Molar um málfar og miðla 1684

  

Gamall samstarfsmaður sendi Molum eftirfrandi (26.02.2015): ,,Orðskrípið „óásættanlegur“ veður uppi sem aldrei fyrr og það jafnvel í tilkynningum frá akademískum stofnunum. Ég heyrði þennan ófögnuð fyrst af muni verkalýðsforingja eins fyrir hálfum öðrum áratug eða svo og síðan hefur honum stöðugt vaxið fiskur um hrygg. Við eigum mörg góð orð í íslensku máli sem hægt er að nota í staðinn fyrir þetta skrípi og má þar nefna af handahófi orðin óboðlegur, slæmur, vondur, óframbærilegur o.s.frv. o.s.frv. “

Molaskrifari þakkar bréfið og er bréfritara hjartanlega sammála.

 

Í Víðsjá á Rás eitt (25.02.2015) var talað um ... tilnefndustu mynd Óskarsverðlaunanna að þessu sinni. Tilnefndur , tilnefndari, tilnefndastur ??? Þessa orðmynd er ekki að finna á vef Árnastofnunar http://bin.arnastofnun.is/forsida/

 

Ekki kann Molaskrifari fyllilega að meta orðið snjóbylur sem skrifað var á skjáinn í veðurfréttum Ríkissjónvarps (24.02.2015). Orðið er vissulega að finna í íslenskri orðabók. Betur kann skrifari við að talað sé um byl, hríð, stórhríð eða snjókomu. Orðið snjóstormur sem stundum bregður fyrir í fréttum er ótækt, hrátt úr ensku (snowstorm).

 

Það barst í tal í kunningjasamtali á dögunum að óþörf þolmyndarnotkun í fréttaskrifum færi vaxandi. Hér er dæmi af mbl.is (26.02.2015): Hann var sótt­ur á lög­reglu­stöðina af móður sinni, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá lög­reglu.

Hér hefði farið miklu betur á því að segja: Móðir hans sótti hann á lögreglustöðina samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.

Germynd er alltaf betri.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/02/26/mamma_latin_saekja_soninn/

 

Handbolti í samtals tvær klukkustundir, lungann úr kvöldinu í gærkvöldi í Ríkissjónvarpinu (26.02.2015). Óboðlegt. Svo Molaskrifari segi það nú einu sinni enn.  Enn er spurt: Til hvers er svokölluð íþróttarás?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1683

 

Í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (25.02.2015) var okkur sagt: ,,Haraldur fimmti Noregskonungur varð í gær fyrsti norski konungurinn til að heimsækja Suðurskautslandið og yfirráðasvæði Noregs þar”.

Hér er frétt Aftenposten frá 11. febrúar sl. um komu Haraldar konungs til Suðurskautslandsins. Fyrir hálfum mánuði!

http://www.aftenposten.no/nyheter/iriks/Kong-Harald-skrev-historie-i-Antarktis-7895562.html

 

Af mbl.is (24.02.2015):,, Grunn­hug­mynd­in að baki end­ur­skoðun laga um út­lend­inga sem nú fer fram hjá inn­an­rík­is­ráðuneyt­inu er að komið verði á fót mót­tökumiðstöð fyr­ir hæl­is­leit­end­ur.” Molaskrifari spyr: Hefði þetta ekki átt að vera, - Grunnhugmyndin að baki endurskoðunar laga .... ?

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/02/24/komi_upp_mottokumidstod_haelisleitenda/

 

Átakanleg og áhrifarík umfjöllum um átröskun í tveimur Kastljósþáttum fyrr í vikunni. Þetta var vel unnið og þeim til sóma sem að því stóðu. Vinnubrögð til fyrirmyndar. Vekur fólk til umhugsunar um þennan lúmska og lífshættulega sjúkdóm. Einnig þann sæg af svo kölluðum fæðubótarefnum, ,,grenningarlyfjum”, Kínalífselxerísum og snákaolíum sem hér er á boðstólum. Heldur er óhugnanlegt að hugsa til þess að hér skuli þrífast svartur markaður með hættuleg efni af þessu tagi.

 

Molaskrifari verður æ sannfærðari um að það var röng ákvörðun stjórnenda Ríkisútvarpsins að vera með sama morgunþáttinn á báðum rásum í tvær og hálfa klukkustund fimm daga vikunnar. Tilgangurinn með tveimur rásum var að auka fjölbreytni í dagskránni. Það gerist ekki með því að senda út sama efni á báðum rásum.

Líklega fer þeim hlustendum fjölgandi sem á morgnana flytja sig á aðrar stöðvar. Ekki skal úr því dregið að ýmislegt hnýsilegt efni er á boðstólum í Morgunútgáfu, Ríkisútvarpsins en ekki er Molaskrifari til dæmis viss um að firna langt viðtal um kjaramál framhaldsskólakennara, sem flutt var á miðvikudagsmorgni (25.02.2015) hafi höfðað til þorra hlustenda. Það er eins og vanti neista í þáttinn.  

 Ríkisútvarpið ætti að breyta þessu fyrirkomulagi. Vera með þátt á annarri rásinni, þar sem  væri fyrst og fremst tónlist af ýmsu tagi ekki talað orð.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1682

 

Margt er innihaldið! Í íþróttafréttum Ríkisútvarps (23.02.2015) var hlustendum sagt frá liðum, sem innihéldu ýmist íslenska leikmenn eða þjálfara!

 

Efni Landans í Ríkissjónvarpi er fjölbreytt og fróðlegt. Molaskrifari hafði gaman af heimsókninni í Byggðasafnið á Garðskaga (22.02.2015). Að skaðlausu hefði mátt gera hinu stórmerka vélasafni, sem Guðni Ingimundarson frá Garðstöðum á allan heiður af, betri skil. Molaskrifari komst meira að segja á skjáinn í nokkrar sekúndur! Sýnd var ljósmynd sem er í safninu. Þar var hann ásamt systkinum sínum og frændum um borð í árabáti afa síns á þurru landi við fiskverkunarhús Guðmundar Jónssonar á Rafnkelsstöðum við Rafnkelsstaðavör, Kópu, innstu vör í Garðinum. Myndin var sennilega tekin 17. júní 1945, - allir í sínu besta pússi. Molaskrifari á matrósafötum við stýrið, Guðjón Björnsson, smiður og sjómaður,  í Réttarholti, afi skrifara stendur við stefnið.

 

Oft er ruglað saman af og . Hér er dæmi af mbl.is (23.02.2015): Þær hafi ekki mátt yf­ir­gefa íbúðina af vild. Hér hefði átt að standa: Þær hafi ekki mátt yfirgefa íbúðina að vild, - Þegar þær vildu.

 

Enn einu sinni er vakin athygli á því, að eldsneytissalinn N1 býður fólki í útvarpsauglýsingum (23.02.2015) að versla matvörur. Mælt er með því að N1 skipti við auglýsingastofu þar sem fólk er betur að sér í íslensku. Við kaupum matvörur. Verslum ekki matvörur.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (23.02.2105) talaði fréttamaður um endurskoðun friðlýsingu. Hefði átt að vera endurskoðun friðlýsingar. Sami fréttamaður talaði í annarri frétt um aðstöðu sjúkrahússins á Akureyri. Væntanlega var átt við aðstöðu sjúklinga og starfsfólks á sjúkrahúsinu á Akureyri.

 

Mænuskaðastofnun Íslands er sjálfsagt merkasta stofnun og málstaðurinn vissulega góður. Undarlegur er fjáraustur stofnunarinnar í mikla auglýsingaherferð í útvarpi og sjónvarpi. Stundum er sama auglýsingin sýnd tvisvar sama kvöldið. Hvað er verið að auglýsa? Það er ekki utanríkisráðuneytið, sem flytur tillögur hjá Sameinuðu þjóðunum. Tillögurnar eru fluttar,  lagðar fram og fyrir þeim mælt í nafni Íslands, - ekki utanríkisráðuneytisins sérstaklega. Starfsfólk utanríkisráðuneytisins vinnur að málinu. Molaskrifari er handviss um að það þarf ekki  sjónvarpsauglýsingar til að hvetja utanríkisráðherra og starfsfólk ráðuneytisins til dáða í þessum efnum.

Þess vegna er þetta óskiljanleg auglýsingaherferð.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1681

  

Í fréttum Stöðvar tvö (20.02.2015) var greint frá fyrirhugaðri gerð kvikmyndar um örlög flutningaskipsins Suðurlands. Í inngangi fréttarinnar las fréttaþulur: ,, ... þar er greint frá hinum þekktu og hrikalegu örlögum flutningaskipsins Suðurlandi og áhöfn þess.” Hér er ófullburða hugsun að baki. Þulur hefði betur sagt: ,, .. þar er greint frá hinum kunnu og hrikalegu örlögum flutningaskipsins Suðurlands og áhafnar þess.” Fréttamaður bætti um betur og sagði , að ,,margt benti til þess að skipið hafi verið tekið yfir af sovéskum, jafnvel breskum kafbáti”. Þetta var ekki skýrt frekar. Við hvað var átt? Réðust sovéskir eða breskir sjóliðar um borð í skipið?  Í frétt á fréttavefnum visir.is er hinsvegar talað um að skipið hafi verið tekið niður: ,, Margt bendir til að skipið hafi verið tekið niður af sovéskum eða jafnvel breskum kafbáti. Við hvað er átt? Sjá: http://www.visir.is/hyggst-gera-stormynd-um-skipskada-sudurlandsins/article/2015150229882

 Þetta eru ekki fyrirmyndarvinnubrögð.

 

Ríkissjónvarpið, sem berst í bökkum fjárhagslega og á mjög á brattann að sækja, lætur sig hafa það að halda áfram að sóa milljónum í svokallaðar Hraðfréttir.   Í síðasta þætti (20.02.2015) talaði hraðfréttamaðurinn þrisvar sinnum um sigra keppnina. Þarf að segja margt um það orðalag?  

Í dagskrárauglýsingu á laugardagsmorgni (21.02.2015) var talað um sigurvegara íslensku tónlistarverðlaunanna. Það var sem sé sá sem sigraði verðlaunin. Málfarsráðunautur mætti taka þetta til athugunar.

 

Páll Bergþórsson veðurfræðingur gerði hikorð eins og hérna, þarna og svona ( frb. héddna þaddna og sona) nýlega að umtalsefni á fésbók. Páll er manna smekkvísastur um málfar. Notkun þessara hikorða, eða kækorða, eins og einnig mætti kalla þau var einkar áberandi er rætt var við tvo sérfróða um notkun mynddeiliforritsins Instagram í Morgunútgáfunni (20.02.20156). Annar þeirra sem rætt var við tönnlaðist á héddna og sona í næstum hverri setningu og sletti óspart ensku. Stundum virðist fólk gera þetta næstum ósjálfrátt og því er þá greiði gerður með því að benda á þennan hvimleiða kæk. Áreiðanlega er vel hægt  að venja sig af þessu.

 

Það hvarflar að Molaskrifara að það sé liður í einhverskonar innrætingarstefnu Ríkissjónvarpsins að troða íþróttafréttum milli frétta og veðurfrétta. Á sunnudagskvöldum eru þetta heilar 15 mínútur og sannast sagna ekki allt mjög merkilegar fréttir. Hversvegna má ekki hafa íþróttafréttirnar á undan fréttatímanum, sem hefst klukkan 19 00?

 

Því miður heyrir það  næstum  til undantekninga að Ríkissjónvarpið standi við tímasetningar í auglýstri dagskrá? Á sunnudagskvöld (22.02.2015) hófst til dæmis prýðilegur þáttur um eldgosið í Holuhrauni sex mínútum seinna en auglýst var. Auglýstir dagskrártímar eru ekki lausleg viðmiðun. Þeir eiga að standa. Það á að vera hægt að treysta því að auglýstar tímasetningar standist. Stundvísi í útvarpinu, í dagskrá Rásar eitt, er hinsvegar nánast alveg óbrigðul og til fyrirmyndar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1680

  

 

Í íþróttafréttum í hádegisfréttum Ríkisútvarps (19.02.2015) sagði fréttamaður að af sérsamböndunum væri starfsemi Knattspyrnusambandsins sú umfangsmesta á ársgrund velli. Ársgrundvöllur , títtnefndur, er ævinlega til óþurftar í fréttum.

Svo var okkur sagt að framkvæmdastjóri sambandsins ætlaði að stíga til hliðar. Stíga til hliðar (e. step aside). Það hefði betur farið á því að segja að framkvæmdastjórinn ætlaði að hætta, láta af störfum. Oft hefur verið að þessu hér í Molum áður.

 

Þetta birtist á mbl.is (19.02.2015): „Ég hef jafn­vel haft tæki­færi til að versla lopa­peysu og bragða á staðbundnu lostæti,“ seg­ir Robert C. Barber, sendi­herra Banda­ríkj­anna á Íslandi, í mynd­bandi sem birt var í dag á Face­book-síðu banda­ríska sendi­ráðsins ... “ Ekki er hægt að segja að þetta sé góð þýðing á orðum bandaríska sendiherrans. Hann keypti sér lopapeysu (e. ,,even had the chance to shop for lopapeysa”). Verslaði ekki lopapeysu. Hann bragðaði á íslenskum kræsingum, krásum, góðgæti, - ekki staðbundnu lostæti. (e. ,,local delicacies”) Þýðingar hafa aldrei verið hin sterka hlið Morgunblaðsins.

 

Óskarsverðlaunin fara fram á sunnudaginn, var sagt í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (20.02.2015). Óskarsverðlaunahátíðin fer fram á sunnudaginn , eða Óskarsverðlaunin verða afhent á sunnudaginn, hefði verið eðlilegra orðalag.

 Í fréttum Ríkissjónvarpsins sama dag var okkur sagt, að uppskeruhátíð íslensks tónlistarfólks yrði haldin hátíðleg í kvöld. Hátíðir eru ekki haldnar hátíðlegar. Hér hefði verið einfaldara að segja, til dæmis: Uppskeruhátíð íslensks tónlistarfólks er í kvöld. Svo ræddi fréttamaður sjónvarpsins við mann, sem unnið hafði til ,,fjögurra verðlauna”. Það virðist mörgum erfitt að átta sig á að orðið verðlaun er fleirtöluorð. Rætt var við mann sem unnið hafði til fernra verðlauna. 

 

Gott var að fá kvikmyndina Good Night and Good Luck , Góða nótt  og gangi ykkur vel  á skjá  Ríkissjónvarpsins í gærkveldi (22.02.2015). Merk  saga um góða blaðamennsku og baráttuna gegn öldungadeildarþingmanninum alræmda Joseph McCarthy. Þeir Edward R. Murrow og Fred Friendly  voru í fremstu röð í bandarískri blaðamennsku á síðustu öld.  Til er ágæt bók  sem heitir: Edward R. Murrow and the Birth of Broadcast Journalism. Höfundurinn  heitir Bob Edwards. . Hana  ættu blaðamenn að lesa.

 

Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu sl. fimmtudag (19.02.2015) voru flutt tvö verk eftir Ludwig van Beethoven. Þá rifjaðist það upp fyrir skrifara að fyrir margt löngu voru fluttir í Ríkisútvarpinu þættir þar sem Gylfi Þ. Gíslason, fyrrverandi menntamálráðherra, kynnti sinfóníur Beethovens. Þetta var framúrskarandi efni, smekklegar og fróðlegar kynningar og skýringar, eins og Gylfa Þ. Gíslasonar var von og vísa. Séu þessir þættir til í segulbandasafni Ríkisútvarpsins væri ástæða til að endurflytja þá við tækifæri. Sennilega hafa þættirnir verið frumfluttir um eða eftir 1980.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar um miðla 1679

  

Af mbl.is (18.02.2015) : ,Ungt par sem ætlaði að krydda til­ver­una hjá sér í sum­ar­bú­stað í Borg­ar­byggðinni um liðna helgi með því að út­búa sér kanna­bis-ís, eft­ir upp­skrift af Net­inu, beit held­ur bet­ur úr nál­inni þegar það byrjaði að gæða sér á ísn­um”.

Molaskrifari játar að hann áttar sig ekki á þessari notkun orðtaksins að bíta úr nálinni, - bíta þráð í sundur til að losa nálina ( Mergur málsins, bls. 622) Oft er sagt, til dæmis., að einhver sé ekki búinn að bíta úr nálinni með eitthvað, - ekki séu afleiðingar einhvers verknaðar eða aðgerðaleysis komnar í ljós. - Hann er ekki búinn að bíta úr nálinni með framkomu sína gagnvart konunni í gærkvöldi.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/02/18/bordadi_hassis_og_hljop_um_nakinn/

 

,,... renni til samfélagsins og uppbyggingu þess.” Þannig var til orða tekið í Speglinum í Ríkisútvarpinu (18.02.2015). Hefði að mati Molaskrifara átt að vera: .. renni til samfélagsins uppbyggingar þess.”

 

Bókstafurinn – r - í miðjum orðuð vefst stundum fyrir fréttaskrifurum. Í Garðapóstinum (19.02.2015) er svohljóðandi fyrirsögn: Lykillinn er hugafar Garðbæinga. Þarna ætti að standa: Lykillinn er hugarfar Garðbæinga, - eins og réttilega er skrifað í fréttinni.

 

Á fimmtudagsmorgni (19.02.2015) var í sjö fréttum Ríkisútvarps vitnað í bandaríska dagblaðið Los Angleles Times. Upp á ensku var það kallað / ell ei tæms /. Þetta var endurtekið í fréttum klukkan átta. Óþarfi. Hversvegna nota enska skammstöfun? Þetta hefur reyndar heyrst áður.

 

Sama morgun var rætt við starfsmann Ríkisútvarpsins, sem staddur var í Leifsstöð. Þar höfðu farangursfæribönd bilað og valdið töfum. Starfsmaðurinn var að detta inn í öryggisleitina og hlustendur fengu að heyra að flugum hefði verið frestað! Vonandi hefur sá sem rætt var við ekki slasast við fallið og flugunum ekki orðið meint af frestuninni. Nú um stundir er það mjög í tísku þegar eitthvað er nýafstaðið eða er í þann veginn að gerast að segja að það sé að detta inn, nýkominn gestur var að detta inn. Heldur hvimleitt finnst málfarsíhaldinu sem þetta skrifar. – Í átta fréttum sagði Haukur Holm fréttamaður að ekki kæmi fram á vef Isavia, að bilunin á færiböndunum  hefði valdið töfum á flugi. Það er gott orðalag.

 

Orðið staðsetning og sögnin að staðsetja heyrast æ oftar, - að tilefnislausu. Í hádegisfréttum (19.02.2015) á fimmtudag var sagt: Staðsetning viðræðnanna hefur þó ekki verið ákveðin. Viðræðustaður hefur ekki verið ákveðinn. Ekki hefur verið ákveðið hvar viðræðurnar fari fram.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1678

 

Molavin sendi þetta ágæta bréf (17.02.2015): ,,Það er trúlega blanda af öllu þessu; þekkingarleysi, hugsunarleysi og eftirlitsleysi. þegar fyrirsagnir af þessu tagi verða til: BETRA AÐ SOFA EN SNÚSA LENGI (Fréttablaðið 17.2.2015). Þessi "ísl-enska" er þó höfð orðrétt eftir formanni Hins íslenska svefnrannsóknafélags. "Snooze" er enska og merkir að dorma áfram, blunda eða sofa létt. Jafnvel "næla sér i kríu". Snúss er hins vegar þekkt og gamalt heiti á neftóbaki og "að snússa" merkir að taka í nefið. Ég held að doktorinn, sem rætt var við, hafi ekki átt við það. Íslenzkan er svo rík af orðum, að óþarfi er að sletta ensku eða reyna að búa til nýyrði með slíkum hráþýðingum.

 

Að öðru: "1 tafla 1 sinnum á dag" segir á lyfjaboxi. Trúlega er þetta prentað úr tölvu, sem verður ekki sökuð um slæma málkennd, en forritarar hljóta að geta gert betur. 

 

"Garbage in - garbage out" var sagt í árdaga tölvutækni, þegar menn kenndu tölvunni um. Norskur háskólaprófessor minn í gamla daga var óspar á svipaðar umvandanir þegar honum fannst einhverjir ekki vanda sig: Sljó hugsun - slæmur texti, sagði hann (þó á norsku) og svipað mættu yfirmenn fjölmiðla iðulega segja nýliðum sínum.”

Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (18.02.2015) var talað um fjallabelti. Sennilega var átt við það sem hingað til hefur verið kallað fjallgarður á íslensku.

 

Mánaðarblaðið nýja, Stundin, barst Molaskrifara á miðvikudagsmorgni. Efnismikið blað og sýnist heldur lofa góðu.

 

Kiljan á miðvikudagskvöldum í Ríkissjónvarpinu er alltaf skemmtileg blanda af bókmenntum og menningarsögulegum fróðleik af mörgu tagi. Myndvinnsla jafnan vönduð og smekkleg.

Ekki er þó Molaskrifari viss um að það sé rétt hjá Agli að Reykvíkingum sé heldur í nöp við Hallgrímskirkju. Hann hallast að því að þeir hafi fyrir löngu tekið hana í sátt. Ef Molaskrifari er ekki á hraðferð og á leið um Skólavörðuholtið sest hann stundum inn í kirkjuna. Þá kemur fyrir að verið er að leika á hið stórkostlega orgel kirkjunnar. Það eru góðar stundir.

 

Það er misskilingur,sem fram kemur í sjónvarpsauglýsingu frá Mænuskaðafélagi Íslands, að utanríkisráðuneytið flytji tillögur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ísland flytur tillögurnar.

 

allgrímskui Hallgrímskirkju. Stundumer hann svo heppinn aðp  einhver snmillingurinn er að s kirkjun

 

Forseti lýðveldisins flandrar nú um heiminn og nýtur samvista við ríka og fína fólkið. Það á nú við hana Vindu! Sækir brúðkaup milljarðamæringa og blandar geði við forystumenn ríkja þar sem mannréttindi mest eru fótumtroðin, - eins og til dæmis í Arabísku furstadæmunum. Kom svo við hjá kónginum á Spáni svona í leiðinni. Morgunblaðið gerði þessu flakki forsetans nokkur skil á þriðjudag (17.02.2015). Þar sagði: ,, ... og átt hádegisverð með konungsfjölskyldunni í Bútan”. Forsetinn hafði snætt hádegisverð með konungsfjölskyldunni í Bútan. Hann átti ekki hádegisverð konungsfjölskyldunni. Sennilega er hér um bein áhrif úr ensku að ræða, ... had lunch with the royal family...

En spyrja mætti, - borgar íslenska þjóðin ferð forseta í snobbbrúðkaup á Indlandi? Skrítið, ef sú er raunin.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1677

   

K.Þ. skrifaði (15.02.2015): Sæll Eiður,

Eins og ég hef ítrekað bent á er orðið "tengdur" nánast aldrei beygt rétt í fjölmiðlum. Ég læt hér fylgja tvö ný dæmi.

"Sá sem rann­sakaði spill­ing­ar­mál þeim tengd­um ..."

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/02/13/glaepamenn_fundu_skjol_hja_hsbc/

"Lögmenn ákærðra í hrun-málum, það er málum sem nú hafa verið dómtekin sem tengjast hruni bankanna og viðskiptagjörningum því tengdu ..."

http://kjarninn.is/logmenn-i-hrunmalum-i-sjokki-domurinn-markar-timamot

Molaskrifari þakkar K.Þ. Bréfið Hér hafa áður verið nefnd svipuð dæmi. Þetta þvælist mjög fyrir sumum fréttaskrifurum.

 

Enn eru menn að sigra keppni í fjölmiðlum. Nú síðast Söngvakeppni sjónvarpsins, sjá visir.is (16.02.2015): ,, Sigmar kom færandi hendi og afhenti Ásgeiri Orra risavaxna milljóna króna ávísun sem þremenningarnir í StopWaitGo fengu í verðlaun fyrir að sigra Söngvakeppni Sjónvarpsins um helgina.” Þetta lærist sumum seint og illa .

http://www.visir.is/maria-og-strakarnir-i-stopwaitgo-gleymdu-milljon-krona-avisun/article/2015150219146

 

Í öllum auglýsingum um Stockfish kvikmyndahátíðina, sem fram mun fara hér á landi 19. febrúar til 1, mars http://stockfishfestival.is/ ,er birt mynd af saltfiski, flöttum þorski. Skrítið vegna þess að stockfish er ekki saltfiskur, heldur skreið, sem er allt annar handleggur. Sjá t.d. http://en.wikipedia.org/wiki/Stockfish

 

Prýðilegur málfarspistill í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins á þriðjudagsmorgni (17.02.2015).

 

Fróðlegt viðtal Þóru Arnórsdóttur við Evu Joly í Kastljósi (17.02.2015). Ballið er rétt að byrja.

 

Fréttaskýringaþáttur CBS 60 Minutes er að mati Molaskrifara einn besti fréttaskýringaþáttur sem völ er á. Synd að Ríkissjónvarpið skyldi á sínum tíma láta hann sér úr greipum ganga til Stöðvar tvö. Þar var nýlega fróðleg umfjöllun um hvernig tölvuþrjótar geta með aukinni tölvuvæðingu bíla raunverulega tekið stjórnina af ökumanni. Þeir geta gert bremsur óvirkar, aukið hraða bílsins og allt hvað eina og ökumaður getur ekkert gert. Óhugnanlegt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1676

 

Fróðlegt var að hlusta á  Laugardagsviðtal Egils Helgasonar (14.02.2015) við Björn Bjarnason.  Björn er sjór af fróðleik um alþjóðastjórnmál og sögu. Hann fylgist vel með gangi heimsmála og er víðlesinn. Oft er Molaskrifari sammála Birni , en finnst hann þó draga rangar ályktanir af því sem hann les um Evrópumálin! En þetta var fínt viðtal og Egill er góður spyrill.

 

Grindhvalir syntu upp í fjöru á Nýja Sjálandi og drápust allmargir. Í morgunfréttum Ríkisútvarps (14.02.2014) þóttist Molaskrifari heyra að talað væri um lík hvalanna. Það var svona í svefnrofunum og hlýtur að hafa verið misheyrn. Þessi fréttatími er ekki aðgengilegur á netinu.

 

Þetta er svona ,,sing off” sagði formaður einhverrar Evróvisjón dómnefndar í útvarpsviðtali (14.02.2015). Óþörf enskusletta. Menn eiga að slá um sig með einhverju öðru en slettum úr erlendum málum.

 

Veðurfræðingar eiga ekki að nota orðið snjóstormur í veðurfréttum (Ríkissjónvarp 14.02.2015). Þetta orð er hráenska (snowstorm). Við eigum nóg af góðum orðum sem nota má í staðinn, hríð, stórhríð, bylur, snjókoma. Bara ekki tala um snjóstorm.

 

Að skaðlausu hefði Ríkissjónvarpið mátt breyta dagskrá sinni á mánudagskvöld (16.02.2015) og sýna okkur beint frá minningarathöfn í Kaupmannahöfn vegna voðaverkanna, sem þar voru framin. Það var ekki gert. Hvað sem veldur. Kannski datt ráðamönnum það ekki í hug. Kannski er kerfið of þungt í vöfum. Kannski er dómgreindin bara ekki í lagi

 

Umfjallanir komu við sögu í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (14.02.2014). Umfjöllun er eintöluorð. Ekki til í fleirtölu. Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=Umfj%C3%B6llun

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (15.02.2015) var fjallað um fangelsismál. Í fréttinni var sagt oftar en einu sinni að nýtt fangelsi á Hólmsheiði mundi opna, ætti að opna. Aldrei kom fram hvað fangelsið mundi opna. Molaskrifara var kennd sú regla á sínum tíma að sögnin að opna væri áhrifssögn og henni fylgdi andlag í þolfalli. Þessi regla virðist á undanhaldi. Hún er ekki í hávegum höfð í fjölmiðlum. Ríkisútvarpið er þar ekki eitt á báti. Hvað segir málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins?

 

Marga gimsteina er að finna í segulbandasafni Ríkisútvarpsins. Þeirra á meðal er lestur prófessors Jóns Helgasonar á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Hljóðritunin er frá árinu 1969. Og ekki spillir söngur Kristins Hallssonar á undan lestrinum. Lesturinn er á dagskrá eftir tíu fréttir á kvöldin, þó ekki á sunnudagskvöldum. Unun á að hlýða. Lesturinn seiðmagnaður.

Þegar vel stendur á fylgist Molaskrifari gjarnan með lestrinum og horfir á textann í fertugustu og fimmtu útgáfu Passíusálmanna frá 1920. Bókin er smá í sniðum, þótt innihaldið sé stórt, í fallegu leðurbandi, svolítið snjáð.  Fremst í bókinni stendur ritað snyrtilegri hendi: Guðni Guðmundsson á að eiga þessa bók á afmælisdaginn 1925. Frá Lóu. – Faðir minn hefur þá orðið 21 árs. Lóa var Ólöf Guðmundsdóttir (1901-1985), systir Guðna föður míns (1904-1947). Þau voru úr hópi þrettán systkina. Af þeim komust átta til fullorðinsára. Þau voru reyndar þremenningar að skyldleika við Jón Helgason, prófessor.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1675

 

Trausti benti Molaskrifara á þessa frétt á dv.is ((12.02.2015):

http://www.dv.is/frettir/2015/2/12/fekk-ofurbil-felagans-lanadan-og-klessti/

Trausti segir:
"Hámarkshraði bílsins eru rúmlega þrjú hundruð kílómetrar á klukkustund.
Töluverðar skemmdir urðu á bílnum en hann var sendur í viðgerð og kostaði hún litlar 261 þúsund pund."

Trausti bætir við:
,,Hámarkshraði (eintala) ... eru (fleirtölumynd) ...
litlar (kvenkynsmynd) ... þúsund (hvorugkyn) ...
Greinilega hugsunarlaust og enginn prófarkalestur.” Orð að sönnu,- hugsunarlaust og enginn prófarkalestur.

 

Einnig bendir Trausti á þessa frétt sama dag á mbl.is.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/02/12/italia_er_ad_deyja/

"Alls fædd­ust 509.000 börn á Ítal­íu á síðasta ári, en sam­kvæmt op­in­ber­um töl­um hafa ekki færri börn fæðst í land­inu á einu ári frá 1870 þegar öll ríki sunn­an Alpa­fjalla var sam­einað í eitt ríki, Ítal­íu."
Hann segir: ,,Æ, mér verður illt, víðar en í augunum, við að lesa svona hugsunarleysisgraut.
Öll ríkin voru sameinuð, en þau var ekki öll sameinað.” – Rétt, Trausti. Þakka ábendingarnar.

 

Á föstudagskvöld (13.02.2015) varaði Veðurstofan við mikilli úrkomu. Í fréttum var sagt að ,,sólarhringsrennsli gæti orðið 100 mm”. Sólarhringsrennsli? Á fréttavef  Ríkisútvarpsins stóð: ,,Sólarhringsrennsli þar sem verst lætur gæti farið yfir 100 millimetra. “

http://www.ruv.is/frett/varad-vid-hlaku-og-vatavoxtum

Þetta var ekki mjög skýrt eða auðskilið að mati Molaskrifara. Þetta er hinsvegar skýrt ágætlega á vef  Veðurstofunnar, en þar segir: ,, Búast má við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla sunnan og vestanlands og þar gæti sólarhringsafrennsli (samanlögð úrkoma og snjóbráðnun) farið vel yfir 100 mm (sjá meðfylgjandi kort, smellið á til að fá nánari skýringar). Sjá: http://www.vedur.is/um-vi/frettir/nr/3077

Þetta hefði mátt skýra betur fyrir þeim sem hlustuðu á  Ríkisútvarpið.

 

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (13.02) var greinargott og skilmerkilegt yfirlit yfir málaferli sem nú eru á döfinni vegna ýmissa mála, sem tengjast hruninu. Fróðleg samantekt.

 

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (13.02.2015) var talað um nýliðna kjarasamninga við lækna. - Nýgerða kjarasamninga við lækna. Í sama fréttatíma sagði annar fréttamaður: Flutt var inn tvö þúsund ... tonn (af kjöti) Flutt voru inn ..... Hefði það átt að vera.

 

Í lok Vikulokanna á Rás eitt sl. laugardag (14.02.2015) greindi Helgi Seljan umsjónarmaður skilmerkilega frá því hverjir þar hefðu rabbað saman. Þannig á það að vera.

 

Kúreki næturinnar (Midnight Cowboy) sem Ríkissjónvarpið sýndi í gærkveldi (15.02.2015) er eðalfín mynd. Dustin Hoffman er óbrigðull.  Minningaþátturinn um Árna Scheving var góður. Nöfn hefðu þó mátt skila sér betur á skjáinn. Í Landanum var hápunkturinn fyrir Molaskrifara heimsóknin í einstæða Einarsbúð á Akranesi. Gaman að sjá góða vini, Einar og Ernu, þar í fullu fjöri. Ólíklegt er að nokkur verslun á landinu eigi jafn tryggan hóp viðskiptavina og Einarsbúð og er það að verðleikum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband