28.2.2011 | 09:33
Molar um málfar og miðla 542
Þar féllu nokkur él, sagði veðurfræðingur í veðurfréttum Ríkissjónvarps. Molaskrifari man ekki til þess að hafa heyrt þetta orðalag, en það segir svo sem lítið. Og auðvitað er ekkert rangt við þetta orðalag. Þarna hefði einnig mátt tala um éljagang. Nokkuð algengt er líka, að sagt sé: Það kastaði éljum, gekk á með éljum.
Molaskrifari telur rétt að vekja sérstaka athygli á grein Karls Kristjánssonar starfsmannastjóra Alþingis í Fréttablaðinu í dag (28.02.2011) þar sem hann fjallar um einstæð vinnubrögð Ríkisútvarpsins og misnotkun á stofnuninni í þágu níumenninganna svokölluðu: http://www.visir.is/einhlida-og-villandi-umfjollum-ruv/article/2011702289975
Sagnfræðingarnir, sem fram komu í Silfri Egils (27.02.2011) afgreiddu Rómarrugl Ólafs Ragnars Grímssonar snyrtilega og kurteislega. Leitt er hinsvegar að forsetinn skuli vera búinn að eyðileggja orðatiltækið söguleg tímamót. Allt sem Ólafur Ragnar tekur sér fyrir hendur markar orðið söguleg tímamót. Því er þetta orðið merkingarlaust með öllu.
Glæpadómstóll Sameinuðu þjóðanna verður falið að rannsaka ...las fréttaþulur Ríkisútvarps hikstalaust í hádegisfréttum (27.02.2011). Hér hefði tvímælalaust átt að segja: Glæpadómstól, eða glæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna verður falið....
Í þættinum Landinn (27.02.2011) í Ríkissjónvarpinu voru sýndir tveir sólstólar, sem komið hafði verið fyrir á víðavangi. Fréttamaður tók svo til orða, að einhver hefði séð sér leik á borði og komið stólunum þarna fyrir. Molaskrifari áttar sig ekki hvaða erindi þetta orðatiltæki átti í þessu samhengi. Að sjá sér leik á borði er að nýta sér gott tækifæri til e-s eða grípa tækifærið til að koma einhverju fram í eiginhagsmunaskyni, svo vitnað sé í Merg málsins eftir dr. Jón G. Friðjónsson. Þessi notkun orðatiltækisins var út í hött.
Komi maður of seint, biðst maður afsökunar. Það er almenn kurteisi. Ríkissjónvarpið biðst ekki afsökunar þegar sýningu þáttar (Lífverðirnir 27.02.2011) seinkar um sjö til átta mínútur vegna þess að útsendingarstjórar kunna ekki nægilega vel á klukku. Það er ókurteisi.
Sjónvarpið sýndi þátt, sem hét: Hvert stefnir Ísland? Hvernig væri að gera þátt, sem héti: Hvert stefnir Ríkisútvarpið?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2011 | 13:06
Molar um málfar og miðla 541
Molaskrifari hélt að búið væri að gera orðalagið að sigra kosningar útlægt úr fréttastofu Ríkisútvarpsins. Svo er ekki. Það lifði góðu lífi í morgunútvarpi Rásar eitt (25.02.2011)
Hvað segir málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins um orðalagið: Höfum það gaman saman? Þetta orðalag glymur aftur og aftur í eyrum okkar í auglýsingum Ríkisútvarpsins um eigin dagskrá. Það er því heimasmíðað. Fróðlegt væri að heyra álit sérfræðings.
Í íþróttafréttum mbl.is (25.02.2011) var talað um að tiltekinn íþróttamaður vildi komast á lán.Líklega var átt við að hann vildi leika sem lánsmaður með öðru félagi. Meira úr mbl. is sama dag: Ingvar er aðeins annar Íslendingurinn sem keppir í háskólafimleikunum í Bandaríkjunum... Verið er að reyna að segja okkur að aðeins tveir Íslendingar hafi náð þeim árangri að keppa í fimleikum með háskólaliði í Bandaríkjunum.
Valsmenn sveifluðu svo leiknum sér í vil, sagði íþróttafréttamaður Stöðvar tvö (26.02.2011). Ekki er þetta vel orðað.
Molaskrifari hefur efasemdir um svohljóðandi fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (26.02.2011): Hveitiuppskera í uppnámi. Molaskrifari hélt að uppnám væri ringulreið eða eitthvað í þá áttina. Þarna er verið að tala um yfirvofandi uppskerubrest á hveiti.
Á bókamarkaði í Perlunni kennir margra grasa, góðra grasa. Molaskrifara sýnist þó, að þar sé ívið meira af dýrum bókum en var í fyrra. Samt er hægt að gera kjarakaup. Molaskrifari fór út með fjórar bækur fyrir 2800 krónur. Góðar bækur, að sjálfsögðu. Rakst þar á litla bók sem heitir Betrun, undirtitillinn er eitthvað í þessa veru: Hvernig bæta má stjórnun og leiðrétta mistök. Bókin kostaði aðeins 490 krónur. Höfundur er fyrrverandi forstjóri Sjóvátryggingafélags Íslands. Molaskrifari féll ekki fyrir freistingunni. Kannski verður þessi bók eftirsótt af söfnurum, er fram líða stundir. Hver veit? Bókina kynnti Vefverslun Forlagsins á sínum tíma með þessum orðum : Í bókinni rekur Þór hvernig hann tókst á við verkefnin sem biðu hans þegar hann settist í forstjórastól Sjóvár; rekstur, samskipti, starfsanda, ímynd – en ekki síður mistökin og lærdómana. Þetta er gagnleg lesning fyrir stjórnendur og leiðtoga og lífleg hvatning til að ná enn betri árangri. Í bókinni segir sennilega ekki frá örlögum bótasjóðs félagsins og 11-12 milljarða framlagi skattborgaranna til að bæta fyrir mistök eigenda og stjórnenda félagsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2011 | 00:03
Eins og karlinn sagði ....
![]() |
50% vilja að Ólafur Ragnar bjóði sig fram aftur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2011 | 09:19
Molar um málfar og miðla 540
Kafarar skoðuðu undir Goðafoss í dag var sagt í sexfréttum Ríkisútvarpsins (23.02.2011) Sama orðalag var notað í fréttum Ríkissjónvarps. Þetta er hálfklaufalegt orðalag. Betra hefði verið að segja, að kafarar hefðu skoðað botn Goðafoss í dag. Í yfirliti um efni sama fréttatíma var talað um að berja(uppreisnina í Líbíu) á bak aftur. Þetta er rangt. Talað er um að brjóta á bak aftur í merkingunni að bæla niður. Svo er líka hægt að tala um að berja eitthvað niður. Fleira var athugavert við þessa frétt eins og til dæmis að tala um... að höfuðborginni hafi verið lokað af.
Formaður Sjálfstæðisflokksins,sem Morgunblaðið kallaði nýlega vikapilt Streingríms J. á ekki upp á pallborðið í Hádegismóum. Mbl.is birt frétt um Icesave (24.02.2011) sem að meginefni var viðtal við Árna Pál Árnason. Í niðurlagi fréttarinnar var svo ein lína: Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins tekur í sama streng. Öðruvísi mér áður brá.
Það var mikil uppsláttarfrétt á Stöð tvö (22.02.2011) að Atlanta flugfélagið væri að flytja hergögn og líklega vopn fyrir Bandaríkjaher til Afghanistan. Kvöldið eftir varð fréttastofa Stöðvar tvö að éta þetta allt ofan í sig. Fréttin reyndist tilhæfulaus. Þegar fréttastofan var að bera þetta til baka var talað um innihald flugvélanna. Þar hefði farið betur á því að tala um farm flugvélanna.
Í fréttum Ríkissjónvarps (23.02.2011) var tekið svo til orða: Helmingur þeirra hugmynda...hafa átt viðkomu... Betra hefði verið: Helmingur þeirra hugmynda .... hefur haft viðkomu eða er kominn frá ...Svo var sagt: Hugmyndahús háskólanna verður hinsvegar lokað næsta mánudag. Betra hefði verið: Hugmyndahúsi háskólanna verður hinsvegar lokað á mánudaginn (kemur).
Frétt Stöðvar tvö (23.02.2011) um uppsagnir karla og kvenna á heilbrigðisstofnunum víðvegar um landið var botnlaus. Okkur var sagt, að 15 körlum og 92 konum hefði verið sagt upp. Okkur var hinsvegar ekki sagt hve margir karlar og hve margar konur störfuðu við þessar stofnanir áður en uppsagnir komu til framkvæmda.. Þess vegna vissum við ekkert um hvort hlutfallslega fleiri konum en körlum hefði verið sagt upp. Undarlega slök vinnubrögð.
Merkilegt hvað Ríkissjónvarpinu gengur illa að láta seinni fréttir hefjast á réttum tíma (23.02.2011) þótt ekkert hafi borið út af í dagskránni. Það þarf að fá fólk sem kann á klukku til að stjórna útsendingunni.
Fínt viðtal í Kiljunni við Unu Margréti Jónsdóttur, sem unnið hefur merkilegt menningarstarf með söfnun og rannsókn söngvaleikja. Molaskrifari tekur undir allt sem þau Páll Baldvin og Kolbrún sögðu um Fátækt fólk Tryggva Emilssonar. Seilist fljótlega upp í hillu til að endurlesa þá góðu bók.
Mjög góður pistill Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu (24.02.2011). Hún veltir því fyrir sér hvort fyrrum andstæðinga Ólafs Ragnars snúist til varanlegs fylgis við hann. Það eru kannski svona innanbúðarhugleiðingar. Kolbrún greinir ástandið rétt: Á Bessastöðum situr einstaklingur sem trúir fyrst og fremst á sjálfan sig og eigið ágæti og sér fátt annað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.2.2011 | 08:47
Molar um málfar og miðla 539
Í fréttum Stöðvar tvö var talað um, að tannlæknar væru krafnir um. Hér hefði átt að segja, að tannlæknar væru krafðir um. Eða þess væri krafist, að tannlæknar....
Beygingakerfið er á undanhaldi. Enn eitt dæmið um það var í mbl.is (23.02.2011): Ráðuneytið hefur náð samkomulagi við forsvarsmenn skólans um að nemendur sem hófu nám sl. haust verði gert kleift að ljúka námi sínu við skólann á vorönn 2012. Hér átti auðvitað að segja: ... nemendum ... verði gert kleift...
Dæmi um óþarfa þolmynd úr mbl.is (23.02.2011): Jón segir að fólkið sem komst inn í Túnis hafi verið rænt af mönnum í lögreglubúningum... Um þetta þarf svo sem ekki að hafa mörg orð.
Í Ríkissjónvarpinu var enn einu sinni sagt (22.02.2011): ... frá því forseti synjaði lögunum. Molaskrifari er ekki sáttur við þetta orðalag. Hefði fundist betra að segja: .. frá því forseti hafnaði því að undirrita lögin. Kannski er Molaskrifari einn um þá skoðun að ekki sé rétt að nota sögnina að synja með þeim hætti, sem Ríkissjónvarpið gerði.
Dagskrá íþróttahúss þjóðarinnar í Efstaleiti höfðaði ekki til Molaskrifara á þriðjudagskvöldið (22.02.2011). Hann horfði því á Lárus Blöndal hæstaréttarlögmann, fulltrúa stjórnarandstöðunnar í Icesave saminganefndinni útskýra málið í samtali við Ingva Hrafn í ÍNN stöðinni. Lárusi tókst einstaklega vel að útskýra þetta flókna mál og þær áhættur sem felast í hvorum þeirra tveggja kosta sem blasa við. Annarsvegar að samþykkja þann samning sem fyrir liggur eða láta málið fara fyrir dómstóla. Eftir útlistun Lárusar er ekki hægt að velkjast í vafa um það hvor kosturinn sé betri. En auðvitað eru þeir til sem munu halda áfram að berja hausnum við steininn og kyrja: Við borgum ekki. Við borgum ekki , undir stjórn Morgunblaðsins og fyrrum forkólfa Sjálfstæðisflokksins.
Ragnar Hall, hæstaréttarlögmaður gerði Icesave málinu einnig mjög góð skil í Kastljósi Ríkissjónvarpsins (22.02.2011). Hann talaði mannamál, þannig að allir gátu skilið. Takk fyrir það.
Það er til marks um vinnubrögð Morgunblaðsins í Icesave málinu að í dag (24.02.2011) birtir blaðið leiðréttingu frá forstjóra ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Hann ber af sér sakir. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins gerði honum upp skoðanir. Laug upp á hann , heitir það á íslensku. Ný vinnubrögð á Mogga. Ekki hvarflar að blaðinu að biðja viðkomandi einstakling afsökunar. Morgunblaðinu er ekkert heilagt í blindri baráttu gegn Icesave. Allra síst sannleikurinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.2.2011 | 10:41
Molar um málfar og miðla 538
Ólafur Ragnar mun eiga fund með páfa á þriðjudag og fær hann einkaáheyrn en slík þykir afar sjaldgæft,(mbl.is 22.02.2011) Það er auðvitað eins og hvert annað bull ,að það sé sjaldgæft að þjóðhöfðingjar fái einkaheyrn hjá páfa. Blaðamenn láta forsetaskrifstofuna plata sig. Það þætti sæta tíðindum, ef þjóðhöfðingi ,sem óskar eftir áheyrn fengi ekki áheyrn. Morgunblaðið er gengið í lið með forsetaskrifstofunni að reyna að gera Ólaf Ragnar að merkilegri persónu en hann er. Sjá annars til gamans skýringu orðatiltækisins að tala við páfann á bls. 656 í bókinni Mergur málsins eftir dr. Jón G. Friðjónsson
Á fréttavef Ríkisútvarpsins (21.02.2011) var skrifað um hungursneið. Hér átti að skrifa hungursneyð, neyð af nauð.
Ærið oft virðist fréttamönnum verða fótaskortur, þegar fjallað er um strand Goðafoss utan við Frederiksstad. Í fréttum Stöðvar tvö (21.02.2011) var verið að segja frá því hvenær ætti að freista þess að draga skipið á flot. Þá var sagt: ... en sjávarföll verða einkar hentug þá. Molaskrifara finnst ótækt að tala um að sjávarföll verði hentug. Betra væri að segja til dæmis, en þá stendur vel á sjó. Eða, en þá verður hásjávað.
Meira um Goðafossfréttir og nú af mbl.is (21.02.2011), en þar segir: Gert er ráð fyrir því að hafsögumaður fari frá borði nokkrum sjómílum síðar en hann gerði.
Aðeins um sex skipalengdum frá þeim stað þar sem lóðsinn yfirgaf Goðafoss, sigldi skipið í strand, þá innan þeirra marka sem hafsögumaður á að vera viðstaddur. Við þessar fáu línur er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi er óeðlilegt að segja, - nokkrum sjómílum síðar. Betra hefði verið , nokkrum sjómílum utar. Rangt er að tala um skipalengdir, ætti að vera skipslengdir. Svo er ekkert til sem heitir hafsögumaður, rétta orðið er auðvitað hafnsögumaður. Öll er fréttin svolítið í aulastíl.
Meira af mbl.is (22.02.2011). Í frétt af jarðskjálftunum á Nýja Sjálandi segir: Björgunarsveitir vinna nú í gegnum nóttina í Christchurch í Nýja-Sjálandi til að bjarga fólki ... Hér skín enskan hrá í gegn, - work through the night Sá sem hefur þýtt þessa frétt úr ensku er ekki góður í íslensku.
Málsmetandi stjórnmálamenn eiga að sneiða hjá Útvarpi Sögu og þeim sora sem þar er oft að finna. Allra síst eiga þeir að ræða við Arnþrúði Karlsdóttur, Pétur Gunnlaugsson og Guðmund Franklín Jónsson. Í endurteknum þætti (að morgni 22.02.2011) fullyrti símavinur við Arnþrúði Karlsdóttur að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefði samþykkt Icesave vegna þess að það hefði verið skilyrði fyrir því að hann fengi 20 milljarða lán hjá Deutsche Bank. Hefurðu sannanir fyrir því , spurði útvarpsstjórinn. Svona smá, svaraði símavinur útvarpsstjórans og hún hélt samtalinu áfram athugasemdalaust. Eftir stóð alvarleg ásökun, rógur og lygi. Ekkert var dregið í efa. Þetta eru svo vond vinnubrögð að engu tali tekur.
Í sporum Bjarna Benediktssonar mundi ég aldrei koma nálægt þessari stöð. Það er fyrir neðan virðingu hans. Langt fyrir neðan. Það er fyrir neðan virðingu þingmanna að koma þarna til að ræða stjórnmál, nema kannski þess eina sem þar virðist kominn í fast starf. Alvöru stjórnmálamenn ættu ekki að virða þessa útvarpsstöð viðlits.
Það er ótrúlegt, að sómakær fyrirtæki, að maður skyldi ætla, skuli auglýsa í Útvarpi Sögu Molaskrifari er að koma sér upp lista yfir fyrirtæki sem auglýsa í Útvarpi Sögu svo hann geti sneitt hjá þeim og beint viðskiptum sínum annað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2011 | 08:25
Tvískinnungur og rökleysur á Bessastöðum
Orðréttar tilvitnanir í ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar á blaðamannafundinum sl. sunnudag sýna hvernig tvískinnungur og rökleysur ráða nú ríkjum á Bessastöðum. Forsetinn heldur líklega að upp til hópa séum við kjánar og þess vegna sé í lagi að tala til okkar í ósamrýmanlegum þversögnum. Það gerði hann á sunnudaginn var.
Á blaðamannafundinum sl. sunnudag sagði Ólafur Ragnar Grímsson orðrétt: „Auðvitað er það ekki forsetaembættisins að vera einhverskonar matsstofnun á áreiðanleika slíkra undirskriftasöfnuna (svo!) eða vera einhverskonar fræðastofnun, sem metur það." Skýrt. Forsetaembættið er engin eftirlits- eða matsstofnun. En, - svo bætti forseti lýðveldisins við: „En við gerðum hinsvegar ákveðna svona könnun". Allt í einu er forseta embættið orðið það sem var ekki fyrir sekúndum síðan , matsstofnun . Forsetinn hélt áfram: „ Við ákváðum að hringja í fleiri sem höfðu skráð sig heldur en aðstandendur könnunarinnar gerðu. Ég ætla ekki að fara að nefna tölur í því, en það voru sem sagt fleiri en þeir hringdu í sjálfir.og ef ég færi að nefna tölur , þá væri eins og við værum einhver fræðileg stofnun til að meta þetta, en ég get hinsvegar sagt það hér og við náðum í svona þorrann af þeim, sem við reyndum að hringja í og 99% af þeim sem við náðum í, játuðu því að þeir hefðu sett nöfn sína á þessa lista. Það er satt að segja hærra hlutfall, sem kom fram í okkar athugun ( Innskot mitt: En við erum auðvitað ekki neinn athugunaraðili !) heldur en þeirri athugun ,sem aðstandendur könnunarinnar framkvæmdu. Við hringdum bæði í fleiri og jásvara hlutfallið var hærra. Þeir voru með 93% og við vorum með um það bil 99%. Ef ég færi að gera það (Innskot mitt: Nefna tölur. Segja frá því í hve marga var hringt) Nei, ef ég gerði það þá væri eins og við værum einhver formlegur eftirlitsaðili. (Innskot mitt Halló! Tölurnar skipta ekki máli. Það sem skiptir máli er að það var hringt og þar með var forsetaembættið búið að taka að sér eftirlitshlutverk.)
Forsetinn hélt svo áfram:„ Mér finnst hinsvegar rétt vegna þess að ég vil bara segja frá málinu að við vildum svona í ljósi umræðunnar er hafði farið fram, við höfum ekki gert það áður, - í ljósi umræðunnar kanna það vegna þess líka að þeir hringdu ekki í mjög marga, eða þeir hringdu í eitt hundrað eða svo. Við tókum sem sagt slembiúrtak (Innskot mitt: Við sem vorum hvorki eftirlits mné matsaðili !)
Forsetinn neitar að gefa upp í hve marga var hringt. Hann neitar líka að gefa upp hverjir framkvæmdu þessa könnun fyrir forsetaembættið. Morgunblaðið sagði (21.02.2011) að könnum hefði verið framkvæmd af „starfsmönnum skrifstofunnar og aðilum þeim tengdum". Voru fjölskyldur starfsmanna notaðar til verksins? Hverskonar rugl er þetta ? Hvervsgena þessa leynd. Af hverju má þjóðin ekki vita í hve marga var hringt? Hversvegna þennan leyndarhjúp? Er þarna eitthvað, sem ekki þolir dagsbirtu og verður því að leyna ? Þeir sem voru samferða Ólafi Ragnari á Alþingi eru ýmsu vanir af hans hálfu. En það er ótrúlegt að forseti landsins skuli bjóða íslenskri þjóð upp á svona rakalaust bull. Það gæti líklega hvergi gerst nema á Íslandi og líklega mundi enginn þjóðhöfðingi annar í lýðræðisríki en Ólafur Ragnar Grímsson leggjast svona lágt. Og þetta sitjum við uppi með.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.2.2011 | 16:02
Skilgreiningar hannaðar eftir hendinni
Forseti lýðveldisins hannar nú nýjar skilgreiningar eftir hendinni til að þjóna hentisemi sinni og persónulegum metnaði. Þjóðin er löggjafinn, er alveg ný skilgreining. Hún finnst líklega hvergi á bókum, en hún hentar núna, þegar Ólafur Ragnar Grímsson er byrjaður að búa sig undir framboð til fimmta kjörtímabilsins á Bessastöðum. Hann er alltaf að reyna að gera það sem enginn hefur áður gert, jafnvel þótt með endemum sé.
Það er annars svolítið hlálegt að sú staða skuli nú vera uppi, að Ólafur Ragnar skuli að öllum líkindum ætla sér að sitja fimmta kjörtímabilið á Bessastöðum í skjóli ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra og ýmissa helstu forkólfa gamla Sjálfstæðisflokksins. Þetta er ekki síst hlálegt í ljósi þess að einu sinni sagði forsætisráðherra um Ólaf Ragnar Grímsson, að hann mundi aldrei, aldrei sitja sem forsætisráðherra í skjóli þess manns. En nú gæti farið svo að Ólafur Ragnar sæti eitt kjörtímabil í viðbót í skjóli ritstjóra Morgunblaðsins á Bessastöðum. Undarleg er veröldin og ólíklegustu menn sænga nú saman í pólitík. (Politics makes strange bedfellows, er sagt á ensku)
Á blaðamannafundinum á Bessastöðum, sagðist Ólafur Ragnar alls ekki vera að breyta stjórnskipan landsins. Auðvitað er hann að því. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Forsetinn sniðgengur fulltrúalýðræðið og baðar sig nú í fjölmiðasólinni. Hann gæti þó brennt sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.2.2011 | 08:17
Molar um málfar og miðla 537
Fínt orð fréttaskýring. Óþarfi að tala um fréttaútskýringu eins og gert var í morgunútvarpi Rásar tvö (21.02.2011)
Undarlegt fréttamat Ríkissjónvarpsins (20.02.2011) að tala við tvo mótmælendur við Bessastaði, sem höfðu ekkert fram að færa. Í beinu útsendingunni frá Bessastöðum sagði fréttamaður Ríkissjónvarpsins að 40 þúsund undirskriftir og 56 þúsund undirskriftir væru mjög svipaðar tölur. Meira að segja máladeildarstúdent veit að 40 og 56 eru ekki svipaðar tölur. Góð frammistaða Boga Ágústssonar í beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins á sunnudag.
Þótt Molaskrifari sæi ekki nema lítið eitt af dagskrá sunnudagskvöldsins í Ríkissjónvarpinu, fer ekki milli mála, að ár og dagur er síðan sjónvarpið hefur boðið okkur jafn góða dagskrá, - og meira að segja sígilda, fína bíómynd með úrvalsleikurum. Guð láti gott á vita, eins og þar stendur.
Molaskrifari hefur alltaf svolítið gaman af því, þegar ábendingar hans eru teknar upp í Daglegu máli í morgunútvarpi Rásar eitt. Eins og þegar rætt var um hörmungina, sem í auglýsingu var kölluð anti wrinkle augn roller (21.02.2011) og skiptir þá engu hvar fyrst var vakin athygli á málinu. Í þessum sama þætti var talað um árangurslaust lögtak. Molaskrifari er ekki lögfróður, en minnist þess ekki að hafa heyrt talað um árangurslaust lögtak. Oft er hinsvegar talað um árangurslaust fjárnám, þegar eignir eru ekki til staðar til greiðslu skuldar. Hvað segja lögfróðir um þetta?
Úr dv.is (20.02.2011) 1200 milljón króna lán Landsbankans til Fjárfestingarfélagsins Ness sem er í eigu Jóhannesar Ólafssonar svipar mjög til annarra lána sem veitt voru á síðustu mánuðunum fyrir efnahagshrunið. 1200 milljón króna lán svipar ekki til, - 1200 milljóna króna láni svipar til...
Ákveðið hefur verið að friða Langasjó. Það er góð ákvörðun. Eitthvað er eignarfall orðsins á reiki. Menn segja og skrifa ýmist Langasjós, eða Langasjóar. Líka mætti segja Langasjávar. Fróðlegt væri að vita hver málvenja er í Skaftafellssýslum í þessu efni.
Í fréttum Stöðvar tvö (20.02.2011) var talað um mál væri á bið og að stöðva olíuleka frá Goðafoss. Hvorugt getur talist til fyrirmyndar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2011 | 11:13
Molar um málfar og miðla 536
Óljóst er hvenær Goðafoss verður fluttur af strandstað í Noregi, segir á fréttavef Ríkisútvarpsins (19.02.2011). Nákvæmlega sama orðalag var reyndar notað í hádegisfréttum. Það er ekki í samræmi við málvenju að tala um að flytja skip af strandstað. Skip eru ekki flutt af strandstað. Vonandi verður Goðafoss fljótlega dreginn á flot af skerinu.
Undarlegt er að tala um Halldór Laxness og Ólínu Andrésdóttur sem „textahöfunda" eins og gert var í Útsvari (18.02.2011). Bæði voru þau skáld og ortu ljóð. Og ekki hækkaði risið á þessari þjóðarstofnun , þegar útvarpsstjórinn gerði lítið úr Bandalagi íslenskra listamanna í hádegisfréttum daginn eftir (19.02.2011). Bandalagið hafi gerst svo djarft að gagnrýna íþróttadekrið í Efstaleiti. Það er engu líkara en listamenn eigi ekki upp á pallborðið hjá stjórnendum Ríkisútvarpsins.
Af mbl.is (19.02.2011): Skíðasvæðið í Bláfjöllum verður lokað í dag vegna mikils vinds. Betra hefði verið að segja að lokað væri vegna hvassviðris. Kannski er þetta bara sérviska Molaskrifara.
Í sunnudagsblaði Moggans (20.02.2011) er talað um áætlunarskipið Titanic.Áætlunarskip ? Eðlilegast hefði verið að tala um farþegaskipið Titanic.
Þeir sem stjórna auglýsingadeild Ríkisútvarpsins eru ekki starfi sínu vaxnir. Auglýsingadeildin í Efstaleiti tekur við öllu sem að henni er rétt athugasemdalaust. Á föstudagskvöld i (18.02.2011) var sagt í auglýsingu, að tiltekin fyrirtæki felldu niður virðisaukaskatt af vörum um helgina. Þetta eru ósannindi. Fyrirtæki geta ekki fellt niður virðisaukaskatt. Fyrirtæki geta veitt afslátt, sem nemur virðisaukaskattsprósentunni. Þetta er því miður bara enn eitt dæmið um óvönduð vinnubrögð í Efstaleitinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)