15.2.2016 | 09:47
Molar um málfar og miðla 1887
FÓR MIKLUM
Glöggur Molalesandi benti á eftirfarandi á mbl.is (13.02.2016):
,,Benedikt Valsson fór miklum í græna herberginu í söngvakeppni Sjónvarpsins í kvöld. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Enn eitt dæmið um það þegar fákunnandi fréttaskrifarar fara rangt með orðtök. Þarna hef enginn lesið yfir. Rétt hefði verið: Benedikt Valsson fór mikinn .... Að fara mikinn, merkir venjulega að láta mikið fyrir sér fara, vera stórorður.
Sjá: http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/02/13/nylon_og_sinfo_eftir_20_ar/
ALLT FER FRAM
Þórhallur Birgir Jósepsson skrifaði (10.02.20169: ,,Sæll Eiður!
Einhæfni í orðavali getur verið hvimleið í fjölmiðlum, ekki síst þegar sífellt er klifað á sömu orðum eða orðasamböndum. En, einhæfnin getur gengið lengra og orðið að ríkjandi málnotkun sem að auki er röng, að best verður séð.
Dæmi: Eitthvað " ... fer fram." Algengt er að taka þannig til orða um einhverja skipulagða viðburði, leiksýningin fór fram, hátíðahöldin fóru vel fram o.s.frv. Allt er gott í hófi, þetta líka.
Svo ganga menn lengra, af hverju veit ég ekki, kannski nennir fólkið ekki að hugsa og rifja upp fleiri blæbrigði málsins eða önnur orðatiltæki. Það er ósköp leiðinlegt t.d. að hlusta á íþróttafréttir þar sem talað er um hvern viðburðinn eftir annan og allir fara þeir fram. Enn versnar það þegar heilu dagarnir og kvöldin fara fram. Nú gengur á með dagskrárkynningum í Sjónvarpinu þar sem sagt er frá því að fyrra undanúrslitakvöld í lagavali fyrir Evrópsku söngvakeppnina hafi " ...farið fram ..." og síðara undanúrslitakvöldið " ... fari fram ..." einhvern tiltekinn dag. Kvöld fari fram???
Þetta er engu skárra en þegar talað er um verðlaunaveitingar eins og Edduverðlaunin svo dæmi sé tekið, í kynningum og jafnvel fréttum var sagt frá því að Edduverðlaunin "...fari fram..." þennan eða hinn daginn og bráðum fáum við trúlega að heyra að Óskarsverðlaunin "fari fram" vestur þar í "Ellei". Ég vona ekki sé farið fram á of mikið að blessað fjölmiðlafólkið reyni nú að sýna einhverja viðleitni til að hafa sæmilega hugsun að baki orðavali sínu, svo ekki sé minnst á margnefndan málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins, sem virðist ekki telja sig hafa neinar skyldur í þessum efnum. Þakka bréfið Þórhallur. Þú hefur mikið til þíns máls. Allt fer fram, sumt brestur á, eins og vikið var að hér í síðustu viku. Málfarsráðunautur er reyndar með vikulegan pistil í morgunþætti Rásar tvö á hverjum þriðjudagsmorgni, Málskotið. Slíkur pistill ætti helst á vera á hverjum degi. Til skiptis til dæmis í morgunþáttum Rásar eitt og Rásar tvö. En kannski á málfarsráðunautur við ofurefli að etja innanhússí Efstaleiti. Þar snýst allt um popp og sport.
GÖGN
Í fréttum Stöðvar tvö (14.02.2016) var sagt um afsögn rektors í Svíþjóð vegna barkaígræðslumálsins: ,, ... mönnum sé ekki kunnugt hvaða gögn Hamsten vísar til. Hér hefði átt að standa, reglum málsins samkvæmt: Mönnum sé ekki kunnugt til hvaða gagna Hamsten er að vísa. Þeir sem skrifa fréttir þurfa að kunna undirstöðuatriðin í íslenskri málfræði.
FLEIRI EN HVAÐ?
Fimm dálka fyrirsögn yfir þvera forsíðu Fréttablaðsins á miðvikudag (10.02.2016): Fleiri börn hælisleitenda ekki í skóla. Ekki er sagt fleiri en hvað. Átt er við að mörg börn hælisleitenda séu ekki í skóla, fjöldi barna hælisleitenda sé ekki í skóla. Algengt. Því miður.
AÐ SETJA NIÐUR
Úr dv.is, haft eftir ,aðstoðarmanni forsætisráðherra, sem sagður er grunnskólakennari: ,, Björn Þorláksson setur beinlínis niður sem fagmann þegar hann tönnlast sérstaklega á orðinu krakki Gauta til niðrunar. Setur niður sem fagmann!.- Ætti mati Molaskrifara að vera; setur niður sem fagmaður. Gerir lítið úr sér. Vonandi er þetta tungutak grunnskólakennurum almennt ekki tamt.
ÚTDEILING RÉTTLÆTIS
Úr frétt á mbl.is (11.02.2016):,, Þá benti hann á að ásakanirnar hefðu verið lagðar fram í Svíþjóð, ríki sem hefði gott orðspor hvað varðar útdeilingu réttlætis. Ekki kann Molaskrifari að meta orðalagið útdeilingu réttlætis. Hefði ekki mátt tala um gott orðspor í mannréttindamálum eða dómsmálum? Eða að gott orð færi af réttarfarinu í Svíþjóð? Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/02/10/cameron_vill_assange_ur_sendiradinu/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2016 | 07:11
Molar um málfar og miðla 1886
ALGENG MISTÖK
Molavin skrifaði (09.02.2016): ,,Bankastjóri stærsta banka Svíþjóðar, Swedbank, Michael Wolf, hefur verið sagt upp störfum..." segir í viðskiptamogga 9.2.2016. Í þessari setningu er bankastjórinn frumlag. Honum hefur verið sagt upp. Þess vegna ætti að standa "Bankastjóra...hefur verið sagt upp." Mistök af þessu tagi eru svo algeng í fjölmiðlum að engu er líkara en ritstjórnir og fréttastofur hafi fyllzt af fólki, sem kann ekki meðferð móðurmálsins eða ræður ekki við samsettar setningar eða aukasetningar. Skýr hugsun og kunnátta í meðferð móðurmálsins ætti að vera forsenda fyrir starfi við fréttaskrif. Skyldu menn ekki vera prófaðir áður en þeir eru ráðnir til starfa?
Molavin bætti við:,, Í málfarsþætti Moggans í dag er einmitt tekið á þessu, sem ég nefndi og er reyndar líka umfjöllunarefni í þínum þætti í dag. En á þessu má samt hamra.
Þessir litlu málfarsþættir Moggans eru afar góðir og ættu að vera skyldulesning allra fréttamanna. Þakka bréfið, Molavin. Satt og rétt. Þáttur dagsins í Mogga (bls.29) er þess virði að birta hann í heild: ,,Þær sem ekki opnast á að henda úr uppskrift að kræklingarétti Þetta er gagnort dæmi um algenga hrösun. Þær , skeljarnar, opnast eða ekki - en þeim á eða á ekki að henda. Rétt er því: Þeim sem ekki opnast á að henda. Ritarinn segði ábyggilega ekki ,, Það á að henda þær sem ekki opnast. Vonandi hafa þeir sem mest þurfa á að halda lesið þetta.
Hér er svo enn eitt dæmi um svipað. Fréttablaðið (10.02.2016): ,,Nefndarmönnum í þingmannanefnd ESB og Íslands eru ekki sammála túlkun Birgitta Jónsdóttir þingmanns Pírata á orðum þingmanna nefndarinnar ...... Þetta ætti auðvitað að vera: ,, Nefndarmenn ... eru ekki sammála .... http://www.visir.is/oftulkun-a-diplomatiskum-ordum/article/2016160219984
VINNSLUSTOPP
Molavin spyr í öðru bréfi: "...frá í því vinnslustopp hófst í nóvember síðastliðnum..." sagði í kvöldfréttum útvarps (RÚV 11.02.2016). Hófst stoppið eða var vinnsla stöðvuð?
Ógerlegt er að ráða af þessu við hvað er átt. Hefði auðvitað átt vera skýrar orðað. Þakka ábendinguna, Molavin.
SÁR ENNI
,En Frammarar sitja eftir með sár enni, var sagt í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (09.02.2016). Nú má vera að þetta sé ekki beinlínis rangt, en Molaskrifari er sammála málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins um að ekki megi fara rangt með orðtök ,sem eru föst í málinu. Samkvæmt máltilfinningu skrifara hefði átt að segja, að Frammarar sætu eftir með sárt enni(ð).
MÁLSPJÖLL Í BOÐI ÍSLANDSBANKA
Rafn skrifaði Molum (10,02.2016),,Sæll Eiður
Á forsíðu Íslandsbankavefsins er að finna auglýsingakassa, þar sem auglýsingar eru sýndar skamma stund áður en velt er yfir á næstu auglýsingu. Textinn hér fyrir neðan er ein þessara auglýsinga, en í mínum huga kallar textinn ekki á skýringar heldur brottfellingu.
Kveðja Rafn Algjörlega sammála, Rafn. Það er engu líkara en mörg stærstu fyrirtæki landsins hafi sameinast í samstilltu átaki um að gera atlögu að móðurmálinu, með því að nota í síauknum mæli slettur og ambögur. Við þessu þarf að bregðast.
Þetta er auglýsingakassinn, sem hér um ræðir:
Kass er nýtt app sem allir geta notað til að borga, rukka eða splitta kostnaðinum þegar vinahópurinn eða fjölskyldan tekur sig til og gerir eitthvað skemmtilegt. Kass er ekki mál, heldur málleysa. Er ekki að splitta það sama og að skipta eða deila kostnaði Hversvegna er slett á okkur ensku?
UM % OG HÆKKANIR
Annað bréf frá Rafni (09.02.2016): ,,Sæll Eiður
Meðfylgjandi er framan af fyrstu frétt á vef Morgunblaðsins nú á mánudagsmorgni. Í fyrirsögn segir að bílastæðagjöld við Leifsstöð tvöfaldist, sem á við um hluta gjaldanna, þ.e. fyrstu klukkustund á skammtímastæðum og þriðju viku á langtímastæðum. Í meginmáli segir síðan, að gjöldin þrefaldist, hækki um 217%, þrátt fyrir að listi yfir breytingar sýni, að hækkun er mest 117%, sem vissulega setur viðkomandi gjöld í 217% af fyrra gjaldi.
Innlent | mbl | 8.2.2016 | 8:21
Bílastæðagjöld tvöfaldast við Leifsstöð
Gjaldskrá bílastæða við flugvöllinn mun hækka allt að tvöfalt 1. apríl.
Bílastæðagjöld á Keflavíkurflugvelli munu hækka um 30 til 217% með breytingu sem tekur gildi 1. apríl næstkomandi. Mesta breytingin verður á verði fyrir skammtímastæði, en þau hækka úr 230 krónum fyrir fyrstu klukkustundina upp í 500 krónur. Langtímastæði hækka einnig umtalsvert. Í frétt á vef Isavia kemur fram að hækkunin sé vegna framkvæmda við fjölgun stæða, en á annatímum sé nýting stæða allt að 96%.
Isavia segir að vegna mikillar fjölgunar farþega um völlinn hafi ásókn í bílastæði aukist mikið. Vegna þess sé nauðsynlegt að fara í framkvæmdir og fjölga stæðum, en í dag eru 2.100 við völlinn. Því sé farin sú leið að hækka gjöldin til að geta staðið undir kostnaði við stækkunarframkvæmdir. Einnig verði tekin upp gjaldtaka á starfsmannabílastæðum við flugstöðina. Breytingarnar eru eftirfarandi:
Skammtímastæði á svæðum P1 og P2:
Verð nú: 230 krónur á klukkustund
Fyrstu 15 mínútur verða gjaldfrjálsar
Fyrsta klukkustund verður 500 krónur og hækkar um 117%.
Hver klukkustund eftir það 750 krónur.
- Þakka bréfið, Rafn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2016 | 09:55
Molar um málfar og miðla 1885
GÓÐ OG GILD VEÐURORÐ
Sigurður Sigurðarson skrifaði (09.02.2016): ,, Sæll, Eiður.
Svalt verður í veðri næstu daga á landinu, sagði dagskrárgerðarmaður eða þulur í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins. Þvert ofan í orð mannsins fullyrðir Veðurstofan að frost verði um allt land næstu daga.
Á þessu tvennu, svala og frosti, er talsverður munur. Ég skil svala þannig að hann geti verið kaldur en fjarri því að vera frost. Oft er svalt að sumarlagi og í suðlægum löndum getur hægur vindur veitt fólki einhvern svala á heitum dögum. Svaladrykkur er ekki frosinn þó getur frostpinni svalað manni á heitum dögum.
Svo er það þetta með vindganginn í sumum veðurfræðingum. Sjaldnast lægir hjá þeim eða hvessir, oftast bætir í vind eða dregur úr vindi. Stundum er vindur nokkur, jafnvel er vindur mikill. Verður málið ekki nokkuð fátæklegra ef við kunnum ekki gömul veðurorð eins og andvari, kul, rok, hvassviðri, stormur svo eitthvað sé nefnt?
Á þeim veðurrassi sem við búum hafa forfeður okkar búið til fjölda orða um veður og þannig gert sig afar vel skiljanlega hver við annan í gegnum aldirnar. Er einhver ástæða til að hætta að nota þessi orð?
Mikilvægt að halda lífi í þessum ágætu orðum. Kæarar þakkir fyrir bréfið, Sigurður. Þetta gefur gott tilefni til að minna á öndvegisritið Veðurfræði Eyfellings eftir Þórð Tómasson í Skógum. Bókin kom fyrst út 1979 ,en Forlagið gaf hana út að nýju 2014. Mikið snilldarverk.
ALLT BRESTUR Á
Það er mikið tískuorðalag hjá fréttamönnum að tala um að eitthvað bresti á. Eiginlega brestur allt á. Í fréttum Ríkissjónvarps (10.02.2016) um banaslysið í Reynisfjöru sagði fréttamaður: ,, ... þegar skyndilega brast á með stórri öldu. Molaskrifara finnst þetta ekki vel orðað. Þarna hefði mátt segja , skyndilega kom ólag, - en ólag er stór, hættuleg alda. Stundum koma þrjár slíkar í röð. Sjaldan er ein báran stök, segir máltækið. Kannski hefði fólk ekki skilið orðið ólag. Skyndilega skall stór alda á berginu, þar sem maðurinn stóð, hefði líka mátt segja. Kannski skiljanlegra nú um stundir.
,, .. rís úr gráðinu gafl,
þegar gegnir sem verst...
orti Grímur Thomsen í mögnuðu ljóði, sem hann nefndi Ólag. Ein af perlum bókmenntanna.
Þar var sviðið Landeyjasandur.
GÁMAEININGAR
Á mánudagskvöld (08.02.2016) var sagt frá strandi stærsta gámaflutningaskips í heimi. Sagt var að skipið gæti flutt 19 þúsund 20 feta gámaeiningar. Hvers vegna gámaeiningar? Hvers vegna ekki 19 þúsund 20 feta gáma? Í sjónvarpsfréttum talaði Bogi réttilega um gáma.
ÞÖRF UMFJÖLLUN
Þörf og mjög þakkarverð umfjöllun hefur verið í Kastljósi Ríkissjónvarps að undanförnu um snjallsímanotkun undir stýri. Þessu þarf að halda áfram Þetta er vaxandi vandamál, sem skapar stórhættu í umferðinni. Þessi símanotkun er lífshættuleg, rétt eins og ölvunarakstur, eða akstur undir áhrifum annarra vímuefna. Bandaríkjamenn tala um snjallsíma, og GPS og Googlekorta notkun í akstri sem Dashboard Distractions, - tækjatruflun. Taka verður á þessu með aukinni löggæslu og hækkuðum sektum. Molaskrifari sendi umsjónarmanni Kastljóss línu á dögunum og þakkaði þessa ágætu umfjöllun, en leyfði sér að benda mjög hæversklega á, að þegar vikið var að Hvalfjarðargöngum, hefði verið rétt að tala um gangamunna, ekki gangNamunna eins og gert var. Göng eru eitt. Göngur annað. Tölvupóstinum var ekki svarað frekar enn fyrri daginn.. Það er sjálfsagt gleymska eða annríki mikið sem því veldur. Það þykir reyndar víðast hvar kurteisi að svara bréfum.
ÓSKILJANLEGT ORÐALAG
Óskiljanlegt orðalag var í frétt Stöðvar tvö (10.02.2016) um járnbrautarslysið í Þýskalandi. Fréttamaður sagði: ,, Áreksturinn varð á kafla þar sem lestarteinarnir eru einfaldir þannig að ekki er hægt að mætast, þrátt fyrir það skullu lestirnar saman á um 100 kílómetra hraða. Það er ekki skýr hugsun á bak við þetta. Vissi fréttamaðurinn ekki hvað þrátt fyrir þýðir?
ENN UM ENSKUSLETTUR
Slettuhríðinni í morgunþætti Rásar tvö linnir ekki. Á þriðjudagsmorgni (09.02.2016) var talað um söngkonu,sem hér mun halda tónleika. Umsjónarmaður sagði að textarnir hennar væru ,,destrúktívir og soldið hellaðir. Hellaðir hvað? Hvað þýðir þetta? Hversvegna er ekki talað við hlustendur á íslensku? Sjá: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/morgunutvarpid/20160209 (Á 17:50). Molaskrifari átti von á því að málfarsráðunautur mundi kannski víkja að þessu í prýðilegu Málskoti, spjalli um íslenskt mál, seinna í þættinum. Það var ekki gert. Hefði þó verið ástæða til.
GULLNI HRINGURINN
Valur skrifaði (09.02.2016): ,,Sæll Eiður.
Ég stenst ekki mátið og sendi þér hér,,gullmola.Um helgina var í fréttum, að þrír menn og kona hefðu slasast á hinni vinsælu ferðamannaleið sem kallast uppá ensku Golden Circle.
Þess má geta að þessi ferðamannhringur er um 300 km. Og því mætti spyrja hvar á þessari 300 km leið fólkið slasaðist.
Nú er Golden Circle ekki lögformlegt örnefni eða nafn hér á landi sem notað er til að fara á eftir á ferðalögum. Enn svona gerist er fréttabörnin, greina oft ýtarlega frá bifreiðategund og að árekstur hafi verið við þessa bensínstöð við hliðina á ákveðnum söluturni, en nafn á götunnar þar sem slysið varð, kemur ekki fram, fylgir ekki frétt.
Vona bara að sjúkrafólk hafi fundið slasaða ferðafólkið á þessari 300 km leið. Þakka bréfið. Hér mun átt við frétt á vef Ríkisútvarpsins (08.02.2016) : http://www.ruv.is/frett/halkuslys-a-gullna-hringnum
- Molaskrifari biður ágæta lesendur velvirðingar á því að svo mikið berst af efni þessa dagana, að Molar eru í lengra lagi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.2.2016 | 02:25
FLUGSKÝLISMÁL - ALGJÖR STORMUR Í VATNSGLASI
FLUGSKÝLISDYR - STORMUR Í VATNSGLASI
Af fréttum í gærkvöldi var að sjá, að flugskýlið, sem Bandaríkjamenn ætla að lappa upp á á Miðnesheiðinni, sé skýlið, sem stendur andspænis gömlu flugstöðinni. Það var lengi kallað Flotaflugskýlið, Navy hangar. Sé þetta rét,t þá er skýlið sextíu ára gamalt. Ég vann í vinnuflokki við byggingu þess sumarið 1955, þegar rigndi alla daga, - eða því sem næst. Í vinnuflokknum voru kunnir menn, meðal annarra Jón Eiríksson, þýskukennari og Magnús Thoroddsen, seinna hæstaréttardómari. Magnús var forkur duglegur, en byggingarvinnan átti ekki vel við Jón. Fleiri voru þar,sem ég man vart að nafngreina, Ævar frá Blönduósi, og Óli frá Akureyri, auk bónda (?) úr Sæmundarhlíð eða Sléttuhlíð. Vinnuaflið streymdi úr öllum landshlutum á Völlinn þessi ár. Þá sváfu einir fjórir eða sex verkamenn í kojum í hálfgerðum kompum í löngum skálum og ekki minnist ég kvartana. Við vorum fjórir í herbergi, aldraður verkamaður svo yngri menn , einn seinna læknir, annar flugstjóri í áratugi, sá þriðji lenti í fréttamennsku, pólitík og fleiru.
Ég var fimmtán ára þetta sumar, sextán í nóvember um haustið. Þurfti raunar reglunum samkvæmt að vera sextán ára til að mega vinna á Vellinum. Maður fékk bæði passa og númer til hengja utan á sig. Velviljaður ráðningarstjóri hjá Sameinuðum verktökum leit viljandi fremur en óviljandi ekki mjög nákvæmlega á fæðingardaginn minn og vissi að blankur skólastrákur þurfti vinnu. Hann þekkti mig svolítið úr skátastarfi. Hugsa alltaf hlýtt til hans síðan.
Man að menn frá Vélsmiðjunni Héðni reistu stálbogana og gengu eftir þeim á toppnum sem væru þeir á stofugólfi. Fluttir voru inn tveir gríðarmiklir amerískir bómukranar á beltum til að reisa þakbogana , hæstu kranar á Íslandi , enduðu held ég hjá Vitamálastjórn. Af gerðinni Lorain, minnir mig. Mikil verkfæri.
Nú er allt vitlaust vegna þess að breyta á dyrunum á flugskýlinu og sinna eðlilegu viðhaldi innanhúss og utan svo nýlegar stélháar kafbátaleitarvélarnar komist þar inn til nokkurrar aðhlynningar. Sennilega rúmast ein slík í skýlinu í senn. Svipuð aðgerð og gerð var á einu flugskýli á Reykjavíkurflugvelli, svo hægt væri í neyð að stinga fyrstu þotu Íslendinga Gullfaxa B-727, Flugfélags Íslands, þar inn í neyð og til eftirlits og lagfæringa.
Ef einhvern tímann hefur átt við að tala um storm í vatnsglasi þá á það við um þetta mál. Og VG sýnist vera að fara á límingunum. Úlfur, úlfur, herinn er að koma aftur !!! Jafnvel er farið að nefna Keflavíkurgöngur, --- með spurningarmerki þó ! Kannski er þetta umræðuhefðin í hnotskurn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.2.2016 | 08:35
Molar um málfar og miðla 1884
MÖR
Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (09.02.2016): ,,Sæll, Eiður,
Þú afsakar, en ég skellti upp úr þegar ég las þetta í frétt á mbl.is. Fréttin er að vísu sorgleg en það kemur málinu ekki við. Ef menn eru ekki klárir á eintöluorðum, þá er um að gera að giska ekki, heldur skrifa sig framhjá. Í þessu tilviki hefði barnið getað skrifað marbletti í stað mör. Mör þýðir raunar allt annað, innanfita í sláturfénaði. En getur mör marist?
Fólkið var í fjallgöngu ásamt fleirum. Konan slasaðist nokkuð og er hún meðal annars með brotna hryggjarliði, brákað rifbein, skurð og mör. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/09/madurinn_ur_ondunarvel/ Þakka bréfið Sigurður. Þetta er hreint með ólíkindum.
ÚR GAGNSTÆÐRI ÁTT
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (09.02.2016) var sagt frá járnbrautarslysi í Þýskalandi. Fréttamaður sagði: Lestirnir voru á sama spori og komu úr gagnstæðri átt. Molaskrifari er ekki sáttur við orðalagið að lestirnar hafi komið úr gagnstæðri átt. Lestirnar voru á sama spori, sömu teinum, og komu hvor á móti annarri. http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/hadegisfrettir/20160209 (01:52) Þetta var mun betur orðað á vef Ríkisútvarpsins , en þar sagði: ,, Lestirnar voru á sama spori milli Münchenar og Rosenheim. Þær komu hvor úr sinni áttinni nærri heilsulindabænum....
Og eins og svo oft þá étur hver upp eftir öðrum. Í fréttum Stöðvar tvö (09.02.2016) var sagt: ,,Lestirnar komu úr gagnstæðri átt!
FRÉTTAMAT
Um mat má alltaf deila , ekki síst fréttamat. Á laugardagskvöld (06.02.2016) var fyrsta frétt í tíu fréttum Ríkisútvarps um hvaða þrjú popplög hefðu orðið notið mestra vinsælda á kvöldskemmtun, sem Ríkissjónvarpið efndi til í Háskólabíói sama kvöld. Skemmtun var í beinni sjónvarpsútsendingu lungann úr kvöldinu. Rangt fréttamat, að dómi Molaskrifara. Kom svo sem ekki óvart, nú þegar poppið hefur heltekið Ríkisútvarpið ohf.
AÐ IMPRA Á
Á vef Ríkisútvarpsins (07.02.216) var viðtal við forstjóra Strætó um vagnstjóra, sem orðið hafði uppvís að því að nota farsíma sinn linnulaust undir stýri dágóða stund. Forstjóranum fannst þetta miður og hann kvaðst vera svekktur yfir þessu. Síðan spurði fréttamaður: ,,Munið þið impra á þessu enn frekar eftir þetta? Greinilega hefur fréttamaður ekki verið með merkingu sagnarinnar að impra á einhverju, alveg á hreinu. Sögnin merkir skv. orðabókinni að minnast á , nefna (lauslega). Sjá : http://www.ruv.is/frett/storhaettuleg-og-ofyrirgefanleg-hegdun Vagnstjórinn fékk áminningu.
ÞÁGUFALLIÐ
,,Vantar fyrirtækinu þínu nýtt húsnæði?. Svona er spurt í auglýsingu frá Fasteignasölu Reykjavíkur í Fréttablaðinu (08.02.2016). Vantar fyrirtækið þitt nýtt húsnæðið?
ENN UM ENSKUNA
Í tíu fréttum Ríkisútvarps (08.02.2016) var fjallað um ályktun, eða umsögn, Félags lögreglustjóra um fyrirhugaða lagabreytingu. Þar komu fyrir orðin eltihrellir og umsáturseinelti. Molaskrifara finnst orðið umsáturseinelti vera gott nýyrði, gegnsætt og skiljanlegt. Samt var í fréttinni talið nauðsynlegt að vitna í ensku og nefna enska orðið stalking til að skýra þetta út fyrir hlustendum. Endurtekið í hádegisfréttum. ,, Bæði Lögreglustjórafélag Íslands og lögreglustjórinn á Suðurnesjum telja mikilvægt að sett verði sérstakt ákvæði um umsáturseinelti - stalking eins og það heitir ensku.
http://www.ruv.is/frett/logreglustjorar-vilja-setja-log-um-eltihrella
Í Morgunblaðinu (09.02.2016) á blaðsíðu 20 er svohljóðandi fyrirsögn: Hvað breytist með mindfulness-iðkun? Enskt orð er hér tekið athugasemdalaust, ekki innan gæsalappa, í fyrirsögn og gert ráð fyrir að lesendur skilji. Í greininni er orðið mindfulness þýtt sem gjörhygli, eða núvitund. Það er líka notað um umhyggju. Í greininni er talað um þjálfun í mindfulness. Verið er að reyna að gera þetta enska orð að íslensku orði. Það er ekki til fyrirmyndar. Hér mun um að ræða einhverja nýtísku grein af Búddisma.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2016 | 08:43
Molar um málfar og miðla 1883
TEXTI ,LJÓÐ OG ERLEND ORÐSKRÍPI
VH skrifaði (04.02.2106): ,,Sæll Eiður.
Því miður sendi ég þér þennan póst. Því herferð fjölmiðla er á góðri leið með að skemma málið okkar. Eitt af lögum er þátt taka í Söngvakeppninni heitir Kreisí .. en verður ekki neitt íslenskara þó enskt orð sé stafsett uppá íslensku, og er þetta orðið mjög algengt í dag að stafsetja ensk orð á íslensku og halda að það sé í lagi.
Í kilju Egils er oft talað um lag og texta og eru þeir textar oft 50 - 100 ára gömul virðuleg ljóð sem eru þá ljóð, sem samin hafa verið við lög. Það sæmir ekki lagahöfundum og Agli að láta ljóð verða allt í einu að texta. Þannig að rétt væri að rita Ljóð og lag .. einfalt mál það.
Tjarnarleikhúsið frumsýnir í vikunni íslenskt leikrit er kallast Old Bessastaðir .. ég bara spyr var orðið ,,Gömlu,,Bessastaðir upptekið í öðru leikhúsi .. þannig að ekki væri hægt að nota það. Í Tjarnarleikhúsinu. - Kærar þakkir fyrir þessar ábendingar. Gömlu Bessastaðir hefur sennilega bara þótt hallærislegt, gamaldags og púkalegt.
ENN UM SLETTUR
Í framhaldi af ofangeindu mætti spyrja: Er ekki brýnt fyrir þáttastjórnendum í útvarpi og sjónvarpi að vanda mál sitt. Í þætti Gísla Marteins fyrir helgina (05.02.2016) Mátti meðal annars heyra: ,,Aðeins kannski bara smáöppdeit (e. update) á þig Steinunn Ólína, Los Angeles var auðvitað ellei upp á ensku, og talað var um að minnast þessa móts ekki sem feiljúr (e. failure).
Og svo var talað um ,,týnda Bandaríkjamanninn Týnda? Maðurinn villtist norður á Siglufjörð, en ætlaði á hótel við Laugaveginn í Reykjavík .Villa í pöntunarstaðfestingu beindi honum á Laugarveg á Siglufirði ekki Laugaveginn í Reykjavík. Hann týndist ekki. Hann villtist. En á ensku hefði mátt segja: He got lost.
Í morgunþætti Ríkisútvarps (08.02.2016) var rætt við sérfræðing um opin vinnurými. Oftar en tölu varð á komið talaði konan um headphones, einu sinni (heyrðist skrifara) var talað um hard core headphones, - hvað svo sem það nú er. Einu sinni var notað hið ágæta orð heyrnartól, Þetta er ekki heillavænleg þróun.
GAMALT PLAST
Úr matarpistli í Stundinni (04.02.-17.02.2106): ,,Souse vide eldunaraðferðin hefur verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum en aðferðin er meira en 200 ára gömul og hefur lengi verið notuð á veitingastöðum. Hún byggist á því að pakka hráefnum í matarplast og hægelda ... Hvernig plast skyldi hafa verið notað fyrir 200 árum? Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt!
UM FYRRI MOLA
Rafn skrifaði (04.02.2016) Í molum nr. 1880 segir svo:FÓLK OG FJÖLGUN
Af mbl.is (01.02.2016) : ,, Fólk sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hefur frá árinu 2010 farið hægt og rólega fjölgandi sem hlutfall af öllum kaupsamningum sem gerðir eru á höfuðborgarsvæðinu. Enn einu sinni. Þetta hefði átt að orða á annan veg: Fólki sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hefur frá árinu 2010 farið hægt og rólega fjölgandi sem hlutfalli af öllum kaupsamningum sem gerðir eru á höfuðborgarsvæðinu. Enginn, eða óvandaður yfirlestur. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/01/fleiri_kaupa_sina_fyrstu_eign/
Hér að ofan virðist molahöfundur aðeins líta til fallbeygingar en ekki eðlis máls. Fólk getur aldrei orðið hlutfall af samningum. Hér hefði annað tveggja mátt segja: Fólki sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hefir frá árinu 2010 farið hægt og rólega fjölgandi sem hlutfalli af öllum kaupendum íbúða á höfuðborgarsvæðinu ellegar: Kaupsamningum fólks sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hefir frá árinu 2010 farið hægt og rólega fjölgandi sem hlutfalli af öllum kaupsamningum gerðum á höfuðborgarsvæðinu.
Molaskrifari þakkar bréfið.
VEÐRIÐ DATT
,, Veður er að detta niður sagði fréttamaður Ríkisútvarps í fréttum klukkan ellefu ( 05.02.2016). Ja, hérna. Veðrið var að skána, vind var að lægja.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2016 | 10:02
Molar um málfar og miðla 1882
OG HÉRNA HÉDDNA
Í mánaðarlegu MR´59 kaffi skólasystkina í liðinni viku nefndi ágæt skólasystir, sem er umhugað um móðurmálið, að Molaskrifari ætti að nefna sívaxandi og bráðsmitandi notkun hikorðsins hérna, og hérna, (frb. héddna). Skrifari tók því vel, enda nefnt þetta nokkrum sinnum í þessum pistlum. Daginn eftir (04.02.2016) var svo ljómandi góð grein í Morgunblaðinu , bls. 19, um þetta efni eftir Hjörleif Guttormsson, náttúrufræðing og fv. ráðherra. Hjörleifur fjallar um æðibunugang í framsögn, hraðan talanda , - og svo hikorð eins og og hérna. Hjörleifur segir: ,, Lengi vel skreytti ,,sko í tíma og ótíma mál manna, en nú hefur það vikið fyrir innskotinu ,, og hérna sem, margur hreytir út úr sér í annarri hverri setningu og hérna - ...og hérna ... og hérna. Þessi kækur virðist vera bráðsmitandi svo mjög hefur hann sótt í sig veðrið upp á síðkastið og virðast lærðir jafnvel næmari fyrir smiti en alþýða manna. Þetta stagl truflar fólk eflaust misjafnlega mikið, en ýmsir sem ég hef rætt við telja það óheillaþróun.
Molaskrifari tekur undir með Hjörleifi. Þetta er óheillaþróun og fyrirbærið er ótrúlega smitandi. Öðru hikorði, - beint úr ensku mætti bæta við. Það er orðið ,,skilurðu, sem sumir eiga til að skjóta inn í setningar í tíma og ótíma að tilefnislausu.- Ekki væri úr vegi að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins færi yfir þessi mál með fréttamönnum og þáttastjórnendum. Það væri góð byrjun.
ÓSKILJANLEGT
Reyndur maður í fréttaskrifum sendi Molaskrifara eftirfarandi:
,,Eftirfarandi frétt frá í gær, föstudag(05.02.2016), er á vef RÚV og er athyglisverð, fyrir að vera óskiljanleg. Hvar er Reykjanes, Látrar, Hrafnbjörg, Ögur? Er þetta Reykjanes hér suður með sjó eru Látrarnir í Djúpi eða vestur við Látrabjarg og eru nefnd Hrafnabjörg austur á landi, þar sem er heimavöllur forsætisráðherrans. Til viðbótar þá eru orð í fréttinni sem almenningur þekkir tæpast til. Kjarni þessa rúmast tveggja línu frétt: Rafmagnslaust er á nokkrum bæjum í Ísafjarðardjúpi og á Rauðasandi. Unnið er að viðgerð.
Hér er fréttin óskiljanlega:
,, Rafmagn var komið á að Látrum í kvöld með dísilvél í Reykjanesi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Orkubús Vestfjarða. Unnið er að því að taka út teinrofa á Hrafnabjörgum og verður reynt að setja rafmagn á þangað frá Látrum.
Spennusetning þaðan að Ögri var reynd rétt fyrir klukkan tíu í kvöld án árangurs. Unnið er að viðgerð á vírsliti við Skarð í Skötufirði, segir í tilkynningunni. Þegar því er lokið verður hafin leit að fleiri bilunum. Enn er rafmagnslaust á Rauðasandi en aðrir notendur á suðursvæði ættu að vera með rafmagn. Molaskrifari þakkar ábendinguna.
AÐ SIGRA KEPPNINA
Í upphafi svokallaðra Hraðfrétta Ríkissjónvarps (06.02.2016) á laugardagskvöld ( sem allar voru um Evróvisjón) var sagt við okkur: ,, Svíar hafa sigrað keppnina oftast allra. Það sigrar enginn keppni. Þeir sem eru sæmilega að sér um móðurmálið vita þetta.- En var það sem skrifara sýndist: Sendi hið síblanka Ríkissjónvarp tvo menn til Svíþjóðar í erindum Hraðfrétta? Molaskrifari hlýtur að hafa misskilið þetta. En hafi svo verið, er ekkert sem réttlætir slíkan fjáraustur.
AÐ KJÓSA AÐ GREIÐA ATKVÆÐI
Endalaust er því ruglað saman að kjósa og að greiða atkvæði um eitthvað. Þetta hefur oft verið nefnt í Molum. Í átta fréttum Ríkisútvarpsins á fimmtudagsmorgni (04.02.2016) var talað um að kjósa um samning á Bandaríkjaþingi. Átt var við atkvæðagreiðslu um samning. Ekki kosningar um samning. Það er út í hött.
DELLUFYRIRSÖGN
Hér er dellufyrirsögn á dellufrétt á visir.is (04.02.2016): Fagnaði upp á starfslok með glæstum dansi. http://www.visir.is/fagnadi-upp-a-starfslok-med-glaestum-dansi/article/2016160209416
Þetta mun hafa verið lagfært síðar. Einhver fullorðinn komist í málið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2016 | 08:35
Molar um málfar og miðla 1881
KEYRENDUR
Trausti skrifaði (03.02.2016): ,, Könnunin þykir hafa verið konum hagstæð. Þær voru yfirleitt sagðar hegða sér bílstjóra best á þjóðvegum landsins. Aðeins 6% töldu þær hættulegustu keyrendurna.
Trausti spyr: ,,Hvort ætli keyrendur séu staðfuglar eða farfuglar? Þurfa ekki fréttabörnin að fara að læra eitthvað?
Ég taldi mig hafa mætt tveimur gangandi mönnum í morgun, en við nánari umhugsun læðist að mér grunur um að það hafi reyndar verið gangendur. Það kváðu vera liggjendur á langlegudeild Landspítala. Það hljóta nú að vera staðfuglar. Ferðendur eru aftur á móti áreiðanlega farfuglar, sem hingað koma sem túristar, aðallega yfir sumartímann, en þó fréttist af einum, nýverið, sem hafði ætlað sér á Laugaveg í Reykjavík, en lenti á Laugarvegi á Siglufirði. Greinilega flækingsfugl! Þakka bréfið, Trausti. http://www.mbl.is/bill/frettir/2016/02/03/karlar_a_hvitum_sendibilum/
HLUSTIR
Rafn skrifaði (03.02.2016): ,,Sæll Eiður
Hér er til fróðleiks pistill af vef Ríkisútvarpsins, þar sem hvatt er til, að lagt sé við hlustir. Ekki kemur þó fram hvað skuli lagt við hlustirnar. Hér segir mín málkennd, að hvetja hefði átt til að lagðar væru við hlustir. Kveðja Rafn
- Ég hefi ekki lagt mínar hlustir að því sem um ræðir, en þetta var úr þætti á vegum Andra Freys!
Orðalagið sem Rafn vísar til:,, Andri Freyr hvatti konuna til að láta textann flakka sem hún og gerði. Mælt er því með að lagt sé við hlustir. Þakka bréfið, Rafn. http://www.ruv.is/thaettir/virkir-morgnar
AFBÖKUÐ ORÐATILTÆKI
Undir sjónvarpsfréttum (02.02.2016) gjóaði skrifari augum á pistil á vef Ríkisútvarpsins um afbökuð orðatiltæki. http://www.ruv.is/frett/their-roast-sem-fiska Þetta var efnislega umfjöllum málfarsráðunautar í morgunþætti Rásar tvö þennan sama dag. Ágætur pistill. En undir lestrinum sagði fréttamaður í sjónvarpsfréttum um kvikmyndagerð á Austfjörðum: ,, Náttúruöflin virðast leggja á árarnar með framleiðslunni í ár ... Nokkuð skorti á að fréttamaður færi rétt með orðtakið að leggjast á árar, árina , með einhverjum. Létta undir með einhverjum, hlaupa undir bakka með einhverjum, aðstoða einhvern.
BANNI AFLYFT
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (02.02.2016): ,, Nokkrir skólar í Frakkland hafa aflyft reykingabanni á skólalóðum eftir hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember. Hér er væntanlega átt við að banni hafi verið aflétt, - reykingar hafi verið leyufðar. Sjá: http://www.ruv.is/frett/leyfa-reykingar-a-skolalod-vegna-hrydjuverka
Enginn yfirlestur frekar en fyrri daginn.
Í OG Á
Í frétt í Ríkissjónvarpi (03.02.2016) Um skíðasvæðið í Hlíðarfjalli var sagt að ,,rekstur skíðasvæðisins hefði verið í tapi undan farin ár. Eðlilegra hefði verið að segja til dæmis, að tap hefði verið á rekstri skíðasvæðisins undan farin ár, skíðasvæðið hefði verið rekið með tapi. Þá var í fréttum sagt frá umferðarslysi sem orðið hefði skammt frá Hnappavöllum á Öræfum. Það er föst málvenja, að Molaskrifari best veit, þegar talað er um sveitina Öræfi að segja í Öræfum. Hinsvegar sagt inni á öræfum þegar talað er um miðhálendið, óbyggðir.
HELLISHEIÐI LOKAR
Hellisheiði lokar væntanlega upp úr hádegi, sagði í fyrirsögn á forsíðu mbl.is (04.02.2016). Ekki var skýrt nánar frá því hverju Hellisheiðin ætlaði að loka, en átt var við að veginum yfir Hellisheiði yrði væntanlega lokað eftir hádegið. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/04/hellisheidi_lokar_vaentanlega_upp_ur_hadegi/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2016 | 08:01
Molar um málfar og miðla 1880
BLÓM OG BLÓMI
Molalesandi skrifaði (02.02.2016): ,, Oft er hann broslegur, þekkingarbresturinn. Á vísi.is (http://www.visir.is/noel-eins-og-blom-i-eggi-a-siglufirdi/article/2016160209767) er sagt frá ævintýri ferðalangsins Noel, sem villtist til Siglufjarðar í leit að hóteli við Laugaveginn. Fréttin er undir fyrirsögninni: "Noel eins og blóm í eggi á Siglufirði". Akkúrat. Skyldi blaðamaður oft hafa orðið var við blóm í eggjum sínum. Og þá hvernig blóm? Rósir - eða kannske fífla? Það ætti sennilega best við hér. Í eggjum eru eggjablómar en ekki blóm. Blómarnir í eggjunum er líka oft nefndir eggjarauða. Þeim má ekki rugla saman við fífla - og enn síður við fífl. Fífl og fíflar er nefnilega tvennt ólíkt. Alveg eins og blóm og blómi. - Þakka bréfið. Orðabókin nefnir reyndar einnig orðasambandið eins og blóm í eggi. Alla sína skóla- og blaðamennskutíð var Molaskrifara kennt að þetta ætti að vera eins og blómi í eggi. Kannski hafa svo margir farið rangt með þetta að orðabókarmenn telja það orðið rétt!
FÓLK OG FJÖLGUN
Af mbl.is (01.02.2016) : ,, Fólk sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hefur frá árinu 2010 farið hægt og rólega fjölgandi sem hlutfall af öllum kaupsamningum sem gerðir eru á höfuðborgarsvæðinu. Enn einu sinni. Þetta hefði átt að orða á annan veg: Fólki sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hefur frá árinu 2010 farið hægt og rólega fjölgandi sem hlutfalli af öllum kaupsamningum sem gerðir eru á höfuðborgarsvæðinu. Enginn, eða óvandaður yfirlestur. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/01/fleiri_kaupa_sina_fyrstu_eign/
AÐ ERFA OG AÐ ERFIÐA
Af dv.is (01.02.2016) um erfðaskrá Davids Bowies: ,,Þannig erfiðar aðstoðarmaður hans tvær milljónir dala, jafnvirði 260 milljóna íslenskra króna, og barnfóstra sonar hans, Duncans, erfir eina milljón dala, jafnvirði 130 milljóna íslenskra króna. Þarna hefur yfirlesturinn verið í handaskolum. Eitt er að erfa. Annað að erfiða. http://www.dv.is/folk/2016/1/30/adstodarmadur-david-bowie-erfir-260-milljonir/
FYRIR RANNSÓKN MÁLS
Af mbl.is (30.01.2016): ,,Þá var maður handtekinn á þriðja tímanum í nótt við veitingahús í miðborg Reykjavíkur grunaður um þjófnað á farsímum. Maðurinn vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls. Ekki í fyrsta skipti,sem þetta orðalag sést. Hér er átt við að maður hafi verið fangelsaður vegna rannsóknar máls. Ekki fyrir rannsókn. Er þetta kannski staðlað orðalag,sem tekið er hrátt upp úr dagbók lögreglunnar, hugsunarlaust? Gæti verið.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/30/simathjofur_og_tjonvaldar_handteknir/
BEITTUR ÞÁTTUR
Okkur er sagt, að Kastljós Ríkissjónvarpsins sé ,,beittur fréttaskýringaþáttur. Víst er það rétt á stundum. En ekki þegar löngum tíma er varið í fjalla um evrópsku söngvakeppnina (02.02.2016) ,sem nú er að heltaka þennan þjóðarfjölmiðil. Skrítið að heyra fullorðið fólk tala um þetta eins og jólin væru í nánd. En svo er margt sinnið ....
Í gærkveldi (03.02.2016) var prýðilegt innslag í Kastljósi um hætturnar sem fylgja farsímanotkun undir stýri. Þar var sérstaklega fjallað um flutningabílstjóra. Framhald boðað í kvöld. Gott að vekja athygli á þessu. Lögreglan virðist láta þetta afskiptalaust að mestu. Auka þarf aðhald og eftirlit. Stórhækka sektir.
Mikið var skrifað um misnotkun bílastæða,sem ætluð eru fötluðum. Sektir voru hækkaðar. Molaskrifari fylgist svolítið með þessu. Það er, sem betur fer, orðið sjaldgæft að sjá þessi bílastæði misnotuð nú orðið.
Ástandið hefur stórbatnað.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2016 | 12:25
Molar um málfar og miðla 1879
BANNAÐ BÖRNUM -
Síðastliðið sunnudagskvöld (31.01.2016) var allt dagskrárefni Ríkissjónvarpsins frá klukkan 2100 og til dagskrárloka bannað börnum.
21 00 Ófærð. Bannað börnum.
21 55 Kynlífsfræðingarnir. Stranglega bannað börnum.
22 50 Bangsi. Bannað börnum. Nafnið gæti reyndar gefið til kynna að þetta væri barnaefni. Svo var ekki. Þetta var kvikmynd um vaxtarræktarmann, sem hélt til Taílands í leit að ást og hamingju. Einstaklega áhugavert efni.
Í ljósi þess að samkvæmt íslenskum lögum eru einstaklingar börn til 18 ára aldurs, - og þótt reyndar sé ekki sérstaklega horft til þeirrar skilgreiningar, - þá verður þetta að teljast undarleg dagskrársamsetning. Í þessum miðli sem stjórnendur Ríkisútvarpsins kalla ,,RÚV okkar allra! Svona þegar vel liggur á þeim.
SLETTUR ERU BLETTUR
Slettur, einkum enskuslettur, eru blettur á morgunþætti Rásar tvö. Á mánudag (01.02.2016) sagði sá umsjónarmaður þáttarins sem mest slettir á okkur á okkur ensku: ,, Eigum við ekki að rifja upp hérna helstu hælæt (enska , - highlight(s) dagsins, aðalatriði dagsins, meginefni þáttarins.
Í þættinum á þriðjudag (02.02.2016) talaði sami umsjónarmaður um það eina sem meikaði sens á þessum tíma dags.- Væri vit í á þessum tíma dags. Nefndi líka settlaðan heimilisföður. Væntanlega heimilisföður, sem tæki lífinu með ró, - væri búinn að hlaupa af sér hornin, kannski. Í málskotinu fór svo langur tími í að ræða um þær áhyggjur umsjónarmanns að fólk notaði slettuna grúbbu í staðinn fyrir slettuna grúppu. Málfarsráðunautur afgreiddi þessa dellu snyrtilega með því að minna á orðið hópur.
Þessar enskuslettur er blettur á þættinum. Blettur á Ríkisútvarpinu.
DAGUR KVENFÉLAGSKONUNNAR
Í morgunþætti Rásar tvö (01.02.2016) er stjórnanda Virkra morgna oft hleypt að hljóðnemanum undir lok þáttar til að kynna efni þáttar síns. Í gær sagði hann annars: ,, Og svo er náttúrulega dagur kvenfélagskonunnar í dag og við ætlum að fagna honum og leyfa kvenfélagskonum að hringja inn og senda hvert (hvort?)öðru kveðjur og svona og segja frá sínum kvenfélögum ... . Um þetta þarf ekki að mörg orð.
FLÓTTAMANNABÚÐIR
Í fréttum Ríkisútvarps (01.02.2016) var sagt , að forsætisráðherra heimsækti tvær flóttamannabúðir í Líbanon. Þarna hefði átt að tala um tvennar flóttamannabúðir, ekki tvær. Þetta var rétt í fréttum Ríkissjónvarps seinna um kvöldið.
FJÖLL OG FIRNINDI
Óvenjulega fróðlegt og gott viðtal var við ferðalanginn, fjallgöngumanninn og fjallaleiðsögumanninn Leif Örn Svavarsson var í morgunþætti Rásar tvö á þriðjudagsmorgni (02.02.2016). Takk fyrir það.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)