Molar um málfar og miðla 1878

RÍKISSJÓNVARPIÐ,,GENGUR PLANKANN

Molavin skrifaði (01.02.2016):,, Ríkissjónvarpið sagði í fréttafyrirsögn í kvöld (1.2.2016): "Samfylkingin gengur plankann" þegar fjallað var um slakt gengi í Gallup-könnun. "To walk the plank" er algengt orðtak í enskri tungu, komið frá þeirri þjóðsögu að sjóræningjar hafi tekið menn af lífi með því að láta þá ganga með bundið fyrir augu eftir planka og út í sjó við fögnuð þeirra sem fylgdust með. 

 

Burtséð frá því að erfitt er að yfirfæra þessa samlíkingu við aftöku og gleði áhorfenda á slakt gengi í skoðanakönnun á miðju kjörtímabili - þá er það nú varla RUV samboðið að sletta enskum orðaleikjum í fyrirsögnum þegar við eigum margar góðar, íslenzkar. Það eru ekki allir áhorfendur Sjónvarps jafn sleipir í enskunni og viðkomandi fréttamenn telja sig vera. "Feigðarför" væri vitaskuld góð þýðing á orðtakinu, hvort sem þessi túlkun fréttamanns getur talizt til fréttaskýringar eða gráglettni.” Molaskrifari þakkar bréfið. Hann hnaut um þetta líka. Fannst það í fyrsta lagi asnalegt og í öðru lagi montlegt.

 

 

 LANGT ER SEILST

Undarleg ,,frétt” (verðskuldar reyndar ekki það heiti) var þrídálkur á forsíðu Morgunblaðsins á mánudag (01.02.2016). Þar var agnúast út í það að Mörður Árnason íslenskufræðingur læsi Passíusálmana í Ríkisútvarpinu nú á föstunni. Tilefni skrifanna er að Mörður Árnason á sæti í stjórn Ríkisútvarpsins og er varaþingmaður Samfylkingar. Kannski er það skoðun Morgunblaðið, að menn verði ólæsir við það að taka sæti í stjórn Ríkisútvarpsins og vera varaþingmenn!

Mörður Árnason sá um mjög vandaða útgáfu Passíusálmanna, sem kom út í fyrra. Hann er líka afburða góður lesari. Það geta allir heyrt, sem leggja við eyrun eftir tíu fréttir á Rás eitt á kvöldin.

Þessi vinnubrögð Morgunblaðsins eru sérkennileg, lágkúruleg. Enn setur þetta gamla blað niður.

 

STIGU ÚR SÆTUM

Svona lauk frétt mbl.is um að sómakonunnar og brautryðjandans Ragnhildar Helgadóttur fv. þingmanns og ráðherra hefði verið minnst á þingfundi á mánudag (01.02.2106).

,, Að ræðu Kristjáns lok­inni stigu þing­menn úr sæt­um.” Ótrúlegt að svona villa skuli sleppa í gegn. Hvar voru síurnar og yfirlesturinn? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/01/thingmenn_minntust_ragnhildar/

 

HEIÐRÍKIÐ!

Trausti benti á frétt á mbl.is (30.01.2016): Í fréttinni segir meðal annars: "Í dag fór frostið niður í fjór­tán stig í heiðrík­inu á Suður­landi." Jamm og já!- sagði Trausti. -  Ekki nema von. Hér var átt við heiðríkju, - heiðan himin. Sjá:

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/30/frostid_for_nidur_i_14_stig/

 

AÐ SVIPA TIL

Úr frétt á mbl.is (28.01.2016) um torséða þotu, sem Japanir hyggjast taka í notkun: ,, Þotan er sögð svipa til hinn­ar banda­rísku F-22 Raptor, sem fram­leidd er af Lockheed Mart­in vest­an­hafs.”

Einhverju(m) svipar til einhvers. Eitthvað líkist einhverju. Molaskrifari hefði orðað þetta á annan veg, til dæmis: Sagt er að þotunni svipi mjög til hinnar bandarísku ... http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/01/28/torsed_orrustuthota_synd_i_japan/

 

VIÐ SAMA HEYGARÐSHORNIÐ

Rósa sendi Molum ábendingu (30.01.2016) og segir að mbl.is sé enn við sama heygarðshornið. Hún vísar til þessarar fréttar:
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/01/30/sextan_forust_ur_hungursneyd/

Fyrirsögn fréttarinnar er: Sextán fórust úr hungursneyð. Í fréttinni segir:,, Að minnsta kosti sex­tán manns til viðbót­ar hafa far­ist úr hung­urs­neyð í bæn­um Madaya á Sýr­landi síðan bíla­lest með neyðargögn kom til bæj­ar­ins fyrr í mánuðinum. “ . Fólkið dó úr hungri,- svalt í hel. – Þetta hefur nýlega verið nefnt í Molum, Molar um málfar og miðla 1868, 18.01.2016.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG


Molar um málfar og miðla 1877

 

UM KYNNINGAR OG FLEIRA

Þórarinn Guðnason, vinur Molaskrifara og vinnufélagi á árum áður, sendi eftirfarandi (28.01.2016) ,,Sæll félagi,

Ég hef aldrei almennilega skilið þegar verið er að tala um að fólk sé kynnt fyrir dauðum hlutum. Þannig varð mér á að skella upp úr, þegar ég las eftirfarandi klausu á visir.is, í grein eftir Eirík Stefán Ásgeirsson, um EM-mótið í Póllandi: 

"Dagur hefur verið duglegur að kynna leikmenn sína fyrir íslenskum drykkjar- og matvælum en í hann bauð sínum mönnum upp á Tommaborgara í æfingabúðunum í Berlín fyrir mótið". 

Tókust leikmenn í hendur við veitingarnar, eða hvað?

Fyrir utan ,,drykkjar- og matvælum" orðalagið og fleira, finnst mér nú líka á mörkunum að þjálfari haldi upp á sigur í leik með kassa af bjór, - í beinni útsendingu en það er annað mál.” Kærar þakkir, Þórarinn. Tek undir með þér í einu og öllu og þakka bréfið.

 

ÞRÍR FYRIR TVEIR!

Stefán Haraldsson skrifaði (29.01.2016): ,,Góðan daginn Eiður.
Nú bjóða margar verslanir vörur sínar á útsöluverði.
Allalgengt er að gefið sé í skyn að hluti keyptra vara fáist ókeypis.
Til dæmis: tveir fyrir einn.
Flestir skilja vel hvað átt er við.
En þessa dagana er verslun í bænum að auglýsa tilboð á vörum sínum á Bylgjunni. Þar eru ekki boðnir tveir fyrir einn, heldur þrír fyrir tveir.” Ja, hérna! Kærar þakkir ábendinguna, Stefán.

ENN UM VERÐFELLINGU ORÐANNA

Í fimm fréttum Ríkisútvarpsins (29.01.2016) var okkur sagt að pólska þjóðin hefði verið í sárum eftir að hafa tapað handboltaleik á móti Króatíu með nokkuð miklum markamun. Pólska þjóðin í sárum??? Hvers vegna í ósköpunum er íþróttadeildin látin komast upp með þetta bull? Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti, sem þjóð er sögð í sárum eftir tapaðan boltaleik. Er engin verkstjórn á þessari fjölmennustu fréttastofu landsins?

 

 

 

GÖMUL PLATA

Segja sjálfsagt sumir. Ekki skal því neitað. Eða gömul vísa. Enn einu sinni riðlaðist dagskrá Ríkissjónvarpsins á föstudagskvöld (29.01.2016) vegna yfirgangs íþróttadeildar. Fréttir hófust tíu mínútum of seint. Hversvegna? Þjóðverjar og Norðmenn voru að spila handbolta í Póllandi. Norska ríkissjónvarpið, NRK1 sá ekki ástæðu til að sýna þennan leik. Heldur ekki NRK2. Og ekki heldur NRK3. Kannski þarf hvorki útvarpsstjóra, dagskrárstjóra né fréttastjóra. Íþróttadeildin sér bara um þetta.

 

PRÓFKJÖR

Nú fara í hönd prófkjör víða í Bandaríkjunum vegna næstu forsetakosninga. Þess vegna er kannski ástæða til að minna á, að ef. flt. af orðinu prófkjör er prófkjöra ekki prófkjara eins og stundum hefur sést.

http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=pr%C3%B3fkj%C3%B6r

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband