Molar um málfar og miðla 1846

 

Hlé hefur verið á Molaskrifum um sinn, en skrifari brá sér af bæ í tvær vikur og fylgdist slitrótt með íslenskum fjölmiðlum. Sitthvað hnaut hann þó í stopulum lestri um og verður sumt rakið hér.

 

SINATRA

Á laugardaginn var 12, desember voru eitt hundrað ár liðin frá fæðingu Franks Sinatra, sem í áratugi var einn vinsælasti dægursöngvari ekki bara í Bandaríkjunum, - heldur um víða veröld , mætti allt eins segja. Mörg lögin hans eru sígrænar perlur, klassík. Frægur kvikmyndaleikari að auki. Þessi tímamót fóru alveg framhjá Ríkissjónvarpinu okkar. Þau fóru ekki framhjá ríkisstöðvunum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, sem gerðu ferli hans góð skil á ýmsan veg. Í Efstaleiti voru menn um eitthvað annað að hugsa.

Samkvæmt auglýstri dagskrá á þó að bæta úr þessu í kvöld  og sýna heimildamynd um Sinatra(14.12.2015). Undarlega slök vinnubrögð.

 

AFTUR OG AFTUR

Aftur og aftur sjáum við og heyrum villur af þessu tagi (mbl.is 27.11.2015): ,,Fólk sem átti leið um Turn­inn í Höfðatúni fyrr í mánuðinum brá illi­lega í brún þegar grímu­klædd­ur maður birt­ist í lyft­unni og lét dólgs­lega.” Hér hefði átt að standa : ,,Fólki, sem ... brá illilega í brún...) Enginn yfirlestur. uhttp://www.mbl.is/folk/frettir/2015/11/27/grimuklaeddur_madur_i_lyftunni/

 

OG ENN OG AFTUR

 Af mbl.is (10.12.2015)

,, 55 ára karl­maður sem sit­ur í gæslu­v­arðhaldi í Nor­egi fyr­ir að hafa myrt tvö fórn­ar­lömb með hnífi á göt­um Osló­ar í morg­un hafði verið vísað úr landi. ...”. Karlmaður hafði ekki verið vísað úr landi. Karlmanni hafði verið vísað úr landi. Er þetta flókið? Já, ef menn hafa ekki vald á móðurmálinu. Og vitað hvaðan lagt var upp, þegar punkturinn var settur í setningarlok. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/12/10/margsinnis_visad_ur_landi/

ÖMURLEG VILLA

Á mbl.is (02.12.2015) var ömurleg villa. Fréttin var um, að Lárusar Jónssonar fv. alþingismanns hefði verið minnst við upphaf þingfundar, svo sem venja er, þegar fyrrverandi þingmenn falla frá. Á fréttavefnum stóð: ,,Ein­ar K. Guðfinns­son, for­seti Alþing­is, minnt­ist fyrr­ver­andi alþing­is­manns­ins Lárus­ar Jóns­son­ar í upp­hafi þing­funds í dag en Lár­us lést sl. sunnu­dags­kvöld. Lár­us sat á þingi fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn, á 15 þing­um alls.” Hvernig getur svona lagað gerst? Ég get alveg ímyndað mér viðbrögð Matthíasar eða Styrmis, - hvað þá Bjarna Benediktssonar eldri. Sá sem svona skrifaði, hefði ekki þurft að kemba hærurnar á ritstjórn Morgunblaðsins.

 Lárus Jónssonar var öndvegismaður. Leiðir okkar lágu saman á Alþingi. Við vorum um skeið grannar, báðir með skrifstofur á annarri hæð Þórshamars og spjölluðum þar oft yfir kaffibolla. Þar að auki var Guðrún kona hans frá Meiðastöðum í og henni kynntist Molaskrifari á barnsaldri, þegar hann sótti mjólk til þeirra systra í Meiðastaðafjósið sumarið 1947. Skrifari vottar Guðrúnu og afkomendum þeirra Lárusar einlæga samúð.

 

ENDEMISRUGL

Ekki getur Molaskrifari skilið fréttir um heimild til handa ríkisstjórninni að selja húsnæði Þjóðskjalasafnsins á annan veg (gömlu mjólkurstöðina innst við Laugaveg) en að Þjóðskjalasafnið eigi að fara annað vegna þess að þessi staður sé svo heppilegur fyrir hótel! Í þá veru talaði varaformaður fjárlaganefndar í hádegisfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (13.12.2015). Hann talaði um mikil tækifæri í þessu sambandi. Sló reyndar varnagla í ýmsar áttir.

 Hvaða rugl er þetta?

Molaskrifari veit ekki betur en að vel fari um skjalasafn þjóðarinnar þarna.

Pappír er þungur - húsið var hannað fyrir verksmiðjurekstur á sínum tíma gólfin þola mikinn þunga.

Sú ráðstöfun að kaupa þetta hús fyrir Þjóðskjalasafnið, var með því besta, sem Sverrir Hermannsson gerði meðan hann var menntamálaráðherra.

Hvað fæst fyrir húsið? Eru hótelkóngar byrjaðir að bera víurnar í það? Eða byggingarfélög?

Hvað kostar nýbygging fyrir Þjóðskjalasafn? Örugglega margfalt meira en fæst fyrir þetta hús. Hvað kostar að flytja safnið?

Eigum við ekki fyrst að fylla gapandi holuna vestur á Melum þar sem hús íslenskra fræða á að rísa? Sú hola stingur í augu og hefur of lengi gert. Eða er hún kannski fremur eins og tóm augnatóft?

Nema nota eigi múrbrotin úr MS húsinu til að fylla holuna á Melunum???? Það er auðvitað hægt að kalla það tækifæri. – (Áður birt á fésbók.)

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband