Molar um málfar og miðla 1917

 

KAUPMÁTTUR

Molavin skrifaði (29.03.2016): ,,Fréttastofa RUV hefur að undanförnu, bæði í útvarpi og sjónvarpi, fjallað um "kaupmátt eldri borgara." Ljóst má vera að ekki er hér átt við mansal - eða hvað fáist fyrir eldri borgara í viðskiptum - og því hæpið að tala um kaupmátt fólks; öllu heldur um kaupmátt ráðstöfunartekna umræddra aldurshópa.”. Þakka réttmæta athugasemd, Molavin.

 

ENN ER STIGIÐ Á STOKK

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á páskadag (27.03.2016) var sagt frá tónlistarhátíðinni á Ísafirði,sem lauk kvöldið áður. ,,Sjö flytjendur stigu á stokk”, var okkur sagt. Að stíga á stokk ( strengja heit) er notað um það þegar einhver lýsir því yfir að hann ætli að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert. Þetta orðalag er ekki notað um það þegar listamenn koma fram á sviði. En þetta heyrist því miður aftur og aftur , - og ekki bara í Ríkisútvarpinu.

 

VAR ALDREI Í SKÓLA

Í fréttum Ríkissjónvarp (26.03.2016) var rætt við Georg Breiðfjörð,sem varð 107 ára þann dag. Viðtalið var einnig birt á vef Ríkisútvarpsins . Bæði í viðtalinu og á vefnum segir: ,,Georg var aldrei í skóla, hann var aðeins í farskóla.  Farskólar voru líka skólar. Kennarar fóru milli bæja og kenndu, þar sem húsakynni voru rýmst og börn af nágrannabæjum sóttu kennsluna. Um þetta má meðal annars lesa í ágætri bók, ,,Faðir minn, kennarinn”, (Skuggsjá , Bókabúð Olivers Steins 1983) Þar má líka lesa hvað ungt fólk með menntaþrá, löngun, köllun nánast, til að kenna, lagði á sig mikinn þrældóm til að komast í skóla. Það er kannski ekki hægt að ætlast til þess, að ungir fréttamenn viti að farskólar voru skólar.

 

STAFSETNING

Eitt þeirra grundvallaratriða, sem, kennt var í stafsetningu hér áður fyrr (ásamt með réttri ritun orðanna , einkunn, miskunn, forkunn og vorkunn) var að í orðinu þátttaka eru þrjú t. Sá sem skrifaði þessa frétt á vef Ríkisútvarpsins (29.03.2016) hefur farið á mis við þennan fróðleik:

,,Meðal annars ráðherra í ríkisstjórn Íslands og fjallað um þáttöku annars áhrifafólks í íslenskum stjórnmálum í starfsemi aflandsfélaganna, sem til þessa hefur farið leynt.” . Sjá: http://www.ruv.is/frett/thrir-radherrar-tengdir-skattaskjolum

 

VEL GERT

 Fróðleg  heimildamynd þeirra Páls Magnússonar og Jóns Gústafssonar um Alzheimer-sjúkdóminn var sýnd í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (30.03.2016). Sú fjölskylda fyrirfinnst örugglega ekki á Íslandi, sem ekki hefur haft kynni af þessum grimma sjúkdómi, sem engin lækning hefur enn fundist við. Það eitt er víst að sjúkdómurinn birtist ekki með nákvæmlega sama hætti hjá neinum tveimur einstaklingum. Þetta var vel gert. Rannsóknir vekja vonir.  

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1916

 

FYRIRSAGNIR

Hversvegna hafa tölustaf í upphafi fyrirsagnar: 1 árs stúlka hvarf úr rúmi sínu (mbl.is 25.03.2016) ?

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/25/1_ars_stulka_hvarf_ur_rumi_sinu/

 Hversvegna ekki: Eins árs stúlka hvarf úr rúmi sínu ? Betra.

 

STULDUR

Molaskrifari hefur oft velt því fyrir sér hvað íþróttafréttamenn eiga við, þegar þeir tala um að íþróttalið hafi stolið sigrinum, eða næstum stolið sigrinum (25.03.2016). Hvenær vinna menn sigur, sigra, og hvenær stela menn sigri?

 

ÚTGÁFA NAFNS

,,Nafn hans hefur ekki enn verið gefið út”, sagði fréttamaður í hádegisfréttum Bylgjunnar á föstudaginn langa (25.03.2016). Átt var við grunaðan hryðjuverkamann. Nafn hans hafði ekki verið birt, - ekki hefur verið greint frá nafni hans , hefði til dæmis verið eðlilegra að segja.

 

 

UM

,, ... en eru nú um þrjú þúsund áttatíu og sjö”, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (25.03.2016) um fjölda félaga í tilteknum samtökum. Voru félagarnir ekki bara þrjú þúsund átta tíu og sjö, 3087 ? Ekkert um.

 

FALLAVILLA

Í fréttayfirliti Bylgjunnar á skírdag (24.03.2016) var sagt: ,,Sigmundur Davíð Gunnlaugsson telur að hann hafi ekki borið nein skylda til að ...” Enginn les yfir. Ekki frekar en venjulega. Ekki frekar en annarsstaðar. Honum hafi ekki borið nein skylda til ....

 

 

 

 

EKKI GOTT

Í frétt Stöðvar tvö (25.03.2016) um tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður, var meðal annars sagt: ,, Hún segir fjöldi erlendra ferðamanna,sem sækja hátíðina fara vaxandi á hverju ári.” Ekki gott. Þarna hefði til dæmis mátt segja: Hún segir að erlendum ferðamönnum, sem sækja hátíðina fari fjölgandi á hverju ári.

 

UM FÉ

 Þetta er fyrirsögn af fréttavef Ríkisútvarpsins (25.03.2016):Líst ekki á millifærslu án meiri fjár. Þetta er ambaga samkvæmt málkennd Molaskrifara. Þarna hefði til dæmis mátt segja: Líst ekki á millifærslu án meiri fjármuna.

http://www.ruv.is/frett/list-ekki-a-millifaerslukerfi-an-meiri-fjar

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1915

1915-16

GÓÐ GÆÐI

Úr frétt á mbl.is (23.03.2016) ,, Neyt­enda­stofa hvet­ur inn­flytj­end­ur og dreif­ing­araðila end­ur­skins­merkja að vera viss­ir um að merk­in séu af góðum gæðum. “ Af góðum gæðum! Með öðrum orðum að merkin séu vönduð að allri gerð. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/03/23/endurskinsmerki_innkollud/

 

VIÐTENGINGARHÁTTUR

Í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (24.03.2016) segir:     ,, Icelandair fljúgi til Brussel á sunnudag”. Þessi fyrirsögn opinberar að sá sem hana samdi kann ekki að nota viðtengingarhátt. Þetta orðalag er út í hött. Icelandair fyrirhugar að fljúga til Brussel á sunnudag, þegar vonast er til að flugvöllurinn hafi verið opnaður fyrir flugumferð að nýju.

Annað dæmi um ranga notkun viðtengingarháttar í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins (25.03.2016): Sigmundur grafi undan efnahagslegu fullveldi. - Á þetta að vera hvatning?

http://www.ruv.is/frett/sigmundur-grafi-undan-efnahagslegu-fullveldi

Helgi Haraldsson, prófessor emerítus í Osló hnaut einnig um þetta og nefndi í tölvubréfi til Mola (26.03.2016). Helgi spyr: ,,Er RÚV að að hvetja forsætisráðherra til fjárhagslegra hryðjuverka? Ekki er nema von að spurt sé! Þakka bréfið, Helgi.

 

Er ekki ástæða til að málfarsráðunautur ræði þetta við fréttamenn? Fjalli um viðtengingarhátt, hvernig nota skuli.

 

ENSKAN

Hér er öðru hverju fjallað um stöðuga sókn enskunnar inn í tungu okkar. Bílaumboðið Askja auglýsti nýlega Ess jú ví bíla í útvarpi . Ekki er Molaskrifari viss um að allir hlustendur hafi skilið um hverskonar bíla þarna var að ræða. Hér er um að ræða bíla, sem á ensku eru kallaðir SUV, Sport Utility Vehicle, bíla með drif á öllum hjólum, oft kallaðir jeppar eða jepplingar á íslensku.

 Í morgunútvarpi Rásar tvö slá umsjónarmenn gjarnan um sig með enskuslettum. Á miðvikudagsmorgni talaði umsjónarmaður um internship, en þýddi síðan og talaði um starfsnám. Hversvegna þurfti líka að nota enskuna? Algjör óþarfi.

 Og svo má nefna að flugfélagið WOW segist ,,gjarnan höfða til fjölskyldunnar með skráningarnúmer ( reyndar eru það einkennisstafir, ekki númer, strangt til tekið) á flugflotanum”. Félagið nefnir þar til sögunnar TF MOM, TF DAD, TF SIS,TF BRO og TF KID! Kannski má virða fyrirtækinu það til vorkunnar að það er kannski ekki síður að höfða til útlendinga en íslendinga.

 Kona,sem setur efni á fésbók um foreldra sína (24.03.2016) notar fyrir fyrirsögnina Ma&Pa.

Á góðri leið með að meika það, er fyrirsögn af mbl.is (25.03.2016).

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/25/a_godri_leid_med_ad_meika_thad_5/

 

 Á þriðjudagsmorgni (29.03.2016) talaði umsjónarmaður morgunþáttar Rásar tvö um að nú væri ,,high season norðurljósanna”, - um þessar mundir sæist best til norðurljósanna. Hversvegna þessar sífelldu enskuslettur í þessum oft ágæta þætti? Margir kunna dálítið og jafnvel mikið í ensku, en hafa ekki þessa sterku þörf fyrir að vera sífellt að flíka enskukunnáttu sinni. Hvimleitt.

 

 Þetta eru aðeins örfá dæmi. Er fólki alveg sama?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla1914

SKORTUR Á FJARVERU

Ágætur Molalesandi benti Molaskrifara á eftirfarandi í vefritinu Kjarnanum (20.03.2016): ,, Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og forsvarsmaður stærstu undirskriftasöfnunar Íslandssögunnar, segir skort á fjarveru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra frá Alþingi bitna á allri þjóðinni”. Biturt háð hjá Kára. Hann á ekki langt að sækja kaldrifjaðan húmor.

http://kjarninn.is/frettir/2016-03-18-segir-skort-fjarveru-sigmundar-davids-bitna-allri-thjodinni/

 

KLAUFALEGT

Í sunnudagsfréttum Bylgjunnar á hádegi (20.03.2016) var greint því að Íslendingur hefði ekki verið meðal hinna særðu í ódæðisverki ,sem framið var í Istanbul, - andstætt því sem stjórnvöld í Tyrklandi höfðu tilkynnt. Næsta kom svo úrelt frétt um að ekki væru fyrir hendi frekari upplýsingar um Íslendinginn, sem særst hefði! Þetta voru einkar klaufaleg vinnubrögð. Það var búið að vinna frétt. Um að gera að nota hana, þótt hún væri ekki lengur frétt.

 

ÁRTÍÐ  

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (20.03.2016) talaði mæt kona eins og á þessu ári væri hundrað ára ártíð Kristjáns Eldjárns fyrrverandi forseta Íslands. Sjötta desember á þessu verða liðin hundrað ár frá fæðingu Kristjáns. Ártíð er dánarafmæli. Hundrað ára ártíð Kristjáns verður 14. september 2082. Undarlegt hve mörgum verður fótaskortur á notkun orðsins ártíð.

 

 

DÝFLISSUSTRÝ

Hér í Molum var nýlega sagt frá nýrri hárgreiðslustofu í Garðabæ sem héti Deep House Hair. Vinur Molanna, sem er búsettur erlendis, hefur lagt til að stofan verði kölluð Dýflissustrý.  Góð hugmynd.

 

 

 

ER ÞAÐ ÖRUGGT?

Er það öruggt að enginn Íslendingur hafi særst? Svona spurði fréttamaður Ríkissjónvarps að kvöldi dags voðaverkanna í Brussel. Sendiherra Íslands, Bergdís Ellertsdóttir, svaraði af yfirvegun og skynsemi. Aðvitað var ekkert hægt að fullyrða um það. Ekki hafði verið greint frá þjóðerni þeirra, sem létust eða særðust. Áreiðanlega  voru tugir íslenskra ferðamanna í Brussel þennan dag, fólk sem sendiráðið vissi ekkert um og hafði ekkert samband haft við sendiráðið. Sendiráð Íslands og starfsfólk þess stóð sig greinilega með miklum ágætum þennan erfiða dag.

 

ORÐ AF ORÐI

Þáttur Önnu Sigríðar Þráinsdóttur, málfarsráðunautar Ríkisútvarpsins, Orð af orði, er konfekt fyrir þá sem áhuga hafa á tungunni. Þátturinn sl. sunnudag (20.03.2016) var þar engin undantekning. Gaman að vangaveltum um uppruna landaheitisins Noregur. Rifjaðist upp fyrir mér, að vinur minn Ivar Eskeland, sagði alltaf að landið héti Noreg. Norge væri bara dönsk prentvilla!

 

OF OFT

,, Framsýn stéttarfélag hefur eftirlit með því að starfsfólk þessara félaga sé greitt samkvæmt kjarasamningum samningum og að ....” Svona var tekið til orða í hádegisfréttum Ríkisútvarps (22.003.2016).. Þarna hefði auðvitað átt að segja, , -  að starfsfólki þessara félaga sé greitt ... Villur af þessu tagi heyrum við of oft í fjölmiðlum.

 

 

 Nú ætlar Molaskrifari að sitja á strák sínum fram yfir páska og gera hlé á nöldrinu. Segir bara við vini, velunnara og lesendur:

 

GLEÐILEGA PÁSKA!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1913

HROGNAMÁL

Þetta skrifaði starfsmaður 365 miðla, sennilega íþróttafréttamaður, á fésbókina á föstudagskvöld (18.03.2016):,, Svona gerist stundum í beinni. Okkur var kippt úr sambandi eftir leik Stjörnunnar og Njarðvíkur í kvöld. Við misstum allt hljóð úr headsettunum og ljósin fóru út.

Við héldum að við hefðum dottið úr loftinu og þá braust fram gangsterinn í mér.” Þetta eru nú ekki beinlínis verðlaunaskrif! Og varla snilld.

Og þessi ummæli voru höfð eftir þjálfara á mbl.is sama dag: „Sókn­ar­leik­ur­inn var ekk­ert frá­bær í síðari hálfleik en hann var nóg. Varn­ar­leik­ur­inn var „out­stand­ing.“ Þegar við spil­um góða vörn þá sköp­um við okk­ur svig­rúm þó sókn­in sé ekki hágæða.“ Það var og.

 

DROPINN OG MÆLIRINN

Og nú hefur dropinn fyllt mælinn, sagði bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum í hádegisfréttum Ríkisútvarps (20.03.2016). Hann átti við, að nú hefði kornið fyllt mælinn. Nú væri fólki í Eyjum meira en nóg boðið, nú væri mælirinn fullur. Algengt nokkuð, að farið sé rangt með þetta. Mæliker, mál, voru áður fyrr notuð til mæla korn. Sjá Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson, bls. 495. Oft verið nefnt í Molum.

Bæjarstjórinn sagði einnig, að meðan ekkert væri gert, gerðist ekki neitt. Það var auðvitað mjög spaklega mælt.

 

HÚSIÐ OPNAR

Húsið opnar klukkan nítján, sagði dagsrárkynningarrödd í Ríkissjónvarpinu á laugardagskvöld (19.03.2016), þegar verið var að kynna opin fund um heilbrigðismál í Háskólabíó. Húsið opnar ekki. Húsið verður opnað klukkan nítján. Villan var endurtekin í  tíu fréttum á mánudagskvöld (21.03.2016), en í Kastljósi   sama kvöld var réttilega sagt, - húsið verður  opnað.  Prik fyrir það.

 

 

ENN EITT DÆMI ...

Úr frétt af mbl.is (19.03.2016): ,,Frosti Sig­ur­jóns­son, þing­manni Fram­sókn­ar­flokks­ins, var ekki skemmt yfir um­mæl­um Vil­hjálms um Fram­sókn­ar­flokk­inn en að sögn Vil­hjálms nær óbeit hans á flokkn­um allt aft­ur til þess er hann var átta ára gam­all og fór að kynna sér stjórn­mál.” Þessi setning ætti auðvitað að hefjast svona: ,,Frosta Sigurjónssyni þingmanni Framsóknarflokksins var ekki skemmt .... “ Skortur á máltilfinningu. Vilhjálmur,sem nefndur er í setningunni, er Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokks. Glöggur maður,sem segir skoðanir sínar umbúðalaust, skýr og skorinorður. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/19/med_obeit_a_framsokn/

 

DUNGAL

Það eru sjálfsagt ellimörk á Molaskrifara, að oft finnst honum endurtekið efni vera með því besta sem er á boðstólum á Rás eitt. Á laugardagsmorgni (19.03.2016) var endurfluttur einn þriggja þátta (2:3) sem Árni Gunnarsson fréttamaður, seinna þingmaður og framkvæmdastjóri gerði um prófessor Níels Dungal árið 2004. Fínn þáttur. Dungal var frumherji á mörgum sviðum, til dæmis í baráttunni gegn reykingum, en maður umdeildur. Molaskrifari man enn hvað hann las bók Dungals , Blekkingu og þekkingu af mikilli áfergju á gelgju- unglingsárunum, mótþróaárunum! Bókstaflega gleypti hana í mig. Trúði öllu sem þar stóð. Eins og nýju neti. Þetta var um svipað leyti og ég fyrst las Bréf til Láru og Alþýðubók HKL! Þá var ég sannfærður kommúnisti. Það rjátlaðist af mér fljótlega eftir fermingu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um máfar og miðla 1912

 

MEIRI ENSKA

Í Garðapóstinum, (17.03.2016), sem dreift er í hús í Garðabæ, er sagt frá nýrri hárgreiðslustofu. Stofan heitir:  Deep House Hair og byggir á Walk-in kerfi. Kannski er stofan eingöngu ætluð enskumælandi fólki, sem býr í Garðabæ? En svokallað Walk-in kerfi mun þýða að ekki þurfi að panta tíma. Svo er auðvitað bara púkó og sveitó, eins og sagt var í gamla daga að gefa nýrri hárgreiðslustofu íslenskt nafn. Enskan er í sókn. Hvað þýðir annars Deep House Hair? Molaskrifari á að heita löggiltur  skjalaþýðandi úr og á ensku , en þetta skilur hann ekki. Sennilega er þetta bara merkingarlaust bull.

 

ÁREKSTUR

Á mbl.is (16.03.2016 ) var sagt frá þriggja bíla árekstri á Skothúsvegi í Reykjavík. Í fréttinni sagði: ,, Slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins var kallað út fyr­ir skömmu vegna þriggja bíla árekst­urs á Skot­hús­vegi, eða þar sem brú­in ligg­ur yfir Reykja­vík­urtjörn. “ . Hefði ekki verið einfaldara að segja að áreksturinn hefði orðið á Tjarnarbrúnni ( á Skothúsveginum) ? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/16/thriggja_bila_arekstur_2/

 

HUGSUNARVILLA?

 Glöggur lesandi benti Molaskrifara (18.003.2016) á eftirfarandi úr fésbókarpistli sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifaði til varnar eiginkonu sinni, sem varðveitir auð sinn á skattaskjólseyjunni Tortólu: ,, En þegar menn leggjast svo lágt að velta því upp hvort kona mín eigi ekki að teljast til hrægamma fyrir að hafa tapað peningum á bankahruninu get ég ekki látið það óátalið. Enginn á slíkar ákúrur síður skilið en hún.” Í þessu er hugsunarvilla, að Molaskrifari fær best séð. Einu ekki er þarna ofaukið.

 

BARNAMÁL Á SMARTLANDI

Fyrirsögn á barnamáli er á  svo kölluðu Smartlandi á mbl.is (17.03.2016). Þaðan er maður reyndar öllu vanur: Vann sig í þrot og klessti á vegg. Þarna þyrfti einhver fullorðinn að vera til eftirlits. Sjá: http://www.mbl.is/smartland/frami/2016/03/17/vann_sig_i_throt_og_klessti_a_vegg/

 

LJÁÐI

Göggur lesandi benti Molum á eftirfarandi á mbl.is (20.01.2016): ,,Hand­ritið fyr­ir Frozen 2 er nán­ast til­búið. Þetta seg­ir leik­kon­an Kristen Bell en hún ljáði Önnu prins­essu rödd sína í mynd­inni.” Ljáði rödd sína. Það var og http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/19/handrit_frozen_2_naestum_tilbuid/

 

GETTU BETUR

Spurningaþættir geta verið skemmtilegir í sjónvarpi, en þegar þeir eru teygðir upp í næstum einn og hálfan klukkutíma eins og lokaþáttur Gettur betur var síðastliðinn föstudag (18.03.2016) verða þeir eiginlega langir og  leiðinlegir.

 

FLJÚGANDI SKIP?

Svona spyr Áskell í tölvubréfi til Molaskrifara. Til efnið er frétt á mbl.is (16.03.2016) með fyrirsögninni:

 "Arg­entínu­menn skutu niður kín­verskt skip" Hann spyr: Getur verið að skipinu hafi verið sökkt? – Já, það kemur reyndar fram í upphafi fréttarinnar. Þetta orðalag er Molaskrifara ekki framandi. Hefur oft heyrt að skip, sem sökkt hefur verið, hafi verið skotin niður. Þakka bréfið, Áskell. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/16/argentina_skaut_nidur_kinverskt_skip/

 

 NÝBÓNAÐIR SKÓR

Af mbl.is (20.03.2016): ,,Hann var klædd­ur hvítri skyrtu, blárri peysu, bux­um úr flau­eli, jakka og svört­um skóm sem voru ný­bónaðir.”

Nú er samkvæmt Mogga farið að bóna skó! Molaskrifari hefur til þessa aðeins heyrt talað um nýpússaða eða nýburstaða skó. En maður er alltaf að heyra eitthvað nýtt!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1911

FISKUR OG FISKI

Rafn skrifaði (16.03.2016): ,,Sæll Eiður

Fólk virðist vera hætt að gera greinarmun á karlkynsorðinu fiski (fiskur-fisk-fiski-fisks), sem er notað um sjávardýr, og kvenkynsorðinu fiski (fiski-fiski-fiski-fiskjar), sem merkir fiskveiðar. T.d. var í fréttum beggja sjónvarpsstöðvanna í gærkvöldi talað um fiskihjalla suður á útnesjum. Slíks fyrirbæris hefi ég aldrei heyrt getið fyrr, þótt fiskhjallar hafi verið algengir í mínu ungdæmi. Þeir voru hins vegar aldrei notaðir til veiða.

Sama villan gengur ítrekað aftur, samanber „Fiskikónginn“, sem selur fisk en kemur mér vitanlega ekki nálægt veiðum, fiskibollur og ótal fleiri dæmi.” Kærar þakkir, Rafn,. Réttmæt ábending.

 

VISA INK

Í fréttayfirliti fyrir kvöldfréttir Ríkisútvarps á miðvikudagskvöld var enn einu sinni talað um Visa ink, án allra skýringa, - sennilega var átt við Visa í Bandaríkjunum, Visa Inc. (incorporated). Í fréttatímanum var sagt: ... þegar verðmæti Borgun jókst mikið. Verðmæti (fyrirtækisins) Borgunar jókst mikið.

 

ENN UM ÞOLMYND

Hér hefur oft verið bent á að germynd er ævinlega betri í fréttaskrifum en óþörf þolmynd. Þetta er af mbl.is (15.03.2015): ,,Flug­vél­arn­ar voru kyrr­sett­ar af SAS árið 2007 vegna vanda­mála með lend­ing­ar­búnað.” SAS tók vélarnar tímabundið úr umferð, eða notkun, vegna bilana í lendingarbúnaði fyrir 9 árum. Þetta eru víst  ,,nýju vélarnar”,sem Flugfélag Íslands var að kaupa.  Eða hvað? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/15/ein_af_kyrrsettum_flugvelum_sas/

 

EKKERT VIÐ AÐ BÆTA

Í seinni fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (16.03.2016) heyrði Molaskrifari ekki betur en ágætur fréttaþulur segði í frétt um málefni Landsbankans:,, Upplýsingafulltrúi bankans segir ekkert við yfirlýsinguna að bæta.” Vonandi var þetta misheyrn.

 

 

ÞARFUR ÞÁTTUR

Kiljan hans Egils Helgasonar er þarfur þáttur og vel unninn. Þar er vakin athygli á svo mörgu , sem annars færi fyrir ofan garð og neðan, - að minnsta kosti hjá þeim,sem þetta skrifar. Svo hefur Egill greinilega svo gaman að þessu, að hann eiginlega iðar í skinninu. Það er meðal þess sem gerir þáttinn góðan.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla1910

EFTIR AÐ ....

Molavin skrifaði (15.03.2016): "Tveir lög­reglu­menn særðust, ann­ar þeirra al­var­lega, eft­ir að hafa fengið skot í höfuðið." Úr frétt á mbl.is 15.3.2016. Ætli þeir hafi ekki særst ÞEGAR þeir fengu skot í höfuðið. Varla löngu síðar. Þessi "eftir-plagsiður" fréttaskrifara er nýlunda en sést ótrúlega víða. Hugsunarleysi og eftirlitsleysi fara því miður víða saman á fjölmiðlum. “  Rétt athugað, Molavin. Þakka bréfið.

 

SLÖK  SKILTAGERÐ

H.H. sendi Molaskrifara línu og mynd  af skilti frá  Mathúsinu í Flugstöðinni.  Á skiltinu stendur á  ensku:  ,,Please use  the baking paper  while you grill your  sandwich”. Látum þetta nú vera, þótt betur  færi ef til vill á að segja :  Please use the baking paper when grilling your  sandwich”.  En  íslenski textinn er  ekki traustvekjandi: Hann er  svona: ,, Notið bökunarpappír þegar grillað er samlokunar” Ótrúlegt en satt. Það þyrfti mikið  til að Molaskrifari hefði lyst á samloku frá þessu fyrirtæki.

 

AÐ KVEÐJA SÉR HLJÓÐS

Að kveðja sér  hljóðs er að  biðja um orðið, taka til máls.  Í frétt á  visir.is (15.03.20116) segir, að  þingmaður hafði brugðist illa við  svörum fjármálaráðherra við  fyrirspurn á Alþingi. Í fréttinni segir: ,,Þetta gerði hann á þingi í dag eftir að hafa kveðið sér hljóðs um fundarstjórn forseta.” Eftir að hafa kvatt sér  hljóðs  hefði þetta átt að vera að mati og samkvæmt máltilfinningu Molaskrifara.  http://www.visir.is/kristjan-gerir--mjog-alvarlega-athugasemdir--vid-svar-bjarna-um-borgunarmalid/article/2016160319177

 

 

URÐU VARIR VIÐ SKOTHVELLI

Í frétt á mbl.is  (15.03.2015) segir,, Lög­reglu­menn hafi þá orðið var­ir við skot­hvelli sem virt­ust koma frá fiski­hjöll­um þar skammt frá. “ Urðu varir  við skothvelli?  Heyrðu skothvelli , hefði maður haldið að þetta ætti að vera. Svo voru þetta  ekki  fiskihjallar. Þetta voru trönur , - um það segir  orðabókin, -  trönur  -trégrindakerfi til að þurrka, herða fisk á. Hjallur er allt annað, -  í málvitund  Molaskrifara.  Í Þórshöfn í Færeyjum var hann svo lánsamur  að búa um skeið í húsi þar sem var hjallur. Húsið var ekki neinn hjallur, en  kalda geymslan var hjallur. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/15/oskudu_sersveitar_vegna_hvellbyssna/

 Bóndi austur í sveitum,sem notað hefur svona  gashvelltæki til að fæla  álftir og gæsir  af ökrum og túnum, segir Molaskrifara að það taki  fuglana bara nokkra daga að venjast hvellunum. Svo halda þeir bara áfram að éta og   skemma tún og  akra.

 

GÓÐ DAGSKRÁRGERÐ?

Er það góð dagskrárgerð að senda út  danska þætti um kökubakstur (Det søde liv)  á besta tíma kvölds eins og  Ríkisjónvarpið gerði á þriðjudagskvöld (15.03.2016)?  Nei. Það finnst skrifara ekki.  Það er stundum eins og markvisst sé   verið að hrekja  stóra  hópa  frá  Ríkisskjánum. Kökuþættir  geta svo sem verið í lagi, - en ekki á besta tíma kvölds.   

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1909

SVARLEYSI BJARNA

Í fyrirsögn á mbl.is ( 14.03.2016) segir: Kvörtuðu undan svarleysi Bjarna. Þingmenn höfðu kvartað yfir því að Bjarni Benediktsson hefði ekki svarað fyrirspurn, sem beint hefði verið til hans. Molaskrifari játar að orðið svarleysi hefur hann aldrei heyrt áður. Var ekki verið að kvarta yfir þögn ráðherrans, - að hann hefði þagað þunnu hljóði í stað þess að svara fyrirspurninni?

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/14/kvortudu_undan_svarleysi_bjarna/

 

ENSKAN

Sókn enskunnar er eins og farg á móðurmálinu. Þegar þáttur var kynntur á Rás eitt í Ríkisútvarpinu á mánudagsmorgni (14.03.2016) var sagt að í þættinum yrðu flutt instrumental eða leikin lög. Það var öldungis óþarft að nota þarna enskt orð, sem er eins víst að ekki allir útvarpshlustendur hafi skilið.

 

FASTEIGNAAUGLÝSINGAR

Ágæt umræða var í Málskotinu í morgunþætti Rásar tvö á þriðjudagsmorgni (15.03.2016). Rætt var um málfar í fasteignaauglýsingum. Þarft að vekja máls á þessu. Það er hrein undantekning að sjá villulausa auglýsingu af þessu tagi. Hefur reyndar stundum verið nefnt hér í Molum. Svo verða lesendur að kunna að lesa úr orðalagi. Þegar sagt er til dæmis, eign (fasteignasalar kalla allt eign) sem gefur mikla möguleika, þá þýðir það á mannamáli yfirleitt að rífa þarf allt innan úr húsinu eða íbúðinni sem verið er að reyna að selja.

 

ENN UM AÐ STÍGA Á STOKK

Á sunnudaginn var (13.03.2016) var opnuð á vegum Vesturfarasetursins á Hofsósi í Hörpu ljósmyndasýningin Þögul leiftur, sem ættfæðingurinn Nelson Gerrard á Eyrarbakka í Manitoba hefur sett saman. Fróðleg sýning og vel upp sett. Vel þess virði að gera sér ferð í Hörpuna til að skoða þessa merku sýningu um landnemana vestra. Á undan opnuninni var flutt tónlist í Hörpuhorni, þar sem hljómburður er fádæma góður. Þar söng Karlakórinn Heimir. Þóra Einarsdóttir söng einsöng og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sté óvænt fram úr áhorfendahópnum og lék á flygilinn með söng Þóru. Bæði skiluðu sínu frábærlega vel, - sem og kórinn, svo unun var á að hlýða. Menntamálráðherra nefndi þetta á fésbók, en hann steig ekki á stokk, eins og það var orðað á fésbókinni og nú er æ oftar sagt um þá sem koma fram og flytja tónlist. Að stíga á stokk er að strengja þess heit að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, eins og oftlega hefur nefnt í Molum.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1908

 

UNDIR YFIRBORÐINU

Molavin skrifaði vegna fréttar á mbl.is (12.08.2016) "Ekki er vitað hvort kaf­bát­ur­inn sé sokk­inn eða ein­ung­is und­ir yf­ir­borðinu..." segir í frétt á Netmogga 12.03.2016. Væntanlega er hér átt við að hann sé "neðansjávar." Það verður æ algengara að blaðamenn þekki ekki íslensk hugtök og reyni sjálfir að þýða orðrétt úr ensku. - Kærar þakkir Molavin. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/12/leita_ad_kafbati_vid_nordur_koreu/

 

AÐ LJÚKA FRAMKVÆMDUM

Eftirfarandi er af fréttavef Ríkisútvarpsins (13.03.2016) ,,Í umfjöllun Herald kemur fram að strax næsta ár fór að síga á ógæfuhliðina og næstu tvö árin tókst ekki að ljúka við neinum framkvæmdum á tilsettum tíma .Svona var þetta reyndar einnig lesið í fjögur fréttum útvarpsins. http://www.ruv.is/frett/gomlu-verkefni-fl-group-beitt-gegn-trump Og óbreytt var þetta lesið í fréttum klukkan 18 00. Enn er spurt. Hlustar enginn í Efstaleiti, eða heyrir enginn?

 

ÓÞÖRF ÞOLMYND

Oft hefur hér í Molum verið minnst á hvimleiða og óþarfa notkun þolmyndar. Þorvaldur skrifaði (13.03.2016): "Maðurinn var svo handtekinn af lögreglunni kl. 5 í morgun og færður í fangageymslu lögreglunnar á Akureyri" Svona var sagt frá í frétt vefmogga í dag af skothríð á Akureyri. Á íslensku væri þetta: "Lögreglan handtók svo manninn kl. 5 í morgun og færði hann í fangageymslu sína". Satt og rétt, Þorvaldur. Þakka ábendinguna. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/13/var_ein_heima_asamt_2_ara_barni/

 

 

HANDLAGÐIR HNÍFAR

Nokkuð er algengt að sjá í lögreglufréttum í fjölmiðlum að lögreglan hafi haldlagt eitthvað, lagt hald á eitthvað, gert eitthvað upptækt, tekið eitthvað í sína vörslu. Í frétt á mbl.is (13.03.2016) segir hinsvegar: ,,Fundu lög­reglu­menn einnig hnífa í fór­um hans og voru þeir hand­lagðir.” http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/13/vimadir_okumenn_um_alla_borg/ Vímaðir ökumenn eru víst ökumenn í vímu vegna fíkniefna- eða áfengisneyslu.

 

AÐ VALDA

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (12.03.2016) var sagt frá manni sem ógnaði öryggisverði á Landspítalanum. Fréttaþulur sagði:

,, Maðurinn hafði einnig ollið skemmdum .....” Átt var við að maðurinn hefði einnig valdið skemmdum. Sögnin að valda vefst fyrir reyndustu mönnum.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband