Molar um málfar og miðla 1836

 

DAGUR ÍSLENSKRAR TUNGU

Í dag, 16. nóvember, er Dagur íslenskrar tungu, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Allir dagar eiga að vera dagar íslenskrar tungu.

Í dag er fánadagur. Þess vegna flöggum við, sem höfum fánastöng.

Til hamingju með daginn!

 

ÓREIMDIR SKÓR

Edda skrifaði (12.11.2015) vegna fréttar á mbl. is : ,, Einni konu voru dæmd­ar 225 þúsund krón­ur í miska­bæt­ur með drátt­ar­vöxt­um þar sem hún hafi verið hand­tek­in þrátt fyr­ir að hafa ætlað að hlýða fyr­ir­mæl­um lög­reglu. Á leið sinni út af fram­kvæmda­svæðinu tók kon­an eft­ir því að skór henn­ar var óreimd­ur og hugðist lag­færa það en var þá tek­in hönd­um. Kon­an hafi því verið hand­tek­in án heim­ild­ar”.

Hún spyr:,, Segir maður ekki óreimaðir skór?” - Að sjálfsögðu ekki, heldur óreimaðir. Þakka bréfið, Edda.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/12/handtaka_folksins_naudsynleg/

 

NIÐURRIF MÁLSINS

V.H. skrifaði Molum (12.111.2015): ,,Sæll. Eiður.
Það er oft grátlegt að fylgjast með er málið er rifið niður í fjölmiðlum dag eftir dag. Í textavarpi var í vikunni fjallað um SÞ og friðargæslulið á vegum SÞ. En fjölmiðlabarnið er skrifaði sagði Ban Ki-moon vera framkvæmdastjóra Samtakanna, samtaka! og jafnvel stundum forstjóra, en Ban Ki-moon er auðvitað Aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Víða í fréttinni er sagt að samtökin gerðu þetta og hitt. Hvaða samtök? ? Já, það er margt sem ungir fréttamenn þurfa að læra.

Í amerískum sakamálaþætti kemur texti á skjá að einhver hafi komið kl 09:00 - 04:00. Þarna er tölvutími komin á kreik .. og efast ég um að nokkur tali svona tölvumál.

Frægt tónskáld lést í vikunni og var sagt að hann hafi skrifað fjölda laga. ,,Skrifað,, ég sem hélt að fólk semdi lög.

Ég mun seint venjast nýbreytni hjá Ríkisútvarpinu ( c.a 2 ára gömul ) að er fólk fellur frá stendur að Sigurjón Sigurðsson látinn ..þarna vantar ,,er,, .. og er þá rétt að segja að Sigurjón Sigurðsson er látinn. Skil ekki þá þrjósku hjá Ríkisútvarpinu að vilja ekki nota rétt mál sem hefur alltaf verið sagt í 70 ára eða meira hjá Ríkisútvarpinu.”

Kæar þakkir fyrir bréfið, V.H.

 

LEIÐRÉTTING

Það er ekki alltaf svo í Ríkisútvarpinu, að leiðrétting sé birt, þegar eitthvað hefur skolast til, rangt hefur verið farið með eitthvað. Stundum er eins og það virðist ekki skipta máli. Ágæt undantekning frá þessu var við lok morgunþáttar Rásar tvö á föstudag (13.11.2015). Sigmari Guðmundssyni, umsjónarmanni, hafði orðið það á að segja nafngreinda konu sterkustu konu á Íslandi. Það var fullmikið sagt því hún var sterkasta kona á Vestfjörðum. Þetta leiðrétti Sigmar smekklega.

 

REFAR

Í lesendabréfi í Molum 1835 var aulabrandari sem bréfritari svo kallaði: “Kári Stefánsson hefur nýlega sannað með DNA að hnífurinn, sem var notaður til að skera refina var sami hnífurinn, sem hafði staðið í kúnni”. Af þessu tilefni sendi Snorri Zóphóníasson Molum eftirfarandi (13.11.2015): ,,Vegna pistils í dag.
Til þess voru refarnir skornir. Þetta tengist fiskvinnslu. Þetta tengist refum ekki neitt”. Molaskrifari þakkar Snorra ábendinguna. Refur getur verið beinlaust stykki, segir í orðabók Blöndals. Sjá annars Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson, bls. 678

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1835

AÐ SAFNA FYRIR

Í morgunþætti Rásar tvö (11.11.2015) var talað um hið furðulega mál hjúkrunarfræðings, sem ákærður hefur verið manndráp af gáleysi. Þar var sagt að verið væri að safna fyrir henni. Þetta er ekki rétt orðalag. Verið er að safna fé henni til stuðnings. Þegar maður er að safna fyrir einhverju , þá er maður að safna fé til þess að kaupa eða eignast eitthvað.

 

MYGLAÐUR FISKUR?

 Í Bakþönkum á baksíðu Fréttablaðsins (11.11.2015) segir höfundur:,,Sneiddi myglubletti af karfaflökum ....”  Myglaður fiskur?

Molaskrifari hefur heyrt um úldinn fisk, jafnvel dragúldinn, en aldrei myglaðan fisk.

 

REFURINN OG KÝRIN

Molalesandi skrifaði (11.10.2015): ,,Ég hef gaman af orðaleikjum, eitthvað, sem ég erfði frá föður mínum.
Í gær datt mer í hug aulabrandari, sem mætti nota til að prófa málþekkingu núlifandi Íslendinga.
“Kári Stefánsson hefur nýlega sannað með DNA að hnífurinn, sem var notaður til að skera refina var sami hnífurinn, sem hafði staðið í kúnni”.
Ætli nokkur undir fimmtugsaldri geta skilið þetta?
Hvað heldur þú?”. Þakka bréfið, en svarið er: Sennilega ekki margir.

 

RÆNULAUSAR ÁSAKANIR

Hvað eru rænulausar ásakanir, sem lögmaður talaði um í fréttum Ríkisútvarps á miðvikudagskvöld (11.11.2015)? Kannski var hann að reyna að segja rakalausar ásakanir, - tilhæfulausar ásakanir, ásakanir úr lausu lofti gripnar. Hver veit? Þetta var margendurtekið í fréttum.

 

OG ÞÚ LÍKA ....

Af mbl.is (11.11.2015): ,,Áslaug bend­ir á að fólki sé heim­ilt að versla áfengi án milli­göngu ÁTVR ef vínsal­inn ber ekki skatta­skyldu á Íslandi”. Þarna er vitnað í nýkjörinn ritara Sjálfstæðisflokksins. Annað hvort skilur sá sem vitnað er í, eða sá sem fréttina, skrifar ekki muninn á sögnunum að kaupa og að versla. Þarna hefði til dæmis mátt segja að fólki væri heimilt að kaupa áfengi án þess að versla við ÁTVR. Maður gerir meiri kröfur til Morgunblaðsins en að það bjóði okkur svona texta. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/11/notfaera_ser_dhl_i_stad_tvr/

 

ENDURTEKNAR RANGFÆRSLUR

Í nafnlausum Staksteinum dagsins í Morgunblaðinu (13.11.2015) eru endurteknar rangfærslur Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins um Ríkisútvarpið, sem hún lét sér um munn um munn fara á Alþingi. Búið var að leiðrétta röng ummæli hennar opinberlega. Það skipti Staksteina engu. Leiðréttingin látin lönd og leið. Vond vinnubrögð.


TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1834

  

ÚTSLÁTTUR

Þ.G. skrifaði vegna fréttar á mbl.is (11.11.2015): ,,Frétt á vefmogga dagsins: "Ekki er útilokað að stálplata hafi slegið út þegar Perla var sjósett". Skrifari hefur greinilega litla hugmynd um hugtakið útsláttur. Rafliðar slá út vegna yfirálags en stálplötur eiga til að rifna, tærast eða springa.””

Hárrétt ábending. Þakka bréfið. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/11/ekki_hefur_tekist_ad_thetta_framskip_perlu/

 

DROPINN

Aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins var í viðtali í morgunútvarpi Rásar tvö á þriðjudagsmorgni (10.11.2015) og talaði um dropann sem fyllti mælinn. Þetta er gamall draugur og röng notkun orðtaks. Rétt er að tala um kornið sem fyllti mælinn. Sjá, Mergur málsins, Jón G. Friðjónsson, bls. 495. Nokkuð algengt er að heyra rangt farið með þetta. Korn var oft mælt í mælikerum og skeffumálum.

 

REKJA – REKA

Í pistli um Orkumál í áttafréttum Ríkisútvarps (10.11.2015) var fjallað um orkumál og alþjóðlega skýrslu um þau efni. Þar var sagt:

,, Þetta er aðallega rekið til batnandi orkunýtingar, orkusparnaðaraðgerða af ýmsu tagi og .... “ Þetta heyrist stundum, en er ekki rétt. Þetta er rakið til ... hefði þetta átt að vera.

 

AÐ KJÓSA

Ertu búinn að kjósa? Þessari spurningu beina stjórarnir í Útvarpi Sögu til áheyrenda. Þeir eru ekki að tala um kosningar. Þeir eru að spyrja hvort hlustendur hafi með símtali tekið þátt í samkvæmisleik, sem þeir kalla skoðanakönnun. Það er út í hött og röng orðnotkun að tala um að kjósa í þessu sambandi.

 

HREINSKIPTNAR VIÐRÆÐUR

Á bls. 2 í Morgunblaðinu (10.11.2015) er fjögurra dálka fyrirsögn:

Hreinskiptar viðræður. Molaskrifari er á því að fyrirsögnin hefði átt að vera: Hreinskiptnar viðræður. Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=hreinskiptinn

Þegar sagt er að viðræður á fundi hafi verið hreinskiptnar, þýðir það oftar en ekki að menn hafi hnakkrifist, - sagt meiningu sína umbúðalaust.

 

ÁHYGGJUEFNI?

Er það ekki áhugamönnum um íþróttir áhyggjuefni, hversu rúmfrekar fréttir um spillingu, mútur, hverskyns fjármálahneyksli og lyfjahneyksli í útlöndum eru í íþróttafréttatímum hér?

Í lok íþróttafrétta í Ríkissjónvarpi í gærkvöldi (11.11.2015) sagði íþróttafréttamaður: ,,Við fylgjumst að sjálfsögðu áfram með hneykslismálum í frjálsum íþróttum ....”.

En auðvitað er Ísland stikkfrí í þessu öllu. Hér þrífst engin spilling. Það vita allir.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1833

  

ALLT ER STAÐSETT

Úr frétt á mbl.is (07.11.2015):,, Hjól­hýsið var staðsett í Garðabæn­um.” Hjólhýsið var í Garðabænum. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/07/busettur_i_hjolhysi_i_gardabaenum/

 

ÞÁGUFALLIÐ

Haft eftir formanni fjárlaganefndar á mbl.is (07.11.2015): ,,Lang­ar þessu fólki til þess að land­inu gangi illa?” Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/07/osynilegur_her_neikvaedrar_umraedu/

Tek sérstaklega fram ,að þetta er ekki árás, heldur ábending og ekki úr launsátri.

 

VIÐTENGINGARHÁTTUR

Hvað er viðtengingarháttur að villast í þessari fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (08.11.2015)? Hafi ekki hugmynd um hvar eigi að spara.

Auðvitað ætti fyrirsögnin að vera í framsöguhætti: Hafa ekki hugmynd um hvar eigi að spara.

Sjá: http://www.ruv.is/frett/hafi-ekki-hugmynd-um-hvar-eigi-ad-spara

Annað dæmi um óþarfa notkun viðtengingarháttar á fréttavef Ríkisútvarps (09.11.2015): Nafnbirting geri brotaþolum engan greiða. Hversvegna ekki framsöguháttur? Nafnbirting gerir brotaþolum engan greiða. http://www.ruv.is/frett/nafnbirting-geri-brotatholum-engan-greida

Er hætt að kenna notkun viðtengingarháttar í grunnskólum?

 

ORÐTAK

Af vef visir.is (08.11.2015): ,, Hann var undir áhrifum áfengis og sagðist ekki í nein hús að venda”. Hér vantar eitt orð inn í, - svo öllu sé til skila haldið. Hann sagðist ekki eiga í nein hús að venda. Hann sagðist hvergi eiga skjól, hvergi eiga athvarf. Sjá: http://www.visir.is/mikid-um-olvun-a-airwaves/article/2015151108992

 

 

JARÐFALL

Í fréttum Stöðvar tvö á mánudagskvöld (09.11.2015) var sagt frá því er jarðfall varð, gjá eða gígur myndaðist við veitingastað í Bandaríkjunum og gleypti tólf bíla. Um orsök þess að þetta gerðist  sagði fréttamaður:,, Talið er að rigningar og frárennslismagnið hafi eitthvað haft um það að segja”. Þetta er ekki mjög vel orðað. Skárra hefði verið að segja til dæmis , að talið væri að regnvatn hafi skolað burt jarðvegi undir malbikuðu yfirborði.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1832

FRÁ VESTURBÆINGI – Í REYKJAVÍK

 Vesturbæingur skrifaði (07.11.2015): ,,Á fréttamáli tekst engum lengur neitt, heldur er sagt,- slökkviliðið náði að kæfa eldinn, hann náði að gera þetta og náði ekki að gera hitt, þegar honum tókst þetta og tókst hitt ekki.

Frá útlöndum er gjarna sagt, að forseti eða ráðherra hafi verið hvattur til þessa eða hins. Oft hygg ég, að nær væri að segja, að lagt hafi verið að manninum. 

Mannanöfn í útlöndum

Ég opnaði Útvarpið um daginn og heyrði forvitnilegt efni úr samtali manns við fréttastofu. Ég var forvitinn um hver hann væri. Sagt var: Ásbjörn segir að neysla á síld hafi ekki dregist mikið saman. Svo var sagt: Ásbjörn segir það koma til greina. Af nafninu mátti ætla, að maðurinn væri íslenskur. Ég fann fréttina síðar í heild. Samtalið reyndist vera við norskan embættismann, Asbjørn Warvik Rørtveit. Asbjørn, sem má mín vegna verða Ásbjörn í Útvarpinu, er nafn, sem hjálpar manni ekki, ef maður vill kynna sér efnið frekar. Warvik Rørtveit. er nafnið, sem maður þarf, hið opinbera nafn mannsins. Asbjørn er til notkunar innan fjölskyldu og meðal nákunnugra. Þetta er allt of algengt meðal fréttamanna, að þrýsta íslenskri nafnvenju á útlendinga.”

Kærar þakkir fyrir bréfið.

 

FÉKK SÍNU FRAM

Af vef Ríkisútvarpsins (06.11.2015): ,,Húsafriðunarnefnd fékk sínu fram þegar mennta-ogmenningarmálaráðuneytið friðaði innra byrði hússins.” Hér hefði að mati Molaskrifara átt að segja: ,, Húsafriðunar nefnd fékk sitt fram, þegar ....”. Skoðun Húsafriðunarnefndar varð ofan á, þegar ....

 

FLUGFERÐIR SNERU VIÐ

Af mbl.is (06.11.2015): ,, Fjöl­marg­ar flug­ferðir á leið til Egypta­lands, til þess að sækja breska strand­arglópa á ferðamannastaðinn Sharm el-Sheikh, hafa snúið við” Fréttabörnin voru mætt á helgarvaktin strax á föstudagskvöld. Flugferðir sneru ekki við. Flugvélar sneru við. Eða var snúið við. Þetta er rétt í fyrirsögn.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/11/06/thotur_a_leid_til_egyptalands_sneru_vid/

 

MEINLAUST

Það er svo sem allt lagi með þátt Gísla Marteins (,,á jákvæðum og uppbyggilegum nótum” eins og sífellt er tönnlast á í dagskrárkynningum) á föstudagskvöldum. Skilur kannski ekki mikið eftir, yfirleitt er þetta meinlaust mas. Andri Snær og tónlistin var bitastæða efnið í föstudagsþættinum (06.11.2016). Flutt var langt viðtal á ensku í þættinum. Engin tilraun gerð til að þýða eða endursegja. Stjórnandinn þarf að gæta sín á slettum, - ,, performans” og ,,þú ert ekki að plögga neinni bók!”

 

EKKI TIL FYRIRMYNDAR

Eftirfarandi málsgrein er úr íþróttafrétt á vefsíðu Ríkisútvarpsins (07.11.2015): ,,Englandsmeistarar Chelsea hefur gengið afleitlega á tímabilinu - liðið hefur tapað sjö leikjum af tólf og aðeins unnið þrjá - síðasti sigurleikur liðsins kom gegn Aston Villa um miðjan síðasta mánuð”. Hvað getur maður sagt? Svo sem ekki annað en það, að þarna valsar einhver eftirlitslaus við opin lyklaborð í Efstaleiti. Einhver sem þarf aðhald og eftirlit. Verkstjórn virðist ábótavant á fréttastofu. http://www.ruv.is/frett/stoke-sidasti-naglinn-i-kistu-mourinho

 

HRESSILEGT MORGUNÚTVARP

 Það var kraftur í morgunútvarpi Rásar tvö í morgun (10.11.2015). Enn talaði annar umsjónarmanna um lingó , - gott ef málfarsráðunautur var ekki líka við hljóðnemann. Slettur eru þarna of algengar. Ekki víst að allir hlustendur viti hvað þetta lingó er.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1831

HLUSTUNARÞOLI!

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (06.11.2015):

,,Veistu hvað „hlustunarþoli“ er? Nei, auðvitað ekki, en þú heldur að það sé sá sem neyddur er til að hlusta á eitthvað. Stór misskilningur.

Í Morgunblaðinu 5. nóvember 2015 er grein á blaðsíðu 13 undir fyrirsögninni: „Sími lögmanns var hleraður“. Þar er meðal annars vitnað í lokaritgerð í lögfræðinámi um símahleranir. Í fréttinni stendur þetta: „Í ritgerðinni segir að einn hlustunarþola hafi verið lögmaður …“ Sem sagt sá sem þarf að sitja undir því að vera hleraður í síma er orðinn „hlustunarþoli“. Sá sem hlerar síma má þá réttilega vera nefndur „hlustunarvaldur“ rétt eins og sá sem veldur slysi er „slysavaldur“ og sá slasaði „slysaþoli“. 

Vonandi þykir „lesþola“ þessara lína þær báðfyndnar. Víst er að „skrifvaldurinn“ skemmtir sér dável við skrifin. Vonandi hefur svo laganeminn náð prófi sínu ella væri hann „fallþoli“. “ Kærar þakkir fyrir gott bréf, Sigurður

 

AÐ BYGGJA NÝ HEIMILI

Tönnlast var því í fleiri en einum fréttatíma Ríkisútvarpsins á föstudagsmorgni (06.11.2015) að byggja ætti svo og svo mörg ný heimili í Venesúela. Menn byggja ekki heimili. Fólk stofnar heimili. Fréttin var um að byggja íbúðir, byggja íbúðarhúsnæði. Algengt er að húsum, og heimilum sé ruglað saman í fréttum. Les enginn yfir? Sennilega ekki.

 

AFBÖKUN

T.H. sendi Molum línu og benti á þessa frétt á mbl.is (05.11.2015): http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/05/perlu_ekki_komid_a_flot_i_dag/

Þar segir meðal annars:
"Gísli Gísla­son, fram­kvæmda­stjóri Faxa­flóa­hafna, seg­ir í sam­tali við mbl.is að ekki verði komið sand­dæl­ing­ar­skip­inu Perlu á flot að nýju í dag."
H.H. segir: ,, Þetta barnamál, sem ég er viss um að hefur ekki komið af munni Gísla Gíslasonar, heldur er þetta afbökun einhvers fréttabarnsins, sem hefði betur hlustað nákvæmar og haft rétt eftir.” Tek undir það, T.H. Þetta hefur Gísli áreiðanlega ekki sagt. Þakka ábendinguna.

 

HLUSTA,HLUSTA!

Molaskrifari hefur nokkrum sinnum minnst á það (meðal annars í ljósi eigin reynslu!) hve varasamt það er, þegar fréttaþulir, gleyma sér, hlusta ekki á það sem þeir eru að lesa. Dæmi um þetta mátti heyra í hádegisfréttum Ríkisútvarps (06.11.2015), en þá las reyndur þulur: ,, ... að lög um fóstureyðingar verði rýmkaðar”. Að lög um fóstureyðingar verði rýmkuð. Að heimildir til fóstureyðinga verði rýmkaðar.

 

FRÍMÍNÍNÚTUR FÁRÁNLEIKANS

Hinn svokallaði Frímínútnaþáttur Ríkissjónvarpsins var á dagskrá á föstudagskvöld (06.11.2016) Innihaldslaust og einstaklega ófyndið bull. Þátturinn næstum allur á ensku, - textaður og vísu, en það bætti ekki bullið, sem vall inn til okkar.

 Ríkisjónvarpið með alla sína peninga á að geta gert betur en þetta. Langtum betur.

 

4,5 MILLJARÐAR TIL ÞRIGGJA SVEITARFÉLAGA!

 Í fimm fréttum Ríkisútvarps (08.11.2015) og á vef Ríkisútvarpsins kom þetta fram:

,,Útlendingastofnun greiðir Hafnarfjarðarbæ rúma milljón fyrir húsbúnað fyrir þær þrjár fjölskyldur hælisleitenda sem bæjarfélagið ætlar að taka við. Þá greiðir stofnunin bæjarfélaginu tæpan einn og hálfan milljarð í árlegt fastagjald sem er ætlað að standa straum af launa-og rekstrarkostnaði..... Sambærilegur samningur hefur verið gerður bæði við Reykjanesbæ og Reykjavík.” – Getur þetta verið? Þetta var ekki nefnt í sex fréttum, aðalfréttatímanum.  Ekki kom leiðrétting, þannig að hlustendur, hljóta að trúa að þetta sé rétt. Sé þetta hinsvegar rangt , eins og Molaskrifari telur augljóst, þá þarf fréttastofan aldeilis að athuga sinn gang. Þá er eitthvað mikið að. Fréttin var óbreytt á vef Ríkisútvarpsins í morgun (09.11.2012). Sett inn kl. 16:27 daginn áður.  http://www.ruv.is/frett/milljon-i-husbunad-fyrir-haelisleitendur

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1830

 

TRÉKOL

 Í morgunfréttum Ríkisútvarps (04.11.2015) var talað um trékol. Var ekki verið að tala um það sem við köllum viðarkol á íslensku?  Á norsku er talað um trekull. Molaskrifari gat ekki skilið fréttina á annan veg.

 

AÐ FORSELJA

Úr undirfyrirsögn í Fréttablaðinu (04.11.2015): ,,Von er á 50 rafjeppum til landsins sem flesta er búið að forselja”. Er ekki bara verið að segja okkur að von sé á 50 rafjeppum sem flestir séu þegar

seldir?

 

AUSTUR Á LAND

Molaskrifari hyggur að málvenja sé að tala um að fara austur á land, þegar farið er austur á firði eða austur á Hérað. Í fréttum Ríkisútvarps kl. 14 00 á miðvikudag var sagt að sérfræðingar Veðurstofunnar væru á leið austur á land til að athuga aðstæður. Þeir voru á leiðinni austur að Dyrahólaey til að skoða aðstæður vegna hruns sem orðið hefur ofan við fjöru sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna. Dyrahólaey er á Suðurlandi.

 

AÐ SKIPTA UM HENDUR

Í fréttum Stöðvar tvö (04.11.2015) sögðu bæði fréttamaður og forstjóri Kauphallarinnar að 31 milljarður hefði skipt um hendur í Kauphöllinni í dag. Hafa milljarðar hendur? Molaskrifara gengur illa að sætta sig við þetta orðalag, sem sumum virðist ákaflega tamt. Var ekki verið að segja okkur að viðskipti dagsins hefðu numið 31 milljarði ?

 

AÐ SUNNAN

Molaskrifari horfði í gær (05.11.2015) á prýðilegan þátt á sjónvarpsstöðinni N4, Að sunnan.  Í þættinum var meðal annars rætt við Steinar Magnússon, sem var að láta af störfum sem skipstjóri Herjólfs eftir farsælan feril og eftir að hafa starfað hjá Eimskipafélaginu í meira en hálfa öld.

 Þar kom einu sinni enn rækilega fram, að þeir sem ráða fjármálum og framkvæmdum, gefa ekkert fyrir hugmyndir og tillögur skipstjórnarmanna á Herjólfi um hvernig standa eigi að því að bæta skilyrðin í Landeyjahöfn. Hundsa þá sem best þekkja til og gerst vita. Módelsmiðirnir eru sjálfsagt ágætir. En skyldu sjómennirnir ekki vita betur, sem daglega  fást við sjólag og strauma  í Landeyjahöfn?

 

Í FÓTSPOR POPPGOÐSINS

Var það rétt skilið, að Ríkissjónvarpið hefði gert út leiðangur í fótspor poppgoðsins Justins Biebers að Fjaðrárgljúfri (04.11.2015)? Vart var unnt að skilja fréttina á annan veg. Og svo er sífellt kvartað undan peningaleysi. Er það ekki slök stjórnun, sem er vandamálið í Efstaleiti?

 

KLISJA

Ofnotaðasta orðtak íslenskunnar um þessar mundir er að vinna hörðum höndum að einhverju. Þetta heyrist og sést í fréttum næstum í hvert einasta skipti sem sögnin að vinna er notuð.

Orðið dálítið þreytandi.

 

VONBRIGÐI

Stöð tvö olli Molaskrifara vonbrigðum í gærkvöldi (05.11.2015). Engin bein fréttaútsending frá Reykjavíkurhöfn!

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1829

 

BÍLARNIR KOMU ÚR GAGNSTÆÐRI ÁTT

Lesandi benti á frétt á mbl.is (02.11.2015):

Í fréttinni segir: ,, Þar rák­ust sam­an tvær bif­reiðar, sem voru að koma úr gagn­stæðri átt” : Hann spyr:,, Eru bílar hættir að mætast?” Hann kveðst hafa fengið þær upplýsingar á mbl.is að orðalagið sé ættað frá lögreglunni fyrir austan. Viðmælandi hans efaðist um þá útskýringu og sagði, að yfirvöld hefðu örugglega notað kerfismál og sagt bifreiðarnar ,,hafa fylgt andstæðum ferlum”. Lesandi lauk bréfi sínu með þessum orðum:,,Mér sýnist stundum eins og Moggi hafi skotið skjólshúsi yfir erlenda flóttamemenn, málið er svo bjagað, en í þessu tilviki er sökin eystra.” Molaskrifari þakkar bréfið.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/02/alvarlegt_bilslys_a_eskifirdi/

 

ÞARSÍÐASTA

Nýlega sá skrifari í blaði að talað um þarsíðustu bók Arnaldar. Honum lætur þetta ekki kunnuglega í eyrum. Væntanlega er átt við næst síðustu, næst nýjustu bók Arnaldar. Netleit leiddi í ljós að líka er talað um þarnæst síðustu jól, þarnæst síðasta sumar og þar næst síðustu aldamót.

Þetta orðalag er skrifara framandi, hefur þó hnotið um það í vaxandi mæli undanfarin misseri, og hann spyr , - er þetta nýtt í málinu?

 

FYRIRSAGNIR

Í fimm dálka fyrirsögn á bls. 6 (02.11.2015) segir: RÚV vegi að starfsheiðri fólks. Það er ekki verið að hvetja Ríkisútvarpið til að vega að starfsheiðri fólks eins og ætla mætti. Heldur telur formaður nefndar um starfsemi Ríkisútvarpsins, að stofnunin hafi í yfirlýsingu vegið að starfsheiðri þeirra sem í nefndinni sátu. Enn eitt dæmið um óæskilega notkun viðtengingarháttar.

Í undirfyrirsögn í Fréttablaðinu sama dag segir: Farþegi sem keypti innanlandsflug í gegnum Icelandair var gert að greiðarúmar tuttugu þúsund krónur fyrir að breyta innanlandsflugi.

 Við þetta er ýmislegt að athuga. Þarna ætti að standa: Farþega, sem keypti, .... var gert að greiða ... Farþeginn keypti miða í innanlandsflugi hjá Icelandair. Í fréttinni kemur fram að þeir skilmálar sem Icelandair býður farþegum, sem til dæmis kaupa fjórar flugferðir í einu, eru beinlínis fjandsamlegir neytendum og þessu gróðafélagi ekki til sóma, - síður en svo.

 

BORIN OG BÚIN

Að vera boðin/n og búin/n til að gera eitthvað , er að vera fús , viljugur til að gera eitthvað, - hjálpa til við eitthvað.

Þetta brenglaðist svolítið hjá mbl.is á þriðjudag (03.11.2015)

,,Ingi­björg kveðst hins­veg­ar bor­in og búin til að taka að sér frek­ari sím­vörslu fyr­ir ráðuneytið í framtíðinni.”

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/03/ekki_forsaetisraduneytid_heldur_ingbjorg/

 

KILJAN

Hvað sem öðru efni líður, þá finnst Molaskrifara Kilja Egils Helgasonar bera af öðru efni í Ríkissjónvarpinu. Þátturinn í gærkvöldi (04.11.2015) var þar engin undantekning.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1828

MÁLFJÓLUFJÖLD

Ótrúlega margar málfjólur, málvillur, voru í hádegisfréttatíma Bylgjunnar á sunnudag (01.11.2015)

 Í frétt um flóttamannavandann var sagt að talið væri að um 400 þúsund flóttamenn...muni verða neitað um landvistarleyfi. Hefði átt að vera, -  talið væri að um 400 þúsund flóttamönnum muni verða neitað um landvistarleyfi.

 Í frétt um flugslysið á Sinai-skaga sagði fréttamaður ... þar sem flugmaðurinn ætlaði að framkvæma nauðlendingu. Framkvæma nauðlendingu? Þar sem flugmaðurinn ætlaði að freista þess að nauðlenda.

Úr annarri frétt: ,, Í hópnum eru rúmlega 330 Íslendingar og eru þeir lungann af þeim sjö hundruð sem svöruðu spurningum ...” Ef menn nota orðtök, eða sjaldgæf orð, verða þeir að kunna að beita þeim. Hér hefði betur verið sagt, til dæmis: Í hópnum eru rúmlega 330 Íslendingar og er það lunginn af þeim sjö hundruð sem svöruðu spurningum .... Eða og er það þorri þeirra sem ... Lungi, er kjarni, það besta af einhverju, -  segir orðabókin.

330 getur reyndari aldrei verið lunginn af 700. Það er út í hött.

 

BOTTOMLÆNIÐ

Á Sprengisandi Bylgjunnar (01.11.2015) var rætt við fyrrverandi ráðherra og núverandi alþingisimann, sem þrisvar sinnum talaði um bottomlænið og einu sinni um valid sjónarmið! Sjálfsagt voru sletturnar fleiri. Verndun tungunnar er valid sjónarmið!!!! Halló! Engin viðleitni til að vanda sig. Enginn metnaður til að gera vel. Hversvegna slá um sig með enskuslettum ?

 

RANGT FALL

Viðureign grannliðanna frá suðurhveli jarðar var beðið með mikilli eftirvæntingu ...., sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarps í hádeginu á sunnudag (01.11.2015). Hann hefði átt að segja, að viðureignar grannliðanna hefði verið beðið ...  Enginn les yfir , - eða hvað? Einhvers er beðið. Þarna virðist hafa skort máltilfinningu.

 

 

 

ENN UM ÁHAFNARMEÐLIMI

Í fréttum Bylgjunnar á hádegi (31.10.2015) var sagt frá flugslysi í Egyptalandi. Þar var talað um sjö áhafnarmeðlimi, í stað þess að tala um sjö manna áhöfn, eða sjö flugliða. Þá var sagt að flugfélagið væri staðsett í Síberíu. Er alveg sama hve oft er klifað á þessum vandaræðaorðum? Svo talaði þulur í Ríkissjónvarpinu (31.10.2015)  um meðlimi Spaugstofunnar!!! Átt var við þá Spaugstofufélaga. Er fólki á fréttastofum og ritstjórnum bara hjartanlega sama?

 

HÆÐIR Á HÆÐIR OFAN

Í næturfréttum Ríkisútvarps (31.10.2015) var klukkan fimm sagt frá húsi sem hafði hrunið og verkamenn grafist í rústum þess:,,.... verið var að bæta tveimur hæðum ofan á þær tvær , sem voru á byggingunni”. Hér hefði nægt að segja; -  verið var að bæta tveimur hæðum ofan á tvær sem fyrir voru, eða – verið var að bæta tveimur hæðum ofan á tveggja hæða hús.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1827

 

UM VIÐTENGINGARHÁTT

Molavin sendi eftirfarandi ( 31.10.2015): ,, "Dómarinn taldi að boltinn fór í höndina..." segir visir.is (30.10.2015). Það er því miður orðið alvanalegt að fjölmiðlafólk kann ekki notkun viðtengingarháttar. Notar hann ýmist ekki - eða eins og æ oftar má sjá í fyrirsögnum, í röngu samhengi. Þar með breytist merkingin. Þetta er ekki lengur aðeins sá vandi að ráðið er til starfa fólk, sem kann ekki meðferð móðurmálsins. Eftirlitsleysi og vanþekking yfirmanna fjölmiðla er að verða átakanlegur vandi.- Þakka bréfið, Molavin.

 

FÁNINN SNERI ÖFUGT

Þórarinn Guðnason, gamall vinur og vinnufélagi benti á eftirfarandi á vef Ríkisútvarpsins (30.10.2015):

,,...Bæði skrifstofan og aðrir, sem komu að undirbúningi tóku ekki eftir þessu,“ segir Helgi.”

 “Úr frétt RUV.is um fánamálið.

Hefði nú mátt orða þetta betur!”

Þetta snerist um það að breski fáninn sneri öfugt á borðfánastöng fyrir framan Cameron forsætisráðherra.

Þakka ábendinguna, Þórarinn.

Sjá: http://www.ruv.is/frett/breski-thjodfaninn-sneri-ekki-rett

 

EINBIRNISSTEFNA

,,Einbirnisstefna afnumin í Kína en barneignir ekki frjálsar”, er góð fyrirsögn í Morgunblaðinu (30.10.2015) um stefnubreytingu Kommúnistaflokks Kína,sem nú leyfir þegnum landsins í sambúð eða hjónabandi að eignast tvö börn.

 

 

AÐ TRIMMA INN Í FJÁRHEIMILDIR

Í fréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (29.10.2015) var rætt við formann fjárlaganefndar um skýrslu um fjárhag Ríkisútvarpsins. Meðal annars sagði formaðurinn: ,, ... og jafnframt að það væri trimmað inn í þær fjárheimildir sem að birtast í fjárlögum 2016”.

Trimma inn í ? Laga að ? Hvað átti formaður fjárlaganefndar við? Fjárlög fyrir árið 2016 hafa ekki verið samþykkt. Fyrir liggur frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016. Þetta ætti öllum að vera ljóst.

 

ENN UM N1

Olíusalinn N1 heldur áfram að stuðla að vondu málfari.

 Í útvarpsauglýsingum hvetur N1 hlustendurán afláts til að versla matvöru. Þetta hefur verið nefnt hér áður. Hefur þetta fyrirtæki einsett sér að stuðla að vondu málfari? Við kaupum matvöru. Verslum ekki matvöru. Molaskrifar verslar ekki við N1. Kaupir hvorki eitt né neitt af því fyrirtæki.

 

HVER BÝÐUR?

Í yfirliti hádegisfrétta Ríkisútvarpsins (29.10.2015) var sagt að Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra ætlaði að bjóða 100 sýrlenskum flóttamönnum til Íslands. Þetta er út í hött. Félagsmálaráðherra býður ekki flóttafólki til Íslands. Það gerir ríkisstjórn Íslands, nokkur sveitarfélög, - íslenska þjóðin. Þetta var raunar endurtekið í fréttalok.

Í fréttum Ríkisútvarps daginn eftir var svo búið að kúvenda. Þá var sagt að Flóttamannanefnd ætlaði að bjóða sýrlensku flóttafólki til Íslands.

 

 

AF FRÉTTABORÐA

 Á fréttaborðanum sem rennur yfir skjáinn í fréttatíma Stöðvar tvö stóð sl. fimmtudag (29.10.2015): ,, 16 ára sænskri og óléttri stúlku var bjargað úr klóm ISIS”. Það var og.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband