Molar um málfar og miðla 1825

 

BRÉF FRÁ LESANDA

Sigurður Sigurðarson sendi Molum eftirfarandi bréf (29.10.2015):

1.

Hnífaárásir gerðar á götum Ísraels segir í fyrirsögn í Morgunblaðinu á bls.17. þann 20. október 2015. Í fréttinni segir:

„Ótti hefur gripið um sig í Ísrael vegna árása sem gerðar hafa verið á óvopnaða borgara á götum úti, oft með hnífum. Á sunnudag gerði ísraelskur bedúíni, Mohind al-Okbi, árás með hníf og byssu …“

Þetta er dálítið stirt orðalag, hnoðast á nafnorðum. Fréttin ber þess glögg merki að vera þýdd, er dæmi um íslensku með ensku orðalagi. Tönglast er á að „gera hnífaárás“.

2.

„Norðmenn hafa ekki sæti við ákvarðanatökuborð ESB“, sagði fréttamaður Ríkisútvarpsins í fjögurfréttum 28. október 2015. 

Orðskrípið ákvarðanataka er órökrétt því í staðin má einfaldlega nota sögnina að ákveða. Enn verra er ákvarðanatökuborð. Held að „decisiontable“ sé ekki til á ensku. 

Svo má velta því fyrir sér hvort ákvarðanir séu ávallt teknar við borð. Ýmsar kunna að vera teknar við glugga, á miðju gólfi, í sófum, í gönguferðum, í tölvupóstum, jafnvel í rúminu. Ímynda mér að ekki eiga allir pláss í „ákvarðanatökurúminu“.

3.

„Nagladekkin komin undir hjólin“ segir í fyrirsögn viðtals í viðskiptablaði Morgunblaðsins 29. október 2015.

Fyrirsögnin getur auðveldlega misskilist nema verið sé að tala um fleiri en eitt reiðhjól. Yfirleitt eru dekk sett á gjarðir eða felgur, ekki undir. Þó segir í viðtalinu og má það til sannsvegar færa: „Þess má geta að nú eru nagladekkin komin undir og ég klár á hjólið í öllum veðrum.“ Þetta kemur þó ekki fram fyrr en í lok viðtalsins og þangað til er fyrirsögnin undarleg í huga lesandans. 

Til gamans má velta því fyrir sér hvað sé hjól. Þau eru undir margvíslegum sjálfrennireiðum, reiðhjólum, barnavögnum og svo framvegis. Er gjörð og felga hjól? Er dekk hjól? Hvað er gjörð eða felga með dekki? Er dekk sett undir hjól eða er það sett á hjól eða umhverfis? Hvers vegna heitir hringurinn hjól?

Kærar þakkir fyrir bréfið, Sigurður.

SKÝRINGAR ÓSKAST

Að sögn SDG forsætisráðherra er núna verið að gera umfangsmestu efnahagsráðstafanir í gjörvallri sögu landsins. Aðgerðir á heimsmælikvarða, hefur hann látið hafa eftir sér. Hann segist alltaf vera  að setja heimsmet. Þessi mál eru firna flókin. Held að þorri fólks skilji þetta illa eða alls ekki. Sjónvarpsstöðvarnar ættu að gera skýringaþætti þar sem þessi flóknu mál eru útskýrð á mannamáli.

Væri verðugt viðfangsefni.

 

 SAMSKIP OG BÍLAFLOTINN

Athyglisverð umfjöllun var í Kastljósi á miðvikudagskvöld (28.10.2015) um flutningabílaflota Samskipa, en bílstjórar sem hjá fyrirtækinu starfa, telja nýja bíla í flotanum varhugaverða, ef ekki beinlínis hættulega. Talsmaður fyrirtækisins þvertók fyrir það.

 Það var athyglisvert að sjá ,að bílarnir eru með hollenskar númeraplötur, - skráðir í Hollandi. Enda teknir á leigu frá dóttur- eða systurfyrirtæki Samskipa í Hollandi. Molaskrifari man ,þegar hann kom heim með fjölskyldubílinn eftir tveggja ára starf í Færeyjum í byrjun árs 2009 fékk hann náðarsamsamlegast að nota færeysku númeraplöturnar í tvær vikur eða svo meðan verið var að reikna út þau gjöld, milljón eða tvær, sem greiða átti af bílnum í tolla og aðflutningsgjöld til ríkisins áður en hann fengi íslenskt númer.

 Skipafloti Samskipa (sama gildir um Eimskip) er skráður erlendis, að Molaskrifari best veit. Það er víst vegna þess sem kallað er ,,skattalegt hagræði”. Nú er bílafloti fyrirtækisins greinilega einnig skráður erlendis. Er það líka vegna ,,skattalegs hagæðis”?. Ef ekki, þá hversvegna?

 Í þættinum var líka talað um mótorbremsur,sem gætu verið viðsjárverðar til dæmis í hálku og snjó. Rifjaðist upp fyrir skrifara, að þegar hann tók við nýjum Benz malarflutningabíl hjá Vegagerðinni vorið 1959, var í leiðbeiningabókinni með bílnum varað sérstaklega við því að nota mótorbremsuna í hálku; vélin gæti drepið á sér, vökvastýrið farið úr sambandi og ökumaður misst stjórn á bílnum. Auðvitað er ekki víst að hér sé um samskonar búnað að ræða. Þetta bara rifjaðist upp við að hlusta á þessa umfjöllun.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1824

   

GANGA EFTIR

Úr frétt á stundin.is (26.10.2015) um vigtarskekkjur hjá Bónus:,, ,,Verslanir eigi að vera með löggild mælingartæki og Neytendastofa gangi á eftir því að þau séu það.” Hér hefði átt að standa: ,, ... og Neytendastofa gangi eftir því að þau séu það”. Ekki gangi á eftir því. Neytendastofa á að fylgjast með því að vogir og önnur mælitæki hafi löggildingu og mæli rétt. Erfitt er fyrir viðskiptavini að verjast vigtarskekkjum eða svindli af þessu tagi.

 

FLEST BRESTUR Á

,,Á morgun brestur á með Norðurlandaráðsþingi hér í Hörpu”, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (26.10.2015). Þegar brestur á með fundum eins og þingi Norðurlandaráðs má eiginlega segja að flest bresti nú á! Kannski átti þetta að vera fyndið.

 

SKYNSAMA LEIÐIN

Umsjónarmaður í morgunútvarpi Rásar tvö (27.10.2015) talaði um skynsömu leiðina. Nokkuð algengt að heyra orðalag svipað þessu. Leiðir eru ekki skynsamar. Leiðir geta verið skynsamlegar. Svo var líka talað um veðurlingó, - orð um veður.  Ríkisútvarpið á að vera til fyrirmyndar um málfar. Líka Rás tvö.

 

AÐ TÆKLA FRAMTÍÐINA

Það hefur áður verið nefnt hér, að fréttaborðinn, sem birtist á skjánum í fréttum Stöðvar tvö er ágæt nýjung. Margar erlendar stöðvar eru með svona fréttaborða, sem rennur yfir skjáinn. En það er betra að eitthvert vit sé í því sem þarna er skrifað. Á miðvikudagskvöld (28.10.2015) stóð á borðanum: Búist er við að Cameron muni tækla framtíð Bretlands í ESB í heimsókn sinni til Íslands. Hvað þýðir þetta?

Sögnin að tækla er enskusletta sem fótboltafréttamönnum er töm um að ná knettinum frá mótherja. En hvað þýðir slettan í þessu samhengi?

 

EKKI FRÁ BANDARÍKJUNUM

 Þegar Winston Churchill kom hingað til lands í ágúst 1941 var hann ekki að koma frá frá Bandaríkjunum eins og sagt var í fréttum Stöðvar tvö (28.10.2015). Hann var að koma af fundi með Franklin Delano Roosevelt, forseta Bandaríkjanna. Fundurinn fór fram um borð í bandaríska herskipinu Augusta á Placenta flóa við Nýfundnaland. Þar sömdu þeir  tímamótaplagg, Atlantshafssáttmálann, Atlantic Charter https://en.wikipedia.org/wiki/Atlantic_Charter#Origin

 

SIR ALEC DOUGLAS HOME

Sú var tíðin, að fréttamenn útvarps voru með það á hreinu hvernig bera átti fram nafn þessa breska forsætisráðherra. Þetta skolaðist til í fréttum Ríkissjónvarps (28.10.2015).Ekki nema von, því framburðurinn er óvenjulegur og þetta nafn er ekki í fréttum á hverjum degi lengur.. Sjónvarpið kallaði hann Alec Douglas /hóm/. Réttur framburður er hinsvegar: Alec Douglas /júm/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1823

 

AF OG FRÁ

Bílnum stolið af Íslandsmeistara, sagði í fyrirsögn á mbl.is (26.10.2015). http://www.mbl.is/sport/efstadeild/2015/10/26/bilnum_stolid_af_islandsmeistara_3/

Miðað við þolmyndarmisnotkun margra fréttaskrifara mætti í fyrstu ætla að Íslandsmeistari hafi stolið bíl. Svo var reyndar ekki. Bíl var stolið frá Íslandsmeistara. Ekki af Íslandsmeistara. Nema hann hafi verið með bílinn á sér.

 

ÞREKVIRKI

Í síðdegisfréttum Ríkisútvarps (25.10.2015) var sagt að ungafólkið á landsfundi Sjálfstæðisflokksins ,,hefði sýnt þrekvirki”. Þetta orðalag hefur Molaskrifari ekki áður heyrt. Væntanlega var átt við að unga fólkið hefði unnið þrekvirki.

 

ELLA

Um síðustu helgi flutti sænska ríkissjónvarpið SVT tveggja tíma dagskrá með söngkonunni Ellu Fitzgerald. Þetta voru upptökur frá þrennum tónleikum Ellu, - efni sem aldrei áður hafði verið sýnt í Svíþjóð. Þessar upptökur fundust nýlega rykfallnar í myndasafni BBC. Molaskrifari hefur hlýtt á Ellu Fitzgerald synja mörg lög, en þarna flutti hún perlur, sem hann hafði ekki áður heyrt.

Skyldu íslenskir sjónvarpshorfendur fá að sjá þetta úrvalsefni? Dagskrárstjórar í Efstaleiti hljóta að hafa heyrt um Ellu Fitzgerald.

 

FÓTUR OG FIT

,,Uppi varð mikill fótur og fit, þegar borgarstjórn samþykkti tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur fráfarandi ...”. Svona tók fréttamaður til orða í fréttum Ríkissjónvarps á mánudagskvöld (26.10.2015). Rétt hefði verið: Uppi varð fótur og fit, þegar ... --,, Æsingur og órói kemur upp á yfirborðið (vega e-s óvænts) , rót kemst á, fyrirgangur hefst”. Sjá: Mergur málsins, íslensk orðatiltæki, eftir Jón G. Friðjónsson , bls. 226. Fréttaskrifarar mættu að skaðlausu líta oftar í þá ágætu bók.

 

 

 

 NORÐURLANDARÁÐSÞING

Þing Norðurlandaráðs fer fram í Hörpu þessa dagana. Enn kemur í ljós hversu frábært hús Harpa er og til margra hluta nytsamlegt. Í gærkveldi (27.10.2015) fór fram verðlaunaveiting þar sem íslenska kvikmyndin FÚSI hreppti kvikmyndaverðlaunin. Er þetta annað árið í röð, sem okkur hlotnast kvikmyndaverðlaunin. Það er sannarlega ánægjulegt.

Í seinni fréttum sjónvarps var bein útsending frá Hörpu. Fréttamaður sagði okkur, að með þessari verðlaunaafhendingu lyki þingi Norðurlandaráðs. Það er nú aldeilis ekki þannig.

Þingi Norðurlandaráðs lýkur ekki fyrr en undir hádegið á fimmtudag (29.10.2015).

Alltaf geta orðið mistök, en þá er bara að leiðrétta. Þessi missögn var ekki leiðrétt í fréttum sjónvarpsins og var þó nægur tími til. Annaðhvort var enginn að hlusta, eða enginn vissi betur. Stundum finnst manni að tregða ríki hjá fréttastofunni, þegar kemur að því að leiðrétta það sem rangt hefur verið farið með í fréttum. Það er heiðarlegt að viðurkenna mistök, en það rýrir álit fréttastofunnar, þegar það er látið ógert.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1822

  

TIL ATHUGUNAR

 Í þessari stuttu málsgrein af mbl. is (24.10.2015) eru tvær villur. ,,Rauði hálf­mán­inn í Líb­ýu grein­ir frá því að lík­um 40 flótta­manna hafi rekið á land þar í landi í dag. Mohames al-Masrati, talsmaður Rauða hálf­mán­ans í Líb­ýu, seg­ir að 27 lík­anna hafi fund­ist í bæn­um Zliten, aust­an við höfuðborg­ina Trípólí. Hin 13 hafa rekið á land við Trípóló og Khoms.” Lík 40 flótta manna rak á land ...Hin 13 rak á land.... Eftirlitslaus fréttabörn á helgarvakt?

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/10/24/40_likum_skoladi_a_land_i_libyu/

Fyrirsögn fréttarinnar er hinsvegar hárrétt: 40 líkum skolaði á land í Líbýu. Ritstjórn mbl.is ætti að huga nánar að þessu.

 

GAMLA ÚTSVARIÐ

Á föstudagskvöld (23.10.2015) horfði Molaskrifari á Ríkissjónvarpið frá fréttum og fram til klukkan 2200. Þar var einöngu innlent efni á dagskrá, - og eiginlega stóð gamla Útsvarið upp úr. Stóð fyrir sínu.

 Þáttur Gísla Marteins er sjálfsagt ,,á jákvæðum og uppbyggilegum nótum” eins og lögð er áhersla á í kynningu á þættinum. Molaskrifara finnst þátturinn samt ekki ná flugi, - hámark frumleikans þar, var langt, langt viðtal til að kynna nýja bók Jóns Gnarrs, Útlagann. Tveimur dögum fyrr var í Kiljunni í Ríkissjónvarpinu tíu mínútna langt viðtal Egils Helgasonar við Jón Gnarr. einmitt til að kynna þessa sömu bók. Gott og vel. Kiljan er bókmenntaþáttur. Sjálfsögð kynning. En svo annað viðtal við sama mann um sama efni tveimur dögum síðar orkar tvímælis, og meira en það. Kannski hefur Gísli Marteinn bar alls ekki horft á Kiljuna? Raunar má bæta því við að bókar Jóns Gnarrs var rækilega getið í þætti Gísla Marteins viku áður (16.10.2015).

Er þetta eins og það á að vera? Nei. Vinargreiði? Nei, slíkt á ekki að tíðkast í þessari stofnun.

Svo var á dagskrá hinn gjörsamlega óskiljanlegi þáttur Frímínútur. Molaskrifari hefur enn ekki hitt nokkurn mann, sem skilur hvað þar er verið að fara. Sama gildir raunar um svokallaðar Hraðfréttir. Miklu fé er þar á glæ kastað hjá þessari síblönku þjóðarstofnun.

 

 

 

ENN EINU SINNI

Á Bylgjunni á sunnudagsmorgni (25.10.2015) voru fluttir bútar úr morgunþættinum Í bítið í liðinni viku. Þar var SDG spurður um tolla á matvælum; hversvegna þyrfti að leggja 30% toll á sætar kartöflur,sem ekki væru einu sinni ræktaðar á Íslandi. Ráðherrann romsaði um afrek ríkisstjórnarinnar við afnám tolla og vörugjalda, en bar ekki við að svara spurningunni. Reyndi það ekki. Spyrjanda virtist standa á sama. Hann reyndi ekki einu sinni að fá ráðherra til að svara eða fylgja spurningunni eftir. Gerist of oft. Ekki góð vinnubrögð.

 

RANGT FALL

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (23.10.2015) var fjallað um hatursmorðin í skólanum í Trollhättan í Svíþjóð. Þar var sagt: ,,Norðmenn eru líka minnugir hryðjuverkum Anders Behrings Breiviks ....” Hér hefði átt að segja:,, Norðmenn eru líka minnugir hryðjuverka ...” Að vera minnugur einhvers, er að muna eitthvað skýrt og geinilega. Norðmenn muna vel hryðjuverk ...

 

FYRIR HÖND

,,Fyrir hönd mín ....” sagði fráfarandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins við landsfulltrúa á laugardag (24.10.2015). Þetta var flutt í fréttum Stöðvar tvö. Ja, hérna.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1821

 

Æ ALGENGARA ORÐALAG

Í morgunútvarpi Rásar tvö (23.10.2015) var sagt um tónlistarmann: ,,Hún er ekki búin að gefa út plötu í (3?) ár”. Svona orðalag heyrist æ oftar. Einfaldara og betra: Hún hefur ekki gefið út plötu í þrjú ár.

 

STÍGA TIL HLIÐAR

Aftur og aftur var tönnlast á því í öllum miðlum um liðna helgi , að Guðlaugur Þór hefði stigið til hliðar sem ritari Sjálfstæðisflokksins. Hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs, dró sig í hlé, ákvað að hætta sem ritari Sjálfstæðisflokksins. Óvenju áberandi dæmi um hvernig hver fjölmiðillinn étur upp eftir öðrum óvandað orðalag, gagnrýnilaust.

 

SLETTUR

Eru sletturnar sem of oft heyrast í stundum ágætu morgunútvarpi Rásar tvö eitthvað sem er óhjákvæmilegt? Á föstudag (23.10.2015) notaði einn umsjónarmanna enska orðið definitely , svona eins og til áherslu. Fimm eða sex sinnum var sagt um íslenska hjómsveit, að hún væri að meikaða (e. make it), henni vegnaði vel , nyti vinsælda, í Ameríku. Líka var talað um gott brand, vörumerki.

Ríkisútvarpið á að hafa forystu meðal fjölmiðla um vandað málfar. Ákvæði í þá veru eru reyndar lögbundin.

Við Ríkisútvarpið starfar málfarsráðunautur. Gefið var í skyn, að málfarsráðunautur væri ekkert ósáttur við enskusletturnar???  (,,Hún er ekkert á móti slettunum, þannig , sko”) Það var og.

 

MEIRA UM SLETTUR

Hér hafa oft verið gerðar athugasemdir við enskuslettuna Tax Free (skattfrjálst) sem mörg stórfyrirtæki keppast við að troða inn í málið. Þar er ekki verið að boða neitt skattfrelsi. Það eru ósannindi. Það er bara verið að auglýsa afslátt. Í Fréttablaðinu á föstudag (23.10.2015) voru þrjár heilsíðuauglýsingar þar sem slettan Tax Free var notuð , - í einni auglýsingu yfir hálfa síðu. Þetta voru auglýsingar frá Rúmfatalagernum, Hagkaupum og Ilvu. Leikfangaverslunin með enska heitinu ToysRus, má hinsvegar eiga það að hún auglýsti 25% afslátt, sem er langtum heiðarlegra. En í þeirri auglýsingu var einnig heil setning á ensku: It doesn´t get bigger than this. Hversvegna þarf að tala við okkur á ensku?

 

BARNAMÁLIÐ ENN

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (23.10.2015) var sagt frá skartgriparáni í Hafnarfirði þar sem þjófarnir flúðu á bifreið. Svo var sagt: ,, .. en mennirnir klesstu á bifreið á flóttanum.” Þeir keyrðu á bifreið á flóttanum. Tveir voru að verki. Annar var handtekinn samdægurs, en seinni maðurinn eins og það var orðað var handtekinn daginn eftir. Að minnsta kosti tvær augljósar beygingarvillur voru í þessum sama fréttatíma. Það er eins og sé hálfgert ólag á verkstjórninni í Efstaleiti.

 

AÐ TREINA UPP !!!

Í firnalöngu viðtali við formann fjárlaganefndar í Fréttablaðinu (23.10.2015) er haft þingmanninum:,,Svo er þetta treinað upp á bloggsíðum og í kommentakerfum.”

Hvað á Framsóknarþingmaðurinn við? Hvað merkir þetta. Er þingmaðurinn kannski að reyna að sletta, nota orð úr tungumáli sem hún þekkir lítið til?

 

LAUSN VIÐ...

Í fyrirsögn í Fréttatímanum (23.-25.10.2015) segir: Fyrsta skrefið í átt að lausn við húsnæðisvandanum. Við tölum um lausn á einhverju. Ekki lausn við einhverju. Þess vegna hefði fyrirsögnin betur verið: Fyrsta skrefið í í átt að lausn á húsnæðisvandanum.

 

LIGGUR NIÐRI

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (23.10.2015) var sagt að tölvukerfi Reykjavíkurborgar lægi niðri. Þetta orðalag heyrist aftur og aftur. Tölvukerfið var bilað. Það var í lamasessi. Það var óvirkt. Þetta er hráþýðing úr ensku, the system is down. Það má alveg orða þetta á annan veg.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1820

EYÐING VAR FRAMKVÆMD

Molavin skrifaði :,, ,,Sú eyðing var framkvæmd..." hefur Morgunblaðið (22.10.2015) orðrétt eftir framkvæmdastjóra Rekstrarfélags Stjórnarráðsins. Látum nú liggja milli hluta hversu rétt eða rangt það er, siðferðilega, að eyða afritum af opinberum tölvupóstum, sem geta skipt verulegu máli í stjórnsýslunni. Lög banna það reyndar. En nafnorðasýki smitast auðveldlega, t.d. úr ensku. Æ fleiri hrúga nafnorðum inn í málið þar sem þúsund ára venja er að nota sagnorð í íslenzku máli. Gögnum var eytt. Eyðing þeirra var ekki framkvæmd.” Hárrétt ábending. Kærar þakkir, Molavin.

 

Í LÍKINGU KRAFTAVERKS!

Þórður Sævar Jónsson sendi línu og þakkar fyrir Molaskrifin. Hann bendir á fyrirsögn á mbl.is og segir: ,,Sæll, Eiður. Rak augun í þessa fyrirsögn: Bati Odom í líkingu kraftaverks.
Sjá:http://www.mbl.is/sport/korfubolti/2015/10/20/bati_odom_i_likingu_kraftaverks/
Hann segir síðan:
,, Ég hefði haldið að "kraftaverki líkastur" væri töluvert liprara.”

Það er hverju orði sannara, Þórður Sævar. Þakka bréfið.

 

HÚSNÆÐI Í FLEIRTÖLU

Fyrirsögn á mbl.is (22.10.2015): Fyrsta skrefið í átt að hagkvæmum húsnæðum. Síðan hvenær varð orðið húsnæði fleirtöluorð? Það er ekki til í fleirtölu. http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=H%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0i

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/10/21/hagkvaemar_lausnir_i_husnaedismalum/

Hér hefur eitthvað skort á yfirlestur og gæðaeftirlit.

 

ÞEGAR ÚT AF BREGÐUR

 Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 14 00 (21.10.2015) var sagt:,, Þar má engu út af bregða.” Þetta hljómar ekki rétt í eyrum Molaskrifara. Hefði átt að vera:,,Þar má ekkert út af bregða”, þar má ekkert mistakast.

 

SMYGL

Í inngangi að frétt um eiturlyfjasmygl á Stöð tvö (21.10.2015) las fréttaþulur:,,Kenningar eru uppi um að eitthvað af þessum efnum hafi átt að smygla vestur um haf”. Betra hefði verið: ,,Kenningar eru uppi um að einhverju (hluta þessara efna) af þessum efnum hafi átt...”

 

HEYRI EKKI BETUR,EN ...

Molaskrifari heyrir ekki betur en búið sé að stytta hádegisfréttir Ríkisútvarpsins til þess að koma að auglýsingum. Sé þetta rétt þá er enn verið að skerða þjónustu fréttastofu Ríkisútvarpsins við almenning.

 

AF RÁS TVÖ

Í morgunútvarpi Rásar tvö (21.10.2015) var rætt við fyrrverandi fjármálaráðherra sem nefndi pólitískan andstæðing og sagði: ,, ... hann Ásmundur litli Einar Daðason”. Ekki stækkaði þessi ummæli þann sem þetta mælti.

Í sama þætti sagði umsjónarmaður Virkra morgna: ,,Við ætlum að heyra í Sögu Garðarsdóttir ...” . Kom svo sem ekkert á óvart.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1819

 

SAFNA METFÉ

Molavin skrifaði (20.10.2015):,, "Safna metfé á Kickstarter" segir í fyrirsögn á Vísi (19.10.2015). Það sem reynt er að segja í fréttinni er að ungum mönnum hafi tekist að afla fjár til að fullgera uppfinningu sína. Eitt af einkennum svonefndra fréttabarna er að þau eru ófeimin að nota orð og hugtök, sem þau samt skilja hvorki né þekkja. Metfé, eins og áður hefur verið nefnt í þáttum þínum, er verðmætur hlutur; gripur í miklum metum.”  Molaskrifari þakkar bréfið. Og báðir vitum við Molavin, að sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Þess vegna þarf að hamra á þessu.

Sjá: http://www.visir.is/safna-metfe-a-kickstarter--islenskir-braedur-vilja-faera-almenningi-vindorku/article/2015151018770

 

ENN UM AÐ STÍGA TIL HLIÐAR

Rafn skrifaði (20.10.2015):,, Sæll Eiður.

Fyrir nokkru síðan varð fyrrverandi ráðherra á að stíga gæfulítið hliðarspor í starfi sínu fyrir sveitarstjórn á Suðurlandi.

Nú verður ekki annað séð, en ungir jafnaðarmenn hvetji hann til að endurtaka leikinn í núverandi starfi varaþingmanns, samanber meðfylgjandi frétt af vefmogga. A.m.k. verður að telja ólíklegt að menn séu að færa erlenda málvenju um hliðarspor yfir á íslenzku.”

Þakka bréfið, Rafn. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/10/19/tharf_ad_vinna_ser_inn_traust/

 

AFMÆLI Á NÆSTA ÁRI

 Tönnlast er á því í Ríkissjónvarpinu þessa dagana, að Söngvakeppninin verði 30 ára á næsta ári, 2016. Boðuð eru hátíðahöld og fjárútlát af því tilefni hjá þessari síblönku stofnun.

 En muna menn í Efstaleiti ekki, að á næsta ári er hálf öld frá því að Sjónvarpið tók til starfa 30. september 1966 ????

 Kannski man enginn þar efra svo langt aftur.

 

AFMÁ MÖRKIN

Netmiðillinn dv.is gerir sitt til að afmá mörkin milli auglýsingaskrifa og ritstjórnarefnis. Samanber þetta hér: http://www.dv.is/lifsstill/2015/10/20/jepplingarnir-renna-ut-af-planinu/

Hvað skyldi vera greitt fyrir svona auglýsingu?

Þetta er slæm þróun.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1818

 

ÓÍNÁANLEGUR

Ragnar Torfi skrifaði (19.10.2015): ,,Sæll Eiður.

 Í frétt á Vísi er fjallað um hallarbyltingu í félagi múslima á Íslandi.

Ekki tókst að ná sambandi við Samann Tamimi vegna fréttarinnar.

Hann reyndist Óínáanlegur

 Allaf lærir maður eitthvað nýtt.

 Ef ég er alltað við símann og svara öllum, þá hlýt ég að vera Sí-í-náanlegur !”

 http://www.visir.is/salmann-tamimi-oinaanlegur/article/2015151019125

Þakka ábendinguna, Ragnar Torfi. Þetta var undarlegt orðalag, - að ekki sé nú meira sagt.!

 

 TILFELLI OG SJÓNMÁL DEILUNNAR

Í inngangi, yfirliti, kvöldfrétta í Ríkisútvarpinu á sunnudagskvöld (18.10.2015) var sagt: Engin lausn er í sjónmáli deilunnar. Deilan hefur ekkert sjónmál. Átt var við, að engin lausn væri í sjónmáli í deilunni, engin lausn í augsýn.

Í sama fréttayfirliti var sagt: Skoða þarf tilfelli sýrlenskrar fjölskyldu,sem synjað hefur verið ... Greinileg áhrif frá ensku. Slæmt orðalag á íslensku. Betra hefði verið til dæmis: Skoða þarf aðstæður, skoða þarf stöðu, skoða þarf mál... Orðið tilfelli er þarna algjörlega út í hött.

 

FLEST ER NÚ FRÉTTNÆMT!

Úr frétt á mbl.is (18.10.2015): ,,Rétt fyr­ir kl. 5 í nótt var svo til­kynnt um lík­ams­árás í miðborg­inni. Þegar lög­reglu­menn komu á vett­vang voru bæði ger­andi og þolandi farn­ir af vett­vangi, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu”. – Ja, hérna. Báðir farnir! http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/10/18/tvaer_likamsarasir_i_reykjavik/

 

VANDRÆÐI

Úr frétt á visir.is (18.10.2015): “Við vorum í engum vandræðum með vélina ...” Við vorum ekki í neinum vandræðum... Þetta er bara sýnishorn úr heldur vandræðalega skrifaðri frétt. Hér er hægt að lesa meira: http://www.visir.is/nadi-myndbandi-af-hreyfilshlifinni-hrynja-af/article/2015151018991

 

SÍÐASTI FÖSTUDAGUR OG FLEIRA

Reykvíkingur skrifaði (18.10.2015): ,,Ljúf þularrödd í dag, sunnudag, kynnti verk úr Pétri Gauti. Ég er vanur því, að þágufallið sé Pétri Gaut. Orð slípast og i fellur aftan af þágufalli. Barn segir með stráki, en venst síðan að segja með strák. Tónlistarmenn, eins og Árni Kristjánsson, kennari minn, sögðu í konsert, ekki í konserti.

 

Sami þulur sagði frá skipinu Títanik, bar fram tætanik. Sum erlend nöfn verða svo nærri okkur, að við íslenskum orðmyndina. Þannig fór fyrir löngu með skipið Títanik.” Molaskrifari þakkar bréfið,en efast um að allir taki undir ummælin um þágufallið. Hann hefði sagt úr Pétri Gauti.

,,Þá kynnti þulurinn efni og kvað það hafa verið flutt áður síðasta föstudag; það var flutt á föstudaginn var, á skandinavisku sist lördag og ensku last Friday. Þulir þurfa að temja sér þetta lipra orðalag um tíma á föstudaginn var og á föstudaginn kemur, það er svo oft þörf fyrir það í starfi þeirra.” Molaskrifari hefur margsinnis gert athugasemdir við orðalag eins og ,,síðasta föstudag”, ,,síðasta vor”, ,,síðasta vetur”, - en það er eins og enginn hlusti!

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1817

  

SÓKN ÞÁGUFALLSINS - MÉRANIR

 Í Molum (1813) var nýlega fjallað um sókn , eða ásókn þágufallsins í töluðu og rituðu máli. Nú hefur Helgi Haraldsson , prófessor emerítus í Osló sent Molaskrifara línu um þetta. Helgi segir: ,, Halldór heitinn Halldórsson kallaði þágufallsfylliríið méranir.

Sjá:

http://www.europeana.eu/portal/record/92012/BibliographicResource_2000081741163.html

Molaskrifari þakkar þessa ágætu ábendingu.

 

ENN UM SÖGNINA AÐ TENGJA

Fyrir nokkru var í Molum vikið að notkun sagnarinnar að tengja. Þá var hún notuð í merkingunni að skilja (Molar 1815). S.O. benti á eftirfarandi dæmi af visir.is (15.10.2015), - vitnað er í orð lögreglumanns: ,, „En við erum ekki að ná að tengja neitt sem er að segja okkur að þetta sé glæpur eða að hann hafi verið myrtur. Bráðabirgðakrufning sýnir ekki fram á að hann hafi verið beinbrotinn eða stunginn.“ Ekki vandað orðalag. Sjá: http://www.visir.is/koma-fjolskyldu-florians-til-islands-varpadi-frekara-ljosi-a-likfundarmalid-i-laxardal/article/2015151019427

 

FRÉTTATÍMAR OG AÐGENGI

Hversvegna eru ekki allir fréttatímar Ríkisútvarpsins aðgengilegir í Sarpinum á heimasíðu Ríkisútvarpsins? Eru einhver tæknileg vandkvæði á því? Um þetta hefur verið spurt áður.

 

Í KVÖLDI

Fyrir helgina var tekið svo til orða í dagskrárkynningu í Ríkisútvarpinu að hlýða mætti á sellóleikarann Yo Yo Ma í tónlistarkvöldi Ríkisútvarpsins. Er þetta nýtt orðalag, eða bara sakleysislegt mismæli? Við segjum ekki í kvöldi, - jafnvel þótt um útvarpsþátt sé að ræða.

 

AÐ HINDRA STRAUM

Í morgunfréttum árla dags (16.10.2015) í Ríkisútvarpinu var talað um að hindra flóttamannastraum frá Tyrklandi til ESB. Hefði ekki verið eðlilegra að tala um að draga úr flóttamannastraumi, minnka flóttamannastraum, stöðva flóttamannastraum? Þetta orðalag var reyndar notað í fleiri en einum fréttatíma. Á vefsíðu Ríkisútvarpsins var talað um að hafa stjórn á straumi flóttamanna og í hádegisfréttum var þrívegis talað um að hindra straum flóttamanna, sem er ekki gott orðalag að mati Molaskrifara. Einu sinni var talað um að hafa stjórn á straumi flóttamanna. Það er prýðilega að orði komist.

 

TVENNAR SKYRTUR

Veldu tvennar skyrtur, sagði fyrirtækið Dressmann í sjónvarpsauglýsingu (16.10.2015). Þetta er ekki rétt. Skyrta er eintöluorð. Veldu tvær skyrtur. Á jólunum fékk hann tvennar buxur , tvær skyrtur og tvö sokkapör.

 

AÐ HAFA VIT Á

Í verkfallsfréttum Ríkissjónvarps ( fremur en útvarps,15.10.2015) var talað um lokun vínbúða og þá sem höfðu ekki vit á að birgja sig upp af áfengi fyrir helgina. Það var og. Ýmsir hafa sjálfsagt verið svo vitlausir að gera það ekki. Voru annars ekki allar vínbúðir opnar á laugardaginn? Sá ekki betur en það væri rækilega auglýst.

 

STEIG TIL HLIÐAR

Enn einu sinni er sagt um mann sem hættir, - hættir að gegna tilteknu starfi eða embætti, að hann hafi stigið til hliðar (e. step aside). Mér finnst þetta orðalag alltaf út í hött: ,,Eft­ir að John Boehner steig til hliðar sem for­seti full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings í síðasta mánuði ...” mbl.is (17.10.2015)

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/10/17/fordast_forsetann_eins_og_pestina/

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

               

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1816

 

HELMINGUR SAGT UPP

,,Helmingur hjá Elko í Leifsstöð sagt upp vegna meints hroka verslunarstjóra”. Þetta er óskiljanleg fyrirsögn af dv.is (16.10.2015). Þegar fréttin er lesin, kemur í ljós að helmingur starfsfólks Elkó hefur sagt upp störfum. Það kemur ekki fram í fyrirsögninni. Fyrirsagnir eiga að vera skiljalegar. Þær eiga að vera um kjarna fréttar.

Sjá: http://www.dv.is/frettir/2015/10/15/helmingur-hja-elko-i-leifsstod-sagt-upp-vegna-meints-hroka-verslunarstjora/

Um þetta og reyndar fleira sendi Sigurður Sigurðarson Molum eftirfarandi: „Helmingur hjá Elko í Leifsstöð sagt upp vegna meints hroka verslunarstjóra“. Svo segir í fyrirsögn í DV, nánar hér.

Lesandinn gerir auðvitað ráð fyrir að helmingi starfsmanna hafi verið sagt upp störfum, enda segir svo í fyrirsögninni. Það er hins vegar ekki svo enda er fyrsta málsgreinin í fréttinni þessi: „Helmingur starfsmanna raftækjaverslunarinnar Elko hefur sagt upp störfum hjá versluninni á Leifsstöð samkvæmt heimildum DV.“ Er annars ekki réttara að segja … í versluninni?

Svona óklár er blaðamaðurinn sem fréttina skrifar. Hann leggur að jöfnu orðfærið „að starfsmanni sé sagt upp“ og „að starfsmenn segja upp“. Í fyrra tilvikinu er verið að reka fólk úr starfi og í því seinna er starfsfólkið að hætta að eigin ósk. Á þessu tvennu er stór munur. Rétt fyrirsögn hefði verið svona: Helmingur hjá Elko í Leifsstöð segir upp …

Eru engar kröfur gerðar til blaðamanna lengur? Hvað með prófarkalestur?

Und­an­farn­ar vik­ur hef­ur árás­um fjölgað mikið. Í þess­um mánuði hef­ur Ísra­elsmaður særst lífs­hættu­lega nær dag­lega í hnífstungu­árás. Sjá á mbl.is

Þvílíkur kjáni þessi Ísraelsmaður. Hann ætti að halda sig innandyra annars gæti farið verulega illa.

 

Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu fór eft­ir­för eft­ir öku­manni í nótt, sem grunaður var um ölv­unar­akst­ur. 

mbl.is 27.9.2015 – Molaskrifari þakkar Sigurði bréfið.

Þarna er vissulega ýmislegt að.


GÓÐ MÆTING

 Ekki heyrði Molaskrifari betur í tíufréttum Ríkisútvarps (15.10.2015) en fréttamaður talaði um talsvert góða mætingu, eða eitthvað í þá veruna, um mótmæli launafólks á Austurvelli. Það er ekki hlutverk fréttamanna að meta fyrir okkur hvort mæting á tiltekinn viðburð sé góð eða léleg.

 

GRAFINN KÖTTUR

Þorvaldur skrifaði (18.10.2015): ,,Í sunnudagsmogganum  (18.10.2015)er grein um ,,læsileika" skýrslna um umhverfismál.  Þar er talað um vandamálið við að semja skiljanlegan texta og komist að nokkurri niðurstöðu, klykkt út með að segja ,,og þar liggur kötturinn grafinn".  Viðkomandi fréttabarn hefur líklega ekki verið alveg með á köttinn eins og stundum var sagt.”  Þakka bréfið, Þorvaldur.

 

EFTIRFYLGNI

Umfjöllun Kastljóss um sjóslys, - þar sem gúmbjörgunarbátur sökk með skipi losnaði ekki og flaut upp, eins og hann átti að gera, var ágætlega fylgt eftir í Kastljósi á miðvikudagskvöld. (15.10.l2015). Molaskrifara þótti forstjóri Samgöngustofu að vísu nokkuð langorður, en þetta er sannarlega ekki einfalt mál.

Nokkrum dögum áður hafði Molaskrifari sent fréttamanni Kastljóss í tölvupósti nöfn á þremur bátum sem fórust og gúmbjörgunarbátar losnuðu ekki. Sex sjómenn drukknuðu. Ekki þótti ástæða til að svara þeim tölvupósti. Molaskrifara var kennt að það væri kurteisi að svara bréfum. Kannski er það bara framhleypni og slettirekuskapur að senda svona ábendingar til opinberra starfsmanna í Efstaleiti.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

               

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband