttamenn Ríkissjónvarpsins segja okkur frá einhverjum íþróttapökkum (10.03.2015) Skrifara finnst þetta út í hött. Pakkar geta verið litlir eða stórir. Þeir eru ekki þéttir eða óþéttir. ,,Íþróttir og veður hér handan auglýsinga, sagði Sigríður Hagalín Björnsdóttir ágætlega í Ríkissjónvarpinu sama kvöld.
Í fréttum Ríkisútvarps (10.03.2015) var sagt frá komu farfugla til landsins. Sagt var að álftir væru komnar á Lón. Er ekki málvenja að segja í Lóni og oft með ákveðnum greini Lónið, þegar talað er um Lónssveitina austan Hornafjarðar? Molaskrifari hefur vanist því. Honum hefði fundist rétt að segja, að álftirnar væru komnar í Lónið.
Í fésbókarauglýsingu frá Samfylkingunni (10.03.2015) segir um fyrirhugaðan fund, að tveir þingmenn flokksins ætli að taka góðan velferðar- og fjárlagatvist og spjall á eftir. Hvað þýðir þetta?
... hugmynd,sem dúkkar reglulega upp, sagði umsjónarmaður í Morgunútgáfunni (10.03.2015). Ekki orðlag, sem hægt er að hrósa.
Fyrirsögn af mbl.is (11.03.2015): Rúturnar áttu að vera komnar í hús. Eru rútur venjulega hýstar á nóttunni? Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/11/ruturnar_attu_ad_vera_komnar_i_hus/
Í fréttum Ríkissjónvarps á sunnudagskvöld (07.03.2015) var talað um hálkusvell. Það orð hefur Molaskrifari ekki heyrt áður. Það er hvorki að finna í Íslenskri orðabók né á vef Árnastofnunar. http://bin.arnastofnun.is/forsida/
Lítur út eins og kélling frá Perú, var mjög smekkleg lýsing á listamanni í morgunþætti Rásar tvö Virkum morgnum á mánudagsmorgni(09.03.2015). Svona daginn eftir alþjóðlegan baráttudag kvenna. Í sama þætti sagði umsjónarmaður: Svo er smá varúð hér. Aðvörun (þetta var um færð) er eitt. Varúð er annað.
Enn einu sinni er lagt til að reynt verði að kenna umsjónarmanni Virkra daga að segja hljómsveit og hætta að segja /hljóst/.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2015 | 07:01
Molar um málfar og miðla 1692
Molaskrifari er ekki mjög hrifinn af orðinu snjóbylur, sem tönnlast var á í Ríkisútvarpinu í gærmorgun (10.03.2015). Hefur verið nefnt hér áður. Virðist sumum fréttamönnum tungutamt. Hvað varð um hið ágæta orð stórhríð? Allir búnir að gleyma því? Ekki allir reyndar. Það kom á skjáinn í veðurfregnum Ríkissjónvarps í gærkvöldi og Birta Líf veðurfræðingur notaði það í veðurfréttum. Plús fyrir það.
Í fréttum Ríkisútvarps á sunnudagskvöld (08.03.2015) var talað um að auka fjármagn á friðlýst svæði og ferðamannastaði. Auka fjármagn á svæði?
Af mbl.is (09.03.2015): Fyrirsögnin er: Fullyrðir að kærastinn sé undir rannsókn . Síðan segir: ,,Leolah Brown, systir Bobbi Kristina Brown, fullyrðir að Nick Gordon, kærasti Bobbi, sé undir rannsókn fyrir að hafa reynt að myrða kærustu sína.
http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/03/08/fullyrdir_ad_kaerastinn_se_undir_rannsokn/
Af netinu: ,,Leolah Brown isn't holding back. Bobby Brown's sister is claiming in a new Facebook post that Nick Gordon is under investigation for attempted murder of her niece, Bobbi Kristina Brown.
Var þetta Google þýðingavélin?
http://www.usmagazine.com/celebrity-news/news/leolah-brown-says-nick-gordon-under-investigation-for-attempted-murder-201573
Í fréttum Ríkissjónvarps (08.03.2015) var talað um að fólk hefði komið saman á minningarathöfnum í dag. Hefði ekki verið eðlilegra að segja að fólk hefði komið saman við minningarathafnir í dag? Molaskrifari hallast að því. - Ég var við athöfn. Ekki á athöfn.
Á föstudagskvöld (06.03.2015) festist Molaskrifari við áhorf á fréttaskýringaþátt CBS Sixty Minutes í danska sjónvarpinu. Þar var að venju vönduð rannsóknablaðamennska á ferð. Meðal annars var sagt frá baneitruðum gólfborðum , einskonar gerviparketti sem bandarískt fyrirtæki Lumber Liquidators hefur flutt inn frá Kína og selt í stórum stíl í Bandaríkjunum. Við framleiðsluna er notað margfalt leyfilegt magn af krabbameinsvaldandi efnum, m.a. formaldehýdi. Molaskrifari veltir því fyrir sér hvernig eftirliti með innflutningi slíkra gólfefna sé háttað hér á landi, eða hvort nokkurt eftirlit sé með innflutningi af þessu tagi. Þetta var heldur óhugnanlegt á að hlýða og horfa.
Á sunnudagskvöld, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, (08.09.2015) sýndi danska sjónvarpið, DR1, heimildamyndina ,sem gífurlega athygli hefur vakið, Dætur Indlands. Myndin er í senn átakanleg og óhugnanleg. Rót hennar er hópnauðgun og dráp ungrar stúlku, sem skók heimsbyggðina fyrir tæplega þremur árum. Það var erfitt að horfa á myndina. Hún verður sýnd í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöldið kemur. Rifjaðist upp að þjóðhöfðingi okkar Íslendinga er nýkominn úr milljarðamæringsbrúðkaupi á Indlandi. Veislan stóð í þrjá daga og kostaði jafnvirði rúmlega þriggja milljarða íslenskra króna, að sögn breskra blaða. Þar var víst helsta og ríkasta þotulið heimsins. En það er annað Indland, sem áhorfendur sjá í myndinni Dætur Indlands. Annað land og heldur ógeðfellt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2015 | 08:27
Molar um málfar og miðla 1691
Týndi áttum vegna lélegs skyggnis, sagði í fyrirsögn á mbl.is í gær (09.03.2015). http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/09/tyndi_attum_vegna_lelegs_skyggnis/
Menn týna ekki áttum! Maðurinn sem í hlut átti villtist. Hann varð áttavilltur. ,, Maðurinn hafði samband við lögreglu rétt eftir klukkan 16 í dag þegar hann hafði týnt áttum vegna lélegs skyggnis.Seinna í fréttinni segir: ,,Maðurinn var einn á göngu og það gekk allt vel þar til skyggnið hjá honum gjörsamlega fór allt vegna snjókomu Það var og.
Í Útsvari Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (06.03.2015) var spurt, þegar leikatriðið var að hefjast: Hver ætlar að stíga á stokk? Aftur og aftur heyrist þetta orðtak notað andstætt málvenju. Í vaxandi mæli notar fjölmiðlafólk það til dæmis um listamenn, sem ætla að flytja tónlist. Koma fram. Um þetta orðtak má meðal annars fræðast í þeirri ágætu bók Jóns G. Friðjónssonar Merg málsins (bls.836). Að heita einhverju hátíðlega. Lýsa yfir. Stíga á stokk og strengja heit.
Í fréttum Ríkissjónvarps (06.03.2015) sagði ráðherra: ,, ... sem getur leitt til þess að aflandskrónuvandinn verði fyrir aftan okkur. Ekki finnst Molaskrifara þetta orðalag vera til sérstakrar fyrirmyndar. Enskukeimur af því. Hefði kannski mátt segja , - sem gæti leitt til lausnar á aflandskrónuvandanum.
Í fréttum Stöðvar tvö (07.03.2015) sagði alþingismaður: ,,Þetta er algjörlega mjög óheppilegt.. Ekki til fyrirmyndar heldur.
Molaskrifari hlustaði á hluta þáttarins Sirrý á sunnudagsmorgni á Rás tvö. Þar er oft sitthvað bitastætt og fróðlegt. Ágætt var að fá skýringar Ingólfs Bjarna á nýjum vef Ríkisútvarpsins. Þetta gæti raunar ekki síður verið sjónvarpsefni þar sem okkur væri kennt að nota vefinn. Takið það til athugunar. Athugasemdir Stefáns Jóns Hafsteins, sem hringdi til þáttarins, voru réttmætar. Það á ekki að vera háð duttlungum dagskrárgerðarmanna hvernig efni er skráð á vefinn.
Í þættinum var rætt við háskólakonu, sem sagði frá högum afrískar konu. Sagt var að hún þyrfti að sjá um að dýrin (húsdýrin) fengju að borða. Þarna hefði nægt að tala um að gefa dýrunum eða fóðra dýrin. Ekki er málvenja að tala um að dýr borði. Hreint ekki.
Rétt fyrir auglýsingar á undan fréttum klukkan ellefu sagði þáttarstjórnandi að tilkynning hefði verið að berast. Maður hélt að stórfrétt væri í vændum. Nei. Tilkynningin var löng auglýsing um handverksmarkað á Akureyri. Þetta var ekki tilkynning, heldur hrein og ómenguð auglýsing. Skýr mörk eiga að vera milli dagskrárefnis og auglýsinga. Þarna var sú regla rækilega brotin. (Á 1:54:50) http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/sirry-a-sunnudagsmorgni/20150308
Dýrafóðrun, skylt. Í færeyska sjónvarpinu á sunnudagskvöld (08.03.2015) sá Molaskrifari brot úr þætti þar sem verið var að hluta sundur nautshaus. Gamli Færeyingurinn sem það gerði sagði ( með íslenskri stafsetningu): Það heitir ekki munnur á nauti. Það heitir kjaftur!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2015 | 07:45
Molar um málfar og miðla 1690
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins,sem flutt er á báðum rásum (06.03.2015) sagði umsjónarmaður, að í þættinum yrði okkur flutt slúður frá Alþingi. Íslensk orðabók hefur þetta að segja um orðið slúður: Þvaður, söguburður, þvættingur, kjaftasaga. Ekkert slíkt var flutt. Ekki sæmandi orðalag. Umsjónarmenn þátta í Ríkisútvarpinu þurfa að þekkja merkingu algengustu orða. Í þættinum var hlustendum sagt frá störfum þingsins. Okkur var sagt að þingstörfin væru að ganga hægt, - gengju hægt og að stóru málin væru ekki að koma. Í Hraðfréttum svonefndum í Ríkissjónvarpi sagði yfirhraðfréttamaður stofnunarinnar: Hvernig eru þessar fréttir að fara í starfsmenn álversins? Molaskrifari veit að hann er ekki einn um að mislíka þetta er að orðalag ,sem sækir mjög á í málinu. Þetta mætti taka til umræðu í málfarsmolum þáttarins á morgun, þriðjudag.
Þá var í þættinum talað um brothætt byggðarlög. Líklega var átt við byggðarlög þar sem byggðin stendur höllum fæti, á í vök að verjast.
G.G. vísaði á þessa frétt (06.03.2015)
http://www.visir.is/article/20150306/FRETTIR01/150309385
Hann segir:
,,Ekki virðast fjölmiðlar komnir fyrir vind!
Á RUV notar veðurfræðingur nokkur forsetninguna "fyrir" alveg fyrirvaralaust. Þá birtir ekki yfir öllum! Fyrir vestan merkir hjá viðkomandi allt Vesturland og miðin, eða því er virðist. Visir.is er farinn að éta þetta upp. Reykvíkingar eru ekki "fyrir vestan" skv. íslenskri málvenju. En þeir eru raunar "fyrir sunnan" samkvæmt málvenju. Fyrir vestan merkir, í skilningi nær allra landsmanna eldri en tvævetur, á Vestfjörðum. Ekki orð um það meir. Eða hvað? Molaskrifari þakkar bréfið.
Af mbl.is (05.03.2015): Heimsmarkaðsverð á olíu hefur næstum því helmingast frá því seinasta sumar. Fréttaskrifarar hafa að mestu hætt að nota orðalagið í fyrra sumar. Seinasta sumar ber keim af ensku. Er að verða allsráðandi hjá fréttaskrifurum. Hefur svo sem verið nefnt áður.http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/03/05/oliuverdid_naer_helmingast/
Molalesandi benti á eftirfarandi af pressan.is (05.03.2015): Þessi ungi maður lifði á götunni" skv. greininni (um það bil í miðri grein) http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/bragi-pall-hryllingur-alkohols-og-kannabisefna---fardu-i-medferd - Ekki vel orðað. Þakka ábendinguna.
Lifandis ósköp geta langar íþróttafréttir sem skotið er inn milli frétta og veðurs í Ríkissjónvarpinu verið þunnar og innihaldsrýrar eins og var til dæmis á miðvikudagskvöld (04.03.2015).
Molaskrifari ítrekar tillögu sína um að Egill Helgason og hans fríða föruneyti fari til Færeyja og geri mannlífi og menningu hjá þessum góðu grönnum okkar verðug skil í nokkrum sjónvarpsþáttum. Það þarf að bæta fyrir unnin spjöll.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2015 | 08:58
Molar um málfar og miðla 1689
Ágúst Ragnarsson sendi eftirfarandi (03.03.2015). Hann lét fylgja að hér væri ekki um beina tilvitnun að ræða heldur væri þetta samandregið úr 2-3 viðtölum, en sett fram til að sýna dæmi um óvandað málfar:
,,Dæmi um ofnotkun og aukaorð. Viðmælandinn: HEYRÐU ! liðið inniheldur, hérna, marga frábæra, hérna, leikmenn og framkvæmdu leikmenn mínir , hérna, vel vítaköstin, sem var sterkari aðilinn sko! Hann segir: ,, Þetta "heyrðu" í byrjun viðtals er orðið útbreitt, og svo er mikið um "innihald" og menn "framkvæma" nú alla hluti og "aðilar" eru mjög algengir. Ekki gleyma "sko" í þriðja hverju orði og "hérna" í öðru hverju. Norskur vinur minn sem dvelur stundum á Íslandi spurði mig einmitt um hvað þetta "jénna" þýddi. Svar óskast.
Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta og svipað orðalag hefur maður því miður of oft heyrt.
Íslendingar á tánum vegna silfurvasa, sagði í fyrirsögn á mbl.is. Þessi fyrirsögn er út í hött. Að vera á tánum hefur í vaxandi mæli verið notað að undanförnu um það að vera á varðbergi, hafa gætur á sér eða einhverju. Sú notkun er reyndar ekki til fyrirmyndar eða að smekk Molaskrifara. Í þessari frétt er verið að fjalla um kaupæði sem runnið hefur á fólk vegna silfurvasa af tiltekinni gerð. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/03/04/islendingar_a_tanum_vegna_silfurvasa/
... þjónustan verði af sem bestum gæðum, sagði ráðherra í fréttum Stöðvar tvö (04.03.2015). Gæði eru ekki misjafnlega góð. Þjónusta getur verið misjöfn að gæðum. Ráðherrann hefði ósköp vel getað sagt, - að þjónustan yrði sem best. Dæmigerð uppskrúfun málsins og ekki til fyrirmyndar.
Úr hádegisfréttum Ríkisútvarps (04.03.2015): Nefndin hefur skilað ráðherra tveimur frumvarpsdrögum. Nefndin hefur skilað ráðherra tvennum frumvarps drögum, hefði þetta átt að vera. Drög er fleirtöluorð. Þessvegna tvenn drög. Ekki tvö drög.
Á Morgunvakt Ríkisútvarpsins er nú (03.03.2015) er nú farið að tala um málfarsmola, þegar málfarsráðunautur kemur að hljóðnemanum til skrafs og ráðagerða undir lok þáttarins. á þriðjudagsmorgnum. Þetta er þarft og áhugavert spjall. Ríkisútvarpið er að sækja í sig veðrið í þessum efnum. Því ber að fagna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2015 | 10:19
Molar um málfar og miðla 1688
Edda sendi Molum eftirfarandi (02.03.2015): ,,Alltof oft sér maður á netinu eða í dagblöðum notkun nafnorðsins, hor í hvk.
Í barnaskóla var manni kennt að orðið hor (úr nefi) væri karlkyns, horinn, en núna virðist það vera komið í hvorugkyn, horið.
Hvað veldur?
Takk fyrir Molana, Edda.
Molaskrifari þakkar Eddu bréfið. Hefur tekið eftir þessu líka. Kann ekki skýringu, en grunar að þetta sé þó alls ekki nýtt fyrirbæri.
Fín eftirfylgni í Kastljósi gærkvöldsins (04.03.2015) á kukli og snákaolíusölum. Molaskrifari saknaði þó þess, að ekki skyldi fjallað nánar um ristilskolun, sem rétt aðeins var nefnd á nafn. Hundruð Íslendinga hafa fallið fyrir auglýsingum um ristilskolun. Læknar sem Molaskrifari hefur rætt við segja hana í besta falli skaðlausa, en í versta falli lífshættulega. Léttir ekkert nema pyngju þess sem kaupir meðferðina.
Viðmælandi fréttamanns í Spegli Ríkisútvarpsins (02.03.2015) notaði orðalagið: Vöxtur í fjölgun ferðamanna .... Það var og. Vöxtur í fjölgun!
Af mbl.is (03.03.2015): ,,Lögreglumenn höfðu sjónpóst á húsinu meðan beðið var eftir liðsafla sérsveitar ríkislögreglustjóra. Lögreglumenn höfðu sjónpóst á húsinu? Hvað þýðir það. Hvað er að hafa sjónpóst á? Þýðir það ekki, að lögreglumenn höfðu gætur á húsinu, fylgdust með mannaferðum við húsið?
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/03/sersveitin_yfirbugadi_konuna/
Öllum sem líkar við Heimkaup.is geta unnið svona Acer-spjaldtölvu, segir í auglýsingu á fésbók. Ekki mjög traustvekjandi.
Nýr vefur Ríkisútvarpsins sá dagsins ljós í vikunni. Nokkurn tíma tekur að venjast nýju viðmóti á skjánum, en fljótt á litið virðist þarna hafa tekist heldur vel til. Molaskrifari á þó eftir að kynnast og vonandi venjast vefnum betur og læra að nýta hann.
Í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi (04.03.2015) var talað um sextíu þúsund gleraugu. Hér hefði að mati Molaskrifara farið betur á því að tala um sextíu þúsund gleraugnapör
Úr íþróttafréttum á visir.is (01.03.2015): Bikarinn á Brúnna. Brúna á þetta sennilega að vera, en Molaskrifari játar að hann skilur ekki samhengið. Hann er heldur ekki innvígður og innmúraður í veröld fótboltans. http://www.visir.is/bikarinn-a-brunna---sjadu-morkin/article/2015150309960
Í fréttinni er talað um darraðadans. Á að vera darraðardans. Darraður er spjót.
Af vef Ríkissjónvarpsins (01.03.2015): ,, ... en Edin Dzeko jafnaði metinn fyrir City korteri seinna. Þetta hefði átt að vera jafnaði metin. ,,... en bæði liðin koma einmitt frá höfuðborginni, var sagt í íþróttafréttum Ríkissjónvarps sama kvöld. Liðin voru bæði frá höfuðborginni. Þau voru ekki að koma frá höfuðborginni. Algengt að heyra þetta orðalag.
Í Molum gærdagsins var talað um misyndisfólk. Það átti auðvitað að vera misindisfólk. Þakka vini Molanna ábendingu um villuna. Sjónminnið eitthvað laskað hjá skrifara.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2015 | 09:29
Molar um málfar og miðla 1687
Höggdofa horfði Molaskrifari á Kastljós Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi (03.03.2015). Og var örugglega ekki einn um það. Fátt, ef nokkuð, er svívirðilegra, en að vekja falsvonir hjá dauðvona fólki og hafa það að féþúfu. Þetta var sannast sagna óhugnanlegt. Takk Jóhannes Kr. Kristjánsson og allir sem þarna komu við sögu. Sennilega fer viðskiptavinum Sjónarhóls í Hafnarfirði ekki fjölgandi á næstunni og varla hefur traustið aukist á Heilsutorgi Blómavals. Reynt var að stöðva sýningu þáttarins með lögbanni. Sýslumaðurinn í Reykjavík féllst ekki á það. Það var auðvitað frétt, - nema hjá Stöð tvö, Molaskrifari heyrði þess ekki getið í fréttum þar á bæ.
Að segja frá misyndisfólki, sem stundar starfsemi af þessu tagi, er þjónusta við þjóðina.
Kaupmenn blekki neytendur. Þetta stóð um hríð á skjá Ríkissjónvarpsins í upphafi frétta á sunnudagskvöld (01.03.2015). Þetta var ekki hvatning til kaupmanna að blekkja neytendur, þótt sú sé orðanna hljóðan. Það var verið að vitna til ummæla um að kaupmenn blekktu neytendur. Sá sem samdi þessa skjáborðafyrirsögn þarf að lesa upp og læra betur, - íslenska málfræði.
Verslunin taki of mikið til sín er samkynja fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (01.03.2015) http://www.ruv.is/frett/verslunin-taki-of-mikid-til-sin
Verkefni fyrir málfarsráðunaut.
Þættir Önnu Sigríðar Þráinsdóttur Orð af orði (síðasti þáttur var endurfluttur á mánudagskvöld 02.03.2015) ættu að vera skylduhlustun fyrir fjölmiðlafólk. Þátturinn er skemmtilega uppbyggður og fræðandi. Fínn þáttur.
Orðtakið að leiða ágreining í jörð sem gert var að umtalsefni í síðasta þætti og þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast einir um að nota, er eiginlega bull að mati Molaskrifara. Ekki er þetta gagnsætt og hver er hugsunin? Leiða ágreining í jörð! Þingmennirnir virðast éta þetta upp hugsunarlaust hver eftir öðrum
Minnir Molaskrifara á, að fyrir margt löngu átti Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra það til að flytja áherslu af fyrsta atkvæði orðs á annað eða þriðja atkvæði. Fyrr en varði voru fleiri þingmenn Framsóknarflokksins farnir að gera þetta líka. Á fréttastofu Sjónvarpsins töluðum við í gríni um forsætisráðherraframburðinn!
Af mbl.is (01.03.2015): Fréttastofa AFP hefur beðist afsökunar á því að hafa sagt franska milljarðamæringinn Martin Bouygues, látinn en þær fregnir munu hafa verið stórlega ýktar. - http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/03/01/ekki_latinn_eftir_allt/
Er Netmoggi að reyna að vera fyndinn með vísan til frægra ummæla Mark Twains? http://www.brainyquote.com/quotes/quotes/m/marktwain141773.html
Kannski var þetta bara óviljandi?
Mogginn á það nefnilega til að vera mjög fyndinn, stundum alveg óviljandi.
Fréttastjóra Ríkissjónvarpsins þótti greinilega ekki taka því að biðja okkur áhorfendur afsökunar í gærkveldi (03.03.2015) á því að seinni fréttir hófust meira en fimm mínútum of seint miðað við auglýstan tíma.
Kurteisi kostar ekki neitt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)