14.11.2014 | 07:27
Molar um málfar og miðla 1614
Í fréttum að undanförnu hefur aftur og aftur verið talað um að neita fyrir eitthvað í merkingunni að neita einhverju hafna einhverju. Sjá til dæmis Fréttablaðið bls. 4 á fimmtudag (13.11.2014) Kannski er hér verið að rugla notkun sagnarinnar að neita, saman við að þræta fyrir eitthvað. Molaskrifari kannast ekki við þetta orðalag, - að neita fyrir.
Svo hefur undanfarna daga verið talað um lúkningu málsins. Játningu aðstoðarmanns innanríkisráðherrans. Þessa notkun orðsins lúkning hefur Molaskrifari ekki heyrt eða séð áður. Átt var við lyktir máls, málalyktir, málalok. Orðið lúkning hefur hann hingað til aðeins heyrt merkingunni fullnaðargreiðsla, lúkning skuldar.
Rafn skrifaði (13.11.2014): ,,Sæll Eiður.
Tvöföld neitun getur verið viðsjárverð. Samkvæmt neðanritaðri klausu úr Netmogga kom markvörður Belga í veg fyrir að Íslendingar skoruðu ekki meira en eitt mark í tilgreindum boltaleik. Þetta er rangt. Íslendingar skoruðu eitt mark.
Hér hefði átt að segja: kom í veg fyrir að Íslendingar skoruðu meira en eitt mark . . . Þarna var einu litlu ekki ofaukið. Rétt ábending. Kærar þakkir, Rafn. Sjá: http://www.mbl.is/sport/efstadeild/2014/11/12/courtois_island_kom_mer_a_ovart/
Alltaf er fróðlegt að hlusta á Boga Ágústsson fjalla um erlend málefni á fimmtudagsmorgnum. Þar koma löng reynsla og þekking að góðu haldi. Í gær (13.11.2014) var hann með fróðlegt yfirlit um stjórnmál á Grænlandi í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins. Molaskrifari reynir að missa ekki af þessum pistlum Boga. Þeir eru reyndar einnig aðgengilegir á netinu.
KÞ benti á eftirfarandi og skrifaði (13.11.2014): http://www.visir.is/thurfti-ad-stokkva-vegna-funds-tengdum-fundi/article/2014141119484
Fyrirsögnin er: "Þurfti að stökkva vegna fundar tengdum fundi". Það er eins og blaðamenn geti ómögulega lært að beygja orðið "tengdur" rétt. (Sjá einnig orðalag í vefslóð.)
Stundum fullyrða fréttamenn meira en innistæða er fyrir. Í Kastljósi á miðvikudagskvöld (12.11.2014) var sagt að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði lýst fullkomnum stuðningi við innanríkisráðherra. Fullkominn stuðningur ætti að vera einróma stuðningur allra. Það kom hvergi fram.
Meira um sama mál: Í Síðdegisútvarpi á Rás tvö sama dag var innanríkisráðherra spurð hvort hún stæði við þau ummæli sín að Lekamálið svonefnda hefði verið ljótur pólitískur leikur. Ráðherra kom sér fimlega hjá að svara og spurningunni var ekki fylgt eftir. Að minnsta kosti var það ekki að heyra, þegar efnið var endurtekið í Speglinum. Spyrlar eiga að fylgja spurningum eftir. Ganga eftir svari. Til hvers er annars verið að spyrja?
Karlar hugsa ekkert mikið um jólakort eða jólagjafir, sagði umsjónarmaður í Morgunútgáfu Ríkisútvarspins í morgun (14.11.2014). Fordómar? Sleggjudómur? Er þetta ekki eins misjafnt og mennirnir eru margir?
Miðvikudagskvöldið (12.11.2014) var þriðja kvöldið í röð sem seinni fréttir Ríkissjónvarps ekki hófust á réttum tíma. Sjónvarpsmenn ættu að taka kollega sína á útvarpinu sér til fyrirmyndar. Þar er stundvísin nánast óbrigðul. Sama gildir um þær erlendu sjónvarpsstöðvar sem okkur eru aðgengilegar t.d. í sjónvarpi Símans. Þar er stundvísin í hávegum höfð.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2014 | 09:18
Molar um málfar og miðla 1613
Þegar ferjan fór að halla ískyggilega, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (11.11.2014). Betra hefði verið: Þegar ferjunni fór að hall ískyggilega, eða þegar ferjan fékk ískyggilega mikla slagsíðu. Í sama fréttatíma var sagt: Yfirgnæfandi hluti félagsmanna kaus með verkfallsaðgerðum ... Betra hefði verið: Yfirgnæfandi hluti félagsmanna greiddi atkvæði með verkfallsaðgerðum ...
T.H. sendi eftirfarandi vegna fréttar á mbl.is (12.11.2014): "Þeir Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að hafa 17. maí 2012 veist í sameiningu með ofbeldi á fanga á Litla-Hrauni ..."
Þeir ... hafa ... veist ... á fanga.
Jæja, já. Það var og! Þakka sendinguna. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/11/12/enn_engir_yfirmatsmenn_domkvaddir/
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (11.11.2014) var talað um að sýkna fyrir. Menn eru dæmdir fyrir ... sýknaðir af ákæru ... Þetta var hárrétt í fréttum klukkan átta þennan morgun. Í ofangreindum þætti var einnig sagt um fréttaritarann í París að hann ætlaði að heyra í okkur. Eðlilegra hefði verið að segja að við ætluðum að heyra í Frey Eyjólfssyni fréttaritara í París. Leggja þarf meiri rækt við vandað málfar í þessum þætti. Umsjónarmenn eru misvel mál farnir.
Allar stöðvar slökkviliðsins hafa verið boðaðar á staðinn, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps um eldsvoða í Bankastræti (11.11.2014). Stöðvar eru ekki boðaðar á staðinn! Allt tiltækt lið slökkviliðsins var kallað út.
Hér hefur áður verið spurt: Hvað gengur seljendum BKI kaffis til með því að sýna íslenska fánann í hálfa stöng, þegar þeir auglýsa kaffið sitt? Fáni í hálfa stöng táknar fyrst og fremst sorg eða missi. Það er flaggað í hálfa stöng, þegar einhver kunnugur eða nákominn deyr. Það er líka siður að flagga í hálfa stöng meðan útför fer fram. Óskiljanlegt í kaffiauglýsingu og ekki fallegt á skjánum.
Í upp hafi fréttatíma Ríkisútvarpsins klukkan 1600 í gær (12.11.2014) var sagt: Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi fullan stuðning þingflokksins. Þetta var ekki rétt. Rætt var við Bjarna örstuttu síðar. Hann sagðist styðja Hönnu Birnu og kvaðst hafa fundið fyrir miklum stuðningi í þingflokknum. Þetta rímar ekki alveg saman. Ekki nákvæm eða vönduð vinnubrögð. http://www.ruv.is/sarpurinn/siddegisfrettir/12112014-0
Mér langar ..., sagði innanríkisráðherra í sjónvarpsviðtali á miðvikudags kvöld (12.11.2014). Það var og.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2014 | 09:21
Molar um málfar og miðla 1612
Það er fjallað um þetta mál grúndígt í Morgunblaðinu í dag, (10.11.2014) var sagt í Morgunútgáfunni á Rás eitt. Allsendis óþörf sletta. Í sama þætti var einnig talað um bókakaffibókabúð. Molaskrifari hélt að bókakaffi væri bókabúð og kaffihús. Líka var sagt var því að bíll hafi ekið á ljósastaur og starfsmenn Orkuveitunnar hefðu verið kallaðir út til að tryggja ljósastaurinn ! Eru þeir farnir að sjá um tryggingar hjá Orkuveitunni? Voru þeir ekki kallaðir út til að loka fyrir rafmagn í staurinn? Í vaxandi mæli éta fjölmiðlungar þessa notkun sagnarinnar að tryggja hver eftir öðrum og kannski eftir lögreglunni. Bíllinn ók heldur ekki á ljósastaur. Bílnum var ekið á ljósastaur. - Það var fleira athugavert í upphafi þessa þáttar. Umsjónarmaður sagði að samningafundur í Kópavogsdeilunni hefði staðið í alla nótt og verkfalli verið afstýrt. Þarna virtist allt vera í hnúti. Og verkfallið héldi áfram! Deilan var leyst og ekkert var lengur í hnút. Fólk verður að skilja það sem það les eða segir við okkur. Fleira mætti tína til. Til dæmis það sem sagt var um gasdreifingu frá eldstöðvunum eystra. Ef umsjónarmaður hefði skoðað vef Veðurstofunnar ( eins og hvatt var til!) hefði hann ekki sagt að daginn eftir (11.11.2014) væri spáð vestlægri átt og gasmengun á Vestfjörðum! Það var einmitt ekki spáð neinni gasmengun á Vestfjörðum. Þarna skortir því miður stundum árvekni, skilning og vandvirkni. Ríkisútvarpið á að geta gert betur en þetta.
Oft hefur Molaskrifari lúmskt gaman af að lesa víndóma. Í Fréttatímanum (07.-09.11.2014) vakti þessi fyrirsögn athygli hans: Smakkaðu nokkur vín samtímis. Það er líklega einskonar vínblanda, eða kokkteill, eða hvað? Öllu hellt saman? Ekki mjög freistandi. Síðan segir um tiltekið vín: ,, ... úr Carmenereu þrúgunni sem er sólfrek og virðist henta vel til ræktunar þar því þetta er afbragðsvín. Berjaríkt og kryddað, eilítið lokað til að byrja með en klárlega í mildari kantinum og með skemmtilegum vanillukeim sem rúnnar vínið vel upp í lokin. Hentar vel með kjötmeti, jafnvel léttari bitum. . Ef Molaskrifari á að vera hreinskilinn þá finnst honum þetta, eins og víndómar svo oft, hálfgert bull.
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (10.11.2014): Uppgötvunin var gerð fyrir hálfgerða slysni þegar vísindamenn voru að rannsaka vírusa sem finnast í hálsum fólks. Molaskrifari hélt að hver maður hefði bara einn háls.
Eftirfarandi var haft eftir þingmanni Pírata á vef Ríkisútvarpsins í gær (11.11.2014): Ég fæ ekki tilfinningum fyrir heildinum í viðbrögðum ráðherrans - ég vil alltaf gefa fólki séns .... Skilur einhver þetta?
Meira af fréttavef Ríkisútvarpsins. Viðtengingarhátturinn vefst fyrir sumum. Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, forstjóri LÍN, segir í samtali við fréttastofu að ef af verkfalli verði er ljóst að LÍN greiði ekki út námslán fyrr en niðurstöður prófa liggi fyrir. Hér ætti að standa - sé ljóst, - ekki er ljóst. Ekki satt?
Kvöld eftir kvöld seinkar seinni fréttum Ríkissjónvarpsins. Afsakanir í upphafi fréttatíma, en engar skýringar. Hvað veldur? Kæruleysi? Stundvísi í dagskrá er mikið metnaðarmál sjónvarpsstöðva. Ekki þó í Efstaleiti. Undarlegt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.11.2014 | 08:52
Molar um málfar og miðla 1611
Það er ástæðulaust að vera með sérstakan fimmtán mínútna íþróttaþátt milli almennra frétta og veðurfrétta eins og gert var í Ríkissjónvarpinu á laugardagskvöld (08.11.2014). Veðurfregnir eiga að koma strax í kjölfar almennra frétta. Er þetta ekki bara enn eitt dæmi um yfirgang íþróttadeildarinnar í Efstaleiti? Spurt hefur verið hvort þetta sé gert til að auka áhorf á íþróttafréttir meðan veðurfregna er beðið.
Fréttayfirlit Ríkisútvarpsins í hádegi á laugardag (08.11.2014) hófst á þessum orðum: Formanni Starfsmannafélags Kópavogs segir mikið bera í milli (verið var að segja frá kjaradeilu félagsins og Kópavogsbæjar). Þetta átti að vera: Formaður Starfsmannafélags Kópavogs segir ..... ekki formanni. Seinna í sömu setningu var talað um fullt af öðrum starfsmönnum.
Enskuslettan tax-free dynur á okkur daginn út og daginn inn. Þetta er marg endurtekið í útvarpsauglýsingum og blasir við í fjölmörgum blaðaauglýsingum. Í auglýsingareglum Ríkisútvarpsins stóð og stendur víst enn:,, Auglýsingar skulu vera á lýtalausu íslensku máli. Auglýsingadeildin telur slettuna tax-free vera lýtalaust íslenskt mál, - eða hvað? Upphaflega var tax-free, duty free, notað um flugvallarverslanir í útlöndum sem seldu tollfrjálst áfengi, tóbak og ilmvötn, en seinna allt milli himins og jarðar. Einhverjum auglýsingabrallara datt svo í hug að nota þessa slettu um afslátt, sem verslanir ákveða að veita. Í sunnudagsmogga (09.11.2014) eru Taxfree sófar auglýstir í heilli opnu. Það sleppur enginn við að borga skatt. Hvorki verslunin né viðskiptavinurinn. Veittur er afsláttur sem er 20,32%. Það er verið að blekkja okkur með því að virðisaukaskatti sé sleppt. Er hann ekki 25,5%?
Það var heldur vond sviðsetning og hálfkjánaleg vinnubrögð í fréttum Ríkissjónvarps fyrir helgina , þegar fréttamaður stillti sér upp með leikskólabarn í fanginu fyrir framan myndavélina. Það fór ekki framhjá neinum að barninu leið ekkert sérstaklega vel.
Af forsíðu visir.ir (08.11.2014): Árlegur fundur ríkja við Eystrasalt lauk í lettnesku höfuðborginni Ríga í dag. Fundur lauk ekki. Fundi lauk.
Hraðfréttir Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (07.11.2014) voru lélegar og ófyndnar. Staðfestu það sem við höfum flest áður upplifað. Sjónvarpsfólk hefur mestan áhuga á öðru sjónvarpsfólki. Þetta er sóun á dýrmætu dagskrárfé, sem nota mætti til góðra verka.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.11.2014 | 08:22
Molar um málfar og miðla 1610
Sú spurning, by the way , reyndist krökkunum mjög auðveld, ... sagði íslenskur embættismaður (deildarstjóri innlendra prófa hjá Námsmatsstofnun) úr skólakerfinu í hádegisfréttum Ríkisútvarps (06.11.2014). Hann var að verja illa samið íslenskupróf ,sem lagt var fyrir nemendur á samræmdum prófum í grunnskólum.
Aftur og aftur talaði fréttamaður Stöðvar tvö um vissaukaskatt í fréttum (06.11.2014) Er þetta ný skattur? Ef til vill var hann að reyna að segja virðisaukaskattur. Talþjálfun gæti komið að góðu gagni.
Í Samfélaginu á Rás eitt (06.11.2014) var vitnað í ummæli á fréttavef BBC. Lyfjaiðnaðurinn hátt uppi af bólgnum gróða. Á vef BBC mun hafa verið sagt: The pharmaceutical industry gets high on fat profits. Kannski hefði mátt segja, að lyfjaiðnaðurinn væri í vímu vegna ofsagróða.
Það var hálf dapurlegt að heyra íslenskan dagskrárgerðarmann Ríkissjónvarpsins babla ensku við Færeyinga í þætti á fimmtudagskvöld. Heimsóknin til Péturs Nólsö, Péturs Noll, eins og Færeyingar segja, var það bitastæða í þættinum , enda ekki hægt að gera vont sjónvarpsefni úr Pétri eða heimsókn til hans. Jafnvel mesti klaufi gæti það ekki.
Undarlega eru stundum dagskrárkynningar Ríkissjónvarps. Á miðvikudagskvöld (05.11.2014) var tönnlast á því að annað kvöld yrði sýndur þáttur með Edduverðlaunahafanum Andra Frey á flandri um Færeyjar. Molaskrifari man ekki betur en margir Edduverðlaunahafar séu þáttagerðarmenn í Ríkissjónvarpi. Án þess að það sé útmálað aftur og aftur í hvert skipti sem þeir koma fram. Hafa ekki Sigmar og Kastljós fengið Edduverðlaun? Og fleiri. Og fleiri. Ekki er tönnlast á því í dagskrárkynningum. Kannski er þetta bara kjánagangur og hégómagirnd. Ef einhver velkist í vafa um merkingu orðsins hégómagirnd, þá er bara að fletta upp í orðabók: ,,Þrá eftir fáfengilegum hlutum sem snúast um eigin persónu
Í þættinum, sem nefndur er hér að ofan var okkur sagt, að höfuðstaður Færeyja, Þórshöfn, væri staðsettur á stærstu eyjunni Straumey ... Allt er nú staðsett. Þórshöfn er á Straumey, sem er stærst Færeyja.
Það er í góðu lagi að hlusta á vel fluttar auglýsingar/tilkynningar í Ríkisútvarpi. Þar er stundum eitthvað fréttnæmt. Leiknu auglýsingarnar, þar sem stundum er gargað á okkur af einstakri ósmekkvísi, eru hinsvegar skemmdarverk á Rás eitt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.11.2014 | 09:36
Molar um málfar og miðla 1609
Molavin sendi eftirfarandi (04.11.2014): "Æpir til að fela að hann fer með rangt mál" segir í fyrirsögn á ruv.is (4.11.14). Verður maður ekki að gera ráð fyrir að fréttamenn Ríkisútvarpsins kunni rétta notkun viðtengingarháttar, sérstaklega þegar þeir breyta út af tilvitnuðum orðum? Röng notkun viðtengingarháttar var orðin útbreidd á þeim netmiðlum og síðum, sem skrifuð eru af ungu fólki, sem heldur að blaðamennskan sé skemmtun. Ríkisútvarpið er enn fyrirmynd og á að gera betur. - Satt segirðu , Molavin. Ríkisútvarpið á að geta gert betur.
Molavin sendi einnig þessar ábendingar (05.11.2014): "Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra til fimmtán ára segist margoft hafa nýtt sér hugleiðslu á löngum fundum meðan hann sat í ríkisstjórn."
"Þau voru mjólkurframleiðendur til langs tíma ásamt því að vera með fjárbúskap og hesta."
Þetta eru tilvitnanir í síðu RÚV og í Morgunblaðið í dag (5.11.14). Hvort tveggja dæmi um breytta málnotkun, sem þarf í sjálfu sér ekki að vera röng, en stangast samt á við málkennd og venju.
Björn var ráðherra í fimmtán ár - ekki til 15 ára. Og hjónin á Völlum í Reykjadal í Þingeyjarsýslu voru kúabændur til skamms tíma (þar til fyrir skömmu). Hér nægir að segja að þau hafi lengi verið kúabændur. Það er orðin árátta að skreyta fréttaskrif með rithætti, sem mönnum finnst hljóma betur - en stangast oft á við málvenju. Best er að skrifa einfalt mál og skýrt - og láta vera að nota orðalag, sem fólk þekkir ekki vel. - Molaskrifari þakkar línurnar.
Í útvarpsviðtali (04.11.2014) talaði fjármálaráðherra um að hugsanlegt væri að hafa amnesty ákvæði í löggjöf. Þetta var sletta hjá ráðherranum og líklega hefur hann átt við ákvæði um sakaruppgjöf.
Það urðu alþingiskosningar 2013, sagði alþingismaður, formaður fjárlaganefndar, î Kastljósi á þriðjudagskvöld (04.11.2014). Einmitt það! Það urðu kosningar. Bara si svona, eins og sagt er!
Molaskrifari veltir fyrir sér: Í morgunfréttum Ríkisútvarps (05.11.2014) var talað um íbúðarhús. Þar var líka talað um íbúðarhótel. Ætti það ekki frekar að vera íbúðahótel?
Prýðilegur fréttaflutningur Sveins Helgasonar um kosningarnar í Bandaríkjunum í Morgunútgáfunni á miðvikudagsmorgni (05.11.2014). Umsjónarmaður sagði um Obama: Það er jafnvel talað um að þeir vilji setja hann af impeachment. Hversvegna þurfti hann að bregða fyrir sig ensku? Algjör óþarfi.
Næstu Molar á mánudag.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.11.2014 | 09:27
Molar um málfar og miðla 1608
Langdregið og lítið upplýsandi viðtal var í Kastljósi við tvo karla um mótmælin á Austurvelli síðdegis á mánudag (03.11.2014). Kastljóssmenn hafa gert margt vel. Þetta viðtal fer ekki í þann flokk. Það var fjölmenni á Austurvelli. Molaskrifari efast um að þessir tveir hafi verið bestu fulltrúar fjöldans, sem þarna var samankominn.
Sjálfsagt er það nokkuð algengt í talmáli, þótt ekki sé alveg rökrétt, að segja engu munaði að illa færi, eins og gert var í fyrirsögn á mbl.is (01.11.2014), þegar litlu munaði eða mjóu munaði að illa færi. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/11/01/engu_munadi_ad_illa_faeri_a_thjodveginum/
Molaskrifari hnaut samt um þessa fyrirsögn.
Molaskrifari hélt, að fréttamenn Ríkisútvarpsins væru búnir að læra, búnir að tileinka sér, hvernig ætti að bera fram heitir bandaríska ríkisins Arkansas, frb /a:rkanso/ . Svo er greinilega ekki. Í morgunfréttum (04.11.2014) talaði reyndur fréttamaður skýrt og greinilega um /arkansaS/! Þetta er erfitt. Ótrúlega erfitt. Samt ekki flóknara en svo að þeir sem ekki kunna þurfa bara að hlusta á Svein Helgason, fréttamann Ríkisútvarpsins vestra til að ná þessu.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (04.11.2014) var rætt við mótmælendur á Austurvelli daginn áður. Umsjónarmaður sagðist hafa tekið tal af nokkrum viðstöddum. Þetta er ekki gott orðalag. Málfarsráðunautur ,sem rætt var við seinna í þættinum hefði mátt gera athugasemd við þetta. Það hefur líklega ekki þótt við hæfi. Rétt hefði verið að segja, - til dæmis, - náði tali af nokkrum sem þar voru staddir, eða tók nokkra tali,sem voru á Austurvelli.
Það er ágætt hjá umsjónarmönnum Morgunútgáfu í Ríkisútvarpinu að ræða við málfarsráðunaut einu sinni í viku. En umræðan var dálítið skondin að morgni þriðjudags (04.11.2014). Okkur var sagt að rætt yrði við málfarsráðunaut og umsjónarmaður lýsti áhuga á að spyrja um fyrirsagnir,,sem við yrðum að passa okkur á eins og um slæm loftgæði, þegar ætti að tala um lítil loftgæði. Rétt. En skömmu áður hafði í átta fréttum verið talað um slæm loftgæði og umsjónarmaður þáttarins hafði sagt að loftgæði væru ekki sem best og talað um slæm loftgæði fyrir fólk með sjúkdóma í öndunarfærum !!! Það þurfti ekki að vitna til fyrirsagna. Þarna var leitað langt yfir skammt. En það er rétt sem málfarsráðunautur sagði, - þetta er ekki rétt. Það er eitthvað öfugsnúið við að tala um góð gæði. Málfarsráðunautur talaði um háan styrk eða lágan styrk. Molaskrifari hallast að því að betra væri að tala um lítinn styrk eða mikinn styrk.
Í samtölum við málfarsráðunaut í Morgunútgáfunni mættu menn líta sér nær.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.11.2014 | 09:22
Molar um málfar og miðla 1607
Verðlaun er fleirtöluorð. Ekki til í eintölu. Fréttaþulur Stöðvar tvö þarf að lesa upp og læra betur.
Þágufallið af orðinu hreppur er hreppi, ekki hrepp, eins og dagskrárkynnir Ríkissjónvarps margsagði á föstudagskvöld (31.10.2014). Nú er komið að Ásahrepp og Fjarðabyggð, var okkur sagt aftur og aftur, þegar Útsvar var kynnt til sögu í dagskránni.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins (01.11.2014) var talað um svokallaða Papa. Þar sagði í frétt: ,, ... meðal annars svokallaðir papar, sem voru írskir og skoskir munkar. Sjá: http://www.ruv.is/frett/husarustir-i-herjolfsdal
Verðlaun eins og þessi fylli mann bjartsýni og skili orðspori til íslenskrar kvikmyndagerðar, sagði fréttamaður í fréttum Ríkissjónvarps um afhendingu norrænu kvikmyndaverðlaunanna í Stokkhólmi (01.11.2014). Svona hefur Molaskrifari ekkiheyrt til orða tekið áður. Að skila orðspori til. Talað er um að bæta orðspor , umtal, umfjöllun, eða skaða orðspor, málstað eða umtal.
Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins (02.11.2014) er fyrirsögnin Viðundrið Versalir. Átt er við Versalahöllin frægu í Frakklandi. Molaskrifara finnst einkennilegt að kalla höllina viðundur, sem í flestra huga er neikvætt orð. Samanber að verða að viðundri, verða sér til skammar eða gera sig að fífli. Einhverjir eru líklega þeirra skoðunar að Versalir séu eitt af undrum veraldar. En það er allt annað mál.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2014 | 09:22
Molar um málfar og miðla 1606
Margir fréttaskrifarar eru sífellt að staðsetja hluti og atburði. Þessi frétt birtist á vef Ríkisútvarpsins (31.10.2014): http://www.ruv.is/frett/umhverfisstofnun-skodar-gasmaelakaup
Hér er talað um gasmæla sem eru staðsettir og hvar mælar verða mögulega staðsettir. Svo er talað um góð loftgæði og slæm loftgæði. Svo er fyrirsögnin: Umhverfisstofnun skoðar gasmælakaup. Þessi fréttaskrif eru ekki til fyrirmyndar. Hér hefði þurft að lesa yfir og laga.
Nýlega (28.10.2014) var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar: ,, ... enda telji hver ferð xx kílómetra. Verið var að segja frá fiskflutningum frá Djúpavogi. Ferðir telja hvorki eitt né neitt. Hér hefði til dæmis mátt segja: , - enda er hver ferð xx kílómetrar.
Landinn góður í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (02.11.2014) , - að venju. Gaman að myndunum frá Straumnesfjalli. Sömuleiðis ágætt að fá Orðbragð þeirra Brynju og Braga á skjáinn að nýju.
Í fréttum Ríkisútvarps (31.10.2014) var sagt: ,, ... staðfestir að málið hafi borist inn á borð lögreglunnar. Í frétt í DV sama dag segir: ,,Málið fór á borð lögreglunnar á Selfossi fyrir þremur vikum .... Merkilegt þetta borð lögreglunnar. Enn hafa þó engar myndir verið birtar af því svo vitað sé. En þetta er hvimleið klisja.
Heldur er þessi erlenda frétt á mbl.is (31.10.2014) nú illa skrifuð. Rútan féll. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/10/31/17_letust_i_rutuslysi/
Meira af mbl.is sama daga. Ekki batnar það: ,,Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu svipti í dag tveimur konum ökuréttindum til bráðabirgða en þær voru staðnar að hraðakstri í Arnarbakka í Reykjavík til móts við Dvergabakka. Hvernig gerast svona slys? Tvær konur voru sviptar ökuréttindum. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/31/77_km_hrada_i_30_gotu/
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (01.11.2014) var talað um langan samningafund tónlistarkennara og viðsemjanda þeirra. Sá sem skrifaði fréttina hefur líklega ekki fylgst lengi með kjaraviðræðum á Íslandi, fyrst hann kallar þriggja klukkustunda samningafund langan!
Svona orðaði Ríkisútvarpið þetta: ,,Löngum samningafundi tónlistarskólakennara og sambands íslenskra sveitarfélaga lauk um sexleytið í kvöld. Fundurinn hafði þá staðið í um þrjár klukkustundir. Engin niðurstaða fékkst á fundinum.
Fyrirsögn í Morgunblaðinu (01.11.2014): Forsetinn knúinn til afsagnar Þaulsætinn leiðtogi gaf eftir. Svo það sé á hreinu, þá var fréttin um forseta Búrkína Fasó í Afríku.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)