13.2.2015 | 07:03
Molar um málfar og miðla 1674
Það þvælist fyrir sumum að skrifa fréttir um jarðgöng. Í átta fréttum Ríkisútvarpsins á fimmtudagsmorgni (12.02.2015) var fjallað um vandræðin við gerð Vaðlaheiðarganga, þar sem virðist hafa verið gengið fram af meira kappi en forsjá. Í fréttinni var talað um gangnagröft. Þessi villa heyrist aftur og aftur. Gangagröft, hefði þetta átt að vera. Eignarfallið af orðinu göng er ganga. Eignarfall orðsins göngur, í merkingunni fjárleitir að hausti, er gangna. Gangnamenn. Þeir sem fara í göngur. Oft hefur verið að þessu vikið í Molum.
Af mbl.is (11.02.2015): Kim Kardashian West er orðinn þreytt á að heyra og sjá umfjallanir í fjölmiðlum um kynlífsmyndband hennar ...
Umfjöllun er eintöluorð. Ekki til í fleirtölu. Muna það næst, mbl.is.
Nokkuð algengt er að heyra sagt: Þegar hér var komið við sögu ... (Veðurfréttir í Ríkissjónvarpi 11.02.2015). Hér hefði átt að segja: Þegar hér var komið sögu, - þegar hér var komið. Að koma við sögu er að taka þátt í einhverju, eiga aðild að einhverju. Auk Jóns og Sigurðar komu Pétur og Páll einnig við sögu ... En, þegar hér var komið sögu, tók Jón til sinna ráða.
Ríkissjónvarpið byrjar alla jafna útsendingar á virkum dögum klukkan 16 30, - nema boltaleikir eigi í hlut. Þá er byrjað fyrr. Fram að þeim tíma er Stöð tvö einráð á öldum ljósvakans , til dæmis á sjúkrahúsum , dvalarheimilum og víðar. Ríkisútvarpið ætti alvarlega að íhuga að hefja útsendingar fyrr á daginn, heldur en að vera endursýna þætti eftir miðnætti og stundum langt fram á nótt. Þetta er sett fram svona til umhugsunar.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (12.02.2015) var rætt við Jakob Frímann Magnússon, sem annast málefni miðborgarinnar í Reykjavík á vegum borgaryfirvalda. Hann ræddi af skynsemi um bílastæðamálin í miðborginni og grennd og verslanir og hótel. Molaskrifari er á því, að Jakob Frímann ætti fremur að vera formaður skipulagsnefndar borgarinnar en sá sem nú gegnir því starfi og virðist einna helst vilja útrýma bílum og að fólk ferðist annaðhvort á hestum postulanna eða reiðhjólum. Jakob leit raunsætt á málin. Engir ofstækisórar gegn bílum og bíleigendum. Molaskrifari áttaði sig hinsvegar ekki á samanburði Jakobs á Reykjavíkurflugvelli og flugvöllunum í Vestmannaeyjum og á Ísafirði.
Þegar tíu fréttum seinkar eins og í gærkveldi (12.02.2015) á Ríkissjónvarpið að segja okkur frá því með skjáborða. Það er tæknilega mjög einfalt. Það var ekki gert í gærkveldi. Það eru ekki góðir mannasiðir.
Morgunblaðið birtir leiðréttingar. Það er sagt blaðinu til verðugs hróss. Það gera nefnilega ekki allir fjölmiðlar. Á fimmtudag birti blaðið leiðréttingu vegna myndbirtingar í dálknum Þetta gerðist ... þar sem rifjaðir er upp liðnir merkisatburðir. Birt hafði verið mynd af saxófónleikaranum Charlie Parker (einmitt að leika á saxófón) í stað myndar af trompetleikaranum Dizzy Gillespie. Það er klaufaskapur eða víðáttumikil vanþekking að villast á þessum tveimur snillingum, sem vissulega áttu samleið í jassheimum. Molaskrifari hlustaði á Dizzy Gillespie í ausandi rigningu á Newport Jazz Festival árið 1979 og hefur alla tíð haft dálæti á honum. Hlustaði nýlega og horfði á gamla BBC upptöku af Jazz at the Philharmonic á Youtube þar sem hann fór á kostum.
Chromecast er magnað tól til að hlusta og horfa á Youtube myndbönd í sjónvarpi. Góð græja.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2015 | 09:16
Molar um málfar og miðla 1673
Molavin skrifaði: "Tók þrjú ungmenni af lífi" segir í fyrirsögn Morgunblaðsfréttar (11.01.2015) af Bandaríkjamanni, sem myrti þrjú múslímsk ungmenni. Af fyrirsögninni mátti skilja að um aftöku dæmdra hefði verið að ræða en ekki fólskuleg morð. - Rétt athugað, Molavin. Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Í Bylgjufréttum klukkan níu (10.02.2015) var sagt: Hálka og hvassviðri eru víða um land. Molaskrifari hefði sagt: Hálka og hvassviðri er víða um land.
Af dv.is (10.02.2015): Ljóst er af listanum yfir þá muni sem þau fjarlægðu, að það var engu til sparað við innréttingu heimilisins.
Hér finnst Molaskrifara tvennt vera athugavert. Í fyrsta lagi er ruglað saman (nokkuð algengt, reyndar) tveimur föstum orðasamböndum. Ekkert til sparað. Engu til kostað. Í öðru lagi er hús ekki sama og heimili. Hús eru innréttuð. Heimili eru ekki innréttuð.
http://www.dv.is/frettir/2015/2/10/rifu-ut-innrettingar-fyrir-fjortan-milljonir/
Meira af dv.is sama dag: ,,Ómar segist hafa brugðið við að sjá hræin og hringt strax á lögregluna á Akureyri en fengið engin viðbrögð.
Ómar segir að sér hafi brugðið við að sjá hræin, hefði þetta til dæmis getað verið. Einnig: Ómar segir að sér hafi verið brugðið við að sjá hræin, eða; Ómar segir sér hafa brugðið við að sjá hræin. Engir ritsnillingar þarna á ferð. http://www.dv.is/frettir/2015/2/10/fann-ruslagam-fullan-af-daudum-dyrum/
Fyrirsögn af visir.is (10.02.2015): Notaður reiðbúnaður stöðvaður í tollinum. Orðið reiðbúnaður hefur Molaskrifari ekki heyrt áður. Í fréttinni kemur fram að þetta var reiðfatnaður og reiðtygi.
http://www.visir.is/notadur-reidbunadur-stodvadur-i-tollinum/article/2015150219947
Með reglulegu milli verður Ríkisútvarpið okkar heltekið, alveg gegnsýrt af einhverju, og þess sér merki daginn út og daginn bæði í dagskrá útvarps og sjónvarps. Oftast eru þetta íþróttir. Alltaf boltaíþróttir. Stundum er það popp. Nú er það söngvakeppnin Evróvisjón , sem er hamrað á daginn út og daginn inn.
Á miðvikudagsmorgni hlustaði skrifari um skeið á morgunþátt Bylgjunnar. Skipti síðan yfir á Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins. Þar var þá verið að fjalla um Evróvisjón söngvakeppnina. Nema hvað!
Þetta gengur yfir. Blessunarlega, fyrir þá sem engan áhuga hafa á þessu. En ekki verður langt í að eitthvað annað taki við! Maður verður bara að láta þetta yfir sig ganga! Gerir kannski lítið því úr svo mörgu góðu er að velja í sjónvarpi eftir öðrum leiðum með tækni nútímans. Tækni sem var óhugsandi, þegar sjónvarp hófst hér fyrir tæplega hálfri öld.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.2.2015 | 09:22
Molar um málfar og miðla 1672
Þórarinn skrifaði (09.02.2015) : ,Sæll,
mig langar að nefna eftirfarandi orðalag sem fréttakona Ríkssjónvarpsins viðhafði í kvöldfréttum í kvöld 9/2, í frétt um Merkel og Obama. Þar sagði hún m.a.:
,, .takist friðarumleitanir ekki í þetta skiptið, VÍLI sambandið þó ekki FRÁ því að beita harðari refsiaðgerðum. Ég hef heyrt að menn: víli eitthvað ekki fyrir sér, - en ekki að einhver víli ekki frá einhverju. Er þetta ekki eitthvað skrítið? Molaskrifari þakkar Þórarni bréfið. Þetta er ekki bara skrítið, heldur rangt.
Í morgunfréttum klukkan 06 00 (09.02.2015) var sagt frá verðlaunaafhendingu á Grammyhátíðinni: ,, ... var sigursælastur og hlaut fjögur verðlaun. Það er erfitt, þetta með fleirtöluorðin. Fleiri hnökrar voru á málfari í þessum fréttatíma.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (09.02.2015) var fjallað um húsnæði Náttúruminjastofnunar og sagt að stofnuninni hefði verið sögð upp leigan. Þetta hljómaði ekki rétt í eyrum Molaskrifara. Finnst að það hefði fremur átt að vera , að Náttúruminjastofnun hefði verið sagt upp leigunni, eða að leigusamningu stofnunarinnar hefði verið sagt upp.
Það er Molaskrifara ævarandi undrunarefni hvað stjórnmálamenn lúta lágt til að komast skamma stund á sjónvarpsskjáinn. Átt er við stjórnmálamenn og Hraðfréttir, svokallaðar, í Ríkissjónvarpi, til dæmis á föstudagskvöldið var (06.02.2015) . Ef stjórnmálamenn halda að þetta sé þeim til framdráttar, þá er Molaskrifari á öndverðum meiði. Þeir eru frekar að gera lítið úr sér.
Ekki heyrði Molaskrifari betur í Morgunútgáfunni á mánudagsmorgni (09.02.2015) rétt fyrir klukkan sjö en að leikið væri lag með hinum óviðjafnanlegu Millsbræðrum, sem alltof sjaldan heyrast. Listamannanna var hinsvegar að engu getið, aðeins sagt eftir á að lagið héti. When the Sun Goes Down. .
Í Morgunútgáfunni (09.02.2015) sagði umsjónarmaður um veður: Það er búið að stytta upp. Molaskrifari finnst þetta ekki mjög vel orðað. Það er búið að rigna mikið, en nú hefur stytt upp.
Íþróttafréttamaður,sem rætt var í þessum sama þætti er vafalaust vel fær enskumaður. Hann kallaði fjögurra liða úrslit í íslenskri íþróttakeppni final four. Hversvegna sletti á hann á okkur ensku? Kona sem rætt var við um sykurfíkn í þættinum sagði: Móttakararnir döllast. Í staðinn fyrir að sletta ensku ( dull) hefði konan getað talað um að móttakararnir slævðust eða dofnuðu. Hvernig er hægt að tækla þennan vanda, spurði umsjónarmaður. Sögnin að tækla er fengin frá íþróttafréttamönnum. Þeir sem vilja vanda mál sitt forðast notkun sagnarinnar að tækla í merkingunni að vinna bug á, ráða fram úr eða leysa.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2015 | 09:02
Molar um málfar og miðla 1671
Sigurður Hreiðar skrifaði (07.02.2015):
,,Eiður -- gaman væri ef þú vildir mola þessa ambögu, -- sem dynur nú á okkur frá Forlaginu í öllum miðlum , - um eitthvað sem sé ávanabindandi. Vanabindandi hefur dugað hingað til. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Vonandi lesa Forlagsmenn þetta.
Vandvirknin var ekki allsráðandi í morgunfréttatímum Ríkisútvarpsins klukkan sjö og átta á laugardagsmorgni (07.02.2015). Sagt var frá sölu á málverki eftir listmálarann Paul Gauguin. Hann var kallaður Paul /gúgai! Réttan framburð geta fréttamenn ævinlega fundið til dæmis á Google, eða í tiltækum handbókum. Það er til nóg af framburðarorðabókum. Réttur framburður er í áttina að /gó´gen/ - . Talað var um að lokað væri á Vatnsskarð og að selja ætti Seljalandsskóla og íbúðarhús honum tengdum. Það var svolítill viðvaningsbragur á málfari í fréttum þennan morgun. Vantaði greinilega leiðsögn, yfirlestur. Ríkisútvarpið á að vanda sig.
Í Fréttablaðinu (09.02.2015) segir frá því erþota Icelandair lenti á Reykjavíkurflugvelli. Í fréttinni segir: ,,Vélin lenti kl. 1630 í gær og var stödd á Reykjavíkurflugvelli í rúma klukkustund áður en hún flaug aftur til Keflavíkur. Vélin var stödd (!) á Reykjavíkurflugvelli í rúma klukkustund. Það var og. Vélin var á Reykjavíkurflugvelli í rúma klukkustund.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps þennan sama dag af rafmagnsleysi á Suðurnesjum var okkur sagt í fréttayfirliti að lendingarljós á Keflavíkurflugvelli hefðu verið úti í tvær klukkustundir. Í fréttinni var því bætt við að aðflugsbúnaður hefði líka verið úti. Ekki veit Molaskrifari betur en lendingarljós við flugbrautir séu alltaf úti, utanhúss, og sama gildi um aðflugsljós. Þessi ljós lýstu ekki, þau loguðu ekki vegna rafmagnsleysis. Í sjónvarpsfréttum var bæði sagt að ljósin hefðu verið úti og að þau hefðu verið biluð!
Í lok Vikulokanna á Rás eitt (07.02.2015) gleymdi umsjónarmaður að segja okkur hverjir hefðu setið þar og spjallað. Molaskrifari þóttist þekkja eina rödd, kannski tvær. Það á að vera grundvallar regla í lok umræðuþátta að segja hverjir þar töluðu saman. Svo mikil grundvallarregla, að ekki ætti að þurfa að brýna það fyrir reyndum dagskrárgerðarmönnum það. Í lok laugardagsviðtalsins í Ríkisútvarpinu sagði Egill Helgason okkur frá því við hvern hafði verið rætt.
Alþingismaður skrifaði á fésbók (09.02.2015) ,,Margir opinberir aðilar hafa kosið að versla innflutt fullunnið gler. Þingmaðurinn ruglast á sögnunum að kaupa og að versla. Hann á við að margir opinberir aðilar kjósi að kaupa fullunnið, erlent gler. Of algengt er að þessu sé ruglað saman.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2015 | 06:52
Molar um málfar og miðla 1670
Í Fréttablaðinu (05.02.2015) segir: ,, Félagarnir eru væntanlegir heim á föstudaginn og hafa þá farið umhverfis heiminn á fimm dögum. Málvenja er á íslensku að tala um að fara umhverfis jörðina, ekki umhverfis heiminn.
K.Þ. benti á eftirfarandi (07.02.2105):,, Ég held að við höfum sofið fljótandi að feigðarósi í þessum málaflokki, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson ..."
http://kjarninn.is/island-best-i-heimi-seinni-hluti
Þakka ábendinguna, K.Þ. Við tölum um að fljóta sofandi að feigðarósi. Vera gálaus, gæta ekki að afleiðingum verka sinna eða verkleysis. Líkingin er úr kvæðinu ,,Oddur Hjaltalín eftir Bjarna Thorarensen: En þú sem undan/ ævistraumi/ flýtur sofandi/að feigðarósi. (Mergur málsins, Jón G. Friðjónsson, bls. 190)
Í miðopnu Morgunblaðsins á föstudag (06.02.2015) er falleg mynd sem þekur meira en hálfa síðuna. Myndatextinn er svona: ,,Hafrótið heillar. Ungur maður ljósmyndar hvítfyssandi brim við Gróttu á Seltjarnarnesi í norðangarra á dögunum. Þar er alltaf eitthvað áhugavert að skoða og ljósmynda, ekki síst á veturna. Við þetta er eiginlega bara tvennt að athuga: Á myndinni er ekkert hafrót og heldur ekkert brim. Í mesta lagi svolítið úfinn sjór. Bræla, eða kaldafýla, mundu sjómenn kannski segja. Sennilega hefur sá sem skrifaði textann hvorki séð hafrót né brim.
Í fréttum Stöðvar á fimmtudagskvöld var fjallað ítarlega um klúður borgaryfirvalda í Reykjavík og ferðaþjónustu fatlaðra. Þar sagði fréttamaður:
,, Formaður landssamtakanna Þroskahjálp sagði að henni hafi brugðið illa við fréttum gærdagsins. Hér hefði farið betur á því að segja, til dæmis: Formaður landssamtakanna Þroskahjálp sagði að henni hafi verið illa brugðið er hún heyrði fréttir gærdagsins, eða að henni hefði brugðið illa við fréttir gærdagsins. Ljóst er að borgaryfirvöld í Reykjavík létu öll varnaðarorð þeirra sem þjónustunnar njóta og talsmanna þeirra , sem vind um eyru þjóta, þegar miklar breytingar voru gerðar.
Guðmundur Guðmundsson benti á þessa frétt á visir.is (05.02.2015) : http://www.visir.is/article/20140605/SKODANIR03/706059991
Þar segir: ,, Hins vegar þegar kemur að því að úthluta lóðum á Skógum er það í valdi héraðsnefnda Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu en ekki sveitarstjórnar Rangárþings eystra.
Undarleg er þessi afbökun að tala um "á" Skógum! Fer þetta fólk út á skóg að ganga? Þórður er fræðimaður "í" Skógum. Héraðsskóli var "að" Skógum. Molaskrifari þakkar bréfið.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps , klukkan 22 00 (006.02.2015) var sagt, - Samkvæmt Vegagerðinni og samkvæmt veðurfræðingi, orðið býsna algengt að heyra svona til orða tekið. Molaskrifari er ekki sáttur við þetta orðalag. Hefði þótt betra að sagt væri: Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar og að sögn veðurfræðings. Hvað segja Molalesendur?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2015 | 07:13
Molar um málfar og miðla 1669
Molavin skrifaði: ,, Í sjónvarpsgagnrýni Morgunblaðsins í dag, 5.2.2015, er sagt að sjónvarpsleikkonan Sofie Gråbøl leiki lögregluforingja í nýrri sjónvarpsþáttaseríu, Fortitude, sem tekin er að mestu á Íslandi, en á að gerast á Svalbarða. Hér er hins vegar um að ræða embætti sýslumanns á Svalbarða, en það heitir á ensku "governor". Einföld leit með Google hefði hjálpað blaðamanni að fara rétt með. Þetta er rétt athugað, Molavin. Sýslumaðurinn á Svalbarða er eini embættismaðurinn sem heyrir undir norsk stjórnvöld, sem ber starfsheitið sýslumaður, sysselmann.
Úr kvöldfréttum Ríkisútvarps (04.02.2105),, ...úrskurðaði um að launamunurinn væri ólöglegur. Hér hefði verið nóg að segja: Úrskurðaði að launamunurinn væri ólöglegur. Skera úr um. Úrskurða.
Molaskrifari gerir kannski of miklar kröfur um málfar í fréttum. Hann kunni ekki að meta þegar í þingfréttum Ríkissjónvarps (04.02.2015) ítrekað var talað um að opna á eitthvað, - í merkingunni að ljá máls á einhverju eða fallast á eitthvað.
Ágæt og fróðleg umfjöllun um Norður Kóreu í Kastljósi (04.02.2015), - þessar mestu þrælabúðir í veröldinni. Margt fleira hefði þá mátt segja. Molaskrifari heimsótti þetta undarlega land tvisvar í embættiserindum í nóvember 2003 og lok mars 2005. Ekki var síður eftirminnilegt að koma að landamærunum við Suður Kóreu við Panmunjong við 38. breiddarbauginn 1994 og til Dandong við landamæri Norður Kóreu og Kína 2005. Borgin Dandong stendur við Yalufljót, sem kom á tímabili daglega við sögu í fréttum í Kóreustríðinu. En þessar fréttir muna bara elstu menn, eins og þar stendur. Þar voru andstæðurnar sláandi. Dandong blómleg kínversk borg í örum vexti en Norður Kóreu megin var eiginlega bara auðn og eyðimörk, þótt þar ætti að heita að vera borg. Spígsporandi vopnaðir hermenn, sem gengu gæsagang, höfðu gætur á árbakkanum, - gættu þess að enginn færi eða kæmi. Allt í algjörri niður niðurníðslu.
Á miðvikudagskvöld (04.02.2015) varð óvænt 15 mínútna hlé milli Gettu betur og Kiljunnar í dagskrá Ríkissjónvarpsins. Fyllt var upp í dagskrárgatið með allkyns dagskrárauglýsingum og (lítt áhugaverðum) tónlistarmyndböndum. Ekki sagt orð við hlustendur. Molaskrifari þekkir enga sjónvarpsstöð, sem kemur svona fram við áhorfendur,- enga.
Bókstafurinn -r- á það til að smeygja sér inn í orð þar sem hann ekki á heima. Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (05.02.2015) var talað um æfingarbúðir á vegum Nató. Hefði átt að vera æfingabúðir. Vera á verði.
Borgarfulltrúi í Reykjavík, sagði í útvarpsviðtali (05.02.2015) ,,Neyðarstjórn þarf að vera hands on , svo maður sletti nú. Hann átti við, að neyðarstjórn (verið var að fjalla um bílaþjónustu fyrir fatlaða einstaklinga) þyrfti að vera með fingurinn á púlsinum, þyrfti að fylgjast grannt með. Ljót sletta og algjörlega óþörf.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.2.2015 | 08:14
Molar um málfar og miðla 1668
Molaskrifara gengur illa að fella sig við orðalagið, að eitthvað hafi gerst eða verið svona og svona síðasta sumar. Þetta orðalag var notað í fréttum Ríkisútvarps (04.02.2015) klukkan sjö að morgni. Og í fleiri fréttatímum, reyndar. Olíuverð hefur fallið mikið frá því síðasta sumar. Hvað er að því að segja í fyrra sumar? Hefur verið nefnt áður.
Viðtöl í beinni útsendingu í fréttum geta verið ágæt, þegar tilefni er til. Það er hinsvegar dálitið hallærislegt, þegar þannig viðtöl eru í næstum hverjum fréttatíma beggja sjónvarpsstöðva , oftar en ekki án minnsta sjáanlegs tilefnis. Bara til að geta sagt í beinni útsendingu?
Á þriðjudagskvöld (03.0.02.2015) rambaði Molaskrifari á endursýningu á þætti númer tvö í fimmtíu og tveggja þátta röð stuttra vikulegra þátta, Öldin hennar, sem Ríkisútvarpið hefur keypt eða látið gera í tilefni þess, að öld er síðan konur á Íslandi fengu kosningarétt. Í þessum þætti var fjallað um ár seinni heimsstyrjaldar (1939-1945). Í texta er sagt við okkur á ensku að þá hafi íslenskar konur orðið objects of desire. Í fyrsta lagi er þetta rangt. Íslenskar konur urðu ekki fyrst eftirsóknarverðar undir miðja tuttugustu öld. Í öðru lagi er þetta ljót og óþörf enskusletta. Í þessum þætti sagði sami kynja- sagnfræðingur okkur að sokkabuxur hefðu verið mjög eftirsóttar á stríðsárunum. Það er sagnfræðileg rangfærsla. Sokkabuxur komu ekki til sögu fyrr en löngu seinna, seint á sjötta áratugnum. Sjá til dæmis: http://en.wikipedia.org/wiki/Pantyhose
Ríkisútvarpið ætti að sjá sóma sinn í að láta framleiðendur þáttanna lagfæra þessa hnökra. Staðreyndavillur á leiðrétta. Minnst hefur verið á þetta í Molum áður.
Orðið dróni er að festast í málinu. Það er úr ensku. Notað um fjarstýrð smáflygildi, oft búin myndavélum. Það er ekkert að þessu orði. Ekkert verra en til dæmis jeppi eða trukkur, sem fyrir löngu hafa unnið sér þegnrétt í málinu. Á Bylgjunni heyrði Molaskrifari (04.02.2015) ítrekað notað orðið flygildi og það er aldeilis prýðilegt. En hefur það orð ekki einnig verið notað um annarskonar loftför?
Nokkrum veðurfræðingum í sjónvarpi hættir til að flytja áherslu í samsettum orðum eins og suðurströnd og norðurland. Segja suður´STRÖND, norður´LAND. Heldur hvimleitt, en auðvelt að laga.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2015 | 06:56
Molar um málfar og miðla 1667
Hildur skrifaði (02.02.2015):
,,Sæll Eiður,
Takk fyrir að vera sífellt á vaktinni! Oft les ég það sem þú ert að skrifa en ekki alltaf, man ég t.d. ekki hvort þú hefur fjallað um atriði sem fara mjög fyrir brjóstið á mér. Þ.e. þegar talað er um að eitt og annað gangi vel eða illa "fyrir sig". Þetta finnst mér afar ljótt og óþörf viðbót. Sjá t.d. á Mbl í dag: Fæðingin gekk erfiðlega fyrir sig ... Hvað finnst þér um þetta?
Og hvers vegna á fólk ekki lengur skólasystkini heldur hefur tekið upp orðskrípið "samnemendur" þess í stað?
Kærar þakkir, Hildur, fyrir hlý orð og mjög réttmætar athugasemdir. Sammála þér. Að tala um að eitthvað gangi vel eða illa fyrir sig, er klúðurslegt orðlag og skólasystkin er fallegt orð, sem við megum ekki láta enda í glatkistunni.
Guðmundur Guðmundsson skrifaði (002.02.2015): ,,Tvisvar hef ég heyrt umsjónarkonu morgunútvarps RÚV tala um að "blikur séu á lofti" með afnám gjaldeyrishafta. Og þá í merkingunni að það hilli undir afnám hafta. Þversögn. Molaskrifari þakkar Guðmundi bréfið. Þetta orðalag er út í hött. Útvarpsfólk á ekki að nota orðtök, nema þekkja merkingu þeirra. Gildir reyndar um okkur öll.
Í frétt á visir.is (31.01.2015) af láti leikkonunnar Geraldine McEwan, sem lék einkaspæjarann Miss Marple í óteljandi sjónvarpsmyndum, var sagt að frökenin hefði verið njósnari. ,, Hún var hvað þekktust fyrir að leika njósnarann fröken Marple í vinsælum þáttum sem gerðir voru eftir bókum Agöthu Christie. Þetta er rangt eins og þeir vita, sem lesið hafa Agötu Christie. Mbl.is var með þetta rétt. Fröken Maeple var ekki njósnari, ekki frekar en sá frægi Hercule Poirot. Þau leystu sakamál með rökhugsun og grúski.
Hér var nefnt á dögunum að gott væri í útvarpi að viðtölum eða samtalsþáttum loknum að segja hlustendum við hvern eða hverja var rætt. Þetta er oft gert í Ríkisútvarpinu, en svona með höppum og glöppum. Í lok Vikulokanna á Rás eitt síðastliðinn laugardag greindi Anna Kristín Jónsdóttir frá því hverjir þar hefðu setið á spjalli. Þetta ætti ævinlega að gera. Er eiginlega ABC í dagskrárgerð, eins og kunningi Molaskrifara orðaði það. Sama ætti að gilda að loknum flutningi tónlistar, - meiri háttar tónverka alla vega.
Nú eigum við að anda í kviðinn, sagði þingmaður í fréttum Ríkissjónvarps (02.02.2015). Þetta orðalag hefur Molaskrifari ekki áður heyrt. Átt var við að við ættum að anda rólega, doka við, hugsa okkar gang. Anda í gegn um nefið er stundum sagt í sömu merkingu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.2.2015 | 08:34
Molar um málfar og miðla 1666
Þetta er í fyrsta skipti í vetur sem mögulegt er að opna Skálafell, var sagt í kvöldfréttum frettum útvarps (31.01.2015). Átt var við opnun skíðasvæðisins í hlíðum Skálafells.
Það er galin dagskrárgerð að vera með hálftíma handboltafjas á besta tíma á laugardagskvöldi í Ríkisjónvarpinu. Jaðrar við ósvífni gagnvart þeim tugum þúsunda, sem hafa engan áhuga å fjasi um löngu búna leiki. Fáránlegur yfirgangur. Þetta hefði mátt afgreiða, ef vilji hefði verið fyrir hendi, í fimmtán mínútna löngum íþróttafréttum sem troðið hefur verið milli frétta og veðurs á sunnudagskvöldum
Á laugardagskvöldið kom svo meira en hálfur annar tími af söngvakeppni. Það efni höfðaði lítt til Molaskrifara, sem kemur Molalesendum varla á óvart, en ýmsir kunna víst að meta þetta. Þrjár konur þarf til að kynna efnið. Ein þeirra talaði um að sigra keppnina. Hún þarf að læra betur að nota orðin sigra og keppni. Guðmundur Guðmundsson , vék að þessu í bréfi til Mola (02.02.2015) og segir:
,,Ragnhildur Steinunn talaði um að sigra söngvakeppnina. Ekki gott, þó það hafi verið í beinni. Fjölmiðlafólk nær þessu bara ekki. Þarf samt enga sérfræðinga til. Molaskrifara fannst lögin keimlík og ekki hátt á þeim risið. En þannig á það víst að vera í þessari keppni.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins í morgun (03.02.2015) var okkur svo tilkynnt að þar yrði söngvakeppnin á dagská alla daga til yfir lýkur, - þar til keppni lýkur. Þegar kemur að poppi og boltaíþróttum kann Ríkisútvarpið sér oft ekki hóf.
Það bætti úr skák að eftir það, sem á undan var gengið, kom margverðlaunuð öndvegis kvikmynd, Listi Schindlers.
Ágætt er að fá Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur aftur á fréttaskjáinn. Hún er prýðilegur þulur.
Í sjónvarpsauglýsingu frá Háskólabíói (31.01.2015) var talað um fjögur Óskarsverðlaun. hefði átt að vera , - fern Óskarsverðlaun. Aftur og aftur eru gerðar sömu vitleysurnar, þegar fleirtöluorð koma við sögu.
Úr frétt á mbl.is (02.02.2015) um par sem tók bíl traustataki til að komast leiðar sinnar: ,,Bættu þau við, að bifreiðin hafi verið ólæst og lykillinn í skránni. Lögreglan hvetur fólk til að ganga frá bifreiðum sínum læstum.
Lykillinn í skránni? Lykillinn var í svissinum. Það er ekkert að því að nota orðið sviss um það sem á stirðara máli var kallað kveikjulás. Kveikjur, eins og áður fyrr voru í bílum , hafa vikið fyrir annarri tækni. Seinni setningin hefði verið einfaldari svona: Lögreglan hvetur fólk til að læsa bílum sínum.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/02/02/vantadi_far_og_stalu_bil/
Kastljós var á dagskrá Ríkissjónvarpsins klukkan 1935 í gærkvöldi (02.02.2015). Það leið og beið. Ekkert Kastljós. Tuttugu mínútum síðar kom borði á skjáinn þar sem sagt var að ekki væri hægt að senda Kastljós út af tæknilegum ástæðum. Svolítið nánari skýring kom svo í seinni fréttum klukkan 22 00. Auðvitað getur öll tækni brugðist. Það vita gamlir sjónvarpsmenn kannski manna best, en þarna komu upplýsingar ó þarflega seint til áhorfenda. Hvað, ef koma hefði þurft mikilvægum upplýsingum til þjóðarinnar?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2015 | 08:51
Molar um málfar og miðla 1665
Í frétt um þorrablót Stjörnunnar í Garðabæ á forsíðu Garðapóstsins (29.01.2015) segir: ,, ... enda gekk það snuðrulaust fyrir sig ... . Þarna ætti að standa , enda gekk það snurðulaust fyrir sig. Orðbókin segir að snurða sé ,,lítill harður samsnúningur á snúnum þræði, hnökri. Í afleiddri merkingu er sagt til dæmis að snurða hafi komið á þráðinn, þegar ósamkomulag eða vandræði hafa komið upp. Orðið snuðrulaust er ekki til en að snuðra er að hnusa, leita eftir lykt , ganga þefandi. Þarna hefði leiðréttingaforrit komið sér vel.
Í sama blaði er fyrirsögnin Lively outdoor learning. Undirfyrirsögn: Kennarar í Flataskóla fóru í Comeniuusarferð til Paley á Spáni. Hvorki er þetta vel skiljanlegt né til fyrirmyndar.
Hallærisvilla í fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins (30.01.2015): Með réttastöðu grunaðs manns. Orðið réttastaða er ekki til. Hér er átt við réttarstöðu, þótt ekki takist betur til en þetta. Bæta prófarkalesturinn, Morgunblað!
FME kannar hvernig gögn láku til fjölmiðla, sagði í fyrirsögn á visir.is (30.01.2015). Molaskrifari hallast að því að þarna hefði fremur átt að segja: FME kannar hvernig gögnum var lekið til fjölmiðla. Gögnin láku ekki. Þeim var lekið. http://www.visir.is/article/20150130/VIDSKIPTI06/150139974
Í frétt á mbl.is (30.01.2015) segir um morðingja: ,,Hann stendur frammi fyrir lífstíðarfangelsi. Vitnað er í erlendan fréttavef, en þar segir:,, He has been placed in custody and faces life imprisonment, Hann er í haldi og hans bíður ævilangt fangelsi. Aulaþýðing hjá Mogga.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/01/30/for_med_likid_a_logreglustodina/
Á föstudagsmorgni (30.01.2015) upp úr klukkan hálf átta var í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins langur pistill um handbolta í Katar. Þegar Molaskrifari kveikti aftur á útvarpinu skömmu fyrir klukkan níu var verið að kynna Evróvisjón söngvakeppnina, en beinar og óbeinar auglýsingar um það fyrirbæri munu dynja á okkur hlustendum og horfendum linnulaust næstu vikurnar. Sjálfsagt þykir sumum að þetta sé nöldur í Molaskrifara og að ógerlegt sé að gera honum til hæfis! Kannski er nokkuð til í því. Ríkisútvarpi og sjónvarpi hefur með þrautskipulögðum hætti og einbeittum vilja tekist að skapa eins konar múgsefjun hjá þjóðinni þegar boltaleikir og popptónlist eru annars vegar.
K.Þ. benti á eftirfarandi frétt á dv.is (31.01.2015): http://www.dv.is/folk/2015/1/31/thaettir-teknir-upp-reydarfirdi-fa-skelfilega-doma/
Í fréttinni segir meðal annars: ...því útliti þáttanna er hrósað upp í hástert. Molaskrifari bætir við: Orðabókin segir jafngilt að hrósa í hásert og að hrósa upp í hástert. Þannig að ekkert er við orðalag dv.is að athuga.
Enn var fréttastofa Ríkisútvarpsins niðurlægð á föstudagskvöldið (30.01.2015). Fyrst var fréttum seinkað um hálftíma vegna boltaleiks. Svo seinkaði fréttum um næstum tuttugu mínútur í viðbót við hálftímann! Afsökunarbeiðni hefði verið við hæfi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)