3.10.2014 | 08:31
Molar um málfar og miðla 1585
Ríkissjónvarpið þarf að ákveða hvað garðyrkjuþættirnir, sem nú (01.10.2014) er verið að sýna, heita. Þættirnir heita ýmist,- Í garðinum með Gurrý eða Í garðinum hjá Gurrý. Niðursoðna konuröddin,sem kynnir dagskrána, segir eitt. Í skjátexta stendur annað. Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð.
Það verður hver að eiga það sem hann á, eins og þar stendur. Dagskrá Ríkissjónvarpsins hefur farið batnandi að undanförnu. Hver bitastæða heimildamyndin á fætur annarri og kvikmyndavalið stórum betra en var þegar botninn virtist skafinn og dreggjar einar bornar fyrir okkur. Sem sagt á réttri leið og vonandi verður þar framhald á. Nú þurfa stjórnendur í Efstaleiti bara að brjóta odd af oflæti sínu og færa siðasta lag fyrir fréttir á sinn stað og endurskoða þær ákvarðanir aðrar, eins og varpa Sagnaslóð fyrir róða, sem mest hafa verið gagnrýndar. Þeir verða ekkert minni menn af því að hlusta á hlustendur/horfendur. Það er reyndar þeirra hlutverk.
Í morgun (03.10.2014) var standard slettunni sleppt í Ríkisútvarpinu rétt fyrir klukkan sjö, á undan fréttum. Vonandi verður svo framvegis. Þess í stað var talað um lífseigt lag. Gott. Það er fínt orðalag.
Hversvegna þarf stórverslunin Hagkaup að hefja auglýsingu,sem beint er til okkar, með enskri upphrópun: Oh My God? Og nota svo slettuna tax-free í auglýsingunni, - til að kóróna þetta? Hver er tilgangurinn? Er auglýsingadeild Ríkisútvarpsins fyrirmunað að fara eftir þeim reglum að auglýsingar í Ríkisútvarpinu skuli vera á íslensku
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.10.2014 | 10:00
Molar um málfar og miðla 1584
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/30/helmingur_faer_ekki_ellilifeyri/
Úr fréttum Stöðvar 2 (29.09.2014): ,, Jón var saumaður ellefu spor î ennið. Betra hefði verið: Sauma þurfti ellefu spor í skurð á enni Jóns. Eða: Ellefu spor þurfti til að loka skurði á enni Jóns.
Í sama fréttatíma sagði fréttamaður: ,,Flug til Ísafjarðar var aflýst hjá Flugfélagi Íslands. Betra hefði verið: Flugfélag Íslands aflýsti flugi til Ísafjarðar. Flug var ekki aflýst. Flugi var aflýst.
Þá var sagt um knattspyrnumann sem slasaðist í leik að honum hefði verið flogið með sjúkraflugvél til Reykjavíkur. Molaskrifari kann ekki að meta þetta orðalag. Maðurinn var fluttur til Reykjavíkur með sjúkraflugvél.
Íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps talaði (29.009.2014) um að kíkja aðeins a spánna. Æ algengara að heyra talað um spánna í staðinn fyrir spána.
Ríkissjónvarpið sýndi prýðilega heimildamynd um örlög skipalestarinnar PQ 13 sem sigldi frá Íslandi til Arkengelsk í júlí 1942. Molaskrifari sá þessa mynd á einhverri norrænu stöðvanna fyrir nokkrum mánuðum. Neðanmálstextarnir íslensku, sem myndinni fylgdu, voru illa þýddir, einkum framan af. Aftur og aftur var talað um sjó sem vatn. Sagt var, að skipalestin hefði verið vel rekin, - henni var vel stjórnað. Aftur og aftur var talað um þotur, sprengjuflugvélar, einkum af gerðinni Heinkel 111. Það voru engar þotur til 1942. Þetta þotutal var tómt rugl. Orðið materials var þýtt efni, en átt var við hergögn. Svo var talað um herskip á yfirborðinu og sjóketti. Óvenjuleg óvandvirkni. Yfirleitt eru vandaðir íslenskir textar með erlendu efni í Ríkissjónvarpinu. Það hefur gnótt góðra þýðenda á sínum snærum.
Kiljan stóð að venju fyrir sínu í gærkveldi (01.10.2014) Viðtal Egils við Sally Magnusson um bókina Where Memories Go, um veikindi móður hennar, hefur örugglega ekki látið neinn ósnortinn, sem þekkir til þessarar illvígu sjúkdóma hjá sínum nánustu. Takk.
Þær geta verið dálítið furðulegar þessar svokölluðu leiknu auglýsingar sem Rás eitt rekur nú inn í hlustir okkar daginn út og daginn inn. Í einni þeirra er boðið upp á að fegra herbergin hjá okkur og spurt: Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í stofunni? Næst verður sennilega spurt: Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í svefnherberginu? Það er dálítið magnað þetta nýja Ríkisútvarp okkar í Efstaleitinu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.10.2014 | 10:06
Molar um málfar og miðla 1583
http://www.ruv.is/frett/snjoad-i-fjoll-i-hofudborginni
Í fréttum um Estoniaslysið, sem varð fyrir tuttugu árum, var sagt í Ríkisútvarpinu klukkan 1500 á sunnudag (28.09.2014): .... að kinnungurinn brotnaði hreinlega af. Þetta er ekki mjög nákvæmt orðalag. Kinnungur er skipshlið, einkum næst stafni, bógur. Það sem gerðist og megin orsök þess að skipið sökk var að læsingar á stefnisdyrum gáfu sig í ofsaveðri, dyrnar brotnuðu af og skipið fylltist af sjó á örskammri stund. Muni Molaskrifari rétt.
Brynjar gerði athugasemd við notkun slettunnar standard í morgunþætti Ríkisútvarpsins (29.09.2014). Molaskrifari segir: ,, Ég hef nokkrum sinnum gert athugasemd við þetta ,,standard" tal umsjónarmanna á hverjum degi. Þetta er notað í ensku yfir gömul dægurlög. Óðinn Jónsson fyrverandi fréttastjóri virðist staðráðinn í að troða þessari slettu inn í móðurmálið. Hversvegna ekki tala um gamla gullmola eða perlur? Til hvers starfar málfarsráðunautur við Ríkisútvarpið ef ekki til að uppræta ambögur og óþarfar slettur, málspjöll? Er þetta gert með blessun og velþóknun starfsmannsins sem á að leiðbeina samverkafólki sínu um íslenskt mál og málnotkun?
Um þetta var einnig fjallað í Molum gærdagsins. Í morgun (01.10.2014) var talað um standarð, það er líka sletta í þessari merkingu. En til er gamalt orð standarður um herfána, ríkisfána eða toppveifu. Það er annar handleggur. Einnig var talað um lífseigt lag. Það er ekkert að því.
Í fjögur fréttum Ríkisútvarps (30.09.2014) var talað um útskúfuð börn. Nú má vel vera að þetta sé hárrétt orðalag og ekkert við það að athuga. Molaskrifari hefur samt á tilfinningunni að eðlilegra væri að tala um börn sem hafi verið útskúfað. Það fellur betur að málkennd hans. Hvað segja lesendur?
Molaskrifari gerir ekki mikið af því að lesa íþróttafréttir í blöðum. Í Morgunblaðinu á mánudag hnaut hann um þessa fyrirsögn: Dýr tækling Atla Más. Íþróttafréttamönnum hefur tekist að koma slettunni tækling og sögninni að tækla inn í málið. Það er ekki þakkarvert. En sennilega er of seint að andæfa. Í undirfyrirsögn segir: Vísað af velli og fékk mark í bakið. Molaskrifari las fréttina nokkuð vel, en sá þess engin merki að leikmaður hefði fengið mark í bakið! Þá er talað um í fréttinni að leikmaður hafi rænt annan færi? Lögreglan hefur væntanlega verið kölluð til.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)